Hæstiréttur íslands

Mál nr. 41/2023

Þrotabú Sameinaðs Sílikons hf. (Geir Gestsson lögmaður)
gegn
BD30 ehf. og Rögnvaldi Dofra Péturssyni (Tómas Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Hlutafélag
  • Hlutafé
  • Greiðsla
  • Endurskoðandi
  • Sérfræðiábyrgð
  • Skaðabætur
  • Þrotabú
  • Sératkvæði

Reifun

Þrotabú S hf. höfðaði mál til heimtu skaðabóta úr hendi R og B ehf. á þeim grundvelli að þegar hlutafé félagsins var hækkað í lok árs 2016 hefði sérfræðiskýrsla sem unnin var af R í tengslum við hækkunina ekki verið unnin af nægilegri kostgæfni. Félagið U B.V. greiddi fyrir hækkunina með öllum hlutum í félaginu G ehf. Greiðslan hefði reynst ófullnægjandi vegna saknæmrar háttsemi R við gerð sérfræðiskýrslunnar á grundvelli 6. gr., sbr. 37. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Þrotabú S hf. byggði á því að vegna þessa hefði 405.280.000 krónur vantað í sjóði S hf. þegar bú þess var tekið til gjaldþrotaskipta. Í dómi Hæstaréttar sagði að í hlutafélagalögum væri lagt fortakslaust bann við því að greiðsla hlutar næmi minna en fjárhæð hans. Sérfræðiskýrsla R leiddi til þess að greiðsla félagsins U B.V. var lægri en sem nam skráðri hlutafjárhækkun í nóvember 2016. Ástæða þess yrði fyrst og fremst rakin til þess að R hefði ekki sýnt nægilega gætni við val á forsendum um rekstrarkostnaðarhlutfall og ávöxtunarkröfu G ehf. í sérfræðiskýrslunni. Samkvæmt þessu teldist R hafa sýnt af sér saknæma háttsemi við gerð sérfræðiskýrslunnar. Á því tjóni sem af þeirri háttsemi hefði hlotist bæri hann ábyrgð á grundvelli sakarreglunnar en B ehf. á grundvelli reglu skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð. Við mat á tjóninu var byggt á matsgerð dómkvadds manns um hvert verðmæti G ehf. hefði verið en matsgerðinni hefði ekki verið hnekkt með öflun yfirmatsgerðar. Vísaði rétturinn til þess að af dómaframkvæmd Hæstaréttar yrði ráðið að þegar fyrir lægi að sérfræðingur hefði orðið uppvís að saknæmri háttsemi við framkvæmd sérfræðistarfa yrði slakað á kröfum um sönnun fyrir því að hún hafi orsakað tjón og sönnunarbyrði jafnvel snúið um það atriði. Þetta ætti sérstaklega við þegar tjónþola væri erfitt um vik að sanna orsakasamband milli saknæmrar háttsemi og tjóns sem hann hefði orðið fyrir. Í ljósi erfiðrar sönnunarstöðu um orsakasamband teldist þrotabú S hf. hafa leitt nægar líkur að því að sérfræðiskýrsla R hefði verið einn þeirra þátta sem lánardrottnar S hf. lögðu traust sitt á við töku viðskiptalegra ákvarðana þannig að R og B ehf. yrðu látnir bera hallann af því að þeir hefðu ekki sýnt fram á að gerð sérfræðiskýrslunnar hefði ekki leitt til tjóns fyrir kröfuhafa í þrotabúinu og þar með þrotabú S hf. Voru R og B ehf. dæmdir til greiða þrotabúi S hf. 114.280.000 krónur.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. ágúst 2023. Hann krefst þess að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 405.280.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. janúar 2017 til 13. nóvember 2018 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar úr hendi stefndu vegna reksturs málsins á öllum dómstigum.

3. Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar. Þá krefjast stefndu að áfrýjanda verði gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti.

4. Stefndi BD30 ehf. hét áður Ernst & Young ehf. Eftir að breytingar urðu á starfsemi félagsins árið 2023 var nafni þess breytt á aðalfundi 21. nóvember sama ár.

Ágreiningsefni

5. Sameinað Sílikon hf. rak kísilmálmverksmiðju á lóðinni Stakksbraut 9 í Helguvík í Reykjanesbæ. Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 22. janúar 2018. Mál þetta er höfðað til heimtu skaðabóta úr hendi stefndu vegna hækkunar hlutafjár félagsins í lok árs 2016 sem félagið USI Holding B.V. greiddi fyrir með hlutum þess í félaginu Geysi Capital ehf. Telur áfrýjandi að greiðslan hafi reynst ófullnægjandi vegna ætlaðrar saknæmrar háttsemi stefndu við gerð sérfræðiskýrslu á grundvelli 6. gr., sbr. 37. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög.

6. Dómkröfur sínar á hendur stefnda Rögnvaldi Dofra Péturssyni byggir áfrýjandi á sakarreglunni. Á hendur stefnda BD30 ehf. reisir áfrýjandi kröfur sínar á reglu um vinnuveitandaábyrgð.

7. Með héraðsdómi 25. febrúar 2021 voru stefndu sýknaðir af kröfum áfrýjanda. Þeirri niðurstöðu var hrundið með dómi Landsréttar 8. apríl 2022 og þeim gert að greiða áfrýjanda 114.280.000 krónur auk tilgreindra vaxta. Með dómi Hæstaréttar 1. mars 2023 í máli nr. 40/2022 var dómur Landsréttar ómerktur og lagt fyrir réttinn að taka málið að nýju til meðferðar. Með hinum áfrýjaða dómi voru stefndu sýknaðir af kröfu áfrýjanda.

8. Áfrýjunarleyfi var veitt 24. ágúst 2023, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2023-78, á þeim grunni að dómur í málinu kynni að hafa fordæmisgildi um hækkun hlutafjár, túlkun 6. gr. laga nr. 2/1995 og um sérfræðiábyrgð á sviði endurskoðunar.

9. Samhliða máli þessu eru rekin þrjú önnur mál, nr. 50/2023, 51/2023 og 54/2023, sem öll eiga rót sína að rekja til hlutafjárhækkana í félögum sem tengjast stofnun og rekstri kísilmálmverksmiðjunnar. Þau eru dæmd samhliða þessu máli og eru málavextir í þeim um margt svipaðir.

Málsatvik

10. Sameinað Sílikon hf. var stofnað 17. febrúar 2014. Tilgangur félagsins var að byggja og gangsetja kísilmálmverksmiðju á lóðinni Stakksbraut 9 í Helguvík. Upphaflega átti að reisa verksmiðju með tveimur ofnum en áformað var að bæta tveimur við síðar. Fullbúin verksmiðja með fjórum ofnum myndi framleiða árlega um 100.000 tonn af kísli.

11. Sameinað Sílikon hf. var í eigu hollenska félagsins United Silicon Holding B.V. Það félag var í eigu tveggja annarra hollenskra félaga, annars vegar USI Holding B.V. sem var í eigu danskra og íslenskra fjárfesta undir forystu Magnúsar Garðarssonar og hins vegar Silicon Mineral Ventures B.V. sem var í eigu hollensks félags, Fondel Holding B.V. Dótturfélög USI Holding B.V. voru Geysir Capital ehf. og Stakksbraut 9 ehf.

Samningar stofnenda Sameinaðs Sílikons hf.

12. Viðræður munu hafa farið fram milli íslenskra og danskra fjárfesta og tilgreinds bandarísks félags um að reisa kísilmálmverksmiðju í Reykjanesbæ. Í því skyni voru stofnuð félög sem ætlað var að koma að uppbyggingu verksmiðjunnar hvert með sínum hætti. Það voru meðal annars Íslenska Kísilfélagið ehf., GSM Overseas Netherlands B.V. og Tomahawk Development á Íslandi hf. Áætlanir þessara aðila gengu ekki eftir og í ársbyrjun 2012 var rift þeim samningum sem Íslenska Kísilfélagið ehf. hafði gert við innlenda aðila tengda verkefninu.

13. Í júlí 2012 voru ný félög komin að ráðagerðinni og var þá undirrituð viljayfirlýsing milli Silicon Mineral Ventures B.V. og USI Holding B.V. um að koma á fót kísilmálmverksmiðju í Helguvík. Þeirri viljayfirlýsingu var síðar fylgt eftir með samningi um sameiginlega fjárfestingu 14. febrúar 2014. Í grein 1.2 samningsins kom fram að þessir aðilar hefðu ákveðið að fjármagna í sameiningu hluta undirbúningskostnaðar og myndu í kjölfarið taka ákvörðun um að leggja til eigið fé sem yrði nýtt til að reisa verksmiðju eftir að nánari skilyrðum sem fram kæmu í samningnum væri fullnægt og næg lánsfjármögnun tryggð. Í grein 1.3 sagði að á grundvelli skilmála og skilyrða í samningnum staðfestu aðilar þá sameiginlegu skuldbindingu sína að eiga með sér samstarf um áframhaldandi þróun, fjármögnun í formi aukins hlutafjár, gerð einkasölu- og markaðssetningarsamnings við félagið BIT Fondel B.V. og sameiginlega stýringu verksmiðjunnar.

14. Í samningnum sem var á ensku var framlag aðila skilgreint nánar. Í grein 2.1 var framlagi USI Holding B.V. lýst en ákvæðið hljóðar svo í íslenskri þýðingu:

[USI Holding B.V.] hefur fram til þessa þróað og fjármagnað verkefnið og hefur 1) keypt lóðina að Stakksbraut 9 í Helguvík, 2) aflað leyfis til að nota höfnina samkvæmt samningi við hafnaryfirvöld sveitarfélagsins sem undirritaður var 18. apríl 2012, 3) framkvæmt umhverfismat og fengið samþykki fyrir umhverfismatinu frá viðeigandi yfirvöldum svo og leyfi til að reka kísilverksmiðju með framleiðslugetu sem nemur allt að 100.000 tonnum á ári, 4) náð samkomulagi um skilmálaskrár við raforkuveituna, 5) gert bindandi viljayfirlýsingu við ríkisfyrirtækið sem annast raforkuflutninga, 6) gert samning við Reykjanesbæ, 7) fengið tilboð frá ofnabirgjunum Tenova og Sinosteel um afhendingu og uppsetningu tveggja kísilofna, 8) fengið skilmálaskrár um lánsfjármögnun frá Arion banka vegna byggingu verksmiðjunnar. Virði framangreindrar þróunarvinnu nemur 10,2 milljónum evra. Aðilar hafa ákveðið að þetta virði skuli endurspeglast á hlutfallslegum grundvelli (pro rata) í hlutabréfum í [Sameinuðu Sílikoni hf.]. Þessu virði verður skipt í 3 hluta. Fyrsti hlutinn nemur 5,1 milljónum evra vegna kaupa á ofnum 1 og 2, og mun sú fjárhæð verða til þess að hlutfallslegum (pro rata) hluta hlutabréfa í [Sameinuðu Sílikoni hf.] verði úthlutað til hluthafa [Sameinaðs Sílikons hf.] samtímis framlögum 1-8 sem talin eru upp hér að ofan (með því að framselja 100% hlutabréfanna í [Stakksbraut 9 ehf. til Sameinaðs Sílikons hf.]), sá næsti nemur 2,55 milljónum evra vegna kaupa á ofni nr. 3 og sá síðasti nemur 2,55 milljónum evra vegna kaupa á ofni nr. 4, og er endanlegt markmið að um síðir verði 4 ofnar starfræktir.

15. Í grein 2.2 í samningnum var framlagi Silicon Mineral Ventures B.V. lýst með eftirfarandi hætti í íslenskri þýðingu:

[Silicon Mineral Ventures B.V.] mun annast um að hlutdeildafélag sitt BIT leggi verkefninu til 1) samning sem tryggi sölu væntanlegrar framleiðslu [...] um sölu á 12.000 tonnum af kísilmálmi hið minnsta á markaðsverði að frádreginni 5,5% söluþóknun, og verði einkasölu- og markaðssetningaraðili [USI Holding B.V.] á afgangi kísilframleiðslunnar [...], 2) [Silicon Mineral Ventures B.V.] mun láta í té tæknilega þekkingu sína sem hefur verið þróuð af tæknilegum ráðgjöfum þess vegna smíði kísilverksmiðju og framleiðslu í henni. Virði framangreindra framlaga nemur 1,5 milljónum evra. Aðilar hafa ákveðið að þetta virði skuli endurspeglast á hlutfallslegum grundvelli (pro rata) i hlutabréfum í [Sameinuðu Sílikoni hf.] Þessu virði verður skipt í 3 hluta. Fyrsti hlutinn nemur 0,5 milljónum evra vegna gerðar samnings um sölu væntanlegrar framleiðslu um sölu á 12.000 tonnum af kísilmálmi á ári, og mun sú fjárhæð verða til þess að hlutfallslegum (pro rata) hluta hlutabréfa i í [Sameinuðu Sílikoni hf.] verði úthlutað til í [Silicon Mineral Ventures B.V.] samtímis framlögum 1-3 sem talin eru upp hér að ofan, sá næsti nemur 0,5 milljónum evra vegna gerðar samnings um sölu væntanlegrar framleiðslu um sölu á 20.000 tonnum af kísilmálmi á ári og sá síðasti nemur 0,5 milljónum evra vegna gerðar samnings um sölu væntanlegrar framleiðslu um sölu á 30.000 tonnum af kísilmáli á ári, og er endanlegt markmið að um síðir verði 4 ofnar starfræktir með heildarframleiðslugetu sem nemur yfir 70.000 tonnum af kísilmálmi á ári.

16. Í samningum 14. febrúar 2014 var einnig fjallað um önnur framlög fyrrgreindra aðila, meðal annars í grein 2.3 um framlag til fjármögnunar undirbúningskostnaðar og í grein 2.4 um framlag nýs eiginfjár með reiðufé. Þá sagði að félagið BIT Fondel B.V. myndi gera samning við Sameinað Sílikon hf. um að tryggja sölu væntanlegrar framleiðslu sem tæki til um það bil 12.000 tonna af kísli á ári. Andvirði eiginfjárframlags yrði varið til að setja á fót, smíða og reka kísilmálmverksmiðju eins og nánar væri lýst í viðskiptaáætlun 3. júní 2013.

17. Með þríhliða hluthafasamkomulagi frá júní 2014 milli USI Holding B.V., Silicon Mineral Ventures B.V. og United Silicon Holding B.V. voru skyldur og réttindi félaganna útfærð nánar og um það vísað til viðræðna aðila sem hefðu staðið yfir um tveggja ára skeið. Þar kom fram að eignarhald USI Holding B.V. og Silicon Mineral Ventures B.V. á félaginu Sameinuðu Sílikoni hf. yrði í gegnum félagið United Silicon Holding B.V. Á undirritunardegi ætti USI Holding B.V. 70% hlutafjár í United Silicon Holding B.V. og Silicon Mineral Ventures B.V. 30% hlutafjárins. Þar sagði einnig að á undirritunardegi hefði USI Holding B.V. í gegnum dótturfélag sitt, Stakksbraut 9 ehf., lokið eftirfarandi vinnu í því skyni að hrinda verkefninu í framkvæmd:

i) lokið umhverfismati, ii) tryggt langtímaleigu á lóðinni [Stakksbraut 9] [...], iii) gert samning við hafnaryfirvöld Reykjanesbæjar varðandi jarðvinnu á lóðinni, iv) gert hafnarsamning við Reykjaneshöfn um notkun hafnarinnar og gjaldtöku fyrir inn- og útflutning sem fer fram í gegnum höfnina í Helguvík, v) gert raforkusamning við ríkisorkufyrirtækið Landsvirkjun um langtímaafhendingu á raforku [...], vi) gert raforkuflutningssamning við Landsnet um langtímaflutning á raforku [...], og vii) gert samning við Reykjanesbæ um smíði og rekstur verksmiðjunnar.

18. Í hluthafasamkomulaginu var gert ráð fyrir að framlag USI Holding B.V. til Sameinaðs Sílikons hf. yrði með þeim hætti að dótturfélag þess, Stakksbraut 9 ehf., rynni saman við Sameinað Sílikon hf. með öllum framangreindum réttindum og skyldum að frátöldum samningi um langtímaleigu lóðarinnar. Yrði það greiðsla fyrir eignarhluti USI Holding B.V. í Sameinuðu Sílikoni hf. í samræmi við áskriftarsamning. Myndi USI Holding B.V. enn fremur sjá til þess að Stakksbraut 9 ehf. gerði Sameinuðu Sílikoni hf. kleift með leigusamningi eða öðrum hætti að nýta lóðina undir verkefnið svo lengi sem aðilar ættu með sér samstarf um það. Þessar skuldbindingar voru nánar útfærðar í grein 4.1 hluthafasamkomulagsins.

Stofnun og rekstur Stakksbrautar 9 ehf.

19. Fyrrgreint félag, Stakksbraut 9 ehf., hafði verið stofnað í febrúar 2012. Með kaupsamningi 4. september 2013 keypti USI Holding B.V. alla hluti í félaginu af stofnanda þess. Kaupverðið var 500.000 krónur og miðað var við að greidd væri ein króna fyrir hvern hlut. Stjórnarmaður félagsins veitti 2. október 2013 Magnúsi Garðarssyni allsherjarumboð til að koma fram fyrir hönd þess í öllu tilliti en Magnús var sem fyrr segir í forsvari fyrir byggingu kísilmálmverksmiðjunnar.

20. Tilgangur Stakksbrautar 9 ehf. var að afla tilskilinna leyfa og gera viðeigandi samninga við yfirvöld til þess að starfrækja mætti kísilmálmverksmiðju hér á landi. Í því skyni gerði félagið þrjá samninga við Reykjaneshafnir 18. apríl 2012. Í fyrsta lagi samning þar sem félagið skuldbatt sig til að greiða 362.100.000 krónur í lóðargjöld, þar með talin gatnagerðargjöld. Áttu greiðslur að fara fram með fjórum afborgunum. Sú fyrsta 30. desember 2012 að fjárhæð 100.000.000 króna og sömu fjárhæð 15. apríl 2013 og 15. apríl 2014. Lokagreiðsluna, 62.100.000 króna, átti að inna af hendi 15. október 2014. Í öðru lagi hafnarsamning og í þriðja lagi samning um kaup á lóðinni Stakksbraut 9. Kaupverðið var 200.000.000 króna sem fjármagnað var að stærstum hluta með láni frá Arion banka hf. Starfsleyfi Umhverfisstofnunar til reksturs verksmiðjunnar var gefið út 3. júlí 2014 til Stakksbrautar 9 ehf. en það síðar fært 21. október 2015 á Sameinað Sílikon hf. Samningar við Landsvirkjun 19. mars 2014 og Landsnet hf. sama dag voru hins vegar gerðir í nafni Sameinaðs Sílikons hf. Þá gerði Stakksbraut 9 ehf. 31. janúar 2014 samning við BIT Fondel B.V. um sölutryggingu. Með honum réð Stakksbraut 9 ehf. BIT Fondel B.V. til að vera einkadreifingaraðili á 12.000 tonna árlegri framleiðslu félagsins, en fyrir hönd Stakksbrautar 9 ehf. skrifaði Magnús Garðarsson undir á grundvelli fyrrgreinds umboðs. Síðar gekk úrskurður Landsréttar 28. júní 2021 í máli nr. 319/2021 þar sem meðal annars var komist að þeirri niðurstöðu að umboð Magnúsar hefði verið ógilt og því hefði ekki komist á bindandi samningur um fyrrgreinda sölutryggingu.

21. Tilkynnt var um samruna Stakksbrautar 9 ehf. við Sameinað Sílikon hf. undir nafni síðargreinda félagsins 24. september 2014. Ágreiningur tengdur þeim samruna er til umfjöllunar í dómum Hæstaréttar sem kveðnir eru upp í dag í málum nr. 50/2023 og 51/2023.

Stofnun og rekstur Geysis Capital ehf.

22. Einkahlutafélagið Geysir Capital var stofnað í júní 2012 en enginn rekstur mun hafa verið í því framan af. USI Holding B.V. keypti félagið um mitt ár 2013 með það fyrir augum að færa eignarhald á lóðinni Stakksbraut 9 yfir á það.

23. Með kaupsamningi 15. september 2013 gerðu Stakksbraut 9 ehf. og Geysir Capital ehf. með sér samning um kaup síðargreinda félagsins á lóðinni Stakksbraut 9. Umsamið kaupverð var 225.000.000 króna sem skyldi greiða með yfirtöku láns og peningagreiðslu að fjárhæð 25.000.000 króna. Í grein 3 í kaupsamningi sagði að kaupandi gerði meðal annars þann ófrávíkjanlega fyrirvara að ráðist yrði í framkvæmdir við fyrirhugaða kísilmálmverksmiðju á hinni keyptu lóð innan árs frá undirritun samnings. Samkvæmt grein 7 átti að haga kostnaðarskiptingu þannig að Stakksbraut 9 ehf. greiddi venjuleg rekstrargjöld af fasteigninni þar til hún yrði afhent kaupanda. Lóðinni Stakksbraut 9 var afsalað 15. september 2014 til Geysis Capital ehf.

24. Geysir Capital ehf. gerði sérstakt samkomulag við Reykjaneshafnir 15. júlí 2014 vegna yfirtöku á réttindum og skyldum Stakksbrautar 9 ehf. samkvæmt samningi 18. apríl 2012. Í samkomulagi sömu aðila 15. júní 2017 vegna vanskila á lóðargjöldum sagði í grein 1 að fyrstu greiðslur samkvæmt samningi Stakksbrautar 9 ehf. við Reykjaneshafnir 18. apríl 2012 hefðu verið inntar af hendi af Sameinuðu Sílikoni hf. samkvæmt sérstöku samkomulagi milli þess og Stakksbrautar 9 ehf. Hins vegar væru þær greiðslur sem inna átti af hendi á árinu 2014 í vanskilum. Samið var um að Geysir Capital ehf. skyldi greiða greiðslur sem væru í vanskilum með afborgunum frá og með 15. júní 2017.

25. Hinn 15. júlí 2014 gerðu Sameinað Sílikon hf. og Geysir Capital ehf. lóðarleigusamning þar sem Stakksbraut 9 var leigð fyrrnefnda félaginu frá 15. ágúst 2014 til 60 ára. Umsamið leigugjald var í grein 5.1 sagt 25.000 evrur á mánuði og næmi ársleiga 300.000 evrum en skyldi samkvæmt grein 5.2 hækka um 200.000 evrur ef bætt væri við einum bræðsluofni og um 100.000 evrur fyrir hvern bræðsluofn eftir það. Þá skyldi leiga hækka í samræmi við nánar tilteknar vísitölur. Í grein 5.6 var mælt fyrir um kauprétt leigutaka á lóðinni gegn greiðslu á 6.600.000 evrum. Leigusala bar samkvæmt grein 6.1. að greiða alla skatta og opinber gjöld sem féllu á hina leigðu lóð en þó ekki þau gjöld sem fram kæmu í grein 1.3 og lýst var svo:

Leigutaka er ljós sú forsenda leigusala að nauðsynlegt er að ráðast í umtalsverðar framkvæmdir á lóðinni sem tengjast starfsemi leigutaka. Þá þarf að greiða gatnagerðargjöld, tengigjöld og önnur lóðargjöld til sveitarfélagsins Reykjanesbæjar. Leigusali mun yfirtaka samning sem leigutaki hafði þegar gert varðandi framkvæmdir á lóð og greiðslu á fyrrgreindum gjöldum og krefja leigutaka um greiðslur samkvæmt samningnum þegar þær falla í gjalddaga.

26. Viðauki var gerður við framangreindan lóðarleigusamning 14. nóvember 2014. Þar var vísað til láns leigutaka, Sameinaðs Sílikons hf., hjá Arion banka hf. 3. júlí 2014 að fjárhæð 42.000.000 evra og láns leigusala, Geysis Capital ehf., við sama banka 14. nóvember 2014 um 1.500.000 evrur. Í viðaukanum sagði að þrátt fyrir ákvæði lóðarleigusamningsins um greiðslu leigu skyldi leigutaki einungis greiða þann hluta leigunnar sem næmi greiðslu hennar samkvæmt lánssamningi leigusala. Eftirstöðvar leigunnar skyldu mynda vaxtaberandi skuld við leigusala. Átti viðbótarsamkomulagið að gilda þar til lán samkvæmt lánssamningi leigusala væri að fullu greitt.

27. Með þríhliða samningi 31. október 2016 var samið um yfirtöku félagsins Kísils Íslands hf. á skuld Geysis Capital ehf. við Silicon Mineral Ventures B.V. að fjárhæð 231.000.000 króna. Með samkomulaginu samþykkti Silicon Mineral Ventures B.V. umrætt framsal eignar og yfirtöku skuldar. Tilurð skuldarinnar var í samkomulaginu skýrð með þeim hætti að framlag Silicon Mineral Ventures B.V. við uppbyggingu verksmiðjunnar hefði meðal annars verið að ábyrgjast sölu fyrirhugaðrar framleiðslu fjögurra ofna hennar. Það framlag hefði verið metið til fjár. Greiðsla vegna sölutryggingar á framleiðslu fyrsta ofnsins hefði átt sér stað með því að Silicon Mineral Ventures B.V. gaf út reikning 23. maí 2014 að fjárhæð 500.000 evrur til Sameinaðs Sílikons hf. Hann hefði verið greiddur með sama fjölda hlutabréfa í félaginu. Þá hefði Silicon Mineral Ventures B.V. skuldbundið sig til að veita sambærilega sölutryggingu ¬á framleiðslu verksmiðjunnar þegar fjármögnun þriggja ofna til viðbótar væri í höfn gegn sömu greiðslu og í tilviki fyrsta ofnsins. Félagið hefði gefið út reikning á hendur Geysi Capital ehf. 23. maí 2014 að fjárhæð 1.500.000 evrur sem skyldi breyta í hlutabréf að sama fjölda í Sameinuðu Sílikoni hf. þegar skilyrði þess væru fyrir hendi. Í bókhaldi Geysis Capital ehf. hefði þessi reikningur Silicon Mineral Ventures B.V. verið færður sem eign að verðmæti 1.500.000 evrur og samsvarandi skuld við félagið. Með samningnum 31. október 2016 væri þar með mætt kröfum Arion banka hf. og annarra hagsmunaaðila sem hefðu sett það sem skilyrði fyrir frekari lánveitingum og aukningu eiginfjárframlags að Sameinað Sílikon hf. keypti allt hlutafé í Geysi Capital ehf. eftir að öllum skuldum hefði verið aflétt af því félagi öðrum en skuldum við Arion banka hf. og Reykjaneshafnir.

28. Nánar er fjallað um samruna Geysis Capital ehf. og Sameinaðs Sílikons hf. hér síðar í tengslum við gerð sérfræðiskýrslu stefnda Rögnvaldar Dofra um verðmæti Geysis Capital ehf. 29. desember 2016. Samkvæmt gögnum málsins var félagið afskráð úr fyrirtækjaskrá 27. nóvember 2017.

Hlutafjárhækkanir í Stakksbraut 9 ehf. í september 2014

29. Stefndi Rögnvaldur Dofri sendi tvær tilkynningar um hækkun hlutafjár Stakksbrautar 9 ehf. fyrir samtals 672.975.000 krónur sem bárust fyrirtækjaskrá 23. september 2014. Hann staðfesti jafnframt að þær væru greiðslur USI Holding B.V. fyrir hlutafé í Stakksbraut 9 ehf. Fyrri hækkunin, um 223.759.000 krónur, var ákveðin 31. desember 2013. Samkvæmt staðfestingu stefnda Rögnvaldar Dofra var hún greidd með skuldajöfnun við víkjandi lán hluthafa sem voru til komin vegna greiðslna sem bárust frá félaginu Tomahawk Development á Íslandi hf. fyrir hönd USI Holding B.V. Staðfestingu um skuldajöfnun fylgdi skrifleg yfirlýsing um að til inneignar USI Holding B.V. hefði stofnast að sömu fjárhæð og hlutafjáraukningin sem hefði verið greidd með skuldajöfnun við víkjandi lán hluthafa félagsins. Seinni hækkunin, um 449.216.000 krónur, var samþykkt 15. febrúar 2014 og skyldi greiðast með reiðufé. Samkvæmt fundargerð hluthafafundar þann dag skráði USI Holding B.V. sig fyrir aukningunni en frestur til að greiða hana var til loka ágúst 2014. Staðfesting stefnda Rögnvaldar Dofra 22. september 2014 byggðist á nokkrum innborgunum frá Tomahawk Development á Íslandi hf. sem höfðu þá borist á reikninga Stakksbrautar 9 ehf. og var að mestu varið til greiðslu reikninga frá hollensku félagi, Pyromet Engineering B.V. Um þetta er sem fyrr segir nánar fjallað í dómum Hæstaréttar í málum nr. 50/2023 og 51/2023.

30. Fyrrgreint félag, Pyromet Engineering B.V., var stofnað í Hollandi 4. september 2013 og afskráð 10. október 2015. Skráður eigandi þess var Joseph Patrick Dignam. Samkvæmt upplýsingum sem skiptastjóri Sameinaðs Sílikons hf. aflaði 13. september 2019 hjá hollenskum aðila sem hafði aðstoðað við gerð skattframtala félagsins hafði engin starfsemi verið í því. Greiðslur Stakksbrautar 9 ehf. til Pyromet Engineering B.V. árið 2013 námu 975.000 evrum og 4.150.000 evrum árið 2014.

Hlutafjárhækkun í Sameinuðu Sílikoni hf. í nóvember 2016

31. Í máli þessu er deilt um hlutafjárhækkun sem samþykkt var af hluthöfum Sameinaðs Sílikons hf. 3. nóvember 2016. Félaginu USI Holding B.V. var heimilað að skrá sig fyrir 405.280.000 hlutum og greiða fyrir með hlutafé í Geysi Capital ehf. Af því tilefni var gerður áskriftarsamningur 6. sama mánaðar þar sem samið var um kaup á félaginu á 405.280.000 krónur. Af gögnum málsins verður ráðið að samruni félaganna hafi verið gerður meðal annars að kröfu Arion banka hf. sem var stærsti lánveitandi Sameinaðs Sílikons hf. eins og fram kom á hluthafafundi félagsins 3. nóvember 2016 og lánasamningi 1. desember 2016 milli Arion banka hf. og Sameinaðs Sílikons hf.

32. Stefndi Rögnvaldur Dofri vann sérfræðiskýrslu 29. desember 2016 í tengslum við fyrrgreindar ráðstafanir en mál þetta lýtur að þeim atvikum. Skýrslan var meðal annars reist á „samantekt vegna skoðunar á virðismati Geysis Capital ehf.“ 10. október 2016 sem Guðjón Norðfjörð samstarfsmaður stefnda gerði. Í sérfræðiskýrslunni kom fram að virði Geysis Capital ehf. hefði verið metið af ráðgjafarsviði Ernst & Young ehf. á grundvelli leigusamnings um útleigu lóðar Geysis Capital ehf. að Stakksbraut 9 að teknu tilliti til áætlaðs rekstrarkostnaðar, skatta og hæfilegrar ávöxtunarkröfu. Samkvæmt því væri heildarvirði félagsins metið á bilinu 4,7 til 5,2 milljónir evra. Miðað við gengi evru 6. desember 2016 væru það 437,6 til 495,8 milljónir króna að teknu tilliti til vaxtaberandi skulda. Væri því eðlilegt að meta og bókfæra allan eignarhlut í Geysi Capital ehf. að nafnverði 25.500.000 krónur á 405.280.000 krónur við fyrrnefnda hlutafjáraukningu. Verðmætin sem lægju þessu til grundvallar svöruðu því að minnsta kosti til þeirrar fjárhæðar sem aukningunni næmi.

33. Á stjórnarfundi Sameinaðs Sílikons hf. 20. nóvember 2017 var tekin endanleg ákvörðun um sameiningu félagsins og Geysis Capital ehf. á grundvelli samrunaáætlunar 27. júní 2017. Samruninn var samþykktur af stjórnum beggja félaga og tilkynning um hann birt í Lögbirtingablaði 25. ágúst 2017. Í samræmi við 128. gr. laga nr. 2/1995 var fyrirtækjaskrá send tilkynning 20. nóvember 2017 um sameiningu og yfirtöku Sameinaðs Sílikons hf. á Geysi Capital ehf.

34. Í kjölfar þess að bú Sameinaðs Sílikons hf. var tekið til gjaldþrotaskipta óskaði skiptastjóri eftir skoðun KPMG ehf. á framangreindum ráðstöfunum. Í minnisblaði KPMG 17. júlí 2018 um „skoðun á virðismati á Geysi Capital í tengslum við sérfræðiskýrslu um hlutafjárhækkun“ sagði að miðað við heildarvirðið 4,7 til 5,2 milljónir evra hefði virði eigin fjár í félaginu átt að nema 8 til 67 milljónum króna. Af hálfu stefndu var undir rekstri máls þessa aflað mats dómkvadds manns um verðmæti allra hluta Geysis Capital ehf. 29. desember 2016. Matsmaður taldi að virði og eðlilegt kaupverð hlutafjár í félaginu hefði á fyrrgreindu tímamarki numið 205 til 291 milljón króna.

Málsástæður

Helstu málsástæður áfrýjanda

35. Áfrýjandi byggir á því í fyrsta lagi að stefndi Rögnvaldur Dofri hafi í sérfræðiskýrslu 29. desember 2016 ofmetið verulega verðmæti allra hluta í Geysi Capital ehf.

36. Ríkar skyldur hvíli á endurskoðendum sem opinberum sýslunarmönnum. Sakarmat á störfum stefndu sé strangt hvort sem um sé að ræða gerð sérfræðiskýrslu, endurskoðun eða skoðun ársreikninga. Matsgerð dómkvadds manns um verðmæti Geysis Capital ehf. hafi ekki verið hnekkt og því liggi fyrir að sérfræðiskýrsla stefndu hafi verið röng. Hún hafi því verið andstæð lögum þar sem ekki hafi verið greitt lágmarksverð fyrir hlutafé, sbr. 4. tölulið 1. mgr. 6. gr. og 16. gr. laga nr. 2/1995.

37. Almennt orðalag 6. gr. laga nr. 2/1995 leysi ekki opinbera sýslunarmenn undan því að gæta að lögum, reglum og góðum venjum á hverju verðmatssviði fyrir sig. Það geti aldrei talist vera í samræmi við góðar starfsvenjur að endurskoðandi leggi forsendur áskrifanda hlutafjár til grundvallar við verðmat á endurgjaldi án rannsóknar, gagnaöflunar eða gagnrýninnar athugunar á þeim. Slíkt sé í andstöðu við reglur um óhæði endurskoðenda, sbr. VI. kafla þágildandi laga nr. 79/2008 um endurskoðendur.

38. Verðmæti Geysis Capital ehf. hafi að öllu leyti byggst á framtíðarleigugreiðslum Sameinaðs Sílikons hf. til næstu 58 ára. Við gerð sérfræðiskýrslunnar hafi ekki verið tekið nægilegt tillit til áhættu af greiðslufalli félagsins. Óumdeilt sé að eftir því sem áhætta af greiðslufalli sé meiri því hærri ávöxtunarkröfu beri að nota við slíkt verðmat. Auk þess hafi samningurinn verið milli tengdra aðila og aldrei ætlunin að efna hann.

39. Í sérfræðiskýrslunni hafi einnig verið stuðst við verðmat starfsmanns Ernst & Young ehf., Guðjóns Norðfjörð, 10. október 2016. Í skýrslu hans fyrir dómi hafi komið fram að ávöxtunarkrafa væri mikilvægasti þátturinn við verðmat fyrirtækja, forsendur verðmatsins hafi byggst á upplýsingum frá viðskiptamanni stefndu og starfsmaðurinn ekki vitað af umfangsmiklum vanskilum Sameinaðs Sílikons hf. við Íslenska aðalverktaka hf., Geysi Capital ehf. og Reykjaneshafnir. Slíkri vitneskju hafi stefndi Rögnvaldur Dofri átt að búa yfir vegna starfa sinna sem endurskoðandi auk þess sem hann hafi haft aðgang að öllum gögnum Sameinaðs Sílikons hf., sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 2/1995. Ekkert tillit hafi verið tekið til mikillar hættu á greiðslufalli vegna hagsmuna viðskiptavinar stefndu af háu verðmati á Geysi Capital ehf. Þá hafi ekki átt að miða við meðalávöxtunarkröfu íslenskra fasteignafélaga þar sem áhætta af eignasafni sé dreifð ólíkt Geysi Capital ehf. þar sem tekjurnar fólust í leigusamningi við einn aðila og áhætta af tekjubresti ósamræmanleg almennri áhættu íslenskra fasteignafélaga. Þetta hafi verið staðfest með matsgerð dómkvadds manns.

40. Auk þess hafi stefndi Rögnvaldur Dofri vanáætlað framtíðarrekstrarkostnað félagsins. Þá sé það rangt að í minnisblaði KPMG 17. júlí 2018 komi fram svipuð niðurstaða eða aðferðafræði og í sérfræðiskýrslu stefnda. Í minnisblaðinu hafi meðal annars komið fram að ekki væri hægt að staðfesta réttmæti útreikninga hans þar sem þeir væru ekki sjáanlegir af skýrslunni, gagnrýnt að rekstrarkostnaður félagsins væri vanmetinn, vafi leikið á rekstrarhæfi Geysis Capital ehf. undir lok árs 2016 og með ávöxtunarkröfu ekki tekið tillit til áhættu af greiðslufalli Sameinaðs Sílikons hf. Að því leyti sé samhljómur milli matsgerðarinnar og minnisblaðs KPMG.

41. Áfrýjandi byggir í öðru lagi á að í sérfræðiskýrslunni 29. desember 2016 hafi ekki verið tekið tillit til umfangsmikilla skulda sem hvíldu á Geysi Capital ehf. í árslok 2016.

42. Skuld við Reykjaneshafnir að fjárhæð 162.100.000 krónur hafi hvílt á Geysi Capital ehf. samkvæmt yfirlýsingu félagsins 15. júlí 2014. Því sé mótmælt sem fram komi í hinum áfrýjaða dómi að skuld félagsins við Reykjaneshafnir hafi þurrkast út á móti samsvarandi kröfu á hendur Sameinaðs Sílikons hf., enda hafi skilyrði 3. mgr. 14. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga ekki verið fyrir hendi.

43. Þá sé rangt að yfirtaka Kísils Íslands hf. á 231.000.000 króna skuld vegna sölutryggingarsamnings hafi átt sér stað. Ekki hafi nægt í þeim efnum að afla staðfestingar starfsmanns Silicon Mineral Ventures B.V. á samþykki þess félags á skuldskeytingu enda hafi áritun Magnúsar Garðarssonar fyrir hönd þess ekki skuldbundið það að lögum. Þá hafi ekki verið skilyrði til eignfærslu á 231.000.000 króna á móti ætlaðri skuld enda hafi ekki verið skilyrði til hennar samkvæmt 3. mgr. 14. gr. laga nr. 3/2006.

44. Enn fremur byggir áfrýjandi á því að hann hafi orðið fyrir tjóni. Samkvæmt 72. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. hafi hann tekið við öllum fjárhagslegum réttindum og skyldum sem Sameinað Sílikon hf. átti eða naut við uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti. Kröfuhafar eigi að geta treyst því að áskriftarloforð séu innheimt að fullu af skiptastjóra eftir að bú félags hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Það sé markmið 4. töluliðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 2/1995 að tryggja að full verðmæti berist fyrir hlutafjárhækkanir. Tjón verði þegar ekki er fylgt góðum starfsaðferðum við gerð sérfræðiskýrslu eða þegar forsendur áskrifanda ráði verðmati. Því sé niðurstaða Landsréttar um þetta röng enda eigi ákvæði 19. og 53. gr. laga nr. 2/1995 ekki við í málinu. Fyrir liggi að USI Holding B.V. keypti 405.280.000 hluti í Sameinuðu Sílikoni hf. og fékk þá afhenta að fullu án þess að greiða lögbundið lágmarksverð.

45. Loks sé sönnunarbyrði snúið við þegar um er að ræða lögbrot sérfræðinga eða frávik frá góðum starfsaðferðum. Enn fremur tekur áfrýjandi fram að sérfræðingar beri bótaábyrgð ef tjón leiðir af því að þeir afla ekki nauðsynlegra gagna eða upplýsinga til grundvallar vinnu sinni. Fyrir liggi að stefndu hafi ekki gert það þrátt fyrir að hafa til þess allar heimildir samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 2/1995.

Helstu málsástæður stefndu

46. Stefndu byggja á því að áfrýjandi eigi ekki aðild að máli um bótakröfu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, auk þess sem hann hafi ekki orðið fyrir tjóni. Jafnframt er byggt á því að áfrýjandi hafi sýnt af sér tómlæti og eigin sök og þar með fyrirgert rétti sínum til skaðabóta. Þá hafi stefndi Rögnvaldur Dofri hvorki sýnt af sér saknæma né ólögmæta háttsemi.

47. Stefndu halda því fram að efni sérfræðiskýrslunnar 29. desember 2016 hafi verið rétt og byggst á réttum forsendum sem bæði hluthafar og lánardrottnar áfrýjanda samþykktu. Hún hafi staðist kröfur hlutafélagalaga auk þess sem stefndu hafi verið í góðri trú við gerð hennar. Ekki séu lagðar svo ríkar skyldur á herðar þeim sem geri sérfræðiskýrslu að hún verði að vera yfir alla gagnrýni hafin. Þvert á móti sé gert ráð fyrir svigrúmi við gerð hennar enda séu slíkar skýrslur í eðli sínu matskenndar. Þá séu hlutabréfaviðskipti áhættusöm og verðmæti hlutafélaga geti sveiflast.

48. Stefndi Rögnvaldur Dofri byggir á að leigusamningur Geysis Capital ehf. og Sameinaðs Sílikons hf. hafi ekki verið gerður til málamynda og að rétt hafi verið að líta fram hjá skuldum Geysis Capital ehf. við Reykjaneshafnir við mat á Geysi Capital ehf. Þá hafi skuld við Silicon Mineral Ventures B.V. verið Geysi Capital ehf. óviðkomandi en um hafi verið að ræða kröfu vegna sölutryggingarsamnings. Því hafi verið rétt og óhjákvæmilegt að líta fram hjá henni við mat á andvirði félagsins.

49. Sérfræðiskýrslan hafi byggt á verðmati Guðjóns Norðfjörð 10. október 2016, starfsmanns Ernst & Young. Þar hafi verið miðað við ávöxtunarkröfu íslenskra fasteignafélaga og 3,5% rekstrarkostnaðarhlutfall til lengri tíma litið og þar tekið meðal annars mið af einföldum rekstri félagsins. Þetta hafi verið í samræmi við hugmyndir lánardrottna og fjárfesta á þeim tíma. Þá sýni útreikningur í minnisblaði KPMG 17. júlí 2018 svipaða niðurstöðu áður en tekið er tillit til raunverulegrar skuldastöðu félagsins.

50. Í matsgerð hafi verið notast við sömu aðferð og stefndu notuðu við útreikninga um grundvallarþætti matsins, verðmæti leigusamnings og verðmæti félagsins út frá sjóðstreymi og skuldastöðu. Mismunur á verðmati stefndu og niðurstöðu matsgerðar felist nær eingöngu í vali á ávöxtunarkröfu og rekstrarkostnaðarhlutfalli sem stefndu geri í tilviki matsgerðar alvarlegar athugasemdir við. Val dómkvadds manns á 8,1% ávöxtunarkröfu standist ekki skoðun, hvorki ef litið er til þess tiltekna gagnabanka sem hann studdist við né í ljósi þess að allri þróunarvinnu hafi verið lokið og rekstur Geysis Capital ehf. frekar líkst rekstri innlends fasteignafélags. Þá hafi verið rangt að miða við að fasteignaþróun yrði viðvarandi hjá félaginu á 60 ára líftíma leigusamningsins. Enn fremur hafi matsmaður byggt á rangri forsendu um fjármagnskostnað til langs tíma litið. Auk þess hafi Geysir Capital ehf. einungis átt að greiða fasteignaskatta af lóðinni en ekki mannvirkjum í eigu Sameinaðs Sílikons hf. eins og fram komi í lóðarleigusamningi.

51. Stefndi Rögnvaldur Dofri byggir á að hann hafi fært haldbær rök fyrir vali sínu á forsendum við gerð sérfræðiskýrslunnar. Þótt dómkvaddur maður hafi kosið önnur viðmið leiði það ekki sjálfkrafa til þeirrar niðurstöðu að hann hafi sýnt af sér vanrækslu. Val á ávöxtunarkröfu sé matskennt og alls ekki hafið yfir vafa. Þá er því mótmælt að gjaldfærni Sameinaðs Sílikons hf. hafi verið þannig í desember 2016 að greiðslufallsáhætta hefði átt að skipta meira máli en raun beri vitni.

52. Stefndu byggja einnig á því að sérfræðiskýrslan hafi haft að geyma öll þau atriði sem nefnd eru í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 2/1995 og verið í fullu samræmi við þá framkvæmd sem hafi tíðkast við gerð slíkra skýrslna. Ákvæðið sé fyrst og fremst til verndar hluthöfum en þeim sem semji sérfræðiskýrslu sé veitt talsvert svigrúm við þá vinnu. Hvorki í lögum né lögskýringargögnum sé að finna frekari fyrirmæli um ákveðnar aðferðir við gerð sérfræðiskýrslu. Auk þess sé rangt að stefndu hafi að öllu leyti lagt forsendur áskrifanda hlutafjár til grundvallar við gerð hennar. Lagt hafi verið mat á verðmæti félagsins og hafi stefndu meðal annars haft aðgang að bókhaldi þess og ákveðið allar forsendur sjálfstætt og á grundvelli faglegs mats. Mat á greiðslufallsáhættu hafi varla átt við þar sem áfrýjandi var sjálfur kaupandi að hlutum í félaginu og losnaði þar með undan skyldu til greiðslu leigu. Því hafi hvorki verið sýnt fram á brot gegn lagaákvæðum um gerð sérfræðiskýrslu né vonda trú stefndu. Af því leiði að ekki hafi verið leidd í ljós saknæm háttsemi við gerð skýrslunnar. Stefndu hafi þvert á móti viðhaft vönduð vinnubrögð og beitt viðurkenndum aðferðum eftir sinni bestu vitund miðað við aðstæður og þekkingu á þeim tíma.

53. Enn fremur byggja stefndu á að ekkert tjón hafi orðið af ætlaðri saknæmri háttsemi. Í hinum áfrýjaða dómi hafi komið fram að mögulega geti hluthafar orðið fyrir tjóni ef hlutafé er of hátt skráð. Hluthafar í Sameinuðu Sílikoni hf. hafi hins vegar samþykkt viðskiptin með kaupsamningi 1. desember 2016 þar sem kaupverðið hafi verið ákveðið 405.280.000 krónur og tekið fram að það skyldi greiða með hlutafé í Sameinuðu Sílikoni hf. Hluthafar hafi því ekki talið sig hafa orðið fyrir tjóni vegna viðskiptanna. Þau hafi auk þess verið skilyrði fyrir frekari fjármögnun Sameinaðs Sílikons hf., sbr. hluthafafund í því félagi 3. nóvember 2016, og áskilið í lánssamningi 1. desember 2016 milli Arion banka hf. og Sameinaðs Sílikons hf. Útilokað sé að áfrýjandi hafi orðið fyrir tjóni einungis vegna þess að einn hluthafi í félaginu hafi eignast fleiri hluti í því með samþykki annarra hluthafa. Engar peningagreiðslur voru inntar af hendi og engar skuldir fylgdu félaginu aðrar en veðlán Arion banka hf. sem hvíldi á lóðinni.

54. Loks hafi félagið USI Holding B.V. tekið við hlutum í Sameinuðu Sílikoni hf. sem nú sé verðlaust en afhent í staðinn hluti í Geysi Capital ehf. sem átti verðmæta fasteign. Áfrýjandi hafi ekki rökstutt hvernig tjón á að hafa orðið og hvernig staða Sameinaðs Sílikons hf. hefði orðið önnur ef ekki hefði komið til ætluð saknæm háttsemi. Ekki verði séð hvernig hið gjaldþrota félag á að hafa orðið fyrir tjóni.

Niðurstaða

Aðild áfrýjanda

55. Krafa áfrýjanda byggist á því að stefndu hafi bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart honum með saknæmri háttsemi stefnda Rögnvaldar Dofra sem starfaði sem endurskoðandi hjá stefnda BD30 ehf. sem áður hét Ernst & Young ehf. Stefndu vísa til þess að krafa af því tagi sem hér um ræðir verði einungis höfð uppi af hluthafa eða eftir atvikum viðsemjanda félags sem kunni að hafa orðið fyrir tjóni hafi hann lagt traust á að upplýsingar um hlutafé félags eða eftir atvikum upplýsingar í ársreikningi þess væru réttar og gert ráðstafanir í trausti þess. Slík krafa verði aftur á móti ekki höfð uppi af hálfu þrotabús.

56. Áfrýjandi mótmælir því að um aðildarskort sé að ræða og vísar um það til dómaframkvæmdar Hæstaréttar, meðal annars dóms réttarins 20. desember 1988 í máli nr. 210/1988 sem birtur er á bls. 1624 í dómasafni hans það ár, dóms 19. apríl 1996 í máli nr. 123/1996 sem birtur er á bls. 1347 í dómasafni réttarins það ár, dóms 6. febrúar 1997 í máli nr. 169/1996 sem birtur er á bls. 456 í dómasafni réttarins það ár og loks dóms 9. mars 2006 í máli nr. 417/2005. Í fyrrgreindum dómum hafi þrotabú verið aðili að dómsmáli um innheimtu hlutafjárloforðs.

57. Aðild þrotabús í framangreindum málum um innheimtu hlutafjárloforða hvílir á þeirri meginreglu 1. mgr. 72. gr. laga nr. 21/1991 að í kjölfar þess að bú skuldara er tekið til gjaldþrotaskipta taki þrotabú hans við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann átti eða naut við uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar, sbr. 3. mgr. um að þrotabú njóti hæfis til að eiga og öðlast réttindi og til að bera og baka sér skyldur sem haldist þar til skiptum þess lýkur endanlega eftir fyrirmælum laganna.

58. Í dómi Hæstaréttar í fyrrgreindu máli nr. 210/1988 var meðal annars vísað til hagsmuna lánardrottna hins gjaldþrota félags af því að geta treyst því að sú hlutafjáraukning sem fram hafði farið í félaginu hefði skilað sér. Í máli þessu lýtur krafa áfrýjanda að greiðslu bóta utan samninga vegna ætlaðra annmarka á greiðslu hlutafjárloforðs. Líta verður svo á að hún sé af sama meiði og krafa um innheimtu slíks loforðs. Þannig geta lánardrottnar félags sem tekið hefur verið til gjaldþrotaskipta átt hagsmuni af því að slík krafa sé höfð uppi af hálfu þrotabús með sama hætti og þegar ekki hefur verið staðið við hlutafjárloforð. Treystir sú niðurstaða jafnframt grundvöll þess að hlutafjárloforð verði efnd eftir efni sínu. Verður því fallist á að áfrýjandi geti haldið fram slíkri bótakröfu að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Sérfræðiskýrsla stefnda Rögnvaldar Dofra

59. Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 2/1995 segir að við hækkun hlutafjár beri eftir því sem við á að sannreyna verðmæti greiðslu fyrir hluti með sérfræðiskýrslu og um það vísað til 6. gr. laganna þar sem fjallað er um greiðslu fyrir hlutafé með öðru en reiðufé. Þegar þannig háttar til verður að sannreyna að hlutur í félagi sé greiddur réttu verði.

60. Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 2/1995 er því lýst í fjórum töluliðum hvers efnis sérfræðiskýrslan skuli vera. Þar á að koma fram lýsing á hverri greiðslu eða þeim verðmætum sem félag tekur við, upplýsingar um aðferðina sem notuð er við matið, tilgreining á endurgjaldi fyrir það sem tekið er við og loks yfirlýsing um að hið tiltekna verðmæti svari að minnsta kosti til hins umsamda endurgjalds. Þá má endurgjaldið ekki vera hærra en nemur þeirri fjárhæð sem bókfæra megi verðmætin til eignar í reikningum félagsins.

61. Í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 2/1995 er enn fremur mælt fyrir um að slík sérfræðiskýrsla skuli unnin af einum eða fleiri óháðum, sérfróðum mönnum, annaðhvort löggiltum endurskoðendum eða lögmönnum ellegar öðrum sérfróðum mönnum sem dómkvaddir eru á heimilisvarnarþingi félagsins. Þá segir í 2. mgr. að lagaákvæði um löggilta endurskoðendur eigi við um þá sérfræðinga sem semja skýrsluna eftir því sem við eigi. Í 3. mgr. segir svo að viðkomandi sérfræðingar hafi rétt til að gera þær athuganir sem þeir telja nauðsynlegar og geta krafist þeirra upplýsinga og þeirrar aðstoðar af stofnendum eða félaginu sem þeir telja þörf á til að geta rækt starf sitt. Einnig kemur fram sú meginregla í 1. mgr. 16. gr. laganna að greiðsla hlutar í hlutafélagi megi ekki nema minna en nafnverði hans.

62. Af framangreindum ákvæðum laga nr. 2/1995 um öflun og efni sérfræðiskýrslu og greiðslu fyrir hluti í hlutafélagi verður dregin sú ályktun að markmið með öflun slíkrar skýrslu sé einkum að tryggja að hluthafar séu upplýstir um þýðingu greiðslunnar fyrir hagsmuni félagsins og geti þannig tekið upplýsta afstöðu til hennar og ákvarðanatöku í tengslum við hana á hluthafafundi. Það er meðal annars tryggt með heimild þeirra óháðu sérfræðinga sem meta greiðsluna til að kalla eftir nauðsynlegum gögnum og að þeir leggi sjálfstætt mat á þau gögn sem hafa þýðingu við slíkt mat á grundvelli faglegra forsendna. Með því er jafnframt komið í veg fyrir að samið sé um greiðslu fyrir hluti með öðru en reiðufé.

63. Ríkar skyldur hvíla á endurskoðendum í störfum þeirra og ber þeim ávallt að ástunda rétt og vönduð vinnubrögð. Þegar um er að ræða ráðstafanir í tengslum við stofnun félags með takmarkaðri ábyrgð eða við hækkun hlutafjár í slíku félagi eru mikilvægir hagsmunir hluthafa, lánardrottna sem og samfélagsins í heild bundnir því að staðfesting endurskoðenda eða annarra sérfræðinga og framsetning upplýsinga sé reist á traustum grunni. Jafnframt er brýnt að fylgt sé þeim reglum um greiðslu hlutafjár og skilyrðum fyrir staðfestingu greiðslu sem lög áskilja. Önnur niðurstaða myndi raska grundvelli lögbundins fyrirkomulags um takmarkaða ábyrgð hluthafa á skuldbindingum slíkra félaga.

64. Þegar metið er hvort stefndi Rögnvaldur Dofri hafi sýnt af sér saknæma háttsemi við gerð fyrrgreindrar sérfræðiskýrslu við hlutafjárhækkun í Sameinuðu Sílikoni hf. verður að líta til þess að sú skylda hvíldi á honum, samkvæmt framangreindu, að rækja þann starfa í samræmi við lög og góðar venjur á sínu fagsviði. Auk þess skiptir máli hvaða upplýsingar voru honum til reiðu þegar atvik málsins áttu sér stað eða honum var rétt að kalla eftir á grundvelli þeirra heimilda sem hann naut samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 2/1995.

65. Fyrir liggur að samþykkt var á hlutahafafundi Sameinaðs Sílikons hf. 3. nóvember 2016 að USI Holding B.V. væri heimilað að greiða fyrir hluti í Sameinuðu Sílikoni hf. að nafnverði 405.280.000 krónur með bréfum þess félags í Geysi Capital ehf. Um viðskiptin var síðar gerður áskriftarsamningur 6. desember 2016. Samkvæmt framangreindum ákvæðum laga nr. 2/1995 á sérfræðiskýrsla að liggja fyrir áður en ákvörðun er tekin um hlutafjárhækkun, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 10. júlí 2001 í máli nr. 256/2001. Sem fyrr segir lá sérfræðiskýrsla stefnda Rögnvaldar Dofra fyrir 29. desember 2016 en á þeim tíma hafði bréfum USI Holding B.V. í Geysi Capital ehf. verið afsalað og beinlínis vísað til þeirra viðskipta í sérfræðiskýrslunni. Í ljósi þess hvernig mál þetta liggur fyrir verður ekki fallist á að stefndu beri ábyrgð á síðbúinni öflun skýrslunnar sem átti samkvæmt framansögðu að liggja fyrir og vera til reiðu fyrir hluthafa í tæka tíð fyrir hluthafafundinn 3. nóvember 2016. Hins vegar hlaut sú aðstaða að kalla á aukna aðgæsluskyldu stefnda Rögnvaldar Dofra við gerð skýrslunnar einkum í ljósi þess að um viðskipti tengdra aðila var að ræða.

66. Í framangreindri sérfræðiskýrslu var greiðslunni lýst til samræmis við áskilnað 1. töluliðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 2/1995 sem bréfum í Geysi Capital ehf. Verðmæti félagsins væri, sbr. 2. tölulið 1. mgr., byggt á mati Guðjóns Norðfjörð 10. október 2016 en hann starfaði þá á ráðgjafarsviði Ernst & Young ehf. Það tæki mið af leigusamningi félagsins um lóðina að Stakksbraut 9 í Helguvík að teknu tilliti til áætlaðs rekstrarkostnaðar, skatta og hæfilegrar ávöxtunarkröfu. Endurgjaldið var sagt vera bréf í Sameinuðu Sílikoni hf. að verðmæti 405.280.000 krónur, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 6. gr. laganna. Loks var þar að finna yfirlýsingu stefnda Rögnvaldar Dofra, sbr. 4. tölulið 1. mgr. 6. gr., um að verðmæti hluta í Geysi Capital ehf. að nafnverði kr. 25.500.000 króna væri eðlilegt að meta og bókfæra sem 405.280.000 krónur við aukningu á hlutafé í Sameinuðu Sílikoni hf. um sömu fjárhæð að nafnverði. Einnig kom fram að þau verðmæti sem lægju til grundvallar svöruðu að minnsta kosti til þeirrar fjárhæðar sem hlutafjáraukningunni næmi.

67. Áfrýjandi hefur byggt á því að skýrsla stefnda Rögnvaldar Dofra sé röng. Ekki hafi verið dregnar frá ætluðu verðmæti Geysis Capital ehf. skuldir félagsins, meðal annars skuld við Reykjaneshafnir og við Silicon Mineral Ventures B.V. Þá hafi ekki verið skilyrði til eignfærslu á móti ætlaðri skuld við síðargreinda félagið samkvæmt 3. mgr. 14. gr. laga nr. 3/2006. Enn fremur hafi virði félagsins að stærstum hluta verið metið á grundvelli lóðarleigusamnings við Sameinað Sílikon hf. sem aldrei hafi verið ætlunin að efna og því verið verðlaust.

68. Í hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að ekki hefðu verið færðar sönnur á að lóðarleigusamningurinn 15. júlí 2014 hefði verið gerður til málamynda. Þá hefði ekkert legið fyrir sem hefði gefið stefnda Rögnvaldi Dofra tilefni til að ætla að samningurinn væri ekki skuldbindandi og að líta hefði átt fram hjá honum við mat á verðmæti Geysis Capital ehf. Þótt veittur hefði verið greiðslufrestur á stórum hluta leigugreiðslna, að undirlagi Arion banka hf., hefði eftir sem áður verið rétt að líta svo á að leigusamningurinn aflaði félaginu tekna sem hefðu þýðingu við mat á verðmæti hluta í því. Þá hefði verið réttmætt að líta ekki til skuldar við Reykjaneshafnir við mat á félaginu í lok árs 2016 en ágreiningslaust væri að í grein 1.3 í fyrrgreindum lóðarleigusamningi milli Sameinaðs Sílikons hf. og Geysis Capital ehf. frá júlí 2014 hefði komið fram að sú krafa hefði átt að greiðast af Sameinuðu Sílikoni hf. Þá hefði um skuld Geysis Capital ehf. að fjárhæð 231.000.000 króna við Silicon Mineral Ventures B.V. verið vísað til samnings 31. október 2016 milli félaganna Kísils Íslands hf., Geysis Capital ehf. og Silicon Mineral Ventures B.V. og þess að í tengslum við gerð árshlutareiknings Geysis Capital ehf. hefði legið fyrir staðfesting af hálfu Silicon Mineral Ventures B.V. um framsal kröfunnar til Kísils Íslands hf.

69. Þegar mið er tekið af þeim gögnum og upplýsingum sem voru stefnda Rögnvaldi Dofra tiltæk þegar matið fór fram og ætlast mátti til að hann aflaði, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 2/1995, verður fallist á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að við matið hefði mátt líta til ætlaðs verðmætis lóðarleigusamningsins 15. júlí 2014 auk þess sem líta hefði mátt fram hjá framangreindum tveimur skuldum. Hefur ekkert nýtt komið fram fyrir Hæstarétti sem hnekkt getur þeirri niðurstöðu.

70. Til viðbótar hefur áfrýjandi byggt á því að saknæm háttsemi Rögnvalds Dofra lúti að vali hans á kostnaðarhlutfalli Geysis Capital ehf. sem og ávöxtunarkröfu við matið. Um það vísar áfrýjandi til matsgerðar dómkvadds manns 23. janúar 2020 sem stefndu öfluðu undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi. Í matsgerðinni hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að heildarvirði Geysis Capital ehf., að gættum nánar tilteknum forsendum, hafi numið 441 milljón króna 29. desember 2016. Að frádregnum vaxtaberandi skuldum félagsins, sem hafi verið 196 milljónir króna, væri matsverð hlutafjár í því 245 milljónir króna. Í matinu hafi komið fram að töluverð óvissa fylgdi mati af þessu tagi og væri stærsti óvissuþátturinn mat á rekstrarkostnaði og ávöxtunarkröfu sem hafi veruleg áhrif á niðurstöðuna. Verðmat dómkvadds manns sé því sett fram á bilinu 205 til 291 milljón króna.

71. Með hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að matsgerðin væri ítarlega rökstudd og reist á faglegum forsendum. Gæfu þau gögn sem stefndu öfluðu og ætlað var að hnekkja forsendum hennar að því er varðaði rekstrarkostnaðarhlutfall og ávöxtunarkröfu ekki tilefni til að álykta að forsendur matsgerðarinnar hafi verið augljóslega rangar. Þau gögn sem stefndu hafa byggt á hér fyrir Hæstarétti og ætlað er að leiða til þess að matsgerðinni verði hnekkt breyta engu í þeim efnum. Verður því byggt á matsgerð dómkvadds manns um verðmæti Geysis Capital ehf. 29. desember 2016 við úrlausn málsins enda hefur henni ekki verið hnekkt með öflun yfirmatsgerðar. Samkvæmt framansögðu er því staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að þótt verðmöt af slíkum toga séu háð óvissu hafi að lágmarki vantað 114.280.000 krónur til að verðmæti hluta í Geysi Capital ehf. hafi náð áskriftarfjárhæð USI Holding B.V. í Sameinuðu Sílikoni hf., miðað við hæsta mögulega verð hlutanna samkvæmt matsgerð.

72. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 2/1995 er lagt fortakslaust bann við því að greiðsla hlutar nemi minna en nafnverð hans. Sérfræðiskýrsla stefnda Rögnvaldar Dofra leiddi til þess að greiðsla félagsins USI Holding B.V. var lægri en sem nam skráðri hlutafjáraukningu í nóvember 2016. Ástæða þess verður fyrst og fremst rakin til þess að hann sýndi ekki nægilega gætni við val á forsendum um rekstrarkostnaðarhlutfall og ávöxtunarkröfu Geysis Capital ehf. í sérfræðiskýrslunni 29. desember 2016. Á honum hvíldi rík skylda í því sambandi enda hefur verið sýnt fram með matsgerð dómkvadds manns að um er að ræða forsendur sem eru afar næmar fyrir breytingum. Þá er mikilvægt að endurskoðandi leggi sjálfstætt mat á þær forsendur miðað við bestu fáanleg gögn. Eiga umrædd sjónarmið einkum við eins og hér háttaði til þegar um viðskipti tengdra aðila var að ræða sem auk þess voru þegar um garð gengin.

73. Samkvæmt framansögðu sýndi stefndi Rögnvaldur Dofri af sér saknæma háttsemi við gerð sérfræðiskýrslunnar. Á því tjóni sem af þeirri háttsemi kann að hafa hlotist ber hann ábyrgð á grundvelli sakarreglunnar en stefndi BD30 ehf. á grundvelli reglu skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð.

Tjón áfrýjanda og sönnun um orsakatengsl

74. Að framangreindri niðurstöðu fenginni þarf að taka afstöðu til þess hvort áfrýjandi hafi orðið fyrir tjóni sem samsvarar þeirri fjárhæð sem samkvæmt framansögðu vantaði upp á að verðmæti endurgjalds fyrir hækkað hlutafé svaraði til nafnverðs þess. Í framhaldi af því þarf að leysa úr því hvort orsakatengsl teljist sönnuð milli hinnar saknæmu háttsemi stefnda Rögnvaldar Dofra og tjónsins og ef svo er ekki hver eigi þá að bera hallann af þeim sönnunarskorti.

75. Gjaldþrotaskipti eru sameiginleg fullnustugerð lánardrottna þrotamanns. Réttindi og skyldur hans flytjast almennt yfir til þrotabús við uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar. Þau verðmæti sem finnast í búi félags þegar það er tekið til skipta eða skiptastjóra þrotabús tekst að afla með innheimtu, endurheimt verðmæta eða bótakröfum að frátöldum skiptakostnaði koma til skipta milli lánardrottna sem lýst hafa kröfu í búið í samræmi við stöðu þeirra í réttindaröð og ákvæði laga nr. 21/1991 að öðru leyti. Fáist kröfur lánardrottna ekki greiddar að fullu við þessa sameiginlegu fullnustugerð verða þeir fyrir tjóni, ýmist allir eða hluti þeirra, allt eftir stöðu þeirra í réttindaröð.

76. Þegar um er að ræða félag með takmarkaða ábyrgð félagsmanna bera þeir að jafnaði ekki aðra ábyrgð á fjárhagslegum skuldbindingum þess en með því hlutafé sem þeir hafa lagt til þess. Vegna þess verða lánardrottnar félags að geta treyst því að þau verðmæti sem felast í endurgjaldi fyrir hlutafé hafi skilað sér til þess að fullu hvort sem um er að ræða reiðufé eða önnur verðmæti. Tilkynning til fyrirtækjaskrár um hækkun hlutafjár og greiðslu andvirðis þess er endanleg staðfesting gagnvart lánardrottnum og öðrum um að endurgjald fyrir hlutafé sem nemur að minnsta kosti nafnvirði þess hafi skilað sér. Þótt lánardrottnar geti ekki gengið að því vísu að í félagi séu á hverjum tíma verðmæti sem geti verið andlag fullnustugerðar sem samsvari að öllu leyti því endurgjaldi sem innt hefur verið af hendi fyrir hlutafé eiga þeir almennt að geta treyst því að endurgjaldið geti með einhverju móti orðið grundvöllur verðmætasköpunar í félaginu. Hlutafé félags og endurgjald sem innt er af hendi fyrir það er þannig mikilvægasti grundvöllur lánstrausts þess og almennt má ætla að ákvarðanir lánardrottna í samskiptum við það byggist meðal annars á að upplýsingar þar um séu réttar. Löggjöf um hlutafélög endurspeglar þetta. Með hliðsjón af hagsmunum lánardrottna af réttri skráningu standa engin rök til þess að gera greinarmun á því að hlutafé sé ekki greitt til félags að fullu þótt svo hafi verið staðfest af hálfu félags og þess að sérfræðiálit hafi gefið ranglega til kynna að verðmæti endurgjalds fyrir hlutafé væri meira en það reyndist vera. Í hvorugu tilviki endurspegla upplýsingar til fyrirtækjaskrár verðmæti endurgjalds.

77. Afstýra má að einhverju leyti eða draga úr skaðlegum afleiðingum af röngum tilkynningum til fyrirtækjaskrár um greiðslu fyrir hlutafé eða verðmæti endurgjalds með leiðréttingu á fyrri tilkynningu og samsvarandi lækkun hlutafjár. Í þessu máli liggur fyrir að slík leiðrétting var aldrei send og lánardrottnar höfðu þar af leiðandi aldrei tilefni til að laga viðskiptalegar ákvarðanir sínar að því að verðmætið sem fyrir hið nýja hlutafé kom var verðminna en tilkynnt hafði verið.

78. Þegar litið er til lýstra krafna í þrotabú Sameinaðs Sílikons hf. og þess sem komið hefur fram um eignir búsins fer ekki á milli mála að lánardrottnar félagsins hafa beðið umfangsmikið tjón af viðskiptum sínum við það. Tjónið sem leiddi samkvæmt framansögðu af ofmati á verðmæti endurgjalds samkvæmt sérfræðiskýrslu stefnda Rögnvaldar Dofa er hluti af því. Við úrlausn málsins þykir ekki skipta máli hvernig þetta tjón muni að lokum skiptast á milli kröfuhafa enda verður það ekki ljóst fyrr en við lok úthlutunar úr þrotabúinu.

79. Ljóst er hins vegar að erfitt getur reynst að færa sönnur á að allir lánardrottnar sem ekki fá kröfur sínar greiddar við gjaldþrotaskipti hafi byggt ákvarðanir sínar að einhverju leyti eða öllu á upplýsingum um hlutafjárhækkun og greiðslu endurgjalds fyrir hlutafé. Þetta getur hvort sem er átt við um ákvarðanir lánardrottins um að veita félagi lán eða aðra fyrirgreiðslu, veita greiðslufrest eða virkja ekki ákvæði samnings um gjaldfellingu láns eða önnur vanskilaúrræði.

80. Af dómaframkvæmd Hæstaréttar verður ráðið að þegar fyrir liggur að sérfræðingur hefur orðið uppvís að saknæmri háttsemi við framkvæmd sérfræðistarfa hefur verið slakað á kröfum um sönnun fyrir því að hún hafi orsakað tjón og sönnunarbyrði jafnvel snúið um það atriði. Þetta á sérstaklega við þegar tjónþola er erfitt um vik að sanna orsakasamband milli saknæmrar háttsemi og tjóns sem hann hefur orðið fyrir. Sem dæmi um slíkt má nefna dóma Hæstaréttar 25. janúar 2001 í máli nr. 262/2000 og 18. október 2007 í máli nr. 619/2006.

81. Samkvæmt framansögðu miða ákvæði laga nr. 2/1995 að því að setja trausta umgjörð um greiðslu hlutafjár og þau verðmæti sem heimilt er að inna af hendi sem endurgjald fyrir það. Þessi lagaumgjörð er einn af hornsteinum þessa félagaforms og miðar að því að aðrir hluthafar og lánardrottnar geti treyst því að raunveruleg verðmæti skili sér inn í hlutafélag við stofnun þess eða hækkun hlutafjár. Þegar greitt er fyrir hlutafé með öðru en reiðufé er sérfræðiskýrsla um verðmæti endurgjaldsins líkleg til að vera mikilvæg forsenda ákvarðanatöku lánardrottna í viðskiptum við hlutafélag.

82. Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á það með óyggjandi hætti að hin saknæma háttsemi stefnda Rögnvaldar Dofra hafi ráðið viðskiptalegum ákvörðunum þeirra kröfuhafa í þrotabúinu sem ekki munu fá kröfur sínar að fullu greiddar og hún þannig orsakað tjón þeirra. Í ljósi erfiðrar sönnunarstöðu um orsakasamband telst áfrýjandi hins vegar hafa leitt nægar líkur að því að sérfræðiskýrsla stefnda Rögnvaldar Dofra hafi verið einn þeirra þátta sem lánardrottnar Sameinaðs Sílikons hf. lögðu traust sitt á við töku viðskiptalegra ákvarðana þannig að stefndu verði látnir bera hallann af því að hafa ekki sýnt fram á að gerð sérfræðiskýrslunnar hafi ekki leitt til tjóns fyrir kröfuhafa í þrotabúinu og þar með áfrýjanda.

83. Samkvæmt öllu framansögðu verður stefndu á grundvelli fyrrgreindrar matsgerðar gert að greiða óskipt áfrýjanda 114.280.000 krónur auk vaxta eins og í dómsorði greinir. Eru þeir þá látnir njóta alls vafa um þann mun sem telst hafa verið fyrir hendi á niðurstöðu sérfræðiskýrslunnar og verðmæti félagsins samkvæmt matsgerð.

84. Í ljósi úrslita málsins verða stefndu dæmdir til að greiða áfrýjanda málskostnað á öllum dómstigum eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndu, Rögnvaldur Dofri Pétursson og BD30 ehf., greiði óskipt áfrýjanda, þrotabúi Sameinaðs Sílikons hf., 114.280.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. janúar 2017 til 13. nóvember 2018 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndu greiði óskipt áfrýjanda málskostnað á öllum dómstigum, samtals 5.000.000 króna.

Sératkvæði

Benedikts Bogasonar og Ásu Ólafsdóttur

1. Við erum sammála lýsingu meirihluta dómenda á ágreiningsefni málsins og málsatvikum. Við erum einnig sammála meirihlutanum um að stefndi Rögnvaldur Dofri Pétursson hafi sýnt af sér saknæma háttsemi við gerð sérfræðiskýrslu 29. desember 2016. Jafnframt erum við sammála því að hann beri ábyrgð á grundvelli sakarreglunnar og stefndi BD30 ehf. á grundvelli reglu skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð á því tjóni sem af þeirri háttsemi kann að hafa hlotist. Aftur á móti erum við ósammála meirihlutanum um að áfrýjandi hafi orðið fyrir tjóni vegna þess að hlutafé í Sameinuðu Sílikoni hf. var of hátt skráð.

2. Frumforsenda þess að dæmdar verði skaðabætur er að sá sem hefur uppi kröfuna hafi orðið fyrir tjóni. Kröfuhafar áfrýjanda kunna vissulega að hafa orðið fyrir tjóni ef þeir reistu ákvarðanir sínar um viðskipti á upplýsingum sem þeir máttu treysta um skráð hlutafé Sameinaðs Sílikons hf., þar með talið tilkynningu um hækkun hlutafjár. Það veltur þó á atvikum hverju sinni, svo sem hvort stofnað var til skuldar fyrir eða eftir slíka hækkun. Aftur á móti hefur ekki í máli þessu verið sýnt fram á að framkvæmd hækkunar hlutafjár og sú staðreynd að hlutafé í Sameinuðu Sílikoni hf. var of hátt skráð hafi valdið félaginu sjálfu tjóni. Ekki hefur heldur verið sýnt fram á tjón félagsins á þeim grunni að einn hluthafi hafi eignast fleiri hluti í Sameinuðu Sílikoni hf. með samþykki annarra hluthafa.

3. Þar sem við teljum tjón áfrýjanda ósannað er það niðurstaða okkar að sýkna beri stefndu af kröfum hans. Einnig teljum við að fella beri niður málskostnað á öllum dómstigum.