Hæstiréttur íslands

Mál nr. 35/2022

A (Eva B. Helgadóttir lögmaður)
gegn
dánarbúi B (Jón Gunnar Ásbjörnsson lögmaður)
og gagnsök

Lykilorð

  • Persónuvernd
  • Persónuupplýsingar
  • Fjölmiðill
  • Friðhelgi einkalífs
  • Tjáningarfrelsi
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Málsástæða
  • Málskostnaður
  • Gjafsókn

Reifun

Málið átti rætur að rekja til sýningar á sjónvarpsþætti en í honum voru meðal annars sýnd viðtöl við B sem tekin höfðu verið upp sumarið áður. Ágreiningur aðila laut að kröfu B um greiðslu miskabóta úr hendi A meðal annars á þeim grundvelli að í þættinum hefðu komið fram viðkvæmar persónuupplýsingar án samþykkis hennar. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að umfjöllun í þættinum teldist hafa verið framlag til mikilvægar þjóðfélagsumræðu og að nauðsynlegt teldist til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs B og tjáningarfrelsis A í þágu fjölmiðlunar að víkja frá ákvæðum laga nr. 77/2000 við úrlausn málsins. Þar sem persónuupplýsingar um B í þættinum teldust eingöngu hafa verið unnar í þágu fréttamennsku í skilningi 5. gr. laganna yrði ákvæðum þeirra, þar á meðal um samþykki og afturköllun þess ekki beitt, sbr. þó niðurlag síðara málsliðs þeirrar greinar. Þá var ekki talið að umfjöllunin, sem að stærstum hluta fólst í birtingu viðtala við B, hefði verið ósanngjörn í hennar garð eða ómálefnaleg. Talið var að meta yrði á grundvelli almennra sönnunarreglna hvort A hefði verið í góðri trú um að samþykki B fyrir sýningu viðtalanna lægi fyrir. Rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að samþykki B í orði og verki hefði legið fyrir og A hefði mátt líta svo að það samþykki stæði óhaggað. Enn fremur komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að A teldist í ljósi þess tjáningarfrelsis sem hann naut sem fjölmiðlamaður ekki hafa brotið gegn friðhelgi einkalífs B með þeim hætti að skylda til greiðslu miskabóta hafi skapast á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Var A sýknaður af öllum kröfum B í málinu.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. júní 2022. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og „málskostnaðar að mati Hæstaréttar“ án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

3. Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu fyrir sitt leyti 23. ágúst 2022. Hann krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 2.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. mars 2018 til 11. október 2019 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar á öllum dómstigum án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

4. B lést […] 2022. Í samræmi við 2. mgr. 22. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hefur dánarbú hennar tekið við aðild að málinu fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni

5. Mál þetta á rætur að rekja til sýningar á sjónvarpsþættinum […] 4. mars 2018 en í honum voru meðal annars sýnd viðtöl við B sem tekin höfðu verið upp sumarið áður. Ágreiningur aðila lýtur að kröfu hennar um greiðslu miskabóta úr hendi aðaláfrýjanda, meðal annars á þeim grundvelli að með birtingu viðtalanna hefðu komið fram viðkvæmar persónuupplýsingar án samþykkis hennar.

6. Málið var upphaflega höfðað af B gegn aðaláfrýjanda, C og D á grundvelli samlagsaðildar samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 og þau öll krafin óskipt um greiðslu miskabóta að fjárhæð 4.000.000 króna auk nánar tilgreindra vaxta.

7. Með dómi héraðsdóms voru stefndu sýknaðir af öllum kröfum B. Með hinum áfrýjaða dómi Landsréttar 8. apríl 2022 var aðaláfrýjandi hins vegar dæmdur til að greiða henni 800.000 krónur í miskabætur ásamt nánar tilgreindum vöxtum en meðstefndu sýknaðir. Þá var kröfu á hendur D vegna birtingar auglýsinga og kynningarefnis vísað frá héraðsdómi.

8. Aðaláfrýjandi óskaði eftir leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar fyrir sitt leyti innan áfrýjunarfrests. Hann reisti beiðni sína á því að málið hefði verulega almenna þýðingu fyrir frjálsa fjölmiðlun. Ekki hefði farið fram mat á því í Landsrétti hvort ætti að vega þyngra í málinu, réttur til friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, eða tjáningarfrelsi fjölmiðla og fjölmiðlamanna, sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmálans. Þá byggði leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar væri bersýnilega rangur um túlkun á 5. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Hæstiréttur féllst á að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um þau atriði sem leyfisbeiðni væri reist á og veitti 2. júní 2022 leyfi til áfrýjunar með ákvörðun nr. 2022-62. Áfrýjunarstefna var gefin út sama dag. Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu á hendur aðaláfrýjanda með gagnáfrýjunarstefnu 23. ágúst 2022.

9. Með beiðni 3. júní 2022 leitaði gagnáfrýjandi leyfis Hæstaréttar til að áfrýja fyrrgreindum dómi Landsréttar 8. apríl 2022 hvað varðaði D. Beiðni um áfrýjunarleyfi var hafnað 21. júní sama ár með ákvörðun nr. 2022-79. Sú synjun var á því reist að þær skýringar sem leyfisbeiðandi hefði gefið á því að ekki var sótt um áfrýjunarleyfi innan tímamarka 1. mgr. 177. gr. laga nr. 91/1991 fullnægðu ekki þeim áskilnaði sem tilgreindur væri í 2. mgr. 177. gr. laganna.

Málsatvik

10. Hinn 4. mars 2018 var sýndur í D þáttur í sjónvarpsþáttaröðinni […] þar sem birt voru viðtöl sem aðaláfrýjandi hafði tekið í ágúst 2017 við B. Áður mun kynningarstikla um þáttinn hafa verið sýnd í D og stutt kynning um hann birt á vef þess. Aðaláfrýjandi og C önnuðust dagskrárgerð þáttarins og aðaláfrýjandi samdi handrit og hafði umsjón með gerð hans, allt á grundvelli verktakasamninga sem þeir munu hafa gert við D. Í þáttaröðinni voru meðal annars sýnd viðtöl aðaláfrýjanda við fanga og einstaklinga með vímuefnavanda.

11. Af hálfu aðaláfrýjanda er því haldið fram að þeir D hafi fyrst hitt B í fangelsinu á […] þar sem þeir hafi verið að vinna að umræddri þáttaröð. Þeir hafi kannast við hana frá fyrri tíð þar sem þau hefðu öll unnið saman á sjónvarpsstöð. Meðal annars hafi verið rætt við hana um að koma í viðtal og hún sagst ætla að hugsa málið.

12. Dagana 6. og 7. ágúst 2017 voru aðaláfrýjandi og B í tölvupóstsamskiptum. Í þeim fór aðaláfrýjandi þess á leit að fá að taka viðtal við hana en hún greindi honum meðal annars frá áformum sínum um að standa fyrir tónleikum með íslenskum tónlistarmönnum í […]. Í tölvupósti 7. ágúst ritaði aðaláfrýjandi: „Sæl […] mín, ég er að tala um að fá þig í […] þar sem við gætum rætt um hvað þú ert að gera og um þetta merkilega verkefni þitt sem vel gæti orðið að stórum hlutum. Um leið gæti ég líka spurt þig út í þessa fyrstu daga utan fangelsisins og lífið og tilveruna. Verkefnið gæti þó fengið gott pláss og orðið því til góða. Því meiri umfjöllun, því betra.“ Þessum pósti svaraði hún samdægurs með skilaboðunum: „já, já eigum við ekki bara að negla það niður.“ Hann svaraði: „Verð í bandi þegar við erum klárir“.

13. Síðar í sama mánuði hitti aðaláfrýjandi B við lögreglustöðina við […] í Reykjavík þar sem hún hafði gist fangageymslu um nóttina. Í kjölfarið tók hann upp að minnsta kosti þrjú viðtöl við hana, það er fyrir framan lögreglustöðina, í fjörunni á […] og heima hjá móður hennar. Auk þess tók hann upp viðtal við móður hennar. Í þessum viðtölum var einkum fjallað um reynslu B af áfengisneyslu, samskiptum við yfirvöld og dvöl í fangelsi en einnig um skólagöngu og lífshlaup hennar almennt. Ágreiningur er með aðilum í hvaða röð viðtölin voru tekin og hvort þau voru öll tekin sama dag eða á þremur dögum.

14. Svohljóðandi tölvupóstur B barst aðaláfrýjanda 5. febrúar 2018: „Fínn þátturinn í gær. Mamma sagði mér að það væri eitthvað notað af því sem ég sagði í þáttunum og fjölskyldan mín er fokvond út í mig fyrir að koma fram í þáttunum. Er hægt að taka mig út úr þessu? Hvenær átti þetta annars að koma?”

15. Barnsfaðir B og eiginkona hans rituðu D tölvupóst 28. febrúar 2018 þar sem þau fóru fram á að sjá viðtalið við hana áður en þátturinn yrði sýndur í því skyni að þau gætu búið sig undir að svara spurningum barna sinna þegar þau horfðu á þáttinn. Í tölvupóstinum var ekki vikið að því hvort B hefði samþykkt birtingu viðtalanna eða afturkallað slíkt samþykki. Með tölvupósti 2. mars sama ár kom C á framfæri við þau því svari aðaláfrýjanda að efnið hefði verið unnið í fullkomnu samkomulagi við B og móður hennar. Aðaláfrýjandi kvaðst aldrei hafa veitt neinum aðgang að sjónvarpsefni fyrir sýningu þess og neitaði beiðninni. Eins og áður segir var þátturinn svo sýndur í sjónvarpi 4. mars 2018.

Löggjöf

16. Í málinu reynir meðal annars á 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs en hún er svohljóðandi:

Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. [...]
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.

17. Rétturinn til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu nýtur einnig verndar 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu en hún er svohljóðandi:

1. Sérhver maður á rétt til friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta. [...]

18. Jafnframt reynir í málinu á 73. gr. stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi sem hljóðar svo:

Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.
Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.
Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

19. Tjáningarfrelsið nýtur einnig verndar 10. gr. mannréttindasáttmálans en þar segir:

1. Sérhver maður á rétt til tjáningarfrelsis. Sá réttur skal einnig ná yfir frelsi til að hafa skoðanir, taka við og skila áfram upplýsingum og hugmyndum heima og erlendis án afskipta stjórnvalda. Ákvæði þessarar greinar skulu eigi hindra ríki í að gera útvarps-, sjónvarps- og kvikmyndafyrirtækjum að starfa aðeins samkvæmt sérstöku leyfi.
2. Þar sem af réttindum þessum leiðir skyldur og ábyrgð er heimilt að þau séu háð þeim formsreglum, skilyrðum, takmörkunum eða viðurlögum sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, landvarna eða almannaheilla, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu eða siðgæði manna, mannorði eða réttindum og til þess að koma í veg fyrir uppljóstran trúnaðarmála eða til þess að tryggja vald og óhlutdrægni dómstóla.

20. Þegar atvik málsins gerðust voru í gildi lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga en eftirfarandi ákvæði laganna hafa þýðingu við úrlausn málsins:

2. gr. Skilgreiningar.
Merking orða og hugtaka í lögum þessum er sem hér segir:
1. Persónuupplýsingar: Sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi.
2. Vinnsla: Sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn. [...]
7. Samþykki: Sérstök, ótvíræð yfirlýsing sem einstaklingur gefur af fúsum og frjálsum vilja um að hann sé samþykkur vinnslu tiltekinna upplýsinga um sig og að honum sé kunnugt um tilgang hennar, hvernig hún fari fram, hvernig persónuvernd verði tryggð, um að honum sé heimilt að afturkalla samþykki sitt o.s.frv. [...]
8. Viðkvæmar persónuupplýsingar: [...]
b. Upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, kærður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað.
c. Upplýsingar um heilsuhagi, þar á meðal um erfðaeiginleika, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun. [...]
5. gr. Tengsl við tjáningarfrelsi.
Að því marki sem það er nauðsynlegt til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar má víkja frá ákvæðum laganna í þágu fjölmiðlunar, lista eða bókmennta. Þegar persónuupplýsingar eru einvörðungu unnar í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi gilda aðeins ákvæði 4. gr., 1. og 4. tölul. 7. gr., 11.–13. gr. og 24., 28., 42. og 43. gr. laganna. [...]
7. gr. Meginreglur um gæði gagna og vinnslu.
Við meðferð persónuupplýsinga skal allra eftirfarandi þátta gætt:
1. Að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga. [...]
4. að þær séu áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum, persónuupplýsingar sem eru óáreiðanlegar eða ófullkomnar, miðað við tilgang vinnslu þeirra, skal afmá eða leiðrétta;
5. að þær séu varðveittar í því formi að ekki sé unnt að bera kennsl á skráða aðila lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslu. [...]
8. gr. Almennar reglur um heimildir fyrir vinnslu persónuupplýsinga.
Vinnsla persónuupplýsinga er því aðeins heimil að einhverjir eftirfarandi þátta séu fyrir hendi:
1. hinn skráði hafi ótvírætt samþykkt vinnsluna eða veitt samþykki skv. 7. tölul. 2. gr. [...]
9. gr. Sérstök skilyrði fyrir vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga.
Vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga er óheimil nema uppfyllt sé eitthvert af skilyrðum 1. mgr. 8. gr. og enn fremur eitthvert af eftirfarandi skilyrðum: 1. hinn skráði samþykki vinnsluna; [...]

Niðurstaða

21. Áður en tekin verður afstaða til efnislegs ágreinings málsaðila verður leyst úr því hvort tvær tilgreindar málsástæður aðaláfrýjanda komast að í málinu. Að því búnu verður fjallað um að hvaða marki ákvæðum laga nr. 77/2000 verður beitt við úrlausn málsins. Að fenginni niðurstöðu um það álitaefni verður tekin afstaða til þess hvort aðaláfrýjandi hafi brotið gegn friðhelgi einkalífs B með þeim hætti að hún hafi öðlast rétt til miskabóta úr hendi hans.

Um málsástæður

22. Af hálfu gagnáfrýjanda er byggt á því að sú málsástæða aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti að ákvæði laga nr. 77/2000 um samþykki og afturköllun þess eigi ekki við vegna undanþáguákvæðis 5. gr. laganna sé of seint fram komin og að ekki verði á henni byggt við úrlausn málsins.

23. Ekki er vikið að 5. gr. laganna í greinargerð aðaláfrýjanda í héraði en í greinargerð meðstefnda í héraði, D, var sérstaklega vísað til þess að gæta yrði að 5. gr. laga nr. 77/2000 og málatilbúnaði B byggðum á þeim lögum mótmælt. Í héraðsdómi var fyrst og fremst tekin afstaða til þess hvort B hefði samþykkt birtingu viðtalanna og hvort hún hefði afturkallað slíkt samþykki. Ekki var í niðurstöðukafla dómsins sérstaklega vikið að 5. gr. eða öðrum ákvæðum laganna. Þar var meðal annars komist að þeirri niðurstöðu að enginn stefndu hefði með birtingu viðtalanna brotið gegn ákvæðum 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ákvæðum laga nr. 77/2000, 71. gr. stjórnarskrárinnar eða 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Hvorki birting viðtalanna né kynningarefnis var talinn geta verið grundvöllur miskabóta.

24. Í greinargerð B til Landsréttar var mótmælt þeirri málsástæðu D. að undanþáguákvæði 5. gr. laga nr. 77/2000 ætti við í málinu. Af hálfu aðaláfrýjanda var ekki vikið sérstaklega að þessu atriði í greinargerð til Landsréttar. Í dómi Landsréttar var fjallað um undanþáguákvæðið og komist að þeirri niðurstöðu að í ljósi efnistaka yrði ekki talið að þátturinn hefði eingöngu verið unninn í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi. Að virtum þeim viðkvæmu persónuupplýsingum um einkamálefni B sem fram kæmu í þættinum taldi Landsréttur að ekki yrði vikið frá kröfum um samþykki samkvæmt 8. og 9. gr., sbr. 7. tölulið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 77/2000.

25. Í greinargerð beggja málsaðila til Hæstaréttar var fjallað um þýðingu 5. gr. laga nr. 77/2000 fyrir úrlausn málsins en því haldið fram af hálfu gagnáfrýjanda eins og fyrr segir að málsástæða aðaláfrýjanda þar að lútandi væri of seint fram komin.

26. Málsástæða hefur verið talin staðhæfing aðila um atvik eða staðreyndir sem hann telur að leiði til þess samkvæmt lögum að krafa hans verði tekin til greina. Málsástæður og lagarök geta tvinnast svo saman að örðugt er að gera greinarmun þar á.

27. Mál þetta var upphaflega höfðað gegn aðaláfrýjanda og tveimur öðrum til greiðslu miskabóta og var kröfunni beint að þeim óskipt á grundvelli samlagsaðildar samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Um málsforræði og ábyrgð hvers samlagsaðila til varnar á málatilbúnaði sínum gildir sú regla að honum er almennt ekkert hald í málsástæðu sem meðstefndi en ekki hann sjálfur teflir fram. Um tvö eða fleiri sjálfstæð sakarefni er þar að ræða sem dómara ber að fjalla um með aðskildum hætti á grundvelli þeirra málsástæðna sem aðilar að hverju sakarefni um sig tefla fram.

28. Í 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 er orðuð svokölluð útilokunarregla sem er ein af meginreglum einkamálaréttarfars. Ákvæðið er þess efnis að málsástæður og mótmæli skuli koma fram jafnskjótt og tilefni verður til. Að öðrum kosti megi ekki taka slíkar yfirlýsingar til greina nema gagnaðili samþykki eða aðili hafi þarfnast leiðbeininga dómara en ekki fengið þær. Málsástæður eru samkvæmt 2. mgr. 111. gr. sömu laga á forræði málsaðila og má dómari ekki byggja niðurstöðu sína á málsástæðu eða mótmælum sem hefðu mátt koma fram en gerðu það ekki við meðferð máls. Öðru máli gegnir hins vegar um lagarök en dómara er rétt að byggja niðurstöðu máls á þeim lagarökum sem hann telur að eigi við hverju sinni án tillits til þess hvort þeim hafi verið teflt fram.

29. Meginmálsástæða B og síðar gagnáfrýjanda hefur frá upphafi verið að aðaláfrýjandi og meðstefndu hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið henni miska með birtingu sjónvarpsþáttar með viðtölum við hana þar sem fram hafi komið viðkvæmar persónulegar upplýsingar. Hún hefði ekki samþykkt að viðtölin yrðu sýnd og í öllu falli afturkallað slíkt samþykki. Þessi málsástæða er studd ýmsum lagarökum og meðal annars vísað til 7. töluliðar 1. mgr. 2. gr. og 1. töluliðar 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Þessari málsástæðu hefur aðaláfrýjandi frá upphafi mótmælt meðal annars með þeim rökum að hann hefði hvorki unnið né skráð persónuupplýsingar hennar í skilningi laga nr. 77/2000 og að tilvísanir til laganna um samþykki og afturköllun ættu ekki við. Því yrði miskabótakrafa á hendur honum ekki reist á þeim.

30. Í ljósi þess að aðaláfrýjandi hafði þegar byggt mótmæli sín á því að tilvísanir til lagaákvæða um samþykki og afturköllun í lögum nr. 77/2000 ættu ekki við í málinu er rétt að líta á síðbúna tilvísun hans til 5. gr. laganna sem lagaatriði en ekki nýja málsástæðu. Við úrlausn málsins fyrir Hæstarétti verður því, eins og gert var fyrir Landsrétti, tekin afstaða til þess hvort víkja skuli frá fyrirmælum laga nr. 77/2000 vegna undanþáguákvæðis 5. gr. laganna.

31. Í greinargerð aðaláfrýjanda í héraði er því jafnframt haldið fram að ef fallist yrði á málatilbúnað gagnáfrýjanda væri tjáningarfrelsi fjölmiðlamanna settar slíkar skorður að ekki stæðist tjáningarfrelsisákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar. Þessari málsástæðu hefur þannig verið haldið fram af hálfu aðaláfrýjanda frá upphafi.

Persónuverndarlöggjöf

32. Þegar atvik máls þessa gerðust voru sem fyrr segir í gildi lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

33. Þær upplýsingar um B sem fram komu í fyrrnefndum viðtölum við hana lutu meðal annars að fíkn hennar, refsiverðri háttsemi, fangelsisvist og auðmýkjandi aðstæðum og atvikum í lífi hennar. Sama máli gegnir um upplýsingar sem aðaláfrýjandi kom á framfæri um hana í þættinum og upplýsingar í kynningarefni um þáttinn. Óumdeilt er að um var að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi 8. töluliðar 2. gr. laga nr. 77/2000. Þá fól upptaka á viðtölum við B, vinnsla þeirra fyrir þáttinn […] og sýning þáttarins, án þess að upplýsingar um hana væru gerðar ópersónugreinanlegar, í sér vinnslu persónuupplýsinga í skilningi 2. töluliðar 2. gr. laganna.

34. Í málinu reynir á hvort umrædd vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga falli undir undanþáguákvæði 5. gr. laga nr. 77/2000. Í greininni er annars vegar kveðið á um með almennum hætti að heimilt sé að víkja frá ákvæðum laganna í þágu fjölmiðlunar, lista og bókmennta og hins vegar mælt fyrir um þá undanþágureglu að þegar persónuupplýsingar séu einvörðungu unnar í þágu fréttamennsku, bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi skuli aðeins tiltekin ákvæði laganna gilda. Til þess að skera úr um þetta þarf annars vegar að taka afstöðu til þess hvaða skilning eigi að leggja í orðin fjölmiðlun og fréttamennsku í 5. gr. laganna og hvort á þeim sé efnislegur munur. Hins vegar þarf að meta hvort nauðsynlegt sé að víkja frá ákvæðum laganna í máli þessu með hliðsjón af því sanngjarna jafnvægi sem leita verður eftir þegar tjáningarfrelsi fjölmiðla rekst á við friðhelgi einkalífs.

35. Í 5. gr. laga nr. 77/2000 felst viðurkenning á mikilvægi fjölmiðlunar í nútímalýðræðisríki og því hlutverki fjölmiðla að miðla upplýsingum og skoðunum um þjóðfélagsleg málefni. Í 13. tölulið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla er fjölmiðill skilgreindur sem hvers konar miðill sem með reglubundnum hætti miðlar til almennings efni er lýtur ritstjórn. Til fjölmiðla teljist meðal annars dagblöð og tímarit, ásamt fylgiritum þeirra, netmiðlar, hljóð- og myndmiðlar og aðrir sambærilegir miðlar.

36. Ákvæði 5. gr. er efnislega hliðstætt 6. gr. núgildandi laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 77/2000 sagði um 5. gr. að ákvæðið væri byggt á 9. gr. tilskipunar 95/46/EB sem fjallar um að hvaða marki mæla þurfi fyrir um undanþágur varðandi meðferð persónuupplýsinga hjá fjölmiðlum eða í tengslum við listræna og bókmenntalega tjáningu. Í athugasemdunum er hins vegar ekki að finna skýringar á því hvers vegna orðin „í þágu fjölmiðlunar“ og „í þágu fréttamennsku“ eru notuð jöfnum höndum í 5. gr. laganna. Umrætt ákvæði 9. gr. tilskipunarinnar var þannig í íslenskri þýðingu:

Aðildarríkin skulu því aðeins kveða á um undanþágur eða frávik frá ákvæðum þessa kafla, IV. kafla og VI. kafla vegna vinnslu persónuupplýsinga sem fer einungis fram vegna fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi, að það sé nauðsynlegt til að samræma réttinn til friðhelgi einkalífs og reglur um tjáningarfrelsi.

Í íslenskri útgáfu tilskipunarinnar er þannig notað orðið fréttamennska þótt í enskri útgáfu hennar sé notað orðasambandið „journalistic purposes” sem almennt mun vera þýtt á íslensku sem í þágu blaðamennsku.

37. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679 um vernd einstaklinga í tengslum við miðlun persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga leysti af hólmi fyrrgreinda tilskipun 95/46/EB. Reglugerðin var innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 90/2018 en 6. gr. þeirra laga er sem fyrr segir efnislega hliðstæð 5. gr. laga nr. 77/2000. Í 153. lið formála reglugerðarinnar segir meðal annars að vinnsla persónuupplýsinga, sem fari einungis fram í þágu fréttamennsku eða fræðimennsku eða listrænnar eða bókmenntalegrar tjáningar, „ætti að vera háð undanþágum eða frávikum frá tilteknum ákvæðum“ reglugerðarinnar ef það væri nauðsynlegt til að samræma réttinn til verndar persónuupplýsingum og til tjáningar- og upplýsingafrelsis sem tryggður væri með 11. gr. sáttmálans um grundvallarréttindi. Í niðurlagi segir síðan að með tilliti til mikilvægis réttarins til tjáningarfrelsis í hverju lýðræðisþjóðfélagi væri nauðsynlegt að túlka hugtök vítt í tengslum við það frelsi, svo sem fréttamennsku.

38. Í forúrskurði Evrópudómstólsins 16. desember 2008 í máli nr. C-73/07, Persónuverndarstofnun Finnlands gegn Satakunnan Markkinapörssi Oy og Satamedia Oy var leyst úr spurningum frá æðsta stjórnsýsludómstóli Finnlands vegna máls sem sprottið var af birtingu upplýsinga um tekjur 1,2 milljóna Finna meðal annars í fjölmiðlum. Fyrir dómstólnum lá að skera úr um hvort um óheimila vinnslu persónuupplýsinga hefði verið að ræða. Í forúrskurðinum kom fram að slík starfsemi teldist til fjölmiðlunar (journalistic activities) ef markmiðið væri að miðla til almennings upplýsingum, skoðunum eða viðhorfum, óháð tegund miðils sem notuð væri til að miðla þeim og jafnframt óháð því hver stæði að miðluninni og hvort hún væri í hagnaðarskyni. Þá var 9. gr. tilskipunar 95/46/EB túlkuð með þeim hætti að undanþágunni yrði aðeins beitt ef það væri augljóslega nauðsynlegt til þess að ná jafnvægi milli friðhelgi einkalífs og tjáningarfrelsis. Komist var að þeirri niðurstöðu að leggja þyrfti til grundvallar að sú starfsemi sem fólst í birtingu skattaupplýsinga teldist vinnsla persónuupplýsinga eingöngu í þágu fréttamennsku, í skilningi tilskipunarinnar, ef eina markmið þeirrar starfsemi væri að veita almenningi aðgang að upplýsingum, skoðunum eða hugmyndum. Hlutverk landsdómstólsins væri að skera úr því.

39. Sú ályktun verður dregin af öllu framangreindu að ekki séu efni til að leggja mismunandi skilning í orðin fjölmiðlun og fréttamennsku í 5. gr. laga nr. 77/2000 og að í báðum tilvikum sé átt við þá starfsemi fjölmiðla að miðla til almennings upplýsingum, skoðunum og hugmyndum. Þá beri að skýra orðin fjölmiðlun og fréttamennsku í greininni rúmt. Jafnframt liggur fyrir að 5. gr. laga nr. 77/2000 tekur ekki aðeins til fjölmiðlanna sjálfra heldur einnig þeirra sem stunda fjölmiðlun og leggja þeim til efni hvort sem þeir eru starfsmenn eða verktakar eins og aðaláfrýjandi var. Af orðalagi 5. gr. laga nr. 77/2000 og að öllu framangreindu gættu er ljóst að markmið greinarinnar er að leita sanngjarns jafnvægis milli tvenns konar stjórnarskrárvarinna mannréttinda, annars vegar tjáningarfrelsis sem varið er af 73. gr. stjórnarskrárinnar og hins vegar friðhelgi einkalífs sem varið er af 71. gr. hennar.

40. Að framangreindri niðurstöðu fenginni liggur fyrir að meta á grundvelli 5. gr. laga nr. 77/2000 hvort og þá að hvaða marki þeim lögum verði beitt við úrlausn málsins.

41. Í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar er sem fyrr segir kveðið á um að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu en í 3. mgr. segir að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. megi með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra. Ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar á sér samsvörun í fyrrgreindri 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

42. Í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið talið að vernd persónuupplýsinga hafi grundvallarþýðingu fyrir einstakling svo að hann geti notið réttar til einkalífs og fjölskyldulífs sem verndaður sé af 8. gr. mannréttindasáttmálans, sbr. dóm 4. desember 2008 í sameinuðum málum nr. 30562/04 og 30566/04, S. og Marper gegn Bretlandi og 27. júní 2017 í máli nr. 931/13, Satakunnan Markkinapörssi OY og Satamedia OY gegn Finnlandi.

43. Tjáningarfrelsi nýtur verndar 73. gr. stjórnarskrárinnar og má því aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum, sbr. 3. mgr. 73. gr.

44. Það hlutverk fjölmiðla að hlúa að rétti almennings til að taka á móti og miðla upplýsingum og hugmyndum hefur verið viðurkennt í fjölda dóma Hæstaréttar Íslands, þar á meðal dómum 24. nóvember 2011 í máli nr. 100/2011 og 15. nóvember 2012 í máli nr. 69/2012. Talið hefur verið að í lýðræðisþjóðfélagi þurfi sérstaklega ríkar ástæður til að nauðsynlegt geti talist að skerða frelsi fjölmiðla til að birta tilteknar upplýsingar.

45. Tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar á sér samsvörun í fyrrgreindri 10. gr. mannréttindasáttmálans. Í dómum mannréttindadómstólsins hefur ítrekað verið lögð áhersla á að tjáningarfrelsi sé einn mikilvægasti grundvöllur lýðræðislegs samfélags og að undantekningar frá greininni verði að túlka þröngt. Þörfin fyrir sérhverja takmörkun á því verði að vera rökstudd með sannfærandi hætti, sbr. til dæmis fyrrnefndan dóm í máli Satakunnan Markkinapörssi OY og Satamedia OY gegn Finnlandi.

46. Þá hafa sjónarmið um ríkt tjáningarfrelsi fjölmiðla komið fram í fjölda dóma mannréttindadómstólsins svo sem í dómum 29. mars 2001 í máli nr. 38432/97, Thoma gegn Lúxemborg og 8. nóvember 2016 í máli nr. 18030/11, Magyar Helsinki Bizottság gegn Ungverjalandi.

47. Við mat á því hvort vega eigi þyngra tjáningarfrelsi aðaláfrýjanda eða friðhelgi einkalífs B þegar komist er að niðurstöðu um hvort beita eigi undanþáguákvæði 5. gr. laga nr. 77/2000 er rétt að líta til þeirra meginreglna og viðmiða sem mannréttindadómstóllinn hefur mótað í dómum sínum. Um það vísast í dæmaskyni til tveggja dóma 7. febrúar 2012, í máli nr. 39954/08, Axel Springer AG gegn Þýskalandi og í sameinuðum málum nr. 40660/08 og 60641/08, Von Hannover gegn Þýskalandi (NR. 2), dóms 10. nóvember 2015 í máli nr. 40454/07, Couderc og Hachette Filipacchi Associés gegn Frakklandi og fyrrgreinds dóms í máli Satakunnan Markkinapörssi OY og Satamedia OY gegn Finnlandi.

48. Jafnframt hefur verið byggt á þessum meginreglum og viðmiðum í dómum Hæstaréttar, sbr. meðal annars 22. mars 2019 í máli nr. 29/2018 og 9. febrúar 2022 í máli nr. 38/2021.

49. Heimildir til að takmarka tjáningarfrelsi samkvæmt 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmálans ber að túlka þröngt og þær þurfa að grundvallast á nauðsyn í lýðræðisþjóðfélagi. Þá ber að gæta meðalhófs við úrlausn þess hvort skorður við því frelsi teljist þjóðfélagsleg nauðsyn. Í samræmi við framangreint nýtur umræða um mikilvæg þjóðfélagsmál aukinnar verndar tjáningarfrelsis. Eru almennt líkur til þess að umræða um slík mál teljist framlag sem eigi erindi við almenning og hefur heimild til slíkrar umfjöllunar verið túlkuð rúmt. Um þetta vísast til langrar dómaframkvæmdar Hæstaréttar og Mannréttindadómstóls Evrópu og má nefna dóma Hæstaréttar 28. maí 2009 í máli nr. 575/2008 og fyrrgreindan dóm í máli nr. 100/2011, svo og dóma mannréttindadómstólsins 4. maí 2017 í máli nr. 44081/13, Reynir Traustason o.fl. gegn Íslandi og 10. júlí 2012 í máli nr. 46443/09, Björk Eiðsdóttir gegn Íslandi.

50. Í þættinum […], þar sem rætt var við B, voru sýnd viðtöl við fanga og þeim gefinn kostur á að segja frá lífshlaupi sínu, fíkn, brotum, fangavist og afleiðingum hennar. Í engu tilviki var nafni leynt eða viðmælendur gerðir óþekkjanlegir. Aðstæður fanga voru þannig dregnar fram í dagsljósið frá þeirra eigin sjónarhorni á mjög persónulegan hátt. Hafið er yfir vafa að málefni fanga og aðbúnaður í fangelsum er efni sem hefur mikla samfélagslega þýðingu og að sjónvarpsþátturinn […] hafði að geyma framlag til mikilvægrar umræðu í þjóðfélaginu um það málefni.

51. Þótt komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að umfjöllun um B hafi verið framlag til mikilvægrar þjóðfélagsumræðu þarf að skoða hvort sú vinnsla persónuupplýsinga um hana sem fram fór með viðtölum við hana, vinnslu þáttarins og sýningu hafi eingöngu verið í þágu fjölmiðlunar eða fréttamennsku samkvæmt 5. gr. laga nr. 77/2000 eins og hún hefur verið skýrð samkvæmt framansögðu. Í því sambandi þarf að huga að því að birting upplýsinga um persónuleg málefni einstaklings má ekki hafa þann eina tilgang að svala forvitni almennings eða vekja sterkar tilfinningar. Sú aðferð sem notuð var í þættinum við að miðla til áhorfenda upplýsingum um stöðu og aðbúnað fanga fól sem fyrr segir í sér að B og fleiri fangar sem ekki geta talist þjóðþekktir komu fram undir nafni og sögðu sína sögu. Þegar litið er til þess að B var ekki þjóðþekktur einstaklingur og í viðtölunum var ekki verið að svipta hulu af leyndarmálum er ekki unnt að líta svo á að markmiðið með sýningu þeirra hafi verið að svala forvitni almennings. Þótt frásögnin hafi um margt verið átakanleg var uppbygging þáttarins og framsetning efnis ekki með þeim hætti að höfðað hafi verið sérstaklega til tilfinningasemi áhorfenda. Af efni sjónvarpsþáttarins má ráða að viðtöl sem tekin voru við B og móður hennar og annað myndefni var ekki birt óunnið heldur raðað saman með þeim hætti að hæfði efnistökum þáttarins og því markmiði að miðla upplýsingum um bakgrunn, aðstæður og skoðanir fanga.

52. Af hálfu gagnáfrýjanda er ekki á því byggt að upplýsingar um B sem komu fram í sjónvarpsþættinum og kynningarefni með honum hefðu verið rangar eða í þeim hefðu falist ærumeiðingar. Þá er ekki byggt á því að upplýsinganna hafi verið aflað með ólögmætum hætti. Fyrir liggur að uppistaðan í umfjöllun um hana var birting viðtala við hana og móður hennar. Þær viðbótarupplýsingar um hana sem aðaláfrýjandi setti fram í sjónvarpsþættinum og fram komu í kynningarefni lutu einkum að því að hún hefði verið samtals […] í fangelsi og fyrir hvaða brot. Slíkar upplýsingar komu þó fram með óbeinum hætti í hinum birtu viðtölum við hana og höfðu auk þess komið fram í tímaritsgreinum sem ekki hefur verið andmælt af hálfu gagnáfrýjanda að hún hafi ritað.

53. Að öllu framangreindu gættu telst nauðsynlegt til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs B og tjáningarfrelsis aðaláfrýjanda í þágu fjölmiðlunar að víkja frá ákvæðum laga nr. 77/2000 við úrlausn þessa máls. Þar sem persónuupplýsingar um B í sjónarvarpsþættinum […] teljast eingöngu hafa verið unnar í þágu fréttamennsku í skilningi 5. gr. laganna verður ákvæðum þeirra, þar á meðal um samþykki og afturköllun þess ekki beitt, sbr. þó niðurlag síðara málsliðs þeirrar greinar.

54. Samkvæmt framansögðu gilda þó, sbr. síðari málslið 5. gr. laga nr. 77/2000, meginreglur sem fram koma í 1. og 4. tölulið 7. gr. laganna um vinnslu persónuupplýsinga um B. Þær kveða svo á um að við meðferð persónuupplýsinga skuli þess gætt að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti, öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga og að þær séu áreiðanlegar. Með vísan til alls framangreinds verður ekki talið að umfjöllunin, sem að stærstum hluta fólst í birtingu viðtala við B, hafi verið ósanngjörn í hennar garð eða ómálefnaleg. Þá hefur ekki af hálfu gagnáfrýjanda verið haldið fram að upplýsinga um hana hafi verið aflað með ólögmætum hætti eða bornar brigður á að þær hafi verið áreiðanlegar.

Friðhelgi einkalífs og tjáningarfrelsi

55. Enda þótt komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að vinnsla persónuupplýsinga um B í tengslum við vinnslu og birtingu sjónvarpsþáttarins […] hafi eingöngu verið í þágu fréttamennsku og fjölmiðlunar þarf að skera úr um það ágreiningsefni aðila hvort friðhelgi einkalífs hennar hafi allt að einu verið skert meira en nauðsynlegt var í þágu þess tjáningarfrelsis sem fjölmiðlar njóta þannig að skapast hafi skilyrði til greiðslu miskabóta. Við úrlausn þess reynir með svipuðum hætti og rakið er hér að framan á samspil réttarins til að njóta friðhelgi einkalífs og réttar til tjáningarfrelsis.

56. Af hálfu gagnáfrýjanda er því haldið fram að með birtingu viðkvæmra persónuupplýsinga um hana hafi verið brotið gegn friðhelgi einkalífs B sem njóti meðal annars verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar. Brotið hafi falist í því að ekki hafi legið fyrir samþykki hennar fyrir birtingu allra viðtalanna. Hún hafi auk þess fyrir sýningu sjónvarpsþáttarins afturkallað það samþykki sem hún hafði gefið og því hafi ekkert samþykki verið til staðar þegar þátturinn var sýndur. Hana hafi auk þess skort hæfi til að veita samþykki sitt vegna þess ástands sem hún var í þegar viðtölin voru tekin en hún var þá nýlega laus úr næturlangri vist í fangaklefa. Af hálfu aðaláfrýjanda er því sem fyrr segir haldið fram að samþykki hennar hafi legið fyrir í orði og verki og því andmælt að brotið hafi verið gegn friðhelgi einkalífs hennar.

57. Við mat á því hvort tjáningarfrelsi aðaláfrýjanda eigi að vega þyngra en friðhelgi einkalífs B er, eins og rakið er að framan, nauðsynlegt að líta til þeirra meginreglna og viðmiða sem Hæstiréttur hefur byggt á þegar þessum tvenns konar réttindum lýstur saman. Hefur í þeim efnum verið litið til fyrrgreindrar dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu. Heimildir til að takmarka tjáningarfrelsið ber að túlka þröngt og þurfa þær að grundvallast á nauðsyn í lýðræðisþjóðfélagi. Þá ber að gæta meðalhófs við úrlausn þess hvort skorður á því frelsi teljast þjóðfélagsleg nauðsyn. Í samræmi við framangreint nýtur umræða um mikilvæg þjóðfélagsmál aukinnar verndar tjáningarfrelsis.

58. Hér að framan hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að hafið væri yfir vafa að málefni fanga og aðbúnaður í fangelsum sé efni sem hefur mikla samfélagslega þýðingu og að sjónvarpsþátturinn […] hafi haft að geyma framlag til mikilvægrar þjóðfélagslegrar umræðu um það málefni. Þá hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að markmið með sýningu viðtalanna við B hafi ekki verið að svala forvitni almennings eða höfða til tilfinningasemi áhorfenda. Þá ber að líta til þess að af hálfu gagnáfrýjanda hefur ekki verið á því byggt að upplýsingar um hana í sjónvarpsþættinum og kynningarefni með honum hafi verið rangar eða í þeim hefðu falist ærumeiðingar. Þá hefði heldur ekki verið byggt á því að upplýsinganna hafi verið aflað með ólögmætum hætti. Eins og áður hefur verið komist að niðurstöðu um telst umfjöllunin hvorki hafa verið ómálefnaleg né ósanngjörn í hennar garð.

59. Eins og áður er rakið var það mikilvægur þáttur í framsetningu þess efnis sem sýnt var í þættinum að viðmælendur aðaláfrýjanda, sem allir höfðu dvalið í fangelsi, komu fram undir nafni, án þess að andlit þeirra væru hulin og sögðu þannig sögu sína. Ekki er byggt á því af hálfu gagnáfrýjanda að B hafi gert kröfu um að við birtingu viðtalanna yrði hún gerð óþekkjanleg eða að það hafi verið forsenda þess að þau væru birt.

60. Við mat á því hvort nauðsynlegt hafi verið, í þágu þess víðtæka tjáningarfrelsis sem aðaláfrýjandi naut samkvæmt framansögðu, að birta viðtölin við B í þættinum án þess að hún væri gerð ópersónugreinanleg verður sem fyrr segir að horfa til réttar hennar til friðhelgi einkalífs og þess að gæta verði meðalhófs. Niðurstaða þess mats er sú að þar sem hún telst ekki hafa verið þjóðþekktur einstaklingur hafi tjáningarfrelsi aðaláfrýjanda ekki getað réttlætt birtingu svo viðkvæmra persónugreinanlegra upplýsinga um hana nema samþykki hennar lægi fyrir. Við þessar kringumstæður veltur niðurstaða málsins á því hvort samþykki hennar fyrir birtingu viðtalanna hafi legið fyrir þegar sjónvarpsþátturinn var sýndur og hvort hún telst hafa verið hæf til að veita slíkt samþykki. Verður nú nánar vikið að því atriði.

61. Af hálfu aðaláfrýjanda hefur því ekki verið andmælt að samþykki B fyrir töku viðtala við hana hafi verið forsenda þess að birta þau í sjónvarpsþættinum. Því er hins vegar haldið fram að hún hafi samþykkt fyrirvaralaust að viðtölin yrðu tekin og verið ljóst að til stæði að sýna þau í sjónvarpi. Þá lýsti lögmaður hans yfir við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti að þátturinn hefði ekki verið sýndur ef hún hefði afturkallað samþykki sitt.

62. Þar sem ákvæðum laga nr. 77/2000 um samþykki verður ekki beitt í málinu verður samkvæmt framansögðu og með hliðsjón af málatilbúnaði aðila að meta á grundvelli almennra sönnunarreglna hvort aðaláfrýjandi hafi verið í góðri trú um að fyrir lægi samþykki B sem ekki hafi verið afturkallað og að hún hafi verið hæf til að veita slíkt samþykki.

63. Aðaláfrýjandi og B áttu í tölvupóstsamskiptum dagana 6. og 7. ágúst 2017 og eru þau rakin hér að framan. Af þessum samskiptum er ljóst að hún þekkti til þáttanna […], efnis þeirra og efnistaka. Þá er ljóst af þessum samskiptum að hún samþykkti að veita viðtal sem birt yrði í slíkum þætti en tímasetning þess hefði ekki verið ákveðin.

64. Óumdeilt er að aðaláfrýjandi hitti B að morgni 15. ágúst 2017 fyrir framan lögreglustöðina við […] þar sem hún hafði gist fangageymslu nóttina áður. Af hálfu gagnáfrýjanda er því haldið fram að fyrsta viðtalið við hana hafi verið tekið fyrir utan lögreglustöðina og án hennar samþykkis. Í stefnu til héraðsdóms var því haldið fram að B hefði eftir það farið heim til móður sinnar þar sem annað viðtalið hefði verið tekið en það þriðja tekið sama dag við fjöruborðið á […]. Í greinargerð hennar til Landsréttar er því aftur á móti haldið fram að annað viðtalið hafi farið fram í fjörunni á […] en eftir það hafi þau aðaláfrýjandi farið á heimili móður hennar þar sem hún hafi farið í sturtu og skipt um föt.

65. Af hálfu aðaláfrýjanda er því hins vegar haldið fram að eftir að þau B hittust við lögreglustöðina hafi þau farið á kaffihús og spjallað saman. Eftir það hafi þau mælt sér mót í fjörunni við […] og þar hafi fyrsta viðtalið farið fram. Þau hafi síðan farið aftur að lögreglustöðinni við […] þar sem sett hafi verið á svið að hún hefði skömmu áður losnað úr fangaklefa. Síðari viðtölin hafi farið fram á heimili móður hennar og fyrir utan heimili föður næstu tvo daga.

66. Ráðið verður af upptöku af viðtali við B og myndskeiðum fyrir utan lögreglustöðina við […] að viðtalið hafi verið sviðsett eins og aðaláfrýjandi heldur fram. Þannig var hún klædd sömu fötum í viðtalinu í fjörunni við […] og við lögreglustöðina en öðruvísi klædd í hinum tveimur viðtölunum. Misvísandi fullyrðingar hafa jafnframt komið fram af hálfu gagnáfrýjanda um röð viðtalanna. Mun líklegra er því að viðtölin hafi farið fram í þeirri röð sem aðaláfrýjandi heldur fram en gagnáfrýjandi telur svo sem héraðsdómur lagði til grundvallar sönnunarmati sínu.

67. Samkvæmt framangreindu er rétt að leggja til grundvallar að B hafi samþykkt fyrirfram að koma fram í þættinum og síðan í verki veitt samþykki sitt fyrir öllum viðtölunum. Ekkert liggur fyrir í málinu um að þetta samþykki hennar hafi verið bundið fyrirvara um sérstakt samþykki fyrir birtingu viðtalanna eða að hún fengi að sjá þáttinn fyrir sýningu hans. Ljóst má vera af fyrrnefndum tölvupóstsamskiptum að aðaláfrýjandi stóð ekki við fyrirheit sem hann gaf B um að hún gæti komið á framfæri í þættinum upplýsingum um fyrirhugaða tónleika á hennar vegum í […] með íslenskum tónlistarmönnum. Ekki er þó unnt að líta svo á að kynning á því verkefni í þættinum væri skilyrði af hennar hálfu fyrir birtingu viðtalanna enda lá ljóst fyrir að aðaláfrýjandi hafði fyrst og fremst í huga að ræða við hana um fangelsisdvöl hennar og lífið og tilveruna fyrstu dagana utan fangelsis.

68. Enda þótt ráða megi af viðtölum þessum við B að hún hafi ekki verið vel fyrir kölluð er ekki unnt að draga þá ályktun að vegna ástands hennar og aðstæðna hafi hana skort hæfi til að veita samþykki sitt fyrir viðtölunum eða að aðaláfrýjandi hefði með réttu mátt draga hæfi hennar til þess í efa. Er þá jafnframt til þess að líta að hún hafði áður í tölvupósti samþykkt viðtal við aðaláfrýjanda vegna sjónvarpsþáttarins.

69. Ekkert liggur fyrir í málinu um að B hafi verið í samskiptum við aðaláfrýjanda frá því að viðtölin fóru fram í ágúst 2017 og þar til honum barst tölvupóstur frá henni 5. febrúar 2018. Allan þann tíma mátti hann því vera í góðri trú um samþykki hennar fyrir birtingu viðtalanna í sjónvarpsþættinum. Þar hrósaði B fyrri þætti um […] en greindi frá óánægju fjölskyldu hennar með að hún kæmi fram í þáttunum. Þá varpaði hún fram eftirfarandi spurningum: „Er hægt að taka mig út úr þessu? Hvenær átti þetta annars að koma?“ Skýra verður efni tölvupóstsins samkvæmt orðanna hljóðan með þeim hætti að B væri að velta fyrir sér möguleikum á að afturkalla samþykki sitt fyrir birtingu viðtalanna fremur en að ráðið verði af efninu að hún hafi gert upp hug sinn um það. Þótt því sé haldið fram af hálfu gagnáfrýjanda að hún hafi fylgt tölvupósti sínum eftir með því að reyna að ná sambandi símleiðis við aðaláfrýjanda liggja engar sannanir fyrir um slíkt. Ljóst er hins vegar að hún lét ekki reyna frekar á þá samskiptaleið sem þau höfðu áður notað. Samkvæmt framangreindu verður það ekki metið aðaláfrýjanda til sakar að hafa ekki litið á tölvupóstinn sem afturköllun á samþykki eða að hafa ekki haft samband við hana til að ganga úr skugga um afstöðu hennar fyrir sýningu þáttarins. Aðaláfrýjandi mátti því líta svo á að fyrra samþykki hennar í orði og verki stæði óhaggað.

70. Af hálfu gagnáfrýjanda er krafa um miskabætur enn fremur byggð á því að framganga aðaláfrýjanda hafi ekki verið í samræmi við 3. gr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands frá árinu 1991. Þannig hafi hann aflað gagna og upplýsinga án tilskilinna leyfa frá B meðal annars um að hún hafi verið vistuð í fangaklefa nóttina áður en viðtölin við hana voru tekin og um ástæður þeirrar vistar. Í umræddri grein siðareglnanna segir að blaðamaður vandi upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýni fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðist allt sem valdið geti saklausu fólki, eða fólki sem eigi um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu.

71. Þegar litið er heildstætt á þær upplýsingar sem B veitti í viðtölunum, meðal annars um brot sín, ítrekaða fangelsisvist og áfengisneyslu, verður ekki talið að þær upplýsingar sem aðaláfrýjandi kom fram með í sjónvarpsþáttunum hafi verið umfram það sem hún sjálf upplýsti. Því er ekki tilefni til þess að álykta að vinnubrögð hans hafi verið í ósamræmi við siðareglur Blaðamannafélagsins.

72. Samkvæmt framansögðu telst aðaláfrýjandi í ljósi þess tjáningarfrelsis sem hann naut sem fjölmiðlamaður ekki hafa brotið gegn friðhelgi einkalífs B með þeim hætti að skylda til greiðslu miskabóta hafi skapast á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

73. Samkvæmt öllu framangreindu verður aðaláfrýjandi sýknaður af öllum kröfum gagnáfrýjanda í máli þessu.

74. Með hliðsjón af því að vinnsla og birting viðkvæmra persónulegra upplýsinga um B var til þess fallin að vekja efasemdir um það hvort farið hafi verið út fyrir þau mörk tjáningarfrelsis, sem aðaláfrýjandi nýtur samkvæmt framansögðu, þykir rétt með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu á öllum dómstigum.

75. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað í héraði og fyrir Landsrétti eru staðfest. Um gjafsóknarkostnað aðaláfrýjanda og gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.

76. Það athugast að á hinum áfrýjaða dómi eru þeir ágallar að fyrir fórst að leysa úr málskostnaðarkröfu B á hendur C og D og úr málskostnaðarkröfum hinna síðarnefndu á hendur henni. Þar sem C og D eru ekki aðilar að málinu fyrir Hæstarétti er sá þáttur málsins ekki til endurskoðunar fyrir réttinum og kemur þessi ágalli ekki til frekari skoðunar.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, A, er sýkn af öllum kröfum gagnáfrýjanda, dánarbús B.

Málskostnaður fellur niður á öllum dómstigum.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað í héraði og fyrir Landsrétti skulu óröskuð.

Allur gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 1.500.000 krónur.

Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 1.500.000 krónur.