Hæstiréttur íslands
Mál nr. 28/2022
Lykilorð
- Endurupptaka
- Endurupptökudómur
- Réttlát málsmeðferð
- Stjórnarskrá
- Mannréttindasáttmáli Evrópu
- Dómari
- Dómstóll
- Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
- Akstur sviptur ökurétti
- Reynslulausn
- Skilorðsrof
- Ómerking dóms Landsréttar
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari.
2. Með úrskurði Endurupptökudóms 31. mars 2022 í máli nr. 3/2022 var fallist á beiðni ákærða um endurupptöku hæstaréttarmálsins nr. 10/2018 sem dæmt var 24. maí 2018.
3. Ákæruvaldið krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur Landsréttar 23. mars 2018 í máli nr. 6/2018 verði ómerktur og málinu vísað aftur til Landsréttar til réttrar og löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Til vara er þess krafist að staðfest verði niðurstaða um sakfellingu ákærða, ákvörðun refsingar og sviptingu ökuréttar.
4. Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað aftur til Landsréttar til réttrar og löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Til vara er þess krafist að ákærða verði ekki gerð refsing en að því frágengnu að hún verði milduð og alfarið bundin skilorði.
5. Málið var dómtekið 9. nóvember 2022 að fenginni yfirlýsingu málflytjenda um að ekki væri þörf munnlegs málflutnings í því, sbr. 3. málslið 1. mgr. 222. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Málsatvik
6. Með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 31. janúar 2017 var ákærða gefið að sök að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti undir áhrifum ávana- og fíkniefna í veg fyrir aðra bifreið með þeim afleiðingum að árekstur varð með bifreiðunum. Hann játaði skýlaust brot þau sem honum voru gefin að sök og í samræmi við það var farið með málið upp frá því eftir 164. gr. laga nr. 88/2008. Með héraðsdómi 23. mars 2017 var ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur í fangelsi í sautján mánuði og sviptur ökurétti ævilangt. Ákærði áfrýjaði dóminum til Hæstaréttar 6. apríl 2017 en þar sem málið var ekki flutt fyrir réttinum fyrir lok þess árs færðist frekari meðferð þess til Landsréttar, sbr. 1. mgr. 78. gr. laga nr. 49/2016, sbr. 76. gr. laga nr. 117/2016, svo sem ákvæðinu var breytt með 4. gr. laga nr. 53/2017.
7. Í tilkynningu Landsréttar til sakflytjenda 29. janúar 2018 kom fram að ákveðinn hefði verið munnlegur málflutningur tilgreindan dag og hverjir sætu í dóminum. Í bréfi til Landsréttar 2. febrúar sama ár var af hálfu ákærða lýst þeirri skoðun að nánar tilgreindir annmarkar hefðu verið á málsmeðferð við skipan fjögurra af fimmtán dómurum við réttinn og væri því unnt að líta svo á að þeir hefðu ekki verið skipaðir í samræmi við lög. Einn þeirra væri meðal dómara sem tilkynnt hefði verið um að tekið hefðu sæti í dómi í málinu. Ákærði krafðist þess því að sá dómari viki sæti. Úrskurður Landsréttar um þá kröfu gekk 22. febrúar 2018 þar sem kröfunni var hafnað. Ákærði kærði úrskurðinn til Hæstaréttar sem með dómi 8. mars 2018 í máli nr. 5/2018 vísaði kærumálinu frá réttinum. Mál ákærða var því flutt að efni til fyrir Landsrétti 13. mars 2018. Landsréttur staðfesti héraðsdóm með dómi sínum 23. sama mánaðar og gerði ákærða að greiða áfrýjunarkostnað málsins.
8. Að fengnu áfrýjunarleyfi 17. apríl 2018 var dómi Landsréttar áfrýjað til Hæstaréttar. Við áfrýjun málsins krafðist ákærði þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur yrði ómerktur en til vara sýknu af kröfum ákæruvaldsins. Að því frágengnu var þess krafist að refsing hans yrði milduð. Ákæruvaldið krafðist staðfestingar dóms Landsréttar. Aðalkrafa ákærða var meðal annars á því reist að málsmeðferð við skipun eins dómara sem dæmt hefði málið í Landsrétti hefði brotið gegn ákvæðum laga nr. 50/2016 um dómstóla og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Skipunin hefði því ekki verið í samræmi við lög svo sem gert sé að fortakslausu skilyrði í 59. gr. stjórnarskrárinnar og í 2. málslið 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Að auki hefði þetta leitt til þess að ákærði hefði fyrir Landsrétti ekki notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli eins og honum væri tryggður réttur til í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 1. málslið 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans.
9. Í dómi Hæstaréttar 24. maí 2018 í máli nr. 10/2018 kom fram að þegar metið væri hvort ákærði hefði vegna eins þeirra dómara sem dæmdi málið í Landsrétti ekki notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli í samræmi við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, yrði að gæta að því að í dómum Hæstaréttar 19. desember 2017 í málum nr. 591/2017 og 592/2017 hefði því verið slegið föstu að slíkir annmarkar hefðu verið á málsmeðferð dómsmálaráðherra í aðdraganda skipunar landsréttardómaranna fimmtán að skaðabótaskyldu hefði varðað af hálfu íslenska ríkisins og hefði því mati ekki verið hnekkt. Við skipun dómaranna hefði á hinn bóginn verið fylgt formreglum III. kafla laga nr. 50/2016 svo og ákvæðum IV. til bráðabirgða við þau lög en þó að því frátöldu að við meðferð Alþingis á tillögum dómsmálaráðherra um skipun dómaranna hefði ekki verið farið að fyrirmælum 2. mgr. bráðabirgðaákvæðisins að því leyti að nauðsyn hefði borið til að greiða atkvæði um skipun hvers dómara fyrir sig en ekki þá alla í senn svo sem gert var. Um það atriði hefði hins vegar þegar verið fjallað í áðurnefndum dómum Hæstaréttar í málum nr. 591/2017 og 592/2017 og komist þar að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið um að ræða annmarka á málsmeðferð sem vægi hefði. Þegar afstaða væri á hinn bóginn tekin til afleiðinga annmarka á málsmeðferð dómsmálaráðherra yrði að líta til þess að ótímabundin skipun allra dómaranna fimmtán við Landsrétt, sem í engu hefði verið ógilt með dómi, hefði orðið að veruleika við undirritun skipunarbréfa þeirra 8. júní 2017. Þau hefðu öll fullnægt skilyrðum 2. mgr. 21. gr. laga nr. 50/2016 til þess að hljóta skipun í þessi embætti þar á meðal skilyrði 8. töluliðar þeirrar málsgreinar að teljast hæf til að gegna þeim í ljósi starfsferils og lögfræðilegrar þekkingar. Frá þeim tíma hefðu þessir dómarar notið þeirrar stöðu samkvæmt 61. gr. stjórnarskrárinnar að þeim yrði ekki vikið úr embætti nema með dómi. Frá því að skipun þeirra hefði tekið gildi hefðu þeir samkvæmt sama ákvæði stjórnarskrárinnar, sbr. og 1. mgr. 43. gr. laga 50/2016, jafnframt borið þá höfuðskyldu að fara í embættisverkum sínum einungis eftir lögum. Þeim hefði einnig verið áskilið með síðastnefndu lagaákvæði sjálfstæði í dómstörfum en jafnframt lagt þar á herðar að leysa þau á eigin ábyrgð og lúta í þeim efnum aldrei boðvaldi annarra. Að þessu öllu virtu væri ekki næg ástæða til að draga á réttmætan hátt í efa að ákærði hefði, þrátt fyrir annmarka á málsmeðferð dómsmálaráðherra, notið í Landsrétti réttlátrar meðferðar máls síns fyrir óháðum og óhlutdrægum dómendum. Samkvæmt þessu var aðalkröfu ákærða hafnað og dómur Landsréttar staðfestur en allur kostnaður af áfrýjun málsins til Hæstaréttar lagður á ríkissjóð.
10. Ákærði kærði meðferð málsins til Mannréttindadómstóls Evrópu 31. maí 2018. Með dómi hans 12. mars 2019 í máli nr. 26374/18 var komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið gegn 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu við skipun eins þeirra dómara sem dæmdu mál ákærða í Landsrétti. Hefði skipan dómsins því ekki verið ákveðin með lögum. Íslenska ríkið skaut málinu til yfirdeildar mannréttindadómstólsins sem staðfesti brot íslenska ríkisins með dómi 1. desember 2020. Yfirdeildin byggði á þriggja þrepa prófi sem í fyrsta lagi fólst í því að kanna hvort um hefði verið að ræða augljóst brot gegn landslögum við málsmeðferðina þegar skipaðir voru dómarar við Landsrétt. Um það þrep prófsins sagði í dóminum að Hæstiréttur Íslands hefði komist að því í fyrrgreindum dómum í málum nr. 591/2017 og 592/2017 og í dómi réttarins í máli ákærða að ekki hefði verið farið að lögum að tvennu leyti við málsmeðferðina þegar skipaðir voru dómarar við Landsrétt. Dómstóllinn tók fram að ekkert tilefni væri til þess að vefengja túlkun Hæstaréttar á innlendum lögum að þessu leyti. Því væri fyrsta skilyrði prófsins uppfyllt, sbr. 254. lið dómsins. Í öðru lagi yrði að skera úr um hvort brot á innlendum lögum hefðu varðað grundvallarreglu um málsmeðferð við skipun í embætti dómara í þeim skilningi að þau hafi verið svo alvarleg að skaðað hafi lögmæti skipunarferlisins og grafið undan sjálfum kjarna réttarins til málsmeðferðar fyrir „dómstóli sem skipaður væri að lögum“. Taldi dómstóllinn að þegar litið væri til brota dómsmálaráðherra og þeirra aðstæðna sem brotin voru framin við væri ekki unnt að afgreiða þau einungis sem tæknilega eða formlega annmarka heldur hefði verið um að ræða alvarlega annmarka sem vörðuðu kjarna réttarins til málsmeðferðar fyrir „dómstóli sem skipaður er að lögum“, sbr. 267. lið dómsins. Þá tók dómstóllinn til skoðunar misfellur á málsmeðferð Alþingis og taldi að þingið hefði ekki rækt þá skyldu sína að tryggja lögmæti skipunarferlisins að því er varðaði dómarana fjóra sem dómsmálaráðherra gerði tillögu um, sbr. 271. lið dómsins. Þriðja þrep prófsins fólst í að kanna hvort um ásakanir varðandi réttinn til málsmeðferðar fyrir ,,dómstóli sem skipaður er að lögum“ hafi verið fjallað með ítarlegum hætti og úrræði veitt af hinum innlendu dómstólum. Um það þrep prófsins sagði dómstóllinn að hann gæti ,,ekki fallist á rannsókn Hæstaréttar í máli kæranda“, þar sem enginn gaumur hafi verið gefinn að álitamálinu hvort tilganginum með þeirri vörn sem felst í hugmyndinni um ,,skipun að lögum“ hafi verið náð, sbr. 286. lið dómsins.
11. Niðurstaða dómstólsins var að ákærða hefði verið synjað um rétt sinn til málsmeðferðar fyrir dómstóli sem skipaður væri að lögum vegna aðkomu dómara að máli hans sem skipaður hefði verið eftir málsmeðferð sem hefði verið spillt með alvarlegum annmörkum sem skert hefðu sjálfan kjarna réttarins sem deilt var um. Brotið hafi verið gegn 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans að þessu leyti, sbr. 289. og 290. lið dómsins.
12. Ákærði kvartaði jafnframt undan því að honum hefði verið synjað um rétt til málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óhlutdrægum dómstóli, eins og kveðið væri á um í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans, þegar litið væri til setu dómarans í málinu, sem dæmdi mál ákærða, þrátt fyrir annmarka á skipun dómarans. Að mati mannréttindadómstólsins stafaði kæran sem vísaði til réttarins til málsmeðferðar fyrir „dómstóli sem skipaður er að lögum“ og „sjálfstæðis og óhlutdrægni“ af sama undirliggjandi vanda, það er annmörkum á skipun þess dómara sem dæmdi mál ákærða. Eins og dómstóllinn hefði komist að niðurstöðu um hefðu annmarkarnir verið svo alvarlegir að þeir „grófu undan sjálfum kjarna réttarins til málsmeðferðar fyrir dómstóli sem skipaður er að lögum“. Að fenginni þeirri niðurstöðu taldi dómstóllinn að það álitamál sem eftir stæði, það er hvort sömu annmarkar hefðu jafnframt sett í uppnám sjálfstæði og óhlutdrægni sama dómstóls þyrfti ekki frekari athugunar við.
13. Dómurinn komst samkvæmt framangreindu samhljóða að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans að því er varðaði réttinn til málsmeðferðar fyrir dómstóli sem skipaður er að lögum, en með tólf atkvæðum gegn fimm að ekki væri þörf á að fjalla um þá kæruliði sem eftir stæðu varðandi 1. mgr. 6. gr. sáttmálans. Þá var það niðurstaða dómstólsins með þrettán atkvæðum gegn fjórum að niðurstaða um brot teldist ein og sér fullnægjandi sanngjarnar bætur fyrir þann miska sem ákærði hefði orðið fyrir. Enn fremur var íslenska ríkið dæmt til að greiða ákærða 20.000 evrur vegna kostnaðar og útgjalda hans.
14. Með beiðni til Endurupptökudóms fór ákærði fram á endurupptöku á fyrrgreindu hæstaréttarmáli nr. 10/2018 á grundvelli a- og d-liða 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Fallist var á beiðni hans með úrskurði Endurupptökudóms 31. mars 2022. Af því tilefni gaf ríkissaksóknari út fyrirkall 4. apríl sama ár sem birt var ákærða 20. sama mánaðar.
Niðurstaða
15. Svo sem að framan greinir hefur ákæruvaldið tekið undir kröfu ákærða um ómerkingu dóms Landsréttar í máli nr. 6/2018. Styðja sakflytjendur þá kröfu sína þeim rökum að dómur í hinu áfrýjaða máli hafi ekki verið skipaður að lögum og vísa um það til fyrrgreinds dóms Mannréttindadómstóls Evrópu 1. desember 2020 í máli nr. 26374/18. Beri því að vísa málinu til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju í Landsrétti.
16. Eins og rakið hefur verið kom fram í dómi Hæstaréttar í máli nr. 10/2018, sem endurupptekið var með úrskurði Endurupptökudóms, að þegar metið væri hvort ákærði hefði notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli í samræmi við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, skyldi gæta að því að í fyrrnefndum dómum Hæstaréttar nr. 591/2017 og 592/2017 hefði verið slegið föstu að slíkir annmarkar hefðu verið á málsmeðferð dómsmálaráðherra í aðdraganda skipunar landsréttardómaranna fimmtán að skaðabótaskyldu hefði varðað af hálfu íslenska ríkisins og hefði því mati ekki verið hnekkt. Á hinn bóginn taldi Hæstiréttur að ekki væri næg ástæða til að draga á réttmætan hátt í efa að ákærði hafi, þrátt fyrir annmarka á málsmeðferð dómsmálaráðherra, notið í Landsrétti réttlátrar meðferðar máls síns fyrir óháðum og óhlutdrægum dómendum.
17. Enda þótt úrlausnir Mannréttindadómstóls Evrópu séu ekki bindandi að íslenskum landsrétti, sbr. 2. gr. laga nr. 62/1994, hefur í dómaframkvæmd Hæstaréttar verið litið til úrlausna dómstólsins við skýringu mannréttindasáttmálans þegar reynir á ákvæði hans sem hluta af íslenskum landsrétti, sbr. dóma Hæstaréttar 19. maí 2005 í máli nr. 520/2004, 22. september 2010 í máli nr. 371/2010, 21. maí 2019 í máli nr. 12/2018 og 18. febrúar 2021 í máli nr. 30/2020.
18. Í ljósi alls ofangreinds, meðal annars þeirra annmarka sem Hæstiréttur taldi hafa verið á málsmeðferð dómsmálaráðherra í aðdraganda skipunar þess dómara sem sat í dómi Landsréttar og dæmdi mál ákærða og með hliðsjón af dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli ákærða verður miðað við að hann hafi ekki notið þeirra réttinda sem sökuðum manni eru áskilin í 2. málslið 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt framansögðu ber að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar þar að nýju.
19. Ákvörðun um sakarkostnað vegna fyrri málsmeðferðar fyrir Landsrétti og nýrrar málsmeðferðar þar bíður nýs dóms í málinu en eins og rakið hefur verið var í dómi Hæstaréttar í máli nr. 10/2018 kveðið svo á um að allur áfrýjunarkostnaður vegna þess sem lauk með þeim dómi yrði lagður á ríkissjóð.
20. Allur áfrýjunarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.
Allur áfrýjunarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar lögmanns, 600.000 krónur.