Hæstiréttur íslands

Mál nr. 37/2024

Markús Sigurðsson, Ragnar Sigurðsson, Styrmir Sigurðsson, Fjöl ehf., Gréta Elín Sörensen, Sína Þorleif Þórðardóttir, Leifur Sörensen, Birgir Sörensen og Straumsbúið sf. (Sigurður Örn Hilmarsson lögmaður)
gegn
Vegagerðinni (Þórður Bogason lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Þinglýsing
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísun frá Landsrétti staðfest

Reifun

Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem málinu var vísað frá Landsrétti á þeim grundvelli að M o.fl. hefðu ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um ákvörðun sýslumanns um að vísa frá þinglýsingu eignayfirlýsingu V um landspildu í landi Ó. Sýslumaður hefði tekið nýja ákvörðun um að þinglýsa eignayfirlýsingunni í samræmi við úrskurð héraðsdóms. Hæstiréttur staðfesti hinn kærða úrskurð með vísan til forsendna.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. júlí 2024 en kærumálsgögn bárust réttinum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 25. júní 2024 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 6. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978.

3. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þeir að varnaraðila verði gert að greiða hverjum þeirra fyrir sig kærumálskostnað fyrir Landsrétti og Hæstarétti.

4. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar óskipt úr hendi sóknaraðila að mati Hæstaréttar.

5. Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar, sbr. einnig til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 17. janúar 1991 í máli nr. 344/1990 sem birtur er á bls. 49 í dómasafni réttarins það ár, verður hann staðfestur.

6. Rétt þykir með hliðsjón af málavöxtum að kærumálskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.