Hæstiréttur íslands
Mál nr. 1/2025
Lykilorð
- Kærumál
- Stefna
- Stefnubirting
- Frávísunarúrskurður Landsréttar staðfestur
- Frávísun frá héraðsdómi staðfest
- Sératkvæði
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Skúli Magnússon.
2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar 18. desember 2024 en kærumálsgögn bárust réttinum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 6. desember 2024 þar sem staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að vísa málinu frá dómi. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila fyrir Landsrétti og Hæstarétti.
3. Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.
Ágreiningsefni
4. Mál þetta snýst um hvort stefnu hafi verið komið á framfæri við varnaraðila þannig að fullnægt hafi verið áskilnaði a-liðar 3. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en varnaraðili staðfesti móttöku stefnunnar með rafrænni undirskrift. Málinu var vísað frá héraðsdómi þar sem stefnan var ekki talin hafa verið birt í samræmi við ákvæði XIII. kafla laga nr. 91/1991. Sú niðurstaða var staðfest með hinum kærða úrskurði.
5. Kæruleyfi í málinu var veitt 14. janúar 2025, með ákvörðun réttarins nr. 2024-179, á þeim grunni að úrlausn um kæruefnið gæti haft fordæmisgildi þannig að fullnægt væri skilyrðum 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður
Helstu málsástæður sóknaraðila
6. Sóknaraðili byggir á því að rafræn undirritun á stefnu uppfylli skilyrði a-liðar 3. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991, sbr. lög nr. 55/2019 um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti. Að virtu eðli og inntaki rafrænnar undirskriftar feli hún í sér yfirlýsingu gagnaðila um að eintak stefnu hafi verið afhent honum í skilningi a-liðar 3. mgr. 83. gr. laganna. Af lögum nr. 55/2019 leiði jafnframt að fullgild rafræn undirskrift hafi sömu réttaráhrif og eiginhandarundirskrift. Sóknaraðili leggur áherslu á að sú ályktun verði ekki dregin af 4. mgr. 50. gr. laga nr. 53/2024, sbr. nú 4. mgr. 1. gr. a laga nr. 91/1991, að óheimilt sé að staðfesta móttöku stefnu með rafrænni undirskrift með þeim hætti sem gert hafi verið. Hin rafræna undirskrift feli því í sér yfirlýsingu varnaraðila um að eintak stefnu hafi verið afhent honum í skilningi a-liðar 3. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991 og hrófli lög nr. 53/2024 ekki við því.
7. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 55/2019 hafi lagagildi hér á landi ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 910/2014 frá 23. júlí 2014 um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti á innri markaðinum og um niðurfellingu á tilskipun 1999/93/EB. Af því leiði að fullgild rafræn undirskrift hafi sömu réttaráhrif og eiginhandarundirskrift. Frá gildistöku laganna hafi fullgild rafræn undirskrift á frumrit stefnu því sömu réttaráhrif og eiginhandarundirritun í skilningi a-liðar 3. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991.
8. Rafræn afhending stefnu málsins hafi farið fram fyrir tilstuðlan fyrirtækis sem hafi sérhæft sig í þróun lausna fyrir stafrænt réttarkerfi og styðjist við búnað frá fyrirtækinu Auðkenni í gegnum félagið Dokobit. Rafræn áritun stefnunnar fullnægi því fyrirmælum laga nr. 55/2019. Auðkenni sé í opinberri eigu, njóti vottunar á fullgildum rafrænum undirskriftarbúnaði og sé útgáfuaðili fullgildra vottorða fyrir rafrænar undirskriftir, sbr. 28. til 31. gr. reglugerðarinnar og traustlista Evrópusambandsins, svo og 22. gr. reglugerðarinnar. Enginn vafi leiki því á að umrædd undirskrift sé fullgild rafræn undirskrift í skilningi laga. Einu gildi þótt sá sem fái stefnu afhenta á grundvelli a-liðar 3. mgr. 83. gr. laganna riti ekki sjálfur orðin „að eintak hafi verið afhent sér“ heldur séu þau orð innfærð á stefnuna og viðkomandi staðfesti þau með rafrænni undirskrift. Niðurstaðan sé efnislega sú sama og leiði jafnframt af eðli rafrænna undirskrifta að viðkomandi staðfesti texta en skrifi hann ekki sjálfur. Auk þess verði ekki séð af orðalagi ákvæðisins að móttakandi stefnu þurfi að rita annað og meira en staðfestingu á að stefna hafi verið afhent.
9. Sóknaraðili bendir á að í úrskurði héraðsdóms hafi staðfestingarvottorð sem fylgdi stefnunni verið talið fela í sér takmarkaða sönnun þess að stafræn birting hefði farið fram. Virðist þar hafa verið gerð sú óvenjulega krafa að útskýra þurfi í þaula afhendingarmáta stefnu út frá tæknilegum sjónarhóli þótt um vottaða lausn sé að ræða. Það samrýmist tæpast því megininntaki reglugerðar nr. 910/2014 að stuðla að og ryðja burt hindrunum á rafrænum auðkenningarleiðum. Gefa hefði átt sóknaraðila kost á að tjá sig um það munnlega og koma á framfæri frekari gögnum og útskýringum, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 og 2. mgr. 46. gr. og 104. gr. laganna.
10. Varnaraðili hefur sem fyrr segir ekki látið málið til sín taka.
Niðurstaða
11. Í XIII. kafla laga nr. 91/1991 er fjallað um birtingu stefnu. Í 1. mgr. 83. gr. segir að birting stefnu sé lögmæt ef stefnuvottur eða lögbókandi staðfestir að hann hafi birt hana fyrir stefnda eða einhverjum sem er bær að taka við henni í hans stað, sbr. a-lið málsgreinarinnar, eða eintak hennar er sent í ábyrgðarbréfi sem er borið út og póstmaður staðfestir að hann hafi afhent bréfið stefnda eða öðrum sem er bær um að taka við stefnu í hans stað, sbr. b-lið. Samkvæmt 3. mgr. 83. gr. kemur það í stað stefnubirtingar og er jafngilt henni að koma stefnu á framfæri samkvæmt a-lið með því að stefndi riti sjálfur undir yfirlýsingu á stefnu um að eintak hennar hafi verið afhent sér.
12. Fyrir liggur að niðurlag stefnu í málinu er eftirfarandi: „Samrit stefnunnar hefur verið afhent mér. Þetta er staðfest með rafrænni undirritun.“ Efst á forsíðu stefnunnar er ritað: „Fullgild rafræn undirskrift Jóhann Ágúst Sigurðarson [...] Móttaka staðfest.“
13. Í máli þessu reynir á hvort þessi rafræna undirskrift, sem ekki verða bornar brigður á, standist áskilnað a-liðar 3. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991. Í ákvæðinu er sem fyrr segir mælt fyrir um að það komi í stað stefnubirtingar og sé jafngilt henni hafi stefnu verið komið á framfæri með því að stefndi hafi sjálfur ritað undir yfirlýsingu á hana um að eintak hennar hafi verið afhent honum. Byggir sóknaraðili einkum á því sem fram kemur í 1. mgr. 25. gr. fyrrnefndrar reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 910/2014. Samkvæmt henni megi ekki hafna því að rafræn undirskrift öðlist réttaráhrif og sé viðurkennd sem sönnunargagn í málarekstri einungis af þeirri ástæðu að hún sé á rafrænu formi eða uppfylli ekki kröfur sem gerðar eru til fullgildra rafrænna undirskrifta sem og að fullgild rafræn undirskrift hafi sömu réttaráhrif og eiginhandarundirskrift, sbr. 2. mgr. greinarinnar.
14. Fjallað hefur verið um áskilnað og þýðingu forms skjala í réttarfarslöggjöf í dómum Hæstaréttar og má til hliðsjónar vísa til dóma 18. mars 2010 í máli nr. 115/2010 og 6. september 2013 í máli nr. 557/2013. Í síðargreinda dóminum sem varðaði kröfulýsingu við slit fjármálafyrirtækis var staðfestur úrskurður héraðsdóms þar sem fram kom að stefnur í einkamálum yrðu ekki birtar fyrir aðila máls eða lagðar fram á dómþingi nema á pappír. Væri um að ræða formkröfu á sviði réttarfars sem teldist meðal meginreglna á því réttarsviði. Breytti þágildandi 8. gr. laga nr. 30/2002 um rafræn viðskipti engu um þá niðurstöðu.
15. Þá var enn fremur í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 55/2019 vikið að tengslum reglna frumvarpsins við formskilyrði réttarfarslaga. Þar kom fram að það væri meginregla í íslensku einkamálaréttarfari að sönnunarmat dómara væri frjálst og aðilar máls hefðu forræði á sönnunarfærslu. Samningsfrelsi væri meginregla í samningarétti og aðilum frjálst að semja um form samnings. Jafnframt væri kveðið á um það í þágildandi 8. gr. laga nr. 30/2002 að rafrænir samningar teldust jafngildir skriflegum. Væri því að meginstefnu unnt að leggja fram rafræn skjöl sem sönnunargögn fyrir íslenskum dómstólum, sbr. kröfur 1. mgr. 25. gr., 1. mgr. 35. gr., 1. mgr. 41. gr., 1. mgr. 43. gr. og 46. gr. reglugerðar nr. 910/2014 að því er varðar rafrænar undirskriftir, innsigli, tímastimpla, afhendingarþjónustu og skjöl. Þegar álitaefni væru um formskilyrði laga væri staðan hins vegar ekki eins skýr. Sagði um það:
Sett lög áskilja í ýmsum tilvikum að málsmeðferð sé skrifleg, að leggja skuli fram frumrit skjals eða að kröfuhafi sé handhafi skjals til að það fái tilætluð réttaráhrif. Í slíkum tilvikum kemur til álita hvort hinar mismunandi tegundir traustþjónustu geti gert aðilum máls kleift að uppfylla slíkan áskilnað. Æskilegt er að kveðið verði með skýrum hætti á um það í réttarfarslögum að rafræn skjöl uppfylli slíkan áskilnað að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Er það til þess fallið að greiða fyrir almennri útbreiðslu og notkun rafrænna skjala fyrir dómi, í fullnusturéttarfari og skuldaskilum.
16. Þegar leyst er úr því hvort lög nr. 55/2019 hafi breytt formskilyrðum laga nr. 91/1991 að þessu leyti er til þess að líta að ríkar formkröfur eru gerðar í réttarfarslögum. Reglur um birtingu stefnu og jafngildi hennar, svo sem með áritun á stefnu, eru þar á meðal enda eru þær grundvallarþáttur í því réttaröryggi sem að er stefnt við meðferð dómsmáls. Með þeim er leitast við að tryggja að stefnda sé kunnugt um málshöfðun á hendur sér og efni hennar auk þess sem með því er stuðlað að fyrirsjáanleika og festu þannig að ekki sé háð mati hverju sinni hvort stefna hafi verið birt með réttum hætti.
17. Með lögum nr. 53/2024 var 83. gr. laga nr. 91/1991 breytt þannig að orðið „eintak“ kom í stað orðsins „samrit“ í 3. mgr. ákvæðisins. Það var til samræmis við þann megintilgang laga nr. 53/2024 að gera réttarfarslöggjöfina tæknilega hlutlausa um afhendingarmáta gagna og tilkynninga og heimila meðal annars í auknum mæli notkun rafrænna lausna í stað undirritana með eigin hendi og heimila stafræna birtingu ákæra og annarra skjala við rannsókn og meðferð sakamála sem krefðust tiltekins birtingarmáta. Í 50. gr. laganna, sem er nú í 4. mgr. 1. gr. a laga nr. 91/1991, var þó gerður skýr áskilnaður um að gögn sem birta skyldi eftir fyrirmælum XIII. kafla laganna yrðu áfram birt á því formi og á þann hátt sem þar væri lýst. Með tilvísun til kaflans í heild í umræddri grein verður ráðið að með fyrirmælum um birtingu gagna er ekki aðeins átt við birtingarmáta stefnu samkvæmt 1. og 2. mgr. 83. gr. heldur jafnframt þær aðrar aðferðir sem nefndar eru í 3. mgr. við að koma stefnu á framfæri og þar eru lagðar að jöfnu við stefnubirtingu.
18. Samkvæmt þessu og með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður ekki fallist á að 1. gr. a laga nr. 91/1991, sbr. 50. gr. laga nr. 53/2024, hafi verið ætlað að heimila að rafræn staðfesting stefnda á móttöku stefnu jafngilti yfirlýsingu hans undirritaðri með eigin hendi um að eintak stefnu hafi verið afhent honum. Er hinn kærði úrskurður því staðfestur.
19. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Sératkvæði
Skúla Magnússonar
1. Ég er sammála þeirri niðurstöðu meirihluta dómenda að staðfesta beri hinn kærða úrskurð en á eftirfarandi forsendum.
2. Í atkvæði meirihlutans er fjallað um almennt gildi rafrænna undirskrifta að íslenskum rétti og þá breytingu sem gerð var á lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála með lögum nr. 53/2024 í því skyni að gera meðal annars þá löggjöf tæknilega hlutlausa um afhendingarmáta gagna og tilkynninga. Er því nú slegið föstu í nýju ákvæði 1. mgr. 1. gr. a laga nr. 91/1991 að tilkynningu eða gagni sem á grundvelli þeirra sé afhent eða sent á milli þeirra sem aðkomu eiga að máli sé heimilt að miðla á rafrænu eða stafrænu formi, enda leiki ekki vafi á uppruna þess eða frá hverjum það stafi. Þá segir í 2. mgr. greinarinnar að þegar lögin eða venja áskilji áritun, undirritun, staðfestingu eða vottun teljist slíkum áskilnaði fullnægt með rafrænni staðfestingu. Í 4. mgr. greinarinnar kemur hins vegar fram sú undantekning að gögn sem birta skuli eftir fyrirmælum XIII. kafla laganna skuli, þrátt fyrir fyrirmæli greinarinnar, birt á því formi og á þann hátt sem þar er lýst. Er þannig ljóst að með lögum nr. 53/2024 stóð ekki til að heimila rafræna birtingu stefnu við meðferð einkamála.
3. Í XIII. kafla laga nr. 91/1991 er fjallað um birtingu stefnu. Þar segir í 1. mgr. 83. gr. að birting sé lögmæt ef stefnuvottur eða lögbókandi staðfestir að hann hafi birt stefnu fyrir stefnda eða einhverjum sem er bær um að taka við henni í hans stað, sbr. a-lið málsgreinarinnar. Hið sama á við þegar eintak stefnu er sent í ábyrgðarbréfi sem er borið út og póstmaður staðfestir að hann hafi afhent bréfið stefnda eða öðrum sem er bær um að taka við stefnu í hans stað, sbr. b-lið málsgreinarinnar. Í stað stefnubirtingar og jafngilt henni má hins vegar koma stefnu á framfæri með því að stefndi riti sjálfur undir yfirlýsingu á stefnu um að eintak hennar hafi verið afhent honum, sbr. a-lið 3. mgr. greinarinnar.
4. Samkvæmt þessu felur ákvæði a-liðar 3. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991 í sér undantekningu frá þeirri almennu reglu að stefnu beri að birta fyrir stefnda eða öðrum þar til bærum aðila svo að mál teljist höfðað. Í samræmi við þetta er í 93. gr. laganna gerður skýr greinarmunur á því hvort mál telst höfðað með birtingu stefnu eða áritun um viðtöku eintaks hennar. Er því ekki hægt að líta svo á að áritun stefnu samkvæmt fyrirmælum a-liðar 3. mgr. 83. gr. laganna feli í sér birtingu stefnu. Öllu heldur er um að ræða aðferð við að koma stefnu á framfæri við stefnda sem kemur í stað eiginlegrar birtingar hennar.
5. Að þessu virtu og að teknu tilliti til markmiðs þeirra breytinga sem gerðar voru með lögum nr. 53/2024 get ég ekki fallist á að 4. mgr. 1. gr. a laga nr. 91/1991 verði skýrð svo rúmt að hún útiloki að stefndi staðfesti með rafrænum hætti yfirlýsingu á stefnu um að eintak hennar hafi verið afhent honum.
6. Slík rafræn undirskrift stefnda verður þó bæði að fullnægja nánari kröfum laga nr. 91/1991 viðvíkjandi rafrænni staðfestingu og skilyrðum a-liðar 3. mgr. 83. gr. þeirra. Verður þá að hafa í huga að reglur XIII. kafla laganna um birtingu stefnu og jafngildi hennar, svo sem með áritun stefnda á stefnu, eru hluti af þeim formkröfum sem tryggja eiga réttaröryggi við meðferð dómsmála. Er þessum reglum þannig ætlað að tryggja að stefnda sé ekki aðeins kunnugt um málshöfðun á hendur sér með ákveðnum fyrirvara heldur einnig efni hennar í meginatriðum.
7. Svo sem áður greinir bera gögn málsins með sér að stefndi hafi með rafrænni undirskrift staðfest móttöku tölvubréfs sem innihélt stefnu. Hins vegar liggur fyrir að sú áritun sem fram kemur á framlagðri stefnu málsins og nánar er lýst í atkvæði meirihlutans stafar ekki frá stefnda sjálfum heldur var hún færð á eintak stefnu án hans atbeina.
8. Samkvæmt þessu er ekki fram komið í málinu að stefndi hafi, hvort heldur með eigin hendi eða jafngildum rafrænum hætti, ritað undir yfirlýsingu á stefnuna sjálfa um að eintak hennar hafi verið afhent honum. Í ljósi alls þess sem áður er rakið getur þessi háttur við afhendingu stefnu ekki fullnægt áskilnaði a-liðar 3. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991. Ber af þeirri ástæðu að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar.