Hæstiréttur íslands
Mál nr. 11/2024
Lykilorð
- Ellilífeyrir
- Lífeyrisréttindi
- Skerðing
- Eignarréttur
- Stjórnarskrá
- Meðalhóf
- Jafnræði
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Sigurður Tómas Magnússon og Skúli Magnússon.
2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. febrúar 2024. Hann krefst þess að hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og hann sýknaður af öllum kröfum stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti.
3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar úr hendi áfrýjanda fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Ágreiningsefni
4. Ágreiningur málsaðila lýtur einkum að lögmæti þeirra breytinga á áunnum réttindum stefnda, sem sjóðfélaga í A-deild áfrýjanda, til mánaðarlegs ellilífeyris sem leiddu af breytingum á samþykktum lífeyrissjóðsins sem tóku gildi 1. janúar 2023. Þær voru gerðar vegna nýrra forsendna um lífslíkur sem áfrýjanda bar að miða við í tryggingafræðilegum athugunum á fjárhag sjóðsins frá og með árinu 2023. Í þeim forsendum var í fyrsta sinn gengið út frá því að þeir sem yngri væru myndu ná hærri aldri en þeir eldri.
5. Með héraðsdómi 30. nóvember 2023 var fallist á aðalkröfu stefnda um ógildingu á ákvæði 6. töluliðar viðauka B við samþykktir stefnda sem tók gildi 1. janúar sama ár. Lið II í aðalkröfu var vísað frá dómi. Stefndi krafðist þess til vara að viðurkennt yrði að sú 11,2% skerðing á áunnum réttindum hans í A-deild lífeyrissjóðs áfrýjanda sem mælt væri fyrir um í skerðingartöflu b-liðar 6. töluliðar viðauka B í samþykktum áfrýjanda væri ógilt. Þar sem fallist var á aðalkröfuna var ekki í hinum áfrýjaða dómi tekin afstaða til varakröfu.
6. Leyfi til að áfrýja héraðsdómi beint til Hæstaréttar var veitt 20. febrúar 2024, með ákvörðun réttarins nr. 2023-158, á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi, almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna og verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti. Jafnframt var talið að ekki væru fyrir hendi þær aðstæður sem kæmu í veg fyrir að málinu yrði áfrýjað beint til Hæstaréttar, sbr. 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsatvik
7. Áfrýjandi er lífeyrissjóður sem starfar á grundvelli eigin samþykkta og laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Stefndi er fæddur árið 1982 og er sjóðfélagi í áfrýjanda. Hann hefur greitt iðgjöld til áfrýjanda og með því unnið sér réttindi, meðal annars til ellilífeyris úr A-deild sjóðsins frá upphafi lífeyristökualdurs til æviloka.
8. Samkvæmt 23. gr. laga nr. 129/1997 ábyrgjast lífeyrissjóðir skuldbindingar sínar með eignum sínum en þær myndast með iðgjöldum og ávöxtun þeirra. Þeir njóta ekki bakábyrgðar. Í 24. gr. laganna er mælt fyrir um að árlega skuli stjórn lífeyrissjóðs láta fara fram tryggingafræðilega athugun á fjárhag hans í samræmi við 39. gr. þeirra og ákvæði reglugerðar sem ráðherra setur. Tekið er fram að í reglugerð skuli kveðið á um almennar tryggingafræðilegar forsendur, meðal annars um dánaráhættu.
9. Samkvæmt 14. gr. reglugerðar nr. 391/1998 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða eiga þeir við mat á dánar- og lífslíkum sjóðfélaga að nota nýjustu dánar- og eftirlifendatöflur, útgefnar af ráðherra að fenginni tillögu Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga. Á fundi félagsins 9. desember 2020 voru settar fram formúlur sem spáðu dánarlíkum einstakra aldurshópa ár hvert næstu 20 ár. Byggt var á lækkun dánartíðni milli ára síðustu árin og gert ráð fyrir að hún héldi áfram óbreytt um skeið en minnkaði síðan. Reiknilíkanið var samþykkt einróma á fundinum. Félagið gerði í framhaldi af því tillögu 13. desember 2021 til fjármála- og efnahagsráðuneytis um breytingar á forsendum reiknigrunns um lífslíkur í samræmi við þetta nýja reiknilíkan sem félagsfundur hafði samþykkt. Þær voru síðan staðfestar af fjármála- og efnahagsráðuneytinu og tilkynning um það birt á vef þess 22. sama mánaðar. Með þeim var horfið frá forsendum fyrri taflna um lífslíkur en þær gerðu ráð fyrir að dánartíðni yrði sú sama fyrir alla sjóðfélaga óháð fæðingarári. Í stað þess var nú gert ráð fyrir að hver árgangur næði hærri aldri en sá næsti á undan. Í tilkynningunni kom fram að hinar nýju forsendur um lífslíkur fælu í sér veigamiklar breytingar á mati skuldbindinga vegna mismunandi aldurshópa. Mælt var fyrir um að lífeyrissjóðir skyldu vera búnir að innleiða breyttar forsendur um lífslíkur fyrir tryggingafræðilega athugun ársins 2023.
10. Tryggingafræðileg staða áfrýjanda var hagstæð á árinu 2021 vegna góðrar ávöxtunar á eignum sjóðsins. Sökum þess samþykkti stjórn áfrýjanda 30. september 2021 breytingar á samþykktum sjóðsins sem staðfestar voru af fjármála- og efnahagsráðuneytinu 29. október sama ár. Þær fólu í sér að áunninn mánaðarlegur réttur allra sjóðfélaga í sameignardeild sjóðsins til mánaðarlegs ellilífeyris var hækkaður hlutfallslega jafnt um 10%.
11. Áfrýjandi taldi eins og aðrir lífeyrissjóðir í landinu nauðsynlegt að bregðast við þeim neikvæðu áhrifum sem nýr reiknigrunnur um lífslíkur hafði á tryggingafræðilega stöðu sjóðsins. Tryggingastærðfræðingur áfrýjanda benti á mögulegar mótvægisaðgerðir til að bregðast við þessu, svo sem að seinka í áföngum rétti sjóðfélaga til lífeyristöku eða lækka áunninn rétt sjóðfélaga til ellilífeyris og þá meira eftir því sem sjóðfélagar væru yngri án þess þó að lækka áætlaðan heildarlífeyri þeirra til ætlaðra æviloka.
12. Vegna áframhaldandi góðrar ávöxtunar eigna áfrýjanda var tryggingafræðileg staða sjóðsins hagstæð í ársbyrjun 2022 að frátöldum neikvæðum áhrifum vegna nýs reiknigrunns um lífslíkur.
13. Til að bregðast annars vegar við jákvæðum tryggingafræðilegum áhrifum af góðri ávöxtun eigna áfrýjanda og hins vegar fyrirsjáanlega neikvæðum áhrifum af nýjum reiknigrunni um lífslíkur voru breytingar á samþykktum áfrýjanda samþykktar af stjórn hans 3. mars 2022. Þær ásamt ítarlegri greinargerð voru lagðar fram á ársfundi sjóðsins 29. sama mánaðar og samþykktar að fengnu samþykki aðildarsamtaka lífeyrissjóðsins og fulltrúaráðs.
14. Þær breytingar á samþykktunum sem þá voru gerðar og ágreiningur málsaðila lýtur að komu fram í töluliðum 5 og 6 í viðauka B. Breytingarnar í 5. tölulið lutu að því að hækka um 12% áunnin lífeyrisréttindi allra sjóðfélaga í sameignardeild sjóðsins á árinu 2021 og fyrr. Breytingarnar í 6. tölulið lutu hins vegar að því að innleiða nýjan reiknigrunn um lífslíkur. Samkvæmt töflu í viðauka B voru áhrif innleiðingarinnar þau að áunnin réttindi sjóðfélaga til mánaðarlegs ellilífeyris voru lækkuð mismikið eftir fæðingarári þeirra. Voru réttindi sjóðfélaga fæddra árið 1957 lækkuð um 5,1% en réttindi hvers yngra árgangs lækkuð meira en næsta árgangs á undan þannig að réttindi sjóðfélaga fæddra árið 2005 voru lækkuð um 13,8%. Áunninn réttur stefnda, sem er eins og áður segir fæddur árið 1982, til mánaðarlegs ellilífeyris lækkaði vegna þessarar innleiðingar um 11,2%. Í annarri töflu í viðauka B komu síðan fram samanlögð áhrif af þessum tveimur breytingum samkvæmt 5. og 6. tölulið viðauka B á áunnum rétti til mánaðarlegs ellilífeyris. Voru þau frá því að vera hækkun um 6,3% hjá sjóðfélögum fæddum árið 1957 og niður í að vera lækkun um 3,5% hjá sjóðfélögum fæddum árið 2005. Í tilviki stefnda voru samanlögð áhrif breytinganna þau að áunninn mánaðarlegur ellilífeyrir hans lækkaði um 0,5%.
15. Samhliða þessum breytingum á samþykktunum var réttindaávinnslu sjóðfélaga til framtíðar breytt með nýjum réttindatöflum í viðauka A með tilliti til nýs reiknigrunns um lífslíkur samkvæmt „spá Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga frá árinu 2021“. Ekki er ágreiningur með aðilum um þá breytingu.
16. Þessar breytingar á samþykktum áfrýjanda voru tilkynntar ráðherra í samræmi við 28. gr. laga nr. 129/1997 og öðluðust gildi 1. janúar 2023 eftir að hann staðfesti þær 14. desember 2022, að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins. Í lögbundinni umsögn þess 17. júní 2022 var lagt til að ráðuneytið staðfesti ekki fyrirhugaðar breytingar á samþykktum áfrýjanda og var sú afstaða áréttuð í bréfi 12. nóvember sama ár.
Málsástæður
Helstu málsástæður áfrýjanda
17. Áfrýjandi byggir á því að þær breytingar sem gerðar voru á samþykktum lífeyrissjóðsins á aðalfundi 29. mars 2022 og höfðu í för með sér breytingu á áunnum mánaðarlegum rétti stefnda til ellilífeyris rúmist fyllilega innan lögbundinna heimilda. Áfrýjandi byggir annars vegar á því að breytingarnar feli ekki í sér skerðingu á áunnum lífeyrisréttindum stefnda og samræmist þeim reglum sem sjóðnum beri að starfa eftir. Hins vegar byggir áfrýjandi á því, teljist breytingarnar fela í sér skerðingu eða takmörkun á eignarréttindum stefnda, að þær uppfylli að öllu leyti þau skilyrði sem leiði af eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu.
18. Áfrýjandi heldur því fram að í rétti stefnda til ellilífeyris felist áunnin réttindi byggð á þegar greiddum iðgjöldum hans. Stefndi sé enn á vinnumarkaði og ekki farinn að njóta lífeyrisgreiðslna frá áfrýjanda þannig að réttindi hans séu ekki orðin virk. Lífeyrisréttindi stefnda geti talist til eignarréttinda en hins vegar hafi dómstólar gert minni kröfur til inngripa í óvirk en virk réttindi.
19. Að virtum ákvæðum laga nr. 129/1997 og 14. gr. reglugerðar nr. 391/1998 telur áfrýjandi það grundvallaratriði í starfsemi sinni að hrein eign sjóðsins til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda sé jafnhá núvirði væntanlegs lífeyris vegna þegar greiddra iðgjalda og framtíðariðgjalda, sbr. 1. mgr. 39. gr. laganna. Ef farið sé út fyrir lögbundin vikmörk í 2. mgr. 39. gr. laganna sé skylt að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum svo að unnt sé að bæta úr. Slíkar ráðstafanir geti meðal annars leitt til þess að lífeyrisréttindi skerðist eða iðgjöld hækki. Ekki verði gagnályktað frá þessu ákvæði 2. mgr. 39. gr. á þann veg að lífeyrissjóði sé eingöngu heimilt að breyta samþykktum með þeim hætti sem um sé deilt í málinu ef fyrir hendi sé meira en 10% munur á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga eða að munur á milli þeirra hafi haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár. Þvert á móti hafi áfrýjandi verulegt svigrúm til að grípa til ráðstafana í því skyni að tryggja að eignir og skuldbindingar sjóðsins standist á. Þar með talið að kveða í samþykktum á um fjárhæð ellilífeyris, útreikning, skilyrði fyrir greiðslu hans og framkvæmd lífeyrisgreiðslna.
20. Áfrýjandi byggir á því að sú breyting sem gerð hafi verið á reiknigrunni um lífslíkur, sem honum hafi frá árinu 2023 borið að miða mat á skuldbindingum sínum við, hafi falið í sér grundvallarbreytingu á tryggingafræðilegri stöðu sjóðsins vegna aukinna lífeyrisskuldbindinga. Í hinum nýja reiknigrunni hafi ekki aðeins verið gert ráð fyrir að lífslíkur allra væru að aukast heldur hafi í fyrsta skipti verið gert ráð fyrir því að hver árgangur næði hærri aldri en sá næsti á undan. Brugðist hafi verið við því meðal annars með því að lækka áunninn rétt allra sjóðfélaga til mánaðarlegs ellilífeyris. Þar sem grunnurinn um lífslíkur hafi gert ráð fyrir að yngri sjóðfélagar næðu hærri aldri en þeir eldri hafi áunninn réttur yngri sjóðfélaga til mánaðarlegs ellilífeyris verið lækkaður meira en þeirra eldri. Hefðu réttindi allra sjóðfélaga verið lækkuð hlutfallslega jafnt hefðu skuldbindingar áfrýjanda vegna yngri sjóðfélaga aukist hlutfallslega meira en vegna þeirra eldri þar sem þeir yngri komi til með að njóta ellilífeyris lengur en þeir eldri. Heildarréttindi þeirra yngri til ellilífeyris hefðu þar af leiðandi vaxið á kostnað eldri sjóðfélaga. Áunninn mánaðarlegur réttur til ellilífeyris hafi því verið umreiknaður með þeim hætti að heildarellilífeyrir allra sjóðfélaga yrði því sem næst jafn hár en mánaðarlegur lífeyrir þeirra yngri lægri en þeirra eldri þar sem greiðslur til þeirra yngri dreifðust á lengri tíma. Ekki hafi því í raun verið um skerðingu á réttindum stefnda að ræða.
21. Áfrýjandi byggir jafnframt á því að vegna fyrirvara sem ávallt komi fram í tilkynningum til sjóðfélaga um áunninn mánaðarlegan rétt þeirra til ellilífeyris geti þeir ekki litið á þessar tilkynningar sem loforð heldur sem áætlun sem byggist á ýmsum forsendum sem geti breyst.
22. Þá telur áfrýjandi að enda þótt litið verði svo á að umrædd breyting á samþykktum sjóðsins feli í sér skerðingu á lífeyrisréttindum hljóti sú skerðing að teljast lögmæt og ekki í andstöðu við 72. gr. stjórnarskrárinnar eða 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Í því sambandi verði að líta til þess að vægari kröfur séu gerðar til skerðingar á óvirkum lífeyrisréttindum en virkum. Vísar áfrýjandi til þess að breytingar á samþykktum hafi samrýmst ákvæðum 1. mgr. 13. gr., 2. mgr. 14. gr., 1. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 129/1997 og því haft næga lagastoð. Líta verði til þess að breyttar forsendur um tryggingafræðilegar skuldbindingar lífeyrissjóðs til framtíðar, svo sem vegna grundvallarbreytinga á reiknigrunni um lífslíkur réttlæti, að brugðist sé við með breytingum á samþykktum sem leitt geti til breytinga á áunnum réttindum sjóðfélaga.
23. Jafnframt byggir áfrýjandi á því að almannahagsmunir hafi búið að baki breytingum á samþykktum eins og hinn áfrýjaði dómur hafi fallist á. Þá hafi þær verið sanngjarnar og ætlað að koma í veg fyrir að verðmæti væru flutt frá eldri sjóðfélögum til yngri.
24. Áfrýjandi telur að sjónarmiða um jafnræði sjóðfélaga hafi verið gætt við breytingar á samþykktum. Vísar hann sérstaklega til þess að áunnin réttindi til mánaðarlegs ellilífeyris allra sjóðfélaga sem fæddir hafi verið sama ár hafi verið lækkuð jafnt með 6. tölulið viðauka B. Þá hafi heildarlífeyrisréttindi allra sjóðfélaga verið lækkuð jafnt. Aldur sjóðfélaga hafi þýðingu með ýmsum hætti samkvæmt samþykktum sjóðsins án þess að það hafi verið talið brjóta gegn jafnræði sjóðfélaga. Þannig hafi aldur áhrif á réttindaávinnslu þeirra þar sem iðgjöld yngri sjóðfélaga veiti hlutfallslega meiri réttindi en iðgjöld þeirra eldri vegna lengri ávöxtunartíma iðgjalda. Þá sé mánaðarlegur ellilífeyrir sjóðfélaga þeim mun hærri því síðar sem þeir hefja töku lífeyris þar sem ætla megi að greiðsla lífeyris muni dreifast á fleiri ár ef taka hans hefst fyrr. Áfrýjandi hafnar því að bera mismunandi lífslíkur eftir fæðingarári saman við aðra þætti sem áhrif geta haft á lífslíkur, svo sem kynferði.
25. Áfrýjandi telur að sjónarmiða um meðalhóf hafi verið gætt við breytingar á samþykktunum. Um hafi verið að ræða hlutfallslega jafna lækkun á heildarréttindum allra sjóðfélaga til ellilífeyris. Aðeins hafi verið um að ræða óverulega lækkun á áunnum rétti til mánaðarlegs ellilífeyris. Enda þótt lækkun mánaðarlegs lífeyris þeirra yngri hafi verið meiri en þeirra eldri verði að líta til þess að lengri tími líði þar til réttindi þeirra yngri til lífeyris verði virk og því meira ráðrúm hjá þeim en eldri sjóðfélögum til að bregðast við væntanlegri lækkun.
26. Loks hafnar áfrýjandi því að breyting á samþykktum hafi falið í sér deildarskiptingu A-deildar lífeyrissjóðsins og sé í andstöðu við samtryggingarhlutverk hans.
Helstu málsástæður stefnda
27. Stefndi byggir á því að breytingar á áunnum lífeyrisréttindum hans hafi falið í sér ólögmæta skerðingu á eignarréttindum sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Breytingarnar skorti lagastoð og ekki hafi verið gætt sanngirni, jafnræðis eða meðalhófs.
28. Stefndi telur ótvírætt að umræddar breytingar á samþykktum áfrýjanda hafi leitt til skerðingar á áunnum lífeyrisréttindum hans þar sem þær muni leiða til þess að mánaðarlegur ellilífeyrir hans lækki. Stefndi hafi mátt treysta því að ávinnsla réttinda til ellilífeyris yrði í samræmi við samþykktir áfrýjanda og réttindatöflur á þeim tíma sem iðgjöld í sjóðinn voru greidd.
29. Stefndi bendir á að breyttar lífslíkur sjóðfélaga hafi aldrei áður leitt til breytinga á áunnum réttindum þeirra. Breytingar á tryggingafræðilegri stöðu áfrýjanda geti ekki sjálfkrafa leitt til þess að heimilt sé að breyta samþykktum með þeim afleiðingum að endurreiknuð séu þau áunnu réttindi til ellilífeyris sem sjóðfélögum hafi verið lofuð á grundvelli samþykkta sem í gildi hafi verið þegar iðgjöld voru greidd. Breytingarnar hafi leitt til lækkunar mánaðarlegs ellilífeyris yngri sjóðfélaga en hækkunar hjá þeim eldri. Við fyrri breytingar á áunnum lífeyrisréttindum sjóðfélaga hafi réttindi þeirra allra ávallt verið hækkuð eða lækkuð hlutfallslega jafnt. Enda þótt nýjar forsendur geri ráð fyrir að yngri sjóðfélagar nái hærra aldri en þeir eldri hafi mátt bregðast við því á sama hátt og áður með því að lækka réttindi allra sjóðfélaga jafnt. Þar sem breytingarnar hafi verið gerðar samhliða 12% hækkun á réttindum vegna góðrar ávöxtunar fjármuna sjóðsins hefði verið unnt að hækka réttindi allra sjóðfélaga hlutfallslega jafnt um 3,5% í stað þess að skerða áunnin lífeyrisréttindi yngri sjóðfélaga meira en þeirra eldri.
30. Þá byggir stefndi á því að aðeins hafi verið heimilt að skerða áunnin lífeyrisréttindi sjóðfélaga að fullnægðum skilyrðum 2. mgr. 39. gr. laga nr. 129/1997. Þau skilyrði hafi ekki verið uppfyllt þar sem tryggingafræðileg staða sjóðsins hafi verið svo góð að unnt hefði verið að hækka áunnin réttindi allra sjóðfélaga til ellilífeyris.
31. Stefndi telur að ekkert þeirra ákvæða laga nr. 129/1997 sem áfrýjandi vísar til feli í sér lagaheimild til skerðingar eignarréttinda sem uppfylli skilyrði eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Í ákvæðunum felist almennur áskilnaður um hvað eigi að koma fram í samþykktum lífeyrissjóðs en ekki lagastoð fyrir skerðingu á áunnum lífeyrisréttindum.
32. Réttindi stefnda séu í A-deild sjóðsins sem sé samtryggingarsjóður sem óheimilt sé að skipta í deildir eftir fæðingarári sjóðfélaga eða með öðrum hætti. Iðgjöld sjóðfélaga myndi eina óskipta heild og ekki sé sérgreind eign að baki réttindum hvers árgangs.
33. Stefndi telur að mismunun sjóðfélaga eftir fæðingarári fari í bága við jafnræði þeirra. Ljóst sé að óheimilt væri vegna jafnræðis að mismuna sjóðfélögum eftir kynferði, stöðu, búsetu eða öðrum þáttum enda þótt unnt væri að reikna út mismunandi lífslíkur slíkra hópa. Mismunun sjóðfélaga eftir fæðingarári sé sambærileg og feli í sér brot gegn jafnræði þeirra. Stefndi hafnar því að önnur ákvæði samþykkta áfrýjanda sem tengist aldri sjóðfélaga séu sambærileg hinum aldurstengdu breytingum á réttindum sem um sé deilt í málinu.
34. Loks telur stefndi skerðingu áunninna réttinda hans til ellilífeyris verulega í samanburði við breytingar á réttindum eldri sjóðfélaga og hafnar því að meðalhófs hafi verið gætt.
Löggjöf
35. Í 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 er kveðið á um vernd eignarréttar og er 1. mgr. ákvæðisins svohljóðandi:
Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.
36. Í 1. gr. 1. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sem öðlaðist lagagildi hér á landi með lögum nr. 62/1994, er mælt fyrir um friðhelgi eignarréttar með svofelldum hætti í 1. mgr.:
Öllum mönnum og lögaðilum ber réttur til að njóta eigna sinna í friði. Skal engan svipta eign sinni, nema hagur almennings bjóði og gætt sé ákvæða í lögum og almennra meginreglna þjóðaréttar.
37. Áfrýjandi starfar eftir lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þau ákvæði laganna sem helst reynir á í málinu voru svohljóðandi þegar breytingar á samþykktum áfrýjanda tóku gildi 1. janúar 2023:
[1. mgr. 4. gr.] Lágmarkstryggingavernd sem lífeyrissjóður veitir til ævilangs mánaðarlegs ellilífeyris frá þeim tíma sem taka hans hefst, þó ekki síðar en frá 70 ára aldri, sbr. 14. gr., skal nema 1,8% af iðgjaldsstofni sem greitt er af á ári miðað við 40 ára inngreiðslutíma. Lágmarksréttindaöflun til örorkulífeyris skal uppfylla sömu viðmið og lágmarksréttindaöflun til ellilífeyris fyrir þann tíma sem iðgjald er greitt og þann tíma sem sjóðfélagi öðlast full réttindi til framreiknings, sbr. 15. gr. [...]
[1. mgr. 13. gr.] Með iðgjaldagreiðslum til öflunar lífeyrisréttinda í sameign ávinnur sjóðfélagi sér og maka sínum og börnum eftir því sem við á rétt til ellilífeyris, örorkulífeyris og maka- og barnalífeyris sem er ekki lakari en sá réttur sem kveðið er á um í þessum kafla. Í samþykktum lífeyrissjóðs skal kveðið nánar á um ávinnslu réttinda en hún getur verið mismunandi eftir því hvort iðgjald er til lágmarks- eða viðbótartryggingaverndar og eftir atvikum háð eða óháð aldri.
[1. mgr. 14. gr.] Lífeyrissjóður skal hefja útborgun ellilífeyris samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum þegar sjóðfélagi hefur náð 65–70 ára aldri. Lífeyrissjóði er heimilt að gefa sjóðfélögum kost á að fresta eða flýta töku lífeyris enda hefjist taka lífeyris ekki fyrr en sjóðfélagi verður 60 ára. Í samþykktum skal kveðið á um hvernig frestun eða flýting lífeyristöku hefur áhrif á fjárhæð lífeyris
[2. mgr. 14. gr.] Ellilífeyrir skal borgaður út mánaðarlega með jöfnum greiðslum til æviloka. Mánaðarlegur lífeyrir skal verðtryggður og breytast til samræmis við breytingu á vísitölu neysluverðs. Nánar skal kveðið á um fjárhæð ellilífeyris, útreikning og skilyrði fyrir greiðslu hans í samþykktum.
[1. mgr. 24. gr.] Árlega skal stjórn lífeyrissjóðs láta fara fram tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðsins í samræmi við 39. gr. og ákvæði reglugerðar sem ráðherra setur. Í reglugerð skal kveðið á um almennar tryggingafræðilegar forsendur, m.a. um dánaráhættu, raunvexti sem athugunin skal byggjast á og ávöxtunarkröfu sem nota skal við núvirðingu framtíðariðgjalda og væntanlegs lífeyris sjóðsins. Í reglugerð skulu jafnframt sett ákvæði um mat á hreinni eign til greiðslu lífeyris vegna tryggingafræðilegra athugana. Skal í reglugerðinni tilgreina möguleg frávik frá mati á eignarliðum í efnahagsreikningi skv. 40. gr., m.a. að verðmæti skráðra hlutabréfa og sambærilegra verðbréfa skuli miða við vegið markaðsvirði á tilteknu tímabili sem þó getur ekki verið lengra en sex mánuðir.
[1. mgr. 27. gr.] Samþykktir lífeyrissjóðs skulu við það miðaðar að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar.
[2. mgr. 27. gr.] Samþykktir lífeyrissjóðs skulu m.a. kveða á um eftirtalin atriði: […] 7. Hvernig iðgjöld til sjóðsins skuli ákveðin og hvernig þau skuli greidd. 8. Réttindi sjóðfélaga eða aðstandenda þeirra til lífeyris, hvernig útreikningi þessara réttinda skuli háttað og hver séu nánari skilyrði lífeyrisréttar. Þá skal og kveðið á um framkvæmd lífeyrisgreiðslna.
[28. gr.] Allar breytingar á samþykktum lífeyrissjóðs skal tilkynna ráðherra og öðlast þær ekki gildi fyrr en ráðherra hefur staðfest að þær fullnægi ákvæðum laga þessara og ákvæðum gildandi samþykkta fyrir lífeyrissjóðinn að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins. [...]
[1. mgr. 39. gr.] Hrein eign lífeyrissjóðs til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda skal vera jafnhá núvirði væntanlegs lífeyris vegna þegar greiddra iðgjalda og framtíðariðgjalda. Áætlun um framtíðariðgjöld og væntanlegan lífeyri skal miðuð við sjóðfélaga á þeim tíma sem tryggingafræðileg athugun tekur mið af. Hrein eign til greiðslu lífeyris skal á hverjum tíma metin í samræmi við ákvæði 24. gr.
[2. mgr. 39. gr.] Leiði tryggingafræðileg athugun skv. 24. gr. í ljós að meira en 10% munur er á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga skv. 1. mgr. er hlutaðeigandi lífeyrissjóði skylt að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sjóðsins. Sama gildir ef munur samkvæmt tryggingafræðilegum athugunum á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga hefur haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár.
38. Reglugerð nr. 391/1998 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða var sett með stoð í lögum nr. 129/1997. Í 14. gr. hennar er svohljóðandi ákvæði um dánaráhættu sem vísað er til í 1. mgr. 24. gr. laganna. Það ber yfirskriftina dánar- og lífslíkur:
Við mat á dánar- og lífslíkum skal nota nýjustu dánar- og eftirlifendatöflur, sem útgefnar eru af ráðherra að fengnum tillögum Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga.
Niðurstaða
Um formhlið og aðild
39. Við aðalmeðferð málsins í héraði féll stefndi frá II. lið varakröfu sinnar. Þá var í hinum áfrýjaða dómi II. lið aðalkröfu hans vísað sjálfkrafa frá dómi. Hann leitaði ekki með kæru endurskoðunar á því ákvæði dómsins.
40. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms telst stefndi eiga lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr þeirri kröfu sinni sem efnisdómur var lagður á í héraði og var honum ekki nauðsynlegt að beina kröfum sínum jafnframt að íslenska ríkinu.
Afmörkun sakarefnis
41. Í málinu er ekki deilt um réttmæti þeirra breytinga á forsendum reiknigrunns um lífslíkur sem fjármála- og efnahagsráðherra mun hafa gefið út 22. desember 2021 og tilkynnti að lífeyrissjóðum bæri að innleiða fyrir tryggingafræðilega athugun ársins 2023.
42. Í málinu er heldur ekki deilt um þá breytingu á samþykktum áfrýjanda sem samþykkt var á aðalfundi sjóðsins 29. mars 2022 um að lækka réttindaávinnslu sjóðfélaga til framtíðar vegna tryggingafræðilegra áhrifa nýrra forsendna um lífslíkur.
43. Þá er ágreiningslaust að formlega var staðið að breytingunum í samræmi við 28. gr. laga nr. 129/1997 og fyrirmæli samþykktanna og að breytingar á réttindum stefnda hafi verið kynntar honum með fullnægjandi hætti.
44. Ágreiningur aðila lýtur fyrst og fremst að því hvort heimilt hafi verið að breyta samþykktum áfrýjanda með þeim hætti að lækka áunninn mánaðarlegan ellilífeyri yngri sjóðfélaga meira en þeirra eldri og hvort sú breyting á áunnum lífeyrisréttindum teljist ólögmæt skerðing á eignarréttindum stefnda sem njóti verndar stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu.
Stjórnarskrárvernd eignarréttinda
45. Réttur þeirra sem þegar hafa hafið töku lífeyris eru talin virk lífeyrisréttindi. Þau njóta eignarréttarverndar 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og verða ekki skert bótalaust nema á grundvelli viðhlítandi lagaheimildar. Hefur sá skilningur ítrekað verið staðfestur af dómstólum, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 28. maí 1998 í máli nr. 368/1997, sem birtur er á bls. 2140 í dómasafni réttarins það ár, og dóm réttarins 9. desember 1999 í máli nr. 195/1999. Síðara sakarefnið var jafnframt til úrlausnar í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu 12. október 2004 í máli Kjartans Ásmundssonar gegn Íslandi nr. 60669/00.
46. Þegar um breytingar á virkum lífeyrisréttindum er að ræða hafa dómstólar litið svo á að lífeyrissjóðir njóti svigrúms til að setja reglur um hvernig tilhögun, útreikningi og greiðslu lífeyris sé háttað enda eigi slíkar ráðstafanir sér stoð í lögum og séu útfærðar með fullnægjandi hætti í samþykktum og með ákvarðanatöku á vettvangi viðkomandi lífeyrissjóðs. Þarf þá að gæta þess að málefnalegar forsendur liggi slíkum reglum og ákvörðunum til grundvallar og að jafnræðis og meðalhófs sé gætt. Má meðal annars vísa um þetta til dóma Hæstaréttar í fyrrnefndu máli nr. 195/1999, 17. desember 2009 í máli nr. 665/2008 og 22. febrúar 2018 í máli nr. 177/2017.
47. Áunnin lífeyrisréttindi þeirra sem ekki hafa hafið töku lífeyris teljast til óvirkra lífeyrisréttinda. Þau njóta einnig eignarréttarverndar fyrrnefndra ákvæða stjórnarskrár og mannréttindasáttmálans. Svigrúm til að takmarka óvirk lífeyrisréttindi hefur þó verið talið meira en þegar um virk réttindi er að ræða. Í dómi Hæstaréttar 23. mars 2000 í máli nr. 340/1999 hafði lífeyrisþegi ekki hafið töku lífeyris. Sérstaklega var tekið fram í forsendum dómsins að svigrúm löggjafans væri annað og rýmra til að takmarka lífeyrisréttindi þegar svo háttaði til.
Breyttar forsendur í nýjum reiknigrunni um lífslíkur og innleiðing hans hjá áfrýjanda
48. Þótt lengi hafi legið fyrir að lífaldur fólks fari hækkandi og gera megi ráð fyrir að þeir yngri nái hærra aldri en þeir eldri hafði samkvæmt framansögðu ávallt verið gengið út frá því í reiknigrunni um lífslíkur að fólk af sama kyni næði sama aldri. Á hinn bóginn hefur ávallt verið gengið út frá því að konur lifðu lengur. Við fyrri breytingar á reiknigrunni um lífslíkur, sem gerðu ráð fyrir að lífslíkur allra árganga myndu aukast jafnt, bar áfrýjanda því í tryggingafræðilegum athugunum á fjárhag sjóðsins að miða við að allir sjóðfélagar af sama kyni nytu ellilífeyris jafn lengi frá 67 ára aldri. Nýr reiknigrunnur um lífslíkur sem lífeyrissjóðum bar að byggja á frá árinu 2023 fól því í sér grundvallarbreytingu frá þeim fyrri að því leyti að í fyrsta sinn skyldu lífeyrissjóðir reikna tryggingafræðilegar skuldbindingar á þeim grundvelli að yngri sjóðfélagar næðu hærri aldri en þeir eldri og að skuldbindingar vegna yngri sjóðfélaga yrðu þar af leiðandi meiri en vegna þeirra eldri.
49. Fyrir liggur að fyrri breytingar á forsendum reiknigrunns um lífslíkur, þar sem gert var ráð fyrir jafnri aukningu á lífslíkum allra árganga, hafa leitt til hækkunar á lífeyrisskuldbindingum áfrýjanda og verri tryggingafræðilegrar stöðu lífeyrissjóðsins. Þar sem góð ávöxtun eigna sjóðsins hefur jafnan verið látin mæta auknum lífeyrisskuldbindingum hefur þó ekki komið til þess að áunnin lífeyrisréttindi sjóðfélaga væru beinlínis lækkuð af þessum sökum. Þau hafa þó væntanlega hækkað hlutfallslega minna en annars hefði orðið. Samkvæmt gögnum málsins leiddi góð ávöxtun eigna áfrýjanda í tvö skipti á árunum 2006 og 2007 til þess að áunnin lífeyrisréttindi sjóðfélaga voru hækkuð hlutfallslega jafnt. Í eitt skipti á árinu 2010 voru þau á hinn bóginn lækkuð vegna slæmrar afkomu sjóðsins en þá voru réttindi allra sjóðfélaga lækkuð hlutfallslega jafnt um 10%.
50. Þótt stefndi haldi því fram að áfrýjanda hafi ekki verið nauðsyn að innleiða hinn nýja reiknigrunn um lífslíkur með því að breyta áunnum lífeyrisréttindum sjóðfélaga mismikið eftir aldri er ekki tölulegur ágreiningur um hvernig hann var lagaður að sjóðnum meðal annars með hliðsjón af kynjahlutfalli sjóðfélaga. Þá er óumdeilt að innleiðing hans hjá áfrýjanda hafði þau áhrif að tryggingafræðileg staða sjóðsins versnaði um rúma 76,6 milljarða króna.
51. Á árunum 2021 og 2022 voru tvívegis gerðar breytingar á samþykktum áfrýjanda vegna góðrar ávöxtunar sjóðsins sem leiddu til hækkunar á áunnum lífeyrisréttindum sjóðfélaga. Annars vegar var um að ræða 10% jafna hlutfallslega hækkun á áunnum mánaðarlegum ellilífeyri allra sjóðfélaga á árinu 2021. Hins vegar 12% jafna hlutfallslega hækkun á árinu 2022 samhliða þeirri mismiklu lækkun áunnins mánaðarlegs ellilífeyris sjóðfélaga sem kom til vegna innleiðingar nýs reiknigrunns um lífslíkur. Ólíkar forsendur voru þannig að baki annars vegar umræddum tveimur hækkunum og hins vegar þeirri umdeildu lækkun sem aðilar deila um í málinu.
Áunnin lífeyrisréttindi og mótvægisaðgerðir áfrýjanda til að mæta auknum lífeyrisskuldbindingum vegna nýs reiknigrunns um lífslíkur sjóðfélaga
52. Óumdeilt er að í yfirlitum sem áfrýjandi sendir sjóðfélögum sínum um iðgjaldagreiðslur og lífeyrisréttindi þeirra kemur fram tafla sem sýnir þann mánaðarlega lífeyri til æviloka í krónum talið sem þeir hafa áunnið sér miðað við að taka hans hefjist við 65, 67 eða 70 ára aldur. Í fyrirvara á þessum yfirlitum segir meðal annars: „Framangreind réttindi eru ekki úrskurður um lífeyri og eru því birt með fyrirvara.“ Stefndi byggir á því að þær fjárhæðir mánaðarlegs ellilífeyris sem fram komi í þessum yfirlitum feli í sér loforð áfrýjanda um áunninn ellilífeyri sjóðfélaga og lækkun mánaðarlegs ellilífeyris feli þar með í sér skerðingu á áunnum lífeyrisrétti. Áfrýjandi telur aftur á móti að vegna fyrirvarans sé ekki unnt að líta á upplýsingar um mánaðarlegan lífeyri sem bindandi loforð. Við mat á því hvort áunnin lífeyrisréttindi sjóðfélaga hafi verið lækkuð, eða eftir atvikum lækkuð mismikið eftir aldri, verði að líta til heildarverðmætis lífeyrisréttinda hvers árgangs sjóðfélaga sem taki ekki aðeins mið af mánaðarlegri greiðslu ellilífeyris heldur einnig lífslíkum eða nánar tiltekið hversu lengi megi ætla að sjóðfélagi njóti greiðslna ellilífeyris.
53. Fyrir liggur að hlutfallslega jöfn hækkun áunnins mánaðarlegs lífeyris allra sjóðfélaga vegna góðrar ávöxtunar eigna lífeyrissjóðsins og hin umdeilda mismikla lækkun vegna nýrra forsendna um lífslíkur komu til framkvæmda á sama tíma á grundvelli samhliða breytinga á samþykktum áfrýjanda. Þrátt fyrir það verður að skoða lögmæti lækkunar mánaðarlegs lífeyris sjálfstætt og án tillits til samhliða hækkunar lífeyris allra sjóðfélaga svo og fyrri hækkana. Helgast það einkum af því að sú aðferð að miða við hversu góð tryggingafræðileg staða lífeyrissjóðs er þegar tilefni til breytinga á áunnum réttindum skapast og hvort unnt sé þá að eyða neikvæðum áhrifum þyngri skuldbindinga lífeyrissjóðs vegna bættra lífslíka eða milda þau gæti leitt til tilviljunarkenndrar niðurstöðu um lögmæti breytinganna.
54. Við úrlausn sakarefnisins verður því litið fram hjá þeirri mildandi aðgerð áfrýjanda sem fyrr er lýst, að hækka áunninn mánaðarlegan lífeyri allra sjóðfélaga hlutfallslega jafnt um 12% samhliða því að áunninn mánaðarlegur ellilífeyrir yngri og eldri sjóðfélaga var lækkaður mismikið. Án þessara mildandi áhrifa hefðu áhrif innleiðingar nýs reiknigrunns um lífslíkur orðið þau að mánaðarlegur ellilífeyrir elstu árganganna hefði lækkað um 5,1% en yngsta árgangsins um 13,8%. Í þessu ljósi verður að leggja sjálfstætt mat á lögmæti innleiðingar áfrýjanda á nýjum reiknigrunni um lífslíkur með 6. tölulið viðauka B í breytingum á samþykktum sjóðsins.
55. Sú lagaskylda hvíldi á áfrýjanda samkvæmt 1. mgr. 24. gr., sbr. 1. mgr. 39. gr. laga nr. 129/1997 og 14. gr. reglugerðar nr. 391/1998, að taka mið af nýjustu dánar- og eftirlifendatöflum við mat á lífslíkum sjóðfélaga við tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðsins. Í því sambandi verður að hafa í huga að samkvæmt 1. mgr. 39. gr. laganna skal hrein eign lífeyrissjóðs til greiðslu lífeyris, metin í samræmi við 24. gr. þeirra, ásamt núvirði framtíðariðgjalds vera jafnhá núvirði væntanlegs lífeyris vegna þegar greiddra iðgjalda og framtíðariðgjalda. Sá nýi reiknigrunnur um lífslíkur sem áfrýjanda bar að miða við frá árinu 2023 hafði svo mikil áhrif á tryggingafræðilegar skuldbindingar hans að honum var rétt að bregðast við með endurskoðun á áunnum réttindum sjóðfélaga til lífeyris.
56. Af málatilbúnaði aðila verður ráðið að allir lífeyrissjóðir landsins hafi brugðist við nýjum reiknigrunni um lífslíkur með því að lækka ávinnslu lífeyrisréttinda sjóðfélaga til framtíðar á grundvelli ógreiddra iðgjalda. Þær breytingar nægðu hins vegar ekki til að laga skuldbindingar sjóðanna að nýjum grunni um lífslíkur sem gerði ekki aðeins ráð fyrir að yngri sjóðfélagar næðu hærri aldri en þeir eldri heldur einnig lengri lífslíkum alls hópsins.
57. Samkvæmt gögnum málsins naut áfrýjandi ráðgjafar tryggingastærðfræðings sem lagði mat á eftirfarandi mótvægisaðgerðir til að mæta auknum framtíðarskuldbindingum sjóðsins vegna nýrra forsendna um lífslíkur:
A. Stighækkandi viðmiðunaraldur lífeyristöku.
B. Óbreyttur 67 ára (eða 70) viðmiðunaraldur en réttindi umreiknuð.
C. Núverandi réttindi óbreytt en stighækkandi viðmiðunaraldur í framtíðinni.
D. Tekin upp ný réttindatafla en viðmiðunaraldur og áunnin réttindi óbreytt.
E. Tekin upp ný réttindatafla, viðmiðunaraldur óbreyttur og áunnin réttindi hækkuð jafnt yfir alla.
58. Áfrýjandi og nokkrir aðrir lífeyrissjóðir völdu að fara leið B en svipaður fjöldi annarra lífeyrissjóða kaus að fylgja ráðleggingum annars tryggingastærðfræðings um að fara leiðir D eða E. Tekið skal fram að með jafnri hækkun áunnins mánaðarlegs lífeyris fyrir alla í E-lið var átt við samanlögð áhrif hækkunar mánaðarlegs ellilífeyris vegna góðrar ávöxtunar sjóðsins og lækkunar hans vegna innleiðingar á nýjum reiknigrunni um lífslíkur. Munurinn á leið B annars vegar og leiðum D og E hins vegar var sá að samkvæmt leið B var gert ráð fyrir að breyting á áunnum mánaðarlegum ellilífeyri yngri sjóðfélaga og eldri yrði mismikil en hlutfallslega jöfn samkvæmt leiðum D og E.
59. Fyrir liggur að áfrýjandi hefði getað náð sama tryggingafræðilega árangri með því að lækka áunninn mánaðarlegan ellilífeyri allra sjóðfélaga jafnt. Hefði hlutfallslega jöfn lækkun verið fléttuð saman við 10% jafna hækkun vegna góðrar ávöxtunar sjóðsins hefði samkvæmt gögnum málsins verið unnt að hækka áunninn mánaðarlegan ellilífeyri allra sjóðfélaga hlutfallslega jafnt um 3.5%.
Lögmæti þeirrar leiðar sem áfrýjandi valdi til að vega upp á móti auknum lífeyrisskuldbindingum vegna nýs reiknigrunns um lífslíkur
60. Sem fyrr segir hafði áfrýjandi úr fleiri en einum kosti að velja til að mæta auknum lífeyrisskuldbindingum vegna nýs reiknigrunns um lífslíkur.
61. Með hliðsjón af sakarefni málsins er nauðsynlegt að meta heildstætt eðli fyrrgreindra breytinga á lífeyrisréttindum stefnda, lagalegan grundvöll þeirra og markmið. Við það mat kemur einnig til skoðunar hvort ákvörðun um hvaða leið var valin við breytingarnar hafi verið tekin á málefnalegum grunni og sjónarmiða um jafnræði og meðalhóf gætt.
62. Stefndi greiddi sem fyrr segir iðgjöld til áfrýjanda í A-deild sjóðsins sem veita honum meðal annars rétt til ellilífeyris til æviloka. Óumdeilt er að A-deild áfrýjanda er samtryggingarsjóður sem ekki nýtur bakábyrgðar ríkisins eða annarra og þarf að fjármagna greiðslur vegna ellilífeyris og annarra réttinda sjóðfélaga svo og rekstur sinn með iðgjöldum og ávöxtun þeirra. Samræmist þetta 1. mgr. 27. gr. laga nr. 129/1997 þar sem segir að samþykktir lífeyrissjóðs skuli við það miðaðar að hann geti staðið við skuldbindingar sínar.
63. Við úrlausn málsins verður að horfa til þess að hinar umdeildu breytingar á réttindum stefnda lækkuðu ekki áætluð heildarréttindi hans til ellilífeyris út ævina umfram það sem aðrir sjóðfélagar, yngri sem eldri, þurftu að þola ef miðað var við nýjan reiknigrunn um lífslíkur. Skerðing réttinda hans getur því einungis talist hafa falist í lækkun áunninna réttinda hans til áætlaðs mánaðarlegs ellilífeyris, miðað við fyrri áætlanir sem honum höfðu verið kynntar, sem var hlutfallslega meiri í hans tilviki en eldri sjóðfélaga. Svo sem áður greinir voru þær áætlanir þó bundnar þeim fyrirvara að réttindin gætu tekið breytingum.
64. Um lagalegan grundvöll breytinga á samþykktum áfrýjanda sem leiddu til umræddrar lækkunar á áunnum rétti stefnda til mánaðarlegs ellilífeyris er í fyrsta lagi til þess að líta að samkvæmt 1. mgr. 39. gr. laga nr. 129/1997 ber áfrýjanda að tryggja að hrein eign hans til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda sé jafnhá núvirði væntanlegs lífeyris vegna þegar greiddra iðgjalda og framtíðariðgjalda. Við mat á hreinni eign ber áfrýjanda samkvæmt ákvæðinu að fara að fyrirmælum 24. gr. laganna.
65. Í síðastnefndu greininni er mælt fyrir um að árlega skuli stjórn lífeyrissjóðs láta fara fram tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðsins í samræmi við 39. gr. laganna og ákvæði reglugerðar sem ráðherra setur. Í reglugerð skal kveðið á um almennar tryggingafræðilegar forsendur, meðal annars um dánaráhættu, sem nota skal við núvirðingu framtíðariðgjalda og væntanlegs lífeyris sjóðsins. Ákvæði 14. gr. reglugerðar nr. 391/1998 sækir stoð í 24. gr. laganna.
66. Sem fyrr segir er óumdeilt að tillaga Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga 13. desember 2021 um breytingar á forsendum reiknigrunns um lífslíkur fól í sér þá veigamiklu breytingu að í fyrsta sinn var tekið mið af því að hver árgangur myndi lifa lengur en sá næsti á undan. Fyrri útreikningar á lífslíkum höfðu hins vegar gert ráð fyrir jafnri lengingu á lífslíkum allra árganga og að þeir nytu allir eftirlauna í jafnlangan tíma.
67. Af hálfu stefnda er byggt á því að umrædd breyting á samþykktum áfrýjanda, sem leitt hafi til lækkunar á mánaðarlegum lífeyri stefnda, hefði því aðeins getað verið lögmæt að uppfylltum skilyrðum 2. mgr. 39. gr. laga nr. 129/1997. Það hafi hins vegar ekki verið reyndin. Tryggingafræðileg staða áfrýjanda hafi raunar verið svo sterk að unnt hefði verið að hækka áunnin mánaðarleg lífeyrisréttindi allra sjóðfélaga jafnt um 3,5% í stað þeirrar lækkunar sem stefndi og aðrir yngri sjóðfélagar hefðu mátt sæta á áunnum lífeyrisréttindum sínum.
68. Í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 129/1997 er kveðið á um skyldu til að gera breytingar á samþykktum lífeyrissjóðs við þær aðstæður að tryggingafræðileg athugun samkvæmt 24. gr. laganna leiði í ljós meira en 10% mun á eignarliðum og lífeyrisskuldbindingum samkvæmt 1. mgr. 39. gr. eða slíkur munur haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár. Sú gagnályktun verður þó með engu móti dregin af ákvæðinu að lífeyrissjóði sé óheimilt að gera breytingar á samþykktum sínum við aðrar aðstæður en þar eru nefndar sé tilgangurinn sá að tryggja að hann geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart sjóðfélögum til framtíðar, sbr. meðal annars til hliðsjónar fyrrnefndan dóm Hæstaréttar í máli nr. 665/2008.
69. Í 2. mgr. 27. gr. laga nr. 129/1997 eru talin upp atriði sem skal kveðið á um í samþykktum lífeyrissjóðs. Meðal þeirra eru samkvæmt 7. tölulið hvernig iðgjöld til sjóðsins skuli ákveðin og hvernig þau skuli greidd. Samkvæmt 8. tölulið skal í samþykktum koma fram hvernig útreikningi réttinda sjóðfélaga og aðstandenda til lífeyris skuli hagað, hver séu nánari skilyrði lífeyrisréttar og hvernig framkvæmd lífeyrisgreiðslna sé háttað. Með hliðsjón af fyrirmælum 1. mgr. greinarinnar um að samþykktir lífeyrissjóðs skuli við það miðaðar að hann geti staðið við skuldbindingar sínar ber honum ekki aðeins að setja í samþykktir sínar ákvæði um réttindi sjóðfélaga heldur er jafnframt skylt að þær séu á hverjum tíma með þeim hætti að áskilnaði málsgreinarinnar sé mætt. Að sama brunni ber 2. mgr. 14. gr. laganna um að ellilífeyrir skuli borgaður út mánaðarlega með jöfnum greiðslum til æviloka. Hann skuli vera verðtryggður og breytast til samræmis við breytingu á vísitölu neysluverðs. Í niðurlagi ákvæðisins er mælt fyrir um að nánar skuli kveðið á um fjárhæð ellilífeyris, útreikning og skilyrði fyrir greiðslu í samþykktum.
70. Umræddar breytingar á samþykktum áfrýjanda lutu samkvæmt framansögðu að atriðum sem skylt er samkvæmt lögum nr. 129/1997 að kveða á um í þeim og verður þar af leiðandi breytt með þeim hætti sem lögin og ákvæði samþykktanna sjálfra mæla fyrir um. Í því sambandi verður jafnframt að líta til þess að áfrýjandi hafði nokkurt svigrúm um efni og útfærslu breytinga á samþykktum sínum, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 665/2008 og dóm réttarins 23. október 2024 í máli nr. 12/2024.
71. Samkvæmt öllu framangreindu höfðu breytingar þær sem gerðar voru á samþykktum áfrýjanda með 6. tölulið viðauka B næga stoð í settum lögum. Svigrúm til breytinga á réttindum sjóðfélaga takmarkaðist hins vegar einnig af þeirri vernd sem óvirk lífeyrisréttindi njóta samkvæmt fyrrnefndum ákvæðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmálans. Var því ekki nægilegt að breytingarnar ættu formlega stoð í lögum heldur þurftu þær einnig að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og jafnræðis sjóðfélaga og meðalhófs að vera gætt.
72. Þótt áfrýjandi hefði samkvæmt framansögðu getað brugðist við breyttum reiknigrunni um lífslíkur með annarri útfærslu á breytingum á samþykktum en hann valdi verður að leggja til grundvallar að þær hafi stefnt að því lögmæta markmiði að stuðla að því að hann gæti staðið við lífeyrisskuldbindingar sínar til framtíðar.
73. Sem fyrr segir höfðu breytingar á samþykktum áfrýjanda það sjálfstæða markmið að heildargreiðslur ellilífeyris allra sjóðfélaga lækkuðu hlutfallslega jafn mikið vegna nýs reiknigrunns um lífslíkur. Þessu markmiði var náð með því að lækka áunninn mánaðarlegan ellilífeyri yngri sjóðfélaga meira en þeirra eldri í ljósi þess að yngri árgangar kæmu til með að ná hærri aldri og þar af leiðandi njóta ellilífeyris í lengri tíma. Fallist er á með áfrýjanda að þessar breytingar séu til þess fallnar að eldri sjóðfélagar taki ekki á sig hluta af skuldbindingum yngri sjóðfélaga sem hefði orðið raunin ef áunnum rétti til mánaðarlegs ellilífeyris hefði verið breytt hlutfallslega jafnt. Breytingarnar studdust því við málefnaleg sjónarmið.
74. Stefndi telur hina umdeildu breytingu hafa verið andstæða uppbyggingu áfrýjanda sem ódeildarskipts samtryggingarsjóðs. Breytingin hafi í raun falið í sér að sjóðnum væri skipt upp í jafn margar deildir og nemi árgöngum sjóðfélaga. Slík mismunun sjóðfélaga eftir aldri sé jafn ólögmæt og mismunun eftir kyni, stöðu, menntun eða búsetu en fræðilega mætti flokka og mismuna sjóðfélögum með þeim hætti eftir spá um mismunandi lífslíkur slíkra hópa. Mismunun einstakra hópa sjóðfélaga af því tagi hafi hins vegar aldrei tíðkast og allar hækkanir og lækkanir á réttindum sjóðfélaga ávallt verið hlutfallslega jafnar.
75. Sem fyrr segir gerði nýr reiknigrunnur um lífslíkur, sem áfrýjanda bar að innleiða við tryggingafræðilega athugun á fjárhag sjóðsins, ráð fyrir því að hver yngri árgangur sjóðfélaga næði hærra aldri en næsti árgangur á undan. Af því leiddi að ef engar breytingar hefðu verið gerðar á áunnum mánaðarlegum ellilífeyri sjóðfélaga eða hann lækkaður hlutfallslega jafnt hefðu áætlaðar lífeyrisskuldbindingar sjóðsins vegna yngri árganga sjóðfélaga í reynd orðið hlutfallslega meiri en vegna þeirra eldri. Í því sambandi verður að hafa í huga að lífslíkur sjóðfélaga eru sá þáttur sem vegur hvað þyngst í mati á tryggingafræðilegri stöðu lífeyrissjóða.
76. Mismikil lækkun áætlaðs áunnins mánaðarlegs ellilífeyris er ekki eina dæmið um að aldur sjóðfélaga skipti máli samkvæmt þeim reglum sem gilda um áfrýjanda. Þannig hefur áhrif á fjárhæð mánaðarlegs ellilífeyris hvenær sjóðfélagi ákveður að hefja töku hans. Þá munu frá árinu 2005 hafa verið í samþykktum áfrýjanda ákvæði um að ávinnsla réttinda ráðist af aldri sjóðfélaga í lok þess launamánaðar sem iðgjald er greitt af til lífeyrissjóðsins, sbr. grein 11.2. Þar er vísað til töflu 1 í viðauka A í samþykktunum en samkvæmt henni fékk 16 ára sjóðfélagi um fimm sinnum hærri árleg lífeyrisréttindi fyrir hvert 10.000 króna iðgjald en 69 ára sjóðfélagi. Helgast þetta af því að sjóðurinn getur ávaxtað iðgjald yngri sjóðfélaga lengur en þeirra eldri og framlag þeirra yngri er því verðmætara.
77. Ekki er um það deilt að þótt fyrir hafi legið um langt skeið að konur lifi lengur en karlar og njóti því ellilífeyris lengur eigi það ekki að hafa áhrif á réttindaávinnslu sjóðfélaga eftir kyni. Ávinnsla réttinda, eða eftir atvikum mismunandi lækkun áunninna réttinda, sem tæki mið af öðrum þeim þáttum sem stefndi hefur nefnt og geta haft áhrif á lífslíkur, svo sem kynferði, staða, búseta eða menntun sjóðfélaga er af öðrum toga en að miða réttindi við aldur sjóðfélaga sem á sér stoð í lögum.
78. Þar sem nýr reiknigrunnur um lífslíkur, sem áfrýjanda bar að miða við frá árinu 2023, fól í sér grundvallarbreytingar frá fyrri forsendum um lífslíkur verður ekki fallist á með stefnda að önnur tilhögun við fyrri breytingar á áunnum réttindum styðji málatilbúnað hans um brot gegn jafnræði. Ekki verður heldur fallist á með stefnda að mismikil lækkun áunnins mánaðarlegs ellilífeyris eftir aldri sjóðfélaga jafngildi því að A-deild sjóðsins hafi í reynd verið skipt upp í deildir enda renna öll iðgjöld áfram í sameiginlegan sjóð sem ávaxtaður er í einu lagi og allar eignir sjóðsins standa áfram til tryggingar skuldbindingum hans gagnvart öllum sjóðfélögum. Samtryggingareðli sjóðsins hélst þannig óbreytt og fyrrgreindar breytingar voru ekki í andstöðu við 6. tölulið 2. mgr. 27. gr. laga nr. 129/1997 sem kveður á um að í samþykktum lífeyrissjóðs skuli koma fram hvort fé í vörslu sjóðs skuli varðveitt sem ein heild eða í fjárhagslega aðskildum deildum.
79. Samkvæmt framansögðu braut áfrýjandi ekki gegn jafnræði sjóðfélaga sinna með mismikilli lækkun á áunnum mánaðarlegum ellilífeyri eftir fæðingarári.
80. Sem fyrr segir leiddu þær breytingar á samþykktum áfrýjanda sem fólust í 6. tölulið viðauka B í samþykktum hans til þess að áunninn mánaðarlegur ellilífeyrir stefnda lækkaði um 11,2%. Við mat á því hvort sjónarmiðs um meðalhóf hafi verið gætt er í fyrsta lagi að líta til þess að lækkun áætlaðs mánaðarlegs ellilífeyris var hlutfallslega fremur lítil. Í öðru lagi voru það yngri árgangar sjóðfélaga sem sættu meiri mánaðarlegri lækkun en þeir eldri en ljóst er að því yngri sem sjóðfélagar eru þeim mun lengra er til töku ellilífeyris. Verður því að miða við að meira svigrúm sé að jafnaði hjá þeim yngri en eldri til að bregðast við fyrirsjáanlegri lækkun framfærslutekna vegna lækkunar á áætluðum áunnum mánaðarlegum ellilífeyri. Auk þess mega þeir yngri fremur en þeir eldri vænta þess að fleiri breytingar muni verða gerðar á réttindum þeirra fram til upphafs lífeyristöku. Í þriðja lagi verður að líta til þess að vegna forsendna nýs reiknigrunns um að yngri sjóðfélagar næðu hærri aldri en eldri sjóðfélagar þurfa iðgjöld yngri sjóðfélaga að standa undir greiðslu mánaðarlegs ellilífeyris í lengri tíma en iðgjöld þeirra eldri. Meiri lækkun á áunnum mánaðarlegum ellilífeyri yngri sjóðfélaga en þeirra eldri endurspeglaði þessar nýju forsendur. Að öllu framangreindu virtu var ekki brotið gegn meðalhófi með lækkun á áunnum mánaðarlegum lífeyri stefnda.
81. Samkvæmt öllu framangreindu var breytingin í 6. tölulið viðauka B við samþykktir áfrýjanda, sem hafði í för með sér lækkun áunnins mánaðarlegs ellilífeyris stefnda, innan þess svigrúms sem áfrýjandi naut. Átti hún næga stoð í lögum og fól ekki í sér skerðingu á áunnum en óvirkum lífeyrisréttindum hans í andstöðu við 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Áfrýjandi verður því sýknaður af kröfum stefnda.
82. Rétt þykir að málskostnaður falli niður í héraði og fyrir Hæstarétti.
83. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað verður staðfest. Stefndi nýtur gjafsóknar fyrir Hæstarétti og greiðist allur gjafsóknarkostnaður hans úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans fyrir Hæstarétti sem telst hæfilega ákveðin 2.500.000 króna.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, er sýkn af kröfum stefnda, A.
Málskostnaður fellur niður í héraði og fyrir Hæstarétti.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað stefnda skal vera óraskað.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 2.500.000 krónur.