Hæstiréttur íslands

Mál nr. 42/2023

A (Gísli Guðni Hall lögmaður)
gegn
B (Hannes J. Hafstein lögmaður)

Lykilorð

  • Uppsögn
  • Grunnskóli
  • Kjarasamningur
  • Skaðabætur
  • Miskabætur

Reifun

A höfðaði mál gegn B til heimtu skaðabóta fyrir að víkja henni fyrirvaralaust úr starfi grunnskólakennara vegna kinnhests sem hún veitti 13 ára nemanda. Byggði B á því að háttsemi A hefði falið í sér gróft brot í starfi og viðvera hennar á vinnustað myndi valda áframhaldandi skaða fyrir starfsemi skólans. Því hefðu verið uppfyllt skilyrði til að víkja henni fyrirvaralaust úr starfi með vísan til málsgreinar 7 í grein 14.8 í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna Félags grunnskólakennara. Hæstiréttur tók fram að þótt ekki væri réttlætanlegt að kennari veitti nemanda kinnhest yrði við mat á því hvort brot A teldist gróft að skoða háttsemi hennar heildstætt á grundvelli allra atvika. Hefði háttsemin verið óundirbúið viðbragð A við kinnhesti sem nemandinn veitti henni eftir að hafa neitað að fylgja fyrirmælum. Í því hefði ekki falist líkamleg refsing eða líkamlegt inngrip í refsingarskyni sem starfsfólki er óheimilt að beita samkvæmt 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum. Enn fremur bæri að líta til þess að A hefði strax tilkynnt um atvikið til skólastjórnenda og þannig leitast við að koma málinu í réttan farveg innan skólans. Skólastjóri hefði þó ekki gripið til sérstakra aðgerða sem hefði verið rétt við þessar aðstæður. Í ljósi þessara atvika var ekki fallist á að A hefði orðið uppvís að grófu broti í starfi. Þá hefði fullyrðing B um að áframhaldandi störf A við skólann myndu valda skaða fyrir starfsemi hans með vísan til öryggis nemenda ekki verið studd neinum frekari rökum eða gögnum. Samkvæmt þessu hefðu skilyrði umrædds kjarasamningsákvæðis til að víkja A fyrirvaralaust úr starfi án undanfarandi áminningar ekki verið uppfyllt og ákvörðun B því ólögmæt. Var B gert að greiða A bætur vegna fjártjóns og miska.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. ágúst 2023. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 13.428.373 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. október 2021 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar úr hendi stefnda á öllum dómstigum.

3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni

4. Málsaðilar deila um lögmæti ákvörðunar stefnda um að víkja áfrýjanda fyrirvaralaust og án undanfarandi áminningar úr starfi grunnskólakennara við […]skóla vegna kinnhests sem hún gaf 13 ára nemanda við skólann.

5. Með héraðsdómi 17. febrúar 2022 var talið að háttsemi áfrýjanda hefði ekki falið í sér gróft brot í starfi sem réttlætti fyrirvaralausa uppsögn hennar og stefndi var dæmdur til að greiða henni 8.000.000 króna í bætur fyrir fjártjón og miska. Með hinum áfrýjaða dómi Landsréttar 26. maí 2023 var stefndi á hinn bóginn sýknaður af kröfum áfrýjanda þar sem heimilt hefði verið að víkja henni fyrirvaralaust úr starfi vegna atviksins.

6. Áfrýjunarleyfi var veitt 30. ágúst 2023, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2023-82, á þeim grunni að dómur í málinu gæti meðal annars haft fordæmisgildi um hvenær heimilt sé að víkja starfsmanni sveitarfélags fyrirvaralaust úr starfi.

Málsatvik

7. Tildrög uppsagnar áfrýjanda úr starfi íþróttakennara við grunnskóla […] eru þau að 5. maí 2021 var hún að kenna drengjum í 7. og 8. bekk íþróttir á íþróttavelli við skólann og léku nemendur þar fótbolta. Samnemandi þeirra, stúlka á fjórtánda ári, sem átti að vera í kennslustund hjá öðrum kennara, settist á grasflöt við völlinn. Bað áfrýjandi hana um að fara en nemandinn sinnti ekki þeim fyrirmælum. Enduðu samskipti þeirra með því að stúlkan gaf áfrýjanda kinnhest og áfrýjandi brást við með því að gefa nemandanum kinnhest.

8. Í stefnu áfrýjanda til héraðsdóms er atvikinu lýst svo að eftir að hafa beðið stúlkuna ítrekað um að fara hafi áfrýjandi sest niður á hækjur sér og tekið um vinstri úlnlið hennar, horft í augu hennar og beðið hana um að færa sig þar sem hún truflaði kennsluna með nærveru sinni. Stúlkan hafi þá svarað áfrýjanda með orðunum „[...] ekki fokking snerta mig“, sveiflað hendinni hraustlega og gefið áfrýjanda kröftugan löðrung. Hafi áfrýjandi brugðist ósjálfrátt við í sjálfsvörn með því að gefa nemandanum léttan kinnhest. Í greinargerð stefnda til héraðsdóms er tekið fram að málavextir séu óumdeildir varðandi atvikið sem leiddi til uppsagnar áfrýjanda.

9. Beint í kjölfarið hringdi áfrýjandi í föður nemandans og einnig í skólastjóra […]skóla, D, og greindi þeim frá atvikinu. Þá greindi hún umsjónarkennara og starfsmanni skólans sem fór með mál nemandans samdægurs frá því. Næsta dag hitti áfrýjandi skólastjórann ásamt deildarstjóra við skólann á fundi. Í fundargerð kom fram lýsing hennar á atvikinu. Áfrýjandi mætti áfram til vinnu næstu daga. Hinn 11. maí 2021 hafði lögregla samband við hana og tilkynnti að málið hefði verið kært þangað. Daginn eftir leitaði áfrýjandi til C, sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs […], til að ræða þessa atburði. Lagði hann til að áfrýjandi færi í launað leyfi frá störfum meðan málið væri rannsakað og samþykkti hún það. Málið var síðar fellt niður hjá lögreglu.

10. Sveitarstjóri stefnda, E, boðaði áfrýjanda til fundar með bréfi 2. júní 2021. Fram kom að á fundinum ætti að ræða brot hennar í starfi umræddan dag. Vísað var til greina 14.7 og 14.8 í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna Félags grunnskólakennara sem grundvöll þess að brotið gæti leitt til áminningar eða fyrirvaralausrar brottvikningar úr starfi. Fór fundurinn fram 8. sama mánaðar en þar mættu auk áfrýjanda og sveitarstjóra, skólastjóri […]skóla, sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs, lögmaður B og fulltrúi félags grunnskólakennara og lögmaður félagsins. Samkvæmt fundargerð var atvikið rætt og möguleg viðbrögð við broti áfrýjanda en fram kom að hún væri miður sín vegna þess. Einnig kom þar fram að stefndi myndi veita henni stuðning með sálfræðiaðstoð vegna atviksins.

11. Áfrýjanda var tilkynnt með bréfi sveitarstjóra stefnda 18. júní að til skoðunar væri að víkja henni fyrirvaralaust úr starfi á grundvelli málsgreinar 7 í grein 14.8 í kjarasamningi þar sem hún hefði orðið uppvís að grófu broti í starfi. Vísað var til þess að umrætt atvik hefði átt sér stað í kennslustund. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum væri óheimilt að beita líkamlegum refsingum eða líkamlegu inngripi í refsingarskyni. Þá var vísað til 12. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla þess efnis að starfsfólk grunnskóla skyldi gæta kurteisi, nærgætni og lipurðar í framkomu gagnvart börnum. Var áfrýjanda veittur kostur á að skila andmælum innan tilgreinds frests.

12. Formaður félags grunnskólakennara skilaði andmælum fyrir hönd áfrýjanda 30. júní 2021. Var því mótmælt að skilyrði fyrirvaralausrar uppsagnar væru fyrir hendi. Einnig var vísað til bréfa kennara […]skóla 7. og 23. sama mánaðar sem afhent höfðu verið skólastjóra. Þar voru reifaðar alvarlegar áhyggjur þeirra af vaxandi agaleysi og jafnvel hættuástandi í skólanum og skorti á viðbrögðum skólastjórnenda við óvirðingu og ofbeldi nemenda gagnvart kennurum.

13. Með bréfi 7. júlí 2021 tilkynnti sveitarstjóri stefnda áfrýjanda um fyrirvaralausa brottvikningu hennar úr starfi grunnskólakennara við […]skóla á grundvelli fyrrgreindra ákvæða í kjarasamningi, reglugerðar nr. 1040/2011 og laga nr. 91/2008. Fól ákvörðunin í sér að starfsskyldur og launagreiðslur hennar féllu niður frá og með þeim degi.

14. Nokkru síðar sagði stefndi einnig upp verktakasamningi við áfrýjanda um umsjón með heilsurækt á […], meðal annars fyrir eldri borgara.

15. Áfrýjandi kveður sig enga vinnu hafa fengið við kennslu eftir þetta í sinni heimabyggð. Hún hafi verið atvinnulaus síðan. Af hennar hálfu hafa verið lögð fram vottorð um sálfræðiaðstoð og þjónustu geðdeildar henni til handa. Þá upplýsti lögmaður hennar við málflutning fyrir Hæstarétti að áfrýjandi fengi nú greiddan örorkulífeyri.

Málsástæður aðila

Helstu málsástæður áfrýjanda

16. Áfrýjandi mótmælir staðhæfingu stefnda um að atvikið 5. maí 2021 hafi verið á annan veg en lýst er í stefnu og vísar til greinargerðar hans til héraðsdóms um að málavextir séu óumdeildir. Þá gerir hún athugasemdir við að í hinum áfrýjaða dómi sé um atvik vísað til lögregluskýrslu sem tekin var af umræddum nemanda 28. ágúst 2021 en stefndi lagði fyrst fram fyrir Landsrétti. Sú skýrsla hafi ekkert sönnunargildi.

17. Áfrýjandi bendir á að hún hafi frá fyrstu stundu viðurkennt að hafa gert mistök með því að slá nemandann lausan kinnhest, en það hafi verið ósjálfráð viðbrögð er hún varð fyrir líkamsárás af hans hálfu. Tilvísun stefnda til 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 1040/2011 um að starfsfólki skóla sé óheimilt að beita líkamlegum refsingum og líkamlegu inngripi í refsingarskyni eigi engan veginn við um atvikið. Réttara væri að líta til 2. mgr. sömu greinar um viðbrögð við háttsemi nemenda sem skapi hættu fyrir starfsfólk skóla. Þá sé ljóst að líkamsárás nemandans hafi falið í sér gróft brot á skyldum hans samkvæmt 14. gr. laga nr. 91/2008.

18. Áfrýjandi byggir á því að réttra málsmeðferðarreglna stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi ekki verið gætt. Stefndi hafi ekki í aðdraganda uppsagnarinnar rökstutt hvernig háttsemi hennar uppfyllti skilyrði umrædds kjarasamningsákvæðis um að brotið hafi verið gróft og viðvera hennar á vinnustað myndi valda áframhaldandi skaða. Því hafi henni verið ógerlegt að andmæla röksemdum að baki ákvörðun stefnda og þannig hafi verið brotið gegn andmælareglu 13. gr. svo og meðalhófsreglu 12. gr. þar sem vægara úrræði eins og áminningu var ekki beitt.

19. Mikilvægt sé að meta atburðarásina heildstætt. Í kjölfar atviksins hafi áfrýjandi umsvifalaust gert allt sem ætlast yrði til af henni sem grunnskólakennara. Hún hafi greint föður nemandans, skólastjóra, umsjónarkennara og starfsmanni sem fór með mál nemandans frá því. Viðbrögð stjórnenda skólans hafi hins vegar ekki verið í samræmi við skyldur þeirra samkvæmt lögum og reglum en á stefnda hvíli skylda til að tryggja starfsmönnum sínum öruggt vinnuumhverfi. Skólinn hafi á engan hátt brugðist við atvikinu, svo sem með því að funda með foreldrum og áfrýjanda eða leita sátta með aðstoð fagfólks. Kennarar við skólann hefðu lengi kvartað undan öryggisleysi vegna hegðunar nemenda en umræddur nemandi hafi átt við mikil agavandamál að stríða.

20. Heimild til fyrirvaralausrar uppsagnar samkvæmt málsgrein 7 í grein 14.8 í kjarasamningi eigi aðeins við í undantekningartilvikum og háttsemi hennar hafi ekki réttlætt frekari viðbrögð af hálfu skólastjórnenda en áminningu.

21. Við mat á tjóni og miska vegna ákvörðunar stefnda telur áfrýjandi að líta beri til 25 ára flekklauss starfsferils hennar sem grunnskólakennara. Með uppsögninni hafi orðspor hennar verið gjöreyðilagt og hún þurft að þola útskúfun í litlu samfélagi. Hún hafi ekki átt möguleika á að fá kennarastöðu nærri sinni heimabyggð og verið atvinnulaus síðan. Andlegar afleiðingar hafi verið sérstaklega þungbærar og hún þurft sálfræðiaðstoð og þjónustu geðdeildar. Því séu rök til að dæma hærri miskabætur en dæmi eru um í málum um brot gegn starfsmönnum.

Helstu málsástæður stefnda

22. Stefndi tekur fram að málsatvik séu aðeins óumdeild að því leyti að áfrýjandi hafi slegið nemanda við grunnskólann í andlitið á skólatíma. Misræmi sé á hinn bóginn í frásögn hennar um atvikið svo sem hvort hún hafi aðeins lagt hönd á úlnlið nemandans eða gripið um hann. Þá skipti í reynd ekki máli hvort viðbrögð hennar voru ósjálfráð eða ekki. Úrslitum ráði það atvik sem leiddi til fyrirvaralausrar uppsagnar, að áfrýjandi sló nemanda í andlitið.

23. Stefndi tekur fram að líkamlegt inngrip gagnvart nemanda kunni að vera réttlætanlegt samkvæmt 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 1040/2011 vegna brýnnar nauðsynjar til að afstýra árás eða koma í veg fyrir að nemandi skaði sig eða aðra. Að slá nemanda án slíks markmiðs sé hins vegar ekki réttlætanlegt. Höggið sem áfrýjandi hafi veitt barninu hafi ekki verið réttlætanlegt í ljósi 2. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar, enda hafi það átt rót í því að áfrýjandi missti stjórn á skapi sínu og hafi falið í sér líkamlega refsingu gegn nemanda. Því hafi hún brotið gegn 1. mgr. sömu greinar reglugerðarinnar.

24. Við mat á alvarleika brotsins beri að líta til yfirburðastöðu áfrýjanda gagnvart barninu, bæði sökum aldurs og stöðu hennar sem kennara við skólann. Stefndi beri ábyrgð á rekstri grunnskóla í sveitarfélaginu og jafnframt að nemendur njóti þeirra réttinda sem þeim eru tryggð í lögum nr. 91/2008. Þar beri einkum að líta til 1. mgr. 13. gr. laganna um að nemendur eigi rétt á að finna til öryggis í öllu starfi á vegum skólans. Þá beri starfsfólki samkvæmt 12. gr. laganna að rækja störf sín af fagmennsku og alúð og gæta kurteisi, nærgætni og lipurðar í samskiptum sínum við börn, foreldra og samstarfsfólk.

25. Stefndi telur að öll skilyrði málsgreinar 7 í grein 14.8 í kjarasamningi til að víkja áfrýjanda fyrirvaralaust úr starfi hafi verið uppfyllt. Hún hafi orðið uppvís að grófu broti í starfi. Þá hefði áframhaldandi viðvera hennar, eftir að hafa beitt nemanda líkamlegu ofbeldi, skaðað starfsemi skólans og dregið úr öryggi nemenda hans. Stefndi hafnar því að honum hafi borið, til að gæta meðalhófs, að grípa til vægari úrræða gagnvart áfrýjanda. Þá hafi meðferð máls áfrýjanda að öðru leyti verið í samræmi við stjórnsýslulög.

26. Loks mótmælir stefndi bótakröfu áfrýjanda og telur að engin rök hafi verið færð fyrir kröfu hennar um laun í 16 mánuði, langt umfram umsaminn uppsagnarfrest. Þá standi engin rök til að dæma hærri miskabætur en almennt hafi verið dæmdar í málum um brottvikningu starfsmanna.

Niðurstaða

27. Kjarni málatilbúnaðar áfrýjanda fyrir Hæstarétti er að ekki hafi verið fullnægt skilyrðum til að víkja henni fyrirvaralaust úr starfi á grundvelli málsgreinar 7 í grein 14.8 í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna Félags grunnskólakennara. Skilyrði þess eru að starfsmaður verði uppvís að grófu broti í starfi eða liggi undir rökstuddum grun um refsiverða háttsemi sem ætla má að hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 enda valdi viðvera hans á vinnustað áframhaldandi skaða fyrir starfsemina.

28. Áfrýjandi hefur frá upphafi viðurkennt að sér hafi orðið á mistök í starfi en eins og atvikum var háttað geti háttsemi hennar ekki varðað þyngri viðurlögum en áminningu samkvæmt grein 14.7 í kjarasamningnum. Samkvæmt greininni skal veita starfsmanni skriflega áminningu þyki framkoma hans eða athafnir í starfi ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu.

29. Leggja verður til grundvallar þá lýsingu áfrýjanda á tildrögum atviksins 5. maí 2021 að það hafi verið ósjálfráð viðbrögð hennar að veita nemandanum léttan kinnhest eftir að nemandinn sló áfrýjanda í andlitið í kjölfar þess að hafa neitað að fylgja fyrirmælum. Í ljósi þess að í greinargerð stefnda í héraði var tekið fram að málavextir væru óumdeildir verður ekki við úrlausn málsins litið til skýrslu nemandans hjá lögreglu sem stefndi aflaði og lagði fram fyrir Landsrétti án þess að kveðja nemandann fyrir dóm til skýrslutöku.

30. Stefndi hefur byggt á að líta beri einangrað á það atvik sem leiddi til fyrirvaralausrar uppsagnar áfrýjanda. Hún hafi beitt nemanda ofbeldi og engu máli skipti hver hafi verið aðdragandi þess. Þá telur stefndi leiða af sjálfu sér, án frekari skoðunar, að kennari sé eftir það rúinn trausti til áframhaldandi starfa við skólann þar sem nemendur skorti það öryggi sem skólanum beri að tryggja samkvæmt 13. gr. laga nr. 91/2008.

31. Þótt tekið sé undir með stefnda að aldrei sé réttlætanlegt að grunnskólakennari veiti nemanda kinnhest létti það ekki skyldu af stefnda að skoða háttsemi áfrýjanda heildstætt á grundvelli allra atvika og taka í því ljósi afstöðu til þess hvort önnur vægari úrræði væru tæk en fyrirvaralaus uppsögn.

32. Fyrir liggur að viðbrögð áfrýjanda voru ósjálfráð og í beinu framhaldi af atlögu sem nemandi gerði að henni. Ekki er fallist á að þau hafi falið í sér líkamlega refsingu eða inngrip í refsingarskyni og því brotið gegn 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 1040/2011. Í ljósi atvika málsins verður að líta til fyrirmæla 2. mgr. sömu greinar sem gerir ráð fyrir því að starfsfólki grunnskóla geti borið skylda til að bregðast tafarlaust við með líkamlegu inngripi til að stöðva nemanda leiði háttsemi hans af sér hættu fyrir starfsfólk. Ekki verður ætlast til að starfsfólk bregðist ávallt við óvæntum og bráðum aðstæðum á óaðfinnanlegan hátt. Bar stefnda að meta háttsemi áfrýjanda í því ljósi.

33. Við úrlausn um hvort lögmætt hafi verið að víkja áfrýjanda fyrirvaralaust úr starfi á grundvelli málsgreinar 7 í grein 14.8 í kjarasamningi þurfa tvíþætt skilyrði ákvæðisins að vera uppfyllt. Annars vegar að áfrýjandi hafi gerst uppvís að grófu broti í starfi og hins vegar að viðvera hennar á vinnustað hefði valdið áframhaldandi skaða fyrir starfsemi skólans. Við mat á grófleika brots áfrýjanda verður sem fyrr segir að líta til aðdraganda atviksins og jafnframt til þess að um var að ræða óundirbúið viðbragð við kinnhesti frá nemanda. Þá er ljóst að brotinu verður ekki jafnað til þess að áfrýjandi lægi undir grun um refsiverða háttsemi sem ætla má að hefði í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga sem einnig getur orðið tilefni frávikningar samkvæmt þessu kjarasamningsákvæði. Enn fremur ber við mat á háttsemi áfrýjanda að líta til eftirfarandi atburðarásar, ekki aðeins athafna hennar heldur ekki síður viðbragða stjórnenda skólans til að milda afleiðingar atviksins gagnvart áfrýjanda, nemandanum og foreldrum hennar.

34. Svo sem fram er komið tilkynnti áfrýjandi tafarlaust um atvikið til föður stúlkunnar og stjórnenda skólans. Daginn eftir greindi hún nánar frá því sem gerst hafði á fundi með skólastjóra og deildarstjóra. Hún gerði því allt sem ætlast mátti til af henni til að koma málinu í réttan farveg innan skólans. Þá átti áfrýjandi frumkvæði að því að leita til sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs stefnda til að ræða þessa atburði þar sem úr varð að hún færi í launalaust leyfi.

35. Skólastjóri greip á hinn bóginn ekki til sérstakra aðgerða eða eftirfylgni sem þó hefði verið rétt við þessar aðstæður. Þannig var ekki leitast við að ræða við nemandann og foreldra hennar um atvikið eða koma á sáttum milli þeirra og áfrýjanda, hugsanlega með aðkomu þeirra sem önnuðust mál nemandans í skólanum eða fagfólks. Þá virðist ekki hafa verið brugðist við háttsemi nemandans. Í því sambandi má einnig hafa til hliðsjónar að samkvæmt 13. gr. reglugerðar nr. 1040/2011 skulu í hverjum grunnskóla vera til verklagsreglur um viðbrögð við háttsemi nemanda sem sýnir af sér óásættanlega eða skaðlega hegðun. Verður ekki séð að neinar slíkar reglur hafi verið fyrir hendi í grunnskóla stefnda. Loks greip skólastjóri ekki strax til úrræða til að styðja við áfrýjanda sem einnig varð fyrir áfalli við atlögu nemandans. Af þessu aðgerðaleysi stjórnenda skólans leiddi að málið þróaðist til verri vegar.

36. Áfrýjandi hefur sem fyrr segir viðurkennt að hafa brugðist rangt við aðstæðum og þótt hún eigi sér nokkrar málsbætur verður engu að síður talið að framkoma hennar gagnvart nemanda skólans hafi verið óhæfileg og ósamrýmanleg starfi hennar sem grunnskólakennari. Að þessu virtu var fullt tilefni til að veita henni skriflega áminningu á grundvelli málsgreinar 1 í grein 14.7 í kjarasamningi.

37. Í ljósi atvika allra er á hinn bóginn ekki fallist á að háttsemi áfrýjanda hafi falið í sér gróft brot í starfi. Þá hefur sú fullyrðing stefnda að áfrýjandi teldist vegna eðlis brotsins rúin trausti og áframhaldandi störf hennar hefðu valdið skaða fyrir starfsemi skólans þar sem nemendur myndi skorta öryggi ekki verið studd neinum frekari rökum eða gögnum. Samkvæmt þessu voru ekki uppfyllt skilyrði málsgreinar 7 í grein 14.8 í kjarasamningi til að víkja áfrýjanda fyrirvaralaust úr starfi án undanfarandi áminningar. Ákvörðun stefnda var samkvæmt framangreindu ólögmæt.

38. Vegna hinnar ólögmætu ákvörðunar á áfrýjandi rétt á bótum úr hendi stefnda. Í samræmi við dómaframkvæmd verða bætur henni til handa ákveðnar að álitum, að teknu tilliti til aldurs hennar, menntunar, launatekna, atvinnumöguleika og atvika að öðru leyti, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 26. janúar 2017 í máli nr. 278/2016 og 26. júní 2018 í máli nr. 637/2017.

39. Áfrýjandi krefst 10.928.373 króna bóta vegna fjártjóns. Fjárhæð kröfunnar er sett fram að álitum en til viðmiðunar eru laun sem óumdeilt er að áfrýjandi hefði haft í starfinu á 16 mánaða tímabili ásamt greiðslum í lífeyrissjóð og vegna séreignarsparnaðar. Við ákvörðun bóta vegna fjártjóns ber að líta til þess að áfrýjandi var […] ára þegar henni var vikið úr starfi grunnskólakennara sem hún hafði gegnt í 25 ár. Var hún svipt launum frá sama tímamarki. Fyrir liggur að henni hefur reynst örðugt að fá starf við grunnskólakennslu og verið án atvinnu frá uppsögn í júlí 2021. Um sama leyti missti hún starf sitt sem verktaki stefnda í heilsurækt eldri borgara á […]. Þá ber að taka tillit til þess við ákvörðun skaðabóta að hin ólögmæta brottvikning hefur sannanlega leitt til vanheilsu áfrýjanda og óvinnufærni að einhverju leyti. Áfrýjandi hefur þegið atvinnuleysisbætur og við ákvörðun skaðabóta vegna fjártjóns verður litið til þeirra. Samkvæmt framangreindu eru bætur vegna fjártjóns dæmdar að álitum 9.000.000 króna.

40. Áfrýjandi krefst 2.500.000 króna í miskabætur. Þær ávirðingar sem lágu til grundvallar brottvikningu voru alvarlegar og meiðandi og til þess fallnar að valda henni verulegum álitshnekki. Áfrýjandi hraktist úr skólasamfélaginu og varð fyrir áreiti í litlu samfélagi. Hafa afleiðingar ákvörðunar stefnda orðið henni afar þungbærar og haft alvarleg áhrif á andlega heilsu hennar. Á hún því rétt á miskabótum samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sem eru ákveðnar 1.800.000 krónur.

41. Samkvæmt öllu framansögðu verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda samtals 10.800.000 krónur með dráttarvöxtum frá þingfestingu málsins í héraði í samræmi við kröfugerð áfrýjanda eins og nánar greinir í dómsorði.

42. Eftir framangreindum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða áfrýjanda málskostnað sem ákveðinn er í einu lagi á öllum dómstigum eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, B, greiði áfrýjanda, A, 10.800.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. október 2021 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 3.600.000 krónur í málskostnað á öllum dómstigum.