Hæstiréttur íslands
Mál nr. 33/2024
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Nauðgun
- Sératkvæði
- Ómerkingarkröfu hafnað
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Skúli Magnússon.
2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. júlí 2024 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða og ákvörðun refsingar.
3. Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Til vara krefst hann þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins. Til þrautavara krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa og að fangelsisrefsing, verði hún dæmd, verði bundin skilorði. Þá er þess krafist að skaðabótakröfu brotaþola verði vísað frá dómi en til vara að dæmdar bætur verði lækkaðar.
4. Brotaþoli A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða henni 4.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. október 2021 til 18. febrúar 2022 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er þess krafist að niðurstaða hins áfrýjaða dóms um miskabætur úr hendi ákærða verði staðfest.
Ágreiningsefni
5. Málið var höfðað með ákæru 5. janúar 2023 þar sem ákærða var gefin að sök nauðgun með því að hafa í október 2021 á þáverandi heimili sínu haft samræði við brotaþola gegn vilja hennar. Brotinu var lýst þannig að ákærði hefði dregið niður um brotaþola buxurnar og haft við hana samræði þótt hún hefði ítrekað látið hann vita að hún vildi þetta ekki og beðið hann um að stoppa. Var þetta talið varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
6. Með héraðsdómi 15. maí 2023 var ákærði sakfelldur fyrir nauðgun. Var það niðurstaða dómsins að ákærði hefði látið sér í léttu rúmi liggja hættuna á því að brotaþoli gat ekki spornað við ágengni hans við þær aðstæður sem voru uppi og haft við hana samræði án hennar samþykkis. Með dóminum var ákærða gert að sæta fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Jafnframt var honum gert að greiða brotaþola 2.500.000 krónur í miskabætur með nánar tilgreindum vöxtum.
7. Með hinum áfrýjaða dómi 26. apríl 2024 var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða fyrir þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru. Refsing hans var ákveðin fangelsi í þrjú ár en niðurstaða héraðsdóms um bótakröfu brotaþola staðfest.
8. Áfrýjunarleyfi í málinu var veitt 3. júlí 2024 með ákvörðun réttarins nr. 2024-88. Í ákvörðuninni kom fram að ástæða væri til að ætla að málsmeðferð fyrir Landsrétti hefði verið stórlega ábótavant, sbr. 3. málslið 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, þar sem rétturinn hefði hvorki lagt mat á sönnunargildi munnlegs framburðar tveggja vitna fyrir Landsrétti sem höfðu ekki komið fyrir héraðsdóm né metið hvernig framburður þeirra samrýmdist framburði ákærða og vitna. Í ákvörðuninni var tekið fram að niðurstaða réttarins um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar yrði ekki endurskoðuð fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. sömu greinar laganna.
Málsatvik
9. Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi og héraðsdómi. Þau eru helst að með bréfi 28. október 2021 óskaði barnaverndarnefnd […] rannsóknar lögreglu þar sem brotaþoli hefði skýrt foreldrum sínum frá því að ákærði hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi á heimili hans aðfaranótt 10. sama mánaðar. Þegar atvik málsins gerðust var brotaþoli 16 ára en ákærði 37 ára. Ákærði var æskuvinur stjúpföður brotaþola og hafði verið tíður gestur á heimili fjölskyldu hennar.
10. Aðdraganda málsins hefur verið lýst þannig að brotaþoli hafi 9. október 2021 verið að vinna á skemmtistaðnum […]. Ákærði var þar meðal gesta undir lok kvöldsins. Eftir að staðnum var lokað fóru ákærði og brotaþoli ásamt fleirum sem þar höfðu verið í samkvæmi á heimili ákærða.
11. Ákærði og brotaþoli fóru saman inn í svefnherbergi ákærða þá um nóttina og áttu þar kynmök. Eru þau ein til frásagnar um atvik í herberginu og ber mikið á milli í frásögnum þeirra. Hefur ákærði borið að kynmökin hafi verið með samþykki brotaþola en hún kveður þau hafa verið gegn sínum vilja.
Röksemdir aðila
Röksemdir ákærða
12. Til stuðnings kröfu um ómerkingu hins áfrýjaða dóms vísar ákærði til meðferðar Landsréttar á framburði vitnanna S og R. Umrædd vitni gáfu fyrst skýrslu fyrir Landsrétti að hans kröfu. Beiðni um skýrslurnar var studd þeim rökum að brotaþoli hefði tjáð sig við vitnin um samskipti sín og ákærða umrætt kvöld og vitnin kynnu því að búa yfir mikilvægum upplýsingum um málsatvik sem gætu haft grundvallarþýðingu í málinu. Samkvæmt greinargerð ákærða fyrir Hæstarétti voru þessar upplýsingar í stuttu máli á þá leið að R hefði sagt nafngreindri samstarfskonu sinni að brotaþoli hefði sent henni og S skilaboð á samfélagsmiðlinum Snapchat. Þar hefði brotaþoli sagst hafa sofið hjá ákærða. Hefði kæra brotaþola á hendur ákærða sem og sakfelling hans komið þeim á óvart.
13. Um skýrslugjöf vitnanna S og R fyrir Landsrétti vísar ákærði til þess að þær hafi staðfest að hafa átt samskipti við brotaþola á Snapchat. Þá hafi vitnið S staðfest að brotaþoli hafi sagt þeim að hún hefði „sofið hjá“ ákærða en í því hljóti að felast að brotaþoli hafi haft samræði við ákærða af fúsum og frjálsum vilja. Ákærði þekki ekki vitnið S en hún sé vinkona brotaþola. Beri að meta framburð hennar í því ljósi. Ákærði telur að framburður hennar hefði átt að hafa grundvallarþýðingu og Landsrétti borið að taka rökstudda afstöðu til hans í forsendum dómsins. Það hafi ekki verið gert heldur einungis vísað til þess í 5. lið dómsins að vitnin hefðu gefið skýrslu fyrir réttinum.
14. Ákærði telur þögn Landsréttar um efni framburðar vitnanna vera í andstöðu við rétt hans til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. samnefnd lög nr. 62/1994, einkum d-lið 3. mgr. greinarinnar um rétt hans til að leiða fram vitni, svo og 108. gr. laga nr. 88/2008. Það felist í rétti sakaðs manns að dómstóll taki rökstudda afstöðu til raka, sönnunargagna og munnlegs framburðar fyrir viðkomandi dómstóli en því hafi ekki verið sinnt. Samkvæmt framansögðu sé um að ræða verulegan annmarka á hinum áfrýjaða dómi sem varði kjarna réttarríkisins. Hæstiréttur meti ekki sönnunargildi munnlegs framburðar en hins vegar það hvort málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið ábótavant. Að mati ákærða séu slíkir annmarkar á henni að ómerkja beri hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.
15. Verði dómur Landsréttar ekki ómerktur krefst ákærði sýknu. Hann byggir einkum á því að hann hafi haldið fram sakleysi sínu frá fyrstu stundu og framburður hans um að samræði hans og brotaþola hafi verið með fullu samþykki beggja aðila hafi verið staðfastur, trúverðugur og á einn veg hjá lögreglu, í héraði og fyrir Landsrétti. Þá fái framburður hans stoð í framburði vinkonu brotaþola, vitnisins S. Með sama hætti fái framburður hans stoð í framburði vitna, sem voru á vettvangi eða hittu brotaþola rétt eftir samfarir þeirra, en þau hafi öll borið um að hún hefði borið sig vel. Að sama skapi hafi brotaþoli verið margsaga um atvikið sjálft og því sé framburður hennar ekki trúverðugur. Því beri að leggja framburð ákærða til grundvallar og sýkna hann af öllum kröfum ákæruvaldsins í málinu með vísan til 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008.
16. Verði ákærði sakfelldur krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa og hún verði að öllu leyti bundin skilorði. Í því sambandi vísar hann til stöðu og haga sinna, sakaferils og þess að málið hafi sér verið þungbært.
Röksemdir ákæruvaldsins
17. Ákæruvaldið vísar til þess að vitnið S hafi borið fyrir Landsrétti að brotaþoli hefði sagt í samskiptum á Snapchat að hún hefði sofið hjá vini pabba síns. Ákæruvaldið telur að ákærði oftúlki þau orð enda hafi einnig komið fram í skýrslu vitnisins að brotaþoli hefði ekki sagt neitt frekar um þetta. Þannig hefði ekki komið fram hjá brotaþola hvort kynmökin hefðu átt sér stað með samþykki hennar. Komið hefði fram að vitnið hefði verið vinkona brotaþola en væri það ekki lengur.
18. Ákæruvaldið vísar til þess að í greinargerð ákærða fyrir Hæstarétti sé ekki fjallað um framburð vitnisins R fyrir Landsrétti. Hún hafi hins vegar borið að í samskiptum á Snapchat hefði komið fram hjá brotaþola að hún hefði ekki gefið leyfi fyrir því sem átti sér stað, það er að kynmökin hefðu ekki verið með hennar samþykki.
19. Með hliðsjón af framangreindu er það mat ákæruvaldsins að í framburði vitnanna tveggja hafi ekki komið fram frekari upplýsingar um atvik málsins en þegar hefðu legið fyrir. Sönnunarstaðan í málinu fyrir Landsrétti hafi því verið talin óbreytt frá því sem lá fyrir í héraði. Í þessu ljósi séu annmarkar á dómi Landsréttar ekki þess eðlis að leiða eigi til ómerkingar hans.
20. Um efnisþátt málsins vísar ákæruvaldið til þess að niðurstaða Landsréttar um sakfellingu ákærða byggist fyrst og fremst á mati réttarins á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða og brotaþola. Mat réttarins hafi verið að ákærði væri ótrúverðugur um mikilvæg atriði málsins en framburður brotaþola heilt yfir trúverðugur. Hæstiréttur endurskoði ekki mat Landsréttar á sönnunargildi munnlegs framburðar. Þá telur ákæruvaldið sönnunarstöðu málsins óbreytta þótt ný vitni hafi komið fyrir Landsrétt. Telur ákæruvaldið því engin efni til að sýkna ákærða. Þá tekur ákæruvaldið undir þau sjónarmið um ákvörðun refsingar sem reifuð séu í hinum áfrýjaða dómi og telur refsingu ákærða þar hæfilega ákveðna.
Niðurstaða
Um formhlið málsins
21. Við meðferð málsins fyrir Landsrétti krafðist ákærði þess meðal annars að brotaþoli kæmi á ný til skýrslugjafar auk þess sem tvö fyrrgreind viðbótarvitni gæfu skýrslu. Í greinargerð ákæruvaldsins til Landsréttar var ekki tekin afstaða að svo stöddu til kröfu ákærða um þessar nýju vitnaleiðslur. Hins vegar var þar tekið fram að ekki yrði ráðið hvaða tengsl umræddir einstaklingar hefðu við málið eða hvað þeir gætu upplýst um atvik þess.
22. Með ákvörðun Landsréttar 20. mars 2024 var fallist á kröfur ákærða um frekari sönnunarfærslu fyrir réttinum, þar á meðal um skýrslur af fyrrgreindum tveimur vitnum. Ekki verður þó ráðið af gögnum málsins að dómsformaður hafi tekið málið fyrir á dómþingi áður en þessum atriðum var ráðið til lykta, svo sem rétt hefði verið samkvæmt 3. mgr. 204. gr. laga nr. 88/2008. Með hliðsjón af því að með ákvörðuninni var fallist á kröfur ákærða um frekari sönnunarfærslu getur þessi annmarki á málsmeðferð Landsréttar þó ekki varðað ómerkingu hins áfrýjaða dóms.
23. Af skýrslum umræddra vitna fyrir Landsrétti verður ráðið að þau hafi kynnst brotaþola nokkru eftir að þau atvik urðu sem ákæran lýtur að. Verður einnig að líta svo á að með skýrslunum hafi ákærði leitast við að varpa rýrð á trúverðugleika brotaþola og sönnunargildi frásagnar hennar af atvikum hjá lögreglu og fyrir dómi.
24. Í dómaframkvæmd hefur verið talið heimilt að leiða vitni til þess að bera um það sem brotaþoli hefur skýrt þeim frá, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 20. október 2005 í máli nr. 148/2005 og 24. maí 2012 í máli nr. 649/2011. Verður í því tilliti að hafa í huga þann rétt sem sakaður maður nýtur til að halda uppi vörnum fyrir dómi samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmálans.
25. Sé skýrslutaka heimiluð á þessum grunni er það dómara að meta þýðingu þeirrar óbeinu sönnunar sem í henni getur falist samkvæmt 2. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008. Það leiðir hins vegar af d-lið 2. mgr. 183. gr. laganna að í dómi þurfi ekki að gera grein fyrir efni slíks vitnisburðar nema að því leyti sem þörf krefur til úrlausnar máls. Þá skulu í dómi koma fram röksemdir dómara fyrir því hvað teljist sannað í máli og með hverjum hætti, sbr. f-lið sömu málsgreinar.
26. Við nánari skýringu fyrrgreindra ákvæða laga nr. 88/2008 ber að hafa í huga að viðhlítandi rökstuðningur dóms í sakamáli er þáttur í réttlátri málsmeðferð sem ákærði nýtur réttar til samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans, sbr. til hliðsjónar dóma Mannréttindadómstóls Evrópu 16. desember 1992 í máli nr. 12945/87, Hadjianastassiou gegn Grikklandi, og 26. september 2023 í máli nr. 15669/20, Yüksel Yalçınkaya gegn Tyrklandi. Þjónar slíkur rökstuðningur ekki aðeins þeim tilgangi að aðilar geti tekið afstöðu til áfrýjunar máls, ef því er að skipta, heldur er hann einnig til þess fallinn að veita dómara aðhald við mat á sönnun auk þess sem almennt má ætla að aðilar uni þá frekar niðurstöðu dóms, sbr. til dæmis dóm mannréttindadómstólsins 16. nóvember 2010 í máli nr. 926/05, Taxquet gegn Belgíu.
27. Sú ályktun verður hins vegar ekki dregin af fyrrgreindum ákvæðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála að í forsendum dóms þurfi fortakslaust að reifa og taka afstöðu til hvers og eins sönnunargagns, þar á meðal munnlegs framburðar sem aðilar hafa aflað, sbr. til hliðsjónar dóm mannréttindadómstólsins 9. desember 1994 í máli nr. 18390/91, Ruiz Torija gegn Spáni. Samkvæmt framangreindu ber í forsendum dóms að fjalla með rökstuddum hætti um þær munnlegu skýrslur og önnur sönnunargögn sem eru til þess fallin að ráða úrslitum máls þannig að aðilar geti gert sér grein fyrir á hvaða grundvelli niðurstaðan er reist. Að öðru leyti fer það eftir mati dómara á þýðingu munnlegs framburðar og annarra sönnunargagna hverju sinni hvort og með hvaða hætti efni eru til að reifa og fjalla um slík atriði.
28. Hæstarétti er þröngur stakkur skorinn við endurskoðun á sönnunarmati Landsréttar að því leyti sem það byggist á heildarmati á sönnunargildi fram kominna sönnunargagna, þar á meðal munnlegs framburðar ákærða og vitna fyrir dómi, enda ekki heimilt að veita leyfi til áfrýjunar á dómi Landsréttar til Hæstaréttar til endurskoðunar á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008.
29. Séu á hinn bóginn annmarkar á málsmeðferð, þar á meðal aðferð við sönnunarmat eða rökstuðning í áfrýjuðum dómi, sem teljast fallnir til að hafa áhrif á niðurstöðu þess geta þeir leitt til þess að leyfi til áfrýjunar skuli veita, sbr. d-lið 1. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Slíkir annmarkar geta eftir atvikum leitt til ómerkingar dóms og heimvísunar máls, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 15. október 2020 í máli nr. 16/2020 og 18. febrúar 2021 í máli nr. 30/2020.
30. Í hinum áfrýjaða dómi segir það eitt um framburð þeirra nýju vitna sem komu fyrir Landsrétt að þau hafi gefið skýrslu fyrir réttinum. Er hvorki vikið að framburði þeirra í forsendum dómsins né heldur framburði sextán annarra vitna sem komu fyrir héraðsdóm og rakinn er í þeim dómi. Framburður hinna nýju vitna sem komu fyrir Landsrétt var í meginatriðum á þá leið að annað bar að brotaþoli hefði sagt henni að hún hefði „sofið hjá“ ákærða. Hjá hinu kom fram að brotaþoli hefði tjáð sér að kynferðismök í umrætt sinn hefðu verið í „leyfisleysi“. Svo sem áður greinir verður að líta svo á að með skýrslunum hafi ákærði leitast við að varpa rýrð á trúverðugleika brotaþola og sönnunargildi frásagnar hennar af atvikum hjá lögreglu og fyrir dómi og þannig styðja kröfu sína um sýknu af ákærunni.
31. Í hinum áfrýjaða dómi er ítarlega fjallað um framburð ákærða og brotaþola fyrir lögreglu, héraðsdómi og Landsrétti en þau eru sem fyrr segir ein til beinnar frásagnar um þau atvik sem ákæran lýtur að. Var það mat réttarins að ákærði væri ótrúverðugur um mikilvæg atriði málsins, þar með talið með hvaða hætti brotaþoli hefði veitt samþykki sitt fyrir kynmökum. Brotaþoli var aftur á móti talin hafa verið trúverðug í framburði sínum heilt yfir. Verður ekki önnur ályktun dregin af forsendum hins áfrýjaða dóms en að litið hafi verið svo á að framburður fyrrgreindra tveggja vitna fyrir Landsrétti hafi ekki haft þá þýðingu við mat á trúverðugleika brotaþola að þörf væri á að rekja hann sérstaklega eða taka afstöðu til hans í forsendum dómsins, sbr. fyrrgreinda d- og f-liði 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008. Athugast í því tilliti að sú ályktun verður ekki dregin af ákvörðun Landsréttar um að heimila fyrrgreindar vitnaleiðslur eftir beiðni ákærða að með því hafi verið litið svo á að þær hefðu sjálfkrafa slíka þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Með því var hins vegar gætt að rétti ákærða til að leiða fram vitni í samræmi við d-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
32. Samkvæmt framangreindu verður nægilega ráðið af hinum áfrýjaða dómi að niðurstaða hans um sakfellingu ákærða sé byggð á heildstæðu mati á sönnunargögnum málsins, þar á meðal rökstuddu mati á trúverðugleika brotaþola og sönnunargildi framburðar hennar í ljósi þess sem upplýst var um atvik, munnlegs framburðar vitna og annarra gagna þess. Verður því ekki annað ráðið en að með hinum áfrýjaða dómi hafi verið tekin rökstudd afstaða til þeirrar meginvarnar ákærða að framburður brotaþola væri ótrúverðugur, sbr. hinsvegar dóm mannréttindadómstólsins 8. nóvember 2018 í máli nr. 13185/07, Rostomashvili gegn Georgíu.
33. Þar sem við meðferð málsins fyrir Landsrétti höfðu verið heimilaðar viðbótarskýrslutökur, sem að mati ákærða höfðu þýðingu um trúverðugleika brotaþola, var tilefni fyrir réttinn að víkja að efni og afstöðu hans til þeirra með skýrari hætti en gert var í hinum áfrýjaða dómi. Með hliðsjón af framansögðu getur þetta þó ekki haggað því að ekkert er fram komið um að ágallar hafi verið á aðferð Landsréttar við mat á sönnun um þá háttsemi ákærða sem lýst er í ákæru og máli gátu skipt við hið heildstæða sönnunarmat sem niðurstaða réttarins er reist á og áður hefur verið gerð grein fyrir.
34. Samkvæmt framangreindu verður ekki fallist á að við meðferð málsins fyrir Landsrétti hafi verið brotið gegn rétti ákærða til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða fyrir liggi aðrir annmarkar sem leiða eigi til ómerkingar hins áfrýjaða dóms og heimvísunar málsins til nýrrar meðferðar fyrir Landsrétti. Er kröfu ákærða þar að lútandi því hafnað.
Um efnishlið málsins
35. Svo sem áður greinir var ákærði með hinum áfrýjaða dómi sakfelldur fyrir nauðgun með því að hafa haft samræði við brotaþola án hennar samþykkis. Þessi niðurstaða, sem reist var á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi, verður ekki endurskoðuð fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Að því gættu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um þá háttsemi sem ákærða er gefin að sök. Þá var brot ákærða réttilega heimfært til 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður jafnframt staðfest niðurstaða hans um refsingu ákærða.
36. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms og héraðsdóms er staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um miskabætur til brotaþola og sakarkostnað í héraði og fyrir Landsrétti.
37. Ákærða verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði.
38. Það athugast að við skýrslugjöf vitnisins R fyrir Landsrétti vék hún sér undan að svara spurningu sem skipaður verjandi beindi til hennar. Í samræmi við fyrirmæli 122. gr., sbr. 210. gr. laga nr. 88/2008, bar dómsformanni við þessar aðstæður að ítreka að vitninu væri skylt að svara. Væri það afstaða dómsformanns að heimila spurninguna bar honum, eftir því sem efni voru til, að árétta skyldu vitnisins til að greina satt og rétt frá og veita skýr svör. Þess í stað dró dómsformaður framburð vitnisins saman með eigin orðalagi og bað það að svo búnu að svara því játandi eða neitandi hvort rétt væri eftir haft. Eru þessir ágallar á framkvæmd skýrslutökunnar aðfinnsluverðir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Ingi Valur Davíðsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 1.452.277 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar lögmanns, 1.004.400 krónur, svo og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Unnsteins Arnar Elvarssonar lögmanns, 334.800 krónur.
Sératkvæði
Ásu Ólafsdóttur og Karls Axelssonar
1. Við erum ósammála niðurstöðu meirihluta dómenda um formhlið málsins og teljum að ómerkja beri hinn áfrýjaða dóm í málinu.
2. Það er grundvallarregla sakamálaréttarfars, sbr. einnig 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, að hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skuli teljast saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð, sbr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Nátengd henni er meginregla sakamálaréttarfars sem kemur fram í 108. gr. laga nr. 88/2008 um að sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik, sem telja megi hon¬um í óhag, hvíli á ákæruvaldinu. Enn aðra meginreglu er að finna í 1. mgr. 109. gr. laganna um að dómari meti hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt ákærða. Þessum fyrirmælum er ætlað að tryggja réttaröryggi sakaðra manna.
3. Með lögum nr. 50/2016 um dómstóla var gerð sú breyting á dómstólaskipan landsins að stofnað var millidómstig með því að Landsrétti var komið á fót. Tilgangurinn með því var einkum að koma við endurskoðun á áfrýjunarstigi á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi í sakamálum í samræmi við regluna um milliliðalausa sönnunarfærslu. Eftir þá breytingu, sem kom til framkvæmda við gildistöku laganna 1. janúar 2018, er Hæstiréttur þriðja dómstigið og dæmir fyrst og fremst í fordæmisgefandi málum að fengnu leyfi réttarins til málskots. Í samræmi við þetta var frá sama tíma með lögum nr. 49/2016 um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála felld brott heimild í 3. mgr. 205. gr. laga nr. 88/2008 fyrir Hæstarétt til að ákveða að munnleg sönnunarfærsla færi fram fyrir réttinum. Um þessa breytingu sagði í athugasemdum með frumvarpi til laganna að vegna tilkomu Landsréttar væri ekki gert ráð fyrir að munnleg sönnunarfærsla færi fram fyrir Hæstarétti.
4. Þessu til samræmis segir í 2. mgr. 225. gr. laga nr. 88/2008 að Hæstiréttur geti ekki endurmetið niðurstöðu Landsréttar um sönnunargildi munnlegs framburðar og þá er ekki heimild til að áfrýja dómi Landsréttar til endurskoðunar á slíku sönnunarmati, sbr. 5. mgr. 215. gr. laganna. Vegna þess þrönga stakks sem Hæstarétti er sniðinn að þessu leyti verður því að gæta þess sérstaklega við meðferð máls fyrir réttinum hvort fyrrgreindra meginreglna um réttindi sakaðra manna til réttlátrar málsmeðferðar hafi verið gætt við meðferð máls á lægri dómstigum. Allan vafa þar um ber að túlka þeim í hag.
5. Með framangreindri breytingu á dómstólaskipan var jafnframt leidd í lög sú nýbreytni að leiða má fyrir Landsrétt vitni sem ekki komu fyrir héraðsdóm og eftir atvikum hafa ekki gefið skýrslu fyrir lögreglu, sbr. e-lið 2. mgr. 203. gr. og 3. mgr. 204. gr. laga nr. 88/2008. Í máli þessu reyndi á þetta fyrirkomulag með þeim hætti að ákærði óskaði eftir að tvö ný vitni sem ekki höfðu gefið skýrslu hjá lögreglu eða fyrir héraðsdómi gæfu skýrslu fyrir Landsrétti. Fallist var á þá beiðni á dómþingi 20. mars 2024 en eins og rakið er í málsgrein 22 í atkvæði meirihluta dómenda var ranglega staðið að framkvæmd þess. Umræddar skýrslutökur fóru síðan fram við aðalmeðferð málsins 12. apríl sama ár. Efni þeirra eða ætluð þýðing fyrir sönnunarfærslu í málinu er hins vegar í engu getið í hinum áfrýjaða dómi að því frátöldu að þar er í málsgrein 18 vísað til þess að brotaþoli hafi talist vera heilt yfir trúverðug í sínum framburði og samkvæmt því og „öðru framangreindu“ væri framburður hennar lagður til grundvallar um ákæruefnið.
6. Í ljósi aðdraganda þess að fyrrgreind vitni gáfu fyrst skýrslu fyrir Landsrétti jók það enn frekar kröfu um að einhver grein yrði gerð í dóminum fyrir framburði þeirra þar og mögulegri þýðingu fyrir heildarsönnunarmat í málinu. Eins og hér háttar til verða ályktanir annars efnis ekki dregnar af d-, e- og f-liðum 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008. Þá er til þess að líta að ekki var réttilega staðið að framkvæmd skýrslutökunnar af hálfu dómsformanns, svo sem nánar er rakið í atkvæði meirihluta dómenda, sbr. málsgrein 38. Við erum hins vegar ósammála meirihluta dómenda um þýðingu þessara ágalla sem grein hefur verið gerð fyrir hér að framan.
7. Til þess er að líta að sakfelling ákærða byggðist alfarið á mati á trúverðugleika á framburði hans og brotaþola svo og á framburði annarra vitna sem urðu ekki áskynja um atvik málsins sjálf eins og þau tvö vitni sem sérstaklega var heimilað að gefa fyrst skýrslu fyrir Landsrétti. Þá verður ekkert ráðið af dómi Landsréttar hvort litið var til framburðar þessara nýju vitna eða fram hjá honum horft og þá af hvaða ástæðu, til að mynda hvort talið hafi verið að þau hefðu ekki þýðingu við sönnunarmatið. Sú almenna tilvísun sem fram kemur í málsgrein 18 í dómi Landsréttar nægir ekki í þessum efnum, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu 8. nóvember 2018 í máli nr. 13185/07, Rostomashvili gegn Georgíu.
8. Undir þessum kringumstæðum teljum við að ákærði eigi að njóta alls vafa um hvort framburður þessara nýju vitna hafi haft áhrif á mat Landsréttar á trúverðugleika framburðar ákærða og brotaþola. Engin heimild stendur til þess að taka umrædda framburði nú upp í dóm Hæstaréttar og bera þá saman við ályktanir Landsréttar um sönnunarfærslu enda lætur þá að minnsta kosti nærri að með því fari fram endurskoðun á sönnunarmati munnlegra framburða fyrir Landsrétti sem er sem fyrr greinir ekki á færi Hæstaréttar. Varð slíkt mat að vera hluti þess heildarmats á framburðum sem fram átti að fara fyrir Landsrétti. Við teljum jafnframt að réttur ákærða til að leiða fram vitni í samræmi við d-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sé án efnislegrar þýðingar ef ekki má ráða af dómi við aðstæður sem þessar hvort tekin hafi verið raunveruleg afstaða til framburðar nýrra vitna eða þess eftir atvikum getið að þau hafi ekki haft þýðingu fyrir úrlausn máls.
9. Í ljósi alls framangreinds er það niðurstaða okkar að ágallar þeir, sem meirihluti og minnihluti eru sammála um að hafi orðið við rekstur málsins og samningu dóms í Landsrétti, séu slíkir að óhjákvæmilegt sé að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu aftur til endurtekinnar málsmeðferðar fyrir Landsrétti. Samkvæmt þeirri niðurstöðu ætti að fella sakarkostnað ákærða vegna meðferðar málsins fyrir Landsrétti og Hæstarétti á ríkissjóð.
10. Með því að meirihluti dómenda hefur komist að gagnstæðri niðurstöðu um formhlið málsins er afstaða okkar um efnishlið þess, sbr. 5. málslið 2. mgr. 226. laga nr. 88/2008, sú að við erum samþykk niðurstöðu meirihlutans þar að lútandi.