Hæstiréttur íslands

Mál nr. 9/2022

Magnús Pétur Hjaltested (Sigurbjörn Þorbergsson lögmaður)
gegn
dánarbúi Þorsteins Hjaltesteds (Gísli Guðni Hall lögmaður)
og gagnsök

Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbú
  • Erfðaskrá
  • Opinber skipti
  • Eignarnámsbætur
  • Gjafsókn

Reifun

M kærði úrskurð Landsréttar þar sem staðfestur var úrskurður héraðsdóms um viðurkenningu á rétti hans til ógreiddra eftirstöðva eignarnámsbóta vegna eignarnáms K árið 2007 á landi Vatnsenda, að undanskildum einum lið í sáttargerð við K sem viðurkennt var að tilheyrði dánarbúi ÞH. Fyrir andlát sitt hafði ÞH höfðað mál á hendur K til heimtu ógreiddra bóta vegna eignarnámsins en það hafði hluti erfingja SKLH jafnframt gert í öðru máli. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að mál þetta væri afmarkað við þá kröfu sem ÞH hafði gert á hendur K og úrskurðarorð um ágreining þessa máls yrði að bera með sér að það tæki aðeins til þess ágreinings. Úrskurðarorðið gæti því ekki falið í sér fyrirvaralausa viðurkenningu á því að réttur til bóta á hendur K tilheyrði aðilum þessa máls einum án tillits til þess að fleiri einstaklingar hefðu gert tilkall til bóta vegna sama eignarnáms í öðru dómsmáli sem ekki er endanlega útkljáð. Að framangreindu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna var hinn kærði úrskurður staðfestur með þeim hætti sem greindi í úrskurðarorði.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. desember 2021 en kærumálsgögn bárust réttinum 5. janúar 2022. Kærður er úrskurður Landsréttar 16. desember 2021 þar sem staðfestur var úrskurður héraðsdóms um viðurkenningu á rétti sóknaraðila til ógreiddra eftirstöðva eignarnámsbóta vegna eignarnáms Kópavogsbæjar 23. janúar 2007 á landi Vatnsenda samkvæmt eignarnámsheimild frá 10. janúar 2007, sbr. sáttargerð 30. sama mánaðar, að undanskildum lið 2.2.3 í sáttargerðinni sem viðurkennt var að tilheyrði varnaraðila.

3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um annað en lið 2.2.3 í framangreindri sáttargerð og viðurkennt verði að réttur til eignarnámsbóta samkvæmt þeim lið tilheyri honum einum. Þá krefst hann kærumálskostnaðar ,,eins og málið sé ekki gjafsóknarmál“.

4. Varnaraðili kærði úrskurð Landsréttar fyrir sitt leyti 30. desember 2021. Hann krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að öllum kröfum sóknaraðila á hendur sér verði hafnað. Þá krefst hann þess að viðurkennt verði að krafa á hendur Kópavogsbæ um ógreiddar eftirstöðvar eignarnámsbóta vegna framangreinds eignarnáms tilheyri sér. Til vara krefst hann þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar á öllum dómstigum.

Ágreiningsefni

5. Svo sem rakið er í hinum kærða úrskurði Landsréttar hafa um árabil staðið deilur um eignarráð yfir jörðinni Vatnsenda í Kópavogi. Ágreiningur þessi á öðru fremur rætur að rekja til deilna um túlkun erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltesteds frá 4. janúar 1938. Fjöldi dóma hefur gengið vegna þessa og deilur meðal annars staðið á milli lögerfingja Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds, sem Magnús arfleiddi að jörðinni í öndverðu með erfðaskránni, og hins vegar sonarsonar Sigurðar, Þorsteins Hjaltesteds heitins, sem að föður sínum Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested látnum, árið 1999, var á grundvelli erfðaskrárinnar áskilinn réttur til ábúðar og nánar tilgreindrar hagnýtingar jarðarinnar Vatnsenda.

6. Meðal þess sem deilur standa um er tilkall til bóta vegna fyrrgreinds eignarnáms Kópavogsbæjar á hluta jarðarinnar. Þorsteinn Hjaltested, sem þá var ábúandi á grundvelli ákvæða erfðaskrárinnar, gerði samkomulag við eignarnema, Kópavogsbæ, um eignarnámsbætur með sáttargerð 30. janúar 2007. Hann lést 12. desember 2018 og með dánarbúið er farið samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

7. Fyrir andlát sitt hafði Þorsteinn höfðað mál á hendur Kópavogsbæ, sem dánarbú hans hefur nú tekið við aðild að, til heimtu ógreiddra bóta vegna umrædds eignaráms en það hafði hluti erfingja Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds jafnframt gert í öðru máli sem þeir höfðuðu aðallega gegn Kópavogsbæ.

8. Í máli þessu er til úrlausnar hvort framangreind krafa, sem Þorsteinn heitinn Hjaltested hafði gert til umræddra bóta vegna eignarnámsins 2007, á grundvelli réttar síns til ábúðar og nánar tilgreindrar hagnýtingar jarðarinnar Vatnsenda, tilheyrir sóknaraðila sem erfingja hans eða varnaraðila. Með framangreindum úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms með eftirfarandi hætti:

„Viðurkennt er að sóknaraðila, ... tilheyri réttur til ógreiddra eftirstöðva eignarnámsbóta vegna eignarnáms Kópavogsbæjar á landi Vatnsenda ... að undanskildum lið 2.2.3 í sáttargerðinni, sem viðurkennt er að tilheyri varnaraðila, ...“

9. Í ákvörðun Hæstaréttar 7. febrúar 2022 vegna beiðni um kæruleyfi kemur fram að ekki verði talið að kæruefnið hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrði 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Á hinn bóginn kynnu að vera þeir ágallar á niðurstöðu Landsréttar, sem staðfesti úrskurðarorð héraðsdóms, hvað varðar umfang og inntak þeirrar viðurkenningarkröfu sem fallist var á í úrskurðarorði að rétt var talið að samþykkja beiðni um kæruleyfi á grundvelli 3. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laganna.

Málsatvik

10. Ákvörðun um að beita heimild til eignarnáms úr landi Vatnsendajarðarinnar var tekin á fundi bæjarstjórnar Kópavogsbæjar 23. janúar 2007 á grundvelli heimildar umhverfisráðherra 10. sama mánaðar. Voru 864 hektarar teknir eignarnámi.

11. Með sáttargerð 30. janúar 2007 sömdu ábúandinn Þorsteinn Hjaltested og Kópavogsbær um bætur fyrir landið. Þar var meðal annars um að ræða peningagreiðslu sem greidd var Þorsteini á árinu 2007. Aðrar greiðslur samkvæmt sáttargerðinni eru hins vegar ógreiddar.

12. Svo sem fyrr greinir er deilt um tilkall til bóta vegna eignarnámsins í tveimur aðskildum dómsmálum.

13. Í fyrrnefndu dómsmáli erfingja Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds, sem þeir reka aðallega gegn Kópavogsbæ og var höfðað með stefnu 28. apríl 2014, eru aðallega gerðar kröfur um að Kópavogsbær greiði dánarbúinu 74.811.389.955 krónur auk vaxta vegna eignarnáms á árunum 1992, 1998, 2000 og svo fyrrnefndu eignarnámi 2007. Með dómi héraðsdóms Reykjaness 22. desember 2020 var Kópavogsbæ gert að greiða dánarbúi Sigurðar Kristjáns 968.000.000 króna auk vaxta. Dómurinn taldi allar kröfur fyrndar vegna eignarnáms á árunum 1992, 1998 og 2000 en að dánarbúinu bæri, á grundvelli beins eignarréttar að jörðinni Vatnsenda, réttur til greiðslu fyrrnefndrar fjárhæðar frá Kópavogsbæ vegna eignarnámsins sem fram fór í janúar 2007. Samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna sem lagt var fram í málinu hafði markaðsvirði landsins sem tekið var eignarnámi 23. janúar 2007 verið 6.948.000.000 króna. Af forsendum dómsins verður ráðið að virði óbeins eignarréttar, sem stofnað var til með erfðaskránni frá 1938, hafi numið 5.980.000.000 króna en beins eignarréttar 968.000.000 króna. Málinu hefur nú verið áfrýjað til Landsréttar og bíður þar efnismeðferðar.

14. Hitt dómsmálið, sem varðar bætur vegna eignarnámsins 23. janúar 2007, var höfðað 28. maí 2018 af Þorsteini heitnum Hjaltested á hendur Kópavogsbæ en varnaraðili fer nú sem fyrr segir með aðild þess. Af hálfu dánarbúsins eru í málinu aðallega gerðar kröfur í átta liðum, bæði um greiðsluskyldu og um nánar tiltekna viðurkenningu réttinda, á hendur Kópavogsbæ vegna eignarnámsins 23. janúar 2007 og vanefnda á sáttargerðinni frá 30. janúar 2007. Þannig er aðallega krafist greiðslu á 5.631.000.000 króna en jafnframt gerð krafa um viðurkenningu á skyldu Kópavogsbæjar til greiðslu skaðabóta vegna tapaðra leigugreiðslna vegna 300 lóða sem afhenda átti samkvæmt sáttargerðinni. Enn fremur er í málinu krafist viðurkenningar á skyldu til að afhenda byggingarrétt og tíu lóðir, einkaafnotarétt haustbeitar og skyldu til greiðslu kostnaðar við stofnun lóða sem samið var um í tilvitnaðri sáttargerð. Þá er í málinu höfð uppi sú krafa til vara að Kópavogsbær greiði dánarbúinu 14.000.000.000 króna í skaðabætur að frádregnum innborgunum. Samkvæmt því sem fram kemur í hinum kærða úrskurði hefur málinu verið frestað og niðurstöðu úr því er beðið.

15. Með bréfi varnaraðila 26. mars 2020 var með vísan til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, krafist úrlausnar héraðsdóms um það hvort kröfur um eignarnámsbætur vegna eignarnámsins 2007 tilheyrðu varnaraðila eða fylgdu jörðinni Vatnsenda í þeim skilningi að þær erfðust til sóknaraðila samkvæmt fyrirmælum fyrrnefndrar erfðaskrár.

16. Með tilvitnuðum úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 26. maí 2021 var sem fyrr segir viðurkennt að réttur til ógreiddra eftirstöðva eignarnámsbóta tilheyrði sóknaraðila að undanskildum bótum samkvæmt lið 2.2.3 í sáttargerðinni, sem viðurkennt var að tilheyrðu varnaraðila þar sem um væri að ræða fjárhagsleg réttindi samkvæmt 1. mgr. 72. gr. laga nr. 21/1991. Hins vegar var talið að önnur réttindi samkvæmt sáttargerðinni 30. janúar 2007 væru ekki fjárhagsleg í þeim skilningi að varnaraðili hefði tekið við þeim við andlát Þorsteins Hjaltesteds og tilheyrðu þau því sóknaraðila.

Niðurstaða

17. Mál þetta er afmarkað við þá kröfu sem Þorsteinn heitinn Hjaltested gerði á hendur Kópavogsbæ vegna eignarnámsins 2007. Það endurspeglast í upphaflegri kröfu sóknaraðila fyrir héraðsdómi sem var þess efnis að krafa á hendur Kópavogsbæ „gerð af Þorsteini Hjaltested“ um ógreiddar eftirstöðvar eignarnámsbóta vegna eignarnáms Kópavogsbæjar á landi Vatnsenda samkvæmt eignarnámsheimild frá 10. janúar 2007 og sáttargerð frá 30. janúar 2007 tilheyrði sóknaraðila. Krafa varnaraðila fyrir héraðsdómi var hins vegar þess efnis að „viðurkennt verði með dómsúrskurði að krafa á hendur Kópavogsbæ um ógreiddar eftirstöðvar eignarnámsbóta vegna eignarnáms Kópavogsbæjar á landi Vatnsenda, samkvæmt eignarnámsheimild frá 10. janúar 2007, sbr. einnig sáttargerð frá 30. janúar 2007, tilheyri varnaraðila“. Í úrskurðarorði héraðsdóms, sem staðfest var með hinum kærða úrskurði Landsréttar, er sem fyrr segir lagt fyrirvaralaust til grundvallar að bætur vegna eignarnámsins 2007 tilheyri aðilum máls þessa með orðalaginu að „sóknaraðila ... tilheyri réttur til ógreiddra eftirstöðva eignarnámsbóta vegna eignarnáms Kópavogsbæjar á landi Vatnsenda samkvæmt eignarnámsheimild frá 10. janúar 2007, sbr. sáttargerð frá 30. janúar 2007, að undanskildum lið 2.2.3 í sáttargerðinni, sem viðurkennt er að tilheyri varnaraðila ...“.

18. Eins og rakið hefur verið eru það ekki aðilar máls þessa einir sem gera kröfur til bóta vegna eignarnáms Kópavogsbæjar 23. janúar 2007. Endanleg niðurstaða um það mun ráðast síðar af lyktum þeirra dómsmála sem grein hefur verið gerð fyrir hér að framan eða mögulega niðurstöðu annarra dómsmála.

19. Svo sem fram kemur í dómi Hæstaréttar frá 24. nóvember 2021 í máli nr. 45/2021, þar sem snúið var þeirri niðurstöðu Landsréttar að vísa máli þessu frá héraðsdómi, tók dánarbú Þorsteins Hjaltesteds að honum látnum við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann átti þá eða naut, að teknu tilliti til þeirra undantekninga sem nefndar eru í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 20/1991. Kröfur á hendur þriðja manni væru meðal þeirra réttinda sem féllu undir skipti og lytu ráðstöfunarheimildum skiptastjóra og bæri að leysa úr slíkum ágreiningi fyrir dómi í ágreiningsmáli á grundvelli 171. gr. laga nr. 21/1991 enda þótt kröfuréttindin kynnu að vera umdeild. Ljóst sé að úrlausn slíks ágreinings sé ekki til þess fallin að hafa bindandi réttaráhrif gagnvart öðrum en aðilum þessa máls um það hver eða hverjir teljast réttir eigendur þeirra krafna og því síður um efnislegt inntak þeirra.

20. Af framangreindum forsendum Hæstaréttar verður allt að einu ráðið að úrskurðarorð um ágreining aðila máls þessa verður að bera með sér að það taki aðeins til þess ágreinings sem hér er til úrlausnar milli þessara málsaðila um þá kröfu sem Þorsteinn heitinn Hjaltested gerði á hendur Kópavogsbæ. Úrskurðarorðið getur því ekki, líkt og raunin hefur orðið í hinum kærða úrskurði, falið í sér fyrirvaralausa viðurkenningu á því að réttur til bóta á hendur Kópavogsbæ vegna eignarnámsins 23. janúar 2007 tilheyri aðilum máls þessa einum án tillits til þess að fleiri einstaklingar, sem ekki eru aðilar þessa máls, hafa gert tilkall til bóta vegna sama eignarnáms í öðru dómsmáli sem ekki er endanlega útkljáð.

21. Að framangreindu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna verður hinn kærði úrskurður staðfestur með þeim hætti sem greinir í úrskurðarorði.

22. Staðfest verða ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað í héraði og kærumálskostnað fyrir Landsrétti.

23. Gjafsókn sóknaraðila í héraði og fyrir Landsrétti var takmörkuð við rekstur málsins á þeim dómstigum samkvæmt gjafsóknarleyfum 29. september 2020 og 20. september 2021. Sóknaraðili nýtur ekki gjafsóknar fyrir Hæstarétti.

24. Kærumálskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómsorð:

Viðurkennt er að sóknaraðila, Magnúsi Pétri Hjaltested, tilheyri krafa sú sem Þorsteinn Hjaltested gerði á hendur Kópavogsbæ um ógreiddar eftirstöðvar eignarnámsbóta vegna eignarnáms Kópavogsbæjar á landi Vatnsenda samkvæmt eignarnámsheimild 10. janúar 2007 og sáttargerð 30. janúar 2007, að undanskildum lið 2.2.3 í sáttargerðinni sem viðurkennt er að tilheyri varnaraðila, dánarbúi Þorsteins Hjaltesteds.

Að öðru leyti er hinn kærði úrskurður staðfestur.

Kærumálskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.