Hæstiréttur íslands

Mál nr. 34/2023

Isavia ohf. (Hlynur Halldórsson lögmaður)
gegn
ALC A321 7237, LLC (Eva B. Helgadóttir lögmaður)
og íslenska ríkinu (Fanney Rós Þorsteinsdóttir lögmaður)
og ALC A321 7237, LLC
gegn
Isavia ohf.

Lykilorð

  • Eignarréttur
  • Stjórnarskrá
  • Skaðabótaábyrgð
  • Gagnsök
  • Aðfarargerð
  • Innsetningargerð
  • Réttaráhrif
  • Haldsréttur
  • Handveð
  • Lögveð
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta

Reifun

I ohf. höfðaði skaðabótamál á hendur A og Í vegna innsetningar í loftfar sem fór fram á grundvelli dómsúrskurðar. I ohf. hafði á grundvelli 1. mgr. 136 gr. þágildandi laga nr. 60/1998 um loftferðir aftrað för farþegaþotu A frá Keflavíkurflugvelli vegna gjaldfallinna krafna á hendur flugfélaginu W hf. sem var leigutaki þotunnar en bú þess hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta. A krafðist innsetningar í þotuna sem héraðsdómur heimilaði og féllst ekki á frestun réttaráhrifa úrskurðar þar um. Var þotunni í framhaldinu flogið af landi brott. Bótakröfu sína á hendur A reisti I ohf. einkum á hlutlægri bótareglu 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/1989 en gagnvart Í byggði hann á sakarreglunni. A höfðaði gagnsök gegn I ohf. og byggði á því að sú framganga I ohf. að hindra brottför þotunnar frá Keflavíkurflugvelli á grundvelli fjárkrafna sem hann hefði ekki borið ábyrgð á hefði verið ólögmæt og saknæm og valdið sér tjóni. Hæstiréttur féllst ekki á það með I ohf. að A hefði undir rekstri aðfararmálsins ráðstafað sakarefni málsins með bindandi hætti enda yrði úrskurði í slíku máli ekki jafnað til dóms í einkamáli. Við mat á því hvort umdeild aðfarargerð fengi staðist taldi rétturinn að ríkar kröfur yrðu jafnan gerðar til lagaheimildar sem fæli í sér greiðsluþvingun, sérstaklega við aðstæður þar sem kröfur beindust að eiganda loftfars sem ekki hefði átt í kröfuréttarsambandi við rekstraraðila flugvallar. Lagareglan hefði verið ónákvæm og ókleift fyrir I ohf. að fullnusta í þotu A þá fjárkröfu sem W hf. hafði stofnað til gagnvart I ohf. enda hefði hann hvorki notið haldsréttar, handveðs eða annarra tryggingarréttinda í þotunni. Þá kæmu lögveðsréttindi sem bætt var í lög undir rekstri aðfararmálsins ekki til álita þegar af þeirri ástæðu að ekki hefði verið byggt á þeim af hálfu I ohf. Fallist var á að beiting stöðvunarheimildar á grundvelli 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 hefði þó verið lögmæt vegna þeirra gjalda sem stofnað hafði verið til sérstaklega vegna umrædds loftfars en eftir að A hafði innt þau af hendi 6. maí 2019 hefði I ohf. ekki getað sótt frekari heimild í greinina til að aftra áfram för þotunnar enda fengi slíkt ekki samræmst vernd eignarréttar A, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Kæmi því hvorki til álita í málinu bótaábyrgð I ohf. á hendur A á grundvelli 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/1989 né Í á grundvelli sakarreglunnar og voru þau sýknuð af kröfum í aðalsök. Af niðurstöðum í aðalsök leiddi að stöðvunarheimild umræddrar 136. gr. laga nr. 60/1998 náði aðeins til þeirra gjalda sem stofnað hafði verið sérstaklega til vegna viðkomandi loftfars. I ohf. var auk þess virt til sakar að gera samkomulag við W hf. um tilhögun greiðslu og tryggingu allra gjaldfallinna krafna vegna allra loftfara á vegum flugfélagsins. Á tjóni sem af því leiddi bæri I ohf. ábyrgð og væri bótaskyldur gagnvart A vegna tjóns sem hann varð fyrir á tímabilinu frá 6. maí til 18. júlí 2019. Hins vegar var I ohf., í samræmi við niðurstöðu í aðalsök, sýknaður af kröfu um skaðabætur vegna þeirrar greiðslu sem hann innti af hendi 6. maí 2019. Að öðru leyti þótti skaðabótakrafa hans svo vanreifuð að henni var af sjálfsdáðum vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. júní 2023. Hann gerir þær dómkröfur að gagnáfrýjanda ALC A321 7237, LLC og stefnda íslenska ríkinu verði gert að greiða sér sameiginlega 1.352.495.210 krónur og 5.986.630 evrur ásamt vöxtum af báðum fjárhæðum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. júlí 2019 til 18. nóvember sama ár, en með dráttarvöxtum af báðum fjárhæðum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar vegna reksturs málsins á öllum dómstigum sameiginlega úr hendi stefnda og gagnáfrýjanda.

3. Gagnáfrýjandi, ALC A321 7237, LLC, krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 1.890.833 bandaríkjadali, 369.504 evrur og 55.457.390 krónur. Þá krefst hann vaxta af 55.457.390 krónum og 229.029 evrum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. mars 2019 til 6. maí sama ár og af 1.890.833 bandaríkjadölum og 140.475 evrum frá 28. mars 2019 til 2. apríl 2020, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 55.457.390 krónum og 229.029 evrum frá 6. maí 2019 til greiðsludags og af 1.890.833 bandaríkjadölum og 369.504 evrum frá 2. apríl 2020 til greiðsludags. Loks krefst hann málskostnaðar úr hendi aðaláfrýjanda vegna reksturs málsins á öllum dómstigum en til vara að málskostnaður verði látinn niður falla.

4. Stefndi, íslenska ríkið, krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni

5. Mál þetta varðar kröfu aðaláfrýjanda um skaðabætur óskipt úr hendi gagnáfrýjanda og stefnda vegna innsetningar sem fram fór með aðfarargerð sýslumannsins á Suðurnesjum 18. júlí 2019 í farþegaþotu gagnáfrýjanda TF-GPA á grundvelli úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness 17. sama mánaðar. Með því telur aðaláfrýjandi að hann hafi með ólögmætum hætti verið sviptur réttinum til þess að aftra för þotunnar frá flugvellinum samkvæmt 1. mgr. 136. gr. þágildandi laga um loftferðir nr. 60/1998.

6. Skaðabótakrafa aðaláfrýjanda á hendur gagnáfrýjanda er reist á hlutlægri bótareglu um ábyrgð gerðarbeiðanda samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/1989 um aðför en á hendur stefnda á grundvelli sakarreglunnar, sbr. 97. gr. sömu laga og 53. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla.

7. Gagnáfrýjandi höfðaði gagnsök í málinu. Byggir hann meðal annars á því að aðaláfrýjanda hafi ekki verið heimilt að hefta brottför þotunnar TF-GPA af Keflavíkurflugvelli. Þá hafi hann í aðdraganda gjaldþrotaskipta á búi WOW air hf. 28. mars 2019 heimilað flugfélaginu með ólögmætum hætti að safna upp skuldum sem legið hafi til grundvallar því að för þotunnar var hindruð á framangreindum grundvelli. Með því hafi hann bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart gagnáfrýjanda.

8. Með héraðsdómi var fallist á kröfur aðaláfrýjanda og var gagnáfrýjanda og stefnda gert sameiginlega að greiða skaðabætur en aðaláfrýjandi sýknaður af kröfum gagnáfrýjanda í gagnsök. Í dómi Landsréttar var hins vegar komist að öndverðri niðurstöðu í aðalsök. Fallist var á að orðalag 1. mgr. 136. gr. þágildandi laga um loftferðir væri víðtækt og takmarkaði ekki hvaða starfsemi eða gjöld gætu legið til grundvallar beitingu heimildarinnar, hvenær til gjalda væri stofnað og í hversu langan tíma slík gjöld gætu safnast upp. Ákvæðið væri verulega íþyngjandi og við túlkun þess bæri meðal annars að líta til eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og beita þrengjandi lögskýringu eins og raunin hefði orðið í umþrættum úrskurði héraðsdóms. Voru gagnáfrýjandi og stefndi því sýknaðir af kröfum aðaláfrýjanda í aðalsök. Landsréttur taldi tiltekna liði í kröfugerð gagnáfrýjanda í gagnsök vanreifaða og tjón af þeim sökum ósannað. Þá var öðrum þáttum kröfugerðar gagnáfrýjanda hafnað. Af þeim sökum var staðfestur héraðsdómur um sýknu aðaláfrýjanda í gagnsök.

9. Áfrýjunarleyfi í málinu var veitt 22. júní 2023, með ákvörðun réttarins nr. 2023-69, á þeim grunni að dómur í því gæti haft fordæmisgildi meðal annars um ætlaða skaðabótaskyldu ríkisins vegna þeirra atvika sem reyndi á í málinu.

Málsatvik

Uppsöfnun skulda WOW air hf. og stöðvun farþegaþotunnar TF-GPA

10. Gagnáfrýjandi sem leigusali gerði 21. apríl 2016 samning til átta ára við flugfélagið WOW air ehf., síðar WOW air hf., sem leigutaka um leigu á farþegaþotu af gerðinni Airbus A321. Í samningnum er meðal annars vikið að gjaldtöku rekstraraðila flugvalla. Í grein 15.10.3 kemur fram að leigusali beri ekki ábyrgð á því ef för loftfarsins er aftrað eða það tekið löghaldi í tengslum við ógreidd flugvallargjöld þótt í ákvæðum laga gæti falist gagnstæð skylda. Gagnáfrýjandi fékk afsal fyrir þotunni frá framleiðanda 5. ágúst sama ár. Hún sýnist í framhaldi af því hafa verið afhent WOW air ehf. og skráð í loftfaraskrá með einkennisstafina TF-GPA. Var WOW air hf. skráð umráðamaður hennar í loftfaraskrá en gagnáfrýjandi eigandi.

11. Haustið 2018 hafði hallað undan fæti í rekstri WOW air hf. og félagið ekki staðið í skilum við aðaláfrýjanda í nokkurn tíma. Var einkum um að ræða gjöld samkvæmt 71. gr. þágildandi laga nr. 60/1998 um loftferðir og eftir þjónustugjaldskrá sem sett hafði verið á grundvelli 10. gr. þágildandi laga nr. 76/2008 um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl. Eftir viðræður aðila gaf WOW air hf. út einhliða yfirlýsingu 21. nóvember 2018 um greiðslu ógreiddra notendagjalda í samræmi við greiðsluáætlun á tímabilinu 1. nóvember 2018 til 1. nóvember 2019. Samhliða gaf félagið út sérstaka yfirlýsingu þess efnis að það myndi tryggja það að ein flugvél að minnsta kosti „á flugrekstrarleyfi félagsins“ yrði til staðar á Keflavíkurflugvelli eða á leið þangað. WOW air hf. mun hafa staðið við greiðslur í samræmi við áætlunina fram í lok febrúar 2019.

12. Aðfaranótt 28. mars 2019 beitti aðaláfrýjandi stöðvunarheimild þágildandi 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir til að aftra för farþegaþotunnar TF-GPA frá Keflavíkurflugvelli þar til greidd yrðu eða trygging sett fyrir greiðslu gjalda sem WOW air hf. hafði stofnað til við aðaláfrýjanda í starfsemi sinni. Tilkynning um þessa ráðstöfun var send gagnáfrýjanda og móðurfélagi hans Air Lease Corporation samdægurs. Sama dag lýsti gagnáfrýjandi yfir riftun leigusamningsins við WOW air hf. vegna vanefnda félagsins.

13. Að morgni 28. mars 2019 var flugrekstrarleyfi WOW air hf. skilað til Samgöngustofu og sama dag ákvað stjórn félagsins að gefa það upp til gjaldþrotaskipta. Gekk það eftir með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur samdægurs. Þegar WOW air hf. hætti rekstri færðust umráð farþegaþotunnar TF-GPA til gagnáfrýjanda en skráningu vélarinnar var breytt formlega á þann veg 4. apríl 2019.

Aðfararbeiðnir gagnáfrýjanda og aðfarargerð í farþegaþotunni TF-GPA

14. Gagnáfrýjandi lagði fram aðfararbeiðni í Héraðsdómi Reykjaness 17. apríl 2019 og krafðist þess að farþegaþotan yrði tekin úr „vörslum“ aðaláfrýjanda og fengin sér til fullra og takmarkalausra umráða (fyrsta aðfararmálið). Héraðsdómur hafnaði beiðninni með úrskurði 2. maí sama ár í máli nr. A-53/2019 með vísan til þess að aðaláfrýjanda væri heimilt að hamla för þotunnar meðan gjöld sérstaklega tengd henni væru ógreidd, en ekki vegna annarra ógreiddra gjalda WOW air hf. Aðaláfrýjandi kærði úrskurðinn til Landsréttar 3. maí 2019 og krafðist staðfestingar hans en með breyttum forsendum þannig að viðurkennt yrði að stöðvunarheimild 1. mgr. 136. gr. þágildandi laga nr. 60/1998 um loftferðir næði til allra ógreiddra gjalda viðkomandi flugrekanda. Hinn 6. maí 2019 greiddi gagnáfrýjandi gjöld sem hann taldi tengjast þotunni með fyrirvara og án viðurkenningar á því að honum bæri að greiða umræddan kostnað. Aðaláfrýjandi taldi greiðsluna ekki fela í sér fullnaðaruppgjör og neitaði að að aflétta stöðvun þotunnar. Í greinargerð sinni til Landsréttar 13. maí 2019 krafðist gagnáfrýjandi síðan aðallega frávísunar málsins frá Landsrétti en til vara staðfestingar úrskurðarins. Byggði hann á því að hann hefði þegar eða 6. sama mánaðar greitt þau gjöld sem stofnað hefði verið til vegna umræddrar þotu. Með úrskurði Landsréttar 24. maí 2019 í máli nr. 321/2019 var úrskurður héraðsdóms staðfestur en með breyttum forsendum. Var þar lagt til grundvallar að stöðvunarheimild 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 fæli ekki aðeins í sér heimild til að aftra för loftfars vegna þeirrar skuldar sem stofnað hefði verið sérstaklega til vegna þess heldur heildarskulda WOW air hf. við aðaláfrýjanda vegna hvers kyns starfsemi félagsins á Keflavíkurflugvelli, þar á meðal þjónustu við önnur loftför í eigu annarra aðila en í umráðum WOW air hf.

15. Gagnáfrýjandi kærði úrskurðinn til Hæstaréttar sem ómerkti hann með dómi 27. júní 2019 í máli nr. 29/2019. Þar kom fram að í varakröfu gagnáfrýjanda fyrir Landsrétti hefði falist samþykki fyrir staðfestingu á niðurstöðu héraðsdóms um synjun aðfarargerðarinnar. Þar sem ekki hefði verið fallist á aðalkröfu gagnáfrýjanda um frávísun málsins frá Landsrétti hefði réttinum borið að verða við kröfu aðaláfrýjanda og staðfesta niðurstöðu úrskurðarins um þetta atriði án þess að taka á nokkurn hátt afstöðu til röksemda fyrir henni og leysa einvörðungu úr ágreiningi aðilanna um málskostnað. Landsréttur kvað að nýju upp úrskurð í málinu 3. júlí 2019 þar sem úrskurður héraðsdóms 2. maí var staðfestur án þess að tekin væri afstaða til umrædds ágreinings aðila.

16. Undir rekstri landsréttarmálsins nr. 321/2019, eftir að hafa innt framangreinda greiðslu af hendi 6. maí 2019, krafðist gagnáfrýjandi samdægurs á ný innsetningar í þotuna TF-GPA (annað aðfararmálið). Með úrskurði héraðsdóms var beiðninni vísað frá dómi með vísan til framangreinds úrskurðar Landsréttar 24. maí 2019 og um það vísað til 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

17. Með þriðju aðfararbeiðninni 1. júlí 2019 krafðist gagnáfrýjandi þess að aflétt yrði banni við brottför þotunnar frá Keflavíkurflugvelli (þriðja aðfararmálið). Með úrskurði héraðsdóms 17. júlí sama ár í máli nr. A-816/2019 var fallist á kröfuna. Sú niðurstaða byggðist á sama grundvelli og fyrsti úrskurður dómsins 2. maí 2019, það er að heimild 1. mgr. 136. gr. eldri laga um loftferðir nr. 60/1998 stæði aðeins til þess að aftra för loftfars vegna skulda sem tengdust því. Sönnunarbyrðin var lögð á aðaláfrýjanda um að ekki hefði farið fram fullnaðaruppgjör á þeirri kröfu með greiðslu gagnáfrýjanda 6. maí 2019. Þá sönnunarbyrði hefði hann ekki axlað og af því leiddi að 136. gr. laga nr. 60/1998 stæði ekki til þess að heimila áframhaldandi stöðvun loftfarsins. Þá var þeirri kröfu aðaláfrýjanda hafnað að málskot til æðra dóms frestaði aðför, sbr. 3. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989. Aðaláfrýjandi kærði úrskurðinn samdægurs en með aðfarargerð sýslumanns 18. júlí 2019 var stöðvun þotunnar aflétt og henni í kjölfarið flogið af landi brott. Með úrskurði Landsréttar 29. ágúst 2019 í máli nr. 549/2019 var kæru aðaláfrýjanda á úrskurði héraðsdóms vísað frá dómi þar sem gerðinni væri lokið. Staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu með dómi 23. september sama ár í máli nr. 43/2019.

18. Með bréfi aðaláfrýjanda 7. október 2019 krafði hann gagnáfrýjanda um skaðabætur á grundvelli 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/1989 vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna aðfararinnar sem fram fór á grundvelli úrskurðar héraðsdóms 17. júlí 2019. Jafnframt var með bréfi aðaláfrýjanda til stefnda 18. október sama ár höfð uppi skaðabótakrafa á hendur honum vegna ætlaðrar saknæmrar og ólögmætrar háttsemi héraðsdómara þess sem kvað upp nefndan úrskurð.

19. Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu 13. desember 2019 og 6. janúar 2020. Gagnáfrýjandi höfðaði gagnsök 12. mars 2020 á hendur aðaláfrýjanda og Skúla Mogensen, fyrrum forstjóra WOW air hf. og krafðist skaðabóta úr þeirra hendi. Kröfum á hendur Skúla var vísað frá dómi með úrskurði héraðsdóms 27. nóvember 2020 og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með úrskurði 11. janúar 2021 í máli nr. 704/2020.

Málsástæður í aðalsök

Helstu málsástæður aðaláfrýjanda Isavia ohf. gagnvart gagnáfrýjanda ALC A321 7237, LLC

20. Aðaláfrýjandi byggir kröfur sínar á hlutlægri bótareglu 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/1989. Honum nægi að sýna fram á að aðfarargerðin 18. júlí 2019 hefði með réttu ekki átt að fara fram til þess að gagnáfrýjandi, sem gerðarbeiðandi, beri bótaábyrgð. Gagnáfrýjandi hefði greitt kröfu aðaláfrýjanda í málinu eða sett fyrir henni fullnægjandi tryggingu ef aðfararbeiðninni hefði verið hafnað. Því séu orsakatengsl milli tjóns hans og aðfarargerðarinnar, auk þess sem tjónið sé sennileg afleiðing hennar.

21. Þeir annmarkar hafi verið á þriðju aðfararbeiðni gagnáfrýjanda, sem héraðsdómur féllst á með úrskurði 17. júlí 2019, að með réttu hefði átt að vísa henni frá dómi eða hafna á sömu forsendum. Litið hafi verið fram hjá því að dómur Hæstaréttar í máli nr. 29/2019 og síðar nýr úrskurður Landsréttar í máli nr. 321/2019, sem gengu um fyrstu aðfararbeiðni gagnáfrýjanda, hafi byggst á ákvæði 1. mgr. 98. gr. laga nr. 91/1991 þar sem gagnáfrýjandi samþykkti kröfur aðaláfrýjanda. Þannig hafi gagnáfrýjandi ráðstafað sakarefninu með bindandi hætti við rekstur þess aðfararmáls þegar hann samþykkti kröfu og málatilbúnað aðaláfrýjanda. Hann hefði því ekki átt að geta farið fram með nýja aðfararbeiðni á sömu forsendum og þeirri fyrri og í ósamræmi við ráðstöfun sakarefnis.

22. Aðaláfrýjandi telur að þágildandi 1. mgr. 136. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 hafi heimilað honum að aftra brottför þotunnar TF-GPA frá Keflavíkurflugvelli þar til öll skuld WOW air hf. við aðaláfrýjanda væri greidd eða trygging sett fyrir greiðslu. Orðalag ákvæðisins hefði verið skýrt og afdráttarlaust um heimild hans til að aftra brottför loftfarsins einnig þegar litið væri til forsögu þess og tilgangs. Aðaláfrýjandi hafnar því að eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar leiði til þess að beita beri þrengjandi lögskýringu við túlkun 1. mgr. 136. gr., enda hafi ákvæðið hvorki í för með sér eignaupptöku né skerðingu á eignarrétti sem brjóti í bága við 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar.

23. Aðaláfrýjandi bendir á að hann hafi átt rétt, fólginn í svokölluðu flotaveði (fleet lien), til að aftra för loftfarsins. Það feli í sér heimild til að aftra för eins loftfars í eigu eða umráðum flugrekanda til tryggingar öllum skuldum hans við rekstraraðila flugvallar. Þá hafi 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 kveðið á um réttindi sem svari til lögbundins haldsréttar. Í öllu falli hafi ákvæðið falið í sér handveðréttindi, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð.

24. Enn fremur vísar aðaláfrýjandi til þess að fyrrgreindur leigusamningur gagnáfrýjanda og WOW air hf. beri með sér að gagnáfrýjandi hafi verið meðvitaður um inntak 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 og hagað lögskiptum sínum við WOW air hf. í samræmi við þá túlkun ákvæðisins sem aðaláfrýjandi byggi á í málinu.

Helstu málsástæður aðaláfrýjanda Isavia ohf. gagnvart stefnda íslenska ríkinu

25. Aðaláfrýjandi vísar til þess að samkvæmt 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/1989 fari um ábyrgð héraðsdómara eftir sérreglum laga. Í 2. mgr. 53. gr. laga nr. 50/2016 segi að verði athafnir eða athafnaleysi dómara í starfi öðrum til tjóns beri ríkið á því bótaábyrgð eftir almennum reglum. Krafa sín á hendur stefnda byggist á framangreindum lagaákvæðum auk reglna skaðabótaréttarins um vinnuveitendaábyrgð. Í ljósi stöðu dómara og valds sem þeim sé falið falli ábyrgð þeirra undir reglur skaðabótaréttarins um sérfræðiábyrgð.

26. Aðaláfrýjandi byggir á því að héraðsdómari hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi við úrlausn aðfararmáls nr. A-816/2019. Fyrir liggi beint orsakasamhengi milli háttsemi dómarans og tjóns aðaláfrýjanda enda hefði krafa hans ella fengist greidd eða tryggð með fullnægjandi hætti. Þar af leiðandi sé fullnægt skilyrðum um orsakatengsl milli tjóns hans og aðfarargerðarinnar, auk þess sem tjónið sé sennileg afleiðing hennar.

27. Aðaláfrýjandi telur saknæma og ólögmæta háttsemi dómarans hafa verið fjórþætta. Í fyrsta lagi hafi hann heimilað aðfarargerð sem Landsréttur og Hæstiréttur höfðu áður hafnað. Í öðru lagi hafi dómari komist að mismunandi niðurstöðum um bindandi áhrif dómsúrlausna (res judicata) þótt aðstæður væru þær sömu þegar gagnáfrýjandi krafðist innsetningar í þriðja sinn. Í þriðja lagi hafi dómari ekki beitt lögskýringu Landsréttar sem fram hafi komið í fyrri úrskurði réttarins í fyrsta aðfararmálinu þótt hann væri bundinn af lagatúlkun og efnisúrlausnum Landsréttar. Við það hafi dómarinn farið yfir mörk rangrar lagatúlkunar og saknæmrar háttsemi og engu máli skipti þótt úrskurður Landsréttar hafi verið ómerktur af Hæstarétti á grundvelli réttarfarsatriða. Í fjórða lagi hafi dómari ranglega hafnað frestun réttaráhrifa úrskurðarins 17. júlí 2019.

Helstu málsástæður gagnáfrýjanda ALC A321 7237, LLC

28. Gagnáfrýjandi hafnar þeim málatilbúnaði aðaláfrýjanda að hafa ráðstafað sakarefni málsins þannig að lög hafi ekki staðið til þess að hann gæti farið fram með þriðju aðfararbeiðni sína.

29. Enn fremur byggir gagnáfrýjandi á því að bótagrundvöll skorti þar sem aðfarargerðin hafi farið fram að réttum lögum og því ekki stofnast til bótaskyldu samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/1989. Þá hafi aðaláfrýjandi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni sem standi í beinu eða óbeinu orsakasambandi við aðfarargerðina eða aðra ætlaða saknæma háttsemi gagnáfrýjanda.

30. Gagnáfrýjandi telur þágildandi 1. mgr. 136. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 ekki hafa veitt aðaláfrýjanda heimild til að stöðva frjáls afnot hans af loftfari sínu og þvinga fram greiðslu skulda WOW air hf. sem aðaláfrýjandi hafi leyft að safnast upp yfir langt tímabil vegna eigin viðskiptahagsmuna án heimildar og lagastoðar. Gagnáfrýjandi hafi ekki verið upplýstur um þá ráðstöfun og hefði aldrei samþykkt hana.

31. Gagnáfrýjandi vísar til þess að beiting aðaláfrýjanda á heimild 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 hafi verið opinbers eðlis og íþyngjandi. Ákvæðið beri að túlka þröngri lögskýringu og meta með hliðsjón af eignarréttarvernd 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Inngrip aðaláfrýjanda hafi farið í bága við ákvæðið sjálft, reglur og þjónustuskilmála hans. Þá hafi hvorki verið stofnað til kröfuréttinda né óbeinna eignarréttinda aðaláfrýjanda, svo sem flotaveðs, handveðs, haldsréttar, lögveðs eða annarra tryggingarréttinda, á grundvelli 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998.

32. Enn fremur mótmælir gagnáfrýjandi því að í leigusamningi hans við WOW air hf. felist heimildir af því tagi sem aðaláfrýjandi byggir rétt á eða hann hafi samþykkt að WOW air hf. gæti sett umrætt loftfar að veði vegna krafna aðaláfrýjanda.

33. Loks vísar gagnáfrýjandi til þess að eftir að atvik máls þessa urðu hafi stöðvunarheimild loftferðalaga sætt gagngerum breytingum, sbr. 198. gr. laga um loftferðir nr. 80/2022. Aðaláfrýjanda sé ekki lengur selt sjálfdæmi um beitingu hennar heldur sé stöðvun loftfars nú á valdi sýslumanns. Tilgreint sé til hvaða skulda hún nái og frá hvaða tíma. Þessi lagabreyting feli í sér viðurkenningu löggjafans á því að eldra ákvæði 136. gr. laga nr. 60/1998 hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar séu til laga sem eru íþyngjandi og feli í sér takmörkun stjórnarskrárvarinna réttinda.

Helstu málsástæður stefnda íslenska ríkisins

34. Stefndi byggir á því að 2. mgr. 53. gr. laga nr. 50/2016 nái ekki til efnislegra ákvarðana dómara heldur sé ákvæðinu ætlað að vera varnagli til að bregðast við því þegar dómari af ásetningi eða vítaverðu gáleysi veldur málsaðila tjóni með dómsúrlausn. Með hliðsjón af lagaákvæðum um sjálfstæði dómara og dómstóla sé vandséð að unnt sé að komast að þeirri niðurstöðu að efnisleg niðurstaða dómara við úrlausn aðfararmáls nr. A-816/2019 hafi verið saknæm. Ætlunin hafi ekki verið sú með lögfestingu 2. mgr. 53. gr. að fela hliðsettum dómstól vald til að endurskoða efnisúrlausn annars dómara svo sem raunin hafi orðið með dómi héraðsdóms í þessu máli.

35. Þá vísar stefndi til þess að ekkert í lögum komi í veg fyrir að leyst sé úr sömu innsetningarkröfunni aftur við breyttar aðstæður. Þegar þriðja aðfararbeiðni gagnáfrýjanda kom fram hefðu skuldir vegna loftfarsins þegar verið greiddar og ekkert dómsmál verið til meðferðar vegna aðfararbeiðninnar. Þá hafnar stefndi því að forsendur í ómerktum úrskurði Landsréttar hafi falið í sér bindandi fordæmi um efnislega túlkun þágildandi 1. mgr. 136. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998.

36. Stefndi vísar til þess að frestun réttaráhrifa úrskurðar um aðfarargerð sé undantekning frá meginreglu íslensks réttar um að málskot fresti ekki aðför. Fram komi í lögskýringargögnum að þessari undantekningu skuli einkum beita þegar um sé að ræða hagsmuni ófjárhagslegs eðlis eða tjón megi ekki bæta síðar með fjárgreiðslu ef gerðin yrði framkvæmd og æðri dómur kæmist síðar að öndverðri niðurstöðu.

37. Komist Hæstiréttur að því að dómari hafi sýnt af sér saknæma háttsemi mótmælir stefndi því að slaka eigi á sönnunarkröfum um orsakatengsl. Þá er einnig á því byggt að aðaláfrýjanda hafi ekki tekist sönnun um að niðurstaða um aðfararbeiðnina hefði fallið honum í vil ef réttaráhrifum úrskurðarins hefði verið frestað. Þannig standi engin rök til þess að meta háttsemi dómara saknæma þannig að það leiði til bótaskyldu fyrir íslenska ríkið.

Málsástæður í gagnsök

Helstu málsástæður gagnáfrýjanda ALC A321 7237, LLC

38. Gagnáfrýjandi byggir á því að sú framganga aðaláfrýjanda að meina farþegaþotunni TF-GPA brottför frá Keflavíkurflugvelli hafi verið ólögmæt og saknæm. Hún hafi valdið sér tjóni sem felist í útlögðum kostnaði og töpuðum leigutekjum af þotunni allt þar til stöðvun var aflétt og henni flogið á brott 18. júlí 2019.

39. Gagnáfrýjandi vísar til þess að aðaláfrýjandi hafi leyft WOW air hf. að safna skuldum. Yngsta skuld tengd þotunni hafi verið á gjalddaga í desember 2018 og aðrar skuldir eldri. Þessi háttsemi aðaláfrýjanda hafi verið í trássi við hans eigin reglur.

40. Þá hafi samkomulag WOW air hf. og aðaláfrýjanda, gert að undirlagi þess síðarnefnda, um að ein ótilgreind farþegaþota yrði ætíð tiltæk á Keflavíkurflugvelli, verið gert án vitundar gagnáfrýjanda og falið í sér töku trygginga í eignum þriðja manns án heimildar og lagastoðar. Sú háttsemi hafi auk annars falið í sér ólögmæta ríkisaðstoð til WOW air hf. og brot á samkeppnislögum.

41. Gagnáfrýjandi mótmælir þeirri niðurstöðu Landsréttar að aðaláfrýjanda hafi verið heimilt, á grundvelli 136. gr. eldri laga um loftferðir nr. 60/1998, að aftra för þotunnar vegna gjalda sem henni tengdust sérstaklega. Áréttar hann að greiðsla hans til aðaláfrýjanda af því tilefni 6. maí 2019 hafi verið innt af hendi með fyrirvara um réttmæti kröfu hans.

42. Gagnáfrýjandi telur aðaláfrýjanda enga heimild hafa haft til að þvinga fram greiðslu á eldri óinnheimtum gjöldum vegna þotunnar. Hann hafi ekki skuldað aðaláfrýjanda nein gjöld, ekkert kröfuréttarsamband verið milli þeirra og engin tryggingarréttindi falist í þágildandi 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998. Þá hafi þrotabú WOW air hf. aldrei talið til einhverra réttinda yfir farþegaþotunni. Engin rök standi til að aðaláfrýjandi hafi öðlast ríkari rétt en aðrir kröfuhafar samkvæmt lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. á grundvelli eldri loftferðalaga.

43. Loks mótmælir gagnáfrýjandi þeirri niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að tilteknir liðir kröfugerðar hans í gagnsök hafi verið vanreifaðir. Þeir byggist þvert á móti á útgefnum reikningum viðurkenndra aðila og feli í sér fullnægjandi sönnun á tjóni hans.

Helstu málsástæður aðaláfrýjanda Isavia ohf.

44. Aðaláfrýjandi vísar til málatilbúnaðar síns í aðalsök um að honum hafi verið heimilt á grundvelli þágildandi 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 að aftra för farþegaþotunnar TF-GPA. Sú niðurstaða leiði þá þegar til sýknu af kröfum gagnáfrýjanda. Þá hafi tilhögun innheimtu hans á gjöldum WOW air hf. vegna greiðsluerfiðleika félagsins átt sér fulla stoð í skilmálum hans og hafi byggst á viðskiptalegum forsendum. Sú framkvæmd hafi hvorki falið í sér saknæma né ólögmæta háttsemi. Einnig telur aðaláfrýjandi að gagnáfrýjandi hafi í það minnsta viðurkennt réttmæti þeirrar greiðslu sem hann innti af hendi 6. maí 2019 og sjálfur talið tilkomna vegna þotunnar.

45. Aðaláfrýjandi áréttar enn fremur að kröfur gagnáfrýjanda í gagnstefnu í héraði séu allar byggðar á reglum skaðabótaréttar og settar fram sem skaðabótakröfur. Málsástæðum fyrir endurgreiðslukröfu á öðrum grundvelli sé mótmælt sem of seint fram komnum, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Þá sé ætlað tjón gagnáfrýjanda jafnframt vanreifað og ósannað.

Heimildir loftferðalaga til að aftra för loftfars af flugvelli

46. Helsta ágreiningsefni málsins lýtur að skýringu 136. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998, sem í gildi var þegar atvik málsins urðu, um heimild til að aftra för loftfars af flugvelli. Upphaflegt ákvæði um slíka heimild var að finna í 149. gr. laga nr. 34/1964 um loftferðir og var svohljóðandi:

Réttum umráðanda flugvallar, sem er heimill almenningi, er rétt að aftra för loftfars af flugvellinum, uns eftirgjald eftir síðustu lendingu og notkun loftfarsins af vellinum er greitt eða trygging sett fyrir greiðslu þess.

47. Ákvæðið var tekið upp í 1. mgr. 136 gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir með þeirri rýmkun á heimild til stöðvunar loftfars að hún tæki einnig til annarrar starfsemi flugrekandans. Ákvæðið var í kjölfarið svohljóðandi:

Flugmálastjórn er heimilt að aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut á eða annarrar starfsemi flugrekandans.

48. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi sem varð að lögum nr. 60/1998 sagði meðal annars að greinin kæmi í stað 149. gr. eldri laga en gildissviðið hefði verið „útvíkkað nokkuð“ frá því sem gilt hafði því að samkvæmt þágildandi ákvæðum takmarkaðist beiting heimildarinnar við síðustu lendingu hlutaðeigandi loftfars.

49. Í lögum nr. 60/1998 var jafnframt í 71. gr. mælt fyrir um heimild til heimtu gjalda, annars vegar í 1. mgr. til að standa undir rekstri flugvalla og aðstöðu vegna starfsemi tengdri flugsamgöngum og hins vegar í 2. mgr. til að standa undir rekstri flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar.

50. Með lögum nr. 21/2002 um breytingu á lögum nr. 60/1998 varð 1. mgr. 136. gr. laganna svohljóðandi:

Flugmálastjórn Íslands er heimilt að aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut á eða annarrar starfsemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfarsins.

51. Um þessa breytingu á lögunum sagði meðal annars svo í frumvarpi sem varð að lögum nr. 21/2002:

Ákvæði núgildandi 136. gr. loftferðalaga lúta að tvennu, annars vegar þeirri heimild til greiðsluþvingunar sem felst í því að meina brottflug loftfari flugrekanda sem skuldar Flugmálastjórn Íslands gjöld, sem starfsemi hans varða, og hins vegar að því að knýja leyfis- og skírteinishafa til að rækja skyldur sínar að viðlögðum dagsektum. [...] Eins og greiðsluþvingunarheimildin er orðuð í lögunum í dag er hún bundin flugrekendum en með frumvarpinu er lagt til að hún verði útvíkkuð til allra eigenda eða umráðenda loftfara.

52. Með i-lið 1. mgr. 14. gr. laga nr. 102/2006 um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands var orðunum „og þeim sem starfrækir flugvöll eða flugleiðsöguþjónustu“ skeytt á eftir orðunum „Flugmálastjórn Íslands“ í 1. mgr. 136. gr. Lögin fólu í sér að stofnað var sérstakt hlutafélag í eigu ríkisins um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar en stjórnsýslustarfsemi, þar með talin eftirlitsstarfsemi Flugmálastjórnar, yrði sinnt af sérstakri stofnun, Flugmálastjórn Íslands. Þá var vísun ákvæðisins í Flugmálastjórn Íslands breytt í Samgöngustofu með lögum nr. 59/2013.

53. Með 11. gr. laga nr. 15/2009 var 71. gr. laga nr. 60/1998 breytt í það horf sem hún var í þegar atvik máls þessa urðu. Ákvæði 1. og 2. mgr. 71. gr. hljóðuðu þá svo:

Rekstraraðila flugvallar er heimilt að innheimta gjöld til að standa undir rekstri flugvallar og fyrir þeirri aðstöðu, búnaði og mannvirkjum sem starfsemi tengd flugsamgöngum nýtir á flugvellinum.
Rekstraraðila flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar er heimilt að innheimta gjöld til að standa undir rekstri flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar, þar sem slík þjónusta er veitt, og þeim búnaði og mannvirkjum sem starfsemin nýtir.

54. Með d-lið 2. töluliðar 12. gr. laga nr. 74/2019 um Höfðaborgarsamninginn um alþjóðleg tryggingarréttindi í hreyfanlegum búnaði og bókun um búnað loftfara var nýrri málsgrein bætt við 71. gr. laga nr. 60/1998. Með lagabreytingunni sem tók gildi 5. júlí 2019 varð hún 5. mgr. 71. gr. Voru fyrsti og annar málsliður í þeirri málsgrein svohljóðandi:

Gjöld skv. 1. mgr. skulu tryggð með lögveði í loftförum eða loftfarshlutum eiganda eða umráðanda loftfars sem skráð er hér á landi.
Gjöld skv. 2. mgr. skulu tryggð með lögveði í því loftfari sem í hlut á og skráð er hér á landi eða loftfarshlutum.

55. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 74/2019 sagði meðal annars:

Er miðað við að lögveð stofnist vegna ógreiddra gjalda vegna þess loftfars/loftfarshlutar sem í hlut á hvað flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar varðar. Hvað varðar þjónustu sem veitt er loftförum á flugvelli er heimildin víðtækari og tekur til þeirra loftfara/loftfarshluta sem viðkomandi eigandi eða umráðandi hefur skráð hér á landi. Hafa ber í huga að þjónusta á flugvelli er gjarnan veitt ótilteknu loftfari flugrekanda eða eiganda/umráðanda loftfara án þess að þjónustan sé sérstaklega afmörkuð hverju loftfari fyrir sig. Er hér haft til hliðsjónar orðalag 136. gr. laganna þar sem sömu aðilum er heimilt að aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut á eða annarrar starfsemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfarsins.

56. Í 4. gr. laga nr. 74/2019 er mælt fyrir um að Höfðaborgarsamningurinn raski ekki rétti tiltekinna aðila til að leggja hald á eða kyrrsetja hlut samkvæmt íslenskum lögum. Í skýringum við þetta ákvæði í greinargerð með frumvarpi til laganna sagði að dæmi um þess háttar lögfestar heimildir væru meðal annars:

[...] í 136. gr. laga um loftferðir, nr. 60/1998, þar sem þeim sem starfrækir flugvöll eða flugleiðsöguþjónustu er heimilt að aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut á eða annarrar starfsemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfarsins. Samhliða er í 12. og 13. gr. frumvarpsins ráðgert að slík gjöld njóti lögveðsréttar.

57. Heimildin til að aftra för loftfars af flugvelli var tekin upp í gildandi lög um loftferðir nr. 80/2022. Ákvæðið er að finna í 198. gr. laganna undir fyrirsögninni „Stöðvun loftfars vegna ógreiddra gjalda“. Umtalsverðar breytingar hafa orðið á lagaheimildinni frá því sem var í fyrri lagaákvæðum um efnið. Ákvæði 1. mgr. 198. gr. er svohljóðandi:

Rekstraraðila flugvallar hér á landi sem opinn er almenningi og rekstraraðila flugleiðsöguþjónustu sem hefur höfuðstöðvar eða aðalaðsetur hér á landi er heimilt að leggja fram beiðni um stöðvun loftfars til sýslumanns uns lögmælt gjöld skv. 195. gr. og 197. gr. eru greidd, eða trygging sett fyrir greiðslu, enda séu öll eftirtalin skilyrði uppfyllt:
a. stofnað var til gjalda skv. 195. eða 197. gr. vegna þess loftfars sem stöðvunarbeiðni lýtur að og/eða vegna annarra loftfara sem sami flugrekandi hefur til umráða og starfrækir loftfarið sem beiðni beinist að,
b. stofnað var til gjalda skv. 195. eða 197. gr. að hámarki sjö mánuðum áður en beiðni um stöðvun er lögð fram,
c. flugrekanda og eiganda þess loftfars sem beiðni beinist að var með sannanlegum hætti send greiðsluáskorun og viðvörun um innheimtu kröfu eftir gjalddaga og veittur frestur, sem ekki skal vera skemmri en 15 dagar, til greiðslu og efndar kröfu, enda hafi framangreindir aðilar verið að staðaldri í reglulegum viðskiptum við gerðarbeiðanda.

58. Með nýju lögunum hefur sú grundvallarbreyting jafnframt orðið að stöðvun loftfars fer nú aðeins fram fyrir atbeina sýslumanns og þá á grundvelli laga um kyrrsetningu og lögbann, sbr. 2.–4. mgr. 198. gr. laga nr. 80/2022. Með sama hætti og áður skulu gjöld samkvæmt 195. gr. laganna sem taka til reksturs flugvallar njóta lögveðsréttar sem nær til loftfara eða loftfarshluta eiganda eða umráðanda loftfars sem skráð er hér á landi. Þá skulu gjöld samkvæmt 197. gr. laganna sem taka til flugleiðsöguþjónustu og rekstrarstjórnun flugumferðar tryggð með lögveði í því loftfari sem í hlut á og skráð er hér á landi eða loftfarshlutum.

59. Þá segir í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lögum nr. 80/2022 að ástæða þess að lagt sé til að stöðvunarheimild verði áfram í loftferðalögum sé fyrst og fremst til að bregðast við því fyrirkomulagi þegar flugrekandi starfrækir loftfar sem sé í eigu annars aðila enda verði þá almennum úrræðum ekki komið við. Jafnframt segir að í ljósi þessa hafi verið skerpt á því hvaða gjöld geti legið til grundvallar beitingu heimildarinnar, hvenær til gjaldanna sé stofnað og í hvað langan tíma slík gjöld geti safnast upp til beitingar heimildarinnar. Þá sé beiting úrræðisins háð því að greiðsluáskorun og viðvörun um innheimtu kröfunnar hafi verið send bæði eiganda loftfars og flugrekanda/umráðanda þess.

Niðurstaða

60. Eins og málatilbúnaði aðila er háttað liggur fyrst fyrir að taka afstöðu til þeirrar málsástæðu aðaláfrýjanda að gagnáfrýjandi hafi undir rekstri fyrsta aðfararmáls af þremur ráðstafað sakarefninu með þeim afleiðingum að borið hafi þegar af þeirri ástæðu að hafna þriðju aðfararbeiðninni. Tjón aðaláfrýjanda verði rakið til þess að það var ekki gert.

Um ráðstöfun sakarefnis

61. Við mat á því hvort gagnáfrýjandi hafi með tilhögun kröfugerðar sinnar í fyrsta aðfararmálinu ráðstafað sakarefni málsins með bindandi hætti er til þess að líta að útilokunaráhrif hafa ekki sömu þýðingu á sviði fullnusturéttarfars og þau hafa í einkamáli. Í 79. gr. laga nr. 90/1989 kemur fram að það standi ekki í vegi aðfarargerðar samkvæmt 78. gr. þótt dómsmál sé jafnframt rekið milli sömu aðila um önnur atriði sem varða réttarsamband þeirra. Í 13. kafla laganna er að finna ákvæði um málsmeðferð í aðfararmálum. Efnisákvæðin eru í 80.–83. gr. en í 1. mgr. 84. gr. þeirra kemur fram að almennum reglum laga um meðferð einkamála í héraði, sbr. lög nr. 91/1991, skuli annars beitt um mál samkvæmt þeim kafla eftir því sem við geti átt. Til frekari skýringa á þeim mun sem er á rekstri almenns einkamáls og efnislegri þýðingu dóms í því annars vegar og aðfararmáli hins vegar er ástæða til að nefna að í athugasemdum með 84. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 90/1989 var vísað til þeirra reglna þágildandi laga nr. 85/1936 um meðferð einkamála í héraði sem ganga mætti út frá að ættu við um málsmeðferð samkvæmt 13. kafla laganna. Þar var ekki að finna tilvísun til reglna hliðstæðra þeim sem nú eru í 1. og 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um að úrlausn sé bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila og þeirra er koma að lögum í þeirra stað. Með úrskurði á grundvelli 13. kafla laga nr. 90/1989, sbr. í þessu tilviki 78. gr. laganna, kveður dómari á um hvort umbeðin aðfarargerð fari fram eða ekki miðað við þær aðstæður og upplýsingar sem fyrir liggja. Slíkum úrskurði verður ekki jafnað til dóms í einkamáli sem ætlað er að vera endanleg efnisleg og bindandi niðurstaða í sakarefni því sem um er að ræða. Af þessu leiðir að ákvæði laga um meðferð einkamála um neikvæð réttaráhrif dóms eiga ekki við um úrskurði samkvæmt 13. kafla laga nr. 90/1989, sbr. dóm Hæstaréttar 7. febrúar 2007 í máli nr. 53/2007. Verður heimild 78. gr. aðfararlaga um útburðar- og innsetningargerðir án undangengins dóms eða réttarsáttar skýrð með hliðsjón af því. Á grundvelli þeirrar lagaheimildar verður annað tveggja fallist á aðför ellegar henni hafnað en máli ekki vísað frá dómi með sama hætti og við á í rekstri hefðbundins einkamáls.

62. Af framangreindu leiðir að því eru engin takmörk sett hversu oft gerðarbeiðandi leitar heimildar til aðfarar á þessum grundvelli. Sé það gert að tilefnislausu og án þess að ný gögn eða breyttar forsendur liggi til grundvallar varðar það gerðarbeiðanda ábyrgð, meðal annars í formi málskostnaðar eða eftir atvikum samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/1989. Hafi forsendur á hinn bóginn breyst, hvort sem er fyrir tilkomu nýrra gagna eða breyttra atvika, ber dómara að nýju að taka efnislega afstöðu til aðfararbeiðninnar þótt hún varði sakarefni sem áður hefur komið til umfjöllunar og getur aðför eftir atvikum þá verið hafnað.

63. Hér að framan hefur ítarlega verið fjallað um aðdraganda og rekstur fyrsta aðfararmálsins af þremur sem lauk með síðari úrskurði Landsréttar 3. júlí 2019 í máli nr. 321/2019. Á það verður fallist með gagnáfrýjanda að ríkir hagsmunir hans hafi staðið til að fá sem fyrst létt af farþegaþotunni TF-GPA þeim hömlum á brottför sem hún sætti. Í því ljósi verður að meta kröfugerð hans í kærumálinu til Landsréttar þegar aðaláfrýjandi kærði úrskurð Héraðsdóms Reykjaness 2. maí 2019. Ákvörðun hans um að greiða sérstaklega það sem hann taldi vera áfallin gjöld vegna þeirrar þotu einnar og kæra ekki úrskurðinn fyrir sitt leyti sýnist hafa tekið mið af því að forsendur úrskurðar héraðsdóms stæðust og stöðvun þotunnar á Keflavíkurflugvelli yrði í framhaldinu aflétt. Eftir það tímamark gekk hins vegar úrskurður Landsréttar 24. maí 2019 þar sem fallist var á málatilbúnað aðaláfrýjanda þess efnis að stöðva hefði mátt loftfarið vegna allrar umræddrar skuldar WOW air hf. við aðaláfrýjanda. Aðstæður breyttust svo enn þegar Hæstiréttur með dómi 27. júní 2019 ómerkti þann úrskurð Landsréttar. Var það gert á þeim forsendum að Landsrétti hefði, eins og kröfugerð var háttað, borið að staðfesta niðurstöðu úrskurðar héraðsdóms um að hafna innsetningu í loftfarið TF-GPA án þess að taka á nokkurn hátt afstöðu til röksemda fyrir henni þar sem gagnáfrýjandi hafði í málinu aðeins uppi kröfu um staðfestingu úrskurðarins. Endurspeglast sú réttarstaða sem þá var uppi í þeim forsendum Landsréttar í síðari úrskurði hans 3. júlí 2019 að eins og málið lægi fyrir Landsrétti yrði úrskurður héraðsdóms staðfestur með vísan til 1. mgr. 98. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991, og engin afstaða tekin til þess hvort forsendur hins kærða úrskurðar um önnur atriði en lytu að niðurstöðu hans stæðust. Yrði því hvorki tekin afstaða til þess hvort aðaláfrýjandi ætti kröfu á hendur gagnáfrýjanda um greiðslu þeirra gjalda sem WOW air hf. hefði stofnað til né þess hvaða gjöld varnaraðili þyrfti að greiða eða setja tryggingu fyrir til að létt yrði af þotunni þvingunarúrræði 1. mgr. 136. gr. eldri laga um loftferðir nr. 60/1998.

64. Við þessar aðstæður, að gengnum dómi Hæstaréttar, krafðist gagnáfrýjandi innsetningar í þotuna í þriðja sinn. Var honum það heimilt enda aðstæður aðrar en við rekstur fyrri aðfararmála. Gagnáfrýjandi hafði þá greitt þann hluta kröfunnar sem héraðsdómur hafði í úrskurði sínum í fyrsta málinu talið að honum bæri að greiða til þess að fá stöðvun aflétt. Vegna þeirra réttarfarslegu hindrana sem komið höfðu upp við kæru fyrsta aðfararmálsins til Landsréttar hafði ekki verið úr því leyst hvort sú niðurstaða stæðist. Gat ómerktur úrskurður Landsréttar enga þýðingu haft við úrlausn þar um, hvorki að formi né efni.

65. Af framangreindu leiðir að með engu móti verður fallist á það með aðaláfrýjanda að gagnáfrýjandi hafi með því hvernig hann hagaði kröfugerð og málatilbúnaði í fyrsta aðfararmálinu ráðstafað sakarefni málsins með bindandi hætti með þeim réttaráhrifum að þegar af þeirri ástæðu hafi borið að hafna aðför á grundvelli þriðju aðfararbeiðni hans 1. júlí 2019.

Aðalsök

66. Að framangreindri niðurstöðu fenginni er næst til þess að líta að mismunandi skilningur aðila á 1. mgr. 136. gr. þágildandi laga um loftferðir nr. 60/1998 er grundvallarþáttur þeirra skaðabótakrafna sem gerðar eru bæði í aðalsök og gagnsök. Þarf því að taka afstöðu til þess hvert efnislegt inntak umræddrar lagaheimildar hafi verið.

67. Tilurð og þróun heimildar til að stöðva brottför loftfars í löggjöf um loftferðir er ítarlega reifuð hér fyrr í dóminum. Til áréttingar er bent á að þegar til þess kom í marsmánuði 2019 að aðaláfrýjandi beitti heimildinni til þess að aftra för þotunnar TF-GPA frá Keflavíkurflugvelli var texti 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 á þann veg að tilteknum aðilum, þar á meðal rekstraraðila flugvallar, væri heimilt að: „[...] aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu vegna þess loftfars sem í hlut á eða annarrar starfsemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfarsins“. Hafði þessi lögbundna heimild þá þróast á þann veg, sem fyrr er rakið, allt frá því að henni var fyrst skipaður staður í 149. gr. laga nr. 34/1964 um loftferðir og náði þá aðeins til „[...] eftirgjald eftir síðustu lendingu og notkun loftfarsins af vellinum er greitt eða trygging sett fyrir greiðslu þess.“

68. Við skýringu ákvæðisins vegast á öndverð sjónarmið aðaláfrýjanda og gagnáfrýjanda. Sá fyrrnefndi heldur því fram að orðalag þess hafi verið skýrt og afdráttarlaust og borið að skýra almennri textaskýringu á þann veg að heimildin til að stöðva loftfar hafi náð til allrar skuldar viðkomandi eiganda eða umráðanda loftfarsins við rekstraraðila flugvallar en ekki verið takmörkuð við þá skuld sem stofnað hefði verið til vegna viðkomandi loftfars. Jafnframt byggir aðaláfrýjandi á því að tilgangur ákvæðisins og forsaga þess, studd samanburðarskýringu við eldri ákvæði, styðji þá túlkun. Hefur hann þessum sjónarmiðum til stuðnings vísað til einstakra ákvæða leigusamnings gagnáfrýjanda og WOW air hf., 21. apríl 2016, sem beri ekki aðeins með sér vitneskju gagnáfrýjanda um þá réttarstöðu sem verið hefði fyrir hendi á grundvelli 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 heldur hafi einstök ákvæði samningsins falið í sér heimild til handa WOW air hf. til að veðsetja loftfarið fyrir skuldum við flugvallarrekanda.

69. Gagnáfrýjandi byggir hins vegar á því að orðalag ákvæðisins skeri alls ekki úr um inntak þess og þar sem það hafi verið opinbers eðlis og íþyngjandi hafi borið að túlka það þröngri lögskýringu og meta með hliðsjón af eignarréttarvernd stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Einnig staðfesti þær breytingar sem gerðar voru á umræddri heimild með 198. gr. gildandi laga um loftferðir nr. 80/2022 þá afstöðu löggjafans að eldra ákvæði 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 hefði ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar væru til skýrleika svo íþyngjandi heimildar. Skýrt með réttum hætti hefði ákvæðið ekki einu sinni náð til þess kostnaðar sem stofnað hafði verið til vegna TF-GPA og því hafi hann greitt þann hluta með fyrirvara 6. maí 2019.

70. Þegar litið er til þeirra breytinga sem urðu á orðalagi og framsetningu umræddrar heimildar, fyrst við gildistöku 136. gr. eldri laga um loftferðir nr. 60/1998 og síðan þeirrar breytingu sem varð á greininni með lögum nr. 21/2002, sem og þeirri fyrirætlan sem fram kemur í lögskýringargögnum og fyrr er getið, leikur ekki vafi á að með viðbótinni „annarrar starfsemi“ eiganda eða umráðanda var ætlunin sú að rýmka gildissvið ákvæðisins þannig að heimild til þess að aftra för yrði ekki bundin viðkomandi loftfari einu svo sem málum var háttað í öndverðu. Lagaheimildin fól þannig í sér sérstaka aðferð til greiðsluþvingunar sem hafði það að markmiði að knýja eiganda eða umráðanda loftfars til að greiða hvers kyns gjöld fyrir þjónustu sem stofnað hafði verið til gagnvart viðkomandi rekstaraðila flugvallar.

71. Á hinn bóginn er til þess að líta, einkum þegar beitt er samanburðarskýringu við 198. gr. gildandi laga nr. 80/2022 um loftferðir, að orðalag 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 í því horfi sem hún var þegar atvik máls þessa urðu var um margt ónákvæmt. Ekki var afmarkað eða tilgreint nánar, hvorki í greininni sjálfri né lögskýringargögnum, hvaða kostnaður nákvæmlega gæti legið til grundvallar því að heimildinni yrði beitt. Þannig var ekki vísað sérstaklega til þess kostnaðar sem rekstraraðili flugvallar stofnaði til á grundvelli 71. gr. laganna, öndvert við tilvísun 1. mgr. 198. gr. gildandi laga nr. 80/2022 til 195. gr. og 197. gr. þeirra um skilgreiningu þess kostnaðar sem grundvelli þess að beita heimildinni. Þá höfðu lögin ekki að geyma neina afmörkun í tíma á því til hvaða skulda mætti líta svo að þær gætu orðið grundvöllur þess að för loftfars yrði aftrað, sbr. nú b-lið 1. mgr. 198. gr. laga nr. 80/2022.

72. Jafnframt er þess að gæta að milli aðaláfrýjanda og gagnáfrýjanda var ekki kröfuréttarsamband af neinum toga vegna þeirra gjalda sem deilt er um í málinu og WOW air hf. hafði stofnað til. Hvorki í 136. gr. né annars staðar í eldri lögum um loftferðir nr. 60/1998, eins og þau hljóðuðu þegar atvik máls þessa urðu, var að finna beina heimild til fullnustu krafna sem lágu til grundvallar réttinum til að aftra för loftfars. Varð því að sækja aðfararheimild gagnvart skuldara með hefðbundnum hætti í dómsmáli. Í tilviki þriðja manns, sem ekki var jafnframt skuldari, svo sem raunin var í þessu máli, sýnist slík bein fullnustuheimild hafa komið til með lögum nr. 74/2019 þar sem kveðið var á um lögveðsrétt í 5. mgr. 71. gr. laga nr. 60/1998, meðal annars til handa rekstraraðila flugvallar vegna þeirra gjalda sem mælt var fyrir um í 1. mgr. 71. gr. laganna. Skyldu þau gjöld tryggð með lögveði í loftförum eða loftfarshlutum eiganda eða umráðanda loftfars sem skráð væri hér á landi. Öðlaðist umrædd heimild gildi 5. júlí 2019 þegar þriðja aðfararmálið var til meðferðar.

73. Aðaláfrýjandi hefur um grundvöll kröfu sinnar á hendur gagnáfrýjanda meðal annars byggt á því að réttindi hans hafi falist í flotaveði, réttindum sem svari til lögbundins haldsréttar eða í öllu falli handveðs.

74. Hvað svokallað flotaveð varðar er þess þá þegar að gæta að það nýtur ekki sérstakrar stöðu eða verndar að íslenskum rétti umfram það sem eftir atvikum leiðir af beitingu réttarins til að stöðva för loftfars á grundvelli loftferðalaga.

75. Haldsréttur og handveð eiga það sameiginlegt að vera óbein eignarréttindi og innan þess flokks teljast þau til tryggingarréttinda. Tilgangur slíkra réttinda er að tryggja að greiðsla fari fram, eftir atvikum þegar skuldari er kominn í greiðsluþrot, sbr. þær lögfylgjur sem þá eru fyrir hendi, meðal annars á grundvelli nauðungarsöluheimilda 3. og 6. töluliða 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Þá falla bæði þessi réttindi í flokk hlutaréttartrygginga sem vísar til þess að greiðsla sé tryggð með ákveðnu verðmæti.

76. Haldsréttur getur ýmist stofnast á grundvelli lagafyrirmæla eða löggernings. Í 136. gr. eldri laga um loftferðir nr. 60/1998 var ekki vísað til þess að umræddur réttur til að aftra för loftfars fæli í sér haldsrétt. Það eitt sker þó ekki úr um tilvist slíks réttar enda getur hann eftir sem áður byggst á ólögfestum reglum. Þá er ekki unnt að útiloka að hann stofnist í eign þriðja manns eins og hér háttar til en þá verða gerðar ríkari kröfur en ella. Á hinn bóginn er það hugtaksskilyrði haldsréttar að vörslumaður hlutar hafi heimild til þess að halda hlutnum í umráðum sínum uns greiðsla hefur verið innt af hendi. Hann verður því að fara með raunverulegar vörslur, sbr. dóm Hæstaréttar 20. ágúst 2004 í máli nr. 246/2004. Jafnframt hefur að meginstefnu til verið miðað við að haldsréttur tryggi aðeins þann kostnað sem stofnað hefur verið til vegna haldlagðs hlutar sérstaklega.

77. Hvað sem líður orðalagi dómkrafna gagnáfrýjanda í þeim aðfararmálum sem liggja máli þessu til grundvallar, sbr. og úrskurðarorð í héraði og Landsrétti þar sem vísað er til varslna aðaláfrýjanda á þotunni TF-GPA telst þvert á móti nægilega upplýst, meðal annars af því sem fram kom við flutning málsins fyrir Hæstarétti, að raunverulegar vörslur þotunnar að lögum voru áfram hjá gagnáfrýjanda. Þangað fluttust þær sannarlega við gjaldþrot WOW air hf., sbr. staðfestingu þar að lútandi í tölvupósti Samgöngustofu 12. apríl 2019. Heimild aðaláfrýjanda stóð til þess eins að koma í veg fyrir að þotunni yrði flogið á brott af Keflavíkurflugvelli en að öðru leyti fór gagnáfrýjandi með alla hefðbundna þætti varslna þotunnar, meðal annars aðgang að og umráð yfir henni. Enn fremur er ljóst að þær kröfur aðaláfrýjanda sem eftir stóðu þegar gagnáfrýjandi hafði innt fyrrnefnda greiðslu af hendi 6. maí 2019 höfðu stofnast vegna annarra loftfara og starfsemi en þeirrar sem tengdist þotunni TF-GPA. Að öllu þessu virtu er ekki fallist á það með aðaláfrýjanda að hann hafi notið haldsréttar í þotunni þegar aðfarargerðin fór fram.

78. Þá er hafnað þeirri málsástæðu aðaláfrýjanda að hann hafi öðlast handveð í þotunni. Hvorki samningur né lagaregla lá slíkri veðtöku til grundvallar. Með sama hætti og við á um haldsrétt er það jafnframt forsenda stofnunar handveðs að handveðþoli sé sviptur vörslum þess veðsetta og þær hafi flust til veðhafa, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 75/1997.

79. Til lögveðréttar var hins vegar, sem fyrr segir, ekki stofnað fyrr en með lögum nr. 74/2019, sbr. 5. mgr. 71. gr. laga nr. 60/1998. Sú heimild tók gildi 5. júlí 2019 en kemur ekki til álita þar sem á því hefur ekki verið byggt af aðaláfrýjanda hálfu að réttindi hans hafi verið tryggð að öllu leyti eða hluta á grundvelli þeirrar lögveðsheimildar.

80. Að öllu framangreindu virtu liggur fyrir að þau réttindi sem aðaláfrýjandi telur sig eiga á hendur gagnáfrýjanda voru hvorki tryggingarréttindi né nutu stöðu annarra óbeinna eignarréttinda í þotunni. Eftir orðskýringu 1. mgr. 136. gr. eldri laga um loftferðir nr. 60/1998 naut aðaláfrýjandi þó allt að einu ótímabundins réttar til að stöðva för þotunnar frá Keflavík en án þess að eiga að lögum möguleika á því að fullnusta á þeim grunni gagnvart gagnáfrýjanda kröfur sínar á hendur WOW air hf.

81. Með hliðsjón af forsögu heimildarinnar í 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998, svo og þess hluta 1. málsliðar málsgreinarinnar sem laut að því að heimilt væri að aftra för loftfars uns gjöld væru greidd eða trygging fyrir þeim sett „vegna þess loftfars sem í hlut á“, er niðurstaðan sú að aðaláfrýjanda hafi verið heimilt að beita þeirri lögheimiluðu greiðsluþvingun sem lagagreinin mælti fyrir um til þess að knýja á um greiðslu þeirrar kröfu sinnar sem hann átti á hendur WOW air hf. Svo sem fram hefur komið innti gagnáfrýjandi slíka greiðslu af hendi með fyrirvara 6. maí 2019 og byggði á því að hún fæli í sér uppgjör gjalda vegna þotunnar TF-GPA. Aðaláfrýjandi hefur mótmælt því að um fullnaðaruppgjör þeirra gjalda sé að ræða en ekki brugðist við með framlagningu haldbærra gagna eða útreikninga sem sýna fram á annað. Er rétt að hann beri hallann af því aðgerðarleysi og verður lagt til grundvallar að með greiðslunni 6. maí 2019 hafi farið fram fullnaðaruppgjör gjalda og kostnaðar sem stofnað hafði verið til vegna umræddrar þotu.

82. Þá stendur eftir að taka afstöðu til þess hvort aðaláfrýjandi hafi í skjóli 1. mgr. 136. gr. eldri laga um loftferðir nr. 60/1998 notið frekari lögvarinna réttinda á hendur rekstraraðila eða eiganda loftfarsins sem skert hafi verið með ólögmætum hætti við aðförina í júlí 2019 þannig að varði bótaskyldu gagnáfrýjanda og stefnda.

83. Til þess er þá að líta eins og fyrr er rakið að sú viðbót við 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998 sem vísaði til „annarrar starfsemi hlutaðeigandi eiganda eða umráðanda loftfars“ var ónákvæm og ekki fyrirsjáanleg um það hvaða gjöld stöðvun loftfarsins væri ætlað að tryggja. Ríkar kröfur verða jafnan gerðar til lagaheimildar af þessu tagi er lúta að þeim aðstæðum þegar eigandi loftfars á ekki í kröfuréttarsambandi við rekstraraðila flugvallar og sá síðarnefndi getur ekki, svo sem fyrr greinir, fullnustað kröfuna gagnvart þeim fyrrnefnda. Þær aðstæður hefðu þannig getað skapast, svo að dæmi sé tekið, að gagnáfrýjandi hefði ekki greitt gjaldfallna skuld WOW air hf. og aðaláfrýjandi sem mótleik við því hamlað brottför þotunnar um ófyrirséða tíð. Slík skerðing eignarráða gagnvart þriðja manni vegna skulda sem ekki tengjast viðkomandi loftfari fær ekki samrýmst 72. gr. stjórnarskrárinnar. Eftir að gagnáfrýjandi innti af hendi fyrrnefnda greiðslu 6. maí 2019 gat aðaláfrýjandi því ekki sótt frekari heimild í þágildandi 136. gr. laga nr. 60/1998 til að hamla áfram för farþegaþotunnar TF-GPA frá Keflavíkurflugvelli. Kemur því hvorki til frekari álita í málinu bótaábyrgð á hendur gagnáfrýjanda á grundvelli 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/1989 né stefnda á grundvelli sakarreglunnar. Verða þeir báðir sýknaðir af kröfum í aðalsök.

Gagnsök

84. Í gagnsök byggir gagnáfrýjandi á því að sú framganga aðaláfrýjanda að meina þotunni TF-GPA brottför frá Keflavíkurflugvelli hafi verið ólögmæt og saknæm. Hún hafi valdið sér tjóni sem felist í útlögðum kostnaði og töpuðum leigutekjum af þotunni á tímabilinu frá því stöðvunarheimild 1. mgr. 136. gr. eldri laga um loftferðir nr. 60/1998 var beitt aðfaranótt 28. mars 2019 þar til vélinni var flogið á brott 18. júlí 2019. Aðaláfrýjandi hafi meðvitað leyft WOW air hf. að safna skuldum til lengri tíma. Samkomulag félagsins og aðaláfrýjanda, gert að undirlagi þess síðarnefnda, um að ein ótilgreind farþegaþota yrði ætíð tiltæk á Keflavíkurflugvelli, hafi verið gert án sinnar vitundar og það hafi falið í sér töku trygginga í eignum þriðja manns án heimildar og lagastoðar. Sú háttsemi hafi auk annars falið í sér ólögmæta ríkisaðstoð til WOW air hf. og brot á samkeppnislögum.

85. Hér fyrr hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að fullnægjandi lagaheimild, sbr. 1. mgr. 136. gr. laga nr. 60/1998, stóð til þess að stöðva för loftfarsins TF-GPA fram til 6. maí 2019 þegar gagnáfrýjandi greiddi kostnað vegna þeirrar þotu. Lengur gat stöðvunarréttur aðaláfrýjanda hins vegar ekki varað. Áframhaldandi stöðvun á för þotunnar á Keflavíkurflugvelli fram til 17. júlí um sumarið brast því lögmæti.

86. Dómkröfur gagnáfrýjanda byggja að öllu leyti á sakarreglunni. Hvað sem líður framangreindri niðurstöðu um ólögmæti þeirra aðgerða aðaláfrýjanda, að aftra för þotu gagnáfrýjanda eftir 6. maí 2019, verður gagnáfrýjandi eftir sem áður að sýna fram á að starfsmenn aðaláfrýjanda hafi við umræddar athafnir með gáleysi eða af ásetningi sýnt af sér saknæma háttsemi.

87. Vanreifað er af gagnáfrýjanda hálfu hvaða þýðingu staðhæfingar hans um ólögmæta ríkisaðstoð og brot á samkeppnislögum geti haft við mat á skilyrðum sakarreglunnar í lögskiptum hans og aðaláfrýjanda. Á hinn bóginn samdi aðaláfrýjandi við WOW air hf., sbr. greiðsluáætlun 21. nóvember 2018, um greiðslutilhögun vegna „vanskila á notendagjöldum“. Um var að ræða ógreiddan kostnað frá sumrinu 2018 sem á grundvelli áætlunarinnar var ráðgert að WOW air hf. greiddi með nánar tilgreindum hætti á árinu eftir dagsetningu áætlunarinnar. Samhliða þessu gaf forstjóri WOW air hf. út yfirlýsingu þess efnis að félagið myndi tryggja að minnsta kosti að ein flugvél „á flugrekstrarleyfi félagsins“ yrði á hverjum tíma til staðar á Keflavíkurflugvelli eða á leið þangað. Þá sagði í yfirlýsingunni að WOW air hf. væri óheimilt að „breyta eða grípa til sérstakra ráðstafana“ til að raska möguleikum aðaláfrýjanda „til að grípa til stöðvunarheimilda“ vegna greiðslufalls eða vanefnda. Á þetta reyndi síðan við gjaldþrot WOW air hf. þegar aðaláfrýjandi beitti heimild 1. mgr. 136. gr. eldri laga um loftferðir nr. 60/1998 til að aftra för umræddrar þotu gagnáfrýjanda frá Keflavíkurflugvelli aðfaranótt 28. mars 2019.

88. Ekki er sýnt fram á annað en að aðaláfrýjanda hafi verið heimilt að semja við WOW air ehf. um svigrúm til greiðslu gjaldfallinna krafna með þeim hætti sem gert var og hvorki farið með því á svig við fyrirmæli gjaldskrár, sbr. 3. mgr. 71. gr. laga nr. 60/1998, né þjónustuskilmála. Heimild aðaláfrýjanda gat hins vegar ekki staðið til að semja um að eign þriðja manns stæði sem trygging fyrir greiðslu umrædds kostnaðar en sú varð raunin með þeirri fyrirætlan að ein vél á flugrekstrarleyfi félagsins skyldi ávallt vera til reiðu á Keflavíkurflugvelli sem andlag stöðvunarréttar. Tilviljun ein réð því síðan að á umræddum tíma var þota gagnáfrýjanda TF-GPA stödd á flugvellinum og varð þá andlag beitingar stöðvunarréttarins. Hvað sem leið þeirri þekkingu sem gagnáfrýjandi hafði á því, sbr. einstök ákvæði leigusamnings gagnáfrýjanda og WOW air hf., að mögulega gæti komið til stöðvunar loftfara hans á flugvöllum vegna skulda sem leigutaki stofnaði til við rekstraraðila þeirra, fólst ekki í því bein vitneskja, hvað þá samþykki fyrir ráðstöfun af þessu tagi. Um hana var hann heldur ekki upplýstur fyrr en eftir að bú WOW air hf. var tekið til gjaldþrotaskipta og stöðvunarheimild hafði þegar verið beitt. Af niðurstöðum í aðalsök leiðir að stöðvunarheimild umræddrar 136. gr. laga nr. 60/1998 náði aðeins til þeirra gjalda sem stofnað hafði verið sérstaklega til vegna viðkomandi loftfars, sbr. greiðslu þá sem gagnáfrýjandi innti af hendi 6. maí 2019. Samkomulag það sem aðaláfrýjandi byggði aðgerðir sínar á var því ekki lögmætt og þess utan verður það virt honum til sakar að standa að málum með þessum hætti og knýja þannig á um greiðslu á öllum gjaldföllnum kröfum sínum á hendur WOW air hf. án þess að til grundvallar lægi gildur löggerningur eða lagaheimild. Á því tjóni sem af því leiddi ber aðaláfrýjandi ábyrgð á grundvelli reglunnar um vinnuveitandaábyrgð og ber því að bæta gagnáfrýjanda það tjón sem hann varð fyrir á tímabilinu frá 6. maí til 18. júlí 2019.

89. Með vísan til niðurstaðna í aðalsök er hafnað kröfu gagnáfrýjanda um bætur sem svari til þeirrar greiðslu sem hann innti af hendi 6. maí 2019 og tengdust sérstaklega loftfarinu TF-GPA. Þá verður með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms staðfest sú niðurstaða að hafna beri sérstakri kröfu gagnáfrýjanda um greiðslu lögmannskostnaðar en sá þáttur kemur til úrlausnar þegar dæmt er um málskostnað.

90. Gagnáfrýjandi krefst jafnframt greiðslu skaðabóta sem byggjast á reikningum vegna kostnaðar við að viðhalda flughæfisskírteini; kostnaði vegna geymslu þotunnar, viðhalds og prófana; ráðgjöf sérfræðings á sviði flugrekstrarmála og tapaðra leigutekna eftir 6. maí 2019. Aðaláfrýjandi mótmælir þeim kröfum og kveður ætlað tjón gagnáfrýjanda vanreifað og ósannað.

91. Umræddum kröfum er ætlað að ná annars vegar til kostnaðar vegna tiltekinna þátta sem gagnáfrýjandi fullyrðir að stofnast hafi á þeim tíma sem för þotunnar var aftrað frá Keflavíkurflugvelli og hins vegar til ætlaðra tapaðra leigutekna af þotunni á tímabilinu 1. apríl til 19. júlí 2019. Á þessari kröfugerð er í fyrsta lagi sá annmarki að ekki verður með glöggum hætti greint á milli þeirra töpuðu tekna og kostnaðar sem til féll fyrir og eftir 6. maí 2019 en að gættri niðurstöðu í aðalsök málsins kæmu slíkar kröfur fyrst til álita eftir það tímamark. Í öðru lagi er sönnunarfærsla gagnáfrýjanda þeim annmarka háð að einstakir reikningar svo og hreinar tekjur samkvæmt leigusamningi gefa takmarkaða mynd af ætluðu tjóni gagnáfrýjanda. Útilokað er á grundvelli þeirra reikninga sem gagnáfrýjandi hefur lagt fram að meta hvort um sé að ræða kostnað sem eingöngu er tilkominn vegna hinnar ólögmætu stöðvunar þotunnar á umræddu tímabili eða hvort hann hefði, að hluta eða öllu leyti, allt að einu fallið til. Þá er krafa um fjártjón vegna ætlaðs taps á leigutekjum sett fram án þess að gert sé ráð fyrir neinum frádrætti vegna þess kostnaðar sem verið hefði við notkun og eignarhald þotunnar á umræddum tíma. Er skaðabótakrafa gagnáfrýjanda að þessu virtu svo vanreifuð að á hana verður ekki lagður dómur. Henni verður því vísað af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.

92. Samandregið verður niðurstaða málsins á þá leið að gagnáfrýjandi og stefndi verða sýknaðir af kröfum aðaláfrýjanda í aðalsök málsins. Framangreindum kröfum í gagnsök verður vísað frá héraðsdómi en aðaláfrýjandi að öðru leyti sýknaður af kröfum gagnáfrýjanda.

93. Eftir úrslitum málsins en að gættri 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað á öllum dómstigum eins og greinir í dómsorði. Þá verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, ALC A321 7237, LLC, og stefndi, íslenska ríkið, eru sýkn af kröfum aðaláfrýjanda, Isavia ohf., í aðalsök.

Aðaláfrýjandi er í gagnsök sýkn af kröfu gagnáfrýjanda um greiðslu að fjárhæð 229.029 evrur og 55.457.390 krónur. Að öðru leyti er kröfum gagnáfrýjanda í gagnsök málsins vísað frá héraðsdómi.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 3.000.000 króna vegna reksturs málsins á öllum dómstigum.

Aðaláfrýjandi greiði stefnda 1.000.000 króna í málskostnað fyrir Hæstarétti.