Hæstiréttur íslands
Mál nr. 17/2023
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Umferðarslys
- Árslaun
- Viðmiðunartekjur
- Varanleg örorka
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. apríl 2023 og krefst sýknu af kröfum stefndu og málskostnaðar fyrir Landsrétti og Hæstarétti.
3. Stefnda krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hún þess að áfrýjanda verði gert að greiða sér 8.046.736 krónur með 4,5% vöxtum frá 16. september 2014 til 10. ágúst 2020, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, að frádregnum innborgunum 5. júlí 2016 að fjárhæð 706.623 krónur, 20. sama mánaðar að fjárhæð 3.742.753 krónur og 20. júlí 2020 að fjárhæð 1.112.033 krónur. Þá krefst hún málskostnaðar á öllum dómstigum.
Ágreiningsefni
4. Aðilar deila um uppgjör bóta fyrir varanlega örorku stefndu vegna umferðarslyss sem hún varð fyrir árið 2014. Ágreiningur er um hvort við útreikning bóta skuli miða við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eða hvort meta skuli árslaun sérstaklega samkvæmt 2. mgr. sömu greinar.
5. Með héraðsdómi 25. október 2021 var fallist á að stefnda hefði sýnt fram á að aðstæður hennar væru óvenjulegar í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Hins vegar hefði hún ekki sýnt fram á að fyrir lægi annar réttari mælikvarði um viðmiðunartekjur hennar en sá sem fram kæmi í 3. mgr. og var áfrýjandi því sýknaður af kröfu hennar. Með hinum áfrýjaða dómi Landsréttar 27. janúar 2023 var fallist á kröfu stefndu um að við uppgjör bóta yrði farið eftir 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Aðstæður hennar teldust óvenjulegar og réttari mælikvarði á líklegar framtíðartekjur yrði sóttur í meðaltal heildarlauna starfsfólks við afgreiðslu- og sölustörf.
6. Áfrýjunarleyfi í málinu var veitt 14. apríl 2023, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2023-24, á þeirri forsendu að dómur í því gæti haft almennt gildi um ákvörðun viðmiðs árslauna þegar dæmdar eru bætur fyrir varanlega örorku.
Málsatvik
7. Stefnda lenti í umferðarslysi […] 2014 þegar fólksbifreið var ekið á bifreið sem hún ók. Hún var þá nýlega orðin 18 ára og barnshafandi. Í kjölfar slyssins fór stefnda á heilsugæslustöð í […] og til skoðunar á kvennadeild LSH. Vegna viðvarandi einkenna í hálsi, baki og herðum leitaði hún til heilsugæslulæknis í lok júní sama ár. Þegar slysið varð starfaði stefnda á kaffihúsi.
8. Stefnda var óvinnufær fyrstu mánuðina eftir slysið. Í […] 2014 ól hún barn og var í fæðingarorlofi fram í [...] 2015. Eftir það var hún atvinnulaus og þáði atvinnuleysisbætur þar til hún hóf störf á ný sem stuðningsfulltrúi í grunnskóla og flokkstjóri í vinnuskóla vorið 2016. Þeim störfum gegndi hún um tveggja ára skeið þar til hún hóf störf við flugvallarþjónustu í [...] árið 2018. Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi bar hún um að það starf hefði reynst henni ofviða vegna afleiðinga slyssins. Lét hún af störfum og fór á atvinnuleysisbætur í kjölfarið. Árið 2019 hóf hún störf hjá E og hóf einnig nám í […] þaðan sem hún lauk ígildi stúdentsprófs í janúar 2020. Hún stundar nú sálfræðinám á háskólastigi.
9. Vegna afleiðinga slyssins var aflað mats bæklunarskurðlæknis og lögmanns. Í matsgerð þeirra 4. júní 2016 var tekið fram að meta þyrfti ætlaða atvinnuþátttöku stefndu til framtíðar hefði hún ekki orðið fyrir líkamstjóni. Hún var 18 ára þegar slysið varð og hefði þá þegar stundað nám í tveimur framhaldsskólum. Hún hefði verið í fríi frá námi þegar slysið varð og þá starfað á kaffihúsi. Hugur hennar hefði staðið til þess að fara í flugþjónanám […]. Í matinu segir svo: „Matsmenn telja því ekkert hafa bent til annars en að hún hefði haft fulla atvinnuþátttöku út starfsævina hefði hún ekki lent í slysinu […] 2014. Vegna ungs aldurs hennar er hins vegar ekkert hægt að fullyrða eitthvað um hennar framtíðarstarfsvettvang.“ Matsmenn mátu varanlegan miska stefndu 8 stig og varanlega örorku 8%.
10. Með beiðni lögmanns stefndu 30. desember 2019 var óskað álits örorkunefndar á miskastigi og varanlegri örorku hennar. Í áliti nefndarinnar 3. júní 2020 kemur fram að stefnda hafi skýrt svo frá að hún hafi látið af því starfi sem hún gegndi á slysdegi vegna afleiðinga þess. Hún hafi síðar farið í fæðingarorlof, enn síðar unnið sem stuðningsfulltrúi og svo við flugvallarþjónustu á […] en hefði gefist upp á því starfi vegna afleiðinga slyssins. Þegar matið fór fram var hún í fullu starfi við umönnun. Hún hafi lokið stúdentsprófi, ekki tekið ákvörðun um háskólanám en horfði nokkuð til náms í sálfræði. Í álitinu segir svo: „Örorkunefnd telur að tjónþoli geti sinnt þeim störfum sem hún er nú við og þeim störfum sem leiða af frekari námi, en líkamlega erfiðum störfum geti hún ekki sinnt vegna afleiðinga slyssins.“ Varanlegur miski stefndu var metinn 10 stig en varanleg örorka 10% og tekið fram að stöðugleikapunkti hafi verið náð þremur mánuðum eftir slys.
11. Tjónið var gert upp við stefndu úr ábyrgðartryggingu ökutækis hjá áfrýjanda 20. júlí 2016 og er bótaskylda óumdeild. Við uppgjör var miðað við matsgerð 4. júní sama ár og greiðslan móttekin með fyrirvara meðal annars um árslaunaviðmið. Með greiðslu 17. júlí 2020 var gert upp við stefndu miðað við álit örorkunefndar 3. júní sama ár. Við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku var miðað við lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Í kvittun um móttöku bótanna kemur fram að um lokagreiðslu vegna tjónsins sé að ræða og að allar kröfur vegna málsins séu að fullu greiddar. Í fyrirvara lögmanns stefndu á kvittuninni segir meðal annars að tekið sé við bótum með fyrirvara um fjárhæð árslaunaviðmiðs.
Málsástæður
Helstu málsástæður áfrýjanda
12. Áfrýjandi vísar til þess að í 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga komi fram meginregla laganna um bætur fyrir varanlega örorku. Stefnda hafi þegar hún slasaðist verið ung og í námi samhliða tilfallandi störfum með hléum. Í matsgerð komi ítrekað fram að hún hafi hugað á frekara nám sem hún hefði fylgt eftir árið 2019. Hún hafi nú lokið ígildi stúdentsprófs og stundi sálfræðinám. Hvorugt skilyrða 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga sé fyrir hendi en fyrir þeim beri stefnda sönnunarbyrði. Hún hafi einungis verið í föstu starfi á kaffihúsi um skamma hríð áður en slysið varð og hefði því ekki endanlega hafið störf á almennum vinnumarkaði á slysdegi, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 28. september 2006 í máli nr. 26/2006 og 24. nóvember 2011 í máli nr. 136/2011.
13. Áfrýjandi telur að líta beri til þess hvort tjónþoli hafi haft frekari fyrirætlanir um nám eða hafi endanlega hætt námi. Á slysdegi hefði stefnda lokið nokkrum önnum í framhaldsskólum með hléum, verið skráð í nám á vorönn 2014 og stefnt á frekara nám. Hún hefði ekki sýnt fram á að annar mælikvarði væri réttari um líklegar framtíðartekjur hennar en sá sem fram kemur í 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Landsréttur hafi ranglega miðað við heildarlaun við afgreiðslu- og sölustörf en launatekjur stefndu árin 2017 til 2019 hefðu einungis verið 50 til 78% af launum þeirrar starfsstéttar. Þá beri gögn málsins ekki með sér að stefnda hafi þegið laun samkvæmt kjarasamningi verslunar- og afgreiðslufólks þau ár. Vísar hann meðal annars í þeim efnum til dóma Hæstaréttar 13. júní 2002 í máli nr. 51/2002, 13. febrúar 2003 í máli nr. 375/2002 og 10. mars 2004 í máli nr. 393/2003.
14. Þá mótmælir áfrýjandi þeim forsendum Landsréttar að í ljósi ungs aldurs stefndu á tjónsdegi stæðu líkur til að laun hennar myndu hækka með auknum starfsaldri. Borin séu saman meðallaun starfsstéttar 2014 við laun stefndu síðari ár og ekki tekið tillit til launaþróunar og hækkandi launavísitölu milli ára. Þá hafi ekki verið litið til þess að sérstakt aldursálag sé reiknað inn í margföldunarstuðul 6. gr. skaðabótalaga sem taki mið af því að laun fari hækkandi fram að ákveðnu aldursbili en stefnda hafi verið nálægt hæsta stuðli greinarinnar á slysdegi. Dómaframkvæmd leiði jafnframt til þeirrar niðurstöðu að þegar ungir tjónþolar eigi í hlut og bætur miðist við 2. mgr. 7. gr. laganna sé um að ræða samfellda atvinnuþátttöku skömmu fyrir eða eftir slys. Dómar Hæstaréttar sem um þetta fjalli eigi það sammerkt að þar hafi tjónþolar ekki hugað að frekara námi. Í engum þeirra dóma hafi tekjuviðmið verið sótt í laun þremur árum eftir slys. Um það vísar áfrýjandi meðal annars til dóma Hæstaréttar 10. mars 2005 í máli nr. 386/2004, 27. október 2011 í máli nr. 60/2011 og 20. desember 2011 í máli nr. 265/2011.
Helstu málsástæður stefndu
15. Stefnda byggir á því að fyrir hendi hafi verið óvenjulegar aðstæður og annar mælikvarði en lágmarkslaun samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga sé réttari á framtíðartekjur hennar. Því eigi að meta árslaun stefndu samkvæmt 2. mgr. greinarinnar. Tjón hennar vegna varanlegrar örorku verði ekki að fullu bætt með greiðslum samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laganna. Það sé í engu samræmi við stöðu hennar og líklegar framtíðartekjur á slysdegi. Launatekjur hennar síðustu þrjú almanaksár fyrir slysið gefi ekki rétta mynd af líklegum framtíðartekjum. Hún hafi verið hætt námi og búin að hasla sér slíkan völl á vinnumarkaði að skilyrði 2. mgr. 7. gr. um óvenjulegar aðstæður hefðu verið fyrir hendi. Hún hafi þá ekki hugað á frekara nám og einungis haft lausleg áform um námskeið sem hægt væri að sinna meðfram vinnu. Hún hafi verið í framhaldsskólanámi veturinn 2012 til 2013 og lokið samtals 16 námseiningum. Síðar hafi hún flosnað upp úr námi þar sem hún hefði þurft að vinna fyrir sér og verið á vinnumarkaði árin 2013 til 2019. Fyrst eftir fæðingu barns hennar hafi hún unnið önnur störf sem hún réð betur við meðan hún freistaði þess að ná sér nægilega af afleiðingum slyssins. Þegar ljóst varð að hún gæti ekki sinnt störfum við flugþjónustu vegna þeirra hefði hún snúið aftur í nám gagngert með það fyrir augum að takmarka tjón sitt.
16. Stefnda vísar til þess að fjölmörg dæmi séu um að fallist hafi verið á að óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi þegar í hlut eigi ungir tjónþolar með stutta tekjusögu, sbr. dóm Hæstaréttar 20. desember 2011 í máli nr. 265/2011. Mat á hvað gefi réttari mynd af líklegum framtíðartekjum tjónþola í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga byggist á stöðu og aðstæðum tjónþola á slysdegi. Á slysdegi hafi stefnda engin áform haft um annað en að halda áfram starfi sínu á kaffihúsinu en orðið óvinnufær fram að barnsburði. Að loknu fæðingarorlofi hafi hún verið atvinnulaus og tekið að því búnu að sér þau störf sem fyrst buðust þótt launin hafi verið lægri en í því starfi sem hún gegndi á slysdegi. Í þeim tilvikum þar sem horft hafi verið til launa eftir slys hafi það verið þegar tjónþolar héldu áfram í sama starfi með sambærilegar tekjur þrátt fyrir slys, sbr. fyrrgreinda dóma Hæstaréttar í máli nr. 26/2006 og í máli nr. 60/2011. Valdi slys breytingu á högum tjónþola að þessu leyti sé ekki unnt að horfa til atvinnuþátttöku eða tekna eftir slys.
17. Stefnda reisir aðalkröfu sína á að réttari mælikvarði á framtíðartekjur hennar séu meðallaun starfsfólks við afgreiðslu- og sölustörf. Hún hafi unnið á þeim vettvangi á slysdegi og framtíðaráform hennar verið að halda slíkum störfum áfram. Áfrýjandi hafi hins vegar ekki bent á nein sérstök atriði sem gæfu til kynna að tekjuöflunarhæfi stefndu til framtíðar væri svo skert af öðrum ástæðum en slysinu að líkur væru til annars en að hún hefði getað aflað meðallauna í þeirri starfsstétt sem hún tilheyrði á slysdegi sem sé meðal þeirra tekjulægstu á Íslandi. Varakrafan miði við að árslaun við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku verði hvað sem öðru líður ekki miðuð við lægri fjárhæð en þær launatekjur sem stefnda hafði sannarlega á slysdegi.
Niðurstaða
18. Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort ákvarða beri stefndu bætur vegna varanlegrar örorku eftir 2. eða 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Til að fallist verði á að 2. mgr. 7. gr. laganna eigi við þurfa tvö skilyrði að vera uppfyllt. Annars vegar að fyrir hendi séu óvenjulegar aðstæður og hins vegar að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur en sá sem fjallað er um í 3. mgr. greinarinnar. Sönnunarbyrði fyrir því að báðum skilyrðum sé mætt hvílir á stefndu, sbr. dóma Hæstaréttar 22. febrúar 2018 í málum nr. 70/2017 og 71/2017.
19. Þegar litið er til fyrra skilyrðisins verður fyrst og fremst horft til aðstæðna stefndu á slysdegi. Á þeim tíma var hún barnshafandi og bjó í leiguhúsnæði. Hún hafði lokið grunnskólanámi árið 2012 og 11 námseiningum í framhaldsskóla þá um haustið. Þótt hún væri skráð til náms vor- og haustönn 2013 og vorönn 2014 lauk hún einungis fimm námseiningum á vorönn 2013. Þá um haustið hóf hún störf við liðveislu hjá sveitarfélagi og sinnti því fram yfir áramót en í ársbyrjun 2014 var hún í hlutastarfi í blómaverslun. Í mars sama ár hóf hún störf á kaffihúsi og hafði gegnt því í þrjá mánuði þegar slysið varð. Áform hennar þá voru að fara í flugliðanám meðfram vinnu og stefndi hún á að hasla sér starfsvettvang í flugtengdri þjónustu.
20. Í matsgerð 4. júní 2016 kom fram að ekkert benti til annars en að stefnda gæti sinnt fullu starfi út starfsævina hefði hún ekki lent í slysinu. Vegna ungs aldurs væri þó ekkert hægt að fullyrða um framtíðarstarfsvettvang hennar. Þá sagði í áliti örorkunefndar 3. júní 2020 að stefnda gæti sinnt þeim störfum sem hún ynni þá við og þeim sem leiddu af frekara námi. Líkamlega erfiðum störfum gæti hún ekki sinnt vegna afleiðinga slyssins.
21. Stefnda hafði samkvæmt framansögðu hafið fulla þátttöku á vinnumarkaði á slysdegi og hafði ekki önnur áform um nám en þau sem hún gæti sinnt meðfram starfi. Verður fallist á að aðstæður hennar hafi verið óvenjulegar í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sbr. til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 386/2004 og dóm 9. október 2014 í máli nr. 149/2014. Þótt stefnda hafi síðar hafið nám, rúmum fimm árum eftir slysið, verður ekki talið það hafa verið til marks um að hún hafi stefnt á frekara nám á slysdegi eða verið í tímabundnu hléi frá því. Þvert á móti liggur ekkert annað fyrir en að afleiðingar slyssins hafi meðal annars leitt til þess að hún hóf nám að nýju þegar fullreynt var að sá starfsvettvangur sem hún hafði stefnt á reyndist henni ofviða.
22. Verður því næst að meta hvort annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur stefndu en sá sem fram kemur í 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga en sem fyrr segir hvílir sönnunarbyrði um það á stefndu. Í ljósi sjónarmiða um þýðingu framreiknaðs lágmarkslaunaviðmiðs 3. mgr. 7. gr. laganna með lánskjaravísitölu, sbr. 15. gr. þeirra, er tekið fram að í máli þessu er ekki til úrlausnar hvort tilvitnað ákvæði 3. mgr. 7. gr. tryggi tjónþolum almennt fullar bætur með tilliti til verðlagsþróunar frá árinu 1999 þegar fjárhæð lágmarksárslauna var ákveðin með gildistöku laga nr. 37/1999. Sú þróun hefur á hinn bóginn þau áhrif í máli þessu að minni kröfur eru gerðar til stefndu um sönnun þess að annar tekjugrundvöllur en sá sem um ræðir í 3. mgr. 7. gr. teljist réttari við mat á líklegum framtíðartekjum hennar.
23. Þegar litið er til stuttrar tekjusögu stefndu eru tekjur hennar þrjú síðustu ár fyrir slysið ekki tækur mælikvarði á líklegar framtíðartekjur enda var hún í skóla verulegan hluta þess tíma og með stopula atvinnuþátttöku. Þá hafa þau laun sem stefnda hafði í starfi sínu á slysdegi ekki úrslitaáhrif í þessu tilliti enda ólíklegt að þau endurspegli þær tekjur sem gera má ráð fyrir að hún hefði haft á starfsævi sinni. Þvert á móti er líklegt að laun hennar hefðu hækkað samhliða aukinni starfsreynslu og lengri starfsaldri. Þá verður heldur ekki miðað við tekjur hennar næstu ár eftir slysið enda hefði hún í hluta þess tíma verið í fæðingarorlofi og fengið atvinnuleysisbætur. Auk þess hefði hún ítrekað þurft að skipta um starfsvettvang vegna afleiðinga slyssins.
24. Túlkun þessa skilyrðis 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga ræðst því af framangreindum aðstæðum og stöðu stefndu á slysdegi. Þá var hún ung að árum og hafði ekki lagt grunn að sérstökum starfsréttindum. Hún hafði unnið ýmis störf, fyrst og fremst við þjónustu og verslun, og hafði engin áform um annað en að halda þeim áfram. Hún hafði því haslað sér þann völl á vinnumarkaði á tjónsdegi að telja verður að meðallaun starfsfólks við afgreiðslu- og sölustörf gefi réttari mynd af líklegum framtíðartekjum hennar í skilningi 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Loks verður ekki fallist á með áfrýjanda að lagastoð sé fyrir því að við ákvörðun árslauna samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga verði tekið tillit til áhrifa aldurs í stuðli samkvæmt 6. gr. laganna, sbr. dóm Hæstaréttar 16. október 2013 í máli nr. 110/2003 og fyrrgreindan dóm í máli nr. 149/2014.
25. Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
26. Eftir úrslitum málsins verður áfrýjanda gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, TM Tryggingar hf., greiði stefndu, A, 900.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.