Hæstiréttur íslands
Mál nr. 12/2022
Lykilorð
- Kærumál
- Félagsdómur
- Dómstóll
- Frávísunarkröfu hafnað
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. febrúar 2022 sem barst réttinum degi síðar. Kærumálsgögn bárust réttinum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Félagsdóms 11. febrúar 2022 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um frávísun á kröfu varnaraðila þess efnis að viðurkennt yrði með dómi að uppsögn A hjá Icelandair ehf. 20. ágúst 2021 fæli í sér brot gegn 11. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og væri af þeim sökum ólögmæt. Kæruheimild er í 1. tölulið 1. mgr. 67. gr. laga nr. 80/1938.
3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að kröfunni verði vísað frá Félagsdómi. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.
4. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Málsatvik
5. Af gögnum málsins verður ráðið að A hafi verið starfsmaður Flugfélags Íslands ehf. frá nóvember 2016. Hún var kosin trúnaðarmaður starfsmanna hlaðdeildar félagsins í mars 2018 og tilnefnd sem trúnaðarmaður Eflingar stéttarfélags frá 16. mars 2018 til 16. mars 2020. Ágreiningslaust er að tilkynning þess efnis var send í samræmi við grein 13.1 í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Eflingar. Í febrúar 2020 mun Flugfélag Íslands ehf. hafa sent tilkynningu um skipan öryggisnefndar sinnar til Vinnueftirlitsins og átti A sæti í henni sem öryggistrúnaðarmaður. Icelandair ehf. tók yfir ráðningarsamning hennar á vormánuðum 2020 á grundvelli laga nr. 72/2002 um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Með bréfi 20. ágúst 2021 sagði Icelandair ehf. henni upp störfum frá og með 31. sama mánaðar.
6. Ágreiningur málsins lýtur meðal annars að því hvort A hafi haldið stöðu sinni sem öryggistrúnaðarmaður við sameiningu Flugfélags Íslands ehf. og Icelandair ehf.
7. Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að ágreiningur um stöðu öryggistrúnaðarmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum eða við uppsögn heyri ekki undir lögsögu Félagsdóms. Dómstóllinn sé sérdómstóll með afmarkaða lögsögu og verði hún ekki skýrð rúmt gagnvart lögsögu almennra dómstóla. Brot gegn lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum varði við lög nr. 88/2008 um meðferð sakamála og falli því utan lögsögu Félagsdóms. Þá gegni öryggistrúnaðarmenn og öryggisnefndir ekki hlutverki samkvæmt lögum nr. 80/1938. Jafnframt bendir sóknaraðili á að ekki heyri undir lögsögu Félagsdóms að túlka ákvæði laga nr. 72/2002.
8. Af hálfu varnaraðila er á því byggt að með 9. gr. laga nr. 46/1980 hafi með skýrum hætti verið fellt undir lögsögu Félagsdóms að dæma um og meta hvort uppsögn öryggistrúnaðarmanns telst vera lögmæt eða í andstöðu við þá vernd sem mælt er fyrir um í 11. gr. laga nr. 80/1938, sbr. og 1. tölulið 1. mgr. 44. gr. sömu laga.
Niðurstaða
9. Í 11. gr. laga nr. 80/1938 segir að atvinnurekendum og umboðsmönnum þeirra sé óheimilt að segja trúnaðarmönnum upp vinnu vegna starfa þeirra sem trúnaðarmanna eða láta þá á nokkurn annan hátt gjalda þess að stéttarfélag hefur falið þeim að gegna trúnaðarmannsstörfum fyrir sig. Þurfi atvinnurekandi að fækka við sig verkamönnum skuli trúnaðarmaður að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni.
10. Í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 46/1980 segir að öryggistrúnaðarmenn og fulltrúar starfsmanna í öryggisnefnd skuli njóta þeirrar verndar sem ákveðin er í 11. gr. laga nr. 80/1938, sem fjallar um réttindi trúnaðarmanna við uppsögn.
11. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 72/2002 skulu trúnaðarmenn starfsmanna halda stöðu sinni samkvæmt lögum og kjarasamningi eftir aðilaskipti haldi fyrirtæki eða hluti þess áfram sjálfstæði sínu en að öðrum kosti skulu starfsmenn eiga sér fulltrúa þar til nýr trúnaðarmaður hefur verið valinn. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar fer um réttarstöðu trúnaðarmanna samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og eftir atvikum kjarasamningum samtaka aðila vinnumarkaðarins.
12. Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 er meðal verkefna Félagsdóms að dæma í málum sem rísa út af kærum um brot á þeim lögum. Ætluð brot gegn 11. gr. laganna falla því þar undir.
13. Meginágreiningur aðila lýtur að því hvort A hafi notið þeirrar verndar sem 11. gr. laga nr. 80/1938 kveður á um til handa trúnaðarmönnum við uppsögn. Sá ágreiningur fellur ótvírætt undir lögsögu Félagsdóms, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 44. gr. laganna, þótt við úrlausn hans kunni að þurfa að skoða samspil ákvæða laga nr. 80/1938, nr. 72/2002 og nr. 46/1980 sem lúta að trúnaðarmönnum og öryggistrúnaðarmönnum.
14. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
15. Það athugast að hinn kærði úrskurður tekur einungis til frávísunarkröfu sóknaraðila og dómkröfur hans fyrir Hæstarétti lúta að endurskoðun þeirrar niðurstöðu úrskurðarins að hafna beri frávísun krafna hans. Þegar af þeirri ástæðu kemur ekki til skoðunar hér fyrir dómi málatilbúnaður sóknaraðila er lýtur að kröfu varnaraðila um sekt er sóknaraðila verði gert að greiða í ríkissjóð.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Samtök atvinnulífsins f.h. Samtaka ferðaþjónustunnar vegna Icelandair ehf., greiði varnaraðila, Alþýðusambandi Íslands f.h. Starfsgreinasambands Íslands vegna Eflingar stéttarfélags, f.h. A, 500.000 krónur í kærumálskostnað.