Hæstiréttur íslands

Mál nr. 14/2024

Jón Hilmar Karlsson (Ólafur Eiríksson lögmaður)
gegn
Þrotabúi Karls Emils Wernerssonar (Árni Ármann Árnason lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara
  • Vanhæfi
  • Meðdómsmaður

Reifun

Staðfestur var úrskurður Landsréttar þar sem hafnað var kröfu um að landsréttardómari viki sæti í málinu. Þá voru ekki efni til að ómerkja úrskurð Landsréttar án kröfu vegna þess að allir dómarar málsins kváðu upp hinn kærða úrskurð þar með talinn sérfróður meðdómsmaður, enda bæri fyrir Landsrétti öllum dómurum máls að ráða til lykta atriðum um rekstur þess sem sæti kæru til Hæstaréttar.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. mars 2024 en kærumálsgögn bárust réttinum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 26. febrúar 2024 í máli nr. 731/2022 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að landsréttardómarinn Símon Sigvaldason viki sæti í málinu. Kæruheimild er í b-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að nefndur landsréttardómari víki sæti í málinu. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila.

4. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

5. Fyrir Hæstarétti gerir sóknaraðili athugasemdir við að allir þrír dómarar málsins í Landsrétti hafi kveðið upp hinn kæra úrskurð, þar með talinn sérfróður meðdómsmaður. Telur sóknaraðili þetta fara í bága við 2. mgr. 6. gr. laga nr. 91/1991 þar sem segir að dómari kveði sjálfur upp úrskurð um kröfu aðila um að hann víki sæti. Hvað varðar meðdómsmanninn vísar sóknaraðili til 3. mgr. 4. gr. laganna en samkvæmt því séu ekki lagaskilyrði til að meðdómsmaður kveði upp úrskurði um annað en frávísun máls.

6. Um meðferð áfrýjunarmála fyrir Landsrétti fer eftir XXV. kafla laga nr. 91/1991. Að öðru leyti en þar er rakið gilda reglur laganna um meðferð mála í héraði eftir því sem við getur átt, sbr. 166. gr. þeirra. Þau ákvæði laganna sem sóknaraðili hefur vísað til um málsmeðferð vegna kröfu um að dómari víki sæti taka mið af málsmeðferð í héraði og að þar skipar einn dómari að jafnaði dóm í máli. Landsréttur er hins vegar fjölskipaður dómur og því eiga þessi ákvæði ekki við um málsmeðferð þar vegna kröfu um að dómari víki sæti. Í Landsrétti ber öllum dómurum máls, þar með töldum sérfróðum meðdómsmanni, að ráða til lykta atriðum um rekstur máls sem sæta kæru til Hæstaréttar, svo sem ráðið verður af 3. mgr. 160. gr. og 1. mgr. 164. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt þessu eru ekki efni til að ómerkja úrskurð Landsréttar án kröfu vegna þess að allir dómarar málsins kváðu upp hinn kærða úrskurð, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 21. mars 2024 í máli nr. 13/2024 og 26. mars 2019 í máli nr. 14/2019.

7. Í hinum kærða úrskurði eru rakin þau atriði sem sóknaraðili telur leiða til að fyrrgreindur dómari sé vanhæfur til að fara með málið. Þau eru öðrum þræði reist á því að tilgreind tengsl systursonar dómarans við sóknaraðila valdi því að hugsanlega muni dómarinn, jafnvel ómeðvitað, dæma sóknaraðila í óhag til að fyrirbyggja að niðurstaða honum í hag sæti gagnrýni með vísan til þessara fjölskyldutengsla. Telja verður að þessi aðstaða sé svo fjarlæg í máli þessu að hún verði ekki með réttu talin hafa áhrif á dómarann.

8. Þegar litið er til þeirra atriða sem sóknaraðili teflir fram til stuðnings kröfu sinni, hvort sem þau eru metin hvert fyrir sig eða öll saman, verður fallist á með Landsrétti að þau geti ekki valdið því að efni séu til með réttu að draga í efa óhlutdrægni dómarans. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

9. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Jón Hilmar Karlsson, greiði varnaraðila, þrotabúi Karls Emils Wernerssonar, 500.000 krónur í kærumálskostnað.