Hæstiréttur íslands
Mál nr. 37/2023
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísun
- Málskostnaður
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. júní 2023 sem barst réttinum sama dag en kærumálsgögn bárust 10. og 18. júlí sama ár. Kærður er dómur Landsréttar 16. júní 2023 í máli nr. 117/2022 þar sem málinu var að hluta vísað frá Landsrétti en að öðru leyti vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði dómur verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka kröfur hans til efnismeðferðar. Til vara krefst hann þess að hinn kærði dómur verði felldur úr gildi og málinu „vísað heim í hérað til nýrrar málsmeðferðar“. Jafnframt krefst sóknaraðili þess að hinn kærði dómur verði felldur úr gildi og Landsrétti gert að taka málið til efnismeðferðar, eftir að hafa fyrst heimilað sóknaraðila að leiða nánar tilgreind vitni fyrir Landsrétt ásamt því að dómkvaddur verði matsmaður eftir beiðni sóknaraðila. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila vegna flutnings málsins í héraði og fyrir Landsrétti auk kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann þess að málskostnaður á öllum dómstigum verði felldur niður.
4. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða dóms og kærumálskostnaðar.
5. Sóknaraðili hefur óskað eftir því við Hæstarétt að málinu verði frestað þar til tekin hefur verið afstaða til beiðni hans um skýrslutökur af vitnum og um dómkvaðningu matsmanns. Engin efni eru til að verða við þeirri beiðni. Að þessu gættu og með vísan til forsendna hins kærða dóms verður hann staðfestur.
6. Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði dómur er staðfestur.
Sóknaraðili, Hýsir ehf., greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 500.000 krónur í kærumálskostnað fyrir Hæstarétti.