Hæstiréttur íslands

Mál nr. 44/2024

Adomat & Heidenblut M 1 ehf. (Svanhvít Axelsdóttir lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Soffía Jónsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Kærufrestur
  • Frávísun
  • Frávísun frá Landsrétti staðfest
  • Kærumálskostnaður

Reifun

Staðfestur var dómur Landsréttar um að vísa máli A gegn Í frá Landsrétti þar sem dómi héraðsdóms hafði ekki verið áfrýjað innan áfrýjunarfrests og dráttur ekki nægilega réttlættur, sbr. 2. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Skúli Magnússon.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. október 2024 en kærumálsgögn bárust réttinum 18. sama mánaðar. Kærður er dómur Landsréttar 3. sama mánaðar þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá Landsrétti en málskostnaður felldur niður. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði dómur verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Þá er krafist kærumálskostnaðar.

4. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða dóms auk kærumálskostnaðar.

5. Aðilar máls hafa ekki forræði á því hvort skilyrðum til áfrýjunar er fullnægt samkvæmt 5. mgr. 124. gr., sbr. 6. mgr. sömu greinar og 2. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991, heldur er um að ræða atriði sem dómara ber að gæta af sjálfsdáðum og varðar sjálfkrafa frávísun.

6. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins kærða dóms verður niðurstaða hans um frávísun málsins frá Landsrétti staðfest svo og ákvæði hans um málskostnað.

7. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði dómur er staðfestur.

Sóknaraðili, Adomat & Heidenblut M 1 ehf., greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 300.000 krónur í kærumálskostnað.