Hæstiréttur íslands

Mál nr. 19/2022

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra (Eyþór Þorbergsson fulltrúi)
gegn
X (Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Rannsókn
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti

Reifun

X kærði úrskurð Landsréttar þar sem máli hans á hendur L var vísað frá héraðsdómi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að kæruheimild í a-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hefði verið skýrð svo að hún tæki almennt aðeins til endanlegra úrskurða um frávísun mála sem höfðuð hefðu verið með ákæru en ekki til úrskurða Landsréttar um frávísun kæru vegna rannsóknarúrskurða eða úrskurða um réttarfarsatriði. Sömu rök ættu við um kæruheimild í þessu máli og þeim málum enda væri sú aðkoma dómstóla að rannsókn sakamála sem fælist í heimild 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 af sama toga og aðkoma þeirra að öðrum rannsóknarathöfnum sem þeim væri falið úrskurðarvald um samkvæmt lögunum. Var því talið að X hefði brostið heimild til að kæra úrskurð Landsréttar og var málinu vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. mars 2022 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 16. mars 2022 í máli nr. 113/2022 þar sem máli varnaraðila á hendur sóknaraðila var vísað frá héraðsdómi. Um kæruheimild vísar varnaraðili til a-liðar 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

3. Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

4. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar.

5. Varnaraðili telur kæruheimild a-liðar 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 vera skýra og afdráttarlausa og taki til dómsúrlausna Landsréttar um frávísun frá héraðsdómi eins og í þessu máli. Varnaraðili telur þær kröfur sem gerðar eru til aðgangs að dómstólum og réttlátrar málsmeðferðar í 60. og 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu mæla gegn þeirri þröngu túlkun á kæruheimildinni sem beitt hafi verið í dómum Hæstaréttar 15. janúar 2021 í máli nr. 1/2021 og 9. febrúar sama ár í máli nr. 6/2021. Jafnframt mæli 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmálans gegn því að beitt sé þrengjandi túlkun á kæruheimildinni þar sem réttaröryggi og möguleikar borgaranna til að bera lögmæti inngripa stjórnvalda í tjáningarfrelsi þeirra undir dómstóla sé einn þáttur í vernd þess. Slík sjónarmið hafi aukið vægi í þessu máli þar sem reyni á inngrip lögreglu í tjáningarfrelsi blaðamanns. Þá vísar varnaraðili til þess að í 13. gr. mannréttindasáttmálans felist réttur hans til raunhæfs réttarúrræðis til að tryggja fyrrnefnd réttindi.

6. Með þeim breytingum sem gerðar voru á dómstólaskipan hér á landi með lögum nr. 50/2016 um dómstóla og lögum nr. 49/2016 um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála var komið á þriggja þrepa dómskerfi. Með því breyttist eðli Hæstaréttar í að vera fyrst og fremst fordæmisgefandi dómstóll. Til þess að rétturinn gæti sinnt því hlutverki sínu voru heimildir til að kæra dómsúrlausnir Landsréttar hafðar mjög þröngar. Um það sagði svo í athugasemdum við a-lið 68. gr. (211. gr. laga nr. 88/2008) í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 49/2016:

7. Með umræddum lagabreytingum var Landsrétti fengið það hlutverk sem Hæstiréttur hafði áður að eiga endanlegt úrskurðarvald um þær þvingunarráðstafanir, rannsóknaraðgerðir og aðrar rannsóknarathafnir lögreglu sem dómstólum er samkvæmt lögum nr. 88/2008 falið úrskurðarvald um en þær geta meðal annars falið í sér frelsisskerðingu og önnur inngrip í mikilvæg mannréttindi.

8. Sú dómsúrlausn sem kæra varnaraðila lýtur að er úrskurður Landsréttar um að vísa frá héraðsdómi kröfu hans, sem borin var undir héraðsdóm með vísan til 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008. Krafan tók til þess að fyrirhuguð skýrslutaka lögreglu af varnaraðila sem sakborningi væri ólögmæt og skyldi ekki fara fram. Varnaraðili hefur þegar fengið umfjöllun dómstóla á tveimur dómstigum um kröfu sína og því notið aðgengis að dómstólum með þeim hætti að fullnægt var kröfum 60. og 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. einnig 13. gr. sáttmálans um raunhæft úrræði til að leita réttar síns.

9. Hin kærða dómsúrlausn Landsréttar fól ekki í sér endanlegar lyktir sakamáls heldur þá niðurstöðu að vald dómstóla næði ekki til þess að kveða á þessu stigi rannsóknar sakamáls úr um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu eftir 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 og leggja efnislegt mat á atriði og gefa lögreglu á grundvelli efnislegra ástæðna fyrirmæli um framkvæmd rannsóknar. Frávísun kröfu varnaraðila frá héraðsdómi fól þannig í raun í sér höfnun kröfunnar þegar af þeirri ástæðu að úrlausn hennar ætti ekki undir úrskurðarvald dómstóla á þessu stigi máls.

10. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 er unnt að kæra til Hæstaréttar dómsathöfn Landsréttar um frávísun máls frá héraðsdómi. Þessi kæruheimild hefur verið skýrð svo í fyrrnefndum dómum Hæstaréttar í málum nr. 1/2021 og 6/2021 að hún taki almennt aðeins til endanlegra dómsúrlausna Landsréttar um frávísun mála sem höfðuð hafa verið með ákæru en ekki til dómsúrlausna Landsréttar um frávísun kæru vegna rannsóknarúrskurða eða úrskurða um réttarfarsatriði. Sömu rök eiga við um kæruheimild í þessu máli og þeim málum enda er sú aðkoma dómstóla að rannsókn sakamála sem felst í heimild 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 af sama toga og aðkoma þeirra að öðrum rannsóknarathöfnum sem þeim er falið úrskurðarvald um samkvæmt lögunum.

11. Samkvæmt framansögðu er ekki fyrir hendi heimild til að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar og verður málinu því vísað frá réttinum.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.