Hæstiréttur íslands
Mál nr. 40/2022
Lykilorð
- Hæfi dómara
- Vanhæfi
- Ómerking dóms Landsréttar
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 29. júní 2022. Þeir krefjast þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað aftur til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Til vara er krafist sýknu af öllum kröfum gagnáfrýjanda og til þrautavara lækkunar á dómkröfum hans. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar á öllum dómstigum.
3. Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu fyrir sitt leyti 20. september 2022. Hann krefst þess að aðaláfrýjendum verði óskipt gert að greiða sér 405.280.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. janúar 2017 til 13. nóvember 2018 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar á öllum dómstigum.
4. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið flutt 8. febrúar 2023 um formhlið þess.
Ágreiningsefni
5. Gagnáfrýjandi höfðaði mál þetta til greiðslu skaðabóta vegna ætlaðrar saknæmrar háttsemi aðaláfrýjenda við gerð sérfræðiskýrslu á grundvelli 6. gr., sbr. 37. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Skýrslan laut að verðmæti hlutafjár í tengslum við hlutafjárhækkun í Sameinuðu Sílikoni hf.
6. Með héraðsdómi 25. febrúar 2021 voru aðaláfrýjendur sýknaðir af kröfum gagnáfrýjanda. Með hinum áfrýjaða dómi 8. apríl 2022 var þeirri niðurstöðu hrundið og aðaláfrýjendum gert að greiða gagnáfrýjanda 114.280.000 krónur auk tilgreindra vaxta. Sérfróður meðdómandi í Landsrétti skilaði sératkvæði og vildi staðfesta hinn áfrýjaða dóm.
7. Áfrýjunarleyfi var veitt 29. júní 2022, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2022-68, á þeim grunni að dómur í því kynni að hafa fordæmisgildi um túlkun 6. gr. laga nr. 2/1995 og um sérfræðiábyrgð á sviði endurskoðunar. Í beiðni um áfrýjunarleyfi héldu leyfisbeiðendur því fram að einn dómara málsins í Landsrétti, Jóhannes Sigurðsson, hefði verið vanhæfur. Flutningur málsins fyrir Hæstarétti um formhlið þess laut að því.
Málsatvik
8. Á hluthafafundi Sameinaðs Sílikons hf. 3. nóvember 2016 var samþykkt að auka hlutafé í félaginu. Hollenska félaginu USI Holding B.V. var heimilað að skrá sig fyrir 405.280.000 hlutum gegn greiðslu á öllu hlutafé í einkahlutafélaginu Geysi Capital. Af þessu tilefni var gerður kaupsamningur 1. desember 2016 og áskriftarsamningur 6. sama mánaðar.
9. Aðaláfrýjendur unnu sérfræðiskýrslu, sem dagsett er 29. desember 2016, í tengslum við fyrrgreindar ráðstafanir sem meðal annars var reist á svonefndri ,,samantekt vegna skoðunar á virðismati Geysis Capital ehf.“ 10. október 2016 sem Guðjón Norðfjörð starfsmaður aðaláfrýjandans Ernst & Young ehf. gerði. Í skýrslunni kom fram að virði Geysis Capitals ehf. hefði verið metið af ráðgjafarsviði Ernst & Young ehf. á grundvelli leigusamnings um útleigu lóðar Geysis Capitals ehf. að Stakksbraut 9 í Reykjanesbæ að teknu tilliti til áætlaðs rekstrarkostnaðar, skatta og hæfilegrar ávöxtunarkröfu. Samkvæmt því væri heildarvirði félagsins metið á bilinu 4,7 til 5,2 milljónir evra. Miðað við gengi evru 6. desember 2016 væru það 437,6 til 495,8 milljónir króna að teknu tilliti til vaxtaberandi skulda. Væri því eðlilegt að meta og bókfæra allan eignarhlut í Geysi Capital ehf. að nafnverði 25.500.000 krónur á 405.280.000 krónur við fyrrnefnda hlutafjáraukningu. Verðmætin sem lægju þessu til grundvallar svöruðu því að minnsta kosti til þeirrar fjárhæðar sem hlutafjáraukningunni næmi.
10. Á stjórnarfundi Sameinaðs Sílikons hf. 20. nóvember 2017 var tekin endanleg ákvörðun um sameiningu félagsins og Geysis Capitals ehf. á grundvelli samrunaáætlunar 27. júní 2017. Samruninn var samþykktur af stjórnum beggja félaganna og tilkynning um hann birt í Lögbirtingablaði 25. ágúst 2017. Í samræmi við 128. gr. laga nr. 2/1995 var hlutafélagaskrá send tilkynning 20. nóvember 2017 um sameiningu og yfirtöku Sameinaðs Sílikons hf. á Geysi Capital ehf.
11. Bú Sameinaðs Sílikons hf. var tekið til gjaldþrotaskipta 22. janúar 2018. Í minnisblaði KPMG ehf. til skiptastjóra búsins 17. júlí 2018 um ,,skoðun á virðismati á Geysi Capital í tengslum við sérfræðiskýrslu um hlutafjárhækkun“ sagði að miðað við heildarvirðið 4,7 til 5,2 milljónir evra hefði virði eigin fjár í félaginu átt að nema 8 til 67 milljónum króna. Undir rekstri máls þessa í héraði öfluðu aðaláfrýjendur matsgerðar dómkvadds manns um verðmæti allra hluta Geysis Capitals ehf. 29. desember 2016. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að virði og eðlilegt kaupverð hlutafjár í Geysi Capital ehf. hefði á fyrrgreindu tímamarki numið 205 til 291 milljón króna.
12. Fyrir Landsrétti er nú jafnframt rekið mál gagnáfrýjanda á hendur aðaláfrýjendum nr. 457/2021 til greiðslu skaðabóta samtals að fjárhæð 672.975.000 krónur vegna tveggja hlutafjárhækkana í félaginu Stakksbraut 9 ehf. og samruna þess félags við Sameinað Sílikon hf. í september 2014. Í því máli kom fram krafa um að landsréttardómarinn Jóhannes Sigurðsson viki sæti þar sem hann væri vanhæfur til að fara með það af sömu ástæðum og byggt er á í máli þessu. Með úrskurði Landsréttar 19. maí 2022 var þeirri kröfu hafnað.
Málatilbúnaður aðila um formhlið máls
Röksemdir aðaláfrýjenda
13. Aðaláfrýjendur reisa kröfu sína um ómerkingu dóms Landsréttar á því að landsréttardómarinn Jóhannes Sigurðsson hafi með vísan til g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verið vanhæfur til að fara með málið. Dómarinn hafi á árunum 2006 til 2009 verið aðstoðarforstjóri Milestone ehf. Um stöðu hans innan félagsins vísa aðaláfrýjendur til skýrslu fyrrverandi eigenda félagsins sem gerð er grein fyrir í dómi Hæstaréttar 28. apríl 2016 í máli nr. 74/2015. Þar komi fram að Jóhannes hefði verið einn af þremur stjórnendum félagsins sem hefðu tekið allar stærri ákvarðanir þess ásamt eigendum.
14. Á vegum aðaláfrýjandans Ernst & Young ehf. hafi verið gerðar tvær skýrslur um Milestone ehf. Annars vegar skýrsla 1. september 2009 í tengslum við nauðasamningsumleitanir Milestone ehf. á fyrri hluta árs 2009 og hins vegar rannsóknarskýrsla 12. mars 2010 sem gerð var að beiðni skiptastjóra félagsins. Vinnu við skýrslurnar hafi verið stýrt af Guðjóni Norðfjörð starfsmanni Ernst & Young ehf. sem einnig hafi gert verðmat á Geysi Capital ehf. sem hafi verið meðal grundvallargagna málsins.
15. Í fyrrnefndri skýrslu aðaláfrýjandans Ernst & Young ehf. 1. september 2009 hafi verið bent á að viðskipti með eignir félagsins hafi átt sér stað í gegnum keðju félaga sem Milestone ehf. réð yfir og að eignirnar hefðu verið færðar úr félaginu án raunverulegs endurgjalds. Hafi umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum tekið undir það í skýrslu sinni til kröfuhafa félagsins.
16. Síðari skýrslan 12. mars 2010 hafi falið í sér ítarlega rannsókn á bókhaldi og fjárreiðum Milestone ehf. og tengdra félaga. Þar hafi verið bent á margvíslegar ráðstafanir sem hafi leitt til höfðunar riftunarmála og sakamáls gegn fyrrverandi samstarfsmönnum dómarans. Jafnframt hafi þar verið lýst ,,brotalömum í fjárreiðum Milestone ehf.“. Þá hafi jafnframt verið fundið að bréfi Jóhannesar til Fjármálaeftirlitsins í febrúar 2008 vegna fyrirspurnar þess um áhrif erfiðleika á hlutabréfamarkaði á fjárhag félagsins og ráðstafanir sem gripið hefði verið til. Til viðbótar hafi verið bent á að félag í eigu Jóhannesar Sigurðssonar hafi 4. júní 2007 fengið lán frá Milestone ehf., að því er virðist án trygginga, vegna kaupa annars félags í eigu hans á hlutabréfum í félaginu Askar Capital ehf. Lánið hafi svo verið fært yfir til enn annars félags í eigu hans í febrúar 2008. Skiptastjóri hafi sent tilkynningu til sérstaks saksóknara 20. desember 2010 meðal annars byggða á fyrrgreindri skýrslu þar sem fram hefði komið að hann hefði höfðað riftunar- og skaðabótamál meðal annars á hendur fyrrverandi stjórnendum og eigendum félagsins á grundvelli hennar.
17. Aðaláfrýjendur byggja á að ætla megi að dómarinn hafi haft réttarstöðu sakbornings við rannsókn lögreglu á málefnum Milestone ehf. Þá hafi hann þurft að þola húsleit vegna hennar. Þótt skýrsla aðaláfrýjandans Ernst & Young ehf. 12. mars 2010 hafi ekki leitt til ákæru á hendur Jóhannesi Sigurðssyni hafi hún hlotið að vera honum afar þungbær og valdið honum álitshnekki. Það sé ásökunin sem slík sem skipti máli um hæfi dómarans en ekki hvort skýrslan hafi í reynd haft afleiðingar fyrir hann. Atvik málsins og aðstæður séu því í heild til þess fallnar að draga megi óhlutdrægni dómarans í efa í skilningi g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991.
Röksemdir gagnáfrýjanda
18. Af hálfu gagnáfrýjanda er því haldið fram að málsástæða byggð á vanhæfi dómarans sé of seint fram komin, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Ljóst hafi verið fyrir flutning málsins í Landsrétti hvaða dómarar skipuðu dóminn og hefði aðaláfrýjendum borið þá þegar að tefla fram sjónarmiðum um ætlað vanhæfi dómarans.
19. Gagnáfrýjandi mótmælir því sem röngu að Jóhannes Sigurðsson hafi haft stöðu sakbornings við rannsókn embættis sérstaks saksóknara á málefnum Milestone ehf. Í bréfi skiptastjóra félagsins til aðaláfrýjenda 5. maí 2022 segi að ekkert þeirra atriða sem tilkynnt var til embættisins hafi lotið að mögulegri refsiverðri háttsemi hans sem fyrrverandi aðstoðarforstjóra félagsins. Þá hafi hann einungis haft stöðu vitnis við meðferð máls þess sem lauk með dómi Hæstaréttar í máli nr. 74/2015. Þau atvik sem vísað sé til af hálfu aðaláfrýjenda hafi auk þess átt sér stað fyrir um 13 árum og geti dómarinn ekki talist vanhæfur til að dæma í máli svo löngu eftir að þau atvik urðu sem valda eigi ætluðu vanhæfi.
20. Bent er á að dómarinn hafi tekið sæti í einkamálum sem skiptastjóri þrotabús Milestone ehf. hafi rekið sem lögmaður fyrir Landsrétti sem og sakamáli sem héraðssaksóknari hafi rekið þar. Því sé langsótt að telja dómarann vanhæfan til að dæma í máli aðaláfrýjenda og það styðji jafnframt dómaframkvæmd Hæstaréttar og Mannréttindadómstóls Evrópu. Skýrsla aðaláfrýjandans Ernst & Young ehf. 12. mars 2010 skipti engu í þessu sambandi enda hafi ákvarðanir um kærur og höfðun riftunarmála verið á borði skiptastjóra en ekki aðaláfrýjenda. Auk þess hafi skýrslan einungis verið eitt þeirra fylgigagna sem skiptastjóri sendi með tilkynningu til sérstaks saksóknara. Tíu mál hafi verið kærð til embættisins á grundvelli fyrrgreindrar skýrslu en einungis eitt þeirra leitt til refsidóms, sbr. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar í máli nr. 74/2015. Í þeim dómi komi jafnframt fram að það tiltekna mál hafi átt rætur sínar að rekja til kæru Fjármálaeftirlitsins 25. mars 2009 þótt þar komi fram að rannsóknin hafi jafnframt tekið mið af tilkynningu skiptastjóra í desember 2010. Þá hafi Milestone ehf. ekki verið ógjaldfært fyrr en eftir 7. október 2008 eins og fram komi í dómi Hæstaréttar 28. apríl 2016 í máli nr. 578/2015 öndvert við niðurstöðu fyrrgreindrar skýrslu aðaláfrýjandans Ernst & Young ehf. Engin dómsmál hafi verið rekin gegn dómaranum í kjölfar gjaldþrots Milestone ehf. og það ekki haft fjárhagslegar afleiðingar í för með sér fyrir hann. Engin atvik eða aðstæður séu því fyrir hendi að öðru leyti sem eru til þess fallnar að draga megi óhlutdrægni dómarans með réttu í efa, sbr. g-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1991.
Lagareglur um sérstakt hæfi dómara
21. Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, ber öllum réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur með réttlátri málsmeðferð fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að síðarnefndum lögum segir að skilyrðið um óhlutdrægan dómstól feli í sér áskilnað um að dómari í máli þurfi að vera hlutlaus og að aðilar njóti jafnræðis að því leyti en ákvæðið sæki fyrirmynd sína í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þar segir að þegar kveða skuli á um réttindi og skyldur manns að einkamálarétti skuli hann eiga rétt til réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli.
22. Fyrirmæli um sérstakt hæfi dómara til að fara með og dæma einkamál eru í 5. gr. laga nr. 91/1991. Þar er lýst nánar tilgreindum atvikum eða aðstæðum í liðum a til f. Þegar þeim liðum sleppir segir síðan í g-lið greinarinnar að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður sem fallnar eru til að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.
23. Þegar lagt er mat á hæfi dómara til að fara með mál er þess að gæta að tilgangur hæfisreglna að réttarfarslögum er ekki aðeins að koma í veg fyrir að dómari dæmi mál ef hann telst hlutdrægur gagnvart aðilum máls eða sakarefni, heldur jafnframt að tryggja traust bæði aðila máls og almennings til dómstóla með því að dómari standi ekki að úrlausn máls þegar réttmætur vafi gæti risið um óhlutdrægni hans. Í slíkum tilvikum er óhjákvæmilegt að dómari víki sæti í máli, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 9. desember 2020 í máli nr. 31/2020, 1. júní 2017 í máli nr. 90/2016 og 22. apríl 2015 í máli nr. 511/2014.
24. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur við úrlausn þess hvort dómari telst óvilhallur í skilningi 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans verið greint á milli athugunar er miðar að því að ganga úr skugga um hvaða viðhorf hafa ráðið hjá dómara í tilteknu máli (huglægur mælikvarði) og hvort fyrir hendi eru hlutlæg atriði sem gefa réttmætt tilefni til að draga í efa að dómari sé óvilhallur (hlutlægur mælikvarði). Um þetta má meðal annars vísa til dóma 23. apríl 2015 í máli nr. 29369/10, Morice gegn Frakklandi (sjá 73. til 78. lið dómsins) og 10. apríl 2003 í máli nr. 39731/98, Pétur Þór Sigurðsson gegn Íslandi (sjá 37. lið dómsins). Þessi viðmið hafa verið lögð til grundvallar íslenskri réttarframkvæmd eins og ráðið verður af fyrrgreindum dómum Hæstaréttar.
25. Í máli þessu reynir á mat á hæfi dómara samkvæmt fyrrnefndum g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Það mat ræðst af því hvort fyrir hendi eru atvik eða aðstæður sem fallnar eru til að draga óhlutdrægni dómara með réttu í efa þannig að traust til réttarins bíði hnekki. Meðal þeirra aðstæðna sem valdið geta þessu eru tengsl dómara og lögmanns sem gætir hagsmuna aðila, annarra sem gætu haft hagsmuna að gæta af máli eða afskipti dómara af sakarefni eða málsaðilum á fyrri stigum. Þá eru gerðar strangari kröfur við mat á óhlutdrægni dómara þegar um er að ræða tengsl hans við málsaðila eða þann sem á hagsmuna að gæta af máli, sbr. til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 31/2020. Hafa verið gerðar ríkari kröfur að þessu leyti á síðari áratugum og því hafa eldri úrlausnir minna vægi við það mat nú.
Niðurstaða
26. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 91/1991 gætir dómari að hæfi sínu af sjálfsdáðum og gildir sú regla á öllum dómstigum, sbr. 166. og 190. gr. laganna. Af því leiðir að dómara ber að víkja sæti ef hann er vanhæfur þótt málsaðili hafi ekki uppi kröfu um það. Í þessu ljósi ber að árétta að mat á hæfi dómara er ekki að öllu leyti háð gagnaframlagningu aðila máls enda standa til þess ríkir hagsmunir samkvæmt framansögðu að vanhæfur dómari dæmi ekki mál og getur hann að öllu jöfnu sjálfur upplýst um þau atvik sem aðili ber fyrir sig um ætlað vanhæfi hans. Jafnframt verður dómur undirréttar ómerktur ef vanhæfur dómari hefur dæmt mál og gildir þá alla jafna einu þótt aðili máls hafi vitað eða mátt vita að vanhæfur dómari sat í því, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 16. nóvember 2022 í máli nr. 32/2022, 2. nóvember 2022 í máli nr. 22/2022 og 21. febrúar 2013 í máli nr. 444/2012. Af þessu leiðir að engu breytir þótt aðaláfrýjendur hafi í máli þessu ekki haft uppi málsástæðu byggða á vanhæfi landsréttardómarans fyrr en í greinargerð sinni til Hæstaréttar.
27. Dómari verður ekki vanhæfur eingöngu vegna einhliða ummæla eða huglægrar afstöðu sem aðrir kunna að hafa til hans og skiptir þá venjulega ekki máli þótt ummæli eða afstaða aðila geti verið til þess fallin að vekja neikvæð hughrif hjá dómara gagnvart þeim sem þau stafa frá. Það færi í bága við þá grundvallarreglu, sem er einn þáttur í réttarríki, að aðilar velji sér ekki dómara og dómarar velji sér ekki þau mál sem þeir dæma, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 31/2020.
28. Í málinu er ekkert komið fram um að dómarinn hafi einhver þau viðhorf til málsaðila eða sakarefnisins að hæfi hans til að dæma málið verði með réttu dregið í efa út frá hinum huglæga mælikvarða. Ræðst hæfi hans þess vegna af því hvort ytri atvik gefi réttmætt tilefni til að efast um óhlutdrægni hans þannig að traust til réttarins bíði hnekki.
29. Í skýrslu aðaláfrýjandans Ernst & Young ehf. 12. mars 2010 var að finna margþætta gagnrýni á starfsemi Milestone ehf. þar sem Jóhannes Sigurðsson gegndi starfi aðstoðarforstjóra. Meðal annars kom þar fram að sterkar vísbendingar hefðu verið um að eignir félagsins hefðu verið ofmetnar í ársreikningi 2007 og félagið verið ógjaldfært síðla árs 2007. Í því samhengi var í skýrslunni vísað til fyrrnefnds bréfs hans til Fjármálaeftirlitsins í febrúar 2008. Þá var í skýrslunni fjallað um kaup félags í eigu hans á hlutabréfum og lánveitingu frá Milestone ehf. í tengslum við þau kaup. Framangreint ræður ekki úrslitum eitt og sér um hæfi dómarans enda til fleiri atriða að líta.
30. Eins og fyrr greinir hafa aðaláfrýjendur vísað til skýrslugjafar eins af fyrrverandi eigendum félagsins í hæstaréttarmálinu nr. 74/2015 þess efnis að Jóhannes Sigurðsson hefði verið einn af þremur stjórnendum sem hefðu tekið allar stærri ákvarðanir félagsins ásamt eigendum. Í kjölfar tilkynningar Fjármálaeftirlitsins á árinu 2009 til embættis sérstaks saksóknara hófst rannsókn á nánar tilteknum ákvörðunum sem teknar voru í félaginu. Leiddi hún til útgáfu ákæru 5. júlí 2013 meðal annars á hendur forstjóra og eigendum félagsins en ekki á hendur Jóhannesi. Lauk sakamálinu með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 74/2015. Þar kemur fram að rannsókn lögreglu hafi einnig tekið mið af tilkynningu skiptastjóra 20. desember 2010 sem samkvæmt framansögðu byggði á skýrslu aðaláfrýjandans Ernst & Young ehf. 12. mars sama ár. Af hálfu aðaláfrýjenda hefur verið byggt á að Jóhannes hafi haft stöðu sakbornings við þá rannsókn. Þótt úrskurður Landsréttar í máli nr. 457/2021 taki ekki af tvímæli um það liggur þó fyrir að húsleit mun hafa verið gerð hjá honum árið 2009 í tengslum við rannsóknina.
31. Þótt ekki sé fyrir að fara beinu samhengi milli sakarefnis máls þessa og starfa Jóhannesar Sigurðssonar hjá Milestone ehf., sem og þeirra atvika sem fyrr er lýst og urðu í kjölfar þess að nauðasamningi félagsins var hafnað, fer um hæfi dómarans eftir heildarmati allra þeirra þátta sem að framan eru raktir. Er þá horft til efnis skýrslna aðaláfrýjandans Ernst & Young ehf., sem eins og áður er rakið fjölluðu bæði um Milestone ehf. á því tímabili er hann gegndi starfi aðstoðarforstjóra sem og um lánveitingar til félaga í hans eigu. Þá er einnig litið til aðkomu Guðjóns Norðfjörð að báðum skýrslum aðaláfrýjenda og samantektar vegna skoðunar á virðismati á Geysi Capital ehf. sem er til umfjöllunar í þessu máli. Hér hefur einnig þýðingu rannsókn lögreglu á málefnum Milestone ehf. og rannsóknaraðgerðir hennar sem eins og fyrr getur munu meðal annars hafa beinst að Jóhannesi. Við þetta mat verður ekki skilið milli efnis framangreindra skýrslna og einstakra þátta atburðarásarinnar sem fylgdi í kjölfarið sem með réttu eða röngu hafði í för með sér álitshnekki fyrir fyrrverandi stjórnendur Milestone ehf. Verður jafnframt ekki fallist á að þeir atburðir sem varða félagið Milestone ehf. séu svo fjarlægir í tíma að áhrifa þeirra gæti ekki lengur enda má ætla að efnahagshrunið 2008 marki enn djúp spor í íslensku samfélagi.
32. Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á að dómur í máli þessu þar sem Jóhannes Sigurðsson tók sæti hafi yfir sér það yfirbragð hlutleysis sem gera verður kröfu um svo að dómstólar skapi sér það traust sem nauðsynlegt er að þeir njóti í lýðræðisþjóðfélagi. Var landsréttardómarinn því vanhæfur til að fara með málið og dæma í því, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Hinn áfrýjaði dómur verður því ómerktur og málinu vísað til löglegrar meðferðar fyrir Landsrétti.
33. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað á ný til Landsréttar til löglegrar meðferðar.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.