Hæstiréttur íslands

Mál nr. 32/2024

Dánarbú Jóhannesar Reynissonar, Ásdís Runólfsdóttir og Sólveig Þóra Jóhannesdóttir (Einar Gautur Steingrímsson lögmaður)
gegn
Jóhanni Kristjáni Arnarsyni, Berglindi Kristjánsdóttur (Grétar Dór Sigurðsson lögmaður) og Reykjanesbæ (Unnar Steinn Bjarndal lögmaður)

Lykilorð

  • Samning dóms
  • Gjafsókn
  • Kröfugerð
  • Ómerking dóms Landsréttar
  • Heimvísun
  • Sératkvæði

Reifun

Dánarbú J, Á og S áfrýjuðu málinu til Hæstaréttar og kröfðust þess að hinn áfrýjaði dómur yrði ómerktur og málinu vísað aftur til Landsréttar. Dómur í málinu fyrir Landsrétti var kveðinn upp þegar liðnar voru fimm vikur og fjórir dagar frá munnlegum flutningi og dómtöku málsins. Málflutningur hafði ekki verið endurtekinn. Í niðurstöðu Hæstaréttar var vísað til meginreglna einkamálaréttarfars og tengsla 1. mgr. 115. gr. og 1. mgr. 165. gr. laga nr. 91/1991 og þess sameiginlega tilgangs ákvæðanna að gefa eigi málsaðilum kost á að endurtaka munnlegan málflutning að einhverju leyti hafi dómur ekki verið kveðinn upp innan fjögurra vikna frá málflutningi. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að í ljósi þess hefði Landsrétti borið eftir að beiðni var komin fram frá lögmanni dánarbús J, Á og S um að málflutningur yrði endurtekinn að verða við henni. Taldi Hæstiréttur þann annmarka að munnlegur málflutningur var ekki endurtekinn við þessar aðstæður alvarlegan. Ennfremur væri ljóst að sá annmarki á málsmeðferðinni fyrir Landsrétti að málflutningur hefði ekki verið endurtekinn hefði leitt til þess að ekki hefði verið tekin afstaða til fram kominnar kröfu dánarbús J, Á og S um gjafsóknarkostnað fyrir réttinum. Taldi Hæstiréttur því slíka annmarka hafa verið á málsmeðferð fyrir Landsrétti og samningu dóms að óhjákvæmilegt væri að ómerkja hann og vísa málinu aftur til Landsréttar.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Karl Axelsson, Sigurður Tómas Magnússon og Skúli Magnússon.

2. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 20. júní 2024. Þau krefjast þess að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað aftur til Landsréttar til málflutnings og dómsálagningar að nýju. Krafist er málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál og að gjafsóknarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin gjafsóknarlaun lögmanns þeirra.

3. Stefndu Jóhann Kristján Arnarson og Berglind Kristjánsdóttir krefjast sýknu af kröfu áfrýjenda um málskostnað. Þá krefjast þau þess að málskostnaður fyrir Hæstarétti verði felldur niður.

4. Stefndi Reykjanesbær krefst sýknu af kröfu áfrýjenda um málskostnað úr hendi hans fyrir Hæstarétti. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi áfrýjenda fyrir Hæstarétti.

5. Málið var skriflega flutt og dómtekið 6. janúar 2025.

Ágreiningsefni og málsmeðferð

6. Áfrýjendur höfðuðu mál þetta til heimtu skaðabóta úr hendi stefndu og þriggja annarra og töldu þá bera óskipta skaðabótaábyrgð á tjóni sínu vegna ófullnægjandi hönnunar og galla á fasteign sem var í byggingu þegar þau keyptu hana.

7. Með héraðsdómi voru stefndu ásamt tveimur öðrum málsaðilum dæmd til að greiða óskipt áfrýjendum 40.807.690 krónur auk vaxta. Einn upphaflegra stefndu var sýknaður.

8. Stefndu áfrýjuðu héraðsdómi til Landsréttar en tveir meðstefndu í héraði undu dóminum. Áfrýjendur fyrir Hæstarétti voru því stefndu fyrir Landsrétti. Með hinum áfrýjaða dómi var stefndi Reykjanesbær sýknaður af kröfum áfrýjenda en stefndu Jóhann Kristján og Berglind dæmd til að greiða þeim óskipt 10.817.523 krónur auk vaxta.

9. Málið var dómtekið í Landsrétti að loknum munnlegum málflutningi 29. janúar 2024. Í þingbók réttarins var upphaflega bókað að lögmaður áfrýjenda gerði sömu kröfur og í áfrýjunarstefnu og greinargerð. Þar hafði hann krafist þess að hinn áfrýjaði dómur yrði staðfestur og gagnaðilar dæmdir til að greiða óskipt umbjóðendum hans málskostnað fyrir Landsrétti.

10. Í málinu liggur fyrir leiðrétt endurrit Landsréttar af umræddri bókun í þingbók. Þar segir um kröfugerð lögmanns stefndu fyrir réttinum: „Hann gerir þær kröfur sem í greinargerð stefndu greinir, að öðru leyti en því að hann krefst málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Lögmaðurinn tekur fram að stefndu hafi sótt um gjafsókn en gjafsóknarleyfi verði lagt fram ef leyfið verði veitt.”

11. Daginn eftir dómtöku málsins var af hálfu lögmanns áfrýjenda sent tölvubréf til Landsréttar vegna málsins. Þar kom fram að við aðalmeðferð þess daginn áður hefði verið bókað að gjafsóknarleyfi væri væntanlegt. Það hefði komið í pósti þá um morguninn. Þá sagði í tölvubréfinu: „Læt það í viðhengi með þessum pósti og kem því til réttarins í réttum fjölda eintaka.“ Landsréttur sendi lögmanninum tölvubréf til baka sama dag og staðfesti móttöku.

12. Aðstoðarmaður dómara við Landsrétt sendi lögmönnum aðila tölvubréf 28. febrúar 2024 þar sem vísað var til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 91/1991. Greint var frá því að umrætt mál hefði verið dómtekið 29. janúar 2024 og því væri fjögurra vikna frestur til að kveða upp dóm í því samkvæmt lagaákvæðinu liðinn. Þá sagði í bréfinu: „Landsréttur telur ekki nauðsynlegt að endurtaka málflutning í framangreindu máli.“ Loks var óskað eftir að móttaka yrði staðfest. Það gerði lögmaður áfrýjenda með tölvubréfi sama dag og tók fram, án frekari skýringa, að hann teldi rétt að endurflutningur færi fram.

13. Í endurriti af þingbók Landsréttar 8. mars 2024 kemur fram að hinn áfrýjaði dómur hafi verið kveðinn upp þann dag. Að lokinni uppkvaðningu dómsins var bókað: „Gætt er ákvæðis 1. mgr. 165. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála við uppkvaðningu dómsins. Lögmaður stefnda lagði fram gjafsóknarleyfi, dags. 23. janúar 2024. Skjalið barst Landsrétti 30. janúar 2024 og er auðkennt sem skjal nr. K.“

14. Í hinum áfrýjaða dómi var gerð svofelld grein fyrir kröfum áfrýjenda: „Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Landsrétti.“ Ekki var vikið að gjafsóknarleyfi því sem bókað var um við munnlegan flutning málsins og réttinum hafði borist 30. janúar 2024. Niðurstaða um kröfur áfrýjenda var eins og áður er getið. Málskostnaður var felldur niður milli áfrýjenda og stefnda Reykjanesbæjar en öðrum stefndu gert að greiða óskipt áfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti, samtals 2.400.000 krónur. Gjafsóknarkostnaður var ekki dæmdur og ekki kveðið á um þóknun lögmanns gjafsóknarhafa.

15. Áfrýjunarleyfi var veitt 20. júní 2024, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2024-43, í því skyni að fjalla um hvort ómerkja bæri dóm Landsréttar á þeim grunni að málsmeðferð réttarins kynni að hafa verið stórlega ábótavant.

Niðurstaða

16. Eins og hér hefur verið rakið var mál þetta dómtekið í Landsrétti að loknum munnlegum málflutningi 29. janúar 2024. Dómur var kveðinn upp 8. mars sama ár en þá voru liðnar fimm vikur og fjórir dagar frá munnlegum flutningi og dómtöku málsins. Málflutningur var ekki endurtekinn.

17. Í 1. mgr. 165. gr. laga nr. 91/1991 eru fyrirmæli um þann tíma sem má líða frá dómtöku til dómsuppsögu í Landsrétti en þar segir orðrétt:

Dóm skal kveða upp svo fljótt sem er unnt eftir að mál er dómtekið og aldrei síðar en þegar fjórar vikur eru liðnar frá því. Verði því ekki komið við og hafi mál verið munnlega flutt skal endurtaka málflutning að því leyti sem Landsrétti þykir nauðsynlegt.

18. Fram til 1. janúar 2018 tók fyrrnefnd lagagrein til uppkvaðningar dóms í Hæstarétti en efnislega samsvarandi ákvæði um Hæstarétt er nú í 1. mgr. 189. gr. laga nr. 91/1991.

19. Fyrirmæli um uppsögu dóms í héraði er í 115. gr. laga nr. 91/1991 en ákvæðið er svohljóðandi:

Dómur skal kveðinn upp svo fljótt sem unnt er. Hafi dómur ekki verið kveðinn upp í máli sem var munnlega flutt innan fjögurra vikna frá því það var dómtekið skal það flutt á ný nema dómari og aðilar telji það óþarft.

20. Fyrir Hæstarétti hefur ekki reynt á túlkun fyrrnefnda ákvæðisins um frest til uppsögu dóms í Landsrétti en talsverð dómaframkvæmd Hæstaréttar og Landsréttar liggur fyrir um síðargreinda ákvæðið.

21. Þegar dómur í héraði hefur ekki verið kveðinn upp innan fjögurra vikna frá dómtöku en þó áður en átta vikur eru liðnar hafa þær kröfur verið gerðar til yfirlýsinga lögmanna samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 að þær hafi verið gefnar munnlega í þinghaldi eða skriflega fyrir uppkvaðningu dóms, sbr. dóma Hæstaréttar 13. desember 2012 í máli nr. 572/2012 og 18. febrúar 2016 í máli nr. 634/2015. Ekki hefur verið talið nægja að bókað væri í þingbók að dómari hefði aflað slíkrar yfirlýsingar frá lögmanni eftir dómsuppsögu, sbr. dóm Hæstaréttar 18. desember 2008 í máli nr. 427/2008, eða að lögmaður hefði sent slíka yfirlýsingu eftir dómsuppsögu, sbr. dóm réttarins 22. janúar 2009 í máli nr. 271/2008.

22. Samkvæmt framansögðu hefur Hæstiréttur lagt til grundvallar stranga túlkun við úrlausn þess hvort héraðsdómur hafi gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 og hefur Landsréttur fylgt þeirri dómaframkvæmd.

23. Ef héraðsdómari hefur kveðið upp dóm þegar meira en átta vikur eru liðnar frá málflutningi og dómtöku máls og það ekki verið endurflutt fyrir uppsögu dómsins hefur Hæstiréttur ómerkt héraðsdóm af sjálfsdáðum. Við þær aðstæður hefur yfirlýsing aðila um að málflutningur væri óþarfur ekki nægt til að afstýra ómerkingu og heldur ekki bókun dómara um að lögmönnum hafi verið gefinn kostur á að flytja málið að nýju en þeir vísað til fyrri málflutnings, sbr. dóm Hæstaréttar 3. febrúar 2011 í máli nr. 267/2010. Upphaf þessarar dómaframkvæmdar má rekja til dóma Hæstaréttar 10. desember 1992 í máli nr. 70/1990, sem birtur er á bls. 2060 í dómasafni réttarins það ár, og 17. desember 1992 í máli nr. 311/1991, sem birtur er á bls. 2230 í dómasafni réttarins það ár. Héraðsdómar í þeim málum voru kveðnir upp í tíð laga nr. 85/1936 um meðferð einkamála í héraði. Dómaframkvæmdin var fest í sessi eftir gildistöku laga nr. 91/1991 með dómi réttarins 6. febrúar 1995 í máli nr. 384/1992 sem birtur var á bls. 304 í dómasafni réttarins það ár. Í þeim dómi var vísað til 1. mgr. 115. gr. laganna og sagði þar:

Svigrúm héraðsdómara og lögmanna aðila til samkomulags um, að ekki sé þörf á að endurflytja mál, ef uppsaga þess dregst umfram fjórar vikur frá dómtöku, verður samkvæmt framansögðu að sæta takmörkunum. Með hliðsjón af fordæmum Hæstaréttar þykir rétt að líta svo á, að héraðsdómur verði að jafnaði ekki kveðinn upp að réttu lagi án raunverulegs endurflutnings, ef liðnar eru átta vikur frá munnlegum málflutningi, enda getur hann ekki komið að því gagni, sem til er ætlast, þegar dómsuppsaga dregst svo lengi.

24. Þar sem dómur Landsréttar var kveðinn upp áður en átta vikur voru liðnar frá munnlegum málflutningi og dómtöku málsins eiga hér ekki við þau rök sem síðastgreind dómaframkvæmd byggst á, það er að málflutningur geti ekki komið að því gagni sem ætlast er til.

25. Af 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 er ljóst að ef dómsuppsaga í héraði dregst um allt að átta vikur er aðilum fengið nokkurt forræði á að meta hvort þörf sé á að flytja málið að nýju þótt dómari eigi um það síðasta orðið. Samkvæmt orðalagi 1. mgr. 165. gr. laganna er aðilum hins vegar ekki veitt slíkt forræði ef sambærilegur dráttur verður á dómsuppsögu í Landsrétti. Þótt ákvæðin séu frábrugðin að þessu leyti er þeim þó báðum meðal annars ætlað að tryggja að aðilum gefist kostur á að endurflytja mál að einhverju leyti ef dómsuppsaga hefur dregist fram yfir fjórar vikur.

26. Þótt fram komi í bókun við uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms að gætt hafi verið að 1. mgr. 165. gr. laga nr. 91/1991 verður ekki séð að málið hafi verið endurflutt að neinu leyti eins og gert er ráð fyrir í ákvæðinu. Hins vegar er ljóst af tölvubréfi aðstoðarmanns dómara til málflytjenda að rétturinn taldi ekki þörf á endurflutningi málsins og ósk lögmanns áfrýjenda þar að lútandi virðist ekki hafa breytt þeirri afstöðu.

27. Við skýringu 1. mgr. 165. gr. laga nr. 91/1991 verður að horfa til þess hvernig 1. mgr. 115. gr. laganna hefur verið skýrð í dómaframkvæmd, svo og þeirra hagsmuna sem þessum ákvæðum er ætlað að tryggja. Í því ljósi getur það ekki samræmst efni fyrrnefnda ákvæðisins að Landsréttur kveði upp dóm í máli þegar meira en fjórar vikur eru liðnar frá dómtöku þess án þess að málflutningur hafi verið endurtekinn að einhverju leyti. Við mat á því hvort um svo alvarlegan annmarka hafi verið að ræða á málsmeðferð í Landsrétti að óhjákvæmilegt sé að ómerkja dóminn af þeim sökum vegast á meginreglur einkamálaréttarfars.

28. Til grundvallar 1. mgr. 115. gr. og 1. mgr. 165. gr. laga nr. 91/1991 liggur einkum svokölluð málshraðaregla sem ætlað er að tryggja greiða og skilvirka málsmeðferð. Sú meginregla getur þó ekki ein og sér réttlætt ómerkingu við þær aðstæður sem uppi eru í málinu. Er þá haft í huga að þótt slík málalok þjóni þeim tilgangi að stuðla almennt að skilvirkni og veita dómurum aðhald eru þau jafnframt til þess fallin að tefja verulega fyrir lyktum máls og auka kostnað aðila og dómskerfisins.

29. Því verður jafnframt að líta til meginreglunnar um munnlega málsmeðferð. Eins og áður greinir hefur ómerking dóms af þeim sökum að við uppsögu hans voru meira en átta vikur liðnar frá munnlegum málflutningi og dómtöku einkum verið studd þeim rökum að þá kæmi munnlegur málflutningur ekki lengur að tilætluðu gagni.

30. Loks er rétt að líta til málsforræðisreglunnar. Enda þótt framvinda dómsmáls og frestir séu að öðru jöfnu á valdi dómara en ekki málsaðila er þeim veitt nokkurt forræði samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 við ákvörðun um hvort mál skuli endurflutt. Þar sem 1. mgr. 165. gr. laganna er náskyld því ákvæði ber að líta svo á að það þjóni meðal annars þeim tilgangi að málsaðilum gefist við endurtekinn málflutning kostur á að koma munnlega á framfæri þeim sjónarmiðum sem þeir telja nauðsynlegt. Telji enginn málsaðila þörf á endurflutningi má ætla að dráttur á málsmeðferðinni sé að þeirra mati ekki líklegur til að hafa áhrif á niðurstöðu máls.

31. Þegar framangreindar meginreglur og sjónarmið eru virt og að teknu tilliti til tengsla 1. mgr. 115. gr. og 1. mgr. 165. gr. laga nr. 91/1991 og þess sameiginlega tilgangs ákvæðanna að gefa eigi málsaðilum kost á að endurtaka munnlegan málflutning að einhverju leyti bar Landsrétti eftir að beiðni var komin fram frá lögmanni áfrýjanda um að málflutningur yrði endurtekinn að verða við henni. Við þessar aðstæður telst sá annmarki að munnlegur málflutningur var ekki endurtekinn alvarlegur. Fleira kemur þó til skoðunar.

32. Eins og áður er rakið liggur fyrir í málinu leiðrétt endurrit úr þingbók Landsréttar í málinu þar sem fram kemur að við munnlegan flutning þess 29. janúar 2024 hafi af hálfu lögmanns stefndu fyrir réttinum verið gerð sama krafa og í greinargerð að frátalinni kröfu um gjafsóknarkostnað. Þá liggur fyrir að við uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms 8. mars það ár hafði Landsrétti 30. janúar 2024 borist umrætt gjafsóknarleyfi, dagsett 23. þess mánaðar, og að það verið lagt fram í málinu.

33. Þegar Landsréttur sendi lögmönnum tilkynningu um að rétturinn teldi ekki þörf á endurflutningi hafði honum samkvæmt framansögðu borist umrætt gjafsóknarleyfi. Við þessar aðstæður bar Landsrétti að taka afstöðu til fram kominnar kröfu áfrýjenda um greiðslu gjafsóknarkostnaðar úr ríkissjóði eða í öllu falli að taka málið fyrir að nýju til þess að gjafsóknarleyfið yrði lagt fram og láta flytja það um þá kröfu. Hvorugt var þó gert og það þótt réttinum hefði borist beiðni frá lögmanni áfrýjenda um endurflutning. Í hinum áfrýjaða dómi var kröfu áfrýjenda um greiðslu gjafsóknarkostnaðar ekki getið og þar af leiðandi ekki tekin afstaða til hennar í forsendum dómsins eða dómsorði. Samkvæmt því er ljóst að sá annmarki á málsmeðferðinni í Landsrétti að málflutningur var ekki endurtekinn olli því að ekki var tekin afstaða í hinum áfrýjaða dómi til fram kominnar kröfu um gjafsóknarkostnað.

34. Í ljósi alls framangreinds er um slíka annmarka á málsmeðferð fyrir Landsrétti og samningu hins áfrýjaða dóms að ræða að óhjákvæmilegt er að ómerkja hann og vísa málinu aftur til Landsréttar.

35. Rétt er að hver aðili greiði sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

36. Áfrýjendur njóta gjafsóknar í málinu fyrir Hæstarétti. Um gjafsóknarkostnað þeirra fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað á ný til Landsréttar til löglegrar meðferðar.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjenda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Einars Gauts Steingrímssonar, 600.000 krónur.

Sératkvæði

Skúla Magnússonar

1. Ég er sammála niðurstöðu meirihlutans um að ómerkja beri hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu á ný til Landsréttar til löglegrar meðferðar. Hins vegar er ég ekki fyllilega sammála þeirri skýringu meirihlutans á 1. mgr. 165. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sem fram kemur í forsendum hans fyrir þeirri niðurstöðu.

2. Í atkvæði meirihlutans er gerð grein fyrir annars vegar ákvæðum 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 og hins vegar 1. mgr. 165. gr. þeirra svo og dómaframkvæmd um fyrrnefndu málsgreinina. Samkvæmt þeirri síðarnefndu skal Landsréttur kveða upp dóm svo fljótt sem unnt er eftir að mál er dómtekið og aldrei síðar en þegar fjórar vikur eru liðnar. Verði því ekki komið við og hafi mál verið munnlega flutt skal endurtaka málflutning að því leyti sem Landsrétti þykir nauðsynlegt.

3. Svo sem er rakið í atkvæði meirihlutans er samkvæmt þessu sá munur á lagaákvæðunum að í héraði er aðilum fengið nokkurt forræði á því hvort nýs málflutnings sé þörf þegar dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest þótt dómari eigi um það lokaorðið. Af þessu leiðir að samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laganna ber héraðsdómara að láta endurflytja mál þegar dómsuppsaga hefur dregist umfram fjórar vikur og aðili fer fram á það. Samkvæmt viðtekinni dómaframkvæmd er héraðsdómara hins vegar skylt, án tillits til afstöðu aðila, að láta flytja mál að nýju ef dómsuppkvaðning hefur dregist í meira en átta vikur.

4. Andstætt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 er í 1. mgr. 165. gr. þeirra ekki vísað til þess hvort aðili telji óþarft að flytja mál að nýju þegar dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest. Þess í stað er það alfarið lagt í vald Landsréttar að meta hvort endurtaka skuli málflutning og þá að því leyti sem það þykir nauðsynlegt. Að mínu mati getur það rúmast innan orðalags þessa ákvæðis að Landsréttur telji með öllu óþarft að mál sé flutt að nýju. Það mat réttarins sem liggur til grundvallar slíkri ákvörðun hverju sinni er hins vegar ekki óheft og þarf að samrýmast markmiðum lagaákvæðisins svo og meginreglum einkamálaréttarfars.

5. Í ljósi meginreglunnar um jafnræði aðila og forræði þeirra á sakarefninu væri það þannig einkum við þær aðstæður að aðilar hefðu áður lýst því yfir að þeir teldu endurflutning máls með öllu óþarfan að Landsrétti væri rétt, án nýs málfutnings, að kveða upp dóm þótt meira en fjórar vikur væru liðnar frá dómtöku. Verður þannig að skýra 1. mgr. 165. gr. laganna á þá leið að aðili hafi að jafnaði rétt til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum þegar dómsuppsaga hefur dregist fram yfir lögákveðinn frest. Jafnvel þótt aðilar teldu endurflutning óþarfan þyrfti rétturinn einnig að gæta að því hvort uppsaga hefði dregist svo úr hófi að málflutningur gæti ekki lengur komið að því gagni sem ætlast er til, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 6. febrúar 1995 í máli nr. 384/1992 sem birtur var á bls. 304 í dómasafni réttarins það ár.

6. Í málinu liggur fyrir að Landsréttur tilkynnti lögmönnum aðila 28. febrúar 2024 að fjögurra vikna frestur til að kveða upp dóm væri liðinn. Af því tilefni lýsti lögmaður áfrýjenda því yfir að hann teldi rétt að endurflutningur færi fram. Þá bera gögn málsins með sér að eftir dómtöku þess höfðu áfrýjendur komið gjafsóknarleyfi á framfæri við réttinn í samræmi við fyrirvara þar um við flutning málsins. Var leyfið lagt fram sem þingskjal í því þinghaldi sem háð var til uppkvaðningar dómsins.

7. Samkvæmt öllu framangreindu var tilefni fyrir Landsrétt til að fallast á beiðni áfrýjenda um endurflutning málsins. Í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 165. gr. laga nr. 91/1991 var það þá einnig réttarins að meta í ljósi stöðu málsins að hvaða atriðum slíkur málflutningur skyldi beinast, meðal annars í ljósi þess nýja gagns sem stafaði frá áfrýjendum og áður er vikið að.

8. Hvorki af dómi Landsréttar né endurritum úr þingbók verður ráðið að rétturinn hafi lagt mat á beiðni áfrýjenda um endurflutning eða nauðsyn á því að öðru leyti svo sem skylt var samkvæmt fyrrnefndu ákvæði 1. mgr. 165. gr. laganna. Að þessu virtu er ég sammála þeirri niðurstöðu meirihlutans að um hafi verið að ræða alvarlegan annmarka á málsmeðferð Landsréttar. Þegar af þeirri ástæðu tel ég að ómerkja eigi hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu aftur til löglegrar meðferðar í Landsrétti.