Hæstiréttur íslands
Mál nr. 18/2023
Lykilorð
- Fyrning
- Fyrningarfrestur
- Skaðabætur
- Skipting sakarefnis
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. apríl 2023. Hann krefst þess að staðfest verði að ófyrnd sé krafa áfrýjanda um skaðabætur úr hendi stefndu vegna tjóns sem varð við fjárfestingu í fjárfestingasjóðnum Kcaj Limited Liability Partnership. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefndu fyrir Landsrétti og Hæstarétti.
3. Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Ágreiningsefni
4. Áfrýjandi höfðaði mál þetta til heimtu skaðabóta vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir við kaup á fjárfestingasjóðnum Kcaj Limited Liability Partnership skráðum í Bretlandi. Sá sjóður átti að fullu eignarhaldsfélagið Duchamp Holdings Limited en það félag átti rekstrarfélagið Duchamp Limited sem hannaði og seldi karlmannsföt í heildsölu og smásölu. Við kaupin naut áfrýjandi ráðgjafar stefnda Arev verðbréfafyrirtækis hf. á grundvelli samnings 20. febrúar 2014 um söluráðgjöf. Jafnframt gerðu sömu aðilar með sér samning 28. mars sama ár um eignastýringu. Stefndi Jón var í gegnum félög sín eigandi stefnda Arev verðbréfafyrirtækis hf. ásamt því að starfa hjá fyrirtækinu og kom hann fram gagnvart áfrýjanda sem ráðgjafi við fyrrgreind kaup. Krafa áfrýjanda á hendur þessum tveimur stefndu er reist á reglunni um ábyrgð á sérfræðiráðgjöf á grundvelli fyrrgreindra samninga um söluráðgjöf og eignastýringu og á reglunni um vinnuveitendaábyrgð. Auk þess er því haldið fram að stefndi Jón hafi vanrækt skyldur sínar sem stjórnarmaður áfrýjanda. Krafa áfrýjanda á hendur stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. er byggð á ábyrgðartryggingu sem tekin var hjá félaginu.
5. Með vísan til 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála tók héraðsdómur þá ákvörðun að skipta sakarefni málsins þannig að fyrst yrði dæmt um þær málsástæður stefndu að ætlaðar kröfur á hendur þeim væru fyrndar. Er sá ágreiningur til úrlausnar hér. Deila aðilar um hvort ætluð krafa áfrýjanda á hendur stefndu Arev verðbréfafyrirtæki hf. og Jóni sé skaðabótakrafa innan samninga, þannig að fyrningarfrestur fari eftir 2. mgr. 2. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, eða hvort um sé að ræða skaðabótakröfu utan samninga, þannig að um fyrningarfrest fari eftir 1. mgr. 9. gr. laganna. Verði talið að síðargreinda ákvæðið eigi við deila aðilar um hvenær fyrningafrestur hafi tekið að líða.
6. Með héraðsdómi var því hafnað að ætluð skaðabótakrafa áfrýjanda á hendur stefndu væri fyrnd en ákvörðun málskostnaðar látin bíða endanlegs dóms í málinu. Niðurstaða héraðsdóms um fyrningu var staðfest með dómi Landsréttar 11. febrúar 2022 í máli nr. 510/2022. Með dómi Hæstaréttar 2. nóvember 2022 í máli nr. 22/2022 var sá dómur ómerktur vegna vanhæfis tveggja dómara og málinu vísað á ný til Landsréttar til löglegrar meðferðar. Í kjölfarið gekk svo hinn áfrýjaði dómur en með honum var fallist á með stefndu að ætluð krafa á hendur þeim væri fyrnd.
7. Áfrýjunarleyfi var veitt 21. apríl 2023, með ákvörðun réttarins nr. 2023-33, á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um skýringu laga nr. 150/2007 þegar um sérfræðiábyrgð væri að ræða.
Málsatvik
8. Málavextir eru skilmerkilega raktir í hinum áfrýjaða dómi og vísast til þeirrar lýsingar í heild sinni. Til viðbótar verða hér nefnd atriði sem horfa til frekari skýringar á sakarefni málsins.
9. Stefndi Arev verðbréfafyrirtæki hf. fékk útgefið starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu 10. mars 2010 sem verðbréfafyrirtæki á grundvelli laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þegar þeir samningar sem mál þetta tekur til voru gerðir á árunum 2014 og 2015 var félagið í eigu annars vegar Eignarhaldsfélagsins Arev hf. að 99,94% hlut og hins vegar stefnda Jóns að 0,06% hlut. Fyrrnefndi eigandinn mun hafa verið í eigu stefnda Jóns í gegnum félag hans, JST Holding ehf., en það mun samkvæmt gögnum málsins hafa átt keðju félaga sem fóru með eignarhald á stefnda Arev verðbréfafyrirtæki hf. Jafnframt mun stefndi Jón hafa í gegnum félög í sinni eigu átt 15,43% eignarhlut í Kcaj Limited Liability Partnership en honum var ráðstafað til áfrýjanda án raunverulegs endurgjalds annars vegar með samningi 8. júlí 2014 og hins vegar ódagsettum samningi sem mun hafa verið gerður 2. mars 2015. Þá mun stefndi Jón hafa verið eigandi að félaginu Arev Brands Ltd. UK í gegnum keðju fyrirtækja en það fyrirtæki og fyrrgreint félag, Eignarhaldsfélagið Arev hf., skráði sig fyrir hlutafé í áfrýjanda sem vanhöld urðu á að greiða eins og rakið er í 28. lið hins áfrýjaða dóms. Enn fremur mun stefndi Jón í gegnum félög sín hafa átt Eignarhaldsfélagið LAGPNII ehf., sem síðar fékk heitið Eignarhaldsfélagið ANIIGP ehf., en það félag var annar stofnandi áfrýjanda og ábyrgðaraðili hans og fór með hlutverk stjórnar í samræmi við samþykktir þess félags. Jafnframt mun stefndi Jón í gegnum félög sín hafa verið eigandi að Arev H2 ehf. sem var hinn stofnandi áfrýjanda. Loks mun stefndi Jón hafa verið eigandi félagsins Arev Management Limited í gegnum keðju félaga en það félag veitti Duchamp Limited lán og fékk greitt af því eins og vikið er að í 40. lið hins áfrýjaða dóms.
10. Í samþykktum áfrýjanda frá öndverðu og þar til þeim var breytt 26. maí 2016 var mælt fyrir um að innan félagsins skyldi starfa sérstakt fjárfestingarráð. Þar var í grein 4.4 mælt fyrir um skipan þess og auk þess tekið fram að starfsheimildir ráðsins væru takmarkaðar við fjárfestingaákvarðanir félagsins. Einnig sagði að því væri ekki heimilt að fjárfesta í öðrum félögum nema eignastýringaraðilinn, sem var stefndi Arev verðbréfafyrirtæki hf., hefði gert tillögu um viðkomandi fjárfestingu við fjárfestingarráðið.
Niðurstaða
Um sakarskiptingu
11. Svo sem áður greinir var sakarefni málsins skipt á grundvelli 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 þannig að fyrst yrði dæmt um málsástæður stefndu sem lúta að því hvort ætlaðar kröfur áfrýjanda á hendur þeim væru fyrndar. Eins og greinir í héraðsdómi vefengdi áfrýjandi við flutning málsins þar að forsendur væru til að skipta sakarefninu með því móti. Þessu var hins vegar hvorki hreyft fyrir Landsrétti né hér fyrir dómi. Þess er þó að gæta að um er að ræða atriði sem rétturinn leysir úr af sjálfsdáðum ef efni eru til.
12. Í dómum Hæstaréttar 4. júní 2019 í málum nr. 5/2019 og 6/2019 var fjallað um heimild til sakarskiptingar þannig að fyrst yrði dæmt um hvort skaðabótakröfur væru fyrndar áður en skorið væri úr um tilvist þeirra. Í dómunum var tekið fram að sök yrði ekki skipt með því móti nema fyrir lægi hvenær og á hvaða grundvelli krafa yrði talin hafa stofnast. Í þessum málum var málatilbúnaður um ætlaðar kröfur reistur á því að þær gætu hafa stofnast á mismunandi tímum sem spönnuðu gildissvið eldri laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda og gildandi laga nr. 150/2007 en fyrningarfestur eftir eldri og yngri lögum var ekki sá sami. Eins og mál þessi lágu fyrir var ekki talið unnt að taka afstöðu til fyrningar ætlaðra skaðabótakrafna nema fyrst hefði verið leyst úr því hvort þær hefðu orðið til, á hvaða grunni það hefði gerst og hvenær. Að öðrum kosti fæli niðurstaða málsins í sér getsakir, eftir atvikum valkvæðar, um hvort kröfuréttindi sem ekki hefði verið staðreynt hvort orðið hefðu til væru fallin niður fyrir fyrningu. Af þessum ástæðum var talið að skilyrði hefði með öllu brostið til að skipta sakarefninu með þessu móti á grundvelli 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991. Því voru dómarnir ómerktir og málunum vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
13. Í þessu máli er á því byggt að skaðabótaábyrgð stefndu Arev verðbréfafyrirtækis hf. og Jóns verði reist á þjónustu sem áfrýjanda var látin í té á grundvelli samninga fyrrnefnda aðilans við áfrýjanda auk þess sem vísað er til reglu um ábyrgð sérfræðinga og vinnuveitendaábyrgð. Að því er varðar stefnda Sjóvá-Almennar tryggingar hf. er byggt á ábyrgðartryggingu sem tekin var hjá félaginu. Öndvert við það sem átti við í fyrrgreindum dómum Hæstaréttar er þessi grundvöllur krafna áfrýjanda um skaðabætur á hendur stefndu nægjanlega ljós og afmarkaður. Því var heimilt í máli þessu að skipta sakarefninu þannig að fyrst yrði fjallað um fyrningu áður en það yrði dæmt að öðru leyti. Skiptir þá ekki máli hvort skaðabótaábyrgð vegna þeirra atvika sem áfrýjandi byggir á verður reist á reglum um bótaábyrgð innan eða utan samninga. Úr málinu verður því leyst á þeim grundvelli sem ákveðinn var af héraðsdómi með sakarskiptingunni en hún á sér jafnframt stoð í réttarframkvæmd sem miðar að skilvirkni og hagræði við rekstur dómsmála.
Lagafyrirmæli um fyrningu skaðabótakrafna
14. Mismunandi reglur gilda samkvæmt lögum nr. 150/2007 um upphaf fyrningarfrests skaðabótakrafna eftir því hvort um er að ræða skaðabætur innan eða utan samninga. Eins og áður greinir deila aðilar um hvort ætlaðar kröfur áfrýjanda á hendur stefndu Arev verðbréfafyrirtæki hf. og Jóni fari eftir reglum um skaðabætur innan eða utan samninga.
15. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 fyrnist krafa um skaðabætur á fjórum árum frá þeim degi er tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgð ber á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Krafa um skaðabætur vegna líkamstjóns fyrnist þó á tíu árum. Krafa fyrnist þó í síðasta lagi 20 árum eftir að tjónsatburði eða öðru atviki sem liggur til grundvallar ábyrgðinni lauk, þó með tilgreindum undantekningum er varða líkamstjón, sbr. 2. mgr. 9. gr. laganna. Samkvæmt 3. mgr. gildir ákvæðið ekki um kröfur sem eiga rót að rekja til samnings nema þær varði líkamstjón. Þetta var áréttað í skýringum við greinina í athugasemdum með frumvarpi til laganna en þar var tekið fram að 9. gr. tæki til skaðabótakrafna utan samninga en ætti ekki við um kröfur sem rót ættu að rekja til samninga, sbr. 3. mgr.
16. Fyrningarfrestur kröfu eftir samningi reiknast frá þeim degi þegar kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 150/2007. Fyrningarfrestur krafna, sem stofnast vegna vanefnda, reiknast frá þeim degi þegar samningur er vanefndur, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna, og því fyrnast skaðabótakröfur á grundvelli samnings frá þeim tíma. Um þetta gildir almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda sem er fjögur ár samkvæmt 3. gr. laganna.
17. Reglur um skaðabætur innan og utan samninga byggjast á ólíkum grundvelli. Þannig taka reglur um skaðabætur innan samninga mið af réttarstöðu aðila vegna vanefnda á samningi og hvernig áhættu verður skipt milli þeirra. Reglur um skaðabætur utan samninga gilda hins vegar um hegðun sem valdið hefur öðrum tjóni. Bæði innan og utan samninga gildir sú meginregla að tjón verði rakið til sakar en strangari ábyrgð getur þó átt við á sumum réttarsviðum. Þessi ólíki grundvöllur skaðabótakrafna innan og utan samninga býr að baki því að mismunandi reglur geta átt við, eins og gildir um fyrningu, svo sem hér hefur verið rakið. Um önnur skilyrði bótaábyrgðar kunna hliðstæðar eða svipaðar reglur að gilda og má þá í dæmaskyni nefna áskilnað um orsakatengsl og sennilega afleiðingu milli tjóns og þeirrar ástæðu sem liggur til grundvallar ábyrgðinni.
18. Eins og fram kemur í lögskýringargögnum voru norsk lög um fyrningu kröfuréttinda höfð til hliðsjónar við setningu laga nr. 150/2007. Það sama átti við um eldri lög nr. 14/1905. Sem endranær verður í réttarframkvæmd á sviði fjármunaréttar litið til norrænna fræðikenninga og með hliðsjón af þessari forsögu laga um fyrningu hafa norskar fræðiheimildir nokkuð leiðsagnargildi við skýringu þeirra.
Fyrning skaðabótakröfu á hendur stefnda Arev verðbréfafyrirtæki hf.
19. Samkvæmt samþykktum áfrýjanda, eins og þær hljóðuðu frá öndverðu og þar til þeim var breytt 26. maí 2016, gegndi ábyrgðaraðili hlutverki stjórnar og bar honum með samningi við verðbréfafyrirtæki um eignastýringu að tryggja að það gegndi hlutverki framkvæmdastjóra fyrir hönd félagsins. Í samræmi við þetta gerði áfrýjandi samning við stefnda Arev verðbréfafyrirtæki hf. 28. mars 2014 sem bar yfirskriftina „Investment Management Agreement“. Í samningnum sagði meðal annars að stefndi skyldi stýra fjárfestingum áfrýjanda með því að skoða og meta öll fjárfestingartækifæri, annast greiningu á fjárfestingum og eignum áfrýjanda, auk þess að undirbúa sölu og ráðstöfun á fjárfestingum í samráði við fjárfestingarráð áfrýjanda.
20. Skömmu áður en umræddur samningur um eignastýringu var gerður hafði áfrýjandi gert samning 20. febrúar 2014 við stefnda Arev verðbréfafyrirtæki hf. um söluráðgjöf. Samkvæmt honum skyldi þessi stefndi sjá um að koma á samningi milli áfrýjanda og Glitnis hf. „vegna sölu á öllu hlutafé Glitnis hf. [...] í félaginu Duchamp Limited“ sem væri að stærstum hluta í eigu Glitnis hf. Einnig sagði að tilgangur samningsins væri að stefndi tæki að sér samningsgerð við Glitni hf. um sölu á hlutum í Duchamp Limited fyrir hönd áfrýjanda þannig að hann eignaðist hina seldu hluti. Um skyldur stefnda gagnvart áfrýjanda sagði meðal annars í samningnum að stefndi myndi verðmeta hið selda, gæta hagsmuna áfrýjanda við kaupin, stýra söluferli og leiða samninga um söluna ásamt því að veita ráðgjöf. Þá var tekið fram að þjónusta stefnda teldist fullnægjandi þegar bindandi kaupsamningur hefði komist á. Þar var einnig að finna skaðleysisyfirlýsingu þar sem fram kom að stefndi ábyrgðist ekki að þær forsendur sem verkefnið yrði byggt á væru efnislega réttar og bæri enga ábyrgð á tjóni sem kynni að verða reyndust þær rangar. Jafnframt sagði að ábyrgð stefnda væri bundin við tjón sem áfrýjandi kynni að verða fyrir vegna „stórkostlegs gáleysis starfsmanna Arev eða eftir atvikum ásetnings“.
21. Krafa áfrýjanda á hendur stefnda Arev verðbréfafyrirtæki hf. er reist á því að félagið hafi vanefnt þær skuldbindingar sem hér hafa verið raktar en þær leiðir beint af umræddum samningum. Auk þess var grundvöllur skaðabótaábyrgðar stefnda umsaminn í samningnum 20. febrúar 2014 þannig að bótaábyrgðin var takmörkuð og þrengri en gildir eftir almennum reglum. Af þessu leiðir að skaðabótakrafa á þessum grunni á rót að rekja til samnings, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007. Því fer um fyrningu kröfunnar eftir reglum sem gilda um fyrningu skaðabótakrafna innan samninga, sbr. 2. og 3. gr. laganna, en ekki reglum um fyrningu skaðabótakrafna utan samninga samkvæmt 1. mgr. 9. gr. þeirra. Um þetta má til hliðsjónar benda á að sama hefur verið talið gilda í norskum rétti um skaðabótaábyrgð vegna fjármálaþjónustu, sbr. dóma Hæstaréttar Noregs sem birtir eru í Rt. 2000, bls. 679, Rt. 2002, bls. 286 og Rt. 2007, bls. 220.
22. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að ætlaðar vanefndir stefnda Arev verðbréfafyrirtækis hf. í skilningi 2. mgr. 2. gr. laga nr. 150/2007 hafi í síðasta lagi orðið annars vegar við kaup áfrýjanda á fjárfestingasjóðnum Kcaj Limited Liability Partnership 4. júlí 2014, að því er varðaði samninginn 20. febrúar sama ár, og hins vegar við lánveitingar hans til Duchamp Holding Limited 28. maí og 10. nóvember 2015, að því er varðaði samninginn 28. mars 2014. Skaðabótakrafa áfrýjanda á hendur stefnda var því fyrnd 14. desember 2019 þegar málið var höfðað á hendur honum.
Fyrning skaðabótakröfu á hendur stefnda Jóni
23. Svo sem áður greinir var stefndi Jón eigandi stefnda Arev verðbréfafyrirtækis hf. og mun hafa komið fram gagnvart áfrýjanda fyrir hönd þess félags. Aftur á móti átti hann sjálfur ekki aðild að fyrrgreindum samningum stefnda Arev verðbréfafyrirtækis hf. og áfrýjanda, annars vegar samningi 20. febrúar 2014 um söluráðgjöf og hins vegar samningi 28. mars sama ár um eignastýringu.
24. Áfrýjandi er samlagshlutafélag. Samkvæmt 2. mgr. 160. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög er með slíku félagi átt við þá tegund samlagsfélaga þar sem einn eða fleiri félagsmenn (ábyrgðaraðilar) bera ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins en aðrir félagsmenn (hluthafar), einn eða fleiri, bera takmarkaða ábyrgð á grundvelli hlutafjárframlags síns. Ábyrgðaraðilar geta jafnframt verið hluthafar. Í 1. mgr. 161. gr. laganna segir að í samþykktum samlagshlutafélaga, sem stundi fjárfestingarstarfsemi, megi víkja frá ákvæðum laganna eins og nánar er kveðið á um í greininni. Samkvæmt 2. mgr. felur þetta í sér heimild til að fela ábyrgðaraðila að gegna hlutverki stjórnar sé hún ekki kosin, svo og starfi framkvæmdastjóra eða fela öðrum það og rita firma félagsins. Ef ábyrgðaraðili félags er lögaðili kemur tiltekinn einstaklingur fram fyrir hönd þess. Áfrýjandi stundar fjárfestingarstarfsemi og var þessi heimild nýtt fyrir hann svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi.
25. Ábyrgðaraðili stefnda Arev verðbréfafyrirtækis hf. var Eignarhaldsfélagið LAGPNII ehf. sem síðar fékk nafnið Eignarhaldsfélagið ANIIGP ehf. Svo sem áður er getið var stefndi Jón eigandi þess félags og verður ráðið af gögnum málsins að hann hafi á vegum þess komið fram sem stjórnarmaður áfrýjanda. Á þeim grundvelli hefði hann getað fellt á sig skaðabótaskyldu gagnvart áfrýjanda með því að vanrækja þær skyldur sem á honum hvíldu. Eins getur sérfræðingur í því starfi sem stefndi Jón gegndi hjá stefnda Arev verðbréfafyrirtæki hf. bakað sér persónulega skaðabótaábyrgð gagnvart viðsemjanda fyrirtækisins vegna ráðgjafar sinnar eða ófullnægjandi þjónustu. Í hvorugu tilvikinu er hins vegar um að ræða skaðabótaábyrgð sem á rót að rekja til samnings í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007, enda átti stefndi ekki, eins og áður greinir, aðild að samningunum 20. febrúar og 28. mars 2014. Af því leiðir að um fyrningu ætlaðrar kröfu áfrýjanda á hendur stefnda Jóni fer eftir 1. mgr. sömu greinar. Samkvæmt því fyrnist slík krafa á fjórum árum frá þeim degi er áfrýjandi fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgð bar á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga.
26. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður fallist á þá niðurstöðu að vitneskja sem fjárfestingarráð áfrýjanda bjó yfir á fundi þess 30. september 2015 verði samsömuð vitneskju hans. Jafnframt verður fallist á að upplýsingarnar hafi verið þess eðlis að áfrýjanda hafi borið að afla sér frekari vitneskju um tjónið og þann sem ábyrgð bar á því, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007. Frá þeim tíma tók að líða fyrningarfrestur kröfunnar hvort sem hún er byggð á því að stefndi Jón hafi vanrækt skyldur sínar sem stjórnarmaður áfrýjanda eða þeirri persónulegu ábyrgð sem hann bar á störfum sínum sem sérfræðingur. Skaðabótakrafa áfrýjanda á hendur stefnda var því fyrnd þegar málið á hendur honum var höfðað 14. desember 2019.
Fyrning skaðabótakröfu á hendur stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf.
27. Þar sem kröfur áfrýjanda á hendur stefnda Arev verðbréfafyrirtæki hf. og Jóni eru fyrndar gildir það sama um kröfu á hendur stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf., sbr. 2. mgr. 52. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.
28. Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sýknu stefndu. Eftir atvikum er rétt að málskostnaður falli niður á öllum dómstigum.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um sýknu stefndu, Arev verðbréfafyrirtækis hf., Jóns Schevings Thorsteinssons og Sjóvá-Almennra trygginga hf., af kröfum áfrýjanda Arev NII slhf.
Málskostnaður á öllum dómstigum fellur niður.