Hæstiréttur íslands
Mál nr. 46/2023
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísun frá Hæstarétti
- Málskostnaður
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson.
2. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. október 2023 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 3. október 2023 í máli nr. 673/2023 þar sem úrskurður héraðsdóms um þóknun vegna vinnu varnaraðila sem skipaðs verjanda við rannsókn sakamáls var felldur úr gildi. Þess er krafist að lagt verði fyrir Landsrétt að kveða upp efnisúrskurð í málinu og að sóknaraðila verði gert að greiða sér kærumálskostnað fyrir Hæstarétti. Um kæruheimild vísar varnaraðili til a-liðar 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
3. Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
4. Í úrskurði Landsréttar kom fram að ekki væri tímabært að kveða á um þóknun sóknaraðila eins og gert var í úrskurði héraðsdóms enda væri málinu ekki lokið, sbr. 1. málslið 1. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008. Var um það vísað til dóms Hæstaréttar 5. maí 2008 í máli nr. 219/2008.
5. Heimildir til að kæra úrskurði Landsréttar í sakamálum til Hæstaréttar eru tæmandi taldar í 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 og verða þær skýrðar eftir orðanna hljóðan, sbr. meðal annars til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 30. maí 2018 í máli nr. 14/2018. Sú dómsúrlausn sem kæra varnaraðila lýtur að er úrskurður Landsréttar um að hafna því að honum verði ákveðin þóknun vegna starfa sem skipaður verjandi sakbornings áður en máli er lokið á grundvelli 3. málsliðar 2. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008. Úrskurð um slíkan ágreining er ekki heimilt að kæra til Hæstaréttar á grundvelli 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008. Af þeirri ástæðu verður málinu vísað frá Hæstarétti.
6. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.