Hæstiréttur íslands

Mál nr. 17/2024

Arnar Björnsson og Stefán Björnsson (Heiðar Ásberg Atlason lögmaður)
gegn
Birni Ólafi Ingvarssyni (Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Áfrýjunarfjárhæð
  • Frávísun frá Landsrétti staðfest

Reifun

Kærður var dómur Landsréttar þar sem máli A og S gegn B var vísað frá Landsrétti á þeim grunni að A og S hefðu ekki sýnt fram á að verðmæti þeirra hagsmuna sem um væri deilt í málinu svöruðu til áfrýjunarfjárhæðar. Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna niðurstöðu hins kærða dóms.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 26. mars 2024 en kærumálsgögn bárust réttinum 2. apríl sama ár. Kærður er dómur Landsréttar 15. mars sama ár þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Sóknaraðilar krefjast þess að hin kærða dómsathöfn verði felld úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála.

3. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða dóms og kærumálskostnaðar.

4. Með skírskotun til forsendna hins kærða dóms verður hann staðfestur.

5. Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði dómur er staðfestur.

Sóknaraðilar, Arnar Björnsson og Stefán Björnsson, greiði óskipt varnaraðila, Birni Ólafi Ingvarssyni, 400.000 krónur í kærumálskostnað.