Hæstiréttur íslands

Mál nr. 27/2022

Vátryggingafélag Íslands hf. og A (Heiðar Örn Stefánsson lögmaður)
gegn
B (Agnar Þór Guðmundsson lögmaður)

Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Miski
  • Uppgjör
  • Fyrirvari
  • Endurupptaka bótaákvörðunar
  • Matsgerð
  • Fyrning
  • Gjafsókn

Reifun

B slasaðist í umferðarslysi árið 2009 og fékk greiddar bætur úr ábyrgðartryggingu bifreiðar A hjá V hf. árið 2011 á grundvelli matsgerðar um varanlegan miska og varanlega örorku hans. Í kvittun lögmanns B um móttöku bóta þar sem kom fram að fullar og endanlegar bætur væru greiddar vegna slyssins var jafnframt ritað „Með fyrirvara um varanlegar afleiðingar slyssins“. B fór fram á endurupptöku málsins árið 2016 og voru dómkvaddir tveir matsmenn árið 2017 til að endurmeta afleiðingar slyssins. Í matsgerðum þeirra frá 2017 og 2018 kom fram að heilsa B hefði tekið ófyrirséðum breytingum til hins verra frá árinu 2011. B höfðaði mál þetta á árinu 2019. Hæstiréttur féllst á að fyrirvari B við upphaflegt bótauppgjör hefði gildi milli aðila og skapaði honum ríkari rétt en leiði af fyrirmælum 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Ætti B því rétt á endurupptöku bótaákvörðunar að því tilskildu að ófyrirsjáanlegar breytingar hefðu orðið á heilsufari hans sem yllu því að varanlegur miski hans eða varanleg örorka af völdum slyss yrði talin meiri en lá fyrrgreindri bótaákvörðun til grundvallar. Fallist var á þá niðurstöðu héraðsdóms sem staðfest var með hinum áfrýjaða dómi að ófyrirsjáanlegar breytingar hefðu orðið á heilsufari B til hins verra vegna afleiðinga slyssins árið 2009 og að þær hefðu verið réttilega metnar í matsgerðum dómkvaddra matsmanna. Féllst Hæstiréttur því á að B ætti á grundvelli fyrirvara síns við bótauppgjör rétt á að fá ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska og varanlega örorku tekna upp að nýju. Þá komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að B hefði fengið vitneskju um breytingar á heilsu sinni á árinu 2015 og upphaf fyrningarfrests samkvæmt 99. gr. þágildandi umferðarlaga nr. 50/1987 því miðað við áramótin 2015/2016. Hefði málið því verið höfðað innan fyrningarfrests með birtingu stefnu í desember 2019. Var staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að fallast á kröfur B á hendur V hf. og A.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 29. apríl 2022 og krefjast sýknu af öllum kröfum stefnda og málskostnaðar á öllum dómstigum.

3. Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Ágreiningsefni

4. Aðilar deila um hvort stefndi á rétt til endurupptöku bótaákvörðunar og frekari skaðabóta eftir fullnaðaruppgjör áfrýjandans Vátryggingafélags Íslands hf. 17. maí 2011 vegna líkamstjóns sem stefndi varð fyrir í umferðarslysi […] 2009. Í málinu er deilt um gildi og túlkun fyrirvara sem hann gerði við bótauppgjörið svo og hvort breyting á ástandi hans eftir það hafi verið ófyrirsjáanleg. Þá er ágreiningur um hvort krafa stefnda er fyrnd.

5. Með héraðsdómi 13. október 2020 var fallist á kröfu stefnda um greiðslu bóta frá áfrýjandanum Vátryggingafélagi Íslands hf. vegna hækkunar á miska- og örorkustigi frá því að uppgjör milli aðila fór fram. Með hinum áfrýjaða dómi Landsréttar 18. febrúar 2022 var sú niðurstaða staðfest með vísan til forsendna héraðsdóms.

6. Áfrýjunarleyfi í málinu var veitt 29. apríl 2022 með ákvörðun nr. 2022-37 á þeirri forsendu að dómur í því gæti haft fordæmisgildi um þýðingu fyrirvara við bótauppgjör.

Málsatvik

7. Stefndi lenti í umferðarslysi […] 2009 þegar pallbifreið var ekið harkalega á jeppabifreið sem hann ók. Stefndi leitaði á slysadeild Landspítalans 14. sama mánaðar og var greindur með tognun á hálshrygg. Vegna verkja og stífleika í hálsi og baki leitaði hann til heimilislæknis viku síðar, […]. Í samantekt vottorðs 8. júlí 2010 um ástand stefnda sagði svo: „Tognun á hálshrygg og brjósthrygg og auk þess grunur um vægt samfallsbrot á 8. hryggjarlið brjósthryggjar. Þá hefur sjúklingur fengið aukna verki í lendhrygginn eftir slysið og auk þess af og til verkjaleiðni niður í hægri fótlegginn.“ Haustið 2010 leitaði stefndi til bæklunarskurðlæknis vegna afleiðinga slyssins. Í samantekt hans 14. október sama ár kom fram að einkenni sem stefndi kvartaði undan í mjóbaki og hálshrygg samrýmdust tognunaráverka. Um fremur vægan tognunaráverka væri að ræða sem valdið hafi skertri starfsorku. Þá taldi hann að hluti einkenna kæmi til með að vera varanlegur en jafnframt taldi hann litla hættu á að þau myndu versna.

8. Stefndi er […] að mennt en á árunum 1999 til 2016 rak hann eigið fyrirtæki í […] ásamt öðrum manni og starfaði jafnframt við fyrirtækið.

9. Stefndi og áfrýjandinn Vátryggingafélag Íslands hf. óskuðu eftir mati C bæklunarskurðlæknis og D lögmanns á afleiðingum slyssins. Í matsgerð þeirra móttekinni 14. mars 2011 var um afleiðingar slyssins meðal annars vísað til fyrrgreinds vottorðs um ástand stefnda. Í henni var rakin lýsing stefnda á einkennum sínum á fundi með matsmönnum 10. desember 2010 þar sem læknisskoðun fór einnig fram. Stefndi lýsti þar verkjum í höfði og baki og að versti verkurinn væri frá baki neðan herðablaða. Vegna þeirra vaknaði hann um nætur og tæki verkjalyf og bólgueyðandi lyf. Höfuðverkinn sagði hann liggja eins og hjálm yfir höfðinu. Hann sagðist ekki lengur vera hjá sjúkraþjálfara og frekari þjálfun væri ekki ráðgerð. Stefndi sagðist ekki geta unnið langt fram á kvöld við […] í fyrirtæki sínu eins og áður og ætti einnig erfitt með að vinna upp fyrir sig, svo sem við uppsetningu á […] og stærri […].

10. Í niðurstöðu matsmanna kom fram að ólíklegt væri að einkenni sem rakin yrðu til slyssins og væru forsenda miskamats myndu minnka úr því sem komið væri. Þá töldu matsmenn að það varanlega líkamstjón sem slysið hefði valdið myndi leiða til þess að stefndi þyrfti að „slá af“ í störfum sínum í framtíðinni og því myndi að öllum líkindum fylgja tekjutap. Einnig væri vinnugeta hans og starfsorka til að vinna sem […] skert vegna afleiðinga slyssins. Niðurstaða matsgerðarinnar varð að varanlegur miski stefnda vegna slyssins væri 7 stig og varanlega örorka 10%.

11. Tjónið var gert upp við stefnda úr ábyrgðartryggingu ökutækisins […] hjá áfrýjandanum Vátryggingafélagi Íslands hf. 17. maí 2011. Í kvittun um móttöku bótanna kemur fram að fullar og endanlegar bætur séu greiddar vegna slyssins en jafnframt var að kröfu lögmanns stefnda ritað á kvittunina „með fyrirvara um varanlegar afleiðingar slyssins“.

12. Stefndi fór fram á endurupptöku málsins við áfrýjandann Vátryggingafélag Íslands hf. með tölvubréfi 10. ágúst 2016. Var sú beiðni studd þeim rökum að ófyrirsjáanlegar breytingar hefðu orðið á heilsu hans síðastliðin ár. Beiðninni fylgdi meðal annars vottorð heimilislæknis 23. júní sama ár um að ástand stefnda hefði versnað frá því að matsgerðin lá fyrir. Lýst var ítrekuðum komum hans á heilsugæslu frá 2011 til 2016 vegna verkja og stífleika í hálsi og baki. Hann hefði endurtekið verið í meðferð hjá sjúkraþjálfara og verið ávísað bólgueyðandi lyfjum og verkjalyfjum. Á síðustu mánuðum hefði hann ekki lengur treyst sér til vinnu við […] vegna bakverkja og var hann talinn óvinnufær til erfiðisvinnu. Áfrýjandinn Vátryggingafélag Íslands hf. hafnaði beiðni stefnda 1. september 2016.

13. Stefndi óskaði 17. maí 2017 eftir því að dómkvaddir yrðu tveir sérfróðir menn til að endurmeta afleiðingar slyssins. Dómkvaddir voru E bæklunarskurðlæknir og F lögmaður og dósent. Í matsgerð þeirra 15. október 2017 kom meðal annars fram að stefndi væri óvinnufær, með stöðuga verki milli herðablaða sem leiddu um allt bak og versnuðu við alla áreynslu. Hann upplifði dofa í fingurgómum og niður í vinstri ganglim. Hann væri oft með höfuðverk og andleg líðan hans oft slæm, einkum vegna þess að hann hefði árið 2016 þurft að selja fyrirtækið sem hann stofnaði og rak í mörg ár. Svefn hans væri truflaður vegna verkja, hann tæki verkjatöflur að staðaldri og sjúkraþjálfun gæfi ekki neinn varanlegan bata. Niðurstaða mats þeirra var að varanlegur miski samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 vegna slyssins væri nú hæfilega metinn 10 stig og varanleg örorka samkvæmt 5. gr. sömu laga væri 15%. Stefndi sendi áfrýjandanum Vátryggingafélagi Íslands hf. bótakröfu 9. nóvember 2017 vegna þeirrar hækkunar sem metin hafði verið í fyrrgreindri matsgerð.

14. Með tölvubréfi áfrýjandans Vátryggingafélags Íslands hf. 10. janúar 2018 til stefnda var greiðslu bóta hafnað. Af hálfu félagsins var vísað til þess að engin gögn lægju fyrir um hvernig ætti að skýra fyrrgreindan fyrirvara sem stefndi gerði við bótauppgjör árið 2011 um varanlegar afleiðingar slyssins en gera yrði kröfu um að slíkir fyrirvarar væru skýrir og ótvíræðir. Um það hvernig bæri að skýra fyrirvarann var síðan bent á eftirfarandi ummæli í dómi Hæstaréttar 20. febrúar 2014 í máli nr. 576/2013 þar sem hefði reynt á þýðingu sambærilegs fyrirvara við bótauppgjör:

Verður fyrirvarinn skýrður svo að áfrýjandi hafi með honum áskilið sér rétt til frekari bóta ef varanlegur miski eða varanleg örorka yrði meiri en talið var í áliti þeirra [...] vegna síðari breytinga. Eðli máls samkvæmt verður fyrirvarinn á hinn bóginn ekki skýrður svo að áfrýjandi hafi áskilið sér rétt til endurupptöku bótaákvörðunar vegna þess að matið, sem hún var reist á, kynni að vera rangt.

15. Sagði síðan í svari félagsins að í samræmi við niðurstöðu framangreinds dóms yrði fyrirvari stefnda skýrður á þá leið að hann hefði „áskilið sér rétt til frekari bóta ef varanlegur miski eða örorka yrði meiri en í fyrra mati vegna síðari breytinga“.

16. Enn fremur hafnaði áfrýjandinn Vátryggingafélag Íslands hf. frekari bótagreiðslum á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga enda væru tvíþætt skilyrði þeirrar lagaheimildar ekki uppfyllt. Ekki hefði tekist með matsgerðinni 15. október 2017 að sýna fram á og sanna ófyrirsjáanlegar breytingar á heilsufari stefnda og auk þess væru hvorki miskastig né örorkustig í nýrri matsgerð verulega hærra eins og 11. gr. áskilji

17. Með matsbeiðni 13. júní 2018 lagði stefndi eftirfarandi viðbótarspurningu fyrir hina dómkvöddu matsmenn: „Eru síðari breytingar á heilsufari matsbeiðanda orsök hærra mats á varanlegum miska og/eða varanlegri örorku en gengið var út frá í matsgerð C læknis og D lögmanns, dags. 14. mars 2011.“ Í matsgerð dómkvöddu matsmannanna 5. desember 2018 kom meðal annars fram að eftir 2014 hefði stefndi aftur farið að leita til heilsugæslulækna vegna versnandi bakverkja, sama eðlis og árin 2010 og 2011, og síðasta árið hefði ástandið versnað. Töldu matsmenn að verkir stefnda í baki og útlimum væru til komnir vegna þess að þeir verkir sem komu í kjölfar slyssins […] 2009 hefðu versnað og vegna fyrirsjáanlegrar öldrunar. Verkirnir hefðu verið nokkurn veginn þeir sömu allan tímann með dofatilfinningu í útlimi sem viðbót. Ekki hefði verið gert ráð fyrir þessari þróun í matsgerðinni frá 2011. Varð niðurstaðan því að síðari breytingar á heilsufari stefnda væru orsök hærra mats á varanlegum miska og varanlegri örorku en gengið var út frá í matsgerðinni 14. mars 2011.

18. Stefndi sendi þessa nýju matsgerð til áfrýjandans Vátryggingafélags Íslands hf. 13. desember 2018 og ítrekaði kröfu sína frá 9. nóvember 2017. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að félagið hafi brugðist sérstaklega við þeirri áréttingu. Mál þetta höfðaði stefndi síðan 2. desember 2019.

Niðurstaða

19. Ágreiningur í máli þessu er þríþættur. Í fyrsta lagi lýtur hann að því hvernig beri að skýra fyrirvara sem stefndi gerði við fyrrnefnt bótauppgjör 2011 sem byggðist á matsgerð um varanlegan miska og varanlega örorku og hvort ákvörðun um bætur skuli endurupptekin á grundvelli fyrirvarans. Í öðru lagi hvort sannað sé að heilsa stefnda hafi tekið ófyrirsjáanlegum breytingum til hins verra frá því að fyrrgreind matsgerð lá fyrir. Í þriðja lagi er deilt um hvort krafa stefnda sé fyrnd.

Um skýringu og gildi fyrirvara stefnda

20. Sú meginregla gildir í skaðabótarétti að hafi tjónþoli ekki gert fyrirvara við uppgjör skaðabóta geti hann almennt ekki krafist endurupptöku á bótaákvörðun nema að uppfylltum tvíþættum skilyrðum 11. gr. skaðabótalaga. Er þar áskilið annars vegar að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola og hins vegar að þær leiði til þess að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur þó verið litið svo á að þessi skilyrði girði ekki fyrir að tjónþoli geti gert fyrirvara við bótauppgjör þannig að hann njóti rýmri réttar til endurupptöku bótaákvörðunar en leiðir af 11. gr. laganna að því tilskildu að slíkir fyrirvarar séu skýrir og ótvíræðir, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 11. nóvember 2021 í máli nr. 21/2021.

21. Í nokkrum dómum réttarins hefur verið fjallað um réttaráhrif þess að tjónþoli geri almennan fyrirvara við mat á miska eða varanlegri örorku við uppgjör skaðabóta. Á það reyndi meðal annars í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 576/2013. Var slíkur fyrirvari skýrður svo að áfrýjandi í málinu hefði með honum áskilið sér rétt til frekari bóta ef varanlegur miski eða varanleg örorka yrði meiri en talið var í matsgerð sem lá bótauppgjöri til grundvallar vegna síðari breytinga. Eðli máls samkvæmt yrði fyrirvarinn ekki skýrður svo að áfrýjandi hefði áskilið sér rétt til endurupptöku bótaákvörðunar vegna þess að matið, sem hún var reist á, kynni að vera rangt. Til þessa dóms var vísað af hálfu áfrýjandans Vátryggingafélags Íslands hf. um hvernig bæri að skýra fyrirvara stefnda svo sem lýst var í lið 14 að framan.

22. Í síðari dómum Hæstaréttar hafa sambærilegir fyrirvarar af almennum toga verið skýrðir svo að tjónþoli hafi áskilið sér rétt til að krefjast frekari bóta ef síðar yrðu ófyrirséðar breytingar á heilsufari hans sem yllu því að varanlegur miski hans eða varanleg örorka af völdum slyss yrði talin meiri en lagt var til grundvallar í uppgjöri skaðabóta. Má um það meðal annars vísa til dóms 18. febrúar 2016 í máli nr. 391/2015 þar sem hafði verið gengið frá bótauppgjöri með „fyrirvara um mat á varanlegum afleiðingum“, svo og dóms 11. nóvember 2021 í máli nr. 21/2021 þar sem gerður hafði verið fyrirvari um rétt til frekari bóta yrði „varanleg örorka og/eða miski síðar metinn hærri en skv. álitsgerð örorkunefndar“. Í engum fyrrnefndra dóma var fyrirvari skýrður svo að ófyrirséðar breytingar þyrftu að leiða til þess að miskastig eða örorkustig yrði verulega hærra en áður var talið.

23. Áfrýjendur hafa í málatilbúnaði sínum vísað til þess að fyrirvari stefnda sé bæði óljós og almenns eðlis. Um einhliða yfirlýsingu sé að ræða sem túlka beri þröngt og er mótmælt þeirri fullyrðingu sem fram kemur í héraðsdómi að um samningsbundinn fyrirvara sé að ræða. Áfrýjandinn Vátryggingafélag Íslands hf. hafi þó talið sér óheimilt að hafna honum vegna leiðbeinandi tilmæla Fjármálaeftirlitsins nr. 3/2002 um rétt tjónþola til bótagreiðslu með fyrirvara.

24. Óumdeilt er að áfrýjandinn Vátryggingafélag Íslands hf. gerði ekki athugasemdir við fyrirvara stefnda við bótauppgjör. Hafa ber í huga að í leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 3/2002, sem félagið vísar til, er lýst því markmiði að tjónþoli fái greinargóðar upplýsingar um bótarétt sinn og í 1. gr. þeirra um upplýsingaskyldu er tekið fram að vátryggjandi skuli sjá til þess að tjónþolar fái fullnægjandi upplýsingar um bótarétt við gerð bótauppgjörs. Bar áfrýjandanum Vátryggingafélagi Íslands hf. samkvæmt þessu ekki aðeins að taka við fyrirvaranum heldur einnig að upplýsa stefnda þegar bótauppgjör fór fram um framangreinda afstöðu sína.

25. Enn fremur er vert að líta til þess að í samskiptum við stefnda 10. janúar 2018 skýrði áfrýjandinn Vátryggingafélag Íslands hf. fyrirvarann með þeim hætti að stefndi hefði áskilið sér rétt til frekari bóta ef varanlegur miski eða örorka yrði meiri en í fyrra mati vegna síðari breytinga með vísan til fyrrgreinds dóms Hæstaréttar í máli nr. 576/2013. Í þeim dómi er þó ekki tekið fram að breytingar þurfi að vera ófyrirsjáanlegar.

26. Stefndi hefur byggt á því frá upphafi að áfrýjandinn, Vátryggingafélag Íslands hf., sé bundinn af þessari afstöðu sinni þannig að ekki verði gerð krafa um það að metinn viðbótarmiski hans og varanleg örorka hafi verið ófyrirsjáanleg. Þótt áfrýjendur hafi ekki mótmælt framangreindri staðhæfingu stefnda sérstaklega fyrr en við málflutning fyrir Hæstarétti hafa þeir frá upphafi máls þessa fyrir dómi byggt meðal annars á því að fyrirvarann verði að skýra þannig að metnar breytingar til hins verra vegna afleiðinga slyssins verði að vera ófyrirsjáanlegar. Verður ekki talið að áfrýjendur séu bundnir af fyrrgreindu svari um skýringu fyrirvarans sem fram kom í tölvubréfi áfrýjandans Vátryggingafélags Íslands hf. til stefnda 10. janúar 2018 á þann hátt að þeir hafi ráðstafað sakarefninu með bindandi hætti. Í fyrrgreindu tölvubréfi var einnig tekið fram að félagið áskildi sér rétt til að hafa uppi allar þær málsástæður og lagarök sem því stæði til boða til viðbótar eða í stað þeirra sem kæmu fram í bréfinu.

27. Að öllu framangreindu virtu verður fallist á að fyrirvarinn sem stefndi gerði við bótauppgjörið 17. maí 2011 hafi gildi milli aðila og skapi honum ríkari rétt en leiðir af fyrirmælum 11. gr. skaðabótalaga. Á stefndi því rétt á endurupptöku bótaákvörðunar að því tilskildu að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsufari hans sem valda því að varanlegur miski hans eða varanleg örorka af völdum slyssins verður talin meiri en lá fyrrgreindri bótaákvörðun til grundvallar.

Um sönnun á ófyrirsjáanlegum breytingum á heilsufari stefnda

28. Áfrýjendur vísa til þess að bótauppgjör við stefnda hafi verið gert á grundvelli matsgerðar 14. mars 2011 sem aðilar hafi aflað sameiginlega. Engin ný einkenni hafi verið til staðar hjá stefnda samkvæmt síðari matsgerðum heldur hafi einkenni sem áður voru komin fram verið talin há stefnda meira en talið var þegar bótauppgjör fór fram 17. maí 2011, enda um hægfara þróun þeirra að ræða. Auk þess hafi ekki komið fram í síðari matsgerðum hvort hin meintu versnandi einkenni hafi verið ófyrirsjáanleg.

29. Í fyrri matsgerð dómkvaddra manna 15. október 2017, E og F, sem stefndi óskaði eftir til stuðnings kröfu sinni um endurupptöku bótaákvörðunar fór fram nýtt heildarmat á varanlegum afleiðingum líkamstjóns hans með þeirri niðurstöðu að varanlegar afleiðingar slyssins væru meiri en komið hefði fram í matsgerðinni frá 2011. Varanlegur miski var metinn 10 stig í stað 7 stiga áður og varanleg örorka 15% í stað 10% áður. Hins vegar skorti á að fram færi afmarkað mat á þeim breytingum sem orðið hefðu á miska og örorku stefnda frá matsgerðinni sem bótauppgjör var reist á, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 6. apríl 2017 í máli nr. 462/2016.

30. Í nýrri matsbeiðni, í kjölfar svars áfrýjandans Vátryggingafélags Íslands hf. 10. janúar 2018, setti stefndi fram þá viðbótarspurningu eina hvort síðari breytingar á heilsufari hans væru orsök hærra mats á varanlegum miska og/eða varanlegri örorku. Ekki voru gerðar athugasemdir af hálfu félagsins við efni þeirrar spurningar, svo sem fullt tilefni hefði verið til í ljósi síðari málatilbúnaðar þess fyrir dómstólum. Í matsgerðinni 5. desember 2018 komust sömu matsmenn að þeirri niðurstöðu að síðari breytingar á heilsufari stefnda væru orsök hærra mats á varanlegum miska og varanlegri örorku en gengið var út frá í matsgerðinni 14. mars 2011 og einnig tekið fram að „versnun á ástandi“ stefnda hefði ekki verið fyrirséð í matsgerðinni 2011.

31. Við aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi, þar sem einn þriggja dómenda var bæklunarskurðlæknir, komu hinir dómkvöddu menn til skýrslugjafar, staðfestu þar matsgerðir sínar og greindu nánar frá einstökum atriðum tengdum matinu, þar með talið hvort síðari breytingar á heilsu stefnda til hins verra hefðu verið ófyrirséðar við gerð fyrstu matsgerðarinnar frá árinu 2011. Í héraðsdómi kom fram að skilja yrði niðurstöðu matsmannanna þannig að breytingar sem hefðu orðið á heilsu stefnda og leiddu til þess að miskastig og örorkustig væri talið hærra en í því mati sem varð grundvöllur bótauppgjörsins 2011 hefðu þá verið ófyrirsjáanlegar. Þá var talið sannað að orsakasamband væri milli slyss stefnanda […] 2009 og þeirra versnandi einkenna sem greind væru í matsgerðinni 15. október 2017. Enn fremur var vísað til matsgerðarinnar 5. desember 2018 um að síðari breytingar á heilsufari stefnda væru orsök hærra mats á varanlegum miska og varanlegri örorku en gengið var út frá í matsgerðinni 2011. Var því fallist á kröfur stefnda.

32. Í hinum áfrýjaða dómi, þar sem einn dómenda var einnig sérfróður á sviði bæklunarskurðlækninga, var héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans. Fyrir Hæstarétti hefur ekkert komið fram sem hnekkt getur því sönnunarmati sem byggt var á í héraðsdómi. Er því fallist á þá niðurstöðu sem þar er lögð til grundvallar að orðið hafi ófyrirsjáanlegar breytingar á heilsufari stefnda til hins verra vegna afleiðinga slyssins […] 2009 og að þær auknu afleiðingar séu réttilega metnar í fyrrnefndum matsgerðum 15. október 2017 og 5. desember 2018.

33. Samkvæmt framangreindu á stefndi á grundvelli fyrirvara síns við bótauppgjör rétt á að fá ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska og varanlega örorku tekna upp að nýju.

Um fyrningu

34. Áfrýjendur byggja sýknukröfu sína einnig á því að krafa stefnda sé fallin niður fyrir fyrningu enda beri matsgerðum saman um að batahvörf hans hafi verið 11. júní 2010 og fjögurra ára fyrningarfrestur því hafist um áramótin 2010/2011.

35. Krafa stefnda sætir fyrningu samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 sem giltu á slysdegi. Samkvæmt því fyrnast kröfur á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar en þó í síðasta lagi tíu árum frá tjónsatburði

36. Í skýrslu dómkvadds manns fyrir héraðsdómi kom fram að á árinu 2015 hafi versnandi heilsufar stefnda verið orðið augljóst og hann hætt að vinna af þeim sökum á árinu 2016. Þá var staðfest með læknisvottorði 26. júní 2016 að heilsa stefnda hefði versnað verulega síðustu mánuði og hann orðið óvinnufær til fyrri starfa í maí sama ár.

37. Samkvæmt framangreindu hafði stefndi fengið vitneskju um breytingar á heilsu sinni á árinu 2015 og átti þess þá fyrst kost að leita fullnustu kröfu um frekari bætur. Upphaf fyrningarfrests samkvæmt 99. gr. umferðarlaga miðast af þeirri ástæðu við áramótin 2015/2016. Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu 2. desember 2019. Það var áður en tíu ár voru liðin frá tjónsatburði og innan fjögurra ára frá lokum þess árs sem stefnda mátti fyrst vera ljóst að hann ætti viðbótarkröfu, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 13. júní 2013 í máli nr. 9/2013 og 21. júní 2018 í máli nr. 598/2017.

38. Að framangreindu gættu verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að krafa stefnda, sem hann hefur uppi í máli þessu, hafi verið ófyrnd þegar málið var höfðað. Jafnframt er staðfest sú niðurstaða að krafa hans um vexti sem voru eldri en fjögurra ára þegar málið var höfðað sé fyrnd.

39. Samkvæmt því sem rakið hefur verið hér að framan er öllum málsástæðum áfrýjenda hafnað og hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

40. Eftir úrslitum málsins verður áfrýjendum gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti sem rennur í ríkissjóð. Um þann kostnað og gjafsóknarkostnað stefnda fer eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Vátryggingafélag Íslands hf. og A, greiði óskipt 1.000.000 króna í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, B, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns hans, Agnars Þórs Guðmundssonar, 1.000.000 króna.