Hæstiréttur íslands

Mál nr. 56/2025

Ákæruvaldið (Guðrún Sveinsdóttir saksóknari)
gegn
X (Almar Þór Möller lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara
  • Vanhæfi
  • Vitni

Reifun

Staðfestur var úrskurður Landsréttar þar sem hafnað var kröfu X um að Jóni Höskuldssyni Landsréttardómara yrði gert að víkja sæti í málinu.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Skúli Magnússon.

2. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. október 2025 en kærumálsgögn bárust réttinum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 7. október 2025 í máli nr. 830/2024 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að landsréttardómarinn Jón Höskuldsson viki sæti í málinu. Kæruheimild er í b-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

3. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og landsréttardómarinn Jón Höskuldsson víki sæti.

4. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Ágreiningsefni

5. Fyrir Hæstarétti er til úrlausnar hvort landsréttardómara hafi borið að víkja sæti vegna ákvörðunar um fyrirhugaða skýrslutöku af vitni við aðalmeðferð máls fyrir Landsrétti. Landsréttur hafnaði þeirri kröfu með hinum kærða úrskurði 7. október 2025.

Málsatvik

6. Með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 2. maí 2023 var varnaraðila gefið að sök brot í nánu sambandi og barnaverndarlagabrot með því að hafa, þriðjudaginn 12. nóvember 2019, á vegarkafla milli Kjalarness í Reykjavík og Hvalfjarðarganga í Hvalfirði, á alvarlegan hátt ógnað lífi, heilsu og velferð þáverandi eiginkonu sinnar er hann stóð utan við bifreið sem hún ók, slegið hana í andlitið með spjaldtölvu þar sem hún sat í ökumannssæti bifreiðarinnar með þeim afleiðingum að hún hlaut sár og eymsli á nefi og bólgu á vör. Í ákæru kom jafnframt fram að tvær nafngreindar dætur eiginkonunnar hefðu verið farþegar í bifreiðinni þegar framangreint brot átti sér stað og með því hefði varnaraðili beitt þær ógnunum og sýnt þeim vanvirðandi hegðun, yfirgang og ruddalegt athæfi. Brot varnaraðila var talið varða við 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

7. Með héraðsdómi var varnaraðili sakfelldur fyrir háttsemi gagnvart eiginkonu sinni sem heimfærð var til 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Háttsemi hans gagnvart eldri dóttur hennar var talin varða við 99. gr. barnaverndarlaga en hann var sýknaður af broti gegn yngri dótturinni. Ákvörðun um refsingu var frestað skilorðsbundið.

8. Málinu var áfrýjað til Landsréttar að fengnu áfrýjunarleyfi réttarins á grundvelli yfirlýsingar varnaraðila um áfrýjun. Undirbúningsþinghald fyrir aðalmeðferð var háð af fyrrnefndum landsréttardómara 26. ágúst 2025. Hvorki ákæruvald né varnaraðili óskuðu þar eftir að munnlegar skýrslur yrðu teknar fyrir Landsrétti. Var í þinghaldinu meðal annars fært til bókar að Landsréttur myndi ákveða hvort viðbótarskýrslutökur yrðu heimilaðar og þegar niðurstaða lægi fyrir yrði hún send málflytjendum. Í þinghaldi sem háð var næsta dag að málflytjendum fjarstöddum var tekin ákvörðun um að við aðalmeðferð yrðu spilaðar upptökur af framburði varnaraðila og A fyrir héraðsdómi, svo og af framburði dætranna í Barnahúsi. Í þinghaldi 4. september 2025, sem einnig var háð að málflytjendum fjarstöddum, tók sami dómari svofellda viðbótarákvörðun um tilhögun aðalmeðferðar: „1. Við aðalmeðferð málsins komi B fyrir dóm til skýrslugjafar. Við upphaf skýrslutöku verði spilaður framburður hennar í Barnahúsi.“

9. Í endurriti úr þingbók Landsréttar vegna fyrirtöku málsins 18. september 2025 segir: „Fyrirhugað var að aðalmeðferð málsins færi fram 9. september 2025 en í kjölfar ákvörðunar 4. september sama ár og vegna athugasemda verjanda um síðbúna ákvörðun réttarins varðandi skýrslugjöf brotaþolans B og til þess að það kæmi ekki niður á möguleikum hans til að halda uppi vörnum var með tölvubréfi Landsréttar 5. september 2025 tilkynnt að rétturinn hefði ákveðið að fresta aðalmeðferð málsins til dagsins í dag.“ Af hálfu varnaraðila var í þinghaldinu gerð krafa um að landsréttardómarinn Jón Höskuldsson viki sæti í málinu og fór málflutningur fram um þá kröfu. Svo sem áður greinir hafnaði Landsréttur kröfunni með hinum kærða úrskurði 7. október sama ár.

Röksemdir aðila

10. Í greinargerð varnaraðila til Landsréttar var meðal annars byggt á því að sá annmarki hefði verið á meðferð málsins við skýrslutöku af B í Barnahúsi að verjandi hans hefði ekki verið boðaður þangað til að gæta hagsmuna hans heldur annar lögmaður.

11. Ákæruvaldið hafði í greinargerð til Landsréttar lýst því yfir að það teldi ekki þörf á skýrslutökum við meðferð málsins fyrir Landsrétti. Það hefði í undirbúningsþinghaldi fyrir aðalmeðferð málsins 26. ágúst 2025 ítrekað að ekki væri þörf á viðbótarskýrslum og verjandi varnaraðila ekki óskað eftir að skýrslur yrðu teknar. Í samræmi við það hefði Jón Höskuldsson landsréttardómari tekið ákvörðun um sönnunarfærslu í þinghaldi daginn eftir sem eingöngu hefði lotið að því að framburður í héraði og Barnahúsi yrði spilaður við aðalmeðferðina.

12. Varnaraðili byggir á því að landsréttardómarinn Jón Höskuldsson hafi með ákvörðun sinni 4. september 2025, skömmu fyrir aðalmeðferð málsins, um að B gæfi munnlega skýrslu fyrir Landsrétti gripið fram fyrir hendur ákæruvalds og í reynd tekið sér stöðu með því við sókn málsins. Ekki hefði verið um að ræða tilmæli til ákæruvalds um að leiða vitni heldur ákvörðun dómarans um skýrslutöku fyrir Landsrétti þvert á skýra afstöðu ákæruvalds og verjanda varnaraðila um að ekki væri óskað eftir viðbótarskýrslum.

13. Varnaraðili telur að það gefi ríkt tilefni til vafa um hlutlægni Landsréttar, bæði út frá huglægum og hlutlægum mælikvarða, að dómarinn hafi að eigin frumkvæði freistað þess að lagfæra málatilbúnað ákæruvalds með þeim hætti sem gert hafi verið. Landsréttardómarinn sé því vanhæfur til að fara með málið á grundvelli g-liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008.

14. Af hálfu sóknaraðila er tekið undir allar forsendur í hinum kærða úrskurði fyrir þeirri niðurstöðu að hafna því að landsréttardómarinn Jón Höskuldsson víki sæti.

Niðurstaða

15. Eins og fyrr er lýst lýtur málatilbúnaður varnaraðila um ætlað vanhæfi landsréttardómarans Jóns Höskuldssonar fyrst og fremst að því að hann hafi brotið gegn þeim málsmeðferðarreglum laga nr. 88/2008 sem gilda um ákvarðanir um munnlega sönnunarfærslu við aðalmeðferð máls í Landsrétti, ákæruvaldinu í hag, með þeim hætti að með réttu megi draga í efa óhlutdrægni hans til að fara með málið, bæði út frá huglægum og hlutlægum mælikvarða.

16. Samkvæmt 1. mgr. 108. gr. laga nr. 88/2008 hvílir sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik sem telja má honum í óhag á ákæruvaldi. Í 1. mgr. 110. gr. sömu laga er kveðið á um að ákærandi afli sönnunargagna en ákærði geti einnig aflað þeirra telji hann ástæðu til. Er það því fyrst og fremst hlutverk ákæruvalds að afla þeirra sönnunargagna sem það telur nauðsynleg til sakfellingar samkvæmt ákæru.

17. Hvað sem þessu líður er dómara skylt að fylgjast með máli í öllum atriðum og kappkosta að við meðferð þess sé hið sanna leitt í ljós, þó að gættri jafnræðisreglu sakamálaréttarfars. Í samræmi við þetta er dómara rétt að beina því til ákæranda að afla gagna um tiltekin atriði ef hann telur það nauðsynlegt til að upplýsa mál eða skýra það, sbr. 2. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008. Afskipti dómara af sönnunarfærslu eru þó ekki takmörkuð við þetta heldur er í 3. mgr. greinarinnar mælt fyrir að hann geti meinað aðila um sönnunarfærslu ef hann telur bersýnilegt að atriði sem hann vill sanna skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar. Þessi ákvæði taka bæði til sýnilegra sönnunargagna og munnlegrar sönnunarfærslu. Frumkvæðisskylda dómara að þessu leyti endurspeglast einnig í skyldum hans við skýrslutökur eftir nánari fyrirmælum XVII. og XVIII. kafla laganna og eftir dómtöku máls samkvæmt 168. gr. þeirra. Ákvæðin taka til meðferðar sakamáls fyrir Landsrétti, sbr. 210. gr. laganna.

18. Landsréttur getur endurskoðað alla þætti sakamáls sem dæmt hefur verið í héraði. Í því skyni er meðal annars mögulegt að taka viðbótarskýrslur af ákærða og vitnum svo og leiða ný vitni, sbr. 3. mgr. 204. gr. og 2. mgr. 205. gr. laga nr. 88/2008. Þessi ákvæði laganna um atbeina dómara að sönnunarfærslu í sakamáli ber að skýra í ljósi fyrrgreindrar meginreglu laganna og nánari fyrirmæla þeirra um frumkvæðisskyldu dómara. Af því leiðir að í undirbúningsþinghaldi fyrir aðalmeðferð sakamáls í Landsrétti getur dómari bæði haft frumkvæði að sönnunarfærslu og meinað ákæruvaldi eða ákærða um sönnunarfærslu, sbr. 2. og 3. mgr. 110. gr. laganna. Í ákvörðun dómara um frekari sönnunarfærslu samkvæmt ákvæðum laganna getur þó aldrei falist annað og meira en tilmæli hans þar að lútandi til ákæruvalds. Er það þá undir ákæruvaldi komið hvernig það bregst við slíkum tilmælum dómara en það þarf að axla byrðina af því við sönnunarmat í endanlegri úrlausn réttarins ef ekki er orðið við þeim.

19. Að framangreindu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var fullt tilefni til þess frumkvæðis sem landsréttardómarinn Jón Höskuldsson hafði til þeirrar frekari sönnunarfærslu í málinu sem áður er lýst, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 17. september 2020 í máli nr. 54/2019. Er því fallist á með Landsrétti að dómsformaður hafi staðið að ákvörðun sinni um þetta atriði í samræmi við fyrirmæli laga nr. 88/2008.

20. Þótt varnaraðili telji á sig hallað með umræddri ákvörðun er ekkert fram komið um að dómaranum hafi gengið annað til en freista þess að leggja traustan grundvöll að endurskoðun Landsréttar á héraðsdómi í málinu. Að sama skapi var ákvörðun réttarins um að fresta aðalmeðferð málsins og gefa varnaraðila kost á að bregðast við ákvörðuninni til þess fallin að tryggja honum réttláta málsmeðferð. Verður því ekki fallist á með varnaraðila að með ákvörðun um fyrrnefnda skýrslutöku hafi dómarinn tekið sér stöðu með ákæruvaldinu, hvort heldur sem miðað er við huglægan eða hlutlægan mælikvarða.

21. Samkvæmt þessu eru ekki fyrir hendi atvik eða aðstæður sem eru fallin til að draga óhlutdrægni landsréttardómarans Jóns Höskuldssonar með réttu í efa, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.