Hæstiréttur íslands
Mál nr. 50/2024
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbú
- Opinber skipti
- Fyrirframgreiddur arfur
- Endurgreiðslukrafa
- Traustfang
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. september 2024 en kærumálsgögn bárust réttinum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 4. september 2024 þar sem staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að hafna kröfu sóknaraðila um að varnaraðilar greiði sóknaraðila fé sem svari til þess sem þau fengu sem fyrirframgreiddan arf umfram arfshluta sinn úr búi foreldra sinna.
3. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðilum verði gert að greiða sér eftirfarandi fjárhæðir: B 58.867.624 krónur, C og D hvorri um sig 59.311.821 krónu og E 60.924.030 krónur, allt með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. apríl 2022 til greiðsludags. Loks krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar fyrir Landsrétti og Hæstarétti óskipt úr hendi allra varnaraðila.
4. Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti.
5. Samkvæmt ákvörðun réttarins var málið munnlega flutt 12. mars 2025.
Ágreiningsefni
6. Sakarefni málsins lýtur að því hvort varnaraðilum beri að endurgreiða sóknaraðila fyrirframgreiddan arf sem þau fengu frá foreldrum sínum að því marki sem greiðslan var umfram arfshluta þeirra samkvæmt ákvæðum erfðalaga nr. 8/1962. Lýtur ágreiningurinn einkum að því hvort 32. gr. laganna girði fyrir að kröfunni verði beint að varnaraðilum.
7. Eins og áður greinir var kröfu sóknaraðila hafnað með úrskurði héraðsdóms 10. júlí 2024 og var sú niðurstaða staðfest með hinum kærða úrskurði.
8. Kæruleyfi í málinu var veitt 13. nóvember 2024, með ákvörðun réttarins nr. 2024-121, á þeim grunni að dómur í því kynni að hafa fordæmisgildi á sviði erfðaréttar, þar með talið um túlkun 32. gr. erfðalaga.
Málsatvik
9. Málsatvik eru skilmerkilega rakin í úrskurði héraðsdóms en verða hér rakin í megindráttum að því marki sem nauðsynlegt er fyrir úrlausn málsins.
10. A andaðist […] 2020 en hún sat í óskiptu búi með leyfi sýslumanns 10. mars 2017 eftir eiginmann sinn, I, sem andaðist […] sama ár. Hjónin áttu sex börn og eru varnaraðilar fjögur þeirra. Fimmta barn hjónanna var H en hann lést […] 2019. Börn hans eru F og G en þau eru skylduerfingjar föðurforeldra sinna, sbr. 2. mgr. 2. gr. erfðalaga. Sjötta barn hjónanna andaðist árið 1987 án þess að skilja eftir sig niðja. Dánarbú A var tekið til opinberra skipta með úrskurði héraðsdóms 12. apríl 2021.
11. Hjónin A og I gerðu með sér tvær sameiginlegar erfðaskrár. Í þeirri fyrri 16. júlí 1987 var mælt fyrir um að það þeirra sem lengur lifði skyldi hafa heimild til setu í óskiptu búi. Í þeirri seinni 16. nóvember 2010 sagði meðal annars að það þeirra sem lengur lifði skyldi hljóta í arf eftir hitt þriðjung allra eigna og meira ef sá hluti sem ráðstafa mætti með erfðaskrá yrði aukinn með breyttum lögum. Einnig var tekið fram að eftir lát þess langlífara skyldu búskipti, ef það sæti í óskiptu búi, fara eftir almennum reglum þannig að miðað væri við erfðaréttindi erfingja hvors um sig eins og þau væru við lát þess sem síðar deyr. Þá sagði í erfðaskránni að það hjóna sem lengur lifði mætti ekki ráðstafa með erfðaskrá eða dánargerningi eignum þeim sem það fengi með erfðaskránni þannig að það færi í bága við réttindi niðja þeirra. Loks var tekið fram að erfðaskránni gæti hvorugt hjóna breytt eða afturkallað án samþykkis hins.
12. Í úrskurði héraðsdóms er tafla yfir fyrirframgreiddan arf til varnaraðila og H á árunum 2010 til 2019. Samkvæmt því var nokkurn veginn gætt jafnræðis milli þeirra fram að fyrirframgreiddum arfi 2. nóvember 2016 þegar varnaraðilar fengu hvert um sig 100 milljónir króna en H fékk ekkert í sinn hlut. Eftir andlát I […] 2017 fengu varnaraðilar og börn eins þeirra tvívegis fyrirframgreiddan arf frá A. Í fyrra sinn 1. nóvember 2017 en þá var hlutur hvers þeirra 100 milljónir króna og í það síðara 1. júlí 2019 en þá var hlutur varnaraðila C, D og E 54.200.000 krónur til hvers þeirra. Þrjú börn varnaraðila B fengu í það sinn einnig arf samtals að sömu fjárhæð eða 18.066.666 krónur hvert. Samtals nam því fyrirframgreiddur arfur til annarra en H frá 2. nóvember 2016 samtals 1.016.800.000 krónum. Eftir þessar ráðstafanir var A nær eignalaus.
13. Eins og greinir í úrskurði héraðsdóms og nánar er rakið í úrskurði Landsréttar 7. nóvember 2023 í máli nr. 809/2023 var mál þetta í öndverðu ranglega borið undir dóm á grundvelli 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Eftir að málinu var vísað frá héraðsdómi af þeirri ástæðu var það að réttu lagi lagt fyrir dóm samkvæmt heimild í 1. mgr. 124. gr. laganna.
Málsástæður
Helstu málsástæður sóknaraðila
14. Sóknaraðili heldur því fram að niðurstaða hins kærða úrskurðar fari í bága við grundvallarreglur erfðaréttar og það markmið þeirra að óheimilt sé að hlunnfara skylduerfingja, hvort heldur með atbeina annarra erfingja eða ráðstöfun arfleifanda. Með öllu hafi verið horft fram hjá reglum I. kafla erfðalaga, reglum um skylduarf og takmarkaða arfleiðsluheimild samkvæmt 35. gr. laganna með því að arfláti hafi ráðstafað öllum eignum með fyrirframgreiðslu arfs.
15. Sóknaraðili bendir á að í hinum kærða úrskurði hafi verið vísað til dóms Hæstaréttar 8. mars 2017 í máli nr. 46/2017 til stuðnings því að hafna kröfu hans um endurgreiðslu. Sá dómur hafi ekki fordæmisgildi fyrir það mál sem hér er til úrlausnar enda séu atvik málanna frábrugðin í verulegum atriðum. Jafnframt bendir sóknaraðili á að í nefndum dómi vísi Hæstiréttur til þess að „aðrar ástæður“ geti leitt til þess að erfingi sem fengið hefur greitt umfram arfshluta sinn með fyrirframgreiddum arfi beri að endurgreiða búinu fjárhæð sem svari til ofgreiðslunnar.
16. Sóknaraðili byggir á því að skýra beri 32. gr. erfðalaga í ljósi fyrrgreindra grundvallarreglna erfðaréttar. Telur hann að í máli þessu hafi verið gengið svo á svig við reglur erfðaréttar að fyrir hendi séu ástæður sem valdi því að 32. gr. erfðalaga geti ekki girt fyrir að ráðstöfun arfláta með fyrirframgreiðslu arfs verði hnekkt. Í því sambandi bendir sóknaraðili á að niðurstaða hins kærða úrskurðar hindri ekki með nokkru móti að bú sé tæmt með því að ráðstafa eignum með fyrirframgreiðslu arfs og gera skylduerfingja með því arflausa. Í þessum efnum sé ófullnægjandi, eins og lagt hafi verið til grundvallar í hinum kærða úrskurði, að einungis þurfi að fullnægja því skilyrði að fram hafi komið skýr vilji arfláta um jafna skiptingu og að erfingi hafi tekið á sig sérstaka skuldbindingu um að standa skil á því sem hann hafi fengið umfram arfshluta sinn. Um fyrrnefnda atriðið tekur sóknaraðili fram að vilji foreldra varnaraðila liggi afdráttarlaust fyrir í sameiginlegri erfðaskrá þeirra 16. nóvember 2010. Hún hafi hvorki verið felld úr gildi né breytt með samþykki beggja eins og áskilið hafi verið í henni. Enn fremur vísar sóknaraðili til dóms Hæstaréttar 20. apríl 2012 í máli nr. 133/2012 þar sem fallist hafi verið á kröfu dánarbús um greiðslu fjárhæðar sem svaraði til ofgreiðslu á arfshluta sem greiddur hafði verið fyrir fram.
17. Þá reisir sóknaraðili kröfur sínar á því að varnaraðilar hafi verið grandsamir um að þau hafi með fyrirframgreiddum arfi fengið til sín langtum meira en arfstilkall þeirra stóð til. Því hafi þau ekki getað öðlast rétt fyrir traustfang á grundvelli 32. gr. erfðalaga. Enn fremur hafi faðir þeirra ekki verið heill heilsu andlega þegar hann stóð að fyrirframgreiðslu arfs 2. nóvember 2016 auk þess sem varnaraðilar B og C hafi á grundvelli umboðs frá foreldrum sínum 23. september 2015 getað haft áhrif á ráðstafanir þeirra.
Helstu málsástæður varnaraðila
18. Varnaraðilar vísa til þess að í málinu reyni á sömu málsástæður og í fyrrgreindum dómi réttarins í máli nr. 46/2017. Þar hafi því einnig verið haldið fram að ráðstöfun arfláta með fyrirframgreiddum arfi hafi farið í bága við erfðareglur og réttindi skylduerfingja og viðtakandi arfs verið grandsamur um að hafa fengið of mikið í sinn hlut. Dómurinn hafi því fullt fordæmisgildi í máli þessu. Aftur á móti hafi atvik verið verulega frábrugðin í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 133/2012 og því geti sá dómur ekki haft fordæmisgildi.
19. Varnaraðilar taka fram að skýra beri 32. gr. erfðalaga eftir orðanna hljóðan eins og tekið sé fram í dómi Hæstaréttar í máli nr. 46/2017. Með því ákvæði sé girt fyrir að erfingi sem fengið hefur í fyrirframgreiddan arf meira en nemur arfshluta hans verði endurkrafinn nema hann hafi tekið á sig slíka skuldbindingu. Undir það hafi þau ekki gengist og þegar af þeirri ástæðu beri að staðfesta hinn kærða úrskurð.
20. Um vilja foreldra sinna um skiptingu eigna taka varnaraðilar fram að hann verði glögglega ráðinn af gerðum þeirra. Þau hafi að eigin frumkvæði ráðstafað eignum sínum án þess að gera nokkurn áskilnað um að varnaraðilar tækjust á herðar skuldbindingu um að endurgreiða sóknaraðila fjárhæð sem var umfram arfshluta þeirra, en slíkt samþykki sé áskilið í 32. gr. erfðalaga.
21. Loks telja varnaraðilar að umboð foreldranna 23. september 2015 til varnaraðila B og C hafi ekkert með mál þetta að gera enda hafi foreldrar þeirra staðið sjálf að ráðstöfunum með fyrirframgreiddum arfi og undirritað erfðafjárskýrslur.
Niðurstaða
22. Samkvæmt 12. gr. erfðalaga hefur maki sem situr í óskiptu búi eignarráð á fjármunum þess. Á þeim grundvelli getur hann formlega staðið að ráðstöfun á eignum búsins, þar með talið fyrirframgreiddum arfi. Aftur á móti er maka óheimilt að misfara með eigur þess en við því getur erfingi brugðist með að freista þess að fá gjöf hrundið með dómi ef viðtakandi sá eða átti að sjá að gefandi sat í óskiptu búi og að gjöfin var úr hófi fram. Slíkt mál skal höfða áður en ár er liðið frá því að erfingi fékk vitneskju um gjöfina og þó ekki síðar en innan þriggja ára frá afhendingu hennar, sbr. 2. mgr. 15. gr. erfðalaga. Börn H sem taka arf eftir föðurforeldra sína, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna, og telja sig hafa verið hlunnfarin með fyrirframgreiðslu arfs til annarra en föður síns hafa ekki reynt að fá þessum ráðstöfunum hnekkt eftir þessari heimild en frestur til þess er liðinn.
23. Hafi erfingi fengið fyrirframgreiddan arf kemur hann til frádráttar erfðahlut hans þegar búið kemur til skipta eftir reglum 29. til 31. gr. erfðalaga. Hér gildir þó sú regla samkvæmt 32. gr. laganna að erfingi sem þannig hefur hlotið meira fé frá arfleifanda en nemur erfðahluta hans verður ekki skyldaður til að standa búinu skil á mismuninum nema hann hafi sérstaklega skuldbundið sig til þess. Eins og rakið er í úrskurði héraðsdóms gilti öndverð regla samkvæmt 1. mgr. 14. gr. eldri erfðalaga nr. 42/1949.
24. Með vísan til orðalags 32. gr. erfðalaga, forsögu þess og lögskýringargagna verður inntak ákvæðisins ekki skýrt með þeim hætti að í því felist traustfangsregla. Það getur því ekki skapað skyldu til endurgreiðslu þótt erfingi sem þegið hefur fyrirframgreiddan arf sé grandsamur um að arfurinn sé meiri en nemur arfshluta hans. Þá getur það heldur ekki skipt máli um skyldu til endurgreiðslu þótt vilji arfleifanda standi til þess að skipta arfi eftir erfðareglum enda er honum í lófa lagið að binda fyrirframgreiddan arf því skilyrði að sá sem við honum taki gangist undir skuldbindingu um að endurgreiða það sem kann að reynast umfram arfshluta hans. Að baki 32. gr. erfðalaga búa fyrst og fremst þau sanngirnisrök að erfingi sem fengið hefur fyrirframgreiddan arf, oft löngu fyrir andlát arfleifanda, þurfi ekki að gera ráð fyrir að verða að endurgreiða hluta hans jafnvel áratugum síðar. Er þá jafnframt haft í huga að fjárhagur arfláta getur tekið breytingum eftir fyrirframgreiðslu þannig að fjárhagur bús hans sé annar og lakari þegar skipti fara fram að honum látnum.
25. Fyrrgreind rök eiga þó ekki við í þessu máli enda voru nánast allir fjármunir arfleifenda greiddir út sem fyrirframgreiddur arfur skömmu fyrir andlát, í beinni andstöðu við skylduerfðareglur erfðalaga. Á hinn bóginn eru ekki efni til að skýra 32. gr. erfðalaga á annan veg en samkvæmt skýrum orðum ákvæðisins. Af því leiðir að erfingja sem ekki hefur sérstaklega skuldbundið sig til að endurgreiða ofgreiddan arfshluta verður ekki gert að inna slíka greiðslu af hendi.
26. Í málinu liggur fyrir að varnaraðilar gengust aldrei undir skuldbindingu um að endurgreiða fyrirframgreiddan arf sem þau fengu umfram erfðahluta sinn. Af þeirri ástæðu stendur fortakslaust ákvæði 32. gr. erfðalaga því í vegi að þau verði skylduð til að standa sóknaraðila skil á mismuninum. Er þess þá jafnframt að gæta að ósannað er, eins og að réttu lagi var lagt til grundvallar í úrskurði héraðsdóms, að hjónin hafi verið óhæf til að standa að slíkri ráðstöfun eða varnaraðilar hafi með ólögmætum hætti haft áhrif á þær ráðstafanir. Í því sambandi breytir engu umboð til tveggja varnaraðila til að fara með fjármál foreldra sinna enda stóðu hjónin sjálf að ráðstöfunum sínum um fyrirframgreiðslu arfs svo sem ráðið verður af undirritun þeirra á erfðafjárskýrslur. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður staðfestur um annað en kærumálskostnað fyrir Landsrétti.
27. Eftir atvikum er rétt að málsaðilar beri sinn kostnað af málinu á öllum dómstigum.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en kærumálskostnað fyrir Landsrétti.
Kærumálskostnaður fyrir Landsrétti og Hæstarétti fellur niður.