Hæstiréttur íslands
Mál nr. 12/2024
Lykilorð
- Lífeyrissjóður
- Lífeyrisréttur
- Örorkulífeyrir
- Börn
- Almannatryggingar
- Stjórnarskrá
- Mannréttindasáttmáli Evrópu
- Eignarréttur
- Meðalhóf
- Jafnræðisregla
- Réttmætar væntingar
- Viðurkenningarkrafa
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
- Gjafsókn
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Skúli Magnússon.
2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. febrúar 2024. Hann krefst þess að viðurkennt verði að stefnda hafi frá og með 1. janúar 2015 verið óheimilt að skerða örorkulífeyrisgreiðslur til áfrýjanda með því að telja honum til tekna barnalífeyri sem hann fékk greiddan frá Tryggingastofnun. Þá krefst áfrýjandi þess að viðurkennt verði að hann eigi kröfu um að stefnda sé skylt að greiða sér vangoldnar örorkulífeyrisgreiðslur frá og með 1. janúar 2015 sem séu til komnar vegna þess að stefndi taldi áfrýjanda til tekna barnalífeyri sem hann fékk greiddan frá Tryggingastofnun, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá og með gjalddögum hverrar vangoldinnar greiðslu. Áfrýjandi krefst einnig málskostnaðar úr hendi stefnda á öllum dómstigum án tillits til gjafsóknar sem áfrýjanda hefur verið veitt fyrir Hæstarétti.
3. Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur Landsréttar verði staðfestur og áfrýjandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað fyrir Hæstarétti.
Ágreiningsefni
4. Í málinu er deilt um lögmæti þess að stefndi skerti frá 1. september 2015 örorkulífeyrisgreiðslur til áfrýjanda vegna barnalífeyris sem Tryggingastofnun greiddi honum á sama tíma. Nánar tiltekið greinir aðila á um hvort þessi skerðing hafi átt sér viðhlítandi stoð í lögum og hvílt á málefnalegum ástæðum, svo og hvort staðið hafi verið að henni með réttum hætti með hliðsjón af eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Einnig er um það deilt hvort ákvörðunin hafi samrýmst rétti áfrýjanda samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og hvort sérstök sjónarmið gildi um barnalífeyri í ljósi réttindaverndar barna samkvæmt 3. mgr. sömu greinar.
5. Með dómi héraðsdóms 11. maí 2022 var fallist á kröfur áfrýjanda og talið að ákvörðun um að telja honum til tekna barnalífeyri, sem hann á þeim tíma fékk greiddan frá Tryggingastofnun, hefði verið ólögmæt. Með hinum áfrýjaða dómi Landsréttar 8. desember 2023 voru dómkröfur áfrýjanda teknar til greina fram til 14. mars 2016. Að öðru leyti var ekki fallist á kröfur hans, þar með talið var kröfu hans um viðurkenningu fyrningarslita vísað frá héraðsdómi.
6. Áfrýjunarleyfi var veitt 27. febrúar 2024, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2024-3, á þeim grunni að dómur í málinu kynni að hafa fordæmisgildi meðal annars um hvort heimilt sé að telja örorkulífeyrisþega til tekna barnalífeyri frá Tryggingastofnun við ákvörðun lífeyris úr lífeyrissjóði.
Málsatvik
7. Stefndi er lífeyrissjóður sem til varð við sameiningu Lífeyrissjóðs Austurlands og Lífeyrissjóðs Norðurlands árið 2007. Áfrýjandi hóf töku örorkulífeyris frá forvera stefnda, Lífeyrissjóði Norðurlands, 1. janúar 2000 samkvæmt úrskurði sjóðsins 29. maí sama ár. Á grundvelli þess úrskurðar fékk áfrýjandi meðal annars greiddan barnalífeyri frá stefnda.
8. Fyrir liggur að þann tíma sem áfrýjandi hefur þegið örorku- og barnalífeyri hafa samþykktir viðkomandi sjóða haft að geyma þá meginreglu að samanlagður örorkulífeyrir og barnalífeyrir nemi ekki hærri fjárhæð en svari til þess tekjumissis sem lífeyrisþegi hafi sannanlega orðið fyrir sökum örorku.
9. Samþykktum Lífeyrissjóðs Norðurlands var breytt árið 2006 og þá tekin upp í grein 19.3. nánari ákvæði um takmörkun örorkulífeyris. Var þá mælt fyrir um að tekjumissir sem réði fjárhæð bóta teldist vera „mismunur viðmiðunartekna [...] og heildartekna eftir að örorka hefur verið metin“. Jafnframt var þar tekið fram að „tekjur af lífeyris- og bótagreiðslum frá almannatryggingum og lífeyrissjóðum og kjarasamningsbundnum tryggingabótum vegna örorkunnar“ teldust til heildartekna. Samhljóða ákvæði voru tekin upp í samþykktir stefnda 2007 og nýjar samþykktir hans árið 2013, en síðastnefndu samþykktirnar voru í gildi þegar atvik máls þessa urðu.
10. Fram er komið að áfrýjandi hóf í kjölfar framangreindra breytinga á samþykktum sínum, eða á árinu 2008, að taka tillit til greiðslna frá almannatryggingum við útreikning tekna lífeyrisþega við ákvörðun lífeyris hans. Óumdeilt er hins vegar að fyrst í stað var ekki litið til barnalífeyris almannatrygginga við þá útreikninga. Sá barnalífeyrir sem áfrýjandi hafði notið frá Tryggingastofnun allt frá árinu 2000 leiddi því að svo stöddu ekki til lækkunar greiðslna hans frá stefnda.
11. Á árinu 2015 hóf störf Greiðslustofa lífeyrissjóða sem er þjónustuaðili níu lífeyrissjóða, þar á meðal stefnda, sbr. samstarfssamning 19. mars 2015. Í fundargerð ársfundar Greiðslustofunnar sem haldinn var sama dag er svofelld bókun undir lið 10: „Ákveðið var að barnalífeyrir almannatrygginga yrði framvegis tekinn með í tekjuathugun. Teknar verða með barnalífeyrisgreiðslur frá og með 1. janúar 2015.“
12. Með bréfi 19. ágúst 2015 tilkynnti Greiðslustofa lífeyrissjóða áfrýjanda um breytingu á greiðslu örorkulífeyris hans. Í bréfinu kom fram að réttur til lífeyrisins stofnaðist því aðeins að sjóðfélagi hefði orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutaps. Við útreikning væru sjóðfélaga reiknaðar svonefndar „viðmiðunartekjur“ sem tækju mið af meðaltekjum hans árin fyrir orkutapið og þær framreiknaðar til hvers árs samkvæmt neysluverðsvísitölu. Kom jafnframt fram að þessi meginregla sækti einnig stoð í 15. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Við samanburð á viðmiðunartekjum og tekjum áfrýjanda samkvæmt staðgreiðslu tímabilið „2014-08 til 2015-07“ hefði komið í ljós að uppreiknaðar tekjur hans hefðu á framangreindu tímabili verið að meðaltali 334.058 krónur á mánuði en uppreiknaðar meðaltekjur síðustu sex ára fyrir orkutap 306.587 krónur á mánuði. Tekjur sem hefðu áhrif á lífeyrisgreiðslur til áfrýjanda næmu 193.448 krónum. Af þessu leiddi að greiðslur til áfrýjanda vegna örorkulífeyris breyttust úr 132.805 krónum fyrir júlímánuð 2015 í 106.860 krónur. Breytingin kæmi til framkvæmda við greiðslu lífeyris fyrir næstkomandi september. Þá kom fram að tekjur áfrýjanda yrðu næst skoðaðar að þremur mánuðum liðnum. Ekki kom sérstaklega fram í bréfinu að framkvæmd hefði verið breytt á þá leið að nú væri einnig litið til barnalífeyris almannatrygginga við útreikning tekna lífeyrisþega.
13. Í kjölfar þessa áttu sér stað samskipti milli Öryrkjabandalags Íslands og Greiðslustofu lífeyrissjóða á tímabilinu 27. október til 4. nóvember 2015.
14. Með bréfi Greiðslustofunnar 18. nóvember 2015 var áfrýjanda tilkynnt um nýjan samanburð viðmiðunartekna og raunverulegra tekna. Sá samanburður fyrir tímabilið „2014-11 til 2015-10“ hefði leitt í ljós að uppreiknaðar tekjur næmu að meðaltali 367.360 krónum á mánuði samanborið við uppreiknaðar meðaltekjur, samtals 309.523 krónur. Tekjur sem hefðu áhrif á lífeyrisgreiðslur væru 229.770 krónur. Þetta leiddi til þess að greiðslur úr lífeyrissjóði fyrir októbermánuð lækkuðu úr 107.883 krónum í 75.327 krónur. Breytingin kæmi til framkvæmda við greiðslu lífeyris fyrir desember.
15. Á stjórnarfundi stefnda 14. mars 2016 var málið tekið fyrir og eftirfarandi bókað:
Framkvæmdastjóri lagði fram tölvupóst þar sem fram kom að á ársfundi Greiðslustofu Lífeyrissjóðanna (GL) 19. mars 2015 var samþykkt að taka barnalífeyri almannatrygginga með í tekjuathugun hjá GL frá og með 1. janúar 2015. Framkvæmdastjóri lagði fram tvö lögfræðiálit sem stangast á varðandi það hvort telja skuli barnalífeyri með tekjum lífeyrisþega eða ekki. Nokkrar umræður voru um málið þar sem fram kom að TR telur barnalífeyri lífeyrissjóðanna með í sínum tekjuathugunum. Stjórn staðfesti ákvörðun GL.
16. Með tölvubréfi 8. janúar 2019 svaraði stefndi fyrirspurn lögmanns áfrýjanda 18. desember 2018 þar sem kallað var eftir upplýsingum um þá heildarskerðingu sem stefndi hefði þurft að sæta við það að barnalífeyrir almannatrygginga hefði haft áhrif á útreikning tekjumissis. Kom fram í svari áfrýjanda að sú skerðing hefði numið 537.614 krónum og dreifst á tuttugu mánaða tímabil frá 1. september 2015 til 1. nóvember 2017. Er miðað við þessar tölur við úrlausn málsins enda ekki tölulegur ágreiningur í málinu.
17. Mál þetta höfðaði áfrýjandi 18. desember 2018. Dómur gekk í héraði 5. febrúar 2020 þar sem stefndi var sýknaður af öllum kröfum áfrýjanda. Áfrýjandi skaut málinu til Landsréttar sem með dómi 4. júní 2021 ómerkti héraðsdóm og vísaði málinu heim í hérað. Dómur gekk öðru sinni í málinu í héraði 11. maí 2022 og voru kröfur áfrýjanda þá að fullu teknar til greina. Málinu var skotið til Landsréttar sem með dómi 8. desember 2023 tók kröfur áfrýjanda til greina að hluta. Var þá miðað við að hin umþrætta skerðing hefði öðlast lögmæti með staðfestingu stjórnar stefnda 14. mars 2016 á ákvörðun Greiðslustofu lífeyrissjóða. Að öðru leyti var ekki fallist á dómkröfur áfrýjanda og kröfu hans um viðurkenningu fyrningarslita vísað frá héraðsdómi svo sem fyrr greinir.
Málsástæður
Helstu málsástæður áfrýjanda
18. Áfrýjandi byggir málatilbúnað sinn á því að sú framkvæmd stefnda að skerða örorkulífeyrisgreiðslur til áfrýjanda með því að taka tillit til greiðslna barnalífeyris frá Tryggingastofnun hafi verið ólögmæt frá upphafi. Á henni séu ágallar bæði að formi og efni.
19. Óumdeilt sé að virk réttindi áfrýjanda hjá lífeyrissjóði njóti verndar sem eignarréttindi samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þá þurfi einnig að hafa í huga við útfærslu örorkulífeyrisréttinda sjóðfélaga samkvæmt lögum nr. 129/1997 að markmið þeirra sé meðal annars að tryggja þeim sem þess þurfa aðstoð vegna örorku og elli og tryggja þannig réttindi sem kveðið er á um í 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar.
20. Þótt viðurkennt hafi verið í dómaframkvæmd að lífeyrissjóðir njóti ákveðins svigrúms innan marka stjórnarskrár og laga nr. 129/1997 takmarkist það við að skerðing lífeyrisgreiðslna sé málefnaleg og gætt sé jafnræðis og meðalhófs. Í þessu sambandi hafi dómstólar meðal annars talið málefnalegt að lífeyrissjóðir takmarki greiðslur til sjóðfélaga þannig að tekjur þeirra, sem beinlínis eru til komnar vegna örorku, verði ekki hærri en framreiknaðar atvinnutekjur fyrir orkutap. Við mat á því hvort lífeyrissjóðir hafi gætt meðalhófs við breytingar á reglum sínum hafi dómstólar meðal annars litið til þess hversu íþyngjandi þær væru.
21. Stefnda hafi, líkt og öðrum lífeyrissjóðum, borið að uppfylla tiltekin lágmarksskilyrði við skerðingu á réttindum sjóðfélaga. Nauðsynlegt hafi verið að leggja viðhlítandi grunn að ákvörðun um skerðingu þeirra og ríkar skyldur hvílt á honum að vanda til málsmeðferðar. Undirbúningur hefði þurft að fela í sér rannsókn á því hvort málefnaleg sjónarmið væru til staðar svo að lögmætt væri að skerða réttindin. Þá hafi stefnda borið að rannsaka hvaða hópur yrði fyrir skerðingu og leggja mat á hvort jafnræðis og meðalhófs væri gætt. Einungis að þessum lágmarksskilyrðum uppfylltum hefði stefnda verið heimilt að skerða réttindi áfrýjanda. Engin tryggingafræðileg athugun á fjárhagsstöðu sjóðsins eða önnur slík forsenda hafi legið til grundvallar ákvörðun stefnda. Þá hafi stefndi ekki rökstutt ákvörðun sína. Hún hafi eingöngu byggst á því almenna markmiði að lækka greiðslubyrði og skuldbindingar stefnda.
22. Áfrýjandi telur skerðinguna ekki eiga sér stoð í grein 19.3. í samþykktum stefnda. Þótt bætt hafi verið við samþykktir árið 2006 heimild til að líta til bótagreiðslna frá almannatryggingum við tekjuútreikning og sú breyting komið til framkvæmda árið 2008 hafi stefndi ekki litið til barnalífeyris almannatrygginga við tekjuútreikning fyrr en á árinu 2015 eða níu árum eftir að ætluð heimild kom inn í samþykktir. Ljóst sé að komin hafi verið á fastmótuð framkvæmd við tekjuútreikning. Lítur áfrýjandi svo á að til að hrófla við henni hefði þurft að breyta samþykktum stefnda. Ákvörðun stjórnar sjóðsins hafi ekki verið fullnægjandi í því tilliti.
23. Áfrýjandi vísar einnig til þess að þegar lífeyrisréttindi hafi verið ákvörðuð og virkjuð hafi sá sem veitir réttindin ekki lengur óheftan ráðstöfunarrétt yfir þeim. Þegar úrskurðað hafi verið um lífeyri áfrýjanda hafi stofnast virk eignarréttindi hans sem njóti sem fyrr segir verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Svigrúm lífeyrissjóðs til að breyta virkum réttindum sé minna en ella. Í samræmi við framangreint telur áfrýjandi að breyting stefnda á útreikningi tekna hafi í reynd verið afturvirk og íþyngjandi. Með henni hafi verið brotið gegn eignarrétti áfrýjanda auk þess sem stjórnarskrárvarinn réttur hans til aðstoðar hafi verið skertur. Er í því sambandi einnig vísað til þess að það leiði af 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar að aðstoð vegna örorku geti ekki verið háð geðþótta hverju sinni.
24. Þá byggir áfrýjandi á því að réttur til barnalífeyris annars vegar og örorkulífeyris hins vegar sé ólíks eðlis. Sú afstaða komi meðal annars fram í löggjöf þar sem mælt sé sjálfstætt fyrir um þessi réttindi án þess að þau séu tengd og skert á þann hátt sem stefndi hafi gert. Hvorki lög nr. 129/1997 né lög nr. 100/2007 um almannatryggingar hafi að geyma vísbendingu um að slíkt sé heimilt. Af þeim sökum falli barnalífeyrir ekki undir þær greiðslur sem málefnalegt sé að líta til við skerðingu örorkulífeyris úr lífeyrissjóði. Þótt barnalífeyrir sé greiddur til foreldris, annars forráðamanns eða þess sem hafi barn á framfæri sínu sé greiðslunum ætlað að tryggja hagsmuni barns en ekki foreldris. Einstaklingur sem taki við barnalífeyri geri það í raun fyrir hönd barns og sé honum ætlað að ráðstafa þessum fjármunum í þágu þess. Greiðsla barnalífeyris samkvæmt lögum nr. 100/2007 sé liður í þeirri réttindavernd barna sem kveðið sé á um í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Með skerðingunni sé sú réttindavernd hins vegar fyrir borð borin enda séu tekjur einstaklings þá í reynd skertar vegna greiðslna sem ætlaðar séu barni, sbr. einnig 40. gr. laga nr. 100/2007. Umrædd tilhögun eigi sér því ekki lagastoð. Þá geti skerðing sem hafi slíkar afleiðingar aldrei talist málefnaleg. Áfrýjandi telur að í raun hafi breyting stefnda á útreikningi örorkulífeyrisgreiðslna þannig leitt til afnáms réttar áfrýjanda til barnalífeyris samkvæmt almannatryggingalögum og jafngildi því að stefndi hafi eignað sér þessar bætur án lagaheimildar.
25. Áfrýjandi bendir á að atvik í dómi Hæstaréttar 17. desember 2009 í máli nr. 665/2008, sem Landsréttur leggi til grundvallar úrlausn sinni, séu í veigamiklum atriðum frábrugðin atvikum máls þessa. Í dómi Hæstaréttar í fyrrnefnda málinu hafi skerðingu réttinda verið komið á með breytingu á samþykktum hlutaðeigandi lífeyrissjóðs og ákvörðun þess efnis tekin á aðalfundi hans. Einnig hafi verið um að ræða breytingu sem náði til allra sem nutu örorkulífeyrisgreiðslna andstætt atvikum þessa máls þar sem fyrir liggi að áfrýjandi og aðrir í sambærilegri stöðu séu lítill hópur sjóðfélaga. Loks hafi sú skerðing sem um ræddi í fyrrgreindum dómi byggst á slæmri fjárhagslegri stöðu sjóðsins. Til grundvallar henni hafi legið rannsókn og undirbúningur sem byggðist á sérfræðigögnum. Í máli þessu hafi ákvörðun um að skerða réttindi áfrýjanda hvorki byggst á slæmri né versnandi fjárhagsstöðu sjóðsins.
Helstu málsástæður stefnda
26. Fyrir Hæstarétti hefur stefndi fallist á þá niðurstöðu Landsréttar að stjórn sjóðsins hafi þurft að ákveða umrædda skerðingu. Sú ákvörðun hafi verið tekin á stjórnarfundi 14. mars 2016 með því var staðfest ákvörðun ársfundar Greiðslustofu lífeyrissjóða 19. mars 2015. Stefndi byggir á því að frá og með stjórnarfundinum teljist umrædd skerðing lögmæt. Tekur kröfugerð hans fyrir Hæstarétti mið af þessu.
27. Stefndi vísar til þess að samkvæmt 15. gr. laga nr. 129/1997 eigi sjóðfélagi rétt á örorkulífeyri verði hann fyrir orkutapi sem metið sé 50% eða meira hafi hann greitt í lífeyrissjóð í að minnsta kosti tvö ár og orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Örorkulífeyri sé því ætlað að bæta sjóðfélaga tekjumissi vegna orkutaps. Af þeim sökum eigi örorkulífeyrir ekki að vera hærri en sem nemi þeim tekjumissi sem sjóðfélagi hafi orðið fyrir í reynd. Í ákvæðinu sé ekki mælt fyrir um hvernig skuli meta þann tekjumissi sjóðfélaga. Þvert á móti sé þar gert ráð fyrir að lífeyrissjóðir hafi verulegt svigrúm til að útfæra reglur þar um í samþykktum sínum. Þannig segi í 7. mgr. 15. gr. laganna að frekari ákvæði um örorkulífeyri, svo sem örorkumat, fjárhæð örorkulífeyris, útreikning og skilyrði fyrir greiðslu skuli sett í samþykktir lífeyrissjóðs.
28. Stefndi telur að ekki sé nægilegt að taka aðeins tillit til þeirra sem þegar séu byrjaðir að taka lífeyri heldur verði stefndi að tryggja hag allra sjóðfélaga sinna til framtíðar. Hafi stefndi því leitast við að taka mið af þeim hagsmunum við ákvörðun um lífeyrisgreiðslur og útfærslu reglna þar um í samþykktum sínum. Um þetta atriði vísar stefndi til 27. gr. laga nr. 129/1997 þar sem fram komi að samþykktir lífeyrissjóðs skuli miðaðar við að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar. Einnig vísar stefndi til 1. mgr. 39. gr. laganna um að hrein eign lífeyrissjóðs til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda skuli vera jafnhá núvirði væntanlegs lífeyris vegna þegar greiddra iðgjalda og framtíðariðgjalda. Þá bendir stefndi á að samkvæmt grein 2.4 í samþykktum hans, sem í gildi voru er atvik máls þessa urðu, legði stefndi sérstaka áherslu á ellilífeyristryggingar. Heimildir til að skerða örorkulífeyrisréttindi séu þannig rýmri en heimildir til að skerða ellilífeyri.
29. Stefndi telur jafnframt að sjóðfélagar geti ekki vænst þess að réttindi þeirra haldist að öllu leyti óbreytt. Breytingar þær sem um ræði í þessu máli hafi verið reistar á málefnalegum ástæðum, jafnræðis hafi verið gætt sem og meðalhófs. Þær hafi verið framvirkar og tekið til áfrýjanda vegna þess að tekjur hans hafi verið hærri en framreiknaðar viðmiðunartekjur.
30. Um rétt örorkulífeyrisþega til barnalífeyris frá Tryggingastofnun sé fjallað í 20. gr. laga nr. 100/2007. Þar komi fram að barnalífeyrir sé greiddur með börnum yngri en 18 ára sé annað hvort foreldra örorkulífeyrisþegi eða látið. Séu báðir foreldrar látnir eða örorkulífeyrisþegar skuli greiddur tvöfaldur barnalífeyrir. Barnalífeyrir greiðist foreldrum barna enda séu þau á framfæri þeirra eða öðrum þeim er annast framfæri þeirra að fullu, sbr. 5. mgr. 20. gr. laganna. Af 20. gr. laga nr. 100/2007 leiði því að það sé grundvallarskilyrði fyrir greiðslu barnalífeyris að annaðhvort foreldri barns eða þeir báðir séu öryrkjar eða látnir. Að öðrum kosti stofnist ekki réttur til barnalífeyris frá Tryggingastofnun. Verði því að telja að greiðslur barnalífeyris frá stofnuninni séu beinlínis til komnar vegna örorku og séu til þess fallnar að auka ráðstöfunartekjur viðkomandi. Telur stefndi að það horfi til jafnræðis gagnvart öðrum sjóðfélögum sem ekki þiggja barnalífeyri að litið sé til hans við tekjuathuganir enda sé hann fólki frjáls til ráðstöfunar líkt og aðrar tekjur. Óeðlilegt væri ef ekki væri litið til barnalífeyris þar sem aðrar greiðslur almannatrygginga teljist almennt til tekna og skerði rétt til örorkulífeyris.
31. Stefndi mótmælir því að um afturvirka skerðingu hafi verið að ræða og bendir á að samkvæmt upphaflegri ákvörðun ársfundar Greiðslustofu lífeyrissjóða 19. mars 2015 skyldi barnalífeyrir frá Tryggingastofnun framvegis vera tekinn með við tekjuathuganir. Hafi þar verið ákveðið að litið yrði til greiðslna barnalífeyris frá og með 1. janúar 2015 og þetta komið til framkvæmda í september 2015. Meðalhófs hafi því verið gætt. Þá hafi ákvörðun Greiðslustofu verið staðfest af stjórn lífeyrissjóðsins 14. mars 2016.
32. Þá telur stefndi að túlka beri grein 19.3. í samþykktum sjóðsins þannig að greiðsla barnalífeyris samkvæmt almannatryggingalögum falli þar undir enda séu slíkar greiðslur ekki sérstaklega undanskildar. Stefndi leggur áherslu á að hann sé sameignarsjóður sem njóti ekki bakábyrgðar og beri að tryggja hag allra sjóðfélaga sinna til framtíðar. Veruleg aukning útgjalda í flokki örorkulífeyrisgreiðslna á árunum fyrir 2006 hafi orðið til þess að grein 19.3. hafi verið tekin upp í samþykktir stefnda. Frá árinu 2008 hafi verið litið til lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum við tekjuathuganir í tengslum við greiðslu örorkulífeyris. Frá árinu 2015 hafi einnig verið litið til barnalífeyris almannatrygginga við slíkar tekjuathuganir en þá hafi fyrst fengist aðgangur að nauðsynlegum upplýsingum til þess að slíkt væri mögulegt. Stefndi telur að það hafi verið í þágu réttmætis og meðalhófs að greiðslur til áfrýjanda hafi verið færðar til samræmis við lög og samþykktir stefnda.
33. Stefndi hafnar því að með hinni breyttu framkvæmd hafi hann afnumið rétt áfrýjanda til barnalífeyris frá Tryggingastofnun í andstöðu við 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Vísar hann til þess að af 1. gr. laga nr. 129/1997 leiði að aðild að lífeyrissjóðum sé einungis bundin við þá einstaklinga sem hafi verið á vinnumarkaði. Fjölmargir þurfi því að reiða sig eingöngu á almannatryggingakerfið og eigi engan eða afar takmarkaðan rétt til greiðslna frá lífeyrissjóðum. Samkvæmt þessu sé ljóst að það séu lífeyristryggingar almannatrygginga sem séu öryggisnetið sem mælt sé fyrir um í 76. gr. stjórnarskrárinnar en ekki hinir almennu lífeyrissjóðir. Þótt löggjafinn hafi mælt fyrir um skylduaðild að lífeyrissjóðum sem eigi að tryggja einstaklingum framfærslu og létta á almannatryggingakerfinu breyti það því ekki að því sé ætlað að tryggja öllum lágmarksframfærslu ef annað bresti og fullnægi þannig kröfum 76. gr. stjórnarskrárinnar.
34. Að lokum vísar stefndi til þess að eignarréttarvernd 72. gr. stjórnarskrárinnar komi ekki í veg fyrir að honum sé heimilt að skerða rétt sjóðfélaga til örorkulífeyris. Tilgangur hans sé að gera áfrýjanda eins settan og ef orkutap hefði ekki orðið. Ástæða skerðingar lífeyris áfrýjanda hafi verið sú að tekjur hans voru í raun hærri en framreiknaðar viðmiðunartekjur. Áfrýjandi hafi því fyrir þá breytingu sem gerð var við útreikning tekna hans fengið greiðslur umfram það sem hann átti rétt á. Skipti í því sambandi ekki máli hvort réttindin hafi verið áunnin. Með vísan til fyrrgreindra ákvæða 15. og 27. gr. laga nr. 129/1997, greinar 19.3. í þágildandi samþykktum stefnda og hlutverks stefnda sem lífeyrissjóðs sé ótvírætt að réttindi sjóðfélaga geti tekið breytingum.
Löggjöf
35. Stefndi starfar á grundvelli laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Í 1. mgr. 1. gr. laganna kemur fram að þau gildi um alla lífeyrissjóði og samninga um tryggingavernd eins og nánar sé kveðið á um í lögunum. Þá segir í 1. mgr. 13. gr. að með iðgjaldagreiðslum til öflunar lífeyrisréttinda í sameign ávinni sjóðfélagi sér og maka sínum og börnum eftir því sem við á rétt til ellilífeyris, örorkulífeyris og maka- og barnalífeyris sem sé ekki lakari en sá réttur sem kveðið sé á um í III. kafla laganna. Þá skuli í samþykktum lífeyrissjóðs kveðið nánar á um ávinnslu réttinda.
36. Í 15. gr. laganna kemur eftirfarandi meðal annars fram um tekjuskerðingu örorkulífeyris:
Sjóðfélagi á rétt á örorkulífeyri ef hann verður fyrir orkutapi sem metið er 50% eða meira, hefur greitt í lífeyrissjóð í a.m.k. tvö ár og orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins.
Örorkulífeyrir skal framreiknaður samkvæmt reglum sem nánar er kveðið á um í samþykktum, enda hafi sjóðfélagi greitt til lífeyrissjóðs í a.m.k. þrjú ár á undanfarandi fjórum árum, þar af a.m.k. sex mánuði á síðasta tólf mánaða tímabili, og ekki orðið fyrir orkutapi sem rekja má til ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna.
[…]
Í samþykktir lífeyrissjóðs skulu sett frekari ákvæði um örorkulífeyri, svo sem um örorkumat, fjárhæð örorkulífeyris, útreikning og skilyrði fyrir greiðslu hans.
37. Í 1. mgr. 27. gr. kemur fram að samþykktir lífeyrissjóðs skuli við það miðaðar að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar. Í 2. mgr. er mælt fyrir um hvað skuli koma fram í samþykktum og er í 8. tölulið meðal annars tilgreint eftirfarandi:
Réttindi sjóðfélaga eða aðstandenda þeirra til lífeyris, hvernig útreikningi þessara réttinda skuli háttað og hver séu nánari skilyrði lífeyrisréttar. Þá skal og kveðið á um framkvæmd lífeyrisgreiðslna.
38. Í 28. gr. laganna segir jafnframt um breytingar á samþykktum:
Allar breytingar á samþykktum lífeyrissjóðs skal tilkynna ráðherra og öðlast þær ekki gildi fyrr en ráðherra hefur staðfest að þær fullnægi ákvæðum laga þessara og ákvæðum gildandi samþykkta fyrir lífeyrissjóðinn að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins. Jafnframt skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um breytingar á stjórn, framkvæmdastjóra, endurskoðanda, aðila sem annast innri endurskoðun og tryggingafræðingi lífeyrissjóðs.
39. Í 39. gr. laganna kemur enn fremur fram að hrein eign lífeyrissjóðs til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda skuli vera jafnhá núvirði væntanlegs lífeyris vegna þegar greiddra iðgjalda og framtíðariðgjalda. Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að meira en 10% munur sé á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga sé hlutaðeigandi lífeyrissjóði skylt að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum. Þá eigi sama við ef munur á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga hefur haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár samkvæmt tryggingafræðilegum athugunum. Enn fremur sé skylt að fá álit tryggingafræðings á áhrifum breytinga á samþykktum sjóðsins á getu hans til þess að greiða lífeyri. Ef tryggingafræðileg úttekt leiðir í ljós að sjóðurinn stendur ekki við skuldbindingar sínar skal viðkomandi tryggingafræðingi skylt að gera stjórn sjóðsins viðvart þar um, gera tillögur til úrbóta og gera Fjármálaeftirlitinu viðvart.
40. Þá var 1. mgr. greinar 19.3. í samþykktum stefnda, 16. maí 2013, sem í gildi voru þegar atvik máls þessa urðu, svohljóðandi en ákvæðið var tekið óbreytt úr eldri samþykktum stefnda frá 2006 og 2007:
Réttur til örorkulífeyris stofnast því aðeins að sjóðfélagi hafi orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins. Aldrei skal samanlagður örorkulífeyrir og barnalífeyrir skv. gr. 21 vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir sökum örorkunnar. Við mat á því hvort tekjuskerðing hafi orðið skal leggja til grundvallar meðaltal tekna sjóðfélaga síðustu fjögur almanaksár fyrir orkutapið, svo kallaðar viðmiðunartekjur, sbr. a) lið gr. 19.5. um framreikning. Heimilt er að miða við meðaltal tekna síðustu þrjú almanaksárin fyrir orkutapið vegna sjóðfélaga sem fengið hefur úrskurðaðan örorkulífeyri fyrir 1. janúar 2007 sbr. einnig a) lið gr. 19.5. Í úrskurði um lífeyri skal jafnframt greina hvaða heildartekjur eru lagðar til grundvallar útreikningi, svo sjóðfélaga megi vera ljóst við hvaða mörk lækkun örorkulífeyris vegna tekna er miðað. Tekjumissir telst mismunur viðmiðunartekna annars vegar og heildartekna eftir að örorka hefur verið metin þar með taldar tekjur af lífeyris‐ og bótagreiðslum frá almannatryggingum og lífeyrissjóðum og kjarasamningsbundnum tryggingabótum vegna örorkunnar. Viðmiðunartekjur samkvæmt þessari grein eru heildartekjur sjóðfélaga framreiknaðar með vísitölu neysluverðs. Sé þetta fjögurra ára meðaltal sjóðfélaganum óhagstætt vegna sjúkdómsforfalla er sjóðsstjórn heimilt að leggja til grundvallar meðaltal tekna allt að 8 ár aftur í tímann í samræmi við reglu í a.lið gr. 19.5. Samanburður á tekjum örorkulífeyrisþega við viðmiðunartekjur skal fara fram árlega eða oftar. [...]
41. Á umræddum tíma var mælt fyrir um skilyrði þess að öðlast rétt til greiðslu barnalífeyris í 20. gr. laga nr. 100/2007 en ákvæðið er nú lítillega breytt í 40. gr. laganna. Var 20. gr. svohljóðandi:
Barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram. Séu báðir foreldrar látnir eða örorkulífeyrisþegar skal greiddur tvöfaldur barnalífeyrir. Hvorki skerðingarákvæði 2. mgr. 17. gr. né 5. mgr. 18. gr. takmarka rétt til barnalífeyris.
Sömu réttarstöðu hafa stjúpbörn og kjörbörn þegar eins stendur á. Þó skal ekki greiddur barnalífeyrir vegna fráfalls eða örorku stjúpforeldris ef barnið á framfærsluskylt foreldri á lífi.
Tryggingastofnun ríkisins getur ákveðið að greiða barnalífeyri með barni ellilífeyrisþega, svo og með barni manns sem sætir gæsluvist eða afplánar fangelsi, enda hafi vistin varað a.m.k. þrjá mánuði.
Tryggingastofnun ríkisins skal greiða barnalífeyri þegar skilríki liggja fyrir um að barn verði ekki feðrað.
Barnalífeyrir greiðist foreldrum barnanna, enda séu þau á framfæri þeirra, eða þeim öðrum er annast framfærslu þeirra að fullu, sbr. þó 4. mgr. 64. gr.
Árlegur barnalífeyrir með hverju barni skal vera 219.408 kr. Ekki skal greiða barnalífeyri vegna þeirra barna er njóta örorkulífeyris.
Niðurstaða
Um formhlið málsins
42. Telja verður að í kröfu áfrýjanda um viðurkenningu á greiðsluskyldu stefnda á vangoldnum örorkulífeyrisgreiðslum felist jafnframt sú krafa sem áfrýjandi teflir fram um viðurkenningu á að stefnda hafi verið óheimilt að skerða greiðslur til hans. Felur síðarnefnda krafan þannig í reynd í sér málsástæðu að baki þeirri fyrrnefndu. Samkvæmt því þykir áfrýjandi ekki geta átt lögvarða hagsmuni af því að fá sjálfstæðan dóm um kröfu hans um viðurkenningu á að stefnda hafi verið óheimilt að skerða greiðslur til hans og verður þeirri kröfu vísað frá héraðsdómi.
Afmörkun sakarefnis
43. Undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti féll áfrýjandi frá kröfu um viðurkenningu á fyrningarslitum sem hann hafði haft uppi fyrir héraðsdómi og Landsrétti. Við munnlegan flutning málsins fyrir réttinum féll hann jafnframt frá mótmælum þess efnis að sú málsástæða stefnda væri of seint fram komin að stjórn hans hefði, hvað sem öðru liði, á fundi 14. mars 2016, staðfest „ákvörðun“ Greiðslustofu lífeyrissjóðanna 19. mars 2015 um áhrif barnalífeyris almannatrygginga.
44. Að því frágengnu lýtur ágreiningur aðila að því, svo sem fyrr greinir, hvort stefnda hafi verið heimilt að skerða örorkulífeyrisgreiðslur til áfrýjanda með því að telja honum til tekna í skilningi 1. mgr. 15. gr. laga nr. 129/1997 og 1. mgr. greinar 19.3. þágildandi samþykkta stefnda barnalífeyri sem hann fékk greiddan frá Tryggingastofnun á grundvelli þágildandi 20. gr. laga nr. 100/2007. Þó ber að árétta að stefndi unir hinum áfrýjaða dómi og er því ekki til endurskoðunar sú niðurstaða Landsréttar að stefnda hafi til 14. mars 2016 verið óheimilt að skerða örorkulífeyrisgreiðslur áfrýjanda með þeim hætti sem áður er lýst.
Almennar heimildir stefnda til skerðingar lífeyrisréttinda áfrýjanda
45. Ekki fer á milli mála að lífeyrisréttindi þau sem áfrýjandi hafði áunnið sér hjá stefnda voru virk og nutu sem slík verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Urðu þau þar af leiðandi ekki af honum tekin bótalaust nema á grundvelli viðhlítandi heimildar að lögum. Hefur sá skilningur ítrekað verið staðfestur af dómstólum, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 28. maí 1998 í máli nr. 368/1997 sem birtur er á bls. 2140 í dómasafni réttarins það ár og dóm réttarins 9. desember 1999 í máli nr. 195/1999, en síðara sakarefnið var jafnframt til úrlausnar í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu 12. október 2004 í máli Kjartans Ásmundssonar gegn Íslandi nr. 60669/00. Á hinn bóginn var fjallað um þá aðstöðu í dómi Hæstaréttar 23. mars 2000 í máli nr. 340/1999 þegar lífeyrisþegi hafði ekki hafið töku lífeyris. Var sérstaklega tekið fram í forsendum þess dóms að svigrúm löggjafans væri annað og rýmra til takmörkunar lífeyrisréttinda þegar svo háttaði til.
46. Hvað sem líður stjórnskipulegri eignarréttarvernd virkra lífeyrisréttinda hafa dómstólar á hinn bóginn litið svo á að lífeyrissjóðir njóti svigrúms til að setja reglur um hvernig tilhögun, útreikningi og greiðslu lífeyris sé háttað enda eigi slíkar ráðstafanir sér stoð í lögum og séu útfærðar með fullnægjandi hætti í samþykktum og með ákvarðanatöku á vettvangi viðkomandi lífeyrissjóðs. Sé þess þá gætt að málefnalegar forsendur liggi slíkum reglum og ákvörðunum til grundvallar og jafnræðis og meðalhófs gætt. Má meðal annars vísa um þetta til dóma Hæstaréttar 9. desember 1999 í máli nr. 195/1999, fyrrgreinds máls nr. 665/2008 og 22. febrúar 2018 í máli nr. 177/2017.
47. Tekið er undir þá forsendu í hinum áfrýjaða dómi að líta beri sérstaklega til þess að lífeyrisréttindi þau sem lög nr. 129/1997 taka til grundvalli ásamt almannatryggingum það kerfi sem löggjafinn hefur komið á fót með það að markmiði að tryggja öllum sem það þurfa aðstoð vegna örorku og elli, sbr. áskilnað 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Af þeim sökum getur það verið samrýmanlegt markmiðum stjórnarskrárákvæðisins að lög geri ráð fyrir heildstæðu mati á þeim greiðslum sem einstaklingur nýtur vegna örorku og sambærilegra atvika, annars vegar frá almannatryggingum og hins vegar úr lífeyrissjóði, hvort heldur er til skerðingar greiðslna í þessu skyni eða hækkunar.
48. Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir því lagaumhverfi sem gildir um stefnda. Minnt er á fyrirmæli 1. mgr. 15. gr. laga nr. 129/1997 um að sjóðfélagi eigi rétt á örorkulífeyri ef hann verður fyrir orkutapi sem metið er 50% eða meira og tekjuskerðingu vegna þess. Þá er í 7. mgr. sömu greinar fjallað um skyldu sjóðsins til að setja í samþykktir sínar frekari ákvæði um örorkulífeyri, svo sem um örorkumat, fjárhæð örorkulífeyris, útreikning og skilyrði fyrir greiðslu hans. Enn fremur eru áréttuð þau fyrirmæli 1. mgr. 27. gr. laganna að samþykktir lífeyrissjóðs skuli við það miðaðar að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar. Þá er í 39. gr. laganna nánar mælt fyrir um eignastöðu lífeyrissjóðs, viðmið um grundvöll lífeyrisgreiðslna og við hvaða aðstæður gera skuli nauðsynlegar breytingar á samþykktum hans. Af þessum ákvæðum verður ályktað að hvað sem líður stjórnarskrárvernd virkra lífeyrisréttinda veiti lög nr. 129/1997 stefnda svigrúm til þess í samþykktum sínum að ákvarða greiðslu lífeyris í samræmi við fjárhag sinn og horfur til framtíðar og bregðast þannig við aðstæðum hverju sinni með því eftir atvikum að auka eða skerða greiðslur til lífeyrisþega.
49. Grein 19.3. í samþykktum stefnda var rakin hér að framan að því marki sem máli skiptir. Er í henni hnykkt á þeirri meginreglu 1. mgr. 15. gr. laga nr. 129/1997 að réttur til örorkulífeyris stofnist því aðeins að sjóðfélagi hafi orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutaps. Samkvæmt greininni telst tekjuskerðing þannig vera mismunur viðmiðunartekna annars vegar og heildartekna eftir að örorka hefur verið metin hins vegar, þar með taldar tekjur af lífeyris‐ og bótagreiðslum frá almannatryggingum og lífeyrissjóðum og kjarasamningsbundnum tryggingabótum vegna örorkunnar. Er áður að því vikið að samþykktum fyrirrennara stefnda var breytt á þessa leið árið 2006.
50. Leggja verður til grundvallar að það samrýmist almennt 72. gr. stjórnarskrár að réttur sjóðfélaga til örorkulífeyris taki mið af fjárhæð sem geri hann jafnsettan og ef skerðing á aflahæfi hans hefði ekki orðið. Sýnist raunar ekki vera ágreiningur í málinu um það atriði. Hvað varðar þá efnislegu breytingu sem gerð var á samþykktum stefnda árið 2006 á þá leið að „tekjur af lífeyris- og bótagreiðslum frá almannatryggingum og lífeyrissjóðum og kjarasamningsbundnum tryggingabótum vegna örorkunnar“ teldust til heildartekna er til þess að líta að með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 665/2008 var talið að hliðstæð breyting og gerð var með grein 19.3. hefði verið reist á málefnalegum ástæðum. Hefði slík breyting og átt sér nægilega stoð í 15. gr. laga nr. 129/1997 og hvorki jafnræðisregla 65. gr. né eignarréttarákvæði 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar girtu fyrir að réttur viðkomandi sjóðfélaga til lífeyris yrði ákveðinn með þessum hætti þannig að fjárhæð hans væri takmörkuð við að gera hann jafnsettan og ef orkutap hefði ekki orðið.
51. Fyrir liggur að í kjölfar framangreindra breytinga á samþykktum fyrirrennara stefnda árið 2006, var á árinu 2008 byrjað að taka tillit til greiðslna frá almannatryggingum við útreikning á heildartekjum lífeyrisþega. Ekki liggja fyrir í málinu upplýsingar um það til hvaða bóta almannatrygginga var litið við þann útreikning en óumdeilt er að barnalífeyrir almannatrygginga var ekki þar á meðal. Ekki var litið til hans fyrr en á árinu 2015 eða að liðnum rúmum níu árum frá téðri breytingu á samþykktum lífeyrissjóðsins og sjö árum frá því að breytingin kom til framkvæmda.
52. Áfrýjandi hefur meðal annars byggt málatilbúnað sinn á þeirri grundvallarforsendu að ekki sé heimilt að taka tillit til barnalífeyris almannatrygginga þar sem þeim greiðslum sé ætluð sú sérstaða að tryggja hagsmuni barns lífeyrisþegans en miði ekki að því að bæta skerðingu á aflahæfi hans. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er þeim málatilbúnaði hafnað. Verður og að leggja til grundvallar að skerðing örorkulífeyris á grundvelli greiðslna barnalífeyris almannatrygginga hafi átt sér næga efnislega stoð í grein 19.3. í samþykktum stefnda, sbr. 1. og 7. mgr. 15. gr. laga nr. 129/1997. Umrædd tilhögun fær því samrýmst áskilnaði 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár.
53. Með vísan til framangreinds verður ekki fallist á með áfrýjanda að sú afstaða stefnda að taka tillit til barnalífeyris almannatrygginga við greiðslu örorkulífeyris til hans hafi farið í bága við lög nr. 129/1997 og samþykktir stefnda eins og viðkomandi ákvæði verða almennt skýrð með hliðsjón af 72. gr. stjórnarskrár. Sjónarmið þar að baki voru málefnaleg og samrýmdust jafnræði og brutu ekki í bága við 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár. Eru þá áréttuð sjónarmið um samspil reglna lífeyrissjóðakerfisins og almannatrygginga við heildarmat á þörf einstaklings fyrir aðstoð vegna örorku og sambærilegra atvika. Þau sjónarmið sem lágu til grundvallar þeim breytingum á ákvörðun örorkulífeyris af hálfu stefnda sem um er deilt í málinu voru því lögmæt og standast sem slík áskilnað stjórnarskrár og laga. Með því hefur þó ekki verið tekin afstaða til þess hvort í umrætt sinn hafi verið staðið að breytingunni gagnvart áfrýjanda með lögmætum hætti. Kemur sá þáttur málsins næst til skoðunar.
Aðdragandi og undirbúningur ákvörðunar stefnda
54. Hvað sem líður þeirri efnislegu niðurstöðu að stefnda hafi samkvæmt lögum og samþykktum sínum verið heimilt að taka tillit til barnalífeyris áfrýjanda frá Tryggingastofnun við ákvörðun heildartekna hans bar af hans hálfu að vanda til málsmeðferðar við undirbúning ákvörðunar þess efnis. Auk annars bar að gæta að því að ákvörðunin væri tekin af þar til bærum aðila. Þá var skylt við töku ákvörðunar sem fól í sér skerðingu af framangreindum toga að gæta þess að hún raskaði ekki hagsmunum lífeyrisþega í ríkari mæli en nauðsynlegt var. Enn fremur bar að upplýsa hlutaðeigandi sjóðfélaga fyrir fram um tilefni og ástæður breyttrar framkvæmdar, enda ljóst að ákvörðunin fól í sér breytingu á virkum réttindum sjóðfélaga, sem hann hafði notið um árabil. Þá þarf að líta til þess hvort atvik hafi verið með þeim hætti að skapast hafi réttmætar væntingar af áfrýjanda hálfu um að stefndi liti sjálfur svo á að barnalífeyrir almannatrygginga félli ekki undir tilgreiningu fyrrgreindrar greinar 19.3. í samþykktum hans sem tekjur af lífeyris- og bótagreiðslum frá almannatryggingum.
55. Í þessu sambandi verður horft til þess að þær breytingar sem gerðar voru á samþykktum fyrirrennara stefnda árið 2006 leiddu til breyttrar framkvæmdar hans frá og með árinu 2008. Frá þeim tíma var litið á greiðslur sjóðfélaga frá Tryggingastofnun sem „tekjur af lífeyris- og bótagreiðslum frá almannatryggingum“ í skilningi greinar 19.3. í samþykktum. Þessi breytta framkvæmd tók þó sem fyrr segir á þeim tíma ekki til barnalífeyris sem sjóðfélagar nutu frá Tryggingastofnun. Stefndi gerði engan fyrirvara við framkvæmdina að þessu leyti. Liggur þannig fyrir að á árunum 2008 til 2015 var af hálfu stefnda ekki litið til barnalífeyris frá Tryggingastofnun þegar bætur til handa áfrýjanda voru ákvarðaðar enda þótt það leiddi til þess að heildargreiðslur til hans yrðu hærri en viðmiðunartekjur fyrir orkutap. Ástæður þess eru óupplýstar. Sú staðhæfing stefnda, sem mótmælt er af áfrýjanda, að ekki hafi verið unnt að afla nauðsynlegra upplýsinga þar að lútandi fyrr en á árinu 2015 er engum gögnum studd og er því ósönnuð. Þá er hafið yfir vafa að umrædd ákvörðun, sem upphaflega var tekin á vettvangi Greiðslustofu lífeyrissjóða 19. mars 2015, átti ekki rætur að rekja til afkomu sjóðsins, sbr. 1. mgr. 27. gr. og 39. gr. laga nr. 129/1997, og engin tryggingafræðileg athugun lá henni til grundvallar. Eins og málið horfir við virðist því fyrirvaralaust á árinu 2015 hafa verið tekin ákvörðun á vettvangi Greiðslustofu lífeyrissjóðanna um að litið skyldi til barnalífeyris almannatrygginga við ákvörðun heildartekna við ákvörðun örorkubóta úr lífeyrissjóðum.
56. Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi var hin umdeilda ákvörðun upphaflega tekin 19. mars 2015 af Greiðslustofu lífeyrissjóðanna sem ekki var að lögum til þess bær svo sem ekki er lengur um deilt í málinu. Hvað sem því líður voru bréf þau sem áfrýjandi fékk send í framhaldinu frá Greiðslustofu lífeyrissjóðanna 19. ágúst og 18. nóvember 2015 ekki upplýsandi. Þar var þess þannig í engu getið að ákveðið hefði verið að breyta áralangri framkvæmd með því að taka tillit til barnalífeyris almannatrygginga við ákvörðun og útreikning örorkubóta, hvað þá að fjallað væri um tilefni eða ástæður þess.
57. Sú ákvörðun sem miðað er við í hinum áfrýjaða dómi og stefndi byggir á er samþykkt stjórnarfundar stefnda 14. mars 2016 en í lýsingu málsatvika er tekinn upp sá kafli fundargerðar sem að henni lýtur. Ákvörðunin ber ekki með sér að hafa verið tekin á grundvelli undirbúnings sem gera verður kröfu um þegar virk lífeyrisréttindi sjóðfélaga eru skert. Þvert á móti er þar vísað til tveggja ósamhljóða lögfræðiálita um málið en síðan kemur fram að Tryggingastofnun taki tillit til barnalífeyris í sínum tekjuathugunum. Verður sú ályktun því ekki dregin af fundargerðinni að stjórnin hafi talið að fyrri framkvæmd sjóðsins frá árinu 2008 hefði verið í bersýnilegu ósamræmi við samþykktir sjóðsins eða yrði rakin til augljósra mistaka sem bæri að leiðrétta af þeim sökum. Því næst er sem fyrr segir bókað í fundargerðina: „Stjórn staðfesti ákvörðun GL.“ Svo sem áður greinir er þó óumdeilt að Greiðslustofa lífeyrissjóðanna var ekki til þess bær að lögum að kveða á um réttindi sjóðfélaga. Þá hafði svonefnd ákvörðun Greiðslustofunnar sem hér var vísað til hvorki verið sérstaklega rökstudd né vísað til gagna henni til grundvallar. Er því ekki unnt að líta svo á að með téðri staðfestingu stjórnarinnar hafi stefndi fullnægt þeim skyldum sem á honum hvíldu til viðhlítandi undirbúnings og töku ákvörðunar af sinni hálfu gagnvart áfrýjanda, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 29. október 2015 í máli nr. 115/2015.
58. Samkvæmt öllu framangreindu og í ljósi réttmætra væntinga áfrýjanda er ekki unnt að líta svo á að stefndi hafi lagt fullnægjandi grundvöll að ákvörðun um að skerða bætur til handa áfrýjanda með tilliti til þess barnalífeyris sem hann fékk þá greiddan frá Tryggingastofnun. Var téð ákvörðun stefnda því ólögmæt og gat ekki, eins og að henni var staðið, haft þau réttaráhrif að skerða réttindi áfrýjanda til örorkulífeyris úr hendi stefnda.
59. Niðurstaða málsins verður því á þann veg að kröfu áfrýjanda um viðurkenningu þess að stefnda hafi frá og með 1. janúar 2015 verið óheimilt af nánar tilteknum ástæðum að skerða örorkulífeyrisgreiðslur til áfrýjanda verður vísað frá héraðsdómi. Að öðru leyti verður fallist á kröfur hans með þeim hætti sem greinir í dómsorði.
60. Stefndi greiði samtals 2.800.000 krónur í málskostnað, á öllum dómstigum, sem renni í ríkissjóð.
61. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað í héraði og fyrir Landsrétti eru staðfest. Um gjafsóknarkostnað stefnda fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Kröfu áfrýjanda, A, um viðurkenningu þess að stefnda, Stapa lífeyrissjóði, hafi frá og með 1. janúar 2015 verið óheimilt að skerða örorkulífeyrisgreiðslur til hans með því að telja honum til tekna barnalífeyri frá Tryggingastofnun, er vísað frá héraðsdómi.
Viðurkennt er að stefnda sé skylt að greiða áfrýjanda vangoldnar örorkulífeyrisgreiðslur frá og með 1. janúar 2015 sem eru til komnar vegna þess að stefndi taldi áfrýjanda til tekna barnalífeyri sem hann fékk greiddan frá Tryggingastofnun ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá og með gjalddaga hverrar vangoldinnar greiðslu.
Stefndi greiði samtals 2.800.000 krónur í málskostnað, á öllum dómstigum, sem renni í ríkissjóð.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað í héraði og fyrir Landsrétti eru staðfest.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 1.000.000 króna.