Hæstiréttur íslands
Mál nr. 49/2021
Lykilorð
- Kærumál
- Opinber skipti
- Fjárslit
- Óvígð sambúð
- Kröfugerð
- Sönnunarmat
- Málskostnaður
- Frávísun
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. október 2021. Kærumálsgögn bárust réttinum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 29. september 2021 þar sem leyst var úr nánar tilgreindum ágreiningsefnum í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli aðila vegna slita óvígðrar sambúðar.
3. Sóknaraðili krefst þess að ákvæði hins kærða úrskurðar um að lagt verði til grundvallar við opinber skipti til fjárslita milli aðila að sóknaraðili hafi á viðmiðunardegi skipta átt á erlendum bankareikningum 500.000.000 króna verði hrundið og lagt verði til grundvallar að hann hafi átt þar 5.717.589 krónur á sama tímamarki. Þá krefst hann kærumálskostnaðar fyrir Landsrétti og Hæstarétti.
4. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti.
5. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið flutt munnlega 26. janúar 2022.
Ágreiningsefni
6. Með bréfi 16. nóvember 2020 vísaði skiptastjóri, sem skipaður hafði verið við opinber skipti til fjárslita milli aðila, margþættum ágreiningi til Héraðsdóms Reykjaness. Þar á meðal var krafa varnaraðila um að lagt yrði til grundvallar við skiptin að sóknaraðili hafi átt 500.000.000 króna á erlendum bankareikningum á viðmiðunardegi skipta. Þeirri kröfu hafnaði héraðsdómur með úrskurði 15. júlí 2021. Öðrum kröfum varnaraðila var ýmist hafnað, á þær fallist eða þeim vísað sjálfkrafa frá dómi. Varnaraðili kærði úrskurðinn til Landsréttar 29. júlí 2021 sem staðfesti hann 29. september sama ár að öðru leyti en því að lagt var til grundvallar að sóknaraðili hafi átt 500.000.000 króna á erlendum bankareikningum á viðmiðunardegi skipta.
7. Sóknaraðili kærði hluta úrskurðar Landsréttar til Hæstaréttar. Afmarkast kröfugerð aðila fyrir Hæstarétti af því að skorið verði úr hvort leggja skuli til grundvallar við opinber skipti til fjárslita milli aðila að sóknaraðili hafi á viðmiðunardegi skipta átt 500.000.000 króna á erlendum bankareikningum eða hvort fallist verði á kröfu sóknaraðila um að hann hafi á þeim degi átt 5.717.589 krónur á erlendum bankareikningum.
8. Með ákvörðun Hæstaréttar 17. nóvember 2021 var sóknaraðila veitt leyfi til að kæra úrskurðinn á grundvelli 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í ákvörðuninni kom meðal annars fram að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um túlkun og beitingu 1. mgr. 52. gr. laga nr. 20/1991.
Málsatvik
Upphaf skipta og meðferð ágreiningsefna
9. Aðilar máls þessa hófu sambúð árið 1998 sem lauk í febrúar 2015. Varnaraðili krafðist 18. mars 2015 opinberra skipta til fjárslita milli aðila. Krafan var tekin til greina með úrskurði héraðsdóms 29. apríl sama ár og skiptastjóri skipaður sama dag.
10. Á fyrsta skiptafundi 8. maí 2015 bókaði skiptastjóri að sóknaraðili skyldi afla upplýsinga um bankainnstæður og hlutafjáreign erlendis og leggja fram á næsta fundi. Á þeim fundi, 16. júní 2015, var bókað að enn væri verið að afla upplýsinga um bankainnstæður erlendis. Á skiptafundi 7. september sama ár ítrekaði skiptastjóri kröfu sína um að sóknaraðili legði fram þessar upplýsingar. Á skiptafundi 6. nóvember sama ár var ákveðið að beina tilgreindum ágreiningsefnum til héraðsdóms, meðal annars um það hvort skipta skyldi eignum aðila jafnt milli þeirra og við hvaða tímamark skyldi miða.
11. Í úrskurði héraðsdóms 29. júní 2016 var kveðið svo á að við opinber skipti til fjárslita milli aðilanna bæri að miða við að skipta yrði að jöfnu þeim eignum sem þau áttu við upphaf skipta óháð því hvernig skráningu einstakra eigna væri háttað. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar sem með dómi 15. september sama ár í máli nr. 511/2016 staðfesti úrskurðinn á þann veg að skipta skyldi jafnt eignum þeirra á viðmiðunardegi skipta, 23. febrúar 2015, án tillits til þess hvernig skráningu þeirra hefði verið háttað.
12. Enn var bókað á skiptafundi 11. júlí 2018 að á fyrri fundi hefði komið fram áskorun af hálfu varnaraðila um að sóknaraðili upplýsti um ákveðnar eignir en ekki lægju enn fyrir svör og unnið væri að því að afla umbeðinna upplýsinga. Óskaði lögmaður varnaraðila eftir því á þeim fundi að sóknaraðili yrði kvaddur fyrir dóm til að veita þessar upplýsingar. Jafnframt var bókað eftir lögmanni varnaraðila að skattframtali 2015, vegna tekjuársins 2014, hefði verið skilað af hálfu varnaraðila. Einvörðungu hefði verið um skil á forskráðu framtali að ræða. Því væri ljóst að síðasta sameiginlega skattframtalið hefði verið 2014, vegna tekjuársins 2013, og leggja ætti það til grundvallar við skiptin. Á skiptafundi 7. september 2018 kom fram að skiptastjóri hefði ákveðið að fara þess á leit við héraðsdóm að sóknaraðili yrði kvaddur fyrir dóm til að veita upplýsingar um eignir aðila með heimild í 2. mgr. 52. gr. laga nr. 20/1991.
Skýrslugjöf sóknaraðila fyrir héraðsdómi
13. Sóknaraðili gaf skýrslu fyrir héraðsdómi 29. nóvember 2018 og var meðal annars inntur eftir því hvort reikningur sá sem tilgreindur væri á sameiginlegu skattframtali aðila árið 2014 við fjármálastofnunina F með 10.467.059 króna innstæðu væri enn til. Hann kvað reikninginn vera til og kvaðst enn vera að bíða eftir yfirliti frá bankanum um innstæðu á viðmiðunardegi skipta. Hann kvaðst myndu leggja fram þau gögn til skiptastjóra þegar þau bærust. Nánar spurður um hvaða bankareikninga hann ætti erlendis svaraði sóknaraðili því til að það væri hjá F. Spurður um hvort hann ætti reikninga hjá einhverjum öðrum erlendum bönkum svaraði hann því til að það væru ,,nokkrir reikningar“. Enn frekar spurður kvaðst hann ekki eiga fé í öðrum erlendum bönkum en F. Hann hefði átt reikning hjá „G“ en lokað honum.
14. Spurður um hvort hann hefði skilað skattframtölum eftir árið 2014 svaraði hann neitandi. Þá kvað hann einhverja hluti í erlendu félögunum D og C hafa verið til á viðmiðunardegi skipta en einhverja hluti verið selda. Hann kvaðst ekki muna í hvað andvirðinu hefði verið ráðstafað, „væntanlega í aðrar fjárfestingar eða bara bankainnstæður“. Hann kvaðst hafa óskað eftir yfirlitum yfir þau viðskipti frá F og myndi leggja þau fyrir skiptastjóra þegar þau bærust. Spurður um sölu á erlendum hlutabréfum á árinu 2013 fyrir um 110 milljónir króna kvað hann eitthvað hafa verið ,,keypt á móti ... og eitthvað greitt út sko, ég bara man það ekki“. Hann kvað eitthvað af þessum bréfum hafa verið í „G bankanum í New York“ og þeim reikningi hefði verið lokað. Hann kvaðst því ekki vita hvernig gengi að afla upplýsinga þaðan. Spurður um hvort sala á hlutabréfum hefði farið fram í gegnum þann banka kvað hann einhvern hluta sölunnar hafa gert það. Eitthvað hefði farið til F og eitthvað í neyslu. Hann kvað reikninginn hjá „G“ ekki hafa verið til á viðmiðunardegi skipta.
15. Þá var sóknaraðili inntur eftir greiðslu skattskuldar sem fram kæmi á skattframtali árið 2015 en skuldin var greidd um tveimur mánuðum eftir viðmiðunardag skipta. Sóknaraðila var kynnt að gögn lægju fyrir um það hjá skiptastjóra en á viðskiptakvittun um greiðslu skuldarinnar hefði númer þess bankareiknings sem notaður hefði verið til greiðslu verið afmáð. Sóknaraðili kvaðst þá telja að skuldin, sem var um 15.000.000 króna, hefði verið greidd með peningum erlendis frá og þá reikna með að það hefði verið frá F. Hann kvaðst ekki muna inn á hvaða innlenda reikning féð hefði runnið frá F.
Upplýsingaöflun skiptastjóra
16. Á skiptafundi 22. maí 2019 var enn bókað að fram hefði komið í skýrslutöku fyrir héraðsdómi að sóknaraðili ætti bankareikninga erlendis. Skiptastjóri bókaði að nýju áskorun til sóknaraðila um afhendingu gagna sem sýndu hvaða erlendu innstæður hann hefði átt á viðmiðunardegi skipta. Jafnframt var fært til bókar að yrði sóknaraðili ekki við þessari áskorun myndi skiptameðferð verða fram haldið án gagnanna og á grundvelli þeirra gagna sem fyrirliggjandi væru um eignastöðu á viðmiðunardegi. Sóknaraðili varð ekki við þessari áskorun.
17. Samkvæmt tölvubréfum skiptastjóra í mars og apríl 2020 fór hann þess á leit við F að veittar yrðu upplýsingar um erlendar innstæður í eigu sóknaraðila á viðmiðunardegi skipta. Af hálfu bankans var ekki orðið við þeirri beiðni og því borið við að ekki væri fyrir hendi heimild til að veita slíkar upplýsingar án umboðs frá sóknaraðila. Mun skiptastjóri á þeim tíma ekki haft slíkt umboð.
Frumvarp til úthlutunar
18. Í frumvarpi skiptastjóra til úthlutunar 12. október 2020 kom fram að engar haldbærar upplýsingar lægju fyrir um erlendar bankainnstæður sóknaraðila sem hann hefði þó viðurkennt að hafa átt á viðmiðunardegi, eins og fram hefði komið í skýrslutöku fyrir héraðsdómi. Vegna skorts á upplýsingum og gögnum þar um miði skiptastjóri við að engar slíkar innstæður hafi verið í eigu sóknaraðila á viðmiðunardegi skipta. Í frumvarpinu kom enn fremur fram að skiptastjóri hefði gert tilraunir til að afla upplýsinga frá bönkum erlendis en án árangurs.
19. Í fundargerð skiptafundar 5. nóvember 2020 sem haldinn var til að fjalla um frumvarp skiptastjóra samkvæmt 3. mgr. 113. gr. laga nr. 20/1991 komu meðal annars fram mótmæli varnaraðila við því að ekki væri tekið tillit til innstæðna sóknaraðila sem vitað væri að væru til staðar. Bókað var eftir lögmanni varnaraðila að sóknaraðili hefði á meðan á skiptameðferð stóð keypt sér einbýlishús og bifreið í gegnum einkahlutafélög sín og áætlað virði þeirra eigna væri um 150.000.000 króna. Af þeim sökum krefðist varnaraðili þess að lagt yrði til grundvallar að innstæður erlendis í eigu mannsins á viðmiðunardegi næmu 500.000.000 krónum. Af hálfu sóknaraðila var þessari kröfu mótmælt á fundinum. Þegar fundi var fram haldið 13. sama mánaðar bókaði skiptastjóri að hann vísaði til röksemda fyrir niðurstöðu í frumvarpi til úthlutunar og teldi að miðað við fyrirliggjandi skort á upplýsingum um innstæður erlendis og hlutabréfaeign væru ekki efni til að breyta þeirri niðurstöðu. Í lok fundargerðar var fært til bókar að málefnum sem ágreiningur væri um yrði beint til héraðsdóms.
Upplýsingar um erlendar innstæður í kjölfar úrskurðar Landsréttar
20. Öndvert við niðurstöðu héraðsdóms var með úrskurði Landsréttar fallist á kröfu varnaraðila um að við opinber skipti til fjárslita milli aðila yrði lagt til grundvallar að sóknaraðili ætti 500.000.000 króna á erlendum bankareikningum. Í kjölfarið óskaði lögmaður sóknaraðila eftir því við skiptastjóra 4. október 2021 að kallað yrði eftir upplýsingum um innstæður og aðrar eignir sóknaraðila hjá F á viðmiðunardegi skipta og á tímabilinu 31. desember 2014 til viðmiðunardags skipta. Sóknaraðili veitti skiptastjóra jafnframt umboð sitt til þess að kalla eftir slíkum upplýsingum. Samkvæmt yfirliti frá F 12. október 2021 sem skiptastjóra barst 13. sama mánaðar var þar innstæða að jafnvirði 5.717.589 króna miðað við verðmæti í svissneskum frönkum á viðmiðunardegi skipta og tekur krafa sóknaraðila hér fyrir dómi mið af þeirri fjárhæð.
Málsástæður sóknaraðila
21. Af hálfu sóknaraðila er því haldið fram að erlendar bankainnstæður hans á viðmiðunardegi skipta hafi ekki verið nálægt þeirri fjárhæð sem varnaraðili haldi fram. Hinn kærði úrskurður sé því bersýnilega rangur þar sem innstæður hafi einungis numið 5.717.589 krónum samkvæmt hinu nýja skjali sem sóknaraðili hafi lagt fram fyrir Hæstarétti. Þá bendir hann á að skiptastjóri hafi í frumvarpi til úthlutunar kosið að byggja á upplýsingum úr forskráðu framtali aðila 2015, sem ekki hafi gefið rétta mynd af eignum, en þar sé til að mynda ekki að finna upplýsingar um innstæðu sóknaraðila erlendis.
22. Þá bendir sóknaraðili á að hann hafi ekki haft vitneskju um að skiptastjóri hefði verið í samskiptum við F til að afla upplýsinga um erlendar bankainnstæður sínar. Fjármálastofnunin hefði óskað eftir umboði frá sér til þess að geta orðið við beiðni skiptastjóra um afhendingu umbeðinna gagna en skiptastjóri hefði ekki leitað eftir slíku umboði. Eftir að hinn kærði úrskurður lá fyrir hefði sóknaraðili hins vegar haft frumkvæði að því að veita skiptastjóra slíkt umboð. Þá hefði skiptastjóri leitað eftir upplýsingum frá endurskoðanda sóknaraðila en ekki fylgt því nægilega vel eftir. Í ljósi hinnar ríku upplýsingaskyldu skiptastjóra verði sóknaraðili ekki látinn bera halla af því að skiptastjóri fékk ekki umbeðnar upplýsingar í hendur fyrr en nýverið.
23. Sóknaraðili leggur jafnframt áherslu á að ákvæði 1. mgr. 52. gr. laga nr. 20/1991 hafi ekki að geyma lagareglu um að aðili skiptamáls geti sett fram hvaða órökstöddu kröfu sem er um eignastöðu aðila. Ákvæðið kveði á um upplýsingagjöf til skiptastjóra samkvæmt beiðni en segi ekkert um það hvaða áhrif það kunni að hafa ef ekki er orðið við beiðni um upplýsingar. Í hinum kærða úrskurði sé ranglega á því byggt að ákvæði 1. mgr. 52. gr. laga nr. 20/1991 feli beint eða óbeint í sér lagareglu þess efnis að byggja skuli á einhliða og órökstuddum upplýsingum um eignir annars aðila skipta í þeim tilvikum þar sem skiptastjóri hafi ekki leitt gagnaöflun til lykta. Vísar sóknaraðili til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 20/1991 um skyldu skiptastjóra til að afla upplýsinga um eignir sem falla undir skipti.
24. Gögn sem nú hafi verið lögð fram fyrir Hæstarétt sýni að eign sóknaraðila á erlendum reikningum hafi numið 5.717.589 krónum á viðmiðunardegi skipta. Sú fjárhæð sé ekki í námunda við þá fjárhæð sem varnaraðili leggi til grundvallar kröfu sinni.
25. Að lokum telur sóknaraðili að með hinum kærða úrskurði sé vikið frá niðurstöðu Hæstaréttar í fyrrgreindu máli nr. 511/2016 milli aðila um að skipta bæri jafnt eignum aðila á viðmiðunardegi skipta, auk þess sem vikið yrði frá ákvæði 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991. Yrði niðurstaða máls þessa sú að lagt yrði til grundvallar að sóknaraðili ætti 500.000.000 króna á erlendum bankareikningum dygðu eignir hans ekki fyrir slíkri greiðslu til varnaraðila ef tekið er mið af eignum sóknaraðila í frumvarpi til úthlutunar. Eignum aðila yrði þá ekki skipt jafnt heldur myndi varnaraðili eignast allar eignir sóknaraðila. Byggi slík niðurstaða ekki á gildum lagaheimildum.
Málsástæður varnaraðila
26. Varnaraðili byggir á því að þau gögn sem sóknaraðili hafi lagt fram í Hæstarétti eigi ekki að komast að í málinu, sbr. 5. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991. Þar á meðal sé yfirlit F um eignastöðu sóknaraðila sem hann hefði auðveldlega getað lagt fram á fyrri stigum málsins hjá skiptastjóra og héraðsdómi. Við meðferð málsins í héraði og fyrir Landsrétti hefði varnaraðili byggt á því að sóknaraðili ætti 500.000.000 króna á erlendum bankareikningum og sóknaraðili haft fullt tilefni til þess að leggja skjalið fram á fyrri dómstigum. Um þetta vísar varnaraðili til fyrrgreinds dóms Hæstaréttar í máli nr. 511/2016. Hún bendir á að sóknaraðili hafi fram til þessa neitað að leggja fram nokkur gögn til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni að hann ætti enga fjármuni á erlendum bankareikningum á viðmiðunardegi skipta. Eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar hafi sóknaraðili fyrst veitt skiptastjóra umboð til að sækja upplýsingar hjá einni fjármálastofnun, F. Því liggi engar upplýsingar fyrir um að niðurstaða hins kærða úrskurðar sé röng.
27. Varnaraðili bendir á að sóknaraðili hafi lýst því yfir í skýrslugjöf fyrir héraðsdómi að hann hafi greitt um það bil 15.000.000 króna skattskuld af erlendum bankareikningi hjá F rétt eftir viðmiðunardag skipta en hann hafi á þeim tíma einungis átt 975.000 krónur á innlendum bankareikningum. Í greinargerð sóknaraðila komi á hinn bóginn fram að hann hafi átt jafnvirði 5.717.589 króna á þeim reikningi á viðmiðunardegi skipta. Um sé að ræða fjármuni sem skiptastjóri hafi aldrei verið upplýstur um og hafi því ekki komið fram í frumvarpi til úthlutunargerðar. Af framangreindu verði ráðið að sóknaraðili hafi ekki getað greitt skattskuldina með innstæðu hjá F og 975.000 króna innlendri innstæðu. Sé því einsýnt að sóknaraðili hafi greitt skuldina með fjármunum af bankareikningi í öðrum erlendum banka en F. Því leiki enginn vafi á að sóknaraðili hafi enn ekki upplýst um erlendar innstæður sínar nema að litlu leyti.
28. Sóknaraðili hafi allt frá árinu 2015 brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 52. gr. laga nr. 20/1991 með því að bregðast ekki við áskorunum skiptastjóra um öflun upplýsinga og gagna um innstæður hans á erlendum bankareikningum. Brot gegn því ákvæði eigi að hafa í för með sér að sönnunarbyrði fyrir málsatvikum sem hægt væri að sanna ef aðili færi að fyrirmælum ákvæðisins færist yfir á þann aðila sem hundsi þessi bindandi lagafyrirmæli. Þannig þurfi varnaraðili að sanna að hann eigi ekki 500.000.000 króna á erlendum bankareikningum vilji hann ekki að sú eign sé lögð til grundvallar við opinber skipti til fjárslita milli aðila. Sóknaraðili sé sá eini sem geti sannað það.
29. Þá mótmælir varnaraðili þeirri staðhæfingu sóknaraðila að verði niðurstaða hins kærða úrskurðar lögð til grundvallar komi meira en helmingur eigna aðila í hlut varnaraðila. Þær 500.000.000 króna sem Landsréttur lagði til grundvallar að væru á erlendum bankareikningum sóknaraðila leggist við eignastöðu hans samkvæmt frumvarpi skiptastjóra og eignir aðila skiptist eftir sem áður til helminga. Sú fjárhæð komi síðan til skipta samkvæmt 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991.
30. Varnaraðili bendir á að ekki sé að finna sérstaka sönnunarreglu um tilvist og umfang eigna sem falli undir skipti eða fjárslit samkvæmt 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991. Það leiði því af 2. mgr. 131. gr. laganna að um slíka sönnun gildi almennar reglur einkamálaréttarfars, þar á meðal ákvæði 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 sem kveður á um frjálst sönnunarmat dómara. Við sönnunarmat sitt hafi Landsréttur augljóslega beitt meginreglu sem fram komi í 2. mgr. 50. gr. laganna um að sá málsaðili sem að lögum skuli stuðla að því að staðreyndir máls liggi fyrir beri hallann af því ef hann uppfyllir ekki þá skyldu.
Niðurstaða
31. Með bréfi skiptastjóra 16. nóvember 2020 var máli þessu beint til héraðsdóms samkvæmt 3. mgr. 79. gr., sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991. Í XVII. kafla þeirra er fjallað um málsmeðferð fyrir héraðsdómi. Í 2. mgr. 131. gr. laganna er kveðið á um að leiði ekki annað af ákvæðum þeirra gildi almennar reglur um meðferð einkamála í héraði um meðferð mála samkvæmt þeim kafla, sbr. einnig 3. mgr. 133. gr. laganna. Við úrlausn málsins verður því beitt ákvæðum laga nr. 91/1991 og meginreglum einkamálaréttarfars þar sem ákvæðum laga nr. 20/1991 sleppir, þar á meðal reglunni um frjálst sönnunarmat dómara og málsforræðisreglunni, sbr. 44. og 46. gr. laga nr. 91/1991.
32. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga nr. 20/1991 er þeim sem hafa eignir bús í umráðum sínum skylt að veita skiptastjóra þær upplýsingar og láta honum í té þau gögn um málefni búsins sem hann krefst. Skylda þessi er fortakslaus, enda ber skiptastjóra að tryggja að upplýst sé um allar eignir aðila svo að unnt sé að haga skiptingu milli þeirra í samræmi við þær raunverulegu eignir sem til staðar eru.
33. Eins og rakið hefur verið báru ítrekaðar áskoranir skiptastjóra til sóknaraðila um að hann upplýsti um innstæður sínar á erlendum bankareikningum engan árangur. Virti sóknaraðili með öllu að vettugi þær margítrekuðu óskir um upplýsingaöflun sem skiptastjóri beindi til hans á mörgum skiptafundum, enda þótt ítrekað hefði verið lofað af hans hálfu að upplýsinga yrði aflað um þær. Sóknaraðila hlaut að vera ljóst að hann gat einn aflað upplýsinga um innstæður á erlendum bankareikningum sínum eða eftir atvikum veitt skiptastjóra umboð sitt til þess. Engu að síður aðhafðist hann ekkert og við skýrslutöku fyrir héraðsdómi, sem skiptastjóri hlutaðist til um á grundvelli 2. mgr. 52. gr. laga nr. 20/1991, voru svör hans um innstæður á bankareikningum erlendis mjög óljós. Bar hann því enn við að hann væri að bíða eftir upplýsingum um innstæður á viðmiðunardegi skipta. Þó kom þar fram að skattskuld sem fram kæmi á skattframtali árið 2015, um 15.000.000 króna, hefði verið greidd með ,,peningum erlendis frá“ og kvaðst hann reikna með að það hefði verið ,,frá F“ en skuldin var greidd í apríl 2015 um tveimur mánuðum eftir viðmiðunardag skipta.
34. Krafa varnaraðila um að lagt yrði til grundvallar að við opinber skipti til fjárslita milli aðila hafi sóknaraðili átt 500.000.000 króna á erlendum bankareikningum kom fyrst fram á skiptafundi 5. nóvember 2020 og vísaði hún þá til þess að sóknaraðili hefði fest kaup á fasteign og bifreið í gegnum einkahlutafélög sín að verðmæti um 150.000.000 króna. Þá væri sóknaraðila í lófa lagið að upplýsa um fjármuni sína erlendis en það hefði hann ekki gert. Varnaraðili hefur ekki fært fram frekari röksemdir fyrir kröfunni sem máli geta skipt að öðru leyti en því að sóknaraðili beri hallann af því að hafa ekki upplýst skiptastjóra um innstæður á erlendum bankareikningum á viðmiðunardegi skipta, sbr. 2. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991, og beri því að leggja til grundvallar þá fjárhæð sem varnaraðili krefst.
35. Dómari getur að sönnu skýrt óljós svör eða þögn sóknaraðila á þann hátt sem varnaraðila er hagfelldast, sbr. 2. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991, enda er sóknaraðili annar aðila máls þessa þótt skýrsla hans fyrir héraðsdómi hafi verið gefin á grundvelli 2. mgr. 52. gr. laga nr. 20/1991 þar sem hann hafði í orði kveðnu stöðu vitnis. Það breytir því á hinn bóginn ekki að til þess að unnt sé að fallast á kröfu varnaraðila verður hún að leiða að henni gild rök og styðja hana fullnægjandi gögnum.
36. Engin gögn eða töluleg útlistun hefur verið lögð fram til stuðnings þeirri staðhæfingu varnaraðila að erlendar innstæður nemi þeirri fjárhæð sem krafist er að lögð verði til grundvallar við skiptin. Þá skortir með öllu á að með markvissum hætti hafi verið skírskotað til þeirra gagna málsins sem hugsanlega hefðu að einhverju marki getað leitt líkur að fjárhæð innstæðna á erlendum bankareikningum, þar á meðal skattframtala málsaðila og engar ályktanir hafa verið dregnar af þeim gögnum sem gætu rennt stoðum undir staðhæfingu um fjárhæð innstæðnanna á viðmiðunardegi skipta. Varnaraðili hefur því ekki lagt þann grundvöll að kröfu sinni að tækt sé að fella á sóknaraðila sönnunarbyrði um að hann hafi ekki átt 500.000.000 króna innstæðu á erlendum bankareikningum á viðmiðunardegi skipta. Þar sem varnaraðili hefur engu að síður leitt að því sterkum líkum að innstæðurnar hafi verið hærri en sóknaraðili hefur upplýst um er ekki unnt að leggja efnisdóm á kröfuna með því að hafna henni. Vegna vanreifunar kröfunnar verður á hinn bóginn ekki hjá því komist að vísa henni sjálfkrafa frá héraðsdómi.
37. Sóknaraðili hefur fyrir sitt leyti krafist þess að lagt verði til grundvallar við skiptin að hann hafi á viðmiðunardegi skipta átt á erlendum bankareikningum 5.717.589 krónur. Varnaraðili hefur mótmælt því að krafan og skjalið sem hún er grundvölluð á fái komist að í málinu.
38. Samkvæmt útilokunarreglu einkamálaréttarfars skulu aðilar hafa uppi kröfur sínar, lýsingu á málsatvikum og röksemdir svo og mótmæli gegn kröfum, rökum og yfirlýsingum gagnaðila jafnharðan og tilefni verður til en að öðrum kosti komast þær ekki að. Útilokunarreglan hefur einnig áhrif fyrir Hæstarétti samkvæmt 2. mgr. 187. gr., sbr. 5. mgr. 174. gr. laga nr. 91/1991, en að meginreglu er óheimilt við meðferð máls fyrir Hæstarétti að gera nýjar kröfur eða bera fram nýjar málsástæður frá því sem gert var á fyrra dómstigi, með þeirri undantekningu þó að Hæstiréttur getur byggt á þeim við úrlausn máls hafi þær komið fram í greinargerð aðilans, grundvelli máls er ekki raskað á þann hátt, afsakanlegt er að þær voru ekki hafðar uppi á fyrra dómstigi og að það yrði aðilanum til réttarspjalla að ekki yrði tekið tillit til þeirra. Þá má styðja kæru nýjum sönnunargögnum, sbr. 2. mgr. 169. gr. laga nr. 91/1991, en sú heimild takmarkast jafnframt af fyrrnefndri útilokunarreglu og ber aðila því að leggja fram sönnunargögn af sinni hálfu svo fljótt sem verða má og í síðasta lagi áður en fresti til gagnaöflunar lýkur. Eftir það er aðilum að jafnaði óheimilt að leggja fram sýnileg sönnunargögn en frá því má þó víkja meðal annars af þeirri ástæðu að ekki hafi áður verið unnt að afla tiltekinna gagna, sbr. 5. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991.
39. Eins og rakið hefur verið kom fyrrgreind krafa sóknaraðila fyrst fram við meðferð málsins hér fyrir dómi í kjölfar hins kærða úrskurðar. Þá fyrst fól sóknaraðili skiptastjóra umboð til að afla upplýsinga um innstæður og aðrar eignir sínar hjá F á tímabilinu 31. desember 2014 til viðmiðunardags skipta og lagði í kjölfarið fram yfirlit frá bankanum dagsett 12. október 2021. Af því sem rakið hefur verið um tilraunir skiptastjóra til að afla upplýsinga um innstæður sóknaraðila á erlendum bankareikningum og viðbrögð sóknaraðila við þeim er með engu móti afsakanlegt að krafa hans hafi fyrst verið höfð uppi hér fyrir dómi. Honum var í lófa lagið að afla þeirra gagna eða hlutast til um við skiptastjóra að þeirra gagna sem hann byggir sína síðbúnu kröfu á yrði aflað á fyrri stigum málsins. Hefði þá varnaraðila gefist tilefni til sönnunarfærslu og mótmæla sem tekið hefðu mið af hinni nýju kröfu. Samkvæmt þessu fær krafa sóknaraðila ekki komist að hér fyrir dómi nema að því leyti sem í henni felst bindandi ráðstöfun á sakarefninu varnaraðila til hagsbóta.
40. Sóknaraðili bar um það fyrir héraðsdómi að hann hefði greitt um 15.000.000 króna skattskuld tveimur mánuðum eftir viðmiðunardag skipta og kvaðst „reikna með“ að peningar til að greiða þá skuld hefðu komið erlendis frá og þá frá F. Sú skýring hans að hann hafi átt um 15.000.000 króna handbærar á þessum erlenda bankareikningi tveimur mánuðum eftir viðmiðunardag skipta er í engu samræmi við það sem fram kemur í gögnum málsins að innstæður á reikningi þar hafi numið 5.717.589 krónum á viðmiðunardegi skipta. Verður vart önnur ályktun dregin af framburði sóknaraðila fyrir héraðsdómi en að fyrrgreind greiðsla hafi runnið frá öðrum erlendum bankareikningi hans en hjá F sem ekki hefur verið upplýst um í málinu. Óljós svör hans um uppruna fjárins sem nýtt var til að greiða ofangreinda skattskuld verða skýrð með hliðsjón af 2. mgr. 50. gr. laga nr. 91/1991.
41. Niðurstaða skiptastjóra í frumvarpi til úthlutunar um að engar innstæður á erlendum bankareikningum hafi verið í eigu sóknaraðila á viðmiðunardegi skipta fær samkvæmt öllu ofangreindu ekki staðist. Til viðbótar við þá fjárhæð sem svarar til 5.717.589 króna og sóknaraðili hefur vísað til í greinargerð sinni eru líkur fyrir innstæðu á einum eða eftir atvikum fleiri erlendum bankareikningum sem skiptastjóri hefur ekki haft vitneskju um. Verður því frumvarp til úthlutunar ekki lagt til grundvallar um innstæður á erlendum bankareikningum sóknaraðila. Samkvæmt þessu ber skiptastjóra að afla upplýsinga um þær innstæður sem kunna að hafa verið fyrir hendi á erlendum bankareikningum sóknaraðila á viðmiðunardegi skipta en á sóknaraðila hvílir á hinn bóginn fortakslaus skylda til að veita skiptastjóra upplýsingar um þær eignir, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga nr. 20/1991, eða eftir atvikum að veita skiptastjóra umboð sitt til afla upplýsinga þar um. Verði sóknaraðili á hinn bóginn ekki við beiðni skiptastjóra um að upplýsingar verði veittar um fyrrgreindar eignir er óhjákvæmilegt að skiptastjóri áætli fjárhæð innstæðna á erlendum bankareikningum sóknaraðila á grundvelli gagna málsins og í ljósi þeirra fjárhagslegu umsvifa sóknaraðila sem gögnin endurspegla. Að því loknu ber skiptastjóra að gera nýtt frumvarp til úthlutunar til samræmis við það sem fram hefur komið um eignastöðu aðila og ber þá að boða á ný til skiptafundar, sbr. 77.–79. gr. laga nr. 20/1991. Komi fram mótmæli við frumvarpi skiptastjóra til úthlutunar verður farið að sem greinir í 3. mgr. 79. gr. laganna, sbr. 122. gr. þeirra.
42. Af miklu skeytingarleysi virti sóknaraðili að vettugi ítrekaðar beiðnir skiptastjóra um að upplýsa um fjárhæð innstæðna á erlendum bankareikningum og gaf óljós og misvísandi svör þar um fyrir héraðsdómi. Með því olli hann drætti á meðferð málsins hjá skiptastjóra og varð þess valdandi að frumvarp skiptastjóra til úthlutunar gaf ekki rétta mynd af eignum málsaðila er það fór fyrir dóm. Af þeim sökum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað fyrir Landsrétti og Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði, sbr. b- og c- lið 1. mgr. 131. gr., sbr. 5. mgr. 174. gr. laga nr. 91/1991.
Dómsorð:
Kröfu sóknaraðila, B, er vísað frá Hæstarétti.
Kröfu varnaraðila, A, er vísað frá héraðsdómi.
Sóknaraðili greiði varnaraðila samtals 1.800.000 króna í kærumálskostnað fyrir Landsrétti og Hæstarétti.