Hæstiréttur íslands

Mál nr. 53/2024

Linda Kristín Kristmannsdóttir, Geir Þorsteinsson, Barði Halldórsson og Hólmfríður Kristjánsdóttir (Sveinn Guðmundsson lögmaður)
gegn
Bjarnfríði Hlöðversdóttur (Eva B. Helgadóttir lögmaður)
og gagnsök

Lykilorð

  • Eignarréttur
  • Grennd
  • Dagsektir
  • Matsgerð
  • Kröfugerð
  • Samlagsaðild
  • Réttaráhrif dóms

Reifun

L o.fl. höfðuðu mál á hendur B og kröfðust þess aðallega að tré á fjögurra metra belti á lóð B mælt frá lóðarmörkum þeirra yrðu fjarlægð en önnur tré á lóðinni klippt niður í nánar tilgreinda hæð. L og G annars vegar og B og H hins vegar voru eigendur tveggja parhúsa á lóðum aðliggjandi lóð B og töldu þau sig verða fyrir verulegum óþægindum af völdum trjágróðurs á lóð B. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að vísa bæri frá héraðsdómi að sjálfsdáðum kröfu L o.fl. um greiðslu dagsekta þar sem hvert og eitt þeirra hefði ekki gert sjálfstæða aðgreinda kröfu um greiðslu þeirra. Í dómi Hæstaréttar kom fram að trjágróður á lóð B væri mikill að umfangi og hæð og ljóst væri að hann hamlaði verulega flæði birtu og sólarljóss að lóðum L o.fl. með tilheyrandi skuggavarpi og takmörkun útsýnis frá eignum þeirra. Taldi Hæstiréttur því að L o.fl. þyrftu ekki, samkvæmt reglum grenndarréttar, að sætta sig við þau óþægindi og röskun sem af trjágróðrinum leiddi að óbreyttu. Hæstiréttur tók fram að það hvernig kröfugerð L o.fl. hefði þróast undir rekstri málsins setti því óhjákvæmilega skorður hversu langt yrði gengið í því skyni að tryggja hagsmuni þeirra enda hefðu þau unað niðurstöðu héraðsdóms sem hafnaði kröfu þeirra um að fjarlægja allan trjágróður á lóð B í fjögurra metra belti frá lóðarmörkum. Var að því virtu staðfest sú niðurstaða að lækka bæri trjágróður á umræddu fjögurra metra belti í 48,6 metra hæð yfir sjávarmáli. Varðandi trjágróður utan umrædds fjögurra metra svæðis við lóðarmörk féllst Hæstiréttur á að hann skerti einnig grenndarréttarlega hagsmuni þeirra til nýtingar fasteigna sinna. Hins vegar komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að matsgerð sú sem lá fyrir í málinu og L o.fl. byggðu á gæti ekki orðið grundvöllur inngrips í trjágróður B á þeim hluta lóðarinnar í ljósi annamarka á henni. Var þeim hluta kröfugerðinnar sem tók til trjágróðurs á lóð B utan fjögurra metra beltis frá lóðarmörkum vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Skúli Magnússon.

2. Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 13. desember 2024. Endanleg kröfugerð þeirra er á þá leið að þau krefjast þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað aftur til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Til vara er þess krafist að gagnáfrýjanda verði með dómi gert skylt að klippa trjágróður sem gróðursettur hefur verið á lóð hennar við […] í Kópavogi innan við fjóra metra frá mörkum þeirrar lóðar og lóða aðaláfrýjenda við […] og […] þannig að hann standi ekki hærra en í 48,6 metra hæð yfir sjávarmáli og gagnáfrýjanda verði gert skylt að klippa og snyrta öll tré sem gróðursett hafa verið á fasteign hennar að […] í Kópavogi niður í 54 metra hæð yfir sjávarmáli að viðlögðum dagsektum, 35.000 krónur á dag, sem renni til aðaláfrýjenda. Í báðum tilvikum krefjast aðaláfrýjendur málskostnaðar á öllum dómstigum.

3. Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu fyrir sitt leyti 18. desember 2024 og krefst sýknu af öllum kröfum aðaláfrýjenda. Þá krefst hún málskostnaðar á öllum dómstigum en til vara að hann verði látinn niður falla.

Ágreiningsefni

4. Í málinu deila aðilar um trjágróður á lóð gagnáfrýjanda að […] í Kópavogi en aðaláfrýjendur eru eigendur aðliggjandi fasteigna nr. […] og […] við […] í sama sveitarfélagi. Telja þeir síðarnefndu sig verða fyrir verulegum óþægindum af völdum trjágróðursins. Höfðuðu þau upphaflega mál þetta á hendur gagnáfrýjanda og gerðu þær dómkröfur aðallega að tré á fjögurra metra belti á lóð hennar, mælt frá lóðamörkum, yrðu fjarlægð en önnur tré á lóðinni klippt niður í nánar tilgreinda hæð. Til vara kröfðust þau þess að öll tré á lóð gagnáfrýjanda yrðu klippt niður í ákveðna hæð svo sem nánar var útlistað í kröfugerð þeirra.

5. Með héraðsdómi var fallist á varakröfu aðaláfrýjenda en þó þannig útfærða að á fjögurra metra svæði frá lóðamörkum fasteigna gagnáfrýjanda og aðaláfrýjenda skyldi gagnáfrýjandi klippa trjágróður á lóð sinni á þann veg að hæð trjáa yrði ekki hærri en 48,6 metrar yfir sjávarmáli. Þegar fjórum metrunum sleppti skyldi trjágróður halla með 53° halla upp í 54 metra hæð yfir sjávarmáli. Frá þeim stað skyldu tré á lóð gagnáfrýjanda klippt þannig að þau væru ekki hærri en í 54 metra hæð yfir sjávarmáli.

6. Með hinum áfrýjaða dómi var niðurstaða héraðsdóms um lækkun trjánna á fjögurra metra beltinu staðfest sem og að frá þeim mörkum skyldi hæð þeirra vera með 53° halla þar til þau næðu 54 metra hæð yfir sjávarmáli. Að öðru leyti var gagnáfrýjandi sýknuð af kröfu um klippingu trjáa á lóð sinni.

7. Af hálfu beggja aðila var sótt um áfrýjunarleyfi og var það veitt 12. desember 2024, með ákvörðunum Hæstaréttar nr. 2024-134 og 135, á þeim grunni að úrslit málsins gætu haft verulegt almennt gildi á sviði grenndarréttar.

Málsatvik

8. Aðaláfrýjendur, Linda og Geir eru eigendur fasteignarinnar nr. […] við […] í Kópavogi en aðaláfrýjendurnir Barði og Hólmfríður eigendur fasteignarinnar nr. […] við sömu götu en um er að ræða tveggja hæða parhús. Gagnáfrýjandi er eigandi einbýlishúss að […]. Parhús aðaláfrýjenda stendur í talsverðri brekku norðan og austan húss gagnáfrýjanda sem stendur þar neðar en lóðir málsaðila liggja saman.

9. Gildandi deiliskipulag fyrir svæðið var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs 8. júní 1990. Þar er meðal annars kveðið á um að eitt meginmarkmiðið með því sé að nýta sem best eða virkja þá staðhætti sem fyrir hendi séu innan skipulagsmarka. Er þá vísað til halla landsins, afstöðu gagnvart sól og veðri, einstaks útsýnis og þónokkurs trjá- og runnagróðurs á deiliskipulagssvæðinu. Þá kemur meðal annars fram í kafla um gróðurfar og opin svæði að víða séu trjálundir með föngulegum trjám og runnum af ýmsum tegundum. Í umræddum gróðri felist ákveðin umhverfisgildi fyrir væntanlega íbúa. Sé það eitt meginmarkmið við skipulagsgerðina að byggðin falli sem best að honum. Annars vegar séu stærstu svæðin látin „klæða“ að byggðinni og tengjast útivistarsvæðum og gönguleiðum í umhverfi sambýlishúsa. Hins vegar sé reynt að fella smærri lundi inn í lóðaskipan, bæði sameiginlegra lóða og einkalóða. Enn fremur kemur fram að útsýni frá svæðinu sé einstaklega fjölbreytilegt og fagurt. Með skipulagsgerðinni sé reynt að tryggja sem flestum gott útsýni, með hagnýtingu smárra húsaeininga, innbyrðis afstöðu þeirra og hæðarsetningu.

10. Húsið á lóð gagnáfrýjanda að […] mun hafa verið reist árið 1952 og eignaðist hún það árið 1976. Réttindum yfir fasteigninni mun upphaflega hafa verið ráðstafað á erfðaleigu 1938 en núverandi heimild gagnáfrýjanda til lóðarinnar er reist á lóðarleigusamningi 31. mars 2022. Lóðin er þar sögð vera 1426 fermetrar og leigð til 50 ára frá 1. ágúst 2018. Að öðru leyti hefur samningurinn að geyma hefðbundna skilmála lóðarleigusamnings.

11. Ekki liggja fyrir í málinu lóðarleigusamningar aðaláfrýjenda vegna […] og […] en parhúsið mun vera reist á árunum 1997 og 1998. Aðaláfrýjendurnir Barði og Hólmfríður eignuðust sinn hluta hússins árið 2009 en aðrir aðaláfrýjendur 2020.

12. Með bréfi lögmanns aðaláfrýjendanna Barða og Hólmfríðar til gagnáfrýjanda 10. júlí 2020 var kvartað yfir skuggavarpi og óþrifnaði vegna gróðurs á lóð hennar. Munu málsaðilar og fulltrúar þeirra í framhaldinu hafa fundað án þess að lausn næðist.

13. Í matsgerð byggingarverkfræðings frá apríl 2022, sem var dómkvaddur að beiðni aðaláfrýjenda, kemur fram að á lóð […] séu mörg gömul tré sem hafi fengið að vaxa óáreitt í tugi ára og mörg þeirra séu há. Ekkert hafi verið gert til þess að halda þeim í skefjum og sjá til þess að þau skerði ekki útsýni og valdi ekki skuggavarpi á lóðum nágranna. Háu trén hafi margvísleg áhrif. Þau sem næst séu lóðamörkum vaxi yfir á lóðir nágranna og rætur fari yfir á lóðir þeirra. Þá valdi öll háu trén á lóðinni að […] miklu skuggavarpi á lóðirnar að […] og […]. Þegar trén eru í blóma sé auk þess ekkert útsýni frá þeim lóðum nema rétt til austurs og suðausturs. Þá segir að umfang háu trjánna á lóð […] sé slíkt að „þetta sé eins og veggur“.

14. Matsmanni telst svo til að um 45 tré hærri en 1,8 metrar séu á lóðinni við […] á því svæði sem nái fjóra metra frá lóðamörkum við fasteign aðaláfrýjenda. Toppar trjáa á lóðinni við […] séu 11 til 13 metrum ofar en svalir á annarri hæð hússins við […] og […]. Þá valdi öll trén sem eru á svæðinu innan við fjóra metra frá lóðamörkum miklu skuggavarpi á lóð aðaláfrýjenda og þegar þau séu laufguð sé ekkert útsýni frá lóðum þeirra nema rétt til austurs og suðausturs. Lagði matsmaður annars vegar til, meðal annars með hliðsjón af fyrirmælum byggingarreglugerðar, að klippa og snyrta allan góður og tré á lóðarmörkum þannig að hann yrði ekki hærri en sem næmi 1,8 metrum á svæði sem næði fjóra metra inn á lóð […] frá lóðamörkum við fasteignir aðaláfrýjenda. Hins vegar yrðu öll önnur tré á lóð gagnáfrýjanda klippt niður í 54 metra hæð yfir sjávarmáli.

15. Í framhaldi af því að matsgerðin lá fyrir áttu lögmenn aðila í samskiptum vorið 2022 án þess að samkomulag næðist. Höfðuðu aðaláfrýjendur mál þetta 1. september 2022.

16. Dómarar Hæstaréttar gengu á vettvang 29. apríl 2025. Við það tilefni var staðreynt að mikill trjágróður er á lóð gagnáfrýjanda, þar á meðal mikið af hávöxnum trjám. Eru mörg þeirra orðin svo há að þau ná upp fyrir parhús aðaláfrýjenda þótt það standi talsvert hærra í landinu en lóð gagnáfrýjanda.

Málsástæður

Helstu málsástæður aðaláfrýjenda

17. Aðalkröfu sína um ómerkingu dóms Landsréttar byggja aðaláfrýjendur á því að með niðurstöðu hins áfrýjaða dóms hafi verið brotið gegn málsforræðisreglunni og farið út fyrir málsástæður gagnáfrýjanda, sbr. 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þannig hafi gagnáfrýjandi ekki byggt á því í málinu að henni væri eingöngu skylt að lækka trjágróður innan við fjóra metra frá lóðarmörkum, líkt og niðurstaða Landsréttar kveði á um. Málatilbúnaður gagnáfrýjanda í greinargerð til héraðsdóms hafi að mestu verið byggður á svokölluðum forgangssjónarmiðum, það er að trén hafi verið á lóðinni þegar aðaláfrýjendur keyptu sínar fasteignir. Ljóst sé að gagnáfrýjanda hafi verið kunnugt um þann lið í kröfugerð aðaláfrýjenda að lækka skyldi trjágróður innan við fjóra metra frá lóðarmörkum og því sé um að ræða málsástæðu sem hefði mátt koma fram við meðferð málsins.

18. Aðaláfrýjendur byggja varakröfu sína á því að dómur Landsréttar sé í grundvallaratriðum byggður á röngum forsendum og gangi of skammt að teknu tilliti til hagsmuna aðaláfrýjenda og framlagðrar matsgerðar sem ekki hafi verið hnekkt. Forsendur Landsréttar séu í ósamræmi við matsgerðina. Aðaláfrýjendur byggja aðallega á almennum ólögfestum reglum grenndarréttar. Óþægindi af trjágróðri gagnáfrýjanda sé veruleg og mun meiri en aðaláfrýjendur eigi að þurfa að þola. Óheimilt sé að rækta trjágróður þannig að sólar njóti ekki við á lóðum nágranna en hæð og staðsetning trjánna valdi því að réttur aðaláfrýjenda til sólar og birtu sé stórlega skertur og hindri trén með öllu útsýni til suðurs og vesturs. Einnig vísa þau til ákvæða byggingarreglugerða sem endurspegli hefðbundin grenndarsjónarmið sem taka beri mið af við túlkun á því hvaða grenndaráhrif nágrannar þurfi ekki að þola samkvæmt ólögfestum reglum um grenndarrétt. Aðaláfrýjendur telja ljóst að trjágróður á lóð gagnáfrýjanda sé ekki í samræmi við þau viðmið en fyrir liggi samkvæmt matsgerð dómkvadds manns að hæð og umfang trjágróðurs á lóð hennar geri það að verkum að nær algerlega sé skyggt á dagsbirtu, sól og útsýni á lóðum þeirra. Enn fremur eigi forgangssjónarmið ekki við í málinu enda hafi Hæstiréttur hafnað sjónarmiðum af þeim toga í dómi 17. janúar 2013 í máli nr. 424/2012.

19. Aðaláfrýjendur telja ljóst af gögnum málsins sem og framburði dómkvadds manns fyrir héraðsdómi að nauðsynlegt sé að lækka trjágróður bæði innan fjögurra metra frá lóðamörkum sem og utan fjögurra metra línu frá þeim. Skýrlega komi fram í matsgerð að há og þétt tré standi ekki eingöngu við lóðamörk heldur séu einnig önnur há tré inni á lóð gagnáfrýjanda sem valdi miklu skuggavarpi og skerði útsýni frá fasteign aðaláfrýjenda. Í matsgerð sé þannig tekið fram að öll háu trén á lóð gagnáfrýjanda valdi miklu skuggavarpi á lóðir aðaláfrýjenda. Nánar tiltekið komi fram í matsgerð að einungis skíni sól á svalir […] í rúma tvo mánuði, frá miðjum maí og út júlí. Á palli neðri hæðar hússins skíni aðeins sól á morgnana þar sem trén skyggi ekki á en upp úr hádegi hverfi hún. Þá taki matsmaður fram að þegar sól sé komin í vestur sé hún mun lægra á lofti en um miðjan dag og sé staðan því enn verri á vesturhlið hússins að […] og sjáist þar aldrei til sólar. Ekkert liggi fyrir um það í málinu að nægilegt sé að lækka trjágróður eingöngu innan fjögurra metra línu frá lóðamörkum.

20. Loks byggja aðaláfrýjendur á því að sú málsástæða gagnáfrýjanda að kröfugerð þeirra sé óljós sé of seint fram komin, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991.

Helstu málsástæður gagnáfrýjanda

21. Gagnáfrýjandi andmælir ómerkingarkröfu aðaláfrýjenda. Hún byggir á því að málsmeðferðin hafi ekki verið í andstöðu við meginreglur einkamálaréttarfars. Hún hafi krafist sýknu af öllum kröfum aðaláfrýjenda á öllum dómstigum og byggt á því að kröfugerð og málsgrundvöllur aðaláfrýjenda á hendur henni standist ekki.

22. Gagnáfrýjandi bendir jafnframt á að kröfugerð aðaláfrýjenda sé óbreytt frá varakröfu í stefnu. Hafa beri í huga að héraðsdómur hafi að verulegu leyti vikið frá varakröfunni og þau krafist staðfestingar á þeirri niðurstöðu fyrir Landsrétti. Í hinum áfrýjaða dómi hafi frekar verið vikið frá kröfum aðaláfrýjenda. Þau geti ekki borið aðrar og meiri kröfur undir Hæstarétt en þær sem héraðsdómur hafi fallist á í ljósi þess að þau hafi krafist staðfestingar þeirrar niðurstöðu fyrir Landsrétti.

23. Þá telur gagnáfrýjandi bæði héraðsdóm og Landsrétt hafa gengið of langt í því að lagfæra kröfugerð aðaláfrýjenda en slíkt stríði gegn málsforræðisreglunni. Hafi þannig í héraði og fyrir Landsrétti verið farið út fyrir kröfugerð aðaláfrýjenda og sakarefni málsins. Telur gagnáfrýjandi kröfugerð aðaláfrýjenda fyrir Hæstarétti ekki standast og heldur ekki niðurstöðu hins áfrýjaða dóms.

24. Gagnáfrýjandi byggir einnig á því að kröfugerð aðaláfrýjenda sé óljós þar sem þess sé krafist að sneitt verði ofan af öllum trjám á lóð hennar miðað við tiltekið hæðarmark án tillits til þess hvaða áhrif hvert tré hafi á hagsmuni og hag þeirra. Gangi dómkröfur aðaláfrýjenda of langt og þær of almennar.

25. Gagnáfrýjandi telur matsgerðina haldna slíkum annmörkum að ekki verði við hana stuðst. Í henni sé leitast við að svara þeirri spurningu hvernig opna megi á aukið sólarljós á tiltekna hluta lóðar aðaláfrýjenda og „skapa ánægju nágranna við […]“. Um sé að ræða mjög matskennt og afstætt viðmið. Enga birtumælingu sé að finna í matsgerð heldur sé þar eingöngu byggt á mælingu á hæð trjátoppa, upplýsingum um gang sólar og ályktunum matsmanns. Auk þess fari matsmaður langt út fyrir hlutverk sitt og túlki og leggi mat á ákvæði byggingarreglugerðar og byggi niðurstöður á rangri og afturvirkri túlkun á ákvæðum gildandi byggingarreglugerðar. Þrátt fyrir þetta styðjist hinn áfrýjaði dómur við matsgerðina í niðurstöðu sinni sem feli í sér afturvirka og íþyngjandi beitingu stjórnvaldsfyrirmæla.

26. Þá byggir gagnáfrýjandi á því að kröfugerð aðaláfrýjenda, sem taki til allra trjáa á lóð gagnáfrýjanda án nokkurrar tilgreiningar eða afmörkunar, gangi freklega á eignarrétt og friðhelgi sína og fái hvorki stoð í lögum, reglugerð né óskráðum reglum grenndarréttar. Krafa um að henni verði gert að sneiða ofan af öllum trjám sem standi innan við fjóra metra frá lóðarmörkum þannig að þau standi ekki hærra en 1,8 metra frá jörðu eigi sér engan grundvöll. Þá geti kröfugerð um að henni beri að snyrta eða klippa öll tré á lóð sinni niður í tiltekna hæð yfir sjávarmáli án nánari tilgreiningar ekki talist eiga sér stoð í lögum, reglum eða fordæmum. Vísar hún til þess að trjálundur hennar hafi verið til staðar þegar hverfið var skipulagt í Digraneshlíðum og hann staðið þar þegar aðaláfrýjendur keyptu eignir sínar.

27. Gagnáfrýjandi mótmælir því að kröfur aðaláfrýjenda eigi sér stoð í ólögfestum reglum grenndarréttar. Kröfugerðin byggi á því einu að aðaláfrýjendur vilji fá meiri birtu á hluta af sólpalli og aukið útsýni í tiltekna átt. Mótmælir hún því að reglur grenndarréttar styðji kröfur um nær óhindrað útsýni og ótiltekna birtu eða sólarljós í allar áttir. Þvert á móti gildi sú meginregla að íbúar í þéttbýli verði alltaf að gera ráð fyrir einhverju óhagræði og óþægindum og falli skerðing á útsýni og birtu þar undir. Ekki síst eigi það við þegar skerðing sé til staðar þegar hús sé byggt eða keypt, líkt og eigi við um aðaláfrýjendur. Gagnáfrýjandi mótmælir því jafnframt að kröfur aðaláfrýjenda eigi sér stoð í byggingarreglugerð nr. 112/2012 eða eldri byggingarreglugerð. Þá er því mótmælt að gildandi byggingarreglugerð endurspegli almenn viðmið í grenndarrétti. Viðmið um hæð yfir sjávarmáli eigi sér heldur ekki stoð í henni og hvað þá að hægt sé að gera kröfu um að aðili viðhaldi gróðri í tiltekinni hæð með tilheyrandi fyrirhöfn og kostnaði um ókomna tíð. Dómur Landsréttar leysi aðeins úr ágreiningi aðila tímabundið og sé álitamál hvort það standist kröfur um skýrleika og að um endanlega úrlausn sakarefnis og ágreinings sé að ræða.

28. Loks krefst gagnáfrýjandi sýknu með vísan til þess að aðaláfrýjendur hafi kosið að gera óskiptar kröfur í málinu óháð ólíkum hagsmunum þeirra með tilliti til lóðamarka og staðsetningar trjáa á lóð hennar.

Niðurstaða

Um formhlið málsins

29. Megineinkenni samlagsaðildar samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, og það sem skilur hana frá samaðild samkvæmt 18. gr. sömu laga, er að í skjóli hennar er fleiri en einum heimilt að sækja mál í félagi um kröfur á hendur einum eða fleiri varnaraðilum þar sem hver sóknaraðili gæti allt eins höfðað sjálfstætt mál um kröfu sína á hendur hverjum varnaraðila. Samkvæmt dómum Hæstaréttar er það ófrávíkjanlegt skilyrði þess að unnt sé að nýta sér réttarfarshagræði 1. mgr. 19. gr. laganna að hver sóknaraðila geri sjálfstæða aðgreinda kröfu. Varðar það frávísun máls af sjálfsdáðum sé þetta ekki gert, sbr. til dæmis dóma réttarins 6. september 2005 í máli nr. 294/2005 og 21. október sama ár í máli nr. 439/2005. Aðaláfrýjendur hafa beint sameiginlegri kröfu um greiðslu dagsekta að gagnáfrýjanda án aðgreiningar. Hafa þau ekki lagfært hana að því leyti. Samkvæmt því ber að vísa kröfu aðaláfrýjenda um greiðslu dagsekta frá héraðsdómi af sjálfsdáðum.

30. Um aðrar kröfur aðaláfrýjenda gegnir öðru máli. Líta verður svo á að hver þeirra hafi uppi sjálfstæða kröfu á hendur gagnáfrýjanda að því er varðar klippingu trjágróðurs á lóð hennar og séu þær samhljóða. Af þeim sökum var ástæðulaust að tiltaka sérstaklega hvers krafist væri af hendi hvers aðaláfrýjanda með orðréttri endurtekningu fyrir hvert þeirra um sig. Nægði í þeim efnum að þetta væri gert í eitt skipti fyrir þau öll, sbr. dóm Hæstaréttar 22. september 2022 í máli nr. 39/2022. Fór þessi hluti kröfugerðar aðaláfrýjenda því ekki í bága við áskilnað 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991.

31. Aðaláfrýjendur undu þeirri niðurstöðu héraðsdóms að hafna þeim þætti aðalkröfu hans að gagnáfrýjanda bæri að fjarlægja allan trjágróður á lóð sinni á fjögurra metra belti frá lóðamörkum fasteigna málsaðila. Er sú niðurstaða héraðsdóms staðfest í hinum áfrýjaða dómi að á umræddu fjögurra metra belti skuli gagnáfrýjandi klippa trjágróður allan þannig að hæð trjáa nái mest 48,6 metrum yfir sjávarmáli. Það mun svara til þess að trjágróður geti verið í 1,8 metra hæð yfir gólfi neðri plötu parhússins sem stendur á lóðum aðaláfrýjenda.

32. Í héraðsdómi, sem og hinum áfrýjaða dómi, var hins vegar farið út fyrir kröfugerð aðaláfrýjenda þegar dæmt var á þá leið að þegar fjögurra metra beltinu sleppti innan lóðar gagnáfrýjanda skyldi hæð trjánna fylgja línu með 53° halla upp í 54 metra hæð yfir sjávarmáli. Trén á lóðinni skyldu að öðru leyti ekki vera hærri en í 54 metra hæð yfir sjávarmáli. Kröfugerð aðaláfrýjenda miðaðist þvert á móti við það að utan fjögurra metra beltisins á lóð gagnáfrýjanda skyldi miða hæð allra trjáa við 54 metra hæð yfir sjávarmáli. Rúmast þessi útfærsla dómsorðs því ekki innan kröfugerðar aðaláfrýjenda og var hún í andstöðu við 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991.

33. Hér fyrir dómi hafa aðaláfrýjendur lagað endanlega kröfugerð sína að upphaflegri dómkröfu í héraði og krefjast þess nú að gagnáfrýjanda verði með dómi gert að lækka trjágróður á fjögurra metra beltinu niður í 48,6 metra hæð yfir sjávarmáli og að því slepptu verði hún dæmd til að lækka allan annan trjágróður á lóð sinni í 54 metra hæð yfir sjávarmáli. Að því virtu stendur fyrrgreindur ágalli á dómum héraðsdóms og Landsréttar því ekki í vegi að lagður verði efnisdómur á málið, sbr. dóm Hæstaréttar 9. febrúar 2022 í máli nr. 32/2021.

34. Krafa aðaláfrýjenda um ómerkingu hins áfrýjaða dóms sýnist á því reist að gagnáfrýjandi hafi ekki byggt á því í málinu að henni sé „eingöngu skylt að lækka trjágróður innan við fjóra metra frá lóðarmörkum“. Landsréttur hafi því í niðurstöðu sinni farið út fyrir heimildir sínar, sbr. 1. mgr. 163. gr. og 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991, og byggt á röksemd sem gagnáfrýjandi hafði ekki uppi til stuðnings kröfum sínum. Við úrlausn þessarar ómerkingarkröfu er í fyrsta lagi til þess að líta að það voru aðaláfrýjendur sjálfir sem með varakröfu sinni mörkuðu málinu þann farveg að trjágróður á umræddu fjögurra marka svæði frá lóðamörkum yrði klipptur niður í fyrrgreinda hæð. Þá er til þess að líta að héraðsdómur var hvað þetta varðar sama efnis og hinn áfrýjaði dómur en aðaláfrýjendur kröfðust staðfestingar héraðsdóms fyrir Landsrétti án þess að hafa uppi neinar viðbárur þessa efnis um málatilbúnað gagnáfrýjanda. Að þessu virtu fer því fjarri að niðurstaða hins áfrýjaða dóms hafi verið reist á málsástæðu gagnáfrýjanda sem ekki hafði komið fram í málinu. Verður kröfu aðaláfrýjenda um ómerkingu hins áfrýjaða dóms af þessum sökum því hafnað.

35. Loks hefur gagnáfrýjandi borið því við að kröfugerð aðaláfrýjenda sé óljós og of víðtæk og dómsorð á grundvelli hennar bresti skýrleika. Aðaláfrýjendur kusu að áfrýja ekki til Landsréttar niðurstöðu héraðsdóms og halda þannig til streitu þeirri kröfu sinni að trjágróður á umræddu fjögurra metra belti yrði fjarlægður með öllu. Gangi dómur í samræmi við kröfur þeirra fyrir Hæstarétti má ljóst vera að hann verður einungis fullnustaður í eitt skipti á grundvelli 1. töluliðar 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Það liggur í hlutarins eðli að þau tré sem um ræðir munu að öllum líkindum í tímans rás vaxa á ný upp fyrir umrædd hæðarmörk. Mögulegan og viðvarandi ágreining um trén á lóð gagnáfrýjanda kann þá að verða að bera að nýju undir dómstóla. Þrátt fyrir þessa fyrirsjáanlegu takmörkun á réttaráhrifum dómsins stenst kröfugerð aðaláfrýjenda, eins og henni er hagað, kröfur um skýrleika og endanlega úrlausn sakarefnis.

Um matsgerð dómkvadds manns

36. Svo sem fram hefur komið var byggingarverkfræðingur dómkvaddur að beiðni aðaláfrýjenda og er matsgerð hans frá apríl 2022. Matsspurningar þær sem lagðar voru fyrir hann voru hvorki nákvæmar né gagnsæjar og bera svör hans þess merki. Augljóst er af aðstæðum á vettvangi að áhrif trjágróðurs og einstakra trjáa á lóð gagnáfrýjanda á birtu, sólarljós og útsýni af lóðum aðaláfrýjenda eru mismunandi eftir staðsetningu trjánna. Því er hins vegar í engu borið við í matsgerðinni, utan svæðis á lóð gagnáfrýjanda fjóra metra frá lóðarmörkum, að skilgreina nánar eða hnitsetja einstök tré eða þyrpingu trjáa sem æskilegt væri að fjarlægja með öllu ellegar lækka til að koma með ásættanlegum hætti til móts við grenndarréttarlega hagsmuni aðaláfrýjenda. Þess í stað er allur trjágróður á lóð gagnáfrýjanda utan fjögurra metra svæðisins settur undir sama hatt og lagt til grundvallar að hann verði allur lækkaður niður í 54 metra hæð yfir sjávarmáli. Í öðru lagi leggur matsmaður til grundvallar niðurstöðum sínum eigin túlkun á því við hvaða byggingarreglugerð skuli miða um gróður á lóðamörkum og hvernig túlka beri einstök ákvæði hennar. Slíkt var ekki á verksviði matsmanns. Í þriðja lagi var upplýst við skýrslutökur fyrir héraðsdómi að matsmaður byggi ekki yfir sérþekkingu á trjárækt og gat hann því ekki upplýst um áhrif þeirra aðgerða sem hann lagði til á lífvænleika trjánna. Setur þetta þýðingu matsgerðar við úrlausn málsins augljóslega veruleg takmörk svo sem vikið verður að hér síðar.

Um efnishlið málsins

37. Við efnisúrlausn máls þessa koma annars vegar til skoðunar ólögfestar reglur íslensks réttar um grennd en hins vegar skráðar reglur opinbers réttar eðlis og er þá vísað til fyrirmæla byggingarreglugerðar um trjágróður á lóðum og við lóðamörk.

38. Í reglum grenndarréttar felst að fasteignareigandi verður við hagnýtingu eignar að haga athöfnum sínum þannig að þær fari fram innan marka hennar. Þá má hann heldur ekki aðhafast neitt það á fasteign sinni sem getur haft bein áhrif á nágrannaeign og valdið þar óþægindum umfram það sem nágrannar hans þurfa að þola, sbr. til athugunar dóm Hæstaréttar 27. nóvember 2014 í máli nr. 93/2014. Að því gættu er því ekki þannig farið að heimild fasteignareiganda til athafna lúti alfarið væntingum nágranna um að komast hjá hvers konar óhagræði eða óþægindum af hans völdum. Við mat á grenndarréttarlegu jafnvægi milli nágranna vegast þvert á móti á annars vegar hagsmunir fasteignareiganda af athafnafrelsi á fasteign sinni og hins vegar hagsmunir nágranna af því að njóta friðar á sinni eign. Er þá til þess að líta að hagsmunir beggja njóta verndar 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. dóm Hæstaréttar 17. desember 2020 í máli nr. 25/2020.

39. Vernd grenndarreglna er ekki takmörkuð við ákveðnar tegundir óþæginda umfram aðrar. Frá fasteign geta borist föst, fljótandi og loftkennd efni inn á granneign. Þá geta óþægindi frá fasteign verið óáþreifanleg, svo sem hljóð, skuggar, ljósblik og titringur vegna starfsemi eða framkvæmda. Enn fremur hefur verið staðfest í réttarframkvæmd að óþægindi af grenndarréttarlegum toga geti falist í því að útsýni og aðkoma birtu skerðist vegna trjágróðurs á granneign.

40. Svo til ábyrgðar stofnist samkvæmt grenndarreglum verða óþægindi að vera veruleg og umfram það sem nágranni má vænta. Í því felst að eigandi fasteignar sem óþægindi stafa frá þarf í athöfnum sínum að hafa farið yfir þau þolmörk sem grenndarreglur setja eignarráðum hans. Af fjölbreytileika þeirra tilvika sem um er að ræða leiðir að vandasamt getur verið í einstökum tilvikum að draga mörkin milli leyfilegra og óleyfilegra athafna samkvæmt grenndarrétti og er þá jafnan til margvíslegra atriða að líta. Ræður heildarmat á hagsmunum niðurstöðu. Almenn viðmið hér að lútandi hafa þó mótast í réttarframkvæmd og þannig má fullyrða að í þéttbýli verða fasteignaeigendur almennt að þola frekari óþægindi en ella, sbr. dóma Hæstaréttar 13. desember 1971 í máli nr. 43/1970 sem birtur er á bls. 1189 í dómasafni réttarins það ár og 17. janúar 2013 í máli nr. 424/2012.

41. Hvað varðar sérstaklega óþægindi vegna trjágróðurs á lóðum í þéttbýli vísast til síðastnefnds dóms réttarins í máli nr. 424/2012. Þar krafðist fasteignareigandi þess að nágranna yrði gert að fjarlægja ellegar klippa niður tvö grenitré sem höfðu verið gróðursett nærri lóðamörkum. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna, var talið að skert birtuskilyrði auk stærðar, umfangs og staðsetningar grenitrjánna nærri lóðamörkum væri nágranna til verulegra óþæginda og langt umfram það sem hann þyrfti að þola samkvæmt ólögfestum reglum grenndarréttar. Ekki var talið unnt að draga úr þessum óþægindum með öðru móti en að fjarlægja trén.

42. Í tilvitnuðu dómsmáli var meðal annars á því byggt af hálfu stefnda að forgangssjónarmið ættu að ráða niðurstöðu þar sem trén hefðu verið fyrir hendi þegar nágranninn eignaðist aðliggjandi fasteign. Í dóminum var því hafnað að byggt yrði á slíkum sjónarmiðum og yrði að meta atvik málsins í heild, meðal annars með tilliti til þess hvort óþægindi af trjánum væru veruleg.

43. Í grein 7.2.2 í gildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem ber yfirskriftina tré og runnar á lóðum, segir svo:

Ekki má planta hávöxnum trjátegundum nær lóðarmörkum aðliggjandi lóða en 4,0 m. Við staðsetningu trjáa á lóð sem ætlað er að vaxi frjáls skal taka tillit til skuggavarps á viðkomandi lóð og nágrannalóðum. Sé trjám eða runnum plantað við lóðarmörk samliggjandi lóða skal hæð þeirra ekki verða meiri en 1,80 m, nema lóðarhafar beggja lóða séu sammála um annað. Ef lóðarmörk liggja að götu, gangstíg eða opnu svæði má trjágróður ná meiri hæð, enda komi til samþykki veghaldara eða umráðaaðila viðkomandi svæðis.
Lóðarhafa er skylt að halda vexti trjáa og runna á lóðinni innan lóðarmarka. Sinni hann því ekki og þar sem vöxtur trjáa eða runna fer út fyrir lóðarmörk við götur, gangstíga eða opin svæði er veghaldara eða umráðamanni svæðis heimilt að fjarlægja þann hluta er truflun eða óprýði veldur, á kostnað lóðarhafa að undangenginni aðvörun.

44. Í grein 68.3 í eldri byggingarreglugerð nr. 441/1998 kom fram að hæð trjáa sem gróðursett væru á lóðamörkum mætti ekki verða meiri en 1,80 metrar.

45. Þó stjórnvöld eigi almennt ein ákvörðunarvald um það hvernig reglum opinbers réttar er framfylgt, svo sem við á í tilviki byggingarreglugerðar, geta reglur grenndarréttar á hinn bóginn gilt samhliða þeim ekki síst í þeim tilvikum þegar verndarandlagið er það sama. Þetta er þó ekki algilt og verður þá að hafa í huga að eigendur fasteigna njóta verndar grenndarreglna óháð opinberum reglum og því hvernig stjórnvöld framfylgja þeim. Í því tilviki sem hér um ræðir er allt að einu tekið undir þær forsendur í hinum áfrýjaða dómi að tilvitnaðar reglur byggingarreglugerðar endurspegli að sínu leyti almenn viðmið grenndarréttar. Verður því við úrlausn sakarefnisins auk annars litið til framangreindra fyrirmæla og viðmiða byggingarreglugerðar.

46. Hvað sem líður aðstæðum til lengri tíma litið á lóðum aðila og þess hvers aðaláfrýjendur máttu vænta við kaup sín á […] og […] verður við hið grenndarréttarlega mat að líta til þess viðmiðs gildandi reglugerðar að gróður á lóðarmörkum skuli ekki fara yfir 1,80 metra. Er þá minnt á það viðtekna viðhorf í fræðaskrifum og réttarframkvæmd að vægi forgangssjónarmiða sé víkjandi við grenndarréttarlegt mat og þess í stað beri fyrst og fremst að taka mið af aðstæðum öllum og meta á þeim grundvelli og hverjum tíma hvort þau óþægindi sem nágranni býr við séu veruleg, sbr. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar í máli nr. 424/2012. Hvað varðar trjágróður sérstaklega verður við þetta mat að hafa í huga að tré hækka að jafnaði ár frá ári þannig að óþægindi nágranna vegna þeirra aukast að sama skapi eftir því sem árin líða. Þá er skuggavarp og skerðing á útsýni vegna þeirra ýmist árstíðabundið ef um lauftré er að ræða eða árið um kring ef um sígræn barrtré er að ræða.

47. Hér að framan hefur grein verið gerð fyrir aðstæðum á lóð gagnáfrýjanda og þeim áhrifum sem trjágróður á lóðinni hefur á nýtingu fasteigna aðaláfrýjenda. Í tilvitnaðri matsgerð er jafnframt gerð grein fyrir aðstæðum. Þá gekk rétturinn sem fyrr segir á vettvang og kynnti sér þær.

48. Trjágróður á lóð gagnáfrýjanda er mikill að umfangi og hæð og ljóst er að hann hamlar verulega flæði birtu og sólarljóss að lóðum aðaláfrýjenda með tilheyrandi skuggavarpi og takmörkun útsýnis frá eignum þeirra. Setur þetta nýtingu eignanna og þar með talið svala á annarri hæð skorður langt umfram það sem almennt má ganga út frá í sambærilegum tilvikum. Þá verður heimild til að viðhalda trjágróðri í jafnmiklum mæli og hann fyrirfinnst á lóð gagnáfrýjanda ekki fundin sérstök stoð í deiliskipulagi frá 8. júní 1990. Er að framangreindu virtu fallist á þær forsendur hins áfrýjaða dóms að aðaláfrýjendur þurfi ekki, samkvæmt reglum grenndarréttar, að sætta sig við þau óþægindi og röskun sem af þessu leiðir að óbreyttu.

49. Við mat á þeim úrræðum sem aðaláfrýjendur eiga kost á við þessar kringumstæður er til þess að líta að þegar grenndarreglur hafa verið brotnar er það meginregla að nágranni eigi rétt á að dregið sé úr óþægindum frá granneign niður að því marki sem honum er skylt að þola. Er það einungis við þær aðstæður að slíkt er ekki mögulegt að hann á kröfur til þess að þeirri starfsemi eða háttsemi sem veldur óþægindum verði alfarið hætt.

50. Það hvernig kröfugerð aðaláfrýjenda hefur þróast undir rekstri málsins setur því óhjákvæmilega skorður hversu langt verður gengið í því skyni að tryggja framangreinda hagsmuni aðaláfrýjenda. Sem fyrr segir kemur ekki til úrlausnar réttarins upphafleg krafa þeirra um að allur trjágróður á fjögurra metra svæðinu frá lóðamörkum verði fjarlægður. Varakrafa aðaláfrýjenda, sem fallist var á í hinum áfrýjaða dómi, um lækkun trjágróðurs á umræddum hluta lóðarinnar felur eðli málsins samkvæmt vart í sér varanlega lausn á þeirri röskun grenndarréttarlegra hagsmuna sem aðaláfrýjendur verða fyrir enda má ætla að umrædd tré vaxi að nýju. Með hliðsjón af því kunna efni mögulega að hafa staðið til þess að fjarlægja með öllu og varanlega trjágróður á umræddu fjögurra metra svæði. Er þá áréttað að við mat á grenndarréttarlegum úrræðum við þessar kringumstæður binda fyrirmæli byggingarreglugerðar ekki hendur dómstóla um hversu langt þarf að ganga til að draga nægilega úr þeim óþægindum sem um er að ræða í einstökum tilvikum.

51. Að þessu virtu og að teknu tilliti til matsgerðar dómkvadds manns þykir ekki óvarlegt að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms þess efnis að lækka beri trjágróður á umræddu fjögurra metra belti á lóð gagnáfrýjanda frá lóðarmörkum við lóðir aðaláfrýjenda í 48,6 metra hæð yfir sjávarmáli en sú niðurstaða rúmast innan upphaflegrar kröfugerðar aðaláfrýjenda og er í samræmi við kröfugerð þeirra fyrir Landsrétti. Getur það ekki haft þýðingu um þessa niðurstöðu þótt óvissa sé uppi um lífvænleika þeirra trjáa sem þar um ræðir.

52. Þá er fallist á með aðaláfrýjendum að trjágróður á lóð gagnáfrýjanda utan umrædds fjögurra metra svæðis við lóðamörk skerði einnig grenndarréttarlega hagsmuni þeirra til nýtingar fasteigna sinna í þeim mæli að þau eigi mögulega rétt á því að gripið verði til frekari ráðstafana á þeim hluta lóðarinnar af gagnáfrýjanda hálfu. Til þess er hins vegar að líta að fyrirliggjandi matsgerð getur ekki orðið grundvöllur inngrips í trjágróður gagnáfrýjanda á þeim hluta lóðarinnar. Hér fyrr hefur verið vikið að ágöllum á matsgerðinni, þar á meðal þeim að utan umrædds fjögurra metra beltis eru ekki skilgreind nánar eða hnitsett einstök tré eða þyrping trjáa sem æskilegt væri að fjarlægja með öllu ellegar lækka til þess að koma á því grenndarréttarlega jafnvægi sem málsaðilar eiga að njóta. Í matsgerðinni er allur trjágróður á lóð gagnáfrýjanda utan fjögurra metra svæðisins þannig settur undir sama hatt og lagt til grundvallar að hann verði lækkaður í 54 metra hæð yfir sjávarmáli. Er þetta gert þótt augljóst hafi verið við vettvangsgöngu að staðsetning einstakra trjáa og þyrpinga þeirra horfi mismunandi við gagnvart þeim hagsmunum sem aðaláfrýjendur sækja í málinu. Þá er áréttað að matsmaður bjó ekki yfir sérþekkingu á trjárækt og gat því ekki upplýst um áhrif þeirra aðgerða sem hann lagði til á lífvænleika trjánna á umræddu svæði.

53. Með vísan til framangreinds og þess að aðaláfrýjendur hafa ekki byggt þennan hluta dómkröfu sinnar á annarri haldbærri sönnunarfærslu er þeim hluta kröfugerðarinnar sem tekur til lóðar gagnáfrýjanda utan framangreinds fjögurra metra svæðis við lóðarmörk fasteigna aðaláfrýjenda vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar. Hins vegar verður, svo sem áður er fram komið, staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að gagnáfrýjandi skuli klippa tré á lóð sinni innan við fjóra metra frá mörkum lóðarinnar og lóða aðaláfrýjenda þannig að hæð þeirra verði ekki meiri en sem svarar til 48,6 metra yfir sjávarmáli.

54. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um frest gagnáfrýjanda í þessu skyni verður staðfest.

55. Rétt er að hver aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins á öllum dómstigum.

Dómsorð:

Þeim hluta dómkrafna aðaláfrýjenda, Lindu Kristínar Kristmannsdóttur, Geirs Þorsteinssonar, Barða Halldórssonar og Hólmfríðar Kristjánsdóttur, sem taka til trjágróðurs á lóð gagnáfrýjanda, Bjarnfríðar Hlöðversdóttur, að […] í Kópavogi utan fjögurra metra frá lóðarmörkum er vísað frá héraðsdómi.

Vísað er frá héraðsdómi kröfu aðaláfrýjenda um að gagnáfrýjandi greiði þeim dagsektir.

Gagnáfrýjandi skal klippa þau tré sem eru á lóð hennar að […] innan við fjóra metra frá mörkum lóðarinnar og lóða aðaláfrýjenda að […] og […] þannig að þau standi ekki hærra en 48,6 metra yfir sjávarmáli. Klipping trjánna skal fara fram innan þriggja mánaða frá uppsögu dóms þessa.

Málskostnaður fellur niður á öllum dómstigum.