Hæstiréttur íslands
Mál nr. 32/2023
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Faðerni
- Vefengingarmál
- Mannerfðafræðileg rannsókn
- Friðhelgi einkalífs
- Stjórnarskrá
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson.
2. Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst Landsrétti 8. júní 2023. Kærumálsgögn bárust Hæstarétti 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 26. maí 2023 í máli nr. 282/2023 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um mannerfðafræðilega rannsókn á grundvelli 15. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðilar krefjast þess að slík rannsókn fari fram á lífsýnum úr E, D og að auki sóknaraðilum ef þörf krefur. Þá krefjast sóknaraðilar kærumálskostnaðar.
3. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Ágreiningsefni
4. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort mannerfðafræðileg rannsókn skuli fara fram á því hvort E, sem varnaraðili ól […] 2011, sé sonur D, föður sóknaraðila, en þau höfðuðu mál til vefengingar á því að barnið væri sonur föður þeirra. Aðila greinir á um hvaða sönnunarkröfur séu gerðar í vefengingarmálum samkvæmt 21. gr. barnalaga, svo og þýðingu 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 um friðhelgi einkalífs fyrir það sakarefni sem hér er til úrlausnar.
5. Með úrskurði héraðsdóms 4. apríl 2023 var fallist á kröfu sóknaraðila um að rannsóknin færi fram. Eins og áður greinir var þeirri kröfu hafnað með hinum kærða úrskurði.
6. Leyfi til að kæra úrskurð Landsréttar var veitt 22. júní 2023, með ákvörðun réttarins nr. 2023-75, á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um skýringu síðari málsliðar 1. mgr. 21. gr. barnalaga í ljósi 71. gr. stjórnarskrárinnar. Því var talið að fullnægt væri skilyrðum til málskots, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og 1. mgr. 15. gr. barnalaga.
Málsatvik
7. Varnaraðili og D munu hafa kynnst árið 2004. D átti þá tvö uppkomin börn og eru þau sóknaraðilar málsins. Eftir að varnaraðili og D hófu samband sitt munu þau um miðjan mars 2005 hafa flutt í húsnæði sem D lét reisa á […]. Þar gengu þau síðan í hjónaband […] júní 2005. Fram kemur í gögnum málsins að þau hafi dvalið til skiptis á Íslandi og […].
8. Eftir liðlega fimm ára hjúskap þeirra varð varnaraðili þunguð og eignaðist hún soninn E […] 2011, eins og áður getur. Hann fékk upphaflega kenninafnið […] en með nafnabreytingu 6. september 2011 var því breytt í […]. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. barnalaga telst D faðir barnsins og kemur faðernið fram á persónuvottorði Þjóðskrár 1. janúar 2023. Jafnframt kemur faðernið fram á fæðingarvottorði […] október[…] 2011 sem gefið var út í […].
9. D lést […] 2022 og er varnaraðili ekkja hans. Í kjölfarið fóru sóknaraðilar þess á leit við hana að fram færi mannerfðafræðileg rannsókn á því hvort D væri faðir E en því hafnaði hún. Af þeim sökum höfðuðu sóknaraðilar málið 28. nóvember 2022 til vefengingar á faðerninu. Þau krefjast þess á grundvelli 15. gr. barnalaga, svo sem fyrr greinir, að gerð verði mannerfðafræðileg rannsókn á lífsýnum úr látnum föður þeirra, E og þeim sjálfum ef þörf krefur vegna sönnunarfærslu í málinu.
Málsástæður
10. Sóknaraðilar halda því fram að faðir þeirra hafi fyrir fæðingu E ítrekað sakað varnaraðila um hjúskaparbrot og eftir fæðingu drengsins staðhæft við sóknaraðila að útilokað væri að hann væri faðir hans. Af þessum sökum telja sóknaraðilar vafa leika á faðerninu og því hvort drengurinn er hálfbróðir þeirra. Þau hafi þannig lögvarða hagsmuni af því að fá úr þessu skorið bæði vegna hugsanlegra ættartengsla og vegna þeirra áhrifa sem þetta hafi við skipti á dánarbúi föður sóknaraðila.
11. Sóknaraðilar vísa til þess að þau hafi heimild til að höfða mál til vefengingar á faðerni á grundvelli síðari málsliðar 1. mgr. 21. gr. barnalaga. Því geti þau krafist þess að fram fari mannerfðafræðileg rannsókn samkvæmt 15. gr. laganna til að leiða í ljós hvort D hafi verið faðir drengsins. Þau halda því fram að 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs hindri ekki að rannsókn af því tagi fari fram. Þvert á móti hafi þau stjórnarskrárbundnu réttindi barnsins verið takmörkuð með lögum í þágu brýnna hagsmuna annarra, sbr. 3. mgr. sömu greinar, svo að kleift sé að leiða í ljós eða hnekkja faðerni þess. Þannig hafi löggjafinn metið það svo að brýn nauðsyn væri til að játa erfingjum látins manns rétt til að vefengja faðerni systkina sinna og standist sú lagasetning í öllu tilliti.
12. Varnaraðili bendir á að sóknaraðilar hafi ekki lagt fram nein gögn til stuðnings þeirri staðhæfingu sinni að D hafi dregið í efa að hann væri faðir E. Jafnframt telur varnaraðili að sóknaraðilar hafi ekki leitt neinar líkur að því að ástæða hefði verið fyrir D að vefengja faðernið.
13. Varnaraðili heldur því fram að syni hennar verði ekki gegn vilja sínum gert að þola mannerfðafræðilega rannsókn nema það samrýmist 71. gr. stjórnarskrárinnar. Í því sambandi vísar hún til þess að ekki hafi verið sýnt fram á að brýn nauðsyn standi til þeirrar skerðingar á réttindum barnsins eða að þeir hagsmunir sem búi þar að baki vegi þyngra en að barnið njóti friðhelgi um einkalíf sitt. Þannig sé ekki fullnægt áskilnaði 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar til að þau réttindi barnsins verði takmörkuð.
Löggjöf
14. Það sakarefni sem hér er til úrlausnar snertir einkalíf og fjölskyldu málsaðila og sonar varnaraðila. Þeir hagsmunir njóta verndar stjórnarskrár en þar segir í 1. mgr. 71. gr. að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Þó er heimilt samkvæmt 3. mgr. þeirrar greinar að takmarka með sérstakri lagaheimild friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra. Hliðstæð ákvæði eru í 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem hefur lagagildi hér á landi, sbr. lög nr. 62/1994, og hefur stjórnarskrárákvæðið verið skýrt í ljósi þess ákvæðis sáttmálans og dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu þar um.
15. Enn fremur koma hér til álita fyrirmæli 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar um að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Í greinargerð með stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995, en með þeim var umræddu ákvæði bætt inn í stjórnarskrá, kemur fram að ákvæðið sæki fyrirmynd til 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá árinu 1989, sbr. lög nr. 19/2013. Þar kemur meðal annars fram að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar stofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.
16. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. barnalaga telst eiginmaður móður barns faðir þess ef það er alið í hjúskap þeirra. Hér er um að ræða svokallaða pater est-reglu barnaréttar. Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laganna getur eiginmaður móður barns höfðað mál til vefengingar á faðerni þess en að honum látnum geta þeir erfingjar hans sem ganga jafnhliða eða næst barninu að erfðum höfðað slíkt mál. Þessi heimild fyrir erfingja eiginmanns hefur lengi verið í lögum, sbr. 1. mgr. 52. gr. barnalaga nr. 20/1992, 1. mgr. 4. gr. barnalaga nr. 9/1981 og 2. gr. laga nr. 57/1921 um afstöðu foreldra til skilgetinna barna. Mál til vefengingar á faðerni barns sem faðir höfðar, eða sá sem í stað hans kemur, skal höfðað á hendur móður barnsins, sbr. 3. mgr. 21. gr. barnalaga
17. Samkvæmt 22. gr. barnalaga fer um mannerfðafræðilega rannsókn vegna vefengingarmáls eftir 15. gr. laganna en 1. til 3. málsliður 1. mgr. ákvæðisins hljóða svo:
Dómari getur, samkvæmt kröfu, ákveðið með úrskurði að blóðrannsókn verði gerð á aðilum máls og barninu og enn fremur aðrar sérfræðilegar kannanir, þar á meðal mannerfðafræðilegar rannsóknir. Eru þeir sem í hlut eiga skyldir til að hlíta blóðtöku, svo og annarri rannsókn í þágu sérfræðilegra kannana. Dómari getur með sama hætti ákveðið með úrskurði að blóðrannsókn og mannerfðafræðileg rannsókn skuli fara fram á foreldrum og eftir atvikum systkinum aðilanna, svo og á öðrum börnum þeirra.
Niðurstaða
18. Svo sem hér hefur verið rakið voru varnaraðili og D í hjúskap þegar E fæddist. D telst því faðir drengsins samkvæmt 2. mgr. 2. gr. barnalaga. Þeir persónulegu hagir sem fólgnir eru í faðerni barns allt frá fæðingu eru þáttur í einkalífi þess sem varið er af 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Í því felst réttur drengsins til að njóta friðar um þá hagsmuni. Á hinn bóginn er þess að gæta að réttur sóknaraðila til að vita hvort líffræðilegur skyldleiki sé milli þeirra og drengsins er einnig þáttur í einkahögum þeirra sem getur að sínu leyti jafnframt notið stjórnarskrárverndar. Bæði sóknaraðilar og E hafa síðan fjárhagslega hagsmuni af því hvort faðerninu verði hnekkt vegna töku arfs eftir D en arfshluti sóknaraðila yrði meiri sem nemur hlut E ef hann tekur ekki arf eftir D.
19. Í dómum Hæstaréttar 28. janúar 2014 í máli nr. 800/2013 og 18. janúar 2017 í máli nr. 866/2016 komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að í friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar fælist réttur sérhvers manns til að þekkja uppruna sinn, þar á meðal faðerni sitt, svo og réttur til að aðrir röskuðu ekki þessari friðhelgi nema brýna nauðsyn bæri til, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Að teknu tilliti til þessara þátta voru ákvæði 1. og 2. mgr. 10. gr. barnalaga skýrð þannig að skilyrði þess að faðernismál yrði höfðað væri að færðar hefðu verið líkur fyrir því að maður, sem talinn væri faðir barns, hefði haft samfarir við móður þess. Eðli máls samkvæmt gildir það sama um vefengingarmál og verður því að leiða einhver líkindi að því að barn sé ranglega feðrað, sbr. til hliðsjónar dóm réttarins 25. apríl 2007 í máli nr. 204/2007. Í þeim efnum verður þó að gæta þess að jafnan er erfitt að afla gagna eða upplýsinga um málefni af þessum toga og á það bæði við um vefengingarmál og faðernismál. Eftir atvikum getur það haft áhrif á kröfur sem gerðar eru til sönnunar en vægari kröfur verða gerðar í þeim efnum til barns sem sjálft leitast við að leiða í ljós uppruna sinn en ættmenna sem reyna að fá faðerni þess hnekkt. Í þessu máli liggur ekkert annað fyrir um að barnið kunni að vera ranglega feðrað en einhliða staðhæfingar sóknaraðila.
20. Með 1. mgr. 21. gr. barnalaga, svo og fyrirmælum 15. gr. um skyldu til að gangast undir mannerfðafræðilega rannsókn, hefur löggjafinn veitt lagaheimild til að friðhelgi einkalífs barns geti sætt takmörkunum vegna hagsmuna erfingja föður sem ganga jafnhliða eða næst barninu að erfðum. Er því fullnægt áskilnaði 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar um að með sérstakri lagaheimild megi takmarka friðhelgi einkalífs vegna réttinda annarra. Að því gættu kemur til skoðunar hvort brýna nauðsyn beri til, í samræmi við niðurlag sömu málsgreinar, að takmarka einkalífsvernd barnsins vegna fyrrgreindra réttinda sóknaraðila. Hér vegast því á þeir hagsmunir barns að njóta friðar um einkahagi sína og þeirra hagsmuna sem erfingjar látins manns hafa af því fá upplýsingar um líffræðilegan skyldleika sinn við barnið.
21. Svo sem áður er rakið fæddist E í hjúskap varnaraðila og D árið 2011. Þegar D andaðist var drengurinn 11 ára. Sóknaraðilar reisa málatilbúnað sinn á því að faðir þeirra hafi fyrir fæðingu drengsins ítrekað sakað varnaraðila um hjúskaparbrot og eftir fæðinguna staðhæft við sóknaraðila að útilokað væri að hann væri faðir drengsins. Ekkert hefur komið fram um að D hafi gert neinn reka að því að fá skorið úr um hvort hann væri faðir drengsins. Þvert á móti liggur ekki annað fyrir en að hann hafi ásamt varnaraðila annast drenginn og alið hann upp sem sinn. Þótt sóknaraðilar, sem eiga sjálfstæða aðild að máli til vefengingar á faðerni, séu ekki bundnir af þessu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 20. nóvember 2007 í máli nr. 583/2007, hefur þetta áhrif við mat á hagsmunum drengsins með tilliti til þeirra kröfu sem sóknaraðilar hafa uppi í málinu. Í þeim efnum ber að líta til þess að drengurinn var frá fæðingu til 11 ára aldurs í sameiginlegri umsjá varnaraðila og D þegar hann lést.
22. Í ljósi þess að ekki liggur annað fyrir í málinu en einhliða staðhæfingar sóknaraðila til stuðnings því að drengurinn sé ranglega feðraður verður lagt til grundvallar, eins og mál þetta er vaxið, að hagsmunir hans af því að þurfa ekki að þola inngrip með mannerfðafræðilegri rannsókn vegi þyngra en þeir hagsmunir sóknaraðila að slík rannsókn fari fram. Ber þá einnig að hafa í huga þá grunnreglu barnaréttar að ávallt skuli hafa forgang það sem barni er fyrir bestu þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. 2. mgr. 1. gr. barnalaga. Þessi regla á sér einnig stoð í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar en um vægi hennar má til hliðsjónar benda á dóm Hæstaréttar 10. mars 2020 í máli nr. 58/2019. Þá ber að skýra fyrrgreind ákvæði með hliðsjón af 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Loks geta fjárhagslegir hagsmunir sóknaraðila af því að girða fyrir að drengurinn taki arf eftir föður sinn ekki skipt hér máli þegar litið er til ríkra hagsmuna hans af því að einkalíf hans verði verndað. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
23. Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðilum gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, A og B, greiði óskipt varnaraðila, C, 900.000 krónur í kærumálskostnað fyrir Hæstarétti.