Hæstiréttur íslands

Mál nr. 49/2022

K2 Agency Limited (Jón Gunnar Ásbjörnsson lögmaður)
gegn
Live events ehf., L Events ehf., L Events ehf., Lifandi viðburðum ehf og Guðmundi Hreiðarssyni Viborg (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Ábyrgðaryfirlýsing
  • Skaðabótaskylda
  • Sýkna að svo stöddu
  • Ómerking dóms Landsréttar að hluta

Reifun

K, umboðsfyrirtæki hljómsveitarinnar S, höfðaði mál á hendur LE ehf., L ehf. LV ehf. og G vegna kröfu um greiðslu skuldar vegna tónlistarflutnings hljómsveitarinnar á tónlistarhátíðinni SS sumarið 2018. K byggði kröfu sína á hendur LE ehf. á því að framkvæmdastjóri félagsins hefði í viðtali við fjölmiðla gefið ábyrgðaryfirlýsingu fyrir hönd félagsins vegna skulda SP ehf. við flytjendur sem fram komu á umræddri tónlistarhátíð. K byggði kröfu sína á hendur L ehf. LV ehf. og G á því að þeir hefðu verið nátengdir SP ehf. og nýtt þá stöðu sína til þess að koma eignum þess félags undan kröfuhöfum og með því valdið K skaðabótaskyldu tjóni, meðal annars á grundvelli reglna um samsömun. Héraðsdómur féllst á kröfu K en með dómi Landsréttar voru L ehf., LV ehf. og G sýknuð að svo stöddu af kröfu K um greiðslu skaðabóta á þeim grundvelli að fyrir lægi dómur þess efnis að F, fyrrverandi fyrirsvarsmaður SP ehf., skyldi greiða K fjárkröfuna sem um ræðir og ekki væri fullreynt hvort krafan fengist greidd úr hendi F. Voru stefndu að öðru leyti sýknaðir af kröfu K. Hæstiréttur taldi að ekki hefði verið sýnt fram á að framkvæmdastjóri LE ehf. hefði haft heimild til þess að gefa yfirlýsingu þess efnis sem K byggði á í málinu. Var LE ehf. því sýknað af kröfu K. Af þeim sökum kom ekki til frekari skoðunar ábyrgð annarra stefndu á ætlaðri skuldbindingu LE ehf. þar sem til hennar hafði aldrei stofnast. Í dómi Hæstaréttar kom fram að Landsréttur hefði ekki tekið afstöðu til þess hvort gögn sem stefndu lögðu fram undir rekstri málsins í Landsrétti kæmust að við mat á hugsanlegri skaðabótaábyrgð L ehf., LV ehf. og G. Þá hafi Landsrétti borið að taka efnislega afstöðu til ætlaðrar skaðabótaskyldu þeirra og ekki staðið lagaskilyrði til þess að sýkna þá að svo stöddu. Vísaði Hæstiréttur til þess að óskipt ábyrgð fleiri en eins skuldara á kröfu kæmi ekki í veg fyrir að aflað yrði aðfararhæfs dóms gagnvart þeim öllum í einu dómsmáli eða fleirum meðan einhver hluti kröfunnar væri enn ógreiddur. Þar sem ætluð skaðabótakrafa K hefði verið orðin gjaldfær fyrir dómtöku málsins í héraði hafi engin efni verið til að sýkna L ehf., LV ehf. og G að svo stöddu með vísan til 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var dómur Landsréttar því ómerktur og málinu vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný um kröfu K á hendur L ehf., LV ehf. og G á grundvelli ætlaðrar skaðabótaskyldu.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. september 2022. Hann krefst þess að stefndu verði gert að greiða sér óskipt 133.273,45 bandaríkjadali með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. júlí 2018 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 29. september 2022 að fjárhæð 120.573,90 bandaríkjadalir. Þá krefst hann málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu á öllum dómstigum.

3. Stefndi Live events ehf. krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

4. Stefndu Lifandi viðburðir ehf., L Events ehf. og Guðmundur Hreiðarsson Viborg krefjast hver um sig sýknu af kröfum áfrýjanda. Þá krefjast þeir þess hver um sig að ákvörðun Landsréttar um málskostnað verði staðfest og að áfrýjanda verði gert að greiða þeim málskostnað fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni

5. Áfrýjandi höfðaði upphaflega mál þetta gegn stefnda Live events ehf. 14. mars 2019 en sakaukastefndi öðrum stefndu inn í málið 12. desember sama ár. Málið á rætur að rekja til kröfu hljómsveitarinnar Slayer á hendur Solstice Productions ehf. vegna tónleika hennar á tónlistarhátíðinni Secret Solstice sumarið 2018. Óumdeilt er að hljómsveitin fékk ekki umsamið endurgjald fyrir tónleikahaldið greitt að fullu. Nam krafa áfrýjanda í dómsmálinu upphaflega 133.273,45 bandaríkjadölum.

6. Áður en til málsóknar þessarar kom hafði áfrýjandi höfðað mál af sama tilefni á hendur Solstice Productions ehf. og fyrrverandi fyrirsvarsmanni þess, Friðriki Ólafssyni. Bú félagsins var síðar tekið til gjaldþrotaskipta og við skiptin fékkst ekkert greitt upp í framangreinda kröfu. Með dómi Landsréttar 12. nóvember 2021 í máli nr. 396/2020 var fallist á kröfu áfrýjanda á hendur Friðriki.

7. Áfrýjandi byggir kröfu sína gagnvart Live events ehf. á þeim grundvelli að framkvæmdastjóri félagsins hafi í viðtali við fjölmiðla 6. febrúar 2019 gefið ábyrgðaryfirlýsingu fyrir hönd þess vegna skulda Solstice Productions ehf. við flytjendur sem fram komu á umræddri tónlistarhátíð sumarið 2018. Þeim málatilbúnaði hafnar stefndi Live events ehf. þar sem framkvæmdastjórinn hafi hvorki gefið slíka yfirlýsingu né haft til þess umboð félagsins.

8. Í tilviki annarra stefndu byggir áfrýjandi á því að þeir hafi verið nátengdir Solstice Productions ehf. og nýtt þá stöðu sína til þess að koma eignum þess félags undan kröfuhöfum og með því valdið áfrýjanda skaðabótaskyldu tjóni, meðal annars á grundvelli reglna um samsömun. Stefndu hafna því að þeir verði gerðir ábyrgir á þeim grundvelli og bera meðal annars við aðildarskorti. Þeir hafi ekki verið nátengdir fyrri rekstraraðilum í framangreindum skilningi og verði því ekki samsamaðir þeim.

9. Með héraðsdómi 23. febrúar 2021 var fallist á dómkröfur áfrýjanda en með dómi Landsréttar 27. maí 2022 voru stefndu L Events ehf., Lifandi viðburðir ehf. og Guðmundur Hreiðarsson Viborg sýknuð að svo stöddu af kröfu áfrýjanda um greiðslu skaðabóta en stefndu að öðru leyti sýknaðir af kröfum áfrýjanda.

10. Áfrýjunarleyfi í málinu var veitt 20. september 2022, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2022-91, á þeim grunni að dómur í því gæti haft fordæmisgildi um stofnun kröfu og greiðsluskyldu í tilviki fleiri skuldara.

11. Eftir að leyfi hafði verið veitt til áfrýjunar málsins til Hæstaréttar gerðu áfrýjandi og framangreindur Friðrik Ólafsson samkomulag 30. september 2022 um „stöðvun á innheimtu og niðurfellingu ábyrgðar“. Fól það samkomulag í sér að Friðrik greiddi áfrýjanda 19.500.000 krónur. Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi lækkað kröfu sína með hliðsjón af þeirri greiðslu.

Málsatvik

12. Áfrýjandi er umboðsfyrirtæki sem eignast hefur fyrir framsal umþrætta kröfu bandarísku hljómsveitarinnar Slayer sem kom fram á tónlistarhátíðinni Secret Solstice 23. júní 2018. Félagið Solstice Productions ehf. samdi við hljómsveitina. Samkvæmt samkomulaginu átti félagið að greiða hljómsveitinni 250.000 bandaríkjadali í þóknun og 6.000 bandaríkjadali vegna flutningskostnaðar. Þá átti það að endurgreiða ferðakostnað hljómsveitarinnar og starfsmanna hennar sem samtals nam 73.273,45 bandaríkjadölum. Solstice Productions ehf. greiddi aðeins hluta samningsfjárhæðarinnar þannig að eftir stóðu 60.000 bandaríkjadalir af umsaminni þóknun ásamt fyrrnefndum ferðakostnaði. Eftirstöðvarnar námu því 133.273,45 bandaríkjadölum sem voru á gjalddaga 4. júlí 2018.

13. Í fyrirsvari fyrir félagið Solstice Productions ehf. voru systkinin Friðrik og Katrín Ólafsson og sátu þau bæði í stjórn þess en Friðrik var jafnframt framkvæmdastjóri. Samstarfsmaður þeirra var Jón Bjarni Steinsson, eiginmaður Katrínar.

14. Fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra var tilkynnt 20. ágúst 2018 um að nafni félagsins Bláskór ehf. hefði verið breytt í Show ehf. auk þess sem tilgangi félagsins hefði verið breytt. Í sömu tilkynningu kom fram að Guðmundur Hreiðarsson Viborg væri stjórnarmaður en Jón Bjarni Steinsson varamaður í stjórn. Framkvæmdastjóri væri Katrín Ólafsson og hefði hún heimild til að skuldbinda félagið ásamt Jóni Bjarna Steinssyni. Heiti þess var síðar breytt í Lifandi viðburðir ehf.

15. 15. Fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra var tilkynnt 12. september 2018 að nafni félagsins Sögufell ehf. hefði verið breytt í Show Live ehf. Fram kom að í nýrri stjórn félagsins sætu Katrín Ólafsson formaður og Jón Bjarni Steinsson meðstjórnandi. Heiti þessa félags var síðar breytt í Live events ehf.

16. Þegar tónlistarhátíðinni Secret Solstice var lokið sumarið 2018 hófu Friðrik og Katrín, í samvinnu við Reykjavíkurborg, undirbúning næstu Secret Solstice tónlistarhátíðar sem halda átti sumarið 2019. Í tölvupóstsamskiptum Katrínar við starfsmann Reykjavíkurborgar 4. desember 2018 kom fram að stefndi Live events ehf. myndi sjá um að halda hátíðina en félagið væri í eigu stefnda Lifandi viðburða ehf. Bæði félögin væru í eigu stefnda Guðmundar.

17. Í frétt Stundarinnar 11. desember 2018 kom fram að nýr aðili, stefndi Live events ehf., hefði tekið við rekstri Secret Solstice tónlistarhátíðarinnar. Þar kom einnig fram að fyrra rekstrarfélag hátíðarinnar væri ógjaldfært og margir listamenn og starfsmenn hefðu enn ekki fengið greitt fyrir vinnu sína. Þá sagði þar að aðstandendur „nýju kennitölunnar“ væru mikið til þeir sömu og hjá þeirri fyrri og að stefndi Guðmundur væri stjórnarformaður nýs rekstraraðila hátíðarinnar.

18. Í frétt sem birtist á fréttavefnum vísir.is 6. febrúar 2019 var haft eftir Víkingi Heiðari Arnórssyni framkvæmdastjóra stefnda Live events ehf. að gert yrði upp við alla listamenn sem hefðu ekki fengið greitt fyrir að koma fram á Secret Solstice tónlistarhátíðinni sumarið 2018. Einnig kom fram í fréttinni að stefndi Live events ehf. væri nýtt félag sem myndi halda hátíðina næsta sumar. Þar kom einnig fram að Víkingur Heiðar segðist „ætla að borga öllum listamönnum sem Solstice Production náði ekki að gera upp við frá síðustu hátíð“. Í frétt á mbl.is sama dag stóð einnig að framkvæmdastjórinn fullyrti að gert yrði upp við alla listamenn sem hefðu ekki fengið greitt fyrir að koma fram á síðustu hátíð.

19. Stefndi Guðmundur stofnaði stefnda L Events ehf. 20. mars 2019. Í tölvupósti Víkings Heiðars til starfsmanns Reykjavíkurborgar 18. maí 2019 kom fram að stefndi Lifandi viðburðir ehf. væri leyfishafi á leigusamningi um Laugardalinn en einnig „móðurfélagið yfir Live events og L Events.“ Stefndi Live events ehf. væri rekstrarfélagið og færu „allir reikningar með vsk á þetta félag, eins og uppbygging svæðisins og verktakar.“ Stefndi L Events ehf. væri „hitt dótturfélagið sem [myndi] taka á móti greiðslum fyrir miðum og greiða út tónlistarmanna laun“. Þetta félag væri „með allt sem er enginn vsk af.“

20. Á fundi borgarráðs 16. maí 2019 voru samþykkt drög að samningi Reykjavíkurborgar við stefnda Lifandi viðburði ehf. vegna Secret Solstice tónlistarhátíðarinnar í júní sama ár. Samningur stefnda Lifandi viðburða ehf. og Reykjavíkurborgar var undirritaður 31. maí 2019. Í honum var ákvæði þess efnis að félagið skyldi gera upp eftirstöðvar skulda fyrri rekstraraðila, Solstice Productions ehf., við borgina vegna hátíðarinnar árið áður.

21. Sem fyrr segir hafði áfrýjandi einnig höfðað mál á hendur Solstice Productions ehf. og Friðriki Ólafssyni, fyrrverandi fyrirsvarsmanni þess, til heimtu skuldarinnar. Útivist varð af hálfu beggja aðila og var stefna árituð um aðfararhæfi 11. júní 2019. Málið var endurupptekið að beiðni Friðriks að því er hann varðaði en Solstice Productions ehf. óskaði ekki eftir endurupptöku. Eins og áður greinir var félagið síðar tekið til gjaldþrotaskipta og lauk þeim án þess að krafan fengist greidd. Með héraðsdómi 29. apríl 2020 var krafa stefnda á hendur Friðriki tekin til greina og með fyrrgreindum dómi Landsréttar 12. nóvember 2021 í máli nr. 396/2020 var honum gert að greiða stefnda fjárkröfuna sem um ræðir á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingar hans.

22. Áfrýjandi höfðaði mál þetta gegn stefnda Live events ehf. 14. mars 2019 en sakaukastefndi öðrum stefndu 12. desember sama ár. Í sakaukastefnu skoraði áfrýjandi á sakaukastefndu að leggja fram gögn um framsal á rekstri og eignum Solstice Productions ehf. til þeirra. Ekki var orðið við þeirri áskorun undir rekstri málsins í héraði.

23. Í Landsrétti lögðu stefndu hins vegar fram lánssamning 12. júní 2018 milli WWhite ehf. og Solstice Productions ehf. ásamt tryggingarbréfum og handveðssamningi. Samkvæmt honum tók Solstice Productions ehf. lán hjá WWhite ehf. að fjárhæð 130.000.000 króna og skuldbatt sig til að ráðstafa fyrstu 80.000.000 króna af tekjum af miðasölu á tónlistarhátíðina sem bærust eftir undirritun samnings til endurgreiðslu lánsins. Auk þess lögðu stefndu fram kaupsamning 27. júní 2018 þar sem WWhite ehf. framseldi fyrrnefndan lánssamning til stefnda Guðmundar. Þá lögðu stefndu fram annnan samning 5. september 2018 um uppgjör milli Solstice Productions ehf. og Show ehf. (nú Lifandi viðburðir ehf.). Samkvæmt honum leysti stefndi Lifandi viðburðir ehf. til sín allar veðsettar eignir Solstice Productions ehf. þar sem félagið hefði ekki staðið í skilum vegna endurgreiðslu á fyrrnefndu láni sem stefndi Lifandi viðburðir ehf. hefði yfirtekið.

24. Við meðferð málsins fyrir Landsrétti mótmælti áfrýjandi því að litið yrði til fyrrnefndra gagna við meðferð málsins og byggði á að ekki væri hægt að byggja á málsástæðum leiddum af gögnunum sem stefndu að réttu hefðu átt að leggja fram við meðferð málsins í héraði.

25. 25. Friðrik Ólafsson gerði samkomulag við áfrýjanda 30. september 2022 um „stöðvun á innheimtu og niðurfellingu ábyrgðar.“ Samkvæmt samkomulaginu greiddi Friðrik áfrýjanda 19.500.000 krónur sem fullnaðargreiðslu vegna ábyrgðar hans.

Niðurstaða

26. Fyrir Hæstarétti krefjast stefndu L Events ehf., Lifandi viðburðir ehf. og Guðmundur Hreiðarsson Viborg sýknu af kröfum áfrýjanda. Þessir stefndu hafa hins vegar ekki gagnáfrýjað dómi Landsréttar fyrir sitt leyti og kemur sú krafa þeirra því ekki til álita. Ber að líta svo á að þeir krefjist staðfestingar hins áfrýjaða dóms um sýknu að svo stöddu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 9. júní 2005 í máli nr. 39/2005.

27. Af greinargerð stefndu til Hæstaréttar verður ráðið að þeir byggi öðrum þræði á því að ætluð fjárkrafa áfrýjanda vegna flutnings hljómsveitarinnar Slayer á Secret Solstice sumarið 2018 sé nú greidd að fullu og hún því liðin undir lok. Þetta hafi gerst annars vegar með greiðslum frá Solstice Productions ehf. og hins vegar með fyrrnefndu uppgjöri við Friðrik Ólafsson 30. september 2022 en með því hafi áfrýjandi gefið eftir af ýtrustu kröfum sínum á hendur Friðriki. Gegn andmælum áfrýjanda verður ekki fallist á þennan málatilbúnað stefndu enda hefur áfrýjandi samkvæmt gögnum málsins móttekið og ráðstafað þeim fjármunum sem samið var um að Friðrik greiddi sem innborgun á eftirstöðvar ætlaðrar upphaflegrar kröfu sinnar á hendur Solstice Productions ehf. án þess að falla frá eftirstöðvum kröfu á hendur öðrum hugsanlegum skuldurum.

28. Svo sem fyrr er rakið er krafa áfrýjanda í upphaflegri frumsök málsins gegn stefnda Live events ehf. byggð á því að framkvæmdastjóri þess félags hafi í viðtali við fjölmiðla 6. febrúar 2019 gefið út ábyrgðaryfirlýsingu fyrir hönd félagsins vegna skulda Solstice Productions ehf. við flytjendur sem fram komu á umræddri tónlistarhátíð sumarið 2018. Gagnvart öðrum stefndu, upphaflega sakaukastefndu, byggir áfrýjandi á því að þeir hafi verið nátengdir Solstice Productions ehf. og nýtt þá stöðu sína til þess að koma eignum þess félags undan kröfuhöfum og með því valdið áfrýjanda tjóni sem stefndu beri að bæta honum á grundvelli reglna hlutafélagaréttar um skaðabætur og samsömun. Verði ekki fallist á að þessir stefndu beri ábyrgð þess efnis er á því byggt að þeir beri í öllu falli, og þá á sama grundvelli, ábyrgð á skuldbindingu þeirri sem felist í ábyrgðaryfirlýsingu framkvæmdastjóra stefnda Live events ehf.

29. Samkvæmt dómsorði hins áfrýjaða dóms voru stefndu L Events ehf., Lifandi viðburðir ehf. og Guðmundur Hreiðarsson Viborg sýknaðir að svo stöddu af kröfu áfrýjanda um greiðslu skaðabóta. Að öðru leyti voru allir stefndu sýknaðir af kröfum áfrýjanda. Þess er hins vegar að gæta að í málinu hefur áfrýjandi uppi eina dómkröfu um greiðslu nánar tilgreindrar fjárhæðar í bandaríkjadölum með vöxtum. Dómsorðið er þannig ekki í samræmi við áskilnað 2. mgr. 114. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Skilja verður þessa niðurstöðu Landsréttar á þann veg að stefndi Live events ehf. sé sýknaður að öllu leyti af dómkröfum áfrýjanda en í tilviki annarra stefndu feli sýkna að svo stöddu í sér að ekki sé tekin afstaða til þeirrar málsástæðu að baki dómkröfum á hendur stefndu L Events ehf., Lifandi viðburðum ehf. og Guðmundi Hreiðarssyni Viborg að þeir hafi verið nátengdir Solstice Productions ehf. og nýtt þá stöðu sína til þess að koma eignum þess félags undan kröfuhöfum og með því valdið áfrýjanda tjóni. Sú krafa er reist á grundvelli skaðabótaábyrgðar, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og almennu skaðabótareglunni auk reglna um samsömun.

30. Við úrlausn málsins verður því fyrst tekin afstaða til þess hvort fallast beri á þá málsástæðu áfrýjanda að framkvæmdastjóri stefnda Live events ehf. hafi gefið skuldbindandi yfirlýsingu fyrir hönd þess félags í viðtali við fjölmiðla 6. febrúar 2019. Síðan verður fjallað um ætlaða skaðabótaskyldu stefndu L Events ehf., Lifandi viðburða ehf. og Guðmundar Hreiðarssonar Viborgs.

Ætluð ábyrgðaryfirlýsing

31. Svo sem fram hefur komið byggir áfrýjandi á því að Víkingur Heiðar framkvæmdastjóri stefnda Live events ehf. hafi fyrir hönd félagsins gefið skuldbindandi ábyrgðaryfirlýsingu þess efnis að það myndi greiða þá kröfu sem deilt er um í máli þessu og á rætur að rekja til umræddra vanskila Solstice Productions ehf. við hljómsveitina Slayer. Í því sambandi vísar áfrýjandi til þeirra ummæla sem nánar eru rakin hér að framan og höfð voru eftir framkvæmdastjóranum en þau birtust 6. febrúar 2019 á netmiðlunum vísir.is og mbl.is. Voru þau þess efnis að gert yrði upp við alla listamenn sem ekki hefðu fengið greitt fyrir að koma fram á umræddri tónlistarhátíð. Héraðsdómur féllst á málatilbúnað áfrýjanda enda hefði í ummælunum falist bindandi loforð stefnda Live events ehf. sem framkvæmdastjórinn hefði haft stöðuumboð til að gefa. Með hinum áfrýjaða dómi var þessi stefndi hins vegar sýknaður af kröfu áfrýjanda á þeim grundvelli að í ummælunum sem eftir framkvæmdastjóranum voru höfð hefði ekki falist skuldbindandi yfirlýsing um að félagið myndi greiða fjárkröfu áfrýjanda.

32. Til þess að fallist verði á að stofnað hafi verið til umræddrar skuldbindingar fyrir hönd stefnda Live events ehf. þarf annars vegar að liggja fyrir að framkvæmdastjórinn hafi haft umboð til að gefa skuldbindandi yfirlýsingu þessa efnis og hins vegar að í þeim tilvitnuðu ummælum sem eftir honum voru höfð í fjölmiðlum hafi falist skuldbindandi yfirlýsing en um síðarnefnda atriðið komust héraðsdómur og Landsréttur að öndverðri niðurstöðu. Fyrst verður tekin afstaða til þess hvort framkvæmdastjórinn hafi stöðu sinnar vegna eða á öðrum grundvelli haft umboð til þess að gefa fyrir hönd stefnda Live events ehf. slíka yfirlýsingu.

33. Í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga er fjallað um stöðuumboð en þar segir:

Sé maður, samkvæmt samningi við annan mann, í stöðu, er eftir lögum eða venju felur í sér heimild til þess að reka erindi hins innan vissra takmarka, þá telst hann hafa umboð til þess að gera þá löggerninga, sem innan þeirra takmarka eru.

Í 1. mgr. 52. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög segir:

Ef sá sem kemur fram fyrir hönd félags samkvæmt ákvæðum 49.–50. gr. gerir löggerning fyrir hönd þess bindur sá gerningur félagið nema:
1. hann hafi farið út fyrir þær takmarkanir á heimild sinni sem ákveðnar eru í lögum þessum;
2. hann hafi farið út fyrir takmarkanir á heimild sinni á annan hátt enda hafi viðsemjandi vitað eða mátt vita um heimildarskortinn og telja verði ósanngjarnt að viðsemjandinn haldi fram rétti sínum.

Í 2. mgr. 44. gr. sömu laga er nánari grein gerð fyrir umboði framkvæmdastjóra einkahlutafélags sem er útlistað með svofelldum hætti:

Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur félagsins og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem félagsstjórn hefur gefið. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá félagsstjórn nema ekki sé unnt að bíða ákvarðana félagsstjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi félagsins. Í slíkum tilvikum skal félagsstjórn tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina.

34. Komi ekki annað til telst sú ráðstöfun lögaðila að takast á hendur ábyrgð á skuldbindingum annars lögaðila gagnvart þriðja manni óvenjuleg en eftir atvikum getur hún jafnframt verið mikils háttar. Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 fellur ráðstöfun utan umboðs framkvæmdastjóra ef hún er annað tveggja óvenjuleg eða mikils háttar en á hinn bóginn getur hann gert slíka ráðstöfun hafi hann til þess sérstaka heimild félagsstjórnar eða ekki er unnt að bíða ákvörðunar um hana án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi félagsins. Að þessu virtu er það áfrýjanda að sýna fram á að framkvæmdastjóri stefnda Live events ehf. hafi haft heimild til þess að gefa yfirlýsingu þess efnis sem áfrýjandi byggir á í málinu.

35. Samkvæmt útprentun úr hlutafélagaskrá 27. maí 2019 átti ætluð heimild framkvæmdastjórans til ráðstafana af framangreindum toga sér ekki stoð í skráðum tilgangi stefnda Live events ehf. en af sama skjali verður ráðið að framkvæmdastjórinn fór ekki með prókúruumboð fyrir hönd félagsins á umræddum tíma. Af gögnum málsins verður heldur ekki ráðið að yfirlýsing framkvæmdastjórans hafi stuðst við sérstaka heimild félagsstjórnar eða að ekki hefði verið unnt að bíða ákvörðunar hennar þar um. Framburður Jóns Bjarna Steinssonar fyrir héraðsdómi, sem sat í stjórn stefnda Live events ehf. þegar ummælin voru höfð eftir framkvæmdastjóranum, staðfesta einungis að áform hafi verið uppi um það á vettvangi félagsins að gera upp við íslenska flytjendur tónlistar sem fram höfðu komið á hátíðinni 2018 í því skyni að greiða fyrir því að sömu aðilar fengjust til að spila á hátíð þeirri sem áformuð var sumarið 2019. Þegar af þessari ástæðu verður stefndi Live events ehf. sýknaður af dómkröfu áfrýjanda, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 25. maí 2012 í máli nr. 285/2012.

36. Samkvæmt framansögðu kemur ekki til frekari skoðunar ábyrgð annarra stefndu á ætlaðri skuldbindingu stefnda Live events ehf. þar sem því hefur verið hafnað að til hennar hafi stofnast.

Ætluð skaðabótaskylda stefndu L Events ehf., Lifandi viðburða ehf. og Guðmundar Hreiðarssonar Viborg

37. Að framangreindri niðurstöðu fenginni stendur eftir að taka til þess afstöðu hvort aðrir stefndu en Live events ehf. kunni á grundvelli skaðabótaskyldu og fyrir samsömun að bera ábyrgð á greiðslu dómkröfu áfrýjanda.

38. Með hinum áfrýjaða dómi voru stefndu L Events ehf., Lifandi viðburðir ehf. og Guðmundur Hreiðarsson Viborg sem fyrr segir sýknaðir að svo stöddu af dómkröfu áfrýjanda á grundvelli skaðabótaábyrgðar. Í 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 er mælt fyrir um að sýkna skuli stefnda að svo stöddu ef krafist er dóms um skyldu sem mætti fullnægja með aðför og hún reynist hvíla eða geta hvílt á stefnda en efndartími hennar ókominn þegar mál er dómtekið. Slík niðurstaða felur ekki í sér afstöðu til réttinda eða skyldna aðila en með því að sýkna að svo stöddu er komist hjá því að sýkna stefnda fyrirvaralaust sem fæli í sér bindandi og endanlega úrlausn um að ætluð skylda hvíli ekki á honum. Svara réttaráhrif sýknu að svo stöddu því í reynd til áhrifa af frávísun máls frá dómi. Ekki verður þó leyst úr kröfu um sýknu að svo stöddu fyrr en mál hefur verið flutt til fullnaðar um efnishlið þess. Þá á ekki að ljúka máli með sýknu að svo stöddu ef sýnt er fram á að skylda hvíli ekki á stefnda heldur eingöngu ef það er hugsanlegt eða víst. Þegar þannig háttar til er óhjákvæmilegt að dómari taki að nokkru marki afstöðu til efnisatriða máls áður en hann sýknar að svo stöddu.

39. Undir rekstri málsins fyrir Landsrétti lögðu stefndu fram ný gögn, svo sem rakið er í lið 23 hér að framan, en þau vörðuðu meðal annars gjaldþrotaskipti á búi Solstice Productions ehf., lántöku þess félags og veðsetningu eigna, kaup stefnda Guðmundar Hreiðarssonar Viborgs á kröfu á það félag svo og framsal á eignum og rekstri félagsins. Fyrir Landsrétti vísaði áfrýjandi til þess að undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi hefði hann með vísan til 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 skorað á stefndu að leggja fram kaupsamning um rekstur og vörumerki hins gjaldþrota félags ásamt upplýsingum um greiðslur vegna slíks kaupsamnings. Við þessari áskorun hefðu stefndu ekki brugðist og ekki lagt grundvöll að vörn sinni í málinu í samræmi við 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991. Úr þessu yrði ekki bætt með síðbúinni gagnaframlagningu fyrir Landsrétti og málsástæður byggðar á þeim gögnum of seint fram komnar, sbr. 2. mgr. 163. gr. laganna.

40. Í hinum áfrýjaða dómi er í engu að því vikið hvort og þá hvaða þýðingu umrædd gögn geti haft við mat á ætlaðri skaðabótaskyldu stefndu L Events ehf., Lifandi viðburða ehf. og Guðmundar Hreiðarssonar Viborgs og fyrir niðurstöðu um að sýkna viðkomandi aðila að svo stöddu. Var þó fullt tilefni til þess, hvað sem leið niðurstöðu um sýknu að svo stöddu, enda varða þau beinlínis þau lögskipti sem eru kjarninn í réttarágreiningi aðila hvað ætlaða skaðabótaskyldu varðar.

41. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu að svo stöddu var nánar tiltekið á því reist að fyrir lægi dómur á fyrrnefndan Friðrik Ólafsson sem verið væri að fullnusta og því ekki ljóst hvort krafan fengist greidd að verulegu eða öllu leyti með þeim hætti. Segir síðan í dómi Landsréttar: ,,Samkvæmt framangreindu er ekki fullreynt hvort fjárkrafa stefnda fæst greidd úr hendi Friðriks Ólafssonar og því ókominn sá tími sem áfrýjendurnir L Events ehf., Lifandi Viðburðir ehf. og Guðmundur Hreiðarsson Viborg verða krafðir um efndir hennar.” Bæri því að sýkna þá að svo stöddu með vísan til 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991.

42. Hér að framan eru í lið 38 rakin lagaskilyrði þess að sýknað verði að svo stöddu á grundvelli 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991. Svo sem fram er komið byggir áfrýjandi skaðabótakröfu sína á hendur stefndu L Events ehf., Lifandi viðburðum ehf. og Guðmundi Hreiðarssyni Viborg á því að þeir hafi með saknæmum og ólögmætum hætti komið eignum félagsins Solstice Productions ehf. undan kröfuhöfum þess félags og með því valdið sér tjóni. Bú þess félags var tekið til gjaldþrotaskipta 27. maí 2020. Áfrýjandi reisir rétt sinn til skaðabóta úr hendi stefndu þannig á atvikum sem voru að baki þegar málið var höfðað en skaðabótakrafa stofnast við hinn ætlaða skaðabótaskylda verknað, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 14. júní 2010 í máli nr. 266/2010.

43. Þótt ætluð skaðabótakrafa áfrýjanda á hendur stefndu væri til komin vegna sömu kröfu og hann freistaði að innheimta á hendur Friðriki Ólafssyni á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingar hans voru engin efni til þess að líta svo á að efndatími skaðabótakröfunnar væri háður árangri af þeirri innheimtu. Þannig báru stefndu og Friðrik óskipta ábyrgð gagnvart áfrýjanda ef komist hefði verið að þeirri efnislegu niðurstöðu að krafa í þessu máli um greiðslu skaðabóta ætti sér lagastoð. Er þetta jafnframt í samræmi við þá grundvallarreglu kröfuréttar að fleiri skuldarar sömu kröfu beri óskipta ábyrgð nema annað leiði af lögum eða samningi. Skiptir þá venjulega ekki máli þótt grundvöllur kröfu á hendur fleiri skuldurum sé ekki sá sami, svo sem ef hún á sér stoð í samningi á hendur einum en eftir reglum skaðabótaréttar utan samninga á hendur öðrum. Óskipt ábyrgð fleiri en eins skuldara á kröfu kemur ekki í veg fyrir að fenginn verði aðfararhæfur dómur gagnvart þeim öllum í einu dómsmáli eða fleirum meðan einhver hluti kröfu er enn ógreiddur. Þegar af þeirri ástæðu að ætluð skaðabótakrafa áfrýjanda var samkvæmt framansögðu orðin gjaldkræf fyrir dómtöku málsins í héraði voru engin efni til að sýkna stefndu að svo stöddu á grundvelli 2. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991.

44. Svo sem hér hefur verið rakið eru þeir ágallar á hinum áfrýjaða dómi að þar er í fyrsta lagi ekki tekin nein afstaða til þess hvort gögn þau sem stefndu lögðu fram undir rekstri málsins í Landsrétti fengju komist að við mat á hugsanlegri skaðabótaábyrgð stefndu L Events ehf., Lifandi viðburða ehf. og Guðmundar Hreiðarssonar Viborg. Í öðru lagi bar Landsrétti að taka efnislega afstöðu til ætlaðrar skaðabótaskyldu sömu stefndu og voru ekki lagaskilyrði til þess að sýkna þá að svo stöddu í málinu. Á dóminum eru því hvað þessa stefndu varðar þeir annmarkar að óhjákvæmilegt er að ómerkja hann að því leyti og vísa málinu til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný um kröfu áfrýjanda á hendur þeim á grundvelli ætlaðrar skaðabótaskyldu.

45. Að öllu framangreindu gættu verður stefndi Live events ehf. sýknaður af kröfu áfrýjanda. Hvað aðra stefndu varðar verður málinu vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.

46. Áfrýjanda verður eftir þessum úrslitum gert að greiða stefnda Live events ehf. málskostnað á öllum dómstigum sem ákveðinn er í einu lagi eins og greinir í dómsorði. Rétt er að málskostnaður milli áfrýjanda og stefndu L Events ehf., Lifandi viðburða ehf. og Guðmundar Hreiðarssonar Viborg fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Stefndi, Live events ehf., er sýkn af kröfum áfrýjanda, K2 Agency Limited.

Áfrýjandi greiði stefnda, Live events ehf., samtals 1.500.000 krónur í málskostnað á öllum dómstigum.

Niðurstaða Landsréttar um sýknu L Events ehf., Lifandi viðburða ehf. og Guðmundar Hreiðarssonar Viborg að svo stöddu er ómerkt og þeim þætti málsins vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.

Málskostnaður milli áfrýjanda og stefndu L Events ehf., Lifandi viðburða ehf. og Guðmundar Hreiðarssonar Viborgs fyrir Hæstarétti fellur niður.