Hæstiréttur íslands

Mál nr. 49/2023

LOGOS slf. (Magnús Hrafn Magnússon lögmaður)
gegn
Sjöstjörnunni ehf. (Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara
  • Vanhæfi
  • Úrskurður Landsréttar felldur úr gildi

Reifun

Kærður var úrskurður Landsréttar þar sem úrskurður héraðsdóms um að héraðsdómari í málinu viki sæti var staðfestur. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að seta héraðsdómarans í öðru máli um ágreining S ehf. við annan aðila leiddi ekki til þess að hann hefði verið vanhæfur til að fara með mál S ehf. á hendur L slf. á grundvelli g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var úrskurður Landsréttar því felldur úr gildi og mælt fyrir um að héraðsdómarinn skyldi ekki víkja sæti í málinu.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson fyrrverandi hæstaréttardómari.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. september 2023 en kærumálsgögn bárust réttinum 3. október sama ár. Kærður er úrskurður Landsréttar 13. september 2023 þar sem staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að héraðsdómarinn Þorsteinn Magnússon viki sæti í máli varnaraðila gegn sóknaraðila. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður og úrskurður héraðsdóms verði felldir úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar fyrir Landsrétti og Hæstarétti.

3. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar fyrir Landsrétti og Hæstarétti.

Ágreiningsefni

4. Ágreiningur aðila í þessum þætti málsins lýtur að hæfi dómara. Deilt er um hvort héraðsdómari skuli víkja sæti þar sem hann hafi dæmt í öðru máli um ágreining varnaraðila við annan aðila og hvort dómarinn hafi þar tekið afstöðu til hluta sakarefnis máls þessa á hendur sóknaraðila.

5. Með úrskurði 24. maí 2023 vék héraðsdómarinn Þorsteinn Magnússon sæti með vísan til þess að fyrir hendi væru aðstæður sem væru til þess fallnar að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa í skilningi g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu með vísan til forsendna úrskurðarins.

6. Leyfi til að kæra úrskurð Landsréttar til Hæstaréttar var veitt 23. október 2023, með ákvörðun réttarins nr. 2023-106, á þeim grundvelli að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um hæfi dómara vegna setu í öðrum málum.

Málsatvik

7. Varnaraðili höfðaði mál á hendur KPMG ehf. aðallega og sóknaraðila til vara 16. júlí 2021. Kröfum hans á hendur sóknaraðila í því máli var vísað frá héraðsdómi með úrskurði 12. apríl 2022 sem staðfestur var með úrskurði Landsréttar 9. júní sama ár. Í úrskurði héraðsdóms kom fram að kröfur gegn aðalstefnda og varastefnda væru byggðar á ólíkum grundvelli þótt krafist væri bóta og viðurkenningar á bótaskyldu vegna sama tjóns. Annars vegar hafi verið byggt á bótaábyrgð KPMG ehf. vegna atvika árið 2014 sem tengdust vinnu félagsins við ráðstöfun fasteignar úr tilteknu hlutafélagi til varnaraðila sem framkvæmd var með skiptingu fyrrnefnda félagsins. Hins vegar væri byggt á bótaábyrgð sóknaraðila vegna alls kostar annarra atvika sem hefðu átt sér stað að minnsta kosti tveimur árum síðar og varnaraðili teldi að hefðu átt að koma í veg fyrir tjón hans. Var því talið að atvik og aðstaða að baki kröfunum væru mismunandi og kröfur varnaraðila á hendur KPMG ehf. og sóknaraðila væru ekki samrættar í skilningi 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Skilyrðum 2. mgr., sbr. 1. mgr. 19. gr. laganna, til varaaðildar var því ekki talið fullnægt.

8. Þorsteinn Magnússon tók sæti sem meðdómandi í héraðsdómi í fyrrgreindu máli varnaraðila gegn KPMG ehf. við upphaf aðalmeðferðar eftir að kröfum á hendur sóknaraðila var vísað frá héraðsdómi. Með héraðsdómi 10. mars 2023 var KPMG ehf. sýknað af kröfum varnaraðila um greiðslu nánar tilgreindrar fjárhæðar og viðurkenningu á skaðabótaábyrgð. Málinu var áfrýjað til Landsréttar 31. sama mánaðar.

9. Varnaraðili höfðaði mál þetta á hendur sóknaraðila 11. október 2022. Í stefnu til héraðsdóms er farið fram á að því verði frestað þar til niðurstaða liggi fyrir í fyrrgreindu máli varnaraðila á hendur KPMG ehf. þar sem málshöfðun á hendur sóknaraðila byggist á þeirri forsendu að KPMG ehf. verði sýknað að öllu leyti eða að hluta í því máli, sbr. 2. málslið 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991.

10. Málinu var úthlutað til Þorsteins Magnússonar héraðsdómara. Varnaraðili krafðist að hann viki sæti með vísan til þess að hann hefði dæmt í fyrrgreindu máli varnaraðila á hendur KPMG ehf. um ágreining sem ætti rætur að rekja til sömu atvika og ágreiningur þessa máls. Byggði varnaraðili á því að dómarinn hefði þar hafnað málsástæðum varnaraðila þess efnis að KPMG ehf. hefði sýnt af sér saknæma háttsemi. Í þessu máli varnaraðila á hendur sóknaraðila væri einnig byggt á því að sóknaraðili hefði sýnt af sér saknæma vanrækslu. Þar sem dómarinn hefði í málinu á hendur KPMG ehf. þegar tekið afstöðu til hluta sakarefnis þessa máls væri hann vanhæfur til að fara með það samkvæmt g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Sóknaraðili taldi hins vegar að vanhæfi væri ekki fyrir hendi enda um að ræða annað sakarefni sem hefði ekkert með ætlaða saknæma háttsemi KPMG ehf. að gera.

11. Líkt og áður greinir vék héraðsdómari í málinu sæti með úrskurði 24. maí 2023 sem staðfestur var með hinum kærða úrskurði. Í forsendum úrskurðar héraðsdóms var vísað til þess að við mat á því hvort sóknaraðila hefði borið að gæta að fyrningu þeirrar kröfu sem varnaraðili byggði á að hann hefði átt á hendur KPMG ehf. þyrfti meðal annars að líta til þess hvort sóknaraðili hefði mátt ætla að sú krafa væri til, á grundvelli saknæmrar háttsemi starfsmanna KPMG ehf. Mat um það atriði tengdist þannig mati á því hvort starfsmenn KPMG ehf. hefðu sýnt af sér saknæma háttsemi í tengslum við umrædd atvik. Þar sem tekin hefði verið afstaða til þess í dómi í máli varnaraðila gegn KPMG ehf., sem héraðsdómarinn hefði setið í, var fallist á að dómarinn væri vanhæfur í þessu máli á grundvelli g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða

12. Í 5. gr. laga nr. 91/1991 eru taldar upp í sjö stafliðum þær ástæður sem valda því að dómari telst vanhæfur til að fara með mál sem rekið er eftir lögunum. Þar er lýst nánar tilgreindum atvikum eða aðstæðum í liðum a til f. Auk þess segir í g-lið greinarinnar að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður sem fallnar eru til að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa. Eins og öðrum vanhæfisákvæðum er því ætlað að stuðla að trausti aðila og almennings til hlutleysis dómstóla, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 þar sem öllum er áskilinn réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir óhlutdrægum dómstóli. Sambærilega reglu er að finna í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

13. Hafi dómari í einkamáli áður dæmt um sakarefni í einu máli leiðir það eitt ekki til vanhæfis hans í öðru máli í skilningi g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 að málsaðili sé þar hinn sami og atvik að einhverju leyti hin sömu, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 10. júní 2009 í máli nr. 263/2009 og 30. ágúst 2000 í máli nr. 305/2000. Þá veldur seta dómara í máli sem hann hefur áður dæmt ekki vanhæfi hans í málum um hliðstætt sakarefni, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 10. desember 2020 í máli nr. 20/2020. Það sama gildir þegar niðurstaða fyrra máls sem dómari hefur setið í kann að hafa einhverja þýðingu í síðara máli, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 11. febrúar 2004 í máli nr. 6/2004.

14. Í máli því sem hér er til meðferðar verður við mat á hæfi héraðsdómarans byggt á framangreindu. Þannig er til þess að líta að um er að ræða atvik og aðstæður sem einungis tengjast fyrri dómstörfum hans en ekki öðrum atvikum, eins og fyrir lá í dómi Hæstaréttar 1. mars 2023 í máli nr. 40/2022 sem varnaraðili hefur vísað til.

15. Því verður ekki fundinn staður að héraðsdómarinn hafi í hinu fyrra máli varnaraðila á hendur KPMG ehf. lýst einhverjum þeim viðhorfum til varnaraðila að draga megi óhlutdrægni hans í þessu máli með réttu í efa. Er aðstaðan að þessu leyti ólík þeirri sem leiddi til vanhæfis dómara í dómi Hæstaréttar 17. desember 1998 í máli nr. 488/1998 sem birtur er á bls. 4512 í dómasafni réttarins það ár og varnaraðili hefur vísað til.

16. Samkvæmt framangreindu verður ekki talið að fyrir hendi séu atvik eða aðstæður sem séu fallnar til þess að draga megi óhlutdrægni dómarans í efa í skilningi g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991.

17. Hinn kærði úrskurður er því felldur úr gildi og skal Þorsteinn Magnússon héraðsdómari ekki víkja sæti í málinu.

18. Sóknaraðili hafði ekki uppi kröfu um málskostnað í héraði í þessum þætti málsins og kemur sú krafa hans því ekki til úrlausnar hér fyrir dómi.

19. Rétt þykir að kærumálskostnaður fyrir Landsrétti og Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og skal Þorsteinn Magnússon héraðsdómari ekki víkja sæti í málinu.

Kærumálskostnaður fyrir Landsrétti og Hæstarétti fellur niður.