Hæstiréttur íslands
Mál nr. 49/2024
Lykilorð
- Kærumál
- Matsbeiðni
- Dómkvaðning matsmanns
- Úrskurður Landsréttar felldur úr gildi
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Sigurður Tómas Magnússon og Skúli Magnússon.
2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. október 2024 en kærumálsgögn bárust réttinum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 30. september það ár þar sem felldur var úr gildi úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur og lagt fyrir héraðsdómara að dómkveðja matsmann til að svara spurningum samkvæmt matsbeiðni varnaraðila með þeirri breytingu að felld yrðu á brott orðin: „Þess er óskað að þess verði gætt sérstaklega, t.d. á matsfundum, að matsþoli fái ekki afrit af gögnum eða upplýsingum um matsbeiðanda.“
3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns hafnað. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar fyrir Landsrétti og Hæstarétti.
4. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar auk kærumálskostnaðar.
Ágreiningsefni
5. Ágreiningur í þessum þætti málsins lýtur að beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns til að skoða, rannsaka og lýsa efni þriggja harðra tölvudiska og gefa skriflegt og rökstutt álit á fjórtán nánar tilgreindum atriðum. Samkvæmt matsbeiðni hyggst varnaraðili með matinu sanna og lýsa þeirri staðreynd að á diskunum séu persónuupplýsingar um hann.
6. Ekki er um það deilt að á diskunum er að finna rafræn gögn sem lagt var hald á við húsleit sóknaraðila hjá Samherja hf. 27. mars 2012. Samkvæmt matsbeiðni eru diskarnir nú í vörslum héraðssaksóknara og hefur sóknaraðili lýst því yfir að engin afrit gagnanna séu í hans fórum.
7. Með úrskurði héraðsdóms var því hafnað að dómkveðja matsmann. Landsréttur felldi úrskurðinn úr gildi og lagði fyrir héraðsdóm að dómkveðja matsmann í samræmi við matsbeiðnina með þeirri breytingu að ekki var fallist á áskilnað um að sóknaraðili fengi ekki aðgang að þeim gögnum sem matsmaður kynni að afla.
8. Kæruleyfi í málinu var veitt 8. nóvember 2024, með ákvörðun réttarins nr. 2024-128, á þeim grunni að úrlausn um kæruefnið gæti haft fordæmisgildi og grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins.
Málsatvik
9. Varnaraðili var forstjóri Samherja hf. þegar sóknaraðili gerði 27. mars 2012 húsleit á starfsstöðvum félagsins í þágu rannsóknar á ætluðum brotum þess og tengdra félaga gegn lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál og stjórnvaldsfyrirmælum settum á grundvelli þeirra. Við leitina var lagt hald á ótilgreint magn gagna, þar með talið rafræn gögn Samherja hf. og tengdra félaga. Haldlagning gagnanna fór þannig fram að tekið var rafrænt afrit af þeim og þau vistuð á þremur hörðum diskum. Varnaraðili byggir á því að á meðal þessara gagna séu ýmsar persónuupplýsingar um hann.
10. Með ákvörðun 1. september 2016 lagði sóknaraðili 15.000.000 króna stjórnvaldssekt á Samherja hf. vegna brota gegn nánar tilgreindum ákvæðum laga nr. 87/1992 og reglum settum á grundvelli þeirra. Með héraðsdómi 24. apríl 2017, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 8. nóvember 2018 í máli 463/2017, var fallist á kröfu félagsins um ógildingu ákvörðunarinnar. Félagið höfðaði í kjölfarið mál gegn sóknaraðila til heimtu bóta fyrir fjártjón og miska vegna framgöngu stofnunarinnar við rannsókn og meðferð málsins. Lauk því máli með dómi Landsréttar 11. mars 2022 í máli nr. 658/2020.
11. Sóknaraðili lagði jafnframt 1.300.000 króna stjórnvaldssekt á varnaraðila 1. september 2016 vegna brota gegn nánar tilgreindum ákvæðum laga nr. 87/1992 og reglum settum á grundvelli þeirra. Varnaraðili krafðist ekki endurskoðunar dómstóla á þeirri ákvörðun. Með bréfi 27. mars 2018 óskaði hann hins vegar eftir því að sóknaraðili afturkallaði ákvörðun sína þar sem viðhlítandi heimild hefði skort til álagningar sektarinnar. Með bréfi 24. apríl 2019 afturkallaði varnaraðili stjórnvaldssektina. Varnaraðili höfðaði í framhaldinu mál gegn sóknaraðila til heimtu bóta fyrir fjártjón og miska. Lauk því með dómi Landsréttar 11. mars 2022 í máli nr. 666/2020.
12. Héraðssaksóknari mun hafa óskað eftir því við sóknaraðila 30. mars 2020 að fá afhent rafræn gögn Samherja hf. og tengdra aðila sem lagt hefði verið hald á við húsleitina 27. mars 2012 og bankinn hefði í vörslum sínum. Var það gert með vísan til ákvæða laga nr. 140/2018 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Sóknaraðili afhenti héraðssaksóknara fyrrgreinda tölvudiska 15. apríl 2020.
13. Varnaraðili beindi erindi til Persónuverndar […] 2020 og kvartaði meðal annars yfir varðveislu persónuupplýsinga um hann hjá sóknaraðila og miðlun þeirra til héraðssaksóknara. Varnaraðili vísaði til þess að gagnaöflun sóknaraðila hefði farið fram við rannsókn stjórnsýslumáls sem hefði lokið 1. september 2016 eða í síðasta lagi við uppkvaðningu fyrrgreinds dóms Hæstaréttar 8. nóvember 2018. Sóknaraðila hefði því borið að eyða gögnunum eftir þann tíma enda hefðu þau ekki lengur verið nauðsynleg í þeim tilgangi sem bjó að baki öflun þeirra.
14. Meðferð málsins hjá Persónuvernd lauk endanlega með úrskurði stofnunarinnar […] 2022. Með honum var vísað frá þeim hluta kvörtunarinnar sem laut að öflun sóknaraðila á gögnunum og eyðingu þeirra. Að öðru leyti komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að sóknaraðila hefði brostið heimild samkvæmt lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. reglugerð (ESB) 2016/679, til varðveislu á persónuupplýsingum um varnaraðila. Tæki það til tímabilsins frá því að stjórnsýslumáli sóknaraðila gagnvart Samherja hf. taldist lokið með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 463/2017. Var í því tilliti vísað til þess að ekki hefðu legið fyrir slíkir rannsóknarhagsmunir eftir þann tíma að réttlætt gætu varðveislu gagna „sem ekki höfðu þýðingu í málinu“. Á hinn bóginn var það niðurstaða stofnunarinnar að miðlun sóknaraðila á persónuupplýsingum varnaraðila til héraðssaksóknara hefði samrýmst lögum nr. 90/2018.
15. Varnaraðili höfðaði mál þetta gegn sóknaraðila 20. október 2023 til heimtu miskabóta vegna varðveislu sóknaraðila á persónuupplýsingum um hann frá 8. nóvember 2018 til 15. apríl 2020. Sóknaraðili skilaði greinargerð í málinu 25. janúar 2024. Við fyrirtöku málsins 14. febrúar það ár lagði varnaraðili fram bókun þar sem hann krafðist þess meðal annars að sóknaraðili félli frá málsástæðum í greinargerð sinni sem gæfu í skyn að engar persónuupplýsingar um varnaraðila hefði verið að finna í þeim gögnum sem hann byggði á að sóknaraðili hefði varðveitt án heimildar. Í því þinghaldi var málinu frestað til 21. mars 2024 að beiðni sóknaraðila. Við fyrirtöku málsins þann dag var málinu frestað að beiðni varnaraðila til að leggja fram matsbeiðni. Í þinghaldi 23. apríl það ár lagði hann fram þá beiðni sem um er deilt.
Niðurstaða
16. Svo sem rakið er í dómi Hæstaréttar 21. mars 2017 í máli nr. 147/2017 eru ákvæði laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála meðal annars reist á þeim meginreglum að aðilar hafi í einkamáli, hvor eða hver fyrir sitt leyti, forræði á sönnunarfærslu og leggi fram sönnunargögn sem þeir ýmist hafa þegar undir höndum eða afla frá öðrum undir rekstri málsins. Við slíka öflun sönnunargagna getur aðili ekki fengið gagnaðila sinn knúinn til athafna, hvorki til að gefa munnlega skýrslu fyrir dómi né láta af hendi skjöl eða önnur sýnileg sönnunargögn, en verði hann ekki við áskorun um slíkar athafnir má skýra neitun hans á þann hátt sem aðilanum er hagfelldastur. Aðili getur á hinn bóginn krafist atbeina þriðja manns til sönnunarfærslu undir rekstri máls með því að fá hann skyldaðan til að koma fyrir dóm til að gefa skýrslu sem vitni eða til að afhenda tiltekið skjal eða annað sýnilegt sönnunargagn til framlagningar þar, enda sanni aðili að sönnunargagnið sé til og í vörslum þess manns.
17. Skylda þriðja manns til að verða við kröfu aðila um afhendingu sönnunargagns í vörslum hans er bundin því skilyrði að honum væri skylt að afhenda það aðilanum án tillits til málsins eða efni skjalsins er slíkt að honum væri skylt að bera vitni um það í málinu, sbr. 3. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991. Hafi skjal sem skylt er að láta af hendi samkvæmt greininni að geyma atriði sem hlutaðeigandi væri óskylt eða óheimilt að bera vitni um getur dómari allt að einu ákveðið að það verði lagt fyrir hann í trúnaði og gegn þagnarskyldu. Getur hann þá annaðhvort tekið eftirrit af því úr skjalinu sem er skylt og heimilt að láta uppi eða gert skýrslu um þau atriði, sbr. 1. mgr. 69. gr. laganna.
18. Í dómaframkvæmd hefur aðilum verið játaður víðtækur réttur til að afla matsgerða til að færa sönnur á staðhæfingar sínar. Sá réttur takmarkast þó af meginreglum einkamálaréttarfars, meðal annars þeim sem gilda um öflun sönnunargagna sem eru í vörslum þriðja manns eins og áður greinir, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 21. október 2011 í máli nr. 558/2011 og 29. apríl 2014 í máli nr. 241/2014. Verður þá einnig að horfa til þess að markmið með beiðni um dómkvaðningu sérfróðs manns eða manna samkvæmt IX. kafla laga nr. 91/1991 á að vera að fá rökstudda matsgerð um þau atriði sem meta skal en ekki að afla annarra sönnunargagna en þeirra sem nauðsynleg eru til að matsmaður geti samið umbeðna matsgerð, sbr. dóm Hæstaréttar 13. janúar 2012 í máli nr. 697/2011.
19. Í máli þessu hefur varnaraðili lýst því yfir að hann hafi sjálfur ekki undir höndum nein eintök þeirra gagna sem hér um ræðir. Hlutafélagið Samherji, sem hann stýri, kunni enn að varðveita einhver þessara gagna en þeim muni þó að verulegu leyti hafa verið eytt sökum aldurs. Þá er því mótmælt að hinum haldlögðu gögnum hafi verið skilað til félagsins.
20. Að virtum gögnum málsins og yfirlýsingum aðila fyrir dómi verður að miða við að umræddir tölvudiskar séu ekki lengur í vörslum sóknaraðila, sem er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 92/2019 um Seðlabanka Íslands, heldur héraðssaksóknara sem einnig nýtur sjálfstæðis í störfum sínum samkvæmt nánari fyrirmælum laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Verður því að leggja til grundvallar að tölvudiskarnir séu „í vörslum manns“ sem ekki er aðili að málinu í skilningi 3. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991.
21. Samkvæmt matsbeiðni varnaraðila hyggst hann með matinu „sanna og lýsa þeirri staðreynd að á hörðu diskunum þremur séu persónuupplýsingar um matsbeiðanda“. Er þess óskað að matsmaður „skoði, rannsaki og lýsi efni hörðu diskanna þriggja og gefi skriflegt og rökstutt álit“ á nánar tilgreindum spurningum í fjórtán liðum. Lýtur fyrsta spurningin að því hvort á diskunum séu „persónuupplýsingar“ um varnaraðila eða upplýsingar sem kunni að vera slíkar upplýsingar. Aðrar spurningar lúta að því hvort á diskunum séu upplýsingar um varnaraðila tiltekins eðlis eða tegundar, svo sem ljósmyndir af honum, afrit af persónuskilríkjum eða læknisfræðileg gögn. Af framsetningu í matsbeiðni verður ekki annað ráðið en varnaraðili gangi út frá því að þessar upplýsingar falli einnig, eða kunni að falla, undir hugtakið persónuupplýsingar. Með fjórtándu spurningu í matsbeiðni er að síðustu leitað sérstaklega svara við því hvort „viðkvæmar persónuupplýsingar“ um varnaraðila sé að finna á diskunum.
22. Varnaraðili hefur áréttað að með matsspurningunum sé ekki farið fram á lögfræðilegt mat á því hvort tilteknar upplýsingar séu persónuupplýsingar heldur að sérfróður maður finni það til á umræddum diskum sem hann telji geta verið persónuupplýsingar og lýsi þeim í skoðunar- og matsgerð svo að dómari geti í kjölfarið lagt lögfræðilegt mat á hlutaðeigandi gögn. Nánar tiltekið hefur varnaraðili lýst tilgangi matsbeiðnar svo að áður en dómari leggi mat á hvort tilteknar upplýsingar séu persónuupplýsingar þurfi að „finna nálina í heystakknum“. Að teknu tilliti til framsetningar matsbeiðni og þessara skýringa varnaraðila verður málatilbúnaður hans ekki skilinn á aðra leið en að tilgangur beiðninnar sé í reynd sá að ákveðin gögn komist að í málinu og þá með þeim hætti að dómari geti tekið afstöðu til þess hvort þau hafi að geyma persónuupplýsingar eða viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi laga nr. 90/2018.
23. Varnaraðili hefur ekki tilgreint nákvæmlega eða lagt fram gögn um sig sem hann telur vera að finna á umræddum diskum en þau eiga uppruna í tölvukerfum fyrrnefnds hlutafélags sem hann stýrir. Þá hefur hann ekki gert reka að því að nýta sér þau úrræði sem hann hefur samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 67. og 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 til að beina kröfu að héraðssaksóknara um að embættið afhendi honum tölvudiskana eða staðfesti að nánar tilgreind gögn séu á þeim og láta þannig reyna á skyldu embættisins að þessu leyti.
24. Horfa verður til þess að skoðunar- og matsgerð dómkvadds manns samkvæmt beiðni varnaraðila, eins og hún er orðuð, myndi ekki jafngilda því að þau gögn sem matsmaðurinn hefði skoðað og rannsakað yrðu sjálfkrafa meðal gagna í því dómsmáli sem varnaraðili hefur höfðað gegn sóknaraðila. Þótt matsgerð fæli í sér ákveðna lýsingu á þeim gögnum sem hér um ræðir, svo og eftir atvikum rökstudda afstöðu matsmanns til þeirra, væri það eftir sem áður hlutverk dómara samkvæmt 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 að skera úr um hvort þau innihéldu persónuupplýsingar eða viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi laga. Slík skoðun og úrlausn dómara getur þó ekki komið til ef þau gögn sem um ræðir eru ekki hluti málsgagna en jafnframt fengi sóknaraðili þá ekki notið jafnræðis í málinu. Við þessar aðstæður er umbeðin matsgerð varnaraðila bersýnilega tilgangslaus til sönnunar á þeim atvikum sem hann byggir málatilbúnað sinn á, sbr. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Þegar af þessum ástæðum verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns hafnað.
25. Eftir úrslitum málsins verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila samtals 800.000 krónur í kærumálskostnað fyrir Landsrétti og Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Hafnað er kröfu varnaraðila, Þorsteins Más Baldvinssonar, um dómkvaðningu matsmanns.
Varnaraðili greiði sóknaraðila, Seðlabanka Íslands, samtals 800.000 krónur í kærumálskostnað fyrir Landsrétti og Hæstarétti.