Hæstiréttur íslands

Mál nr. 34/2022

Kristinn D. Grétarsson (Vilhjálmur Þ. Á. Vilhjálmsson lögmaður)
gegn
Menntasjóði námsmanna (Kristján Þorbergsson lögmaður)

Lykilorð

  • Lánssamningur
  • Ábyrgð
  • Lögskýring

Reifun

Ágreiningur aðila laut að ábyrgð K á námsláni sem stofnað hafði verið til með útgáfu skuldabréfs í september 2005. Við gildistöku laga um Menntasjóð námsmanna nr. 60/2020 26. júní 2020 voru í vanskilum tvær afborganir af skuldabréfinu. Bréfið var gjaldfellt 21. júlí 2020. K byggði á því að ábyrgð hans tæki aðeins til þess hluta lánsins sem hefði verið gjaldfallinn við gildistöku laga nr. 60/2020 með vísan til 1. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða með lögunum sem kveður á um að ábyrgð ábyrgðarmanns á námslánum teknum í tíð eldri laga falli niður við gildistöku laganna enda sé lánþegi í skilum við Lánasjóð íslenskra námsmanna. Í dómi Hæstaréttar var vísaði til þess að við skýringu 1. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða með lögum nr. 60/2020 yrði fyrst og fremst litið til orðalags þess að gættum lögskýringargögnum. Í ákvæðinu væri sett það skilyrði fyrir niðurfellingu ábyrgðar að lán væri í skilum við gildistöku laganna. Óumdeilt væri að ógreiddar hafi verið tvær afborganir og lánþegi því ekki í skilum með greiðslur námslánsins auk þess sem það hafi verið í verulegum vanskilum samkvæmt skilmálum þess. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að ekkert í lögskýringargögnum um 1. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða með lögum nr. 60/2020 styddi þá túlkun sem K byggði á. Það fengi ekki haggað þeirri niðurstöðu þótt samhljóða orðalag í 2. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða með lögum nr. 60/2020 væri skýrt á annan veg í lögskýringargögnum. Var því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að fallast á kröfur M á hendur K.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson.

2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. júní 2022. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar á öllum dómstigum.

3. Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst hann greiðslu málskostnaðar úr hendi áfrýjanda fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni

4. Aðilar deila um ábyrgð áfrýjanda á námsláni sem stofnað var til með útgáfu skuldabréfs í september 2005. Ágreiningur þeirra lýtur að skýringu á þeim fyrirmælum 1. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða við lög um Menntasjóð námsmanna nr. 60/2020 að ábyrgð ábyrgðarmanns á námslánum teknum í tíð eldri laga skuli falla niður við gildistöku laganna enda sé lánþegi í skilum við Lánasjóð íslenskra námsmanna. Við gildistöku laganna voru tvær afborganir af fyrrgreindu láni í vanskilum.

5. Í héraðsdómi var áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda en Landsréttur tók kröfu stefnda til greina.

6. Áfrýjunarleyfi var veitt 1. júní 2022 með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2022-61 á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um réttarstöðu ábyrgðarmanna samkvæmt lögum nr. 60/2020.

Málsatvik

7. Lánþeginn A tók tvö námslán, svonefnd R-bréf, í gildistíð þágildandi laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Samkvæmt sérstakri heimild í lögum nr. 140/2004 um breytingu á lögum nr. 21/1992 var bréfunum skipt að ósk lánþega í tvö svonefnd G-bréf 20. september 2005, nr. G-004543 og G-060141. Gekkst áfrýjandi á sama tíma í sjálfskuldarábyrgð fyrir greiðslu þeirra í stað fyrri ábyrgðarmanns. Í báðum bréfunum var ákvæði um að heimilt væri að fella alla skuldina í gjalddaga fyrirvaralaust og án sérstakrar uppsagnar ef vanskil væru veruleg en með verulegum vanskilum væri átt við 15 daga vanskil eða meiri.

8. Við gildistöku laga nr. 60/2020 26. júní 2020 beið bréf nr. G-060141 innheimtu og taldist því vera í skilum. Samkvæmt fyrirmælum 1. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða við lögin féll ábyrgð áfrýjanda niður á því láni og var honum tilkynnt um eftirgjöf réttar stefnda af þeim sökum með bréfi 25. september 2020. Á sama tíma voru í vanskilum tvær afborganir af skuldabréfi nr. G-004543 sem var upphaflega að fjárhæð 3.379.868 krónur, annars vegar með gjalddaga 1. september 2019 og hins vegar 1. mars 2020. Hafði áfrýjanda verið send innheimtuviðvörun 16. október 2019 og innheimtubréf vegna fyrrgreindra gjalddaga 14. febrúar 2020 og 13. mars sama ár. Skuldabréfið var gjaldfellt 21. júlí 2020.

9. Mál stefnda á hendur áfrýjanda til innheimtu skuldarinnar var þingfest 20. október 2020 og þess krafist að lánþega og áfrýjanda yrði gert að greiða stefnda óskipt gjaldfelldar eftirstöðvar lánsins, samtals 6.887.253 krónur, að viðbættum þeim tveimur afborgunum sem voru í vanskilum við gjaldfellingu þess, annars vegar 84.469 krónur og hins vegar 140.133 krónur, ásamt nánar tilgreindum vöxtum. Samtals nam því krafa stefnda 7.111.855 krónum. Lánþeginn lét málið ekki til sín taka í héraði og var dæmd til greiðslu skuldarinnar.

10. Áfrýjandi greiddi stefnda 325.000 krónur 9. desember 2020 og taldi sig með því hafa gert upp fyrrgreindar afborganir vegna gjalddaga 1. september 2019 og 1. mars 2020 ásamt vöxtum. Þessari greiðslu ráðstafaði stefndi hins vegar inn á gjaldfelldar eftirstöðvar lánsins að viðbættum vöxtum og kostnaði.

Málsástæður aðila

Helstu málsástæður áfrýjanda

11. Áfrýjandi byggir á því að ábyrgð hans taki aðeins til þess hluta lánsins sem hafi verið gjaldfallinn við gildistöku laga nr. 60/2020. Í lögunum sé vísað til þess á þremur stöðum að ábyrgðir falli niður sé lánþegi „í skilum“. Skýrt sé af athugasemdum við 5. mgr. 11. gr. laganna að með því orðalagi sé átt við þann hluta láns sem er gjaldfallinn og að ábyrgð falli því niður á þeim hluta þess sem ekki er gjaldfallinn. Af athugasemdum í greinargerð við 2. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða við lögin megi skýrt ráða að ábyrgðir sem ekki voru fallnar í gjalddaga féllu niður. Því standist ekki niðurstaða Landsréttar um það skilyrði 1. mgr. ákvæðisins að vera „í skilum“ feli í sér að lánþegi hafi greitt af láninu „í samræmi við skilmála skuldabréfsins“. Með því sé horft fram hjá því að lánþegi geti bæði verið í skilum og vanskilum á sama láni. Þá verði að líta til þess hvernig sama orðalag í öðrum ákvæðum laganna er túlkað og hvernig stefndi sjálfur hafi beitt þeim ákvæðum.

12. Áfrýjandi byggir jafnframt á því að framsetning í almennum athugasemdum með frumvarpinu sem og í skýringum með 1. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða með lögum nr. 60/2020 sé ekki óskýr eins og segi í hinum áfrýjaða dómi. Eðlilega beri að túlka sama skilyrði í sömu lögum og í sama lagaákvæði með sama hætti, í samræmi við vilja löggjafans og með innri samræmisskýringu. Þá hafi markmið laganna verið að tryggja að hver lánþegi skuli sjálfur vera ábyrgur fyrir endurgreiðslu eigin námslána og taki það eðli máls samkvæmt bæði til þegar veittra lána sem og nýrra lána. Jafnframt megi líta svo á að í ákvæðinu felist bæði meginregla og undantekning. Meginreglan sé sú að ábyrgðir skuli falla niður með þeirri undantekningu þegar lánþegi sé ekki í skilum en þá falli ekki niður sá hluti ábyrgðarinnar.

Helstu málsástæður stefnda

13. Stefndi byggir á því að fyrirmæli laga nr. 60/2020 feli í sér skilorðsbundna eftirgjöf réttar samkvæmt ábyrgðarloforði sem gefið var fyrir gildistöku laganna 26. júní 2020. Þessi fyrirmæli lúti að ólíkri aðstöðu en þeirri sem fjallað er um í lagaákvæðum sem mæla fyrir um ábyrgð við andlát ábyrgðarmanns eða greiðsluskyldu lánþega við sömu aðstæður. Ætlun löggjafans hafi verið sú að gefa eftir rétt samkvæmt ábyrgðarloforði til ógjaldfallinna eftirstöðva við andlát ábyrgðarmanns. Sú regla ætti ekki við um áhrif gildistöku laganna á eldri ábyrgðarloforð væri vanskilum til að dreifa. Stefndi vísar einnig til þess að í aðdraganda að setningu laganna hafi verið að finna ráðagerð um að væri láni sem er í vanskilum við gildistöku laganna komið í skil eftir gildistöku þeirra gætu bæði lánþegi og ábyrgðarmaður sótt um niðurfellingu ábyrgðar á ógjaldföllnum eftirstöðvum. Sú tillaga hafi hins vegar ekki ratað inn frumvarpið, en þetta styðji jafnframt þá skýringu ákvæðisins sem stefndi byggi á.

14. Stefndi bendir einnig á að ef málatilbúnaður áfrýjanda stæðist leiddi það til þess að 2. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða með lögunum tæki ekki til nokkurs tilviks. Ef krafa til ógjaldfallinna eftirstöðva lána í vanskilum teldist hafa verið gefin eftir við gildistöku laganna yrði sú sama krafa ekki gefin eftir öðru sinni við andlát ábyrgðarmanns. Þá sé ákvæðum 1. og 2. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða skipað saman sökum þess að 2. mgr. sé einvörðungu ætlað að taka til og geti einungis tekið til þeirra ábyrgðarloforða sem ekki teljast gefin eftir við gildistöku laganna vegna skilyrðisins um skil þeirra í 1. mgr.

Löggjöf

Fyrirkomulag laga nr. 60/2020 um ábyrgðir

15. Lög nr. 60/2020 leystu af hólmi lög nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Með lögunum var breytt fyrirkomulagi námslána og nafni stofnunarinnar breytt í Menntasjóð námsmanna. Í 1. gr. laga nr. 60/2020 segir að markmið þeirra sé að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms, án tillits til efnahags og stöðu að öðru leyti, með því að veita námsmönnum fjárhagslega aðstoð í formi námslána og styrkja.

16. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laganna skulu námsmenn sem fá námslán undirrita skuldabréf við lántöku teljist þeir tryggir lánþegar samkvæmt úthlutunarreglum. Teljist þeir ekki tryggir lánþegar segir í 3. mgr. að þeir geti lagt fram ábyrgðir sem Menntasjóðurinn telur viðunandi. Ábyrgðir geti meðal annars verið yfirlýsing ábyrgðarmanns um sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu námsláns með sömu skilmálum og lán lánþega er með, allt að tiltekinni fjárhæð. Í 5. mgr. 11. gr. segir að sjóðstjórn ákveði hvaða skilyrðum ábyrgðarmenn skuli fullnægja. Þá geti ábyrgð ábyrgðarmanns fallið niður enda setji námsmaður aðra tryggingu sem stjórn sjóðsins meti fullnægjandi.

17. Í 5. mgr. 11. gr. er fjallað um afdrif ábyrgðar ábyrgðarmanns við andlát hans. Þar segir að hún falli þá niður enda sé lánþegi í skilum við Menntasjóðinn. Í greinargerð frumvarpsins sem varð að lögum nr. 60/2020 sagði nánar um 11. gr.:

Lög um ábyrgðarmenn, nr. 32/2009, gilda áfram um ábyrgðarmenn námslána. Til viðbótar má finna nýmæli um að ábyrgð ábyrgðarmanns á námslánum falli niður við andlát hans enda sé lánþegi í skilum við Menntasjóðinn. Miðað er við að lánþegi sé í skilum við Menntasjóðinn á því náms¬láni sem ábyrgðarmaðurinn er í ábyrgð fyrir við dánardag ábyrgðarmanns. Sé lánþegi ekki í skilum við andlát ábyrgðarmanns erfist ábyrgð á þeim hluta námsláns sem er gjaldfallinn við andlátið. Námslán lánþega fellur ekki niður við andlát ábyrgðarmanns. Með þessu er útfærð nánar sú framkvæmd að hver lánþegi sé sjálfur ábyrgur fyrir endurgreiðslum á eigin námslánum, að uppfylltum skilyrðum sjóðstjórnar.

18. Í VI. kafla laganna er fjallað um lánakjör, endurgreiðslur námslána, vanskil og fyrningarfrest. Þar er meðal annars fjallað um það tilvik þegar lánþegi andast en í 2. mgr. 16. gr. laganna segir að þá falli sjálfkrafa niður endurgreiðslur sem falla í gjalddaga eftir andlát lánþega. Um það segir í greinargerð með frumvarpi til laganna að með ákvæðinu sé áfram gert ráð fyrir að námslán sem eru í skilum falli niður við andlát lánþega en sá hluti námsláns sem er gjaldfallinn við andlát lánþega falli á dánarbú hans.

Fyrirmæli um afdrif eldri ábyrgða

19. Í almennum athugasemdum í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 60/2020 kom fram að ábyrgðir ábyrgðarmanna á námslánum sem tekin voru í tíð eldri laga féllu niður við gildistöku laganna enda væri lánþegi í skilum við Lánasjóð íslenskra námsmanna og ekki á van¬skila¬skrá, sbr. áskilnað þar að lútandi í 1. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða með frumvarpinu. Síðastgreinda skilyrðið var fellt úr frumvarpinu við þinglega meðferð þess. Þá kom þar einnig fram að ábyrgð ábyrgðarmanns félli niður við andlát hans enda væri lánþegi í skilum. Þetta var nánar útfært í ákvæði II til bráðabirgða en 1. og 2. mgr. þess eru svohljóðandi:

1. Ábyrgð ábyrgðarmanns á námslánum teknum í tíð eldri laga skal falla niður við gildistöku laga þessara, enda sé lánþegi í skilum við Lánasjóð íslenskra námsmanna. Sama gildir um ábyrgðir á námslánum sem eru í óskiptum dánarbúum og ábyrgðaryfirlýsingar fjármálafyrirtækja.
2. Ábyrgð ábyrgðarmanns á námslánum teknum í tíð eldri laga fellur niður við andlát hans enda sé lánþegi í skilum við Lánasjóð íslenskra námsmanna.

20. Í greinargerð frumvarpsins um ákvæðið sagði meðal annars um 1. mgr.:

Í ákvæðinu er útfærð nánar sú framkvæmd að hver lánþegi sé sjálfur ábyrgur fyrir endur¬greiðslum á eigin námslánum, að uppfylltum skilyrðum sjóðstjórnar. Ábyrgð ábyrgðar¬manns á námslán¬um, teknum í tíð eldri laga, fellur niður við gildistöku frumvarps þessa enda sé lánþegi í skilum við Lánasjóð íslenskra námsmanna og ekki á vanskilaskrá. Miðað er við að lánþegi sé í skilum við Lánasjóðinn á því námsláni sem ábyrgðarmaðurinn er í ábyrgð fyrir við gildistöku laganna. Hafi ábyrgð fallið á ábyrgðarmann fellur ábyrgð hans ekki niður samkvæmt þessu ákvæði.

21. Um 2. mgr. sagði svo í frumvarpinu:

Ákvæði 2. mgr. er í samræmi við meginreglu laganna um að hver lánþegi skuli vera ábyrgur á sínum lánum þannig að ef lánþegi er í skilum við sjóðinn á dánardegi ábyrgðarmanns skal ábyrgðin falla niður. Með ákvæðinu er átt við að ábyrgðir ábyrgðarmanna sem ekki eru fallnar í gjalddaga skuli falla niður við andlát ábyrgðarmanns. Þessi regla er í samræmi við reglu sem lengi hefur gilt um lánþegann sjálfan, þ.e. að skuld hans falli niður við andlát en erfist ekki. Þegar svo stendur á þarf lánþegi ekki að fá annan ábyrgðarmann enda er ekki lengur gerð krafa um ábyrgðarmenn námslána nema í undantekningartilfellum.

Niðurstaða

22. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða með lögum nr. 60/2020 skal ábyrgð ábyrgðarmanns á námslánum teknum í tíð eldri laga falla niður við gildistöku laganna enda sé lánþegi „í skilum“ við Lánasjóð íslenskra námsmanna. Áfrýjandi byggir sem fyrr segir á að í þessu felist að við gildistöku laganna hafi ábyrgð hans fallið niður á þeim afborgunum skuldabréfs nr. G-004543 sem ekki voru komnar í gjalddaga. Þá hafi hann með greiðslu á 325.000 krónum gert upp þau vanskil sem fyrir hendi voru við gildistöku laganna. Þar með hafi ábyrgð hans fallið niður á grundvelli fyrrgreinds ákvæðis. Stefndi telur þvert á móti að ábyrgð áfrýjanda hafi ekki að neinu leyti fallið niður vegna vanskila lánþega við gildistöku laganna.

23. Við skýringu 1. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða með lögum nr. 60/2020 verður fyrst og fremst litið til orðalags þess að gættum lögskýringargögnum.

24. Í ákvæðinu er sett það skilyrði fyrir niðurfellingu ábyrgðar að lán sé í skilum við gildistöku laganna. Óumdeilt er að þá voru ógreiddar tvær afborganir samkvæmt láni því sem ábyrgð áfrýjanda tók til og lánþegi var því ekki í skilum með greiðslur námslánsins auk þess sem það var í verulegum vanskilum samkvæmt skilmálum þess.

25. Í greinargerð með ákvæði II til bráðabirgða segir að með því sé útfærð sú framkvæmd nýju laganna að hver lánþegi er sjálfur ábyrgur fyrir endur¬greiðslu eigin námslána að uppfylltum skilyrðum sjóðstjórnar. Væri þar miðað við að lánþegi væri í skilum á því námsláni sem ábyrgðarmaður væri í ábyrgð fyrir við gildistöku laganna. Hefði ábyrgð þá fallið á ábyrgðarmann félli hún hins vegar ekki niður. Í því samhengi er áréttað að með lögunum var ekki fallið með öllu frá því að leita eftir ábyrgðum ábyrgðarmanna, sbr. 3. mgr. 11. gr. laganna, sem á við um þau tilvik þegar lánþegar teljast ekki tryggir. Það var því ekki markmið við setningu laganna að fella niður ábyrgðir námslána með öllu. Af framangreindu verður ráðið að ekkert í lögskýringargögnum um 1. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða styður þá túlkun sem áfrýjandi byggir á. Auk þess verður ákvæðið, sem telst ívilnandi í garð ábyrgðarmanna, ekki skýrt með rýmkandi hætti andspænis skýru orðalagi þess og er þá jafnframt höfð hliðsjón af meginreglum kröfuréttar um ábyrgðir, sbr. einnig til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 5. nóvember 2015 í máli nr. 229/2015.

26. Í lögum nr. 21/1992 var að finna þá reglu í 4. mgr. 9. gr. að við andlát lánþega féllu sjálfkrafa niður endurgreiðslur lána sem féllu í gjalddaga eftir andlát hans, sbr. nú sömu reglu í 2. mgr. 16. gr. laga nr. 60/2020. Við setningu laganna virðist sem ætlun löggjafans hafi verið að setja samsvarandi reglu sem gilda ætti við andlát ábyrgðarmanns, sbr. 5. mgr. 11. gr. og 2. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða vegna ábyrgða námslána sem tekin voru í tíð eldri laga. Í síðarnefndu ákvæðunum tveimur er þó notast við sama orðalag og í 1. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða um að lánþegi sé „í skilum“. Það fær hins vegar með engu haggað framangreindri niðurstöðu um skýringu 1. mgr. ákvæðisins þótt samhljóða orðalag í 2. mgr. sé skýrt á annan veg í lögskýringargögnum og framkvæmd stefnda hafi verið í samræmi við þá skýringu.

27. Að öllu framangreindu virtu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

28. Rétt þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 að aðilar beri hvor sinn kostnað af meðferð málsins fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.