Hæstiréttur íslands
Mál nr. 56/2022
Lykilorð
- Endurupptaka
- Markaðsmisnotkun
- Fjármálafyrirtæki
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson og landsréttardómararnir Eiríkur Jónsson og Þorgeir Ingi Njálsson.
2. Með úrskurði Endurupptökudóms 31. október 2022 í máli nr. 15/2022 var fallist á beiðni ákærða um endurupptöku á hæstaréttarmálinu nr. 842/2014, hvað hann varðar, sem dæmt var 4. febrúar 2016. Af því tilefni gaf ríkissaksóknari út fyrirkall 2. nóvember 2022 sem birt var ákærða 10. sama mánaðar.
3. Ákæruvaldið krefst þess að staðfestur verði dómur héraðsdóms um sakfellingu ákærða en að honum verði ekki gerð sérstök refsing. Þá krefst ákæruvaldið þess að ákvörðun héraðsdóms um sakarkostnað verði staðfest. Jafnframt er þess krafist að allur kostnaður vegna hæstaréttarmálsins nr. 842/2014 og allur kostnaður fyrir Hæstarétti vegna endurupptöku málsins verði greiddur úr ríkissjóði.
4. Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins en til vara að honum verði ekki gerð sérstök refsing. Þá krefst hann þess að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.
Ágreiningsefni
5. Með bréfi 19. október 2010 beindi Fjármálaeftirlitið kæru til sérstaks saksóknara vegna ætlaðrar markaðsmisnotkunar með hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. á tímabilinu frá maí 2003 til október 2008. Í kærunni kom meðal annars fram að Kauphöll Íslands hf. hefði í október 2008 vakið athygli Fjármálaeftirlitsins á grunsamlegum viðskiptum í aðdraganda falls viðskiptabankanna þriggja og sent minnisblað til stofnunarinnar í janúar 2009 þar sem viðskiptin voru nánar rakin. Í kæru Fjármálaeftirlitsins voru 18 fyrrverandi starfsmenn Landsbanka Íslands hf., þar á meðal ákærði, sakaðir um brot á lögum nr. 108/2007, sem þá hétu lög um verðbréfaviðskipti, vegna framangreindrar háttsemi. Lögin heita nú lög um yfirtökur en helstu efnisatriði um markaðssvik er nú að finna í lögum nr. 60/2021 um aðgerðir gegn markaðssvikum sem innleiddu reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins [ESB] nr. 596/2014 um markaðssvik (reglugerð um markaðssvik) og um niðurfellingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/6/EB og tilskipunum framkvæmdastjórnarinnar 2003/124/EB, 2003/125/EB og 2004/72/EB.
6. Embætti sérstaks saksóknara gaf út ákæru 15. mars 2013 á hendur ákærða auk fimm annarra fyrrverandi starfsmanna Landsbanka Íslands hf. Í I. kafla ákærunnar var fjallað um ætlað brot ákærða. Þar var honum sem forstöðumanni eigin fjárfestinga Landsbanka Íslands hf., ásamt þremur öðrum starfsmönnum bankans, gefin að sök „markaðsmisnotkun í sameiningu í störfum sínum fyrir bankann í tilboðum og viðskiptum fyrir eigin reikning Landsbankans með hlutabréf útgefin af bankanum sjálfum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í viðskiptakerfi Kauphallar Íslands hf. [...] á tímabilinu frá og með 1. nóvember 2007 til og með 3. október 2008, samtals 228 viðskiptadaga, sem tryggðu óeðlilegt verð og bjuggu til verð á hlutabréfunum og gáfu eða voru líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna“. Í ákærunni var markaðsmisnotkunin sögð framkvæmd af tveimur starfsmönnum bankans að undirlagi ákærða og bankastjóra Landsbanka Íslands hf. með nánar tilgreindum hætti. Var háttsemin talin varða við a- og b-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga nr. 108/2007.
7. Með héraðsdómi 19. nóvember 2014 var ákærði sakfelldur fyrir markaðsmisnotkun dagana 29. september til 3. október 2008 vegna viðskipta eigin fjárfestinga Landsbanka Íslands hf. með hlutabréf í bankanum sjálfum á fyrrgreindum dögum. Eins og þar greinir nánar þótti sannað að ákærði hefði komið að viðskiptum starfsmanns bankans, dómfellda Júlíusar Steinars Heiðarssonar, síðustu starfsdaga bankans og að þau hefðu verið að hans undirlagi, svo sem í ákæru greindi. Með viðskiptunum hefði verið tryggt óeðlilegt verð og búið til verð á hlutabréfum í Landsbanka Íslands hf. og jafnframt gefið eða verið líklegt til að gefa framboð, eftirspurn eða verð bréfanna ranglega eða misvísandi til kynna. Hins vegar var sýknað af sakargiftum sem tóku til viðskipta sem annar starfsmaður bankans, X, annaðist. Brot ákærða var talið varða við a- og b-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga nr. 108/2007. Refsing hans var ákveðin fangelsi í níu mánuði en fullnustu sex mánaða hennar frestað skilorðsbundið til tveggja ára héldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
8. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 842/2014 var ákærði sakfelldur fyrir að hafa gefið dómfellda Júlíusi og X fyrirmæli um hvernig þeir hefðu almennt átt að standa að viðskiptum með hluti Landsbanka Íslands hf. í kauphöll á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 3. október 2008, samtals 228 viðskiptadaga og að hafa fylgst náið með þeim. Þótti ekki leika neinn vafi á að sá mikli fjöldi tilboða sem dómfelldi og X gerðu og þau umfangsmiklu viðskipti sem þeir áttu þátt í að koma á hefðu gefið eða verið í það minnsta líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. ranglega og misvísandi til kynna. Þótti sannað að ákærði hefði af ásettu ráði gerst sekur um brot gegn a-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007. Var refsing hans ákveðin fangelsi í tvö ár.
Endurupptaka málsins
9. Ákærði vísaði málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem hann taldi að brotið hefði verið gegn rétti sínum til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi samkvæmt 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Undir rekstri málsins fyrir dómstólnum náðist sátt í október 2020. Fól hún meðal annars í sér að íslenska ríkið gekkst við því að brotið hefði verið gegn 1. mgr. 6. gr. sáttmálans við málsmeðferðina. Var þar sérstaklega vísað til dóms mannréttindadómstólsins 16. júlí 2019 í máli nr. 36292/14, Z gegn Íslandi. Í sáttinni var jafnframt tekið fram að ákærði ætti þess kost að óska eftir endurupptöku málsins samkvæmt heimild í XXXV. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var þar sérstaklega vísað til laga nr. 47/2020 sem taka áttu gildi 1. desember 2020. Í kjölfarið tók Mannréttindadómstóll Evrópu ákvörðun 2. febrúar 2021 um að fella málið niður, enda hefði sáttin falið í sér fullnægjandi lyktir málsins fyrir dómstólnum. Þar var jafnframt vikið að því að ákærði ætti samkvæmt yfirlýsingu íslenska ríkisins kost á að leita endurupptöku málsins.
10. Með beiðni sem barst Endurupptökudómi 18. júlí 2022 fór ákærði þess á leit að mál sitt yrði endurupptekið fyrir Hæstarétti. Til stuðnings beiðninni var vísað til þess að nefndur dómur Mannréttindadómstólsins teldist ný gögn eða upplýsingar í skilningi a-liðar 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Einnig var því haldið fram að verulegir gallar hefðu verið á meðferð málsins fyrir Hæstarétti þannig að áhrif hefði haft á niðurstöðu þess, sbr. d-lið sömu málsgreinar. Byggði ákærði í fyrsta lagi á því að einn dómara málsins í Hæstarétti hefði verið vanhæfur til að dæma í málinu vegna hlutabréfaeignar hans í Landsbanka Íslands hf. og í öðru lagi á því að brotið hefði verið gegn rétti hans til milliliðalausrar málsmeðferðar sem þætti í réttlátri málsmeðferð í skilningi 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
11. Með úrskurði Endurupptökudóms var beiðni ákærða tekin til greina. Niðurstaðan var reist á 1. mgr. 232. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 svo sem þeim var breytt með lögum nr. 47/2020, á þeim grundvelli að meðferð máls ákærða sem lauk með dómi Hæstaréttar í máli nr. 842/2014 hefði verið haldin verulegum göllum í skilningi d-liðar 1. mgr. 228. gr., sbr. 1. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008 vegna vanhæfis eins dómara þess. Yrði að leggja til grundvallar að slíkur annmarki teldist þess eðlis að geta haft áhrif á niðurstöðu máls. Þegar af þeirri ástæðu var fallist á beiðni ákærða um endurupptöku málsins hvað hann varðaði.
12. Að því er varðaði aðra dómfelldu í máli nr. 842/2014 var í kjölfar endurupptöku málsins fyrir Hæstarétti dæmt að nýju um þátt dómfellda Sigurjóns Þorvaldar Árnasonar með dómi réttarins 12. mars 2021 í máli nr. 35/2019. Var þar lagt til grundvallar að starfshættir deildar eigin fjárfestinga Landsbanka Íslands hf. hefðu gefið eða verið líklegir til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfa í bankanum ranglega eða misvísandi til kynna, sbr. a-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga nr. 108/2007. Eins og málið lá fyrir réttinum og að gættum fyrirmælum 5. mgr. 231. gr. laga nr. 88/2008 var staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu dómfellda fyrir brot á tímabilinu 29. september til 3. október 2008.
13. Jafnframt var með úrskurði Endurupptökudóms 19. maí 2022 í máli nr. 9/2022 fallist á beiðni X, sem einnig var dómfelldur í máli nr. 842/2014, um endurupptöku málsins að því er hann varðaði. Með dómi Hæstaréttar 1. mars 2023 í máli nr. 38/2022 var fallist á kröfu málsaðila um að vísa málinu frá Hæstarétti. Er því endanleg niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu hans.
Um málatilbúnað aðila
14. Í máli þessu er einungis til endurskoðunar sá hluti I. kafla ákæru þar sem fjallað er um ætlað brot ákærða og afmarkast hún jafnframt af kröfugerð ákæruvaldsins í málinu. Af hálfu ákæruvaldsins hefur sem fyrr segir verið krafist staðfestingar á héraðsdómi hvað ákærða varðar og að hann verði sakfelldur fyrir brot það tímabil sem um getur í hinum áfrýjaða dómi, það er 29. september til 3. október 2008. Hefur því verið fallið frá I. kafla ákæru að því er varðar þá háttsemi ákærða sem þar er lýst og lýtur að tímabilinu fram til 29. september 2008.
15. Varnir ákærða hafa einkum lotið að því að hann hafi ekki haft yfirsýn yfir einstök viðskipti deildar eigin fjárfestinga Landsbanka Íslands hf. og að hann hafi ekki haft aðkomu að einstökum viðskiptum sem fjallað er um í I. kafla ákæru á því tímabili sem er til umfjöllunar. Þá verði refsiábyrgð ekki reist á stöðu hans innan Landsbanka Íslands hf. auk þess sem hann hafi verið í villu um ólögmæti viðskipta með eigin hluti í bankanum. Einnig byggir ákærði á því að málatilbúnaði ákæruvaldsins sé áfátt í ljósi lagaskilareglna enda hafi löggjöf á fjármálamarkaði breyst verulega eftir að ákæra var gefin út, sbr. 2. gr. almennra hegningarlaga. Þá byggir ákærði málsvörn sína á því að það sé í andstöðu við meginregluna um skýrleika refsiheimilda að grundvalla sakfellingu í refsimáli á gagnályktun frá undantekningarreglu, svo sem Hæstiréttur hafi gert við afmörkun á gildissviði 117. gr. laga nr. 108/2007, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 35/2019.
Niðurstaða
16. Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 hvílir sönnunarbyrðin á ákæruvaldinu og í 1. mgr. 109. gr. laganna segir að dómari meti hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafa, vitnisburður, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn. Með lögum nr. 49/2016 var felld úr gildi heimild fyrir Hæstarétt til að ákveða að munnleg sönnunarfærsla færi fram fyrir réttinum, sbr. lög nr. 47/2020 og dóm Hæstaréttar 5. október 2022 í máli nr. 7/2022, sbr. nú lög nr. 15/2023. Í þessu samhengi er til þess að líta að ákærði óskaði ekki eftir því að fram færi munnleg sönnunarfærsla heldur krafðist þess fyrir Endurupptökudómi að málið yrði rekið fyrir Hæstarétti, en eins og fram kemur í úrskurði dómsins var málið endurupptekið af þeirri ástæðu að einn dómenda hefði verið vanhæfur til setu í dómi. Eins og mál þetta liggur nú fyrir dómi og í ljósi kröfugerðar ákæruvaldsins kemur einungis til skoðunar hvort fallist verði á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða, en að öðru leyti fellur kröfugerð málsaðila saman um hvort ákvörðuð skuli refsing og um atriði varðandi sakarkostnað.
17. Í ljósi málatilbúnaðar aðila hér fyrir dómi er rétt að gera í meginatriðum grein fyrir niðurstöðu hins áfrýjaða dóms. Samkvæmt honum var ákærði sakfelldur ásamt dómfelldu Sigurjóni Þorvaldi Árnasyni og Júlíusi Steinari Heiðarssyni fyrir markaðsmisnotkun 29. september til 3. október 2008 en X sýknaður. Á grundvelli mats á munnlegum framburði var í héraðsdómi ekki talið unnt að sakfella fyrir viðskipti nema vegna fyrrgreinds tímabils en í tilviki X var hann sýknaður á grundvell mats á framburði hans. Þótt skýringar dómfellda Júlíusar á viðskiptahegðun sinni hefðu verið almennari en X ætti hið sama við um þá báða þar til kæmi að framburði Júlíusar vegna tímabilsins 29. september til 31. október 2008. Þá var með dómi Hæstaréttar í máli nr. 35/2019 slegið föstu að viðskiptin sem málið lýtur að hafi gefið eða verið líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. ranglega eða misvísandi til kynna, sbr. a-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007. Í máli þessu er til úrlausnar hvort aðkoma ákærða að viðskiptunum hafi verið með þeim hætti að hann verði sakfelldur samkvæmt I. kafla ákæru.
18. Fram kom í hinum áfrýjaða dómi að dómfelldi Júlíus og X hefðu borið um að þeir hefðu fylgt þeirri óskráðu reglu að leita heimildar ákærða til að eiga viðskipti, ýmist einstök eða innan dags, sem námu 100 milljónum króna eða meira þótt ákærði hefði neitað því fyrir dómi. Auk þess báru dómfelldi Júlíus og X um að þeim hefði vel verið kunnugt um heimildir sínar samkvæmt áhættureglum bankans. Hefðu þeir ávallt hagað störfum sínum í samræmi við heimildir og þau fyrirmæli sem þeir fengu frá ákærða, yfirmanni sínum. Þá hefði það verið í samræmi við starfsskyldur ákærða sem forstöðumanns deildarinnar að hafa eftirlit með störfum undirmanna sinna eins og fram kæmi í áhættureglum bankans. Því var lagt til grundvallar að ákærði hefði gefið dómfellda Júlíusi og X fyrirmæli og haft samráð við þá um framkvæmd þeirrar háttsemi sem ákæran laut að. Var þar einnig litið til þess að ákærði, dómfelldi Júlíus og X störfuðu saman í opnu rými og að sætaskipan þeirra hefði verið með þeim hætti að ákærða hefði ekki getað dulist hvað dómfelldi Júlíus og X aðhöfðust í störfum sínum. Í samræmi við niðurstöðu dómsins um sönnun að því er varðaði háttsemi annarra sem hlut ættu að máli kæmi eingöngu til skoðunar hvort ákærði hefði átt þátt í markaðsmisnotkun á tímabilinu 29. september til 3. október 2008 en að sýkna bæri ákærða af ákærunni að öðru leyti.
19. Þá var einnig rakið að fram hefði komið hjá dómfellda Júlíusi og X að ákærði hefði haft bein afskipti af störfum þeirra þessa síðustu viðskiptadaga og þeir hagað viðskiptum með bréf í bankanum í samræmi við fyrirmæli hans. Nánar tiltekin utanþingsviðskipti hefðu þá átt sér stað og þeir talið að unnt yrði að selja bréfin aftur á hærra verði. Jafnframt hefði ákærði kannast við að hafa fylgst með viðskiptum dómfellda Júlíusar og X í kjölfar þess að tilkynnt var um utanþingsviðskiptin og hefðu þeir ráðfært sig við ákærða í því sambandi. Þá væri til þess að líta að eigin fjárfestingar Landsbanka Íslands hf. hefðu átt gríðarlega umfangsmikil viðskipti með bréf í bankanum þessa daga, einkum dómfelldi Júlíus. Væri útilokað að telja að dómfelldi Júlíus hefði tekið ákvörðun um slík viðskipti án heimildar frá yfirmanni sínum. Samkvæmt framansögðu þótti sýnt fram á að ákærði hefði komið að viðskiptum dómfellda Júlíusar síðustu daga bankans og að þau hefðu verið að undirlagi ákærða svo sem í ákæru greinir.
20. Í hinum áfrýjaða dómi var jafnframt fjallað um þær skýringar ákærða, dómfellda Júlíusar og X að viðskipti eigin fjárfestinga bankans hefðu verið gerð í því skyni að mynda markað fyrir bréfin og að um stöðutöku hefði verið að ræða. Fram hefði komið hjá þeim að þeir hefðu séð mikil kauptækifæri í bréfum bankans og talið að unnt yrði að selja þau bréf sem keypt voru síðar á hærra verði. Á þetta var þó ekki fallist í hinum áfrýjaða dómi að því virtu að þessa daga hefðu bréf verið seld úr eigin bók bankans í fjórum umfangsmiklum utanþingsviðskiptum á lægra gengi en þau höfðu verið keypt með tilheyrandi tapi. Þá væru atvik í lok dags 3. október 2008 enn fremur til marks um að viðskiptaleg sjónarmið hefðu ekki búið að baki viðskiptum en þá hefði dómfelldi Júlíus að undirlagi ákærða Ívars keypt hlutabréf á síhækkandi gengi. Þann dag hefðu dómfelldi Júlíus og ákærði jafnframt leitað heimildar regluvarðar til að selja sín eigin hlutabréf í bankanum sem að mati héraðsdóms samrýmdist illa staðhæfingum þeirra um trú þeirra á bréfunum sem fjárfestingarkosti. Auk þess hefðu þeir verið algjörlega ráðandi í viðskiptum með bréf bankans í tilboðsbók Kauphallarinnar á þessum tíma. Það var því niðurstaða dómsins að umfangsmikil kaup á bréfunum hefði verið liður í að hafa áhrif á gengi þeirra og þótti sýnt að ákærðu hefðu hagað kauptilboðum þannig að þeir hefðu hægt á verðlækkun þeirra. Þar var einnig rakið hvers vegna það samrýmdist ekki ákvæðum laga nr. 108/2007 að útgefandi fjármálagernings væri viðskiptavaki í eigin hlutabréfum og að viðskiptahættir eigin fjárfestinga Landsbanka Íslands hf. með bréf bankans hefðu ekki fallið undir lögmælt hlutverk viðskiptavaka. Þá hefðu þau ekki verið í samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd.
21. Til viðbótar framanröktu eru á meðal málsgagna tölvubréf sem meðal annars dómfelldi Júlíus, X og ákærði ýmist sendu eða fengu á tímabilinu 29. september til 3. október 2008 sem og afrit símtala. Þau varða með einum eða öðrum hætti kaup eigin fjárfestinga Landsbanka Íslands hf. á hlutum í bankanum og mögulega skyldu til flöggunar vegna þeirra viðskipta á grundvelli svonefndrar 5% reglu sem þá var að finna í 93. gr. laga nr. 108/2007. Þá liggja fyrir fundargerðir funda fjármálanefndar Landsbanka Íslands hf. sem haldnir voru frá því í lok október 2007 og fram í byrjun október árið eftir. Þar mun ákærði 24 sinnum hafa dreift skýrslum sem teknar höfðu verið saman af deild eigin fjárfestinga Landsbanka Íslands hf. og báru titilinn „Report 4:15/Prop Trading Total/Prop Trading“. Í þeim komu fram breytingar á eign eigin fjárfestinga Landsbanka Íslands hf. í einstökum verðbréfaflokkum undanfarinnar viku eða frá því að síðasti fundur fjármálanefndar hafði verið haldinn, miðað við nafnverð og markaðsverð verðbréfanna, svo og hagnaður eða tap vegna viðskipta með bréfin. Um fyrrgreint sem og efni áhættureglna Landsbanka Íslands hf. vísast meðal annars til dóms Hæstaréttar í máli nr. 35/2019 sem hefur samkvæmt 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008 sönnunargildi um málsatvik sem í honum greinir.
22. Einnig liggur fyrir í gögnum málsins að á þessum fimm síðustu viðskiptadögum með bréf bankans var deild eigin fjárfestinga Landsbanka Íslands hf. kaupandi allt að 79% bréfa bankans í Kauphöllinni eða 686.059.427 hluta, á gengi á bilinu 19,1 til 21,5 króna á hlut. Um var að ræða óvenjuleg og stórfelld viðskipti deildarinnar sem höfðu augljósa þýðingu fyrir hagsmuni bankans á viðsjárverðum tímum eins og rakið er í dómi Hæstaréttar í máli nr. 35/2019.
23. Með vísan til fyrrgreindra forsendna héraðsdóms sem meðal annars eru reistar á mati á munnlegum framburði sem og þeim skjölum sem fyrir liggja í málinu því til stuðnings er staðfest niðurstaða hans um að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi sem lýst var í a-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 að því er tekur til tímabilsins 29. september til 3. október 2008.
24. Í 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 er mælt fyrir um að engum verði gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað eða megi fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi. Í þessu ákvæði felst grunnregla íslensks réttar um skýrleika refsiheimilda sem á sér hliðstæðu í 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í henni felst áskilnaður um að refsiheimild sé lögbundin og svo skýr og ótvíræð að ljóst sé af lestri lagaákvæðis hvaða háttsemi sé refsiverð. Vafa um hvort refsiákvæði taki til háttsemi ber að virða ákærða í hag. Hins vegar túlka dómstólar og skýra inntak refsiákvæða eins og annarra lagaákvæða, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 18. febrúar 2021 í máli nr. 30/2020. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 35/2019 var komist að þeirri niðurstöðu að ekki hefði skort á skýrleika refsiheimildar 1. mgr. 117. mgr. laga nr. 108/2008 og verður það lagt til grundvallar dómi í málinu.
25. Samkvæmt öllu framansögðu og að gættri 2. gr. almennra hegningarlaga verður brot ákærða heimfært til 3. töluliðar 2. mgr. 17. gr. laga nr. 60/2021, sbr. 15. gr. og i-lið a-liðar 1. mgr. 12. gr. framangreindrar reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins [ESB] nr. 596/2014, sbr. áður a-lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga nr. 108/2007.
26. Svo sem fram er komið gerir ákæruvaldið þá kröfu að ákærða verði ekki gerð refsing. Helgast hún af því að ákærði hefur á grundvelli dóms Hæstaréttar í máli nr. 842/2014 afplánað tveggja ára fangelsisrefsingu. Að þessu gættu verður ákærða ekki gerð sérstök refsing í málinu.
27. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað hvað ákærða varðar verður staðfest. Allur sakarkostnaður vegna fyrri málsmeðferðar fyrir Hæstarétti hvað ákærða varðar sem lauk með dómi réttarins í máli nr. 842/2014 greiðist að öllu leyti úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar, 7.440.000 krónur. Allur kostnaður af rekstri málsins fyrir Hæstarétti vegna endurupptöku þess greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 6. mgr. 232. gr., sbr. 6. mgr. 231. gr. laga nr. 88/2008. Um málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða hér fyrir dómi, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærða, Ívari Guðjónssyni, er ekki gerð sérstök refsing.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Allur sakarkostnaður vegna hæstaréttarmáls nr. 842/2014 hvað ákærða varðar greiðist úr ríkissjóði með þeim fjárhæðum sem þar voru ákveðnar.
Allur kostnaður af rekstri málsins fyrir Hæstarétti vegna endurupptöku þess greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Óttars Pálssonar lögmanns, 9.920.000 krónur.