Hæstiréttur íslands
Mál nr. 16/2025
Lykilorð
- Veiðifélag
- Lax- og silungsveiði
- Jörð
- Félagafrelsi
- Eignarréttur
- Stjórnarskrá
- Mannréttindasáttmáli Evrópu
- Sameign
- Viðurkenningarkrafa
- Meðalhóf
- Sératkvæði
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Sigurður Tómas Magnússon og Skúli Magnússon.
2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. mars 2025. Hann krefst þess að viðurkennt verði að atkvæði fylgi ekki jörðinni Hvarfsdal í Dalabyggð, í Veiðifélagi Búðardalsár. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum.
3. Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti.
Ágreiningsefni
4. Í málinu deila aðilar um hvort jörðinni Hvarfsdal í Dalabyggð fylgi réttur til atkvæðis í Veiðifélagi Búðardalsár. Nánar tiltekið lýtur ágreiningurinn að því hvort jörðin fullnægði skilyrðum laga til að teljast lögbýli við gildistöku eldri jarðalaga nr. 65/1976, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Verði svo ekki talið deila aðilar um hvort samrýmanlegt sé 72. gr. og 74. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, um friðhelgi eignarréttar og félagafrelsi, að jörðinni fylgi ekki atkvæðisréttur á vettvangi félagsins.
5. Með héraðsdómi 9. febrúar 2023 var stefndi sýknaður af kröfu áfrýjanda um að jörðinni fylgdi ekki atkvæðisréttur. Dómurinn var staðfestur með hinum áfrýjaða dómi Landsréttar 12. desember 2024.
6. Áfrýjunarleyfi var veitt 11. mars 2025, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2025-7, á þeim grunni að dómur í málinu kynni að hafa verulegt almennt gildi.
Málsatvik
Um Veiðifélag Búðardalsár
7. Samþykkt fyrir Veiðifélag Búðardalsár var staðfest af landbúnaðarráðherra 29. ágúst 1973 og birt í B-deild Stjórnartíðinda með auglýsingu nr. 270/1973. Í 2. gr. samþykktarinnar segir að félagið nái til allra jarða sem land eiga að vatnasvæði árinnar. Þetta eru jarðirnar Barmur, Búðardalur I og Búðardalur II sem eru í eigu áfrýjanda og Hvarfsdalur, Hvalgrafir og Tindar, sem eru í eigu stefnda. Tekið er fram í 3. gr. samþykktarinnar að félagið taki til allrar veiði á félagssvæðinu. Þá kemur fram í 8. gr. að arði af sameiginlegri veiði skuli skipt niður á félagsmenn samkvæmt arðskrá og að þeir greiði gjöld til félagsins í sömu hlutföllum og þeir taki arð. Gildandi arðskrá félagsins er frá 5. janúar 2010 en hún var staðfest af Fiskistofu 7. sama mánaðar og birt í B-deild Stjórnartíðinda með auglýsingu nr. 32/2010. Samkvæmt skránni tilheyra jörðinni Hvarfsdal 1.944,79 arðskráreiningar af samtals 10.000 einingum. Þá kemur fram í arðskrármati félagsins að jörðin standi að baki 36,30% svokallaðra framleiðslueininga á vatnasviði árinnar.
8. Áður fyrr mun lax aðeins hafa gengið örstutt úr sjó upp ána. Með laxastiga sem reistur var árið 1975 og frekari umbótum á árinu 1978 varð áin fiskgeng um 12 km án hindrana. Þá hefur laxaseiðum verið sleppt til að auka fiskgengd.
9. Með samningi 9. mars 2007 tók stefndi á leigu allan veiðirétt til stangveiði í ánni og fiskgengum þverám og lækjum hennar frá 1. október 2007 til 30. september 2017. Tekið var fram í samningnum að yrði honum ekki sagt upp að leigutíma loknum framlengdist hann sjálfkrafa til eins árs í senn.
10. Á framhaldsaðalfundi veiðifélagsins 26. mars 2018 kom til atkvæða tillaga áfrýjanda um að leigusamningi um ána yrði sagt upp. Samkvæmt fundargerð var tillagan felld á jöfnu með þremur atkvæðum áfrýjanda gegn þremur atkvæðum stefnda í samræmi við fyrrgreint eignarhald þeirra á jörðum. Fært var til bókar að áfrýjandi gerði athugasemd við að stefndi færi með atkvæði vegna jarðarinnar Hvarfsdals og áskildi sér rétt til að bera ágreining um lögmæti atkvæðagreiðslunnar undir Fiskistofu.
11. Með bréfi 11. maí 2018 kærði áfrýjandi umrædda afgreiðslu á aðalfundi veiðifélagsins til Fiskistofu á grundvelli heimildar í 43. gr. laga nr. 61/2006. Stofnunin leysti úr málinu með ákvörðun 11. apríl sama ár. Þar var ekki fallist á með áfrýjanda að úrlausn fundarins hefði verið ólögmæt og kröfu hans synjað um að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar yrði felld úr gildi.
Um jörðina Hvarfsdal
12. Í jarðabók yfir Dalasýslu eftir Orm Daðason frá árinu 1731 segir að jörðin Hvarfsdalur sé eign Búðardalskirkju. Í jarðamati yfir Dalasýslu frá árinu 1804 var Hvarfsdalur sögð vera 10 hundraða jörð í eigu kirkjunnar í Búðardal. Í ritinu Jarðatal á Íslandi eftir Jón Johnsen frá árinu 1847 var jörðin skráð sem kirkjueign í leiguábúð, 10 hundruð að dýrleika og þrjú kúgildi. Landamerkjabréf jarðarinnar er frá 21. maí 1885 og var það þinglesið degi síðar.
13. Í mati fasteignamatsnefndar Dalasýslu 11. júlí 1918 kom fram að jörðin væri 5,9 hundruð að dýrleika. Um jarðarnytjar var meðal annars tekið fram að tún væri 3,5 hektarar í mikilli órækt. Beitiland væri gott til sauðfjárbeitar nema á veturna. Upprekstrarland væri nægilegt og jörðin vellöguð til túnbóta. Ókostir jarðarinnar væru að hún væri mjög slægnalítil og engjavegur langur og vondur, snjóþungt mjög og vetrarhart. Einnig væri ágangur mjög mikill af afréttarfé. Jörðin var talin framfleyta „30 sauðfjár, 2 kúm og 3 hrossum með 2–3 manna afla“. Samtals var verðmæti jarðarinnar metið 800 krónur sem skiptist þannig að hús voru metin 100 krónur en jörðin 700 krónur.
14. Meðal málsgagna er fasteignamat jarða í fyrrverandi Skarðshreppi í Dalasýslu árin 1920, 1932, 1942, 1955 og 1957. Þar kemur fram mat á jörðinni og hún sögð hafa verið auð árin 1942, 1955 og 1957 en hún mun hafa farið í eyði um miðbik fjórða áratugar liðinnar aldar. Í fasteignamati ársins 1970 var hún metin á 30.000 krónur.
15. Samkvæmt skýrslum um búnaðarástandið í Skarðshreppi voru árið 1923 fimm nautgripir á jörðinni, 21 sauður og þrjú hross en árið eftir fjórir nautgripir, 19 sauðir og fjögur hross. Þá voru á jörðinni árið 1930 þrír nautgripir, 25 sauðir og fimm hross.
16. Eftir að jörðin fór í eyði var á aðalfundi sýslunefndar Dalasýslu 3. maí 1944 komið á framfæri þeirri ósk Skarðshrepps að nefndin veitti fyrir sitt leyti leyfi til að hreppurinn keypti jörðina af Kirkjujarðasjóði. Féllst nefndin á þetta og mælti með að kaupin næðu fram að ganga. Næst var málið tekið fyrir á fundi hreppsnefndar 5. september sama ár. Fært var til bókar að nefndin teldi nauðsynlegt að fá jörðina keypta og fæli þingmanni kjördæmisins að bera upp á Alþingi tillögu þess efnis. Með lögum nr. 58/1944 var ríkisstjórninni heimilað að selja hreppnum jörðina. Í málinu liggja þó ekki fyrir gögn um sölu jarðarinnar til hreppsins eða um hagnýtingu eftir það, þar með talið ráðstöfun hennar til síðari eigenda. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti kom fram að stefndi hefði fengið afsal fyrir jörðinni 22. desember 1999.
17. Á vegum Landnáms ríkisins og síðar Landnámsstjórnar var tekin saman jarðaskrá um bústofn, sbr. lög nr. 48/1957 um landnám, ræktun og byggingar í sveitum, síðar lög nr. 75/1962 um Stofnlánadeild landbúnaðarins, landnám, ræktun og byggingar í sveitum og loks lög nr. 45/1971 um sama efni. Í skrá þessari var jarðarinnar getið fardagaárin 1958 til 1959 og öll næstu ár þar á eftir til fardagaársins 1966 til 1967 en enginn bústofn tilgreindur. Næsta fardagaár 1967 til 1968 var jarðarinnar hins vegar ekki getið og það sama á við árin þar á eftir til fardagaársins 1974 til 1975 og einnig 1977 til 1978. Með 29. gr. eldri jarðalaga nr. 65/1976, svo sem þeim var breytt með lögum nr. 90/1984, var landbúnaðarráðuneytinu falið að láta gera jarðaskrána. Í skrá ráðuneytisins fardagaárið 1985 til 1986 er jarðarinnar ekki getið. Samkvæmt 26. gr. gildandi jarðalaga nr. 81/2004 skal árlega gefin út lögbýlaskrá fyrir allt landið á grundvelli upplýsinga úr jarðaskrá, sbr. 11. gr. laganna. Jarðarinnar mun aldrei hafa verið getið í þeirri skrá.
18. Í fasteignaskrá stendur að jörðin sé „eyðijörð, afrétt“. Með tölvubréfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar 27. febrúar 2023, í tilefni af fyrirspurn lögmanns áfrýjanda, kom fram að engin gögn væru til um skráninguna en hún væri arfur frá gömlu fasteignamatsnefndunum sem hefðu verið við lýði fyrir setningu laga nr. 94/1976 um skráningu og mat fasteigna.
Málsástæður
Helstu málsástæður áfrýjanda
19. Áfrýjandi vísar til þess að afdráttarlaust komi fram í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 61/2006 að eitt atkvæði fylgi hverri jörð. Með jörð í skilningi ákvæðisins sé átt við þær jarðir, þar með taldar eyðijarðir, sem fullnægðu skilyrðum laga til að teljast lögbýli við gildistöku eldri jarðalaga nr. 65/1976. Því fái ekki staðist sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að allar jarðir sem fræðilega séð gátu talist lögbýli á einhverju tímabili fyrir árið 1976 hafi aftur orðið lögbýli við gildistöku laganna. Telur áfrýjandi að jörðin Hvarfsdalur hafi löngu fyrir það tímamark glatað því að geta talist lögbýli hafi hún á annað borð einhvern tíma fullnægt skilyrðum til að geta talist það.
20. Áfrýjandi áréttar að í málinu þurfi að leggja mat á hvort jörðin hafi við gildistöku eldri jarðalaga nr. 65/1976 fullnægt skilyrðum til að teljast lögbýli. Í því sambandi bendir hann á að ráðið verði af gögnum málsins að jörðin hafi á því tímamarki verið nánast verðlaus eftir að hafa til áratuga verið í eyði og með mjög takmarkaða möguleika á búrekstri. Fasteignamat hennar hafi nánast verið til málamynda enda hafi lögum samkvæmt borið að meta hverja jörð, lóð og óbyggt land til fasteignamats óháð því hvort um væri að ræða lögbýli eða óbyggt land. Þá hafi við gildistöku umræddra laga árið 1976 takmarkaðar veiðinytjar verið í Búðardalsá enda hafi lax á þeim tíma aðeins gengið spölkorn upp ána.
21. Áfrýjandi heldur því einnig fram að jörðin hafi hvorki á fjórða áratug liðinnar aldar þegar hún fór í eyði né á árinu 1976 fullnægt því skilyrði 1. gr. eldri ábúðarlaga nr. 64/1976, til að geta talist lögbýli, að geta framfleytt minnst 10 kúgildum. Á árinu 1976 hafi engin ræktun eða bústofn verið á jörðinni, ekkert fólk né byggingar og hafði svo verið í áratugi. Því leiki enginn vafi á að jörðin hafi aldrei getað framfleytt 10 kúgildum.
22. Áfrýjandi vísar einnig til þess að jörðin hafi verið á jarðaskrá fram að fardagaárinu 1967 til 1968 en þá horfið þaðan og ekki komið aftur á skrána. Jafnframt hafi jarðarinnar ekki verið getið á lögbýlaskrá sem árlega hafi verið gefin út samkvæmt gildandi jarðalögum nr. 81/2004. Tekur áfrýjandi fram að þessar skrár séu aðalheimild um stöðu jarða á hverjum tíma og hafi ríkt sönnunargildi en skrárnar hafi verið teknar saman eftir gaumgæfilega skoðun af kunnáttumönnum. Jafnframt heldur áfrýjandi því fram að jörðin hafi verið lögð til afréttar enda komi sú staða hennar fram í fasteignaskrá. Því geti hún ekki talist lögbýli, sbr. 1. gr. eldri ábúðarlaga nr. 64/1976.
23. Áfrýjandi telur að gera verði greinarmun annars vegar á óumdeildum veiðirétti sem eignarréttur að jörðinni taki til og hins vegar atkvæðisrétti á vettvangi veiðifélagsins. Atkvæðisréttur geti fallið niður af ýmsum ástæðum og því sé landeiganda alls ekki tryggður réttur til að hafa áhrif innan veiðifélaga. Í því sambandi bendir hann á að tveim sameigendum að jörð sem komi sér ekki saman um hvernig greiða eigi atkvæði sé ókleift að nýta atkvæðisrétt sem þó sé fyrir hendi. Þá vísar áfrýjandi til þess að reglan um að eitt atkvæði fylgi jörð en ekki hlutfall eftir arðskrá leiði til þess að sá sem eigi meirihluta veiðiréttar geti verið í minnihluta gagnvart fleiri jörðum sem eigi mun minni rétt. Þannig geti ekki talist eignarréttarskerðing þótt jörð sem eigi veiðirétt fari ekki með atkvæði í veiðifélagi.
Helstu málsástæður stefnda
24. Stefndi vísar til þess að jörð hans Hvarfsdalur hafi ávallt verið sjálfstæð jörð en ekki hjáleiga og eigandi hennar á öllum tímum hafi notið veiðiréttar fyrir landi sínu. Í samræmi við það hafi landamerkjabréf verið gert fyrir jörðina, sbr. 3. gr. þágildandi laga nr. 5/1882 um landamerki.
25. Stefndi heldur því fram að búrekstur á jörðinni á 20. öld og sjálfstæð landamerki séu þýðingarmiklar staðreyndir þegar lagt er mat á hvort um sé að ræða sjálfstæða jörð sem nýtur atkvæðisréttar á vettvangi veiðifélagsins. Þá hafi jörðin ætíð verið metin til verðs í fasteignamati. Hvergi verði því fundinn staður að löggjafinn hafi ætlað að svipta jarðeigendur atkvæðisrétti í veiðifélögum með afturvirkum hætti. Þvert á móti hafi yngri og eldri lax- og silungsveiðilöggjöf haft að geyma ákvæði þess efnis að eyðijörðum skuli fylgja atkvæðisréttur.
26. Stefndi áréttar mótmæli við því að jörðin hafi verið lögð til afréttar á einhverju tímamarki og telur þá staðhæfingu ósannaða.
27. Stefndi tekur fram að atkvæðisréttur hans í veiðifélaginu njóti verndar stjórnarskrárinnar, sbr. 72. og 74. gr. hennar. Stórkostlega væri vegið að vernd eignarréttar hans ef honum væri gert ókleift að koma að ákvarðanatöku um ráðstöfun veiðiréttarins. Jafnframt sé veiðiréttarhöfum skylt að hafa með sér félagsskap um skipulagningu veiði í hverju fiskihverfi, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006. Það sé síðan í höndum félagsins að ráðstafa stangveiði í heild eða að hluta í viðkomandi veiðivatni, sbr. d-lið sömu málsgreinar. Með engu móti fái staðist að stefndi sé skyldaður til þátttöku í félagi þar sem hann sé með öllu áhrifalaus um ráðstöfun veiði fyrir landi sínu. Verði þá jafnframt að hafa í huga að réttur hans nemi um fimmtungi af öllum veiðirétti innan vatnasviðs Búðardalsár. Hér sé þess að gæta að hornsteinn þess að vera í félagi sé að fá að taka þátt í ákvörðunum þess.
Löggjöf
Lög um lax- og silungsveiði
28. Samkvæmt 1. gr. laga um lax- og silungsveiði nr. 61/2006 er markmið þeirra að kveða á um veiðirétt í ferskvatni og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskistofna í ferskvatni og verndun þeirra. Í 1. mgr. 5. gr. laganna segir að eignarlandi hverju fylgi veiðiréttur í vatni á eða fyrir því landi, enda sé ekki mælt fyrir um aðra skipan í lögum. Í því skyni að fyrrgreindum markmiðum laganna samkvæmt 1. gr. verði náð er mönnum skylt að hafa með sér félagsskap um skipulag veiði í hverju fiskihverfi, sbr. 1. mgr. 37. gr. þeirra. Í sömu málsgrein er nánar lýst hlutverki slíks félags en það felst meðal annars í því að skipta veiði eða arði af veiði milli félagsmanna í samræmi við rétt þeirra og ráðstafa rétti til stangveiði í heild eða að hluta með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi, en þó þannig að gætt sé markmiða laganna um sjálfbæra nýtingu, sbr. c- og d-liði.
29. Um atkvæðisrétt segir síðan í 1. mgr. 40. gr. laganna svo sem ákvæðinu var breytt með lögum nr. 119/2009:
Á félagssvæði veiðifélags fylgir eitt atkvæði hverri jörð sem veiðirétt á í samræmi við ákvæði laga þessara. [...] Með jörð í framangreindum skilningi er átt við þær jarðir, þar á meðal eyðijarðir, sem fullnægðu skilyrðum laga til að teljast lögbýli við gildistöku eldri jarðalaga, nr. 65/1976.
30. Í 25. tölulið 3. gr. laganna er jafnframt að finna þá skilgreiningu á hugtakinu jörð að með því sé átt við lögbýli samkvæmt ábúðarlögum.
31. Í 40. gr. laganna eru nánari ákvæði um atkvæðisrétt í veiðifélögum og meðferð hans, þar með talið um að aukinn meirihluta þurfi til nánar tilgreindra ákvarðana og að félagsmaður geti krafist þess að ákvörðun um nánar tilgreind fjárútlát ráðist með greiðslu atkvæða sem hafi vægi í samræmi við arðskrá félagsins, sbr. 2. til 11. mgr. ákvæðisins. Loks segir í 12. mgr. að um málefni sem ekki sé sérstaklega kveðið á í lögum eða samþykktum félags ráði afl atkvæða.
32. Í skýringum við 40. gr. í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna var tekið fram að við mótun þessarar reglu væri haft að leiðarljósi það markmið að tryggja áframhaldandi sjálfstæði og rekstrargrundvöll þeirra jarða sem byggðu afkomu sína að öllu leyti eða að hluta á veiðinytjum. Einnig sagði svo í skýringum við umrædda grein frumvarpsins:
[...] Í 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar kemur fram sú fyrrnefnda meginregla að eitt atkvæði fylgir hverri jörð sem veiðirétt á. Tekið er fram að með jörð sé átt við þær jarðir sem fullnægðu skilyrðum laga til að teljast lögbýli við gildistöku eldri jarðalaga 1976, en við þau tímamörk þykir eðlilegt að miða í ljósi þess að þá hafði lögbýlaskipan landsins tekið á sig nokkuð endanlega mynd. [...]
33. Með lögum nr. 119/2009 var bætt við 1. mgr. 40. gr. laganna ákvæði þess efnis að eyðijarðir teldust til jarða í skilningi ákvæðisins en þeirra var ekki getið eins og ákvæðið hljóðaði upphaflega. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna var tekið fram að með setningu laga nr. 61/2006 hefði ekki verið ætlunin að gera grundvallarbreytingu á fyrirkomulagi atkvæðisréttar í veiðifélögum að því er varðaði eyðijarðir. Frumvarpinu væri því ætlað að færa þetta atriði til fyrri vegar með því að gera tillögu um að kveðið yrði að nýju á um að atkvæðisréttur fylgdi eyðijörðum. Einnig sagði að þetta hefði þau áhrif að eyðijarðir sem í framkvæmd hefðu misst atkvæðisrétt öðluðust hann að nýju með skýrum hætti.
34. Lög nr. 61/2006 leystu af hólmi lög nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði. Með þeim lögum var fyrst mælt fyrir um skylduaðild að veiðifélögum, sbr. 1. mgr. 44. gr. laganna. Þá var í 2. mgr. 48. gr. svohljóðandi ákvæði um atkvæðisrétt:
[...] Ábúandi hvers lögbýlis, sem metið er til verðs í gildandi fasteignamati við gildistöku laga þessara, skal hafa eitt atkvæði. Nú býr maður á fleiri en einni jörð, og hefur hann þá eitt atkvæði. Nú er jörð í eyði, og hefur eigandi hennar eitt atkvæði. [...]
35. Samkvæmt lögum nr. 76/1970 var atkvæðisrétturinn bundinn við lögbýli sem metin voru til verðs í fasteignamati sem var í gildi við gildistöku laganna. Þannig var atkvæðisrétturinn fastsettur miðað við fasteignamat ársins 1970. Fram kom í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna að tilgangurinn með þessu hefði verið að girða fyrir að lögbýlum væri skipt í þeim tilgangi að afla atkvæðisréttar í veiðifélögum. Þá var tekið fram í orðskýringum 1. gr. laganna að með jörð væri átt við lögbýli samkvæmt ábúðarlögum.
Ábúðarlög
36. Svo sem fyrr greinir er með jörð í skilningi 1. mgr. 40. gr. laga nr. 61/2006 átt við þær jarðir, þar á meðal eyðijarðir, sem fullnægðu skilyrðum laga til að teljast lögbýli við gildistöku eldri jarðalaga nr. 65/1976. Þau lög höfðu ekki að geyma skilgreiningu á hugtakinu lögbýli en hana var hins vegar að finna í eldri ábúðarlögum nr. 64/1976 sem sett voru samhliða jarðalögum og tóku gildi samtímis þeim. Þar sagði svo í 1. og 2. mgr. 1. gr.:
Jörð eða lögbýli nefnist í lögum þessum hvert það býli, sem sérstaklega er metið til verðs í fasteignamati, með ákveðnum landamerkjum [...]. Enn fremur verður býlið að hafa það landrými eða búrekstraraðstöðu, að það framfleyti minnst 10 kúgildum. Auk þess sé á landinu nauðsynlegur húsakostur til að nytja jörðina.
Jörð, sem ekki hefur verið setin í 2 ár eða lengur, telst eyðijörð, og þó að hús séu fallin eða rifin, telst hún lögbýli, nema jörðinni sé ráðstafað til annarra nota með samþykki sveitarstjórnar og jarðanefndar, t.d. lögð til afréttar eða sameinuð annarri jörð.
37. Lög nr. 64/1976 leystu af hólmi ábúðarlög nr. 36/1961. Þar var að finna nánast samhljóða skilgreiningu á jörð eða lögbýli í 1. mgr. 1. gr. Í 2. mgr. greinarinnar sagði hins vegar svo um eyðijarðir:
Jörð, sem farin er í eyði og öll hús á henni fallin eða rifin, telst þó eftir sem áður jörð eða lögbýli, þar til liðin eru 25 ár, frá því hún fór síðast í eyði. Eftir þann tíma telst hún í flokki óbyggðra landa.
Niðurstaða
Atkvæðisréttur jarðarinnar Hvarfsdals í Veiðifélagi Búðardalsár
38. Eins og áður er rakið gildir sú regla samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 61/2006, svo sem ákvæðinu var breytt með lögum nr. 119/2009, að hverri jörð á félagssvæði veiðifélags fylgir eitt atkvæði í samræmi við ákvæði laganna. Með jörð í þessum skilningi er átt við þær jarðir, þar á meðal eyðijarðir, sem fullnægðu skilyrðum laga til að teljast lögbýli við gildistöku eldri jarðalaga nr. 65/1976.
39. Svo sem greinir í dómi Hæstaréttar 11. febrúar 1999 í máli nr. 263/1998, sem birtur var í dómasafni réttarins það ár á bls. 486, hefur skipan veiðimála hér á landi um langan aldur verið tengd ábúð á lögbýlum. Af því leiðir að við skýringu ákvæða um atkvæðisrétt í veiðifélögum samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði verður að líta til löggjafar um landbúnaðarmálefni þar sem hugtakið lögbýli er skilgreint. Slíka skilgreiningu var ekki að finna í umræddum jarðalögum nr. 65/1976 heldur var hún í 1. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976. Við mat á hvort jörð njóti atkvæðisréttar eftir 1. mgr. 40. gr. laga nr. 61/2006 ber því að leggja þá skilgreiningu til grundvallar. Þetta leiðir jafnframt af orðskýringu í 25. tölulið 1. gr. laganna þar sem segir að með jörð sé átt við lögbýli samkvæmt ábúðarlögum.
40. Fyrir gildistöku laga nr. 61/2006 fór um atkvæðisrétt jarða í veiðifélögum eftir eldri lögum um lax- og silungsveiði nr. 76/1970. Þar sagði í 2. mgr. 48. gr. að eigandi jarðar í eyði hefði eitt atkvæði. Með jörð í þeim lögum var einnig, eins og í lögum nr. 61/2006, átt við lögbýli samkvæmt ábúðarlögum, sbr. orðskýringu í 1. gr. laganna. Því þurfti eyðijörð að vera lögbýli til að eigandi hennar færi með atkvæðisrétt í veiðifélagi. Við skýringu á hugtakinu lögbýli eftir umræddum lögum bar samkvæmt þessu að líta til skilgreiningar þess í 1. gr. þágildandi ábúðarlaga nr. 36/1961.
41. Í málinu liggur fyrir að jörðin Hvarfsdalur fór í eyði um miðbik fjórða áratugar síðustu aldar. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 36/1961 féll lögbýlisréttur jarðarinnar niður að liðnum 25 árum frá því að hún fór í eyði og upp frá því teldist hún vera í flokki óbyggðra landa. Þegar sá tími var ríflega liðinn, fardagaárið 1967 til 1968, féll Hvarfsdalur af jarðaskrá. Samræmdist það breyttri stöðu jarðarinnar eftir að lögbýlisrétturinn féll niður og hún færðist í flokk óbyggðra landa. Frá þessum tíma var jarðarinnar hvorki getið í jarðaskrá né mun hún hafa verið á lögbýlaskrá sem tekin hefur verið saman árlega frá gildistöku jarðalaga nr. 81/2004. Af því leiðir að eftir að jörðin féll úr tölu lögbýla fylgdi henni ekki atkvæðisréttur, enda var hann bundinn við eyðijarðir sem töldust lögbýli eftir lögum nr. 76/1970, eins og áður er rakið. Samkvæmt þessu fól 1. mgr. 40. laga nr. 61/2006 ekki í sér þau réttaráhrif að svipta stefnda atkvæðisrétti vegna jarðarinnar, enda naut hann að réttu lagi ekki þess réttar samkvæmt framansögðu þegar lögin tóku gildi.
42. Með lögum nr. 61/2006, eins og þeim var breytt með lögum nr. 119/2009, gat ekki orðið breyting á stöðu jarðarinnar með tilliti til þess hvort hún teldist lögbýli. Er þá til þess að líta að samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laganna átti að miða við þær jarðir, þar á meðal eyðijarðir, sem fullnægðu skilyrðum laga til að teljast lögbýli við gildistöku eldri jarðalaga nr. 65/1976. Eins og áður er rakið kom fram í athugasemdum með frumvarpi til laganna að eðlilegt þætti að miða við þessi tímamörk í ljósi þess að þá hafði lögbýlaskipan landsins tekið á sig nokkuð endanlega mynd. Að því gættu verður ekki talið að jörð sem hafði verið í eyði í um fjóra áratugi fyrir gildistöku laga nr. 65/1976 hafi þá á ný getað öðlast stöðu sem lögbýli. Jafnframt leiðir þetta þegar af því að ekkert liggur fyrir um að jörðin hafi verið þeim kostum búin að hafa það landrými eða búrekstrarstöðu að geta framfleytt minnst 10 kúgildum. Í því sambandi skal nefnt að til hins gagnstæða bendir það sem fyrr er rakið um fábrotinn búskap á harðbýlli jörð áður en hún fór í eyði. Í því ljósi verður sönnunarbyrðin um þetta lögð á stefnda en hana hefur hann ekki axlað.
43. Samkvæmt framansögðu verður fallist á það með áfrýjanda að það leiði af 1. mgr. 40. gr. laga nr. 61/2006 að atkvæði í Veiðifélagi Búðardalsár fylgi ekki jörðinni Hvarfsdal.
Atkvæðisréttur stefnda í veiðifélagi í ljósi fyrirmæla stjórnaskrár
44. Eins og fyrr segir heldur stefndi því fram að það fari í bága við 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar og 74. gr. um félagafrelsi að hann njóti ekki atkvæðisréttar í veiðifélagi vegna jarðarinnar. Hér á eftir verður fyrst fjallað almennum orðum um þessi stjórnarskrárvörðu réttindi með hliðsjón af sakarefni málsins en að svo búnu leyst úr því hvort þau standi í vegi þess að stefndi fari ekki með atkvæðisrétt í félaginu.
1) Um skylduaðild að veiðifélagi
45. Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. stjórnarskipunarlög nr. 97/1995, má engan skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.
46. Til grundvallar því að skylduaðild að félagi geti verið nauðsynleg vegna réttinda annarra samkvæmt 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar liggja meðal annars þau rök að við ákveðnar aðstæður geti tengsl á milli manna verið svo náin að nauðsynlegt þyki að leggja þá skyldu á þá að virða hagsmuni hvors eða hvers annars með því að standa að sameiginlegu félagi í því skyni. Veiðifélög eru sérstaklega nefnd sem dæmi um slíkt í greinargerð með frumvarpi því er varð að stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995 og tekið fram að eigendum veiðiréttar sé gert að standa að sameiginlegu félagi vegna þeirra nánu tengsla sem séu á milli hagsmuna þeirra.
47. Eins og áður greinir er í 1. gr. laga nr. 61/2006 rakið það markmið þeirra að kveða á um veiðirétt í ferskvatni og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna í ferskvatni og verndun þeirra. Þá segir í 1. mgr. 37. gr. laganna að til að ná þessum markmiðum sé mönnum skylt að hafa með sér félag og er hlutverki veiðifélaga í því sambandi nánar lýst. Af þessu sést að tilgangur skylduaðildar að veiðifélögum byggist einnig á þeim almannahagsmunum sem lýst er í 1. gr. laganna. Þannig á skylduaðildin sér skýra lagastoð og stefnir að þeim lögmætu markmiðum að vera í senn í þágu almannahagsmuna og nauðsynleg vegna réttinda annarra, sbr. 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Um þetta má einnig vísa til dóma Hæstaréttar 13. mars 2014 í máli nr. 676/2013 og 26. október 2022 í máli nr. 20/2022. Á hinn bóginn er ljóst að skylduaðild að félagi felur í sér takmörkun á stjórnarskrárvernduðu félagafrelsi og kemur því í hlut dómstóla að meta hvort löggjafinn hafi gætt sjónarmiða um meðalhóf og jafnræði.
48. Til að tryggja virkni í starfsemi veiðifélaga svo að þau geti sinnt lögmæltu hlutverki sínu eru í 40. gr. laganna sett nánari fyrirmæli um ákvarðanatöku. Hefur löggjafinn þar lagt mat á hvort og með hvaða hætti veiðiréttarhafi fari með atkvæðisrétt og undantekningar frá því svo og hvort félagið geti tekið ákvarðanir gegn vilja einstaks eiganda, sbr. til hliðsjónar liði 38 og 39 í dómi Hæstaréttar 29. október 2025 í máli nr. 8/2025.
49. Veiðiréttarhafi sem fer ekki með atkvæðisrétt í veiðifélagi er allt að einu félagsmaður og á því aðild að félaginu, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006. Jafnframt á hann tilkall til arðs eftir arðskrá samkvæmt 1. mgr. 41. gr. laganna. Aftur á móti tekur hann ekki þátt í ákvarðanatöku á vettvangi þess nema í þeim undantekningartilvikum þegar greidd eru atkvæði með vægi eftir arðskrá félagsins, sbr. 11. mgr. 40. gr. laganna. Við úrlausn málsins reynir á hvort með þeirri takmörkun hafi verið gengið lengra en efni eru til gagnvart öðrum stjórnarskrárvernduðum hagsmunum veiðiréttarhafa með hliðsjón af þeim tilgangi sem býr að baki skylduaðildinni.
2) Lagastoð og markmið takmarkana á eignarrétti veiðiréttarhafa
50. Eins og fyrr segir er í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 61/2006 mælt fyrir um að eignarlandi hverju fylgi veiðiréttur í vatni á eða fyrir því landi, enda sé ekki kveðið á um aðra skipan í lögum. Er þessi regla í samræmi við þá fornu meginreglu íslensks réttar sem kom fram í 56. kapítula landsleigubálks Jónsbókar að hver maður eigi vatn og veiði fyrir landi sínu, svo sem nánar getur í dómi Hæstaréttar 20. mars 1963 í máli nr. 163/1961 sem birtur er í dómasafni það ár á bls. 173. Jafnframt var í landbrigðaþætti Grágásar kveðið á um að þar sem menn ættu merkivötn saman ætti hver að veiða fyrir sínu landi.
51. Veiðiréttur sem fylgir landareign telst til eignarréttinda og nýtur verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Í þeim rétti felst meðal annars að eigandi getur hagnýtt sér hann með að stunda veiði eða ráðstafa honum til annarra.
52. Með því að stefndi hefur verið skyldaður til aðildar að Veiðifélagi Búðardalsár á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 og félagið ráðstafað veiði í ánni í heild sinni getur hann ekki sem eigandi jarðarinnar Hvarfsdals stundað veiði fyrir landi sínu. Ef jörðinni fylgir ekki atkvæðisréttur í veiðifélaginu er hann jafnframt sviptur þeim rétti að geta tekið þátt í ákvörðunum um ráðstöfun veiðiréttarins sem eignarréttur hans tekur til. Gildir þessi regla jafnt um alla félagsmenn í veiðifélögum. Með þessu setja lögin almennar takmarkanir við nýtingu veiðiréttarhafa á eignarréttindum sínum og ná þær til allra réttinda af sama tagi.
53. Almennar takmarkanir á eignarrétti verða að eiga sér skýra stoð í lögum í samræmi við þá grundvallarreglu að athafnafrelsi borgaranna verður ekki heft eða byrðar lagðar á þá nema með lögum. Jafnframt verður að áskilja að takmörkunin þjóni lögmætum tilgangi í almannaþágu og má hún ekki ganga lengra en efni eru til með hliðsjón af tilgangi hennar svo að gætt sé meðalhófs. Í því felst meðal annars að leysa þarf úr hvort slík takmörkun eignarréttar hafi haft sérstaklega þungbærar afleiðingar fyrir fáa eða lítinn hóp í samanburði við aðra.
54. Svo sem fyrr er rakið kom fram í lögskýringargögnum með 40. gr. laga nr. 61/2006 að við mótun þessarar reglu um atkvæðisrétt í veiðifélögum hefði verið haft að leiðarljósi það markmið að tryggja áframhaldandi sjálfstæði og rekstrargrundvöll þeirra jarða sem byggðu afkomu sína að öllu leyti eða að hluta á veiðinytjum. Fólst í þessu mat löggjafans á þeim almannahagsmunum sem átti að vernda með lagasetningunni. Skiptir hér ekki máli þótt vægi þessa sjónarmiðs kunni að hafa minnkað í ljósi samdráttar á liðnum árum í landbúnaði og breytinga sem hafa orðið á eignarhaldi jarða. Hér verður einnig að hafa í huga að samkvæmt 1. gr. laganna er markmið þeirra að kveða á um veiðirétt í ferskvatni og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskistofna í ferskvatni og verndun þeirra. Þessum markmiðum, sem eins og áður segir taka öðrum þræði til almannahagsmuna, er skylduaðild að veiðifélögum einnig ætlað að þjóna svo sem tekið er fram í 1. mgr. 37. gr. laganna. Eftir stendur þó að skera úr um hvort með þeim almennu takmörkunum sem lög nr. 61/2006 setja ráðstöfunarrétti stefnda á veiðirétti hafi verið gengið lengra en efni voru til í ljósi reglunnar um meðalhóf þegar litið er til afleiðinga lagasetningarinnar fyrir hann.
3) Takmörkun á réttindum stefnda í ljósi reglunnar um meðalhóf
55. Allt frá því að skylduaðild að veiðifélögum var komið á með eldri lögum nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði hefur almennt verið miðað við að hverju lögbýli fylgi eitt atkvæði í slíku félagi. Hefur þá jafnframt verið girt fyrir að atkvæðum í veiðifélagi verði fjölgað með að skipta upp lögbýlum. Þeir sem aftur á móti eiga land eins og eyðijörð sem ekki telst lögbýli njóta ekki atkvæðisréttar eins og hér hefur verið rakið. Á vettvangi veiðifélags gildir síðan sú meginregla að afl atkvæða ræður úrslitum, sbr. 12. mgr. 40. gr. laga nr. 61/2006.
56. Af þessu fyrirkomulagi atkvæðisréttar leiðir meðal annars að hlutfall af veiðirétti samkvæmt arðskrá hefur venjulega ekki áhrif við ákvarðanatöku veiðifélags. Þannig getur stór eigandi veiðiréttar í reynd verið áhrifalaus um málefni félags gagnvart þeim sem fara með atkvæðisrétt fleiri lögbýla en eiga þó samtals minni veiðirétt. Jafnframt er hugsanlegt ef fleiri fara með atkvæðisrétt vegna lögbýlis að einhver þeirra eða allir verði áhrifalausir um málefni félags ef þeir koma sér ekki saman um hvernig fara eigi með atkvæðið samkvæmt nánari fyrirmælum 6. mgr. 40. gr. laga nr. 61/2006.
57. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið geta ýmsar aðstæður valdið því að veiðiréttarhafi eigi ýmist ekki hlut að máli eða hafi minni áhrif við ákvarðanatöku veiðifélags en veiðiréttur hans gefur efni til. Eftir sem áður getur hann látið málið til sín taka á vettvangi félagsins sem félagsmaður með tillögurétt og málfrelsi. Þá hefur löggjafinn bætt réttarstöðu þeirra sem þetta á við með því að mæla fyrir um að félagsmaður geti krafist að ákvörðun ráðist af vægi í samræmi við arðskrá ef hún hefur í för með sér fjárútlát sem nema að minnsta kosti 25% af tekjum félags af veiði á því starfsári, sbr. 11. mgr. 40. gr. laganna. Jafnframt er félagi heimilt að ákveða í samþykktum að þessi regla gildi um atkvæðagreiðslur í fleiri tilgreindum tilvikum.
58. Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið verður ekki talið að umrætt fyrirkomulag atkvæðisréttar komi þyngra niður á stefnda vegna jarðarinnar Hvarfsdals en ýmsum öðrum veiðiréttarhöfum sem fara á mis við að fara með atkvæðisrétt á vettvangi veiðifélags. Fyrirkomulag veiðifélaga og ýmsar lögmæltar takmarkanir á réttindum félagsmanna eiga sér auk þess langa sögu. Þá beinist umrædd takmörkun eignarréttar veiðiréttarhafa að þessu leyti jafnt að öllum félagsmönnum og jafnræðis er gætt gagnvart þeim sem eru í sambærilegri stöðu.
59. Verður samkvæmt framangreindu ekki talið að gengið hafi verið lengra með lögum nr. 61/2006 við að takmarka réttindi stefnda en efni voru til. Ekki er því fallist á að fyrirmæli 40. gr. laganna, sem leiða til þess að stefndi nýtur ekki atkvæðisréttar í Veiðifélagi Búðardalsár vegna jarðarinnar Hvarfsdals, skerði með ólögmætum hætti eignarrétt hans samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar.
60. Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið verður tekin til greina krafa áfrýjanda um að viðurkennt verði að jörðinni fylgi ekki atkvæðisréttur í veiðifélaginu.
61. Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi vegna reksturs málsins á öllum dómstigum eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Viðurkennt er að atkvæði fylgi ekki jörðinni Hvarfsdal í Dalabyggð í Veiðifélagi Búðardalsár.
Stefndi Búð ehf. greiði áfrýjanda Heiðardal ehf. samtals 4.000.000 króna í málskostnað vegna reksturs málsins í héraði og fyrir Landsrétti og Hæstarétti.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar og Sigurðar Tómasar Magnússonar
1. Við gerum ekki athugasemdir við lýsingu meirihluta dómenda á málsatvikum, málsástæðum og löggjöf. Þá erum við sammála umfjöllun meirihluta dómenda um skylduaðild að veiðifélagi, neikvætt félagafrelsi, svo og liðum 50 og 51 í umfjöllun um lagastoð og markmið takmarkana á eignarrétti veiðiréttarhafa.
2. Eignarrétturinn er friðhelgur samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár. Í fyrri málslið 2. mgr. 74. gr. hennar er jafnframt verndaður réttur manna til að standa utan félaga en þar segir að engan megi skylda til aðildar að félagi. Í síðari málslið ákvæðisins er undantekning frá þessu en þar segir að með lögum megi kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra. Til grundvallar því að skylduaðild að félagi geti verið nauðsynleg vegna réttinda annarra liggja meðal annars þau rök að við ákveðnar aðstæður geti tengsl á milli hagsmuna manna verið svo náin að nauðsynlegt þyki að leggja skyldu á þá að virða hagsmuni hvors eða hvers annars með því að standa að sameiginlegu félagi í því skyni. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði sagði meðal annars að heimildir löggjafans til að mæla fyrir um skylduaðild að veiðifélögum helguðust af 2. málslið 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár og þeim sjónarmiðum sem það ákvæði væri reist á. Þá var tekið fram í frumvarpinu í tengslum við umfjöllun um og rökstuðning fyrir skylduaðild að veiðifélögum að ætlunin væri að auka enn frekar en áður hefði verið réttaröryggi einstakra félagsmanna í veiðifélögum. Væri það meðal annars gert með því að fjölga þeim atriðum sem félögunum yrði gert skylt að taka upp í samþykktir sínar með það að markmiði að gera rekstur og ákvarðanatöku á vettvangi þeirra skýrari og skilvirkari og tryggja eftir föngum réttaröryggi einstakra félagsmanna sem þurfi að sæta skylduaðild.
3. Við leggjum áherslu á að verði 1. mgr. 40. gr. laga nr. 61/2006 skýrð með þeim hætti sem meirihluti dómenda gerir hefur það þau réttaráhrif að stefndi sem eigandi eyðijarðar með veiðirétt er svo til alveg sviptur rétti til að taka þátt í ákvörðunum um ráðstöfun eignarréttinda sinna. Lagaákvæðið þannig skýrt felur því í sér verulega takmörkun eignarréttinda hans.
4. Í dómi Hæstaréttar 13. mars 2014 í máli nr. 676/2013 var talið að í skylduaðild að veiðifélagi fælist undantekning frá þeirri meginreglu fyrri málsliðar 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár að engan mætti skylda til aðildar að félagi en í þeirri skipan væri jafnframt fólgin takmörkun á eignarráðum fasteignareiganda hvað eignarrétt að veiði varðaði.
5. Í dómi Hæstaréttar 26. október 2022 í máli nr. 20/2022 er vísað til fyrrnefnds dóms og jafnframt gerð grein fyrir ýmsum dómum Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem fjallað hefur verið um réttinn til að standa utan félaga. Þar segir orðrétt í liðum 50, 54 og 57.
50. Samkvæmt framangreindri dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands og Mannréttindadómstóls Evrópu er ljóst að þar sem lögboðin skylduaðild að veiðifélagi felur í sér takmörkun á þeirri vernd sem 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar er ætlað að veita rétti manna til að standa utan félaga verða heimildir slíks félags í lögum til ráðstöfunar og ákvarðanatöku um eignarréttindi félagsmanns gegn vilja hans að vera skýrar og afdráttarlausar og mega ekki ganga lengra en nauðsynlegt er til að félag geti náð þeim markmiðum sem skylduaðildinni er ætlað að tryggja.
54. [...] Við mat á því hvort lagaheimild til tiltekinnar ráðstöfunar sem er í andstöðu við vilja félagsmanns sé nægilega skýr og jafnframt nauðsynleg til þess að ná þeim markmiðum sem skylduaðildinni er ætlað að tryggja verður að líta til þess hvort hagsmunir einstakra félagsmanna séu fyrir borð bornir eða stefnt í óvissu að óþörfu.
57. Sé löggjöf til þess fallin að takmarka mannréttindi ber dómstólum að meta hvort löggjafinn hafi gætt sjónarmiða um meðalhóf, jafnræði og skýrleika lagaheimilda. Jafnframt er það hlutverk dómstóla að skýra löggjöf og beita henni í tilteknu tilviki með þeim hætti sem best samrýmist ákvæðum stjórnarskrár og eftir atvikum alþjóðlegum skuldbindingum.
6. Af framangreindum dómum leiðir að sé löggjöf til þess fallin að takmarka mannréttindi ber dómstólum að skýra hana og beita henni í tilteknu tilviki með þeim hætti sem best samrýmist ákvæðum stjórnarskrár.
7. Við teljum að þessar forsendur tilvitnaðs dóms hafi talsverða þýðingu við úrlausn þessa máls sem snýst um hvort stefndi verði sviptur rétti til að hafa áhrif á ráðstöfun veiðiréttar síns með atkvæðarétti í félagi sem hann á skylduaðild að. Í samræmi við það verður að skýra 1. mgr. 40. gr. laga nr. 61/2006 hvað varðar atkvæðisrétt eigenda eyðijarða í veiðifélagi með þeim hætti sem best samrýmist ákvæðum 72. gr. og 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrár. Verður jafnframt að gæta stjórnskipulegs meðalhófs í þessum efnum svo takmarkanir á félagafrelsi í ljósi skerðingar á eignarrétti verði ekki víðtækari en nauðsyn ber til svo náð verði því lögmæta markmiði sem stefnt er að með löggjöf.
8. Við skýringu 1. mgr. 40. gr. laga nr. 61/2006 er í fyrsta lagi til þess að líta að tilvísun til þess hvaða jarðir og eyðijarðir töldust lögbýli við gildistöku eldri jarðalaga nr. 65/1976 er ekki svo skýr og afdráttarlaus að stefndi verði á grundvelli hennar sviptur atkvæðisrétti í veiðifélagi vegna jarðar sinnar. Er þá til þess að líta að skilgreiningu á lögbýli var við gildistöku laga nr. 65/1976 að finna í 1. gr. þágildandi ábúðarlaga nr. 64/1976 en þar var meðal annars vísað til þess að býli þyrfti að hafa það landrými eða búrekstraraðstöðu að það framfleytti minnst tíu kúgildum. Við mat á því hvort þetta viðmið teljist nægilega skýrt til þess að svipting atkvæðisréttar eiganda eyðijarðar verði á því reist teljum við að hafa verði í huga að kúgildi hefur haft ýmsa merkingu í gegnum tíðina svo sem að vera verðeining eða viðmið um bústofn sem skyldi fylgja leigujörðum. Hugtakið er horfið úr löggjöf og ekki liggur nákvæmlega fyrir í málinu hvaða merkingu það hafði árið 1976 eða síðar.
9. Í öðru lagi teljum við að líta verði til þess að fremur verður ráðið af athugasemdum í greinargerð með lögum nr. 119/2009, sem breyttu 1. mgr. 40. gr. laga nr. 61/2006 til núverandi horfs, að ætlunin með því að bæta orðinu eyðijarðir inn í ákvæðið væri að veita eigendum eyðijarða sem misst höfðu atkvæðisrétt í veiðifélagi, að því er virðist vegna framkvæmdar Landnáms ríkisins byggðri á 1. gr. ábúðarlaga nr. 36/1961, atkvæðisrétt að nýju. Þetta var nánar skýrt þannig í athugasemdunum:
Vegna þess hversu örðugt er um vik að afla heimilda um hvort eyðijörð hafi verið ráðstafað „til annarra nota“, við gildistöku jarðalaga, nr. 65/1976, hafa veiðifélög við ákvörðun atkvæðisréttar samkvæmt hinum nýju lögum, stuðst í framkvæmd við jarðaskrá Landnáms ríkisins fyrir fardagaárið 1975–76. Þá hefur þýðingu að við færslur í jarðaskrána, á næstliðnum árum, hafði Landnám ríkisins m.a. byggt á 1. gr. ábúðarlaga, nr. 36/1961, þar sem kveðið var á um að eyðijarðir féllu úr tölu lögbýla eða jarða hefðu þær ekki verið byggðar í 25 ár eða lengur. Með þessu hafa eigendur fjölda eyðijarða, sem fallið höfðu úr jarðaskránni, misst atkvæðisrétt í veiðifélagi. Með setningu laga nr. 61/2006 var ekki ætlunin að gera grundvallarbreytingu á fyrirkomulagi atkvæðisréttar í veiðifélögum að því er varðar eyðijarðir. Tilgangur þessa frumvarps [er að] færa þetta atriði til fyrri vegar með því að gera tillögu um að kveðið verði að nýju sérstaklega á um að atkvæðisréttur fylgi eyðibýlum.
10. Í þriðja lagi teljum við að þau dæmi sem meirihluti dómenda tilgreinir í atkvæði sínu um takmörkun atkvæðisréttar í veiðifélagi séu með ýmsum hætti ósambærileg því tilviki sem leyst er úr í þessu máli. Þannig leiðir svipting atkvæðisréttar stefnda ekki af þeirri meginreglu 1. mgr. 40. gr. laga nr. 61/2006 að hverri jörð sem veiðirétt á fylgi eitt atkvæði. Tilgangur þeirrar reglu þegar hún kom inn í 2. mgr. 48. gr. eldri laga um lax- og silungsveiði nr. 76/1970 var, eins og fram kom í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga, að girða fyrir að lögbýlum væri skipt í þeim tilgangi að afla atkvæðisréttar í veiðifélögum. Reglan felur þannig ekki í sér sviptingu atkvæðisréttar eins og í tilviki stefnda heldur að atkvæðum vegna jarðar fjölgar ekki við skiptingu. Þá var kveðið á um með skýrum hætti í 2. mgr. 48. gr. laga nr. 76/1970 að eigandi eyðijarðar hefði eitt atkvæði í veiðifélagi.
11. Í fjórða lagi teljum við að líta verði til þess við mat á meðalhófi að stefndi á fimmta hluta veiðiréttar í Búðardalsá og svipting atkvæðisréttar kemur fyrirsjáanlega með afar þungbærum hætti niður á honum og er til þess fallin að skerða eignarréttindi hans verulega um ókomna tíð.
12. Af öllu framangreindu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms teljum við að staðfesta eigi hann og fella málskostnað fyrir Hæstarétti á áfrýjanda.