Hæstiréttur íslands

Mál nr. 38/2024

Herdís Dröfn Fjeldsted og Sævar Pétursson (Bjarki Þór Sveinsson lögmaður)
gegn
þrotabúi Helgu Daníelsdóttur (Bjarnfreður Ólafsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging
  • Þrotabú

Reifun

Staðfestur var úrskurður Landsréttar þar sem hafnað var kröfu H og S um að þrotabúi H yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskotnaðar.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ása Ólafsdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 11. júlí 2024 en kærumálsgögn bárust réttinum sama dag. Kærður er úrskurður Landsréttar 26. júní sama ár þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu á hendur þeim fyrir Landsrétti. Kæruheimild er í c-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

3. Sóknaraðilar krefjast þess að varnaraðila verði gert að leggja fram málskostnaðartryggingu vegna reksturs málsins fyrir Landsrétti og honum jafnframt gert að greiða þeim kærumálskostnað.

4. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Ágreiningsefni og helstu málsatvik

5. Í málinu er deilt um hvort uppfyllt séu skilyrði b-liðar 1. mgr. 133. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 til að varnaraðila verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar vegna áfrýjunar máls til Landsréttar.

6. Með kaupsamningi 18. júní 2018 keyptu sóknaraðilar einbýlishús að [...] í Garðabæ af Helgu Daníelsdóttur. Kaupverð eignarinnar var 272.000.000 króna. Sóknaraðilar höfðuðu mál þetta 20. maí 2021 á hendur seljandanum til greiðslu skaðabóta vegna ætlaðra galla á húsinu. Jafnframt var málið höfðað á hendur Ómari Steinari Rafnssyni sem byggingarstjóra hússins og Guðna Tyrfingssyni sem hönnuði þess. Þá var Verði tryggingum hf. stefnt vegna ábyrgðartrygginga sem Ómar Steinar og Guðni höfðu hjá félaginu. Kröfur sóknaraðila á hendur hverjum um sig voru misháar en krafist var óskiptrar greiðslu úr hendi þeirra allra.

7. Undir rekstri málsins í héraði var bú Helgu Daníelsdóttur tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 14. september 2023 og tók þrotabúið við aðild þess.

8. Með héraðsdómi 15. mars 2024 var varnaraðila gert að greiða sóknaraðilum hluta af kröfufjárhæð eða 25.151.548 krónur af stefnufjárhæð, þar af óskipt með byggingarstjóra 21.172.987 krónur og Verði tryggingum hf. 10.813.752 krónur, allt með tilgreindum dráttarvöxtum. Þessum aðilum var jafnframt gert að greiða sóknaraðilum óskipt 6.300.000 krónur í málskostnað. Hönnuður hússins var á hinn bóginn sýknaður af kröfum sóknaraðila sem og Vörður tryggingar hf. að því leyti sem varðaði ábyrgðartryggingu hönnuðarins. Var málskostnaður milli sóknaraðila og þessara tveggja málsaðila felldur niður hvað varðar þennan þátt málsins.

9. Allir stefndu í héraði áfrýjuðu fyrir sitt leyti málinu til Landsréttar í apríl 2024. Varnaraðili krafðist sýknu af kröfum sóknaraðila og málskostnaðar úr hendi þeirra vegna reksturs málsins á báðum dómstigum en til vara að kröfur þeirra yrðu lækkaðar verulega. Hönnuður hússins og Vörður tryggingar hf. áfrýjuðu einnig og kröfðust staðfestingar héraðsdóms um sýknu en að sóknaraðilum yrði gert að greiða þeim málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti hvað varðar þennan þátt málsins. Sóknaraðilar gagnáfrýjuðu málinu fyrir sitt leyti í júní 2024 með sömu kröfum og hafðar voru uppi í héraði og kröfðust um málskostnaðar vegna reksturs málsins á báðum dómstigum.

10. Málið var þingfest í Landsrétti 29. maí 2024 en 3. sama mánaðar höfðu sóknaraðilar krafist þess að varnaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar vegna meðferðar málsins þar fyrir dómi. Hinn kærði úrskurður féll 26. júní 2024 þar sem kröfunni var hafnað.

Niðurstaða

11. Samkvæmt b-lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 getur stefndi krafist þess við þingfestingu máls í héraði að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar ef leiða má líkur að því að hann sé ófær um greiðslu hans. Megintilgangur lagaákvæðisins er að tryggja greiðslu á málskostnaði þeim til handa sem þarf að taka til varna gegn málsókn og verða fyrir útgjöldum af vörnum sínum, þegar fyrir fram má ætla að sá sem sækir málið geti ekki greitt málskostnað sem á hann verður felldur, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 16. nóvember 2015 í máli nr. 730/2015. Þá hafa ekki verið talin lagarök til þess að heimild til að krefjast tryggingar fyrir greiðslu málskostnaðar færist til stefnanda í héraði við að stefndi höfði gagnsök til sjálfstæðs dóms á hendur honum, sbr. dóm Hæstaréttar 5. janúar 2000 í máli nr. 494/1999. Á hinn bóginn getur sá sem fengið hefur kröfum sínum framgengt á lægri dómstigum við áfrýjun krafist þess að áfrýjanda verði gert að setja tryggingu fyrir málskostnaði, sbr. dóm Hæstaréttar 20. júní 2018 í máli nr. 16/2018.

12. Af ákvæðum 133. gr. laga nr. 91/1991 leiðir að sönnunarbyrði fyrir því að fullnægt sé skilyrðum ákvæðisins hvílir á þeim sem tryggingar krefst. Eins og að framan greinir er varnaraðili þrotabú. Fyrir liggur yfirlýsing skiptastjóra búsins um að það sé eignalaust og ráðgert sé að ljúka skiptum á grundvelli 155. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Því verður lagt til grundvallar að varnaraðili sé ófær um að greiða málskostnað fyrir Landsrétti verði hann dæmdur til þess.

13. Kröfur sóknaraðila í máli þessu eru reistar á samlagsaðild til varnar samkvæmt 19. gr. laga nr. 91/1991. Því verður við mat á kröfu um málskostnaðartryggingu litið til ákvæða 2. mgr. 132. gr. laganna sem mæla fyrir um að eigi að dæma slíka aðila til greiðslu málskostnaðar skuli það að jafnaði gert í einu lagi þannig að þeir ábyrgist greiðslu fyrir alla og allir fyrir einn, sbr. dóm Hæstaréttar 27. mars 1998 í máli nr. 118/1998 sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 1327 og vísað er til í hinum kærða úrskurði. Hins vegar má líta til þess að sóknaraðilar í máli þessu gera sjálfstæðar kröfur mismunandi fjárhæðar á hendur hverjum aðila um sig og er hver krafa reist á mismunandi lagagrundvelli og röksemdum allt eftir tengslum við ágreiningsefnið. Þá voru tveir aðilar sýknaðir af kröfum sóknaraðila. Á þessu stigi er ekki unnt að fullyrða að úrslit málsins verði á þann veg að fleiri en einn aðili verði dæmdir til að greiða málskostnað óskipt með hinum, óháð því hvort og hversu há fjárkrafa kunni að verða dæmd í tilviki hvers um sig.

14. Svo sem hér hefur verið rakið hafa allir þeir sem málið var höfðað gegn í héraði áfrýjað því til Landsréttar. Jafnframt hafa sóknaraðilar gagnáfrýjað málinu fyrir sitt leyti og krefjast þess meðal annars að krafa þeirra á hendur varnaraðila verði að fullu tekin til greina. Málið verður því flutt um alla þætti þess fyrir Landsrétti án tillits til þess hvort varnaraðili leggi fram málskostnaðartryggingu. Að því gættu eru engin efni til að gera varnaraðila að leggja fram slíka tryggingu. Er þá til þess að líta að málskostnaðartrygging er til þess fallin að takmarka rétt aðila til aðgangs að dómstólum og verður þeirri heimild því ekki beitt nema til þess standi viðhlítandi rök. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.

15. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.