Hæstiréttur íslands

Mál nr. 45/2022

Dánarbú Finnborgar Bettýjar Gísladóttur, þrotabú Hansínu Sesselju Gísladóttur (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður), Elísa Finnsdóttir, Gísli Finnsson (Sigurður Jónsson lögmaður), Guðmundur Gíslason, Margrét Margrétardóttir (Guðjón Ólafur Jónsson lögmaður), Karl Lárus Hjaltested, Sigurður Kristján Hjaltested (Sigmundur Hannesson lögmaður), Markús Ívar Hjaltested og Sigríður Hjaltested (Valgeir Kristinsson lögmaður)
gegn
Kópavogsbæ (Guðjón Ármannsson lögmaður)

Lykilorð

  • Eignarnám
  • Eignarnámsbætur
  • Eignarréttur
  • Afnotaréttur
  • Erfðaskrá
  • Matsgerð

Reifun

Árið 1938 hafði MEH þáverandi eigandi jarðarinnar V arfleitt SKLH að öllum eigum sínum, þar á meðal V, en með erfðaskránni voru margvíslegar kvaðir lagðar á arfinn varðandi ráðstöfun og nýtingu V. Dánarbú SKLH var tekið til opinberra skipta 1967 og er þeim ólokið. Erfingjar í dánarbúi SKLH höfðuðu á árinu 2014 mál á hendur K og kröfðust greiðslu bóta vegna eignarnáms K á jörðinni V í fjögur skipti á árunum 1992, 1998, 2000 og 2007. Deilt var um hvort dánarbúið ætti sem handhafi beins eignarréttar að V rétt til bótanna en þær höfðu verið greiddar ábúendum jarðarinnar. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að rétturinn hefði í fyrri dómum slegið því föstu að beinn eignarréttur að V hefði í kjölfar andláts MEH færst til SKLH á grundvelli erfðaskrárinnar frá 1938 og væri nú á hendi dánarbús hans og að réttindi ábúenda V bæri að skilgreina sem óbein eignarréttindi. Þá hefði rétturinn og í fyrri dómi tekið fram að þar sem MEH hefði ekki látið eftir sig skylduerfingja yrði ekki séð að nokkuð annað hafi staðið því í vegi að hann ráðstafaði eignum sínum til SKLH með þeim hætti sem hann gerði. Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms að kröfur sem dánarbúið kynni að hafa átt á hendur K vegna eignarnáms árin 1992, 1998 og 2000 væru fyrndar en að ófyrnd væri krafa vegna eignarnámsins 2007 og að áfrýjendur hefðu ekki sýnt af sér tómlæti við að halda fram rétti til hugsanlegra bóta vegna þess. Þá var og staðfest sú niðurstaða að K gæti ekki borið fyrir sig að ábúandi V hefði öðlast beinan eignarrétt að V fyrir hefð og að K hefði við eignarnámið 2007 mátt vita um hugsanlegan rétt dánarbúsins til bóta og gæti því ekki byggt kröfu sína um sýknu á 33. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Hvað varðaði þá málsástæðu K að sýkna bæri hann af kröfu dánarbúsins þar sem það hefði ekki orðið fyrir neinu fjártjóni við eignarnámið 2007 tók Hæstiréttur fram að niðurstaða þess réðist af efnislegu inntaki beinna og óbeinna eignarréttinda yfir V eins og þau hefðu verið mörkuð með erfðaskránni frá 1938 og grundvallarreglum íslenskrar réttarskipunar um form og inntak eignarréttinda eins og þær hefðu þróast í tímans rás. Með erfðaskránni frá 1938 hefði handhafi beins eignarréttar að V í reynd verið sviptur öllum þeim heimildum sem almennt felist í eignarrétti, svo sem umráða-, hagnýtingar-, ráðstöfunar-, skuldsetningar-, arfleiðslu- og verndarrétti eiganda. Þá væri og til þess að líta að þó svo að réttur handhafa óbeinna eignarréttinda að V félli niður eða þrengdist leiddi það ekki til þess að réttur handhafa beina eignarréttarins rýmkaðist að sama skapi. Því yrði að leggja til grundvallar að beinn eignarréttur yfir V sem SKLH hefði hlotið með erfðaskránni frá 1938 hefði verið formlegs eðlis, án fjárgildis og því verðlaus í höndum rétthafans frá upphafi. Rétturinn sem nú væri á höndum dánarbúsins yrði því ekki metinn til fjár á peningalegan mælikvarða og hefðu áfrýjendur því ekki orðið fyrir fjártjóni við eignarnámið 2007. Var K því sýknaður af kröfum áfrýjenda.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon og Þorgeir Örlygsson fyrrverandi hæstaréttardómari.

2. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 21. september 2022. Þeir krefjast þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds 74.811.389.954 krónur, auk vaxta samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. maí 2013 til 5. nóvember 2014 en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða dánarbúinu 47.558.500.000 krónur auk vaxta samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 23. janúar 2007 til 5. nóvember 2014 en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til þrautavara að stefndi verði dæmdur til að greiða dánarbúinu ekki lægri fjárhæð en 28.516.710.000 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. desember 2018 til greiðsludags. Til þrautaþrautavara að stefndi verði dæmdur til að greiða dánarbúinu ekki lægri fjárhæð en 18.453.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 20. desember 2018 til greiðsludags. Til þrautaþrautaþrautavara að stefndi verði dæmdur til að greiða dánarbúinu hæfilegar bætur að álitum, ásamt vöxtum og dráttarvöxtum með upphafsdegi að ákvörðun dómsins til greiðsludags. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar vegna reksturs málsins á öllum dómstigum, auk útlagðs matskostnaðar 30.000.000 króna, og að málskostnaður verði dæmdur gjafsóknarhöfum eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

3. Stefndi krefst aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi en til vara staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

4. Bú áfrýjandans Hansínu S. Gísladóttur var tekið til gjaldþrotaskipta 8. febrúar 2023 eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms og hefur þrotabúið tekið við aðild í málinu.

Ágreiningsefni

5. Í málinu er um það deilt hvort dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, sem tekið var til opinberra skipta í september 1967, eigi sem handhafi beins eignarréttar að jörðinni Vatnsenda í Kópavogi rétt til eignarnámsbóta vegna eignarnáms stefnda á spildum úr landi jarðarinnar í fjögur skipti á árunum 1992, 1998, 2000 og 2007. Eignarnámsbætur voru á sínum tíma greiddar handhöfum óbeinna eignarréttinda að jörðinni. Áfrýjendur eru erfingjar í dánarbúinu og hafa höfðað mál þetta því til hagsbóta.

6. Með héraðsdómi voru kröfur á hendur stefnda vegna eignarnáms á árunum 1992, 1998 og 2000 taldar fyrndar en fallist á kröfu vegna eignarnáms á árinu 2007. Var stefndi dæmdur til að greiða dánarbúinu 986.000.000 króna auk vaxta og dráttarvaxta. Var sú niðurstaða reist á matsgerð sem liggur fyrir í málinu um að virði beins eignarréttar að jörðinni væri 10–15% af markaðsvirði hins eignarnumda lands. Með hinum áfrýjaða dómi var stefndi sýknaður af kröfum áfrýjenda þar sem þeir hefðu ekki sannað að þeir hefðu orðið fyrir fjártjóni.

7. Áfrýjunarleyfi í málinu var veitt 14. september 2022 með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2022-93 á þeim grunni að dómur í því gæti haft fordæmisgildi um inntak og mörk beins og óbeins eignarréttar og í því sambandi bætur vegna eignarnáms. Jafnframt var talið að málið varðaði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda.

Málsatvik

8. Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu atvikum í máli þessu. Efnisskipan er með þeim hætti að fyrst verður rakið efni erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltesteds frá 1938 og arftaka samkvæmt henni. Þá er umfjöllun um ábúð á Vatnsenda frá andláti Magnúsar til dagsins í dag. Því næst er fjallað um ráðstafanir að lögum varðandi jörðina Vatnsenda sem gerðar hafa verið af ábúendum hennar á hverjum tíma. Þar á eftir er greint frá ágreiningsmálum og málaferlum sem annars vegar tengjast skiptameðferð á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds og hins vegar dánarbúi Þorsteins Hjaltesteds.

Erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltesteds

9. Með afsali 6. júní 1914 festi Magnús Einarsson Hjaltested úrsmiður í Reykjavík, sem fæddur var 1871, kaup á jörðinni Vatnsenda sem þá tilheyrði Seltjarnarneshreppi af bróður sínum, Georg Pétri Einarssyni Hjaltested. Magnús sem var ókvæntur og barnlaus átti þrjá bræður, Georg Pétur, Ólaf Zóphanías og Sigurð Kristján.

10. Bræður Magnúsar Einarssonar Hjaltesteds áttu ekki börn, ef frá er talinn Georg Pétur, sem fæddur var 1865, en hann átti meðal annarra barna soninn Lárus fæddan 1892. Lárus eignaðist sex börn og þar af þrjá syni, Sigurð Kristján, Georg Pétur og Jón Einar. Sigurður Kristján var þeirra elstur en hann var fæddur 1916. Magnús arfleiddi Sigurð Kristján, son Lárusar, að öllum eignum sínum föstum og lausum, þar með talinni jörðinni Vatnsenda, með erfðaskrá 4. janúar 1938. Erfðaskráin er svohljóðandi:

Ég undirritaður Magnús Einarsson Hjaltested fyr úrsmiður í Reykjavík, en nú bóndi á Vatnsenda í Seltjarnarneshreppi, sem ekki á neitt afkvæmi, lýsi hér með yfir því, sem síðasta vilja mínum, að með eignir mínar lausar og fastar – allar undantekningarlaust – skal fara á þann hátt, er hér eftir segir, að mér látnum.
1. gr. Allar eignir mínar – fastar og lausar – skulu ganga að erfðum til Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, með þeim nánari takmörkunum og skilyrðum er nú skal greina
a/- Hann má ekki selja fasteign þá er ég nú á – Vatnsenda í Seltjarnarneshreppi – er hann fær að erfðum með þessari arfleiðsluskrá, né heldur veðsetja hana fyrir meiru en sem nemur 50% af fasteignamati jarðarinnar og þó aðeins til greiðslu erfðafjárskatts ef með þarf, eða nauðsynlegra, varanlegra endurbóta á húsum jarðarinnar eða henni sjálfri.
b/- Hann skal búa á eigninni sjálfur sbr. þó það er síðar segir um föður hans undir tölulið 2.
c/- Arftaki má selja á leigu lóðir undir hús, leikvelli eða annað, úr óræktuðu landi jarðarinnar, gegn árlegu afgjaldi er hæfilegt þykir á hverjum tíma, og skulu þær leigur goldnar á tilteknum gjalddaga til ábúenda hver sem hann verður, og má ekki veðsetja þær neinum fremur en jörðina, fyr en þær eru greiddar ábúenda.
2. gr. Meðan Lárus Hjaltested faðir Sigurðar lifir, má hann búa endurgjaldslaust á fyrnefndri jarðeign, að öðru en því, að hann svarar til vaxta og afborgana af skuldum þeim, er á eigninni hvíla.
Allar bætur fyrir landspjöll, sem þegar eru orðin eða kunna að verða á jörðinni, af annara völdum, og jörðinni ber, hefir Lárus Hjaltested eða næsti ábúandi rétt, til að krefja um og semja um, með lögsókn ef með þarf, sem tilheirandi jörðinni að mér látnum, ef ekki hefir verið fullkomlega um það samið áður.
Sömuleiðis hefir Lárus Hjaltested eða næsti ábúandi allan rétt þann, er um ræðir í gr. 1. tölulið c/-.
3. gr. Að Sigurði látnum gengur jarðeignin að erfðum til elsta sonar hans, og svo til hans niðja í beinan karllegg, og sé sá leggur útdauður, þá til næstelsta sonar Sigurðar og hans niðja í beinan karllegg o.s.fr. Koll af kolli, þannig að ávalt fær aðeins einn maður allan arfinn, sá elsti í þeim legg, er að réttu ber arfinn samkvæmt því er nú hefir sagt verið.
Sé enginn erfingi réttborinn til arfs frá Sigurði á lífi samkvæmt framanskráðu, þá gengur arfurinn til Georgs Péturs Hjaltested næst elsta sonar Lárusar, og hans niðja í beinan karllegg, eftir sömu reglum.
Sé enginn til í legg Péturs, sem uppfylli skilyrðin, þá skal arfurinn ganga til Jóns Einars Hjaltested sonar Lárusar og niðja hans í beinan karllegg, eftir sömu reglum og svona koll af kolli, meðan til er eitthvert afkvæmi í karllegg frá Lárusi Hjaltested, sem uppfylli erfðaskilyrði þau er margnefnd eru.
4. gr. Skildi einhver erfingjanna hætta búskap á Vatnsenda, missir hann rétt sinn samkvæmt erfðaskrá þessari, og sá sem næstur er í röðinni tekur við.
5. gr. Ef viðkomandi erfingi er ómyndugur skal fjárhaldsmaður hans ráðstafa ábúðinni þar til hann er myndugur.
6. gr. Sérhver erfingi, sem fær erfðarétt samkvæmt þessum arfleiðslugjörningi, er skyldugur til þess, að halda öll þau skilyrði, sem Sigurði eru sett með honum og gæta þeirra takmarkana, er samningurinn hefir inni að halda.
Vanrækji einhver það, varðar það tafarlaust réttinda missi fyrir hlutaðeigandi.
7. gr. Ef afkvæmi Lárusar Hjaltested í karllegg deyr út, skal taka eignir þær er að framan getur og selja þær, og af andvirði stofna sjóð er beri nafnið: Styrktarsjóður Magnúsar Einarssonar Hjaltested á Vatnsenda. Sjóður þessi ávaxtist í ríkisskuldabréfum, bankavaxta bréfum – er beri það með sér, að þau tilheyri sjóðnum – eða sparisjóði Landsbankans. ¾ hlutar vaxta útborgist árlega, sem styrktarfé, en ¼ hluti leggist við sjóðinn honum til aukningar. Tilgangur sjóðsins skal vera sá, að styrkja ungmenni af ættlegg Lárusar Hjaltested til framhaldsmentunar hvenær sem er.
Skipulagsskrá viðvíkjandi sjóði þessum, ef til kemur, fel ég Stjórnarráði Íslands að semja, með þessum skilyrðum er nú voru nefnd.
Arfleiðslugjörningi þessum skal þinglýsa á varnarþingi jarðarinnar Vatnsenda í Seltjarnarneshreppi, og hann hvíla sem ævarandi kvöð á þeirri eign.
Til staðfestu framanritaðri arfleiðsluskrá í öllum greinum, hefi ég undirritað hana í viðurvist tveggja sérstaklega tilkvadda vitundarvotta.

11. Magnús Einarsson Hjaltested lést 31. október 1940 en tveimur dögum fyrir andlátið staðfesti hann erfðaskrána og arfleiðsluvilja sinn. Í samræmi við ákvæði erfðaskrárinnar tók Sigurður Kristján, sonur Lárusar bróðursonar Magnúsar, allan arf eftir Magnús. Erfðaskránni var þinglýst 9. janúar 1941 sem eignarheimild Sigurðar Kristjáns að Vatnsenda með því að nafn hans var fært í dálk fyrir „nöfn eigenda“ á blaði jarðarinnar í fasteignabók með þeirri skýringu að heimild hans væri komin til fyrir „erfðir“.

Ábúð á Vatnsenda frá 1914

12. Magnús Einarsson Hjaltested sat Vatnsenda frá 1914 þar til hann lést 1940. Eftir andlát hans og til samræmis við ákvæði erfðaskrárinnar frá 1938 tók bróðursonur Magnúsar, Lárus Hjaltested, við ábúð jarðarinnar og sat hana þar til hann lést 1956. Tók þá við jörðinni ekkja Lárusar, Sigríður Jónsdóttir Hjaltested, og bjó hún á Vatnsenda til fardaga 1960.

13. Þegar veru Sigríðar Jónsdóttur á Vatnsenda lauk 1960 tók við ábúðinni elsti sonur hennar og Lárusar Hjaltesteds, Sigurður Kristján, arftaki samkvæmt erfðaskránni frá 1938, og sat jörðina þar til hann lést í nóvember 1966. Sigurður Kristján var tvíkvæntur og var seinni kona hans Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested. Að Sigurði Kristjáni látnum bjó Margrét áfram á Vatnsenda með börnum sínum þar til hún var borin út af jörðinni í júlí 1969, svo sem nánar greinir síðar. Margrét lést á árinu 2004 og mun skiptum á dánarbúi hennar hafa lokið á því ári sem eignalausu.

14. Í árslok 1969, rúmum þremur árum eftir andlát Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds, tók elsti sonur hans af fyrra hjónabandi, Magnús Sigurðsson Hjaltested sem fæddur var 1941, við ábúð á Vatnsenda. Magnús, sem var kvæntur Kristrúnu Ólöfu Jónsdóttur, lést 21. desember 1999.

15. Að Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested látnum tók elsti sonur hans og Kristrúnar Ólafar Jónsdóttur, Þorsteinn Magnússon Hjaltested, sem fæddur var 1960, við ábúðinni á Vatnsenda, og sat jörðina þar til hann lést 12. desember 2018.

16. Eftir andlát Þorsteins Hjaltesteds lýsti sonur hans, Magnús Pétur Hjaltested, kröfu í dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds um að dánarbúið afhenti honum sem arf samkvæmt erfðaskránni frá 1938 beinan eignarrétt að jörðinni Vatnsenda með þeim skilyrðum og takmörkunum sem erfðaskráin geymdi. Héraðsdómur hafnaði kröfu Magnúsar Péturs og var sú niðurstaða staðfest með úrskurði Landsréttar 13. nóvember 2020 í máli nr. 421/2020 sem reisti þá niðurstöðu á dómum Hæstaréttar 3. maí 2013 í máli nr. 701/2012, 5. mars 2015 í máli nr. 751/2014 og 12. mars 2015 í máli nr. 167/2015.

17. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 17. maí 2021 var viðurkennt að skiptastjóra í dánarbúi Þorsteins Hjaltesteds bæri að afhenda Magnúsi Pétri Hjaltested jörðina Vatnsenda með öllu sem henni fylgir og fylgja ber til ábúðar, hagnýtingar, umráða og afnota samkvæmt fyrirmælum erfðaskrárinnar frá 1938. Með úrskurði Landsréttar 16. september 2021 í máli nr. 351/2021 var úrskurður héraðsdóms staðfestur.

Ráðstafanir varðandi Vatnsenda í tíð Lárusar Hjaltesteds

18. Frá þriðja áratug síðustu aldar hefur spildum úr landi Vatnsenda verið ráðstafað til ýmissa aðila, þeirra á meðal opinberra. Upphaflega mun hafa verið um frjálsa samninga að ræða en eftir gerð erfðaskrárinnar frá 1938 og andlát Magnúsar Einarssonar Hjaltesteds 1940 framkvæmdu þessir aðilar eignarnám til þess að öðlast eignarréttindi að spildum úr landi jarðarinnar og landsréttindum tilheyrandi henni. Ábúendur á Vatnsenda höfðu tekjur af sölu veiðileyfa, leigðu út fjölda lóða úr landi jarðarinnar og höfðu af því leigutekjur. Einnig kröfðust þeir bóta og sömdu um þær vegna tapaðra tekna af landi sem fór undir vatn vegna framkvæmda annarra á jörðinni. Þá munu þeir hafa leitað lögbanns vegna þess sem þeir töldu óheimilar framkvæmdir annarra á jörðinni.

19. Lárus Hjaltested sem sat Vatnsenda frá 1940 til 1956 leigði samkvæmt gögnum málsins út á ábúðartíma sínum að minnsta kosti 193 lóðir úr landi jarðarinnar, samtals að stærð 129 ha, og runnu leigutekjur óskiptar til hans.

20. Tveir menn voru útnefndir 20. janúar 1943 af sýslumanni Gullbringu- og Kjósarsýslu til „að meta skemmdir er Rafmagnsveita Reykjavíkur hefur orsakað á landi jarðarinnar Vatnsenda í sambandi við Elliðavatnsstífluna“. Í matsgerð 17. janúar 1944 mátu þeir bætur vegna slægjumissis við eyðingu engja og fyrir tekjumissi af sumarbústaðalöndum. Í matsgerðinni var tekið fram að Rafmagnsveitu Reykjavíkur bæri að koma í veg fyrir, með varnargarði eða á annan hátt, að framhald yrði á landbroti Vatnsendatúns vegna vatnshækkunar að undangenginni rannsókn.

21. Þrír menn voru nefndir af Hæstarétti 17. mars 1944 til að meta yfirmati „bótakröfur af hendi fyrirsvarsmanns jarðarinnar Vatnsenda í Seltjarnarneshreppi, Lárusar P. Hjaltested, á hendur Rafmagnsveitu Reykjavíkur vegna spjalla, er hann telur nefnda jörð hafa orðið fyrir vegna Elliðavatnsstíflu Rafmagnsveitunnar, sbr. 7. gr. laga nr. 61/1917 og 148. gr. laga nr. 15/1923.“ Í niðurstöðu yfirmatsgerðar segir að þegar „virt er, hversu ríflegar árgreiðslurnar voru og að enginn sannanlegur varnagli var sleginn af aðiljum, verður að miða matið við það, að með árgreiðslunum hafi átt að bæta öll spjöll, eins og þau urðu á þeim árum. Að athuguðum þessum atriðum, þykja bætur til fyrirsvarsmanna Vatnsenda hæfilega ákveðnar kr. 35000.00 [...] og eru þær miðaðar við að vatnshæð Elliðavatns verði ekki framvegis aukin af Rafmagnsveitu Reykjavíkur frá því sem verið hefur undanfarin ár og að landspjöll aukist ekki til mjög mikilla muna frá því sem nú er.“

22. Á árinu 1945 var 69,68 ha spilda úr landi Vatnsenda tekin eignarnámi fyrir starfsemi Landsíma Íslands. Afsal vegna eignarnámsins var gefið út 4. febrúar 1947 af Lárusi Hjaltested. Segir í því að samkvæmt „ofanskráðu hefir póst- og símamálastjóri greitt mér matsverð hins eignarnumda lands, með kr. 97.368.69 [...] og segi ég því Landsíma Íslands f.h. ríkissjóðs fullkominn eiganda hinnar eignarnumdu landsspildu í Vatnsendalandi.“

23. Með lögum nr. 57/1942 var Reykjavíkurbæ veitt heimild til að taka eignarnámi hluta af landi jarðarinnar Vatnsenda til þess að auka við fyrirhugað friðland Reykjavíkur í Heiðmörk. Umrædd spilda mun hafa verið um 689 ha að stærð. Afsal vegna eignarnámsins var gefið út 7. júní 1951 af Lárusi Hjaltested. Segir þar að „undirritaður Lárus Hjaltested bóndi, að Vatnsenda í Kópavogshreppi, lýsi því hérmeð yfir, fyrir hönd eigenda þeirrar jarðar, að selt er og afsalað til Reykjavíkurkaupstaðar þeim hluta jarðarinnar, sem tekinn hefir verið eignarnámi, skv. lögum nr. 57/1942 og metinn eignarnámsmati [...] Er því lýst yfir, að Reykjavíkurkaupstaður er réttur og löglegur eigandi framangreinds jarðarhluta, sem hverfur þá jafnframt undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, enda hefir Reykjavíkurbær gert mér full skil á eignarnámsverði landsins.“

Ráðstafanir í tíð Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds

24. Eins og fyrr segir var erfðaskránni frá 1938 þinglýst 9. janúar 1941 sem eignarheimild Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested að Vatnsenda. Var nafn hans fært í dálk fyrir „nöfn eigenda“ á blaði jarðarinnar í fasteignabók með þeirri skýringu að heimild hans væri komin til fyrir „erfðir“. Sigurður Kristján tók sem fyrr segir við ábúð á Vatnsenda 1960 og sat jörðina þar til hann lést 13. nóvember 1966. Á þeim tíma gerði hann eða endurnýjaði samkvæmt gögnum málsins að minnsta kosti 333 samninga um leigu lóða, samtals að stærð 149 ha, úr landi Vatnsenda og munu leigutekjur hafa runnið til hans. Dánarbú Sigurðar Kristjáns var tekið til opinberra skipta 25. febrúar 1967.

Ráðstafanir í tíð Magnúsar Sigurðssonar Hjaltesteds

25. Til arfs eftir Sigurð Kristján Lárusson Hjaltested stóðu eftirlifandi maki hans, Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested sem hann kvæntist 1961, tveir sameiginlegir synir þeirra, áfrýjendurnir Sigurður Kristján og Karl Lárus, og þrjú börn Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds af fyrra hjónabandi, Magnús Sigurðsson Hjaltested og áfrýjendurnir Sigríður og Markús Ívar. Elstur þessara systkina var Magnús sem var fæddur 1941.

26. Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested voru afhent umráð og afnot Vatnsenda á skiptafundi í dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds 7. maí 1968 svo sem nánar verður rakið síðar. Magnús sat Vatnsenda frá því síðla árs 1969 og þar til hann lést 21. desember 1999. Hann mun eins og fyrri ábúendur hafa haft tekjur af sölu veiðileyfa og leigu lóða úr landi jarðarinnar.

27. Með bréfi setuskiptaráðanda í dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds 15. ágúst 1969 var svarað fyrirspurn skattstjóra og kröfu hans um skattframtal fyrir dánarbúið. Segir meðal annars í bréfi skiptaráðanda að dánarbúinu tilheyri „ákveðinn afnotaréttur jarðarinnar Vatnsenda, en hann féll til eins erfingja búsins samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dags. 4. janúar 1938. Skiptaráðandi afhenti áðurgreindum erfingja, Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested jörðina með ákvörðun skiptaréttar hinn 7. maí 1968. Þar með fylgdu að sjálfsögðu tekjur jarðarinnar svo sem leigugjöld og endurgjöld veiðileyfa [...] Landseti tók við greiðslu fyrir veiðileyfi seld á sumrinu 1968. Virðist nettófjárhæð þeirra hafa verið kr. 75.840.00. Deilt er um hvort sú fjárhæð á að renna til dánarbúsins eða til rétthafa jarðarinnar samkvæmt áðurnefndri erfðaskrá.“

28. Dómi Hæstaréttar 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968 var 25. febrúar 1971 þinglýst sem eignarheimild Magnúsar Sigurðssonar Hjaltesteds að Vatnsenda. Var nafn hans fært í dálk fyrir „nöfn eigenda“ á blaði jarðarinnar í fasteignabók með þeirri skýringu að heimild hans væri komin til fyrir erfðir. Á veðbókarvottorði dagsettu 16. desember 1974 segir að samkvæmt „afsals- og veðmálabókum Kópavogskaupstaðar vottast eftirfarandi um fasteignina Vatnsendi: 1. Að þinglesinn eigandi er Magnús Sigurðsson Hjaltested samkvæmt heimildarbréfi 30.05.69.“

29. Á árinu 1975 mun Magnús Sigurðsson Hjaltested hafa móttekið bætur frá Vatnsveitu Reykjavíkur vegna vatnslagnar í landi jarðarinnar. Þá fékk hann bætur frá Vegagerð ríkisins vegna lagningar Arnarnesvegar á árunum 1984 til 1986, sbr. úrskurð matsnefndar eignarnámsbóta 14. mars 1986.

30. Reykjavíkurborg og Magnús Sigurðsson Hjaltested undirrituðu 7. október 1987 samning um kaup borgarinnar á spildu úr landi Vatnsenda sem þá var talin 41 ha að stærð með ákveðinni óvissu þar um. Alþingi veitti með lögum nr. 22/1988 Reykjavíkurborg heimild til þess að taka spilduna eignarnámi og var afsali Magnúsar til borgarinnar þinglýst 5. júlí 1988 og hún þá tilgreind 46,3 ha. Í kjölfarið gerðu Reykjavíkurborg og stefndi samning um að 19,5 ha af spildunni skyldu koma í hlut stefnda.

31. Magnús Sigurðsson Hjaltested og Reykjavíkurborg undirrituðu 5. janúar 1990 samning um yfirtöku borgarinnar á jörðinni Vatnsenda að undanskildu 40 til 45 ha landsvæði. Í tengslum við þessa samningsgerð komu upp álitaefni varðandi forkaupsrétt Kópavogskaupstaðar að jörðinni og af kaupum varð ekki.

32. Stefndi tók á árinu 1992 eignarnámi úr landi Vatnsenda 20,5 ha spildu norðvestan við Elliðavatnsstíflu og greiddi á grundvelli sáttar 8. maí það ár 31.000.000 króna í eignarnámsbætur til Magnúsar Sigurðssonar Hjaltesteds.

33. Að fenginni heimild umhverfisráðherra 27. apríl 1998 tók stefndi eignarnámi 54,5 ha spildu úr landi Vatnsenda og greiddi á grundvelli sáttar 13. maí sama ár Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested 180.000.000 króna í eignarnámsbætur auk byggingarréttar á tilgreindum svæðum Magnúsi til handa. Með afsali 18. maí 1999 afsalaði Magnús spildunni til stefnda og var því þinglýst 22. október sama ár.

34. Með stefnu 16. nóvember 1998 höfðaði Magnús Sigurðsson Hjaltested mál á hendur Landsíma Íslands til að þola „að fellt verði úr gildi með dómi eignarnám [...] til handa Landsíma Íslands á 69,68 ha landspildu úr landi [...] Vatnsenda [...] að undanskilinni 44.079 fermetra spildu.“ Með héraðsdómi 30. september 1999 var Landsíminn sýknaður af kröfu Magnúsar og var sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar 8. mars 2001 í máli nr. 58/2000 en þá hafði Þorsteinn Hjaltested, sonur Magnúsar, tekið við aðild málsins eftir andlát föður síns.

Búsetuleyfi Kristrúnar Ólafar Jónsdóttur

35. Sem fyrr segir lést Magnús Sigurðsson Hjaltested 21. desember 1999. Erfingjar eftir hann voru eftirlifandi eiginkona hans, Kristrún Ólöf Jónsdóttir, og fjögur börn þeirra, Þorsteinn, Vilborg, Marteinn og Sigurður Kristján, og var Þorsteinn þeirra elstur fæddur 1960. Kristrún Ólöf fékk leyfi til setu í óskiptu búi eftir Magnús 19. janúar 2000 og var búsetuleyfinu þinglýst sem eignarheimild hennar að Vatnsenda degi síðar.

36. Erfingjar Magnúsar Sigurðssonar Hjaltesteds gáfu út skiptayfirlýsingu 21. nóvember 2000. Þar sagði að með yfirlýsingunni væri jörðin Vatnsendi færð af nafni Magnúsar yfir á nafn Þorsteins Magnússonar Hjaltesteds á grundvelli erfðaskrárinnar frá 1938. Undanskilin væri sú 90,5 ha spilda sem Kópavogsbær hefði tekið eignarnámi samkvæmt samningi 24. nóvember 1999 en væri óþinglýst á jörðina. Efni erfðaskrárinnar var að hluta rakið í skiptayfirlýsingunni og í lok hennar sagði að þess væri jafnframt óskað að þinglýstu leyfi Kristrúnar Ólafar Jónsdóttur til setu í óskiptu búi á jörðina Vatnsenda yrði aflýst.

37. Skiptayfirlýsingunni 21. nóvember 2000 var þinglýst 12. desember það ár sem eignarheimild Þorsteins Hjaltesteds að Vatnsenda og búsetuleyfi Kristrúnar Ólafar jafnframt aflýst. Nýtt leyfi Kristrúnar Ólafar til setu í óskiptu búi var gefið út 7. desember 2000. Þorsteinn Hjaltested tók sem fyrr segir við ábúð á Vatnsenda í desember 1999 og sat jörðina þar til hann lést 12. desember 2018.

Ráðstafanir í tíð Þorsteins Hjaltesteds

38. Á grundvelli heimildar umhverfisráðherra 13. mars 2000 tók stefndi eins og áður er nefnt eignarnámi 90,5 ha spildu úr landi Vatnsenda. Undirrituð var 1. ágúst sama ár sátt milli stefnda og dánarbús Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested um að því skyldu greiddar bætur vegna eignarnámsins að fjárhæð 237.470.007 krónur, það er 290.000.000 króna að frádregnum yfirteknum skuldum að fjárhæð 52.529.993 krónur. Jafnframt skyldi stefndi skipuleggja og úthluta nánar tilgreindum lóðum til dánarbúsins án greiðslu gatnagerðargjalda. Undir sáttina var ritað fyrir hönd Kristrúnar Ólafar Jónsdóttur samkvæmt umboði auk þess sem Þorsteinn Hjaltested ritaði undir hana. Afsal vegna spildunnar, undirritað af Þorsteini og af hálfu Kristrúnar Ólafar, var gefið út 3. maí 2004 og því þinglýst degi síðar. Í afsalinu segir að því skuli þinglýst „sem fullri eignarheimild Kópavogsbæjar að hinni eignarnumdu landspildu í samræmi við eignarnámssátt aðila frá 1. ágúst 2000“.

39. Hæstiréttur kvað upp dóm 8. mars 2001 í máli nr. 58/2000, Þorsteinn Hjaltested gegn Landsíma Íslands hf., en málið hafði faðir hans, Magnús Sigurðsson Hjaltested upphaflega höfðað eins og áður er rakið til endurheimtu lands sem tekið hafði verið eignarnámi „úr landi [...] Vatnsenda [...] samkvæmt afsali Lárusar Hjaltested [...] 4. febrúar 1947“. Með dómi Hæstaréttar var Landsíminn sýknaður af dómkröfunni.

40. Með afsali 8. október 2001 seldi og afsalaði dánarbú Magnúsar Sigurðssonar Hjaltesteds 2,2 ha spildu úr landi Vatnsenda en landinu var afsalað á grundvelli fyrrgreindrar sáttar dánarbúsins og stefnda 1. ágúst 2000 fyrir matsnefnd eignarnámsbóta. Undir afsalið ritaði vegna dánarbúsins Kristrún Ólöf Jónsdóttir og sem samþykkur samkvæmt fyrirmælum erfðaskrárinnar frá 1938 Þorsteinn Hjaltested. Afsalinu var þinglýst 22. október 2001 með svofelldri athugasemd: „Aths. Skv. þingl.bók, sbr. skjal H-310/2000, er Þorsteinn Hjaltested [...] þingl. eigandi Vatnsenda og telst því afsalsgjafi skv. ofangreindu.“

41. Landsvirkjun ákvað að leggja háspennulínu frá Hamranesi sunnan Hafnarfjarðar að stað skammt vestan Sandskeiðs og taka í því skyni eignarnámi spildu úr landi Vatnsenda í svonefndum Húsafellsbruna. Samkvæmt gögnum málsins mun stærð spildunnar samkvæmt matsgerð frá 28. júlí 2000 hafa verið talin 24,76 ha. Eignarnámsmáli af þessu tilefni lauk með sátt 5. október 2001 og greiddi Landsvirkjun alls 2.400.000 krónur í bætur til Þorsteins Hjaltesteds vegna hins eignarnumda. Í 1. gr. sáttarinnar segir að landið sé tekið undir háspennulínu til raforkuflutnings og sé ekki til neinna annarra nota eignarnema. Beinn eignarréttur fylgi ekki landinu og skuli því skilað til landeiganda þegar ekki verði þörf fyrir það lengur undir þessi tilteknu not eignarnema. Eignarnema sé heimilt að þinglýsa réttindum sínum samkvæmt sáttinni sem kvöð á jörðina Vatnsenda og var það gert 25. október 2001.

42. Þorsteinn Hjaltested og Vatni ehf., félag í eigu Þorsteins, undirrituðu 17. apríl 2002 samning um leigu Vatna ehf. á spildu úr landi Vatnsenda sem „er [...] að lágmarki 30 ha og að hámarki 80 ha“. Samkvæmt samningnum var leigutaka heimilt að bora eftir köldu vatni á leigulandinu og selja stefnda. Með samningi 22. maí 2002 keypti stefndi einkahlutafélagið Vatna af Þorsteini og greiddi fyrir 29.300.000 krónur.

43. Með auglýsingu í Lögbirtingablaði 3. mars 2004 skoraði Óbyggðanefnd á alla þá sem teldu til eignarréttinda á kröfusvæði íslenska ríkisins á Suðvesturlandi að lýsa kröfum sínum. Þorsteinn Hjaltested lýsti í framhaldinu kröfum vegna Vatnsenda.

44. Þorsteinn Hjaltested var sóknaraðili fyrir Hæstarétti, sbr. dóm réttarins 9. desember 2004 í máli nr. 477/2004. Það varðaði þinglýsingu á yfirlýsingu um uppsögn leigusamnings frá júlí 1931, sem Magnús Einarsson Hjaltested hafði gert, um spildu úr landi Vatnsenda sem síðar hlaut nafnið Elliðahvammur.

45. Í dómi Hæstaréttar 24. maí 2006 í máli nr. 210/2006 var talið að Þorsteinn Hjaltested hefði lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr ágreiningi um hvar væru syðri mörk landsvæðis þess sem tekið var eignarnámi úr landi Vatnsenda í Heiðmörk en afsal vegna spildunnar var gefið út 7. júní 1951. Kröfu Reykjavíkurborgar um frávísun málsins var hafnað. Tekið var fram í dómi Hæstaréttar að í málinu reyndi ekki á aðild annarra samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

46. Stefndi og Þorsteinn Hjaltested undirrituðu minnisblað 15. nóvember 2006 sem á því stigi var trúnaðarmál. Þar kemur fram að Þorsteinn sem landeigandi og bæjarstjóri stefnda sem eignarnemi hafi náð samkomulagi komi til þess að stefndi „afli og neyti, á næstu vikum, heimildar til eignarnáms á landi úr jörðinni Vatnsenda“. Laut samkomulagið að afmörkun landsins og endurgjaldi fyrir það en landið var talið um það bil 863 ha. Þá segir í minnisblaðinu að hinu „eignarnumda landi fylgja öll eignarréttindi, þ.m.t. vatnsréttindi, og einnig allar kvaðir hverju nafni sem nefnast. Samkomulag er um að undanskilja Elliðavatn og hlunnindi því tengd, ásamt kraga í kring um vatnið eignarnámi, sem verður þannig áfram í eigu landeiganda.“

47. Á grundvelli heimildar umhverfisráðherra 10. janúar 2007 tók stefndi 23. sama mánaðar eignarnámi 864 ha af landi jarðarinnar Vatnsenda.

48. Með bréfi 19. janúar 2007 til matsnefndar eignarnámsbóta fór Sigmundur Hannesson lögmaður þess á leit fyrir hönd áfrýjendanna Sigurðar Kristjáns og Karls Lárusar að þeir yrðu skilgreindir sem eignarnámsþolar ásamt Þorsteini Hjaltested í matsmáli nr. 1/2007 vegna fyrirhugaðs eignarnáms á um það bil 864 ha spildu úr landi Vatnsenda. Í bókun frá fundi matsnefndarinnar 8. febrúar 2007 segir að af „hálfu Matsnefndar eignarnámsbóta er ekki tekin afstaða til röksemda umbj. Sigmundar Hannessonar hrl. og telur nefndin að úr þeim ágreiningi verði ekki leyst fyrir nefndinni heldur almennum dómstólum“.

49. Með sátt 30. janúar 2007 sömdu stefndi og Þorsteinn Hjaltested um greiðslu bóta fyrir þá 864 ha spildu sem tekin var eignarnámi samkvæmt framansögðu. Skyldu 2.250.000.000 króna greiddar Þorsteini í peningum, auk byggingarréttar og hlutdeildar í skipulögðum lóðum. Peningagreiðslan var innt af hendi til Þorsteins á árinu 2007 en aðrar greiðslur samkvæmt sáttinni hafa ekki farið fram. Eignarnámssáttinni mun hafa verið þinglýst 30. mars 2007.

50. Þorsteinn Hjaltested höfðaði í maí 2018 mál til heimtu ógreiddra eftirstöðva bóta vegna eignarnámsins 23. janúar 2007 og sáttargerðarinnar 30. sama mánaðar. Eftir andlát Þorsteins tók dánarbú hans við aðild málsins sem mun vera ólokið fyrir héraðsdómi.

Ágreiningsmál tengd dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds

51. Dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested var tekið til opinberra skipta í febrúar 1967 og reis þá ágreiningur um hvernig fara skyldi með réttindi yfir Vatnsenda. Var um það deilt hvort jörðin gengi til arfs eftir Sigurð Kristján samkvæmt fyrirmælum erfðaskrárinnar frá 1938 en kröfu um það gerði elsti sonur hans, Magnús Sigurðsson Hjaltested, eða eftir almennum reglum erfðalaga, svo sem síðari eiginkona Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds krafðist ásamt sonum þeirra, Sigurði Kristjáni og Karli Lárusi.

52. Skiptadómur Kópavogs kvað 24. júlí 1967 upp úrskurð um hvernig fara skyldi með réttindi yfir Vatnsenda að Sigurði Kristjáni Lárussyni Hjaltested látnum. Var þar komist að þeirri niðurstöðu að Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested væri eins og sagði í úrskurðarorði „áskilinn réttur eftir látinn föður sinn til að taka við til ábúðar og hagnýtingar jörðina Vatnsenda [...] með þeim takmörkunum og skilmálum, sem settir eru í arfleiðsluskrá [...] 4. janúar 1938.“ Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar 5. apríl 1968 í máli nr. 110/1967.

53. Að gengnum dómi Hæstaréttar í máli nr. 110/1967 voru Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested afhent umráð og afnot jarðarinnar á skiptafundi í dánarbúinu 7. maí 1968. Var ákvörðun um það staðfest með dómi Hæstaréttar 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968.

54. Sama dag, 30. maí 1969, kvað Hæstiréttur upp dóm í máli nr. 117/1968 þar sem staðfestur var með skírskotun til forsendna úrskurður fógetaréttar þess efnis að eftirlifandi maki og seinni eiginkona Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds, Margrét Guðmundsdóttir Hjaltesteds, skyldi borin út af jörðinni. Var komist svo að orði í úrskurði fógetaréttar að seta Margrétar á jörðinni stæði í vegi fyrir rétti Magnúsar og væri ekkert fram komið um að takmarkanir og skilmálar í erfðaskránni frá 1938 hindruðu Magnús í því að taka rétt sinn.

55. Dómi Hæstaréttar 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968 var sem fyrr segir þinglýst sem eignarheimild Magnúsar Sigurðssonar Hjaltesteds að Vatnsenda 25. febrúar 1971 með því að nafn hans var fært í dálk fyrir „nöfn eigenda“ á blaði jarðarinnar í fasteignabók með þeirri skýringu að heimild hans væri komin til „fyrir erfðir“. Fyrir liggur að til samræmis við þessa færslu voru gefin út veðbókarvottorð þar sem fram kom að Magnús Sigurðsson Hjaltested væri „þinglesinn eigandi“ jarðarinnar Vatnsenda sem væri „eignarland“.

56. Magnús Sigurðsson Hjaltested höfðaði sem fyrr segir á árinu 1998 mál á hendur Landsíma Íslands með kröfu um að eignarnám það á spildu úr landi Vatnsenda sem fram fór á árinu 1947 yrði fellt úr gildi. Dómur héraðsdóms var kveðinn upp 30. september 1999 og Landsíminn sýknaður af kröfu Magnúsar. Héraðsdómi var áfrýjað til Hæstaréttar á árinu 2000 og dómur þar kveðinn upp 8. mars 2001 í máli nr. 58/2000 en þá hafði Þorsteinn Hjaltested tekið við aðild málsins að föður sínum látnum. Í dómi Hæstaréttar sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um sýknu Landsímans sagði meðal annars að Þorsteinn hefði tekið við eignarumráðum og skyldum að Vatnsenda svo sem faðir hans hefði áður haft samkvæmt erfðaskránni frá 1938. Þorsteinn hefði því að lögum sömu aðild og arftakar á undan honum höfðu til að bera ágreining um gildi eignarnámsins undir dómstóla. Yrði því ekki fallist á að sýkna bæri Landsímann vegna aðildarskorts Þorsteins. Á hinn bóginn sagði í dómi Hæstaréttar að með eignarnáminu, eftirfarandi afsali og greiðslu eignarnámsbóta hefði farið fram skilyrðislaus eignaryfirfærsla á því landi sem hér um ræddi. Telja yrði að nægilega hefði verið sýnt fram á að landið hefði eftir það verið tekið til notkunar í eðlilegu samræmi við tilgang eignarnámsins. Eignarnámsþola yrði ekki veittur réttur til að endurheimta eignarnumið land nema á grundvelli sérstakrar lagaheimildar eða vegna sérstakra aðstæðna. Þar sem hvorugs nyti við í málinu væru ekki efni til að verða við kröfu Þorsteins um að Landsímanum yrði gert að afhenda og afsala honum spildunni.

57. Áfrýjendurnir Sigurður Kristján og Karl Lárus höfðuðu mál á hendur Þorsteini Hjaltested í mars 2007 og kröfðust þess að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 1938 yrði „felld úr gildi þannig að eignum sem erfðaskráin kveður á um verði skipt eftir almennum skiptareglum erfðalaga.“ Því máli var vísað frá dómi með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 5. október 2007 sem staðfestur var með vísan til forsendna með dómi Hæstaréttar 6. nóvember sama ár í máli nr. 560/2007. Í úrskurði héraðsdóms sagði meðal annars að hin umdeilda erfðaskrá hefði þegar verið lögð til grundvallar við skipti í þremur dánarbúum. Andmælum gegn gildi hennar hefði verið hafnað við arftöku Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested fyrir 40 árum og engin andmæli hefðu komið fram við gildi erfðaskrárinnar við skipti á dánarbúi Magnúsar árið 2000. Jafnframt sagði að stefnendur „hafa í engu leitast við að gera fyrir því grein að þrátt fyrir allt framangreint standi til þess heimildir að lögum að ógilda erfðaskrána með þeim réttarverkunum sem í kröfugerð þeirra felast og að þær eignir sem hún tekur til eigi þannig að ganga til erfingja Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested eftir almennum reglum.“

58. Áfrýjendurnir Sigurður Kristján og Karl Lárus ásamt áfrýjandanum Sigríði kröfðust þess 23. desember 2008 að dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds yrði tekið til opinberra skipta. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 29. september 2009 var kröfunni hafnað á þeirri forsendu að skiptum á dánarbúinu væri lokið. Úrskurði héraðsdóms var skotið til Hæstaréttar sem í dómi 13. nóvember sama ár í máli nr. 599/2009 vísaði til þess að samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila væri þessi krafa reist á því að nánar tilgreindar athuganir þeirra hefðu ekki leitt til annarrar niðurstöðu en að dánarbúið hefði verið tekið til opinberra skipta en jafnframt að skiptum væri ekki lokið. Þá sagði í dómi Hæstaréttar að án „tillits til þess hvort þessi ályktun sóknaraðila geti talist á rökum reist er óhjákvæmilegt að gæta að því að sé rétt með farið að opinberum skiptum á dánarbúi Sigurðar hafi aldrei verið lokið leiðir af sjálfu að þau stæðu enn yfir, sbr. og 148. gr. laga nr. 20/1991. Við svo búið væri útilokað að taka dánarbúið með dómsúrlausn aftur til opinberra skipta. Þegar af þeirri ástæðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.“

59. Þar sem opinberum skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds sem hófust á árinu 1967 var ekki lokið féllst Hæstiréttur með dómi 24. ágúst 2011 í máli nr. 375/2011 á kröfu hluta erfingja Sigurðar um að skipa skiptastjóra í búinu.

60. Í framhaldi af skipun skiptastjóra kom upp ágreiningur um hvort jörðin Vatnsendi væri enn í eigu dánarbús Sigurðar Kristjáns og gæti því ekki talist háð beinum eignarrétti Þorsteins Hjaltested. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 16. nóvember 2012 var komist að þeirri niðurstöðu að jörðin „Vatnsendi [...] ásamt öllu því er eigninni fylgir og fylgja ber, skal vera meðal eigna dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested“. Úrskurður héraðsdóms var kærður til Hæstaréttar sem með dómi 3. maí 2013 í máli nr. 701/2012 komst að þeirri niðurstöðu að beinn eignarréttur að Vatnsenda hefði í kjölfar andláts Magnúsar Einarssonar Hjaltested á grundvelli erfðaskrárinnar frá 1938 færst til Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og væri enn á hendi dánarbús hans. Í dómi Hæstaréttar sagði svo eftir að atvik málsins höfðu verið rakin: „Að þessu öllu gættu er ekki unnt að líta svo á að fyrirliggjandi gögn standi til þess að álykta að Magnús Sigurðsson Hjaltested hafi öðlast beinan eignarrétt að jörðinni Vatnsenda með ákvörðun skiptaráðanda 7. maí 1968, sem Hæstiréttur staðfesti í dómi 30. maí 1969. Því hefur ekki verið borið við í málinu að Magnús hafi á annan hátt tekið við slíkum rétti að jörðinni af dánarbúinu og verður því til samræmis að telja það enn hafa á sinni hendi þann rétt, sem ráðstafa verður til að ljúka skiptum lögum samkvæmt.“ Í dómsorði segir að „við opinber skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested telst beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda í Kópavogi enn vera á hendi dánarbúsins.“

61. Sýslumaðurinn í Kópavogi hafnaði 21. júní 2013 þeirri beiðni skiptastjóra dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds að skrá búið sem þinglýstan eiganda jarðarinnar Vatnsenda. Ákvörðun sýslumanns kærðu erfingjar í búinu til Héraðsdóms Reykjaness sem með úrskurði 7. nóvember 2013 komst að þeirri niðurstöðu að skráning í þinglýsingabók að því er varðaði jörðina væri rétt og því hefði verið rétt af sýslumanni að hafna kröfunni. Með dómi Hæstaréttar 6. desember 2013 í máli nr. 740/2013 var til samræmis við dóm réttarins í máli nr. 701/2012 lagt fyrir sýslumann að færa nafn dánarbúsins í fasteignabók sem eiganda jarðarinnar og varð hann við því. Segir í dómsorði Hæstaréttar að sýslumanninum í Kópavogi beri „að færa heiti dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested sem eiganda á blað í fasteignabók fyrir jörðina Vatnsenda í Kópavogi á grundvelli þinglýsingar á dómi Hæstaréttar 3. maí 2013 í máli nr. 701/2012.“

62. Með frumvarpi skiptastjóra 15. apríl 2014 til úthlutunar úr dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds var eign búsins, sem var beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda, úthlutað til Þorsteins Hjaltesteds. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 6. nóvember 2014 var frumvarpið staðfest. Úrskurði héraðsdóms var skotið til Hæstaréttar sem í dómi 5. mars 2015 í máli nr. 751/2014 sagði að ákvæði laga nr. 20/1991 stæðu „því í vegi að dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested geti átt sér tilvist um ókominn tíma í því skyni að hafa á hendi bein eignarréttindi yfir jörðinni Vatnsenda. Með því að ekki er mælt fyrir í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested um afdrif þeirra réttinda verður að ráðstafa þeim til lögerfingja Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested eftir almennum reglum I. kafla erfðalaga. Þegar af þessari ástæðu verður að fella úr gildi frumvarp skiptastjóra [...] til úthlutunar úr dánarbúinu þannig að farið verði með það upp frá þessu út frá þessum forsendum og eftir þeim aðferðum, sem fyrr hefur verið getið, áður en frumvarp verður gert á ný til úthlutunar.“ Í dómi Hæstaréttar var tekið fram að með dómi réttarins 3. maí 2013 í máli nr. 701/2012 hafi því verið slegið föstu að beinn eignarréttur að Vatnsenda væri enn á hendi dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Af því leiddi að varnaraðila „stoðar ekki að bera því nú við að Magnús Sigurðsson Hjaltesteds hafi fyrir hefð unnið beinan eignarrétt að jörðinni, enda var gefið tilefni til að halda slíkri málsástæðu fram í því máli og er hún þannig of seint fram komin í þessu máli.“

63. Í dómi Hæstaréttar 16. júní 2016 í máli nr. 408/2016 var mælt fyrir um það í hvaða hlutföllum skyldi skipta eignum dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds milli tilgreindra lögerfingja.

64. Með dómi Hæstaréttar 12. mars 2015 í máli nr. 167/2015 var hafnað kröfu tveggja erfingja í dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds um að tilgreining jarðarinnar Vatnsenda í fasteignabók skyldi vera með nánar tilteknum hætti og að skiptayfirlýsingin frá 21. nóvember 2001 um réttindi Þorsteins Hjaltesteds yfir Vatnsenda yrði afmáð úr fasteignabók. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars um seinni kröfuna: „Að gengnum dómi Hæstaréttar 3. maí 2013 verður að líta svo á að sú skiptayfirlýsing hafi eingöngu fært í hendur varnaraðilans Þorsteins réttindi til umráða og afnota fasteignarinnar Vatnsenda, en ekki beinan eignarrétt að henni. Þau réttindi fela á hinn bóginn í sér afnotarétt að fasteign, sem háður er þinglýsingu samkvæmt gagnályktun frá 1. mgr. 31. gr. þinglýsingalaga. Eru því engin efni til að verða við kröfu sóknaraðila um að skiptayfirlýsingin [...] verði afmáð úr fasteignabók. Samkvæmt framansögðu verður hafnað þeim kröfum, sem sóknaraðilar hafa gert í málinu.“

65. Með dómi Hæstaréttar 12. nóvember 2015 í máli nr. 706/2015 var felld úr gildi sú ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi að afmá úr þinglýsingabók sáttargerð 30. janúar 2007 sem gerð var í kjölfar þess að umhverfisráðherra veitti stefnda 10. janúar 2007 heimild til eignarnáms á 864 ha spildu úr landi Vatnsenda. Sagði í dómi Hæstaréttar að stefnda hefði verið rétt að þinglýsa sáttargerðinni enda væri vernd réttinda hans samkvæmt henni háð þinglýsingu og væru engin rök til að telja þörf á þeirri vernd liðna undir lok.

66. Mál það sem hér er til úrlausnar var höfðað 28. apríl 2014. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness var því vísað frá dómi vegna vanreifunar. Sá úrskurður var kærður til Hæstaréttar sem með dómi 16. mars 2016 í máli nr. 121/2016 felldi hann úr gildi og lagði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Í dómi Hæstaréttar sagði að það væri ekki sóknaraðilanna, sem stæðu að málsókninni í þágu dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds sem handhafa hins beina eignarréttar að jörðinni, að sýna fram á hvað fælist í þeim rétti, heldur réðist inntak hans af því hvert væri eðli og umfang þeirra óbeinu eignarréttinda yfir jörðinni Vatnsenda sem mælt væri fyrir um að koma skyldu í hlut Sigurðar Kristjáns og nánar greindra ættingja Magnúsar Einarssonar Hjaltesteds í erfðaskrá hans frá 1938. Úrlausn þess réðist fyrst og fremst af skýringu á ákvæðum erfðaskrárinnar og síðan eftir atvikum af mati á því tjóni sem handhafar hinna óbeinu eignarréttinda hefðu orðið fyrir vegna umrædds eignarnáms.

67. Þorsteinn Hjaltested þingfesti 26. apríl 2017 fyrir Héraðsdómi Reykjaness meðalgöngusök í máli því sem hér er til úrlausnar. Héraðsdómur vísaði meðalgöngusökinni frá með úrskurði 8. nóvember 2017. Með dómi Hæstaréttar 14. desember 2017 í máli nr. 711/2017 var úrskurðurinn staðfestur.

68. Eftir andlát Þorsteins Hjaltesteds árið 2018 lýsti sonur hans, Magnús Pétur Hjaltested, 2. september 2019 eins og áður getur kröfu í dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds og krafðist á grundvelli erfðaskrárinnar frá 1938 að búið afhenti honum beinan eignarrétt að jörðinni Vatnsenda með þeim skilyrðum og takmörkunum sem erfðaskráin geymdi. Ágreiningi þar að lútandi var vísað til héraðsdóms sem með úrskurði 24. júní 2020 hafnaði kröfunni. Þá niðurstöðu staðfesti Landsréttur með úrskurði 13. nóvember 2020 í máli nr. 421/2020 með þeim rökstuðningi að af dómaframkvæmd Hæstaréttar í tilgreindum málum leiddi að Magnús Pétur gæti ekki átt tilkall til beins eignarréttar að Vatnsenda á grundvelli erfðaskrárinnar frá 1938 en hann hefði hins vegar með henni öðlast rétt til umráða og afnota af jörðinni við andlát föður síns.

Málaferli tengd dánarbúi Þorsteins Hjaltesteds

69. Þorsteinn Hjaltested höfðaði í maí 2018 mál á hendur stefnda til heimtu ógreiddra eftirstöðva bóta samkvæmt eignarnáminu 23. janúar 2007 og sáttargerðinni 30. sama mánaðar. Eftir andlát Þorsteins tók dánarbú hans við aðild málsins og mun því ólokið fyrir héraðsdómi eins og áður segir.

70. Þorsteinn Hjaltested lést 12. desember 2018. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 23. október 2019 var dánarbú hans tekið til opinberra skipta. Á skiptafundi í dánarbúinu 26. febrúar 2020 gerði skiptastjóri grein fyrir því að hann hefði tilkynnt Héraðsdómi Reykjaness þá ákvörðun sína að fara með búið samkvæmt ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991.

71. Magnús Pétur Hjaltested lýsti 1. nóvember 2019 kröfu í dánarbú föður síns, Þorsteins Hjaltesteds, og krafðist þess á grundvelli erfðaskrárinnar frá 1938 að skiptastjóri afhenti honum jörðina Vatnsenda „með öllu því sem henni fylgir og fylgja ber til ábúðar og hagnýtingar, umráða og afnota samkvæmt þeim réttindum sem honum væru áskilin sem erfingja samkvæmt erfðaskránni“. Jafnframt krafðist hann þess að ógreiddar bætur vegna eignarnáms stefnda á landi jarðarinnar árið 2007 teldust með umráða- og afnotarétti jarðar hans. Skiptastjóri samþykkti kröfu Magnúsar Péturs um afhendingu jarðarinnar en hafnaði því að réttur til bótanna félli þar undir. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 17. maí 2021 var viðurkennt að skiptastjóra dánarbúsins bæri að afhenda Magnúsi Pétri jörðina Vatnsenda til ábúðar, hagnýtingar, umráða og afnota í samræmi við fyrirmæli erfðaskrárinnar og var sú niðurstaða staðfest með úrskurði Landsréttar 16. september 2021 í máli nr. 351/2021 eins og áður er rakið.

72. Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði 26. maí 2021 að viðurkennt væri að Magnúsi Pétri Hjaltested „tilheyri réttur til ógreiddra eftirstöðva eignarnámsbóta vegna eignarnáms Kópavogsbæjar á landi Vatnsenda samkvæmt eignarnámsheimild frá 10. janúar 2007, sbr. sáttargerð frá 30. janúar 2007, að undanskildum lið 2.2.3 í sáttargerðinni sem viðurkennt er að tilheyri þrotabúi Þorsteins Hjaltested.“ Úrskurðinum var skotið til Landsréttar sem með úrskurði 11. október 2021 í máli nr. 383/2021 vísaði málinu frá héraðsdómi. Úrskurði Landsréttar var skotið til Hæstaréttar sem með dómi 24. nóvember 2021 í máli nr. 45/2021 felldi hann úr gildi og lagði fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Með úrskurði 16. desember 2021 staðfesti Landsréttur fyrrgreinda niðurstöðu héraðsdóms frá 26. maí 2021. Með dómi Hæstaréttar 8. mars 2022 í máli nr. 9/2022 var niðurstaða Landsréttar staðfest.

73. Með beiðni í nóvember 2021 fóru erfingjar í dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds þess á leit við skipaða úttektarmenn samkvæmt 39. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004 að þeir framkvæmdu úttekt á jörðinni Vatnsenda. Skiptastjóri í dánarbúi Þorsteins Hjaltesteds tók þá ákvörðun að synja úttektarmönnum og umboðsmönnum um aðgang að jörðinni. Ágreiningur um þetta var borinn undir Héraðsdóm Reykjaness sem með úrskurði 22. október 2021 hafnaði því að fella ákvörðun skiptastjóra úr gildi. Úrskurður héraðsdóms var borinn undir Landsrétt sem með úrskurði 17. desember 2021 í máli nr. 677/2021 vísaði málinu frá Landsrétti. Ástæða þess var sú að með úrskurði Landsréttar 16. september 2021 í máli nr. 351/2021 hefði endanlega verið skorið úr því að dánarbú Þorsteins Hjaltesteds skyldi afhenda Magnúsi Pétri Hjaltested jörðina á grundvelli sértökuréttar. Úrskurði Landsréttar var skotið til Hæstaréttar sem með dómi 20. janúar 2022 í máli nr. 1/2022 staðfesti hinn kærða úrskurð. Segir í dómi Hæstaréttar að þar sem varnaraðilinn, þrotabú Þorsteins Hjaltesteds, hafi ekki umráð Vatnsenda hafi sóknaraðilar ekki hagsmuni af því að fá endurskoðaðan úrskurð héraðsdóms um kröfu þeirra á hendur varnaraðila enda yrði slíkum úrskurði ekki framfylgt gagnvart þeim sem nú hafi umráðin. Sé þá þess að gæta að réttur til umráða jarðarinnar hafi aldrei fallið til varnaraðila og því verði aðild málsins ekki reist á þeirri meginreglu sem sé að finna í 1. mgr. 23. gr. laga nr. 91/1991.

Matsgerð um virði beinna og óbeinna eignarréttinda að Vatnsenda

74. Í hinum áfrýjaða dómi er ítarlega gerð grein fyrir matsgerð þeirri sem aflað var undir rekstri málsins í héraði, forsendum hennar og niðurstöðum.

Niðurstaða

Afmörkun á úrlausnarefni málsins

75. Á grundvelli lagaheimilda sem ekki hafa verið bornar brigður á tók stefndi eignarnámi fjórar spildur úr landi jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi á árunum 1992, 1998, 2000 og 2007. Í framhaldi sáttargerða milli stefnda sem eignarnema og ábúenda Vatnsenda sem eignarnámsþola voru eignarnámsbætur umrædd fjögur skipti greiddar ábúendunum.

76. Áfrýjendur, sem standa til arfs í dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds, höfða mál þetta búinu til hagsbóta, sbr. 3. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Telja þeir að stefndi hafi við eignarnám umræddra spildna, í heimildarleysi og gegn betri vitund greitt röngum aðilum bæturnar þar sem dánarbúinu sem handhafa beins eignarréttar að jörðinni Vatnsenda og því einu hafi borið þær allar.

77. Málsókn áfrýjenda er aðallega á því reist að með greiðslu eignarnámsbóta til rangs aðila hafi stefndi ekki losnað undan greiðsluskyldu sinni til þeirra aðila sem að lögum báru bæturnar. Telja áfrýjendur dánarbúið samkvæmt því óbundið af samningum og sáttargerðum stefnda við ábúendur Vatnsenda um greiðslu bótanna. Til vara er á því byggt að dánarbúið eigi rétt til skaðabóta sömu fjárhæðar og eignarnámsbæturnar vegna þess tjóns sem stefndi hafi valdið því með saknæmum og ólögmætum hætti með greiðslu til rangs aðila.

78. Því til stuðnings að stefndi hafi gegn betri vitund greitt eignarnámsbætur til rangs aðila vísa áfrýjendur í fyrsta lagi til þess að þinglýsingabækur og vottorð samkvæmt þeim hafi gefið til kynna að verulegur vafi léki á um rétt ábúenda Vatnsenda til bótanna. Hafi þetta fellt sérstaka varúðar- og rannsóknarskyldu á stefnda sem hann hafi ekki sinnt. Í annan stað hafi allt frá 1992 verið vísað til erfðaskrárinnar frá 1938 í samskiptum stefnda og ábúenda sem einnig hafi kallað á aukna varúðar- og rannsóknarskyldu stefnda. Í þriðja lagi hafi stefnda vegna þess vafa, sem upp kom á árinu 2007 um aðild að eignarnámsmáli því sem þá var rekið, borið að gæta sérstakrar varúðar við greiðslu eignarnámsbóta til ábúanda en það hafi hann ekki gert.

79. Stefndi gerir aðallega þá dómkröfu að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að staðfest verði niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu.

80. Sýknukrafa stefnda er í fyrsta lagi á því reist að dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds hafi ekki orðið fyrir neinu fjártjóni við eignarnám bæjarins. Samkvæmt erfðaskránni frá 1938 tilheyri bætur vegna eignarnáms á spildum úr landi Vatnsenda þeim sem á hverjum tíma fari með umráð og afnot jarðarinnar, það er handhafa óbeinna eignarréttinda. Þótt beinn eignarréttur að jörðinni hafi við andlát Magnúsar Einarssonar Hjaltesteds færst til Sigurðar Kristjáns hafi ábúðar- og hagnýtingarrétturinn þá strax verið skilinn frá beina eignarréttinum. Sá réttur hafi að Magnúsi látnum fyrst komið í hlut Lárusar Hjaltesteds, að honum frágengnum færst til Sigurðar Kristjáns sem næsta ábúanda, því næst til Magnúsar sonar hans og svo áfram koll af kolli eftir þeirri röð sem erfðaskráin mælti fyrir um. Hinn beini eignarréttur dánarbúsins hafi því frá upphafi aðeins verið formlegs eðlis og án fjárgildis.

81. Í annan stað vísar stefndi til þess að hann hafi í góðri trú greitt eignarnámsbætur til þess sem á hverjum tíma hafði þinglýsta eignarheimild að Vatnsenda. Af reglum um jákvæðan áreiðanleika þinglýsingabóka, sbr. 33. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, leiði að stefnda hafi verið rétt að ganga til samninga við þann sem á hverjum tíma var skráður eigandi jarðarinnar í þinglýsingabók. Í þriðja lagi er á því byggt að ábúandi jarðarinnar hafi hefðað bein eignarréttindi dánarbúsins yfir Vatnsenda, í fjórða lagi að kröfur vegna eignarnáms á árunum 1992, 1998 og 2000 séu fyrndar og í fimmta lagi að allar kröfur sem dánarbúið kynni að hafa átt rétt til úr hendi stefnda séu fallnar niður vegna tómlætis dánarbúsins um gæslu réttar síns.

Frávísunarkrafa stefnda

82. Mál þetta var sem fyrr segir höfðað 28. apríl 2014 af áfrýjendum aðallega á hendur Kópavogsbæ en til vara Þorsteini Hjaltested. Við andlát Þorsteins 12. desember 2018 tók dánarbú hans við aðild í málinu. Við upphaf aðalmeðferðar í héraði 1. desember 2020 féllu áfrýjendur, stefnendur í héraði, frá kröfum á hendur dánarbúi Þorsteins. Frávísunarkrafa stefnda byggir einkum á því að aðild dánarbúsins sé nauðsynleg þar sem það telji sig eiga rétt til hluta af þeim eignarnámsbótum sem um sé deilt. Í annan stað er á því byggt að málið sé vanreifað þar sem áfrýjendur hafi hvorki sett fram kröfugerð sem byggi á fyrirliggjandi matsgerð dómkvaddra manna né öðrum haldbærum sönnunargögnum.

83. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að hafna beri frávísunarkröfu stefnda.

Niðurstaða um fyrningu, tómlæti, hefð og grandsemi

84. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að kröfur sem dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds kann að hafa átt á hendur stefnda vegna eignarnáms á spildum úr landi Vatnsenda á árunum 1992, 1998 og 2000 séu fyrndar og beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna af þeim en að ófyrnd sé krafa sem dánarbúið kynni að eiga vegna eignarnámsins 2007.

85. Einnig er með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms staðfest sú niðurstaða að áfrýjendur hafi ekki sýnt af sér tómlæti við að halda fram rétti dánarbúsins til hugsanlegra bóta vegna eignarnámsins 2007.

86. Þá er með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms staðfest sú niðurstaða að stefndi geti ekki borið fyrir sig að ábúandi Vatnsenda hafi öðlast beinan eignarrétt að jörðinni á grundvelli hefðar enda hefur þegar verið skorið úr því með dómi Hæstaréttar í máli nr. 701/2012 að beinn eignarréttur að jörðinni tilheyri dánarbúinu.

87. Loks er með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms staðfest sú niðurstaða að stefndi hafi við eignarnámið 2007 mátt vita um hugsanlegan rétt dánarbúsins til eignarnámsbótanna og geti því ekki byggt kröfu um sýknu á 33. gr. þinglýsingalaga.

Niðurstaða um inntak beinna og óbeinna eignarréttinda yfir Vatnsenda

88. Að framangreindri niðurstöðu fenginni kemur næst til úrlausnar sú málsástæða stefnda að sýkna beri hann af dómkröfu áfrýjenda þar sem dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds hafi ekki orðið fyrir neinu fjártjóni við eignarnámið 2007. Eins og áður greinir er þessi málsástæða á því reist að beinn eignarréttur dánarbúsins yfir Vatnsenda sé einvörðungu formlegs eðlis og hafi ekki í sér fólgið neitt fjárgildi. Skorti því á það frumskilyrði fyrir greiðslu eignarnámsbóta að dánarbúið hafi beðið fjártjón við eignarnámið.

89. Niðurstaða um framangreint ræðst af efnislegu inntaki beinna og óbeinna eignarréttinda yfir Vatnsenda svo sem þau voru mörkuð með erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltesteds 1938. Við úrlausn þess hvaða eignarréttarlegu heimildir fylgja beinu eignarréttindunum yfir jörðinni andspænis þeim óbeinu ráða, auk fyrirmæla erfðaskrárinnar, öðru fremur grundvallarreglur íslenskrar réttarskipunar um form og inntak eignarréttinda svo sem þær hafa þróast í tímans rás. Þá er og til þess að líta að Hæstiréttur hefur í fjölmörgum dómum sínum allt frá árinu 1968, sem gerð er grein fyrir hér að framan, þegar tekið afstöðu til ýmissa atriða sem þýðingu hafa við úrlausn máls þessa og ekki verður hróflað við, sbr. 116. gr. laga nr. 91/1991.

90. Í norrænum rétti og þar með töldum íslenskum hefur hugtakið eign verið skilgreint á þann veg að um sé að ræða hvers konar fjárhagsleg gæði sem njóta verndar réttarreglna og tilheyra ákveðnum aðila með þeim hætti að eðlilegt sé að telja þau eign hans. Gildir þá einu hvort þessi gæði hvíla á einkaréttarlegum grunni eða ákvæðum laga. Að sama skapi hefur hugtakið eignarréttur verið skilgreint sem hinn almenni og víðtæki réttur eiganda til ráðstöfunar og umráða yfir því verðmæti sem telst eign hans.

91. Það er almennt einkenni eignarréttinda að þau hafa í sér fólgið fjárgildi og verða samkvæmt því metin til fjár á peningalegan mælikvarða. Þá er það og annað megineinkenni eignarréttinda að þau eru færanleg frá einum aðila til annars en í því felst að aðilaskipti geta orðið að þeim. Um eignarréttindi getur eigi að síður verið að ræða þótt þessi einkenni séu ekki til staðar, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar Danmerkur í málum þeim sem varða afhendingu íslensku handritanna og bótaskyldu af því tilefni og birtir eru í UfR 1967.22 og UfR 1971.299, og til athugunar dóma Hæstaréttar 21. febrúar 2008 í málum nr. 644/2006 og 645/2006.

92. Lengi vel var hugtakið eignarréttur skilgreint í íslenskum rétti með jákvæðum hætti, það er með upptalningu þeirra heimilda sem í eignarrétti voru taldar felast. Í seinni tíð hefur áherslan í löggjöf, dómaframkvæmd og fræðikenningum fremur verið lögð á neikvæða skilgreiningu hugtaksins. Samkvæmt henni er eignarréttur skilgreindur sem réttur eiganda til hvers konar umráða og ráðstafana yfir verðmæti sem telst eign hans að svo miklu leyti sem því eru ekki settar sérstakar skorður í lögum eða vegna réttinda sem stofnað hefur verið til yfir eigninni með samningum, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 121/2016. Þar segir að í beinum eignarrétti felist „almenn heimild þess, er slíks réttar nýtur, til að hagnýta eignina og ráðstafa henni með þeim takmörkunum sem leiðir af lögum og óbeinum eignarréttindum annarra.“

93. Þótt neikvæð skilgreining eignarréttarhugtaksins sé samkvæmt framansögðu almennt lögð til grundvallar hér á landi er eigi að síður samstaða um hverjar séu mikilvægustu heimildirnar sem eignarrétti fylgja. Þær felast í umráða-, hagnýtingar-, ráðstöfunar-, skuldsetningar-, arfleiðslu- og verndarrétti eigandans.

94. Eignarráð yfir tilteknu verðmæti skiptast oft á hendur fleiri aðila með þeim hætti að hver hefur yfir að ráða ákveðinni tegund eignarheimilda. Yfirleitt er þá um tvo aðila að ræða, annars vegar eiganda verðmætis sem handhafa beins eignarréttar og hins vegar rétthafa sem handhafa takmarkaðra heimilda yfir eigninni. Eru þær heimildir ýmist nefndar óbein eða takmörkuð eignarréttindi, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 121/2016 en þar segir að í „lögum er handhafi beins eignarréttar oft sagður eigandi að eign, en handhafi óbeinna eignarréttinda nefndur rétthafi, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms“. Stundum er komist svo að orði að aðeins einn sé eigandi eignar nema um sameign sé að ræða en aðrir geti átt nánar tiltekin réttindi yfir eigninni og beri að skoða þá sem rétthafa. Sjá til dæmis 1. mgr. 40. gr. vegalaga nr. 80/2007 þar sem ræðir um landeiganda annars vegar og ábúanda og aðra rétthafa hins vegar.

95. Handhafi beins eignarréttar nýtur almennt allra þeirra eignarréttarlegu heimilda yfir eign sem lög og samningar ekki takmarka. Það er á hinn bóginn almennt einkenni óbeinna eignarréttinda að þau veita einvörðungu afmarkaðar heimildir sem skilgreindar eru með jákvæðum hætti. Óbein eignarréttindi fela því að jafnaði í sér hlutdeild rétthafans í víðtækari heimildum eigandans og nýtur rétthafinn þá heimilda sinna fyrir milligöngu og í skjóli eigandans. Þá er það og almennt einkenni á innbyrðis sambandi beinna og óbeinna eignarréttinda að eftir því sem þau síðarnefndu þrengjast eða falla niður þá rýmkast að sama skapi heimildir þess sem fer með beina eignarréttinn.

96. Þar sem til óbeinna eignarréttinda er að jafnaði stofnað í skjóli beinna er það almennt svo að óbeinu réttindin eru efnisminni en þau beinu. Þó getur í vissum tilvikum verið örðugt að draga á þeim grundvelli skýr mörk á milli beinna og óbeinna eignarréttinda vegna þess hve ríkra heimilda handhafar óbeinna eignarréttinda geta notið andspænis þeim beinu, sbr. dóma Hæstaréttar 5. mars 2009 í máli nr. 426/2008, 20. febrúar 2014 í máli nr. 99/2014 og 30. apríl 2014 í máli nr. 227/2014. Þá eru þess dæmi að handhafar óbeinna eignarréttinda njóti svo víðtækra heimilda yfir eign að beini eignarrétturinn verði í reynd í aukahlutverki, sbr. umfjöllun í dómi Hæstaréttar 12. júní 2019 í máli nr. 8/2019. Eins kann innbyrðis sambandi beinna og óbeinna eignarréttinda yfir tilteknu verðmæti að vera svo háttað að jafnvel þótt óbeinu eignarréttindin falli niður eða þrengist þá rýmkist ekki að sama skapi réttindi handhafa beina eignarréttarins heldur falli þau óbeinu í hlut annars aðila, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 751/2014.

97. Í ráðstöfunarrétti eiganda felst heimild hans til þess að ráðstafa eign með löggerningi. Í skjóli þess réttar getur eigandinn ákveðið að framselja réttindi yfir eigninni í heild með sölu eða ráðstafa þeim að hluta með stofnun takmarkaðra eignarréttinda. Með sama hætti getur eigandinn í skjóli arfleiðsluréttar innan marka erfðalaga ráðstafað eign með erfðagerningi, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 751/2014 en þar segir að erfðir séu að lögum „meðal þeirra atvika, sem leitt geti til þess að beinn eignarréttur færist milli manna, og er það jafnframt eitt helsta einkenni þeirra“.

98. Þegar eigandi verðmætis ráðstafar því til annars hvort sem það gerist með yfirfærslugerningi í lifanda lífi eða erfðagerningi getur eigandinn svo gilt sé að lögum bundið yfirfærsluna ýmsum skilyrðum. Þau geta lotið að takmörkunum á ráðstöfunarrétti framsalshafans og fullnusturétti skuldheimtumanna, sbr. dóma Hæstaréttar 3. júní 1986 í málum nr. 79/1983 og 80/1983 sem birtir eru í dómasafni réttarins 1986 á bls. 958 og 962. Einnig geta skilyrðin lotið að fyrirkomulagi eignarhalds yfir verðmætinu. Að gættum lög- og samningsbundnum takmörkunum á heimild til ráðstöfunar stendur hvorki rökbundin nauðsyn til þess að það form eignarhalds sem valið er falli að hefðbundnum eignarformum né að til sé að dreifa settum lagareglum um það. Sjá til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 20. maí 2020 í máli nr. 8/2020.

99. Með erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltesteds 1938 voru eins og segir í dómi Hæstaréttar í máli nr. 740/2013 lagðar margvíslegar kvaðir á arfinn sem hún færði Sigurði Kristjáni Lárussyni Hjaltested. Í meginatriðum fólust þær í banni við ráðstöfun Vatnsenda í lifanda lífi erfingjans og takmörkunum á heimild hans til að veðsetja jörðina, svo og skyldu hans til að hafa búsetu á henni og reka þar búskap. Þó mátti hann leigja út hluta landsins og hafa af því arð, jafnframt því sem hann skyldi eiga tilkall til bóta fyrir landspjöll. Auk þessa var arfurinn bundinn þeirri kvöð að erfinginn mætti ekki ráðstafa jörðinni að sér látnum með erfðagerningi. Þessar kvaðir áttu ekki einungis að gilda gagnvart Sigurði Kristjáni einum því að fyrirmæli voru um það hvert réttindi yfir jörðinni ættu að renna eftir hans dag og að kvaðir ættu að gilda gagnvart þeim sem í hans stað kæmu.

100. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 751/2014 er tekið fram að af dómi réttarins 5. apríl 1968 í máli nr. 110/1967 leiði að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltesteds ráði því svo langt sem hún nái hvernig farið verði með réttindi yfir Vatnsenda við skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Í dóminum frá 1968 hafi verið leyst úr því að erfðaskráin 1938 sé gild, hún geti að lögum gilt við skipti eftir þann sem hlotið hafi arf eða önnur réttindi samkvæmt henni, engu breyti í því sambandi þótt sá láti eftir sig skylduerfingja og kvaðir á réttindum sem erfðaskráin tekur til hafi ekki fallið niður á grundvelli 3. mgr. 50. gr., sbr. 52. gr. erfðalaga nr. 8/1962 við andlát Sigurðar Kristjáns. Sama afstaða til gildis erfðaskrárinnar kemur einnig fram í dómi Hæstaréttar í máli nr. 560/2007.

101. Af erfðaskránni 1938 verður skýrlega ráðið, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 751/2014, að vilji arfleifanda hafi staðið til þess að jörðin Vatnsendi yrði til afnota um ókominn tíma einum manni í senn af ætt arfleifanda fyrir búskap, sá maður hefði að öðru leyti arð af henni innan þeirra marka sem kvaðir samkvæmt erfðaskránni gæfu svigrúm til og að þessi réttindi færðust síðan mann fram af manni eftir reglum erfðaskrárinnar. Af þessum arfleiðsluvilja leiddi ekki óhjákvæmilega eins og segir í síðastgreindum dómi að beinn eignarréttur að jörðinni þyrfti á hverjum tíma að fara saman við handhöfn þessara réttinda.

102. Fram kemur í dóminum í máli nr. 751/2014 að Magnús Einarsson Hjaltested hafi ekki látið „eftir sig skylduerfingja og verður ekki séð að nokkuð annað hafi verið því í vegi að hann ráðstafaði eignum sínum á þennan hátt til Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested“.

103. Í erfðaskránni 1938 var ekki aðeins kveðið á um hvernig fara ætti með réttindi yfir Vatnsenda að rétthafa látnum. Þar var einnig mælt fyrir um að rétthafi gæti af tilteknum ástæðum glatað þessum réttindum í lifanda lifi með þeim afleiðingum að þau myndu þá ganga til næsta manns í karllegg í erfðaröðinni á sama hátt og væri rétthafinn látinn. Segir í dómi Hæstaréttar í máli nr. 751/2014 að gæta verði að því „að fyrirmæli erfðaskrárinnar um þennan réttindamissi skiptu verulega miklu við að tryggja að rétthafi á hverjum tíma virti kvaðir samkvæmt henni [...] Það er ekki aðeins meginregla í íslenskum erfðarétti að skýra verði erfðaskrá með tilliti til vilja arfleifanda [...] heldur einnig [...] þannig að hún geti haldið gildi sínu og verði framkvæmd eins og frekast er unnt. Eins og erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested var úr garði gerð verða þessar meginreglur að leiða til þeirrar niðurstöðu að hún verði skýrð þannig að réttindi, sem hún veiti rétthöfum að Sigurði Kristjáni Lárussyni Hjaltested liðnum, séu bundin við þau, sem þar er berum orðum mælt fyrir um, og þau nái þar með ekki til beinna eignarréttinda yfir jörðinni Vatnsenda.“

104. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 701/2012 er því slegið föstu að beinn eignarréttur yfir jörðinni Vatnsenda hafi í kjölfar andláts Magnúsar Einarssonar Hjaltesteds á árinu 1940 færst til Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds á grundvelli erfðaskrár Magnúsar frá 1938 og sé nú á hendi dánarbús Sigurðar Kristjáns. Jafnframt hefur Hæstiréttur lagt til grundvallar, sbr. dóm í máli nr. 751/2014, að ákvæði laga nr. 20/1991 standi því í vegi að dánarbúið geti átt sér tilvist um ókominn tíma í því skyni að hafa á hendi bein eignarréttindi yfir jörðinni Vatnsenda. Þá hefur Hæstiréttur lagt til grundvallar að réttindi ábúenda jarðarinnar Vatnsenda beri að skilgreina sem óbein eignarréttindi, sbr. dóma réttarins í málum nr. 740/2013 og nr. 121/2016. Því til viðbótar segir í dómi Hæstaréttar í máli nr. 167/2015 að úr því hafi verið leyst með dómi réttarins í máli nr. 751/2014 að beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda „gangi ekki að erfðum við skipti á dánarbúi Sigurðar [Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds] eftir fyrirmælum erfðaskrár [...] frá 4. janúar 1938, heldur eftir lögerfðareglum. Af dómum réttarins 5. apríl 1968 og 30. maí 1969 leiðir á hinn bóginn að um „umráð og afnot fasteignarinnar Vatnsenda“, sem svo voru nefnd, fari að Sigurði látnum eftir ákvæðum erfðaskrárinnar“.

105. Ef litið er til inntaks þeirra eignarréttarlegu heimilda sem miðað er við í jákvæðri skilgreiningu eignarréttarhugtaksins og þær bornar saman við fyrirkomulagið samkvæmt erfðaskránni 1938 kemur í ljós að handhafi beina eignarréttarins er í reynd sviptur öllum þeim heimildum sem almennt felast í eignarrétti. Í fyrsta lagi er umráða- og hagnýtingarréttur yfir Vatnsenda samkvæmt erfðaskránni í höndum ábúanda jarðarinnar á hverjum tíma og fer ekki saman við handhöfn beina eignarréttarins. Til samræmis við það varð umráða- og hagnýtingarréttur Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltesteds yfir jörðinni ekki virkur fyrr en við andlát Lárusar föður hans sem fyrstur naut þessara sérstöku réttinda að Magnúsi Einarssyni Hjaltested látnum.

106. Í öðru lagi er rétturinn til að ráðstafa Vatnsenda með löggerningi ekki í höndum þess sem fer með beina eignarréttinn yfir jörðinni heldur er sú eignarréttarlega heimild í höndum ábúenda jarðarinnar hverju sinni en sætir verulegum takmörkunum eins og áður er rakið. Í því sambandi er til þess að líta að við eignarnám það af hálfu Reykjavíkurbæjar á spildu úr landi Vatnsenda sem fram fór á grundvelli laga nr. 57/1942 var það ábúandi jarðarinnar, Lárus Hjaltested, sem árið 1951 afsalaði spildunni til eignarnema en ekki handhafi beina eignarréttarins, Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested. Sama á við um afsal það sem út var gefið 1947 vegna eignarnáms Landsíma Íslands á spildu úr landi Vatnsenda.

107. Í þriðja lagi er rétturinn til að skuldsetja jörðina ekki í höndum handhafa beina eignarréttarins að Vatnsenda heldur ábúanda jarðarinnar á hverjum tíma og sætir eins og áður er rakið verulegum takmörkunum varðandi eðli skulda og fjárhæðir þeirra.

108. Í fjórða lagi mælir erfðaskráin 1938 svo fyrir að allar bætur fyrir landspjöll sem þegar eru orðin eða kunna að verða á jörðinni Vatnsenda skuli renna til ábúenda og hafi þeir rétt til að krefja og semja um með lögsókn ef með þurfi „sem tilheirandi jörðinni“. Með þessu var rétturinn til að leita til handhafa opinbers valds til verndar eigninni hvort heldur var vegna eiginlegra landspjalla eða eignarnáms færður í hendur ábúenda, sbr. og dóm Hæstaréttar 8. mars 2001 í máli nr. 58/2000.

109. Í fimmta lagi er arfleiðslurétti að óbeinum eignarréttindum yfir jörðinni Vatnsenda þannig fyrir komið samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltesteds að hann er hvorki í höndum handhafa beina eignarréttarins né handhafa óbeinu eignarréttindanna, heldur ræðst hann af fyrirmælum erfðaskrárinnar sjálfrar.

110. Hvað varðar inntak beins eignarréttar yfir Vatnsenda í ljósi neikvæðrar skilgreiningar eignarréttarhugtaksins er til þess að líta að þó svo að réttur handhafa óbeinu eignarréttindanna yfir jörðinni falli niður eða þrengist leiðir það ekki til þess að réttur handhafa beina eignarréttarins yfir jörðinni rýmkist að sama skapi. Að þessu er sérstaklega vikið í dómi Hæstaréttar í máli nr. 751/2014. Þar er rakið að samkvæmt dómi réttarins 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968 hafi dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested afhent Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested umráð og afnot Vatnsenda og hafi þessi réttindi upp frá því ekki verið á hendi dánarbúsins. Í framhaldinu segir í máli nr. 751/2014 að því verði „hvergi fundinn staður í [erfðaskránni] að útlagning þessara réttinda geti af nokkurri ástæðu gengið til baka og þau runnið aftur til dánarbúsins, hvort sem er vegna brostinna forsendna fyrir erfðaskránni, andláts Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested á árinu 1999 eða þess að Magnús eða [...] Þorsteinn [Hjaltested] á eftir honum hafi brotið gegn skilmálum erfðaskrárinnar þannig að varði missi réttinda samkvæmt ákvæðum hennar, en af erfðaskránni leiðir að síðastnefnd atvik gætu valdið því að réttindin gengju áfram til næsta rétthafa.“

111. Þegar allt það er virt sem að framan er rakið verður að leggja til grundvallar að sá beini eignarréttur yfir jörðinni Vatnsenda sem Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested hlaut með erfðaskránni 1938 hafi verið formlegs eðlis, án fjárgildis og því verðlaus í höndum rétthafans frá upphafi. Rétturinn sem síðar færðist til dánarbús Sigurðar Kristjáns verður því ekki metinn til fjár á peningalegan mælikvarða. Er í þessu ljósi fallist á með Landsrétti að tekjuöflunarvirði handhafa beina eignarréttarins að Vatnsenda sé ekkert og að sú forsenda dómkvaddra matsmanna að eigendur beina eignarréttarins kunni í framtíðinni að eiga einhvern framsalsrétt sem hafi falið í sér sérstakt virði við eignarnámið 2007 sé ekki í samræmi við vilja arfleifandans eins og hann birtist í erfðaskránni. Þá er þessi forsenda matsmanna eins og greinir í dómi Landsréttar heldur ekki í samræmi við þá meginreglu sem gildir við eignarnám að eignarnámsbætur skuli gera eignarnámsþola eins settan og hann var fyrir eignarnám.

112. Samkvæmt öllu framansögðu verður staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að áfrýjendur hafi ekki orðið fyrir fjártjóni vegna eignarnámsins 23. janúar 2007. Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum áfrýjenda í málinu.

113. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað dánarbús Þorsteins Hjaltesteds í héraði og fyrir Landsrétti er ekki til endurskoðunar hér fyrir dómi.

114. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að málsaðilar skuli sjálfir bera kostnað af rekstri málsins í héraði og fyrir Landsrétti. Með sömu rökum þykir rétt að aðilarnir beri sjálfir kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti. Um gjafsóknarkostnað áfrýjenda fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um sýknu stefnda, Kópavogsbæjar, af dómkröfum áfrýjenda, dánarbús Finnborgar Bettýjar Gísladóttur, þrotabús Hansínu Sesselju Gísladóttur, Elísu Finnsdóttur, Gísla Finnssonar, Guðmundar Gíslasonar, Margrétar Margrétardóttur, Karls Lárusar Hjaltesteds, Sigurðar Kristjáns Hjaltesteds, Markúsar Ívars Hjaltesteds og Sigríðar Hjaltesteds.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað milli áfrýjenda og stefnda í héraði og fyrir Landsrétti og ákvæði dómsins um gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.

Málskostnaður milli áfrýjenda og stefnda fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjandans Elísu Finnsdóttur fyrir Hæstarétti, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Sigurðar Jónssonar lögmanns, 1.000.000 króna, greiðist úr ríkissjóði.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjandans Gísla Finnssonar fyrir Hæstarétti, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Sigurðar Jónssonar lögmanns, 1.000.000 króna, greiðist úr ríkissjóði.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjandans Guðmundar Gíslasonar fyrir Hæstarétti, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Guðjóns Ólafs Jónssonar lögmanns, 1.000.000 króna, greiðist úr ríkissjóði.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjandans Margrétar Margrétardóttur fyrir Hæstarétti, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Guðjóns Ólafs Jónssonar lögmanns, 1.000.000 króna, greiðist úr ríkissjóði.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjandans Markúsar Ívars Hjaltested fyrir Hæstarétti, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Valgeirs Kristinssonar lögmanns, 1.000.000 króna, greiðist úr ríkissjóði.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjandans Sigríðar Hjaltested fyrir Hæstarétti, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Valgeirs Kristinssonar lögmanns, 1.000.000 króna, greiðist úr ríkissjóði.