Hæstiréttur íslands
Mál nr. 10/2023
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárslit
- Óvígð sambúð
- Opinber skipti
- Gjafsókn
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. desember 2022 en kærumálsgögn bárust réttinum 4. janúar 2023. Kærður er úrskurður Landsréttar 13. desember 2022 í máli nr. 617/2022 þar sem kröfu sóknaraðila um hlutdeild í innbúi var vísað frá héraðsdómi en kröfum um hlutdeild í öðrum eignum og réttindum varnaraðila var hafnað.
3. Sóknaraðili krefst þess aðallega að við opinber skipti til fjárslita milli hennar og varnaraðila skuli öllum eignum fjárfélags þeirra skipt að jöfnu milli þeirra án tillits til þess hvernig skráningu þeirra er háttað þannig að viðurkennd verði helmingshlutdeild sóknaraðila í skírri eign búsins eins og þær voru á viðmiðunardegi skipta 1. júní 2017 og taldar eru upp í bréfi skiptastjóra 26. október 2021. Til vara krefst sóknaraðili annarrar lægri hlutdeildar en helmings af skírri eign búsins miðað við viðmiðunardag skipta samkvæmt mati dómsins. Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila á öllum dómstigum eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
4. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr hendi sóknaraðila fyrir Hæstarétti.
5. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið flutt munnlega 17. maí 2023.
Ágreiningsefni
6. Í málinu er deilt um uppgjör fjárskipta málsaðila við sambúðarslit þeirra árið 2017 en til sambúðarinnar stofnaðist árið 1999. Lýtur deilan fyrst og fremst að því hvort og þá í hvaða mæli konan, sóknaraðili, á tilkall til hlutdeildar í eignamyndun á sambúðartíma samkvæmt þeim réttarreglum sem dómstólar hafa mótað á þessu sviði, en umdeildar eignir voru á viðmiðunardegi skipta að stærstum hluta skráðar eign mannsins, varnaraðila.
7. Með úrskurði héraðsdóms 28. september 2022 var fallist á kröfur sóknaraðila að hluta og viðurkennt að innbú og nánar tiltekin ökutæki skyldu skiptast til helminga milli aðila. Þá var viðurkennd 43,5% eignarhlutdeild sóknaraðila í fasteign að M, þinglýstri eign varnaraðila. Að öðru leyti var kröfum sóknaraðila um viðurkenningu á hlutdeild í eignum og lífeyrisréttindum skráðum á varnaraðila hafnað en málskostnaður felldur niður. Með úrskurði Landsréttar 13. desember 2022 var kröfu sóknaraðila um hlutdeild í innbúi vísað frá héraðsdómi en öðrum kröfum sóknaraðila hafnað og kærumálskostnaður felldur niður.
8. Að beiðni sóknaraðila var veitt leyfi til að kæra úrskurð Landsréttar til Hæstaréttar 9. febrúar 2023, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2022-169, á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um réttarstöðu sambúðarfólks við slit á óvígðri sambúð.
9. Fyrir Hæstarétti féll sóknaraðili frá kröfu um viðurkenningu á hlutdeild í lífeyrisréttindum varnaraðila, bæði almennum og séreignarsparnaði, sem hann aflaði á sambúðartíma.
Málsatvik
10. Málsaðilar hófu samband sitt á seinni hluta ársins 1999. Þá var sóknaraðili 22 ára en varnaraðili er átta árum eldri. Bjuggu þau fyrst um sinn saman í foreldrahúsum varnaraðila en síðla árs 2000 fluttu þau inn á neðri hæð fasteignar að M sem varnaraðili var að byggja þegar málsaðilar kynntust. Þar bjuggu þau þar til sambúðinni var slitið í júní 2017, að frátöldu tímabili á árunum 2004 til 2005 þegar slitnaði tímabundið upp úr sambandinu. Þau voru í skráðri sambúð frá […] 2011 til […] 2019 en aldrei samsköttuð. Þá voru þau ekki með sameiginlega bankareikninga. Ágreiningslaust er að viðmiðunardagur skipta sé 1. júní 2017. Á meðan sambúð þeirra stóð eignuðust þau þrjú börn árin […], […] og […].
11. Við upphaf sambúðar átti sóknaraðili bifreið en varnaraðili var skráður fyrir fasteigninni að M og átti einnig bifreið. Samkvæmt byggingarsögu fasteignarinnar var eignin komin á byggingarstig 3 á árinu 1999 sem telst fullreist burðarvirki.
12. Málsaðilar stofnuðu saman árið 2003 félagið C ehf. sem rak [verslun]. Þau sátu þar saman í stjórn og voru skráð fyrir hlutafé, varnaraðili fyrir 70% og sóknaraðili 30%. Þá voru á sambúðartímanum stofnuð félögin D ehf., E ehf. og F ehf. en síðastgreinda félagið var stofnað […] 2000. Varnaraðili og faðir hans sátu í stjórn þess og voru skráðir fyrir hlutafé, varnaraðili fyrir 70% og faðir hans 30%. Frá árinu 2015 hefur varnaraðili einn verið skráður fyrir hlutafé félagsins. Umrætt félag stofnaði E ehf. árið 2008 og D ehf. árið 2011. Bú fyrrnefnda félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta árið 2021. Árið 2014 tók sóknaraðili sæti sem varamaður í stjórnum F ehf. og D ehf.
13. Aðilar reistu á sambúðartímanum hús að N og var sóknaraðili þinglýstur eigandi þeirrar fasteignar. Eignin var seld á árinu 2016 og var meginþorri söluandvirðis lagður inn á bankareikning í eigu varnaraðila. Bifreið, sem einnig var hluti af söluandvirðinu, var skráð á nafn sóknaraðila.
14. Á sambúðartímanum voru aðilar hvort um sig skráð eigendur nokkurra bifreiða. Sóknaraðili var auk þess skráð eigandi ferðavagns en varnaraðili eigandi bifhjóls, torfæruhjóla, tjaldvagns og vélsleða. Á viðmiðunardegi skipta var sóknaraðili skráð fyrir einni bifreið en varnaraðili fyrir tveimur bifreiðum, torfæruhjóli og tveimur vélsleðum.
15. Sóknaraðili lauk á sambúðartímanum, í desember 2005, námi í […] við […]. Þá útskrifaðist hún sem […] haustið 2011 frá […]. Hún starfaði við færslu bókhalds hjá F ehf., í [verslun] sem aðilar ráku og saumaði […] og seldi á heimasíðu sinni.
16. Á sambúðartímanum starfaði varnaraðili aðallega sem […] hjá fyrrnefndu félagi, F ehf.
17. Skattframtöl sóknaraðila árin 2002 til 2016 liggja fyrir sem og skattframtöl varnaraðila vegna áranna 2000 og 2006 til 2017. Samkvæmt þeim voru tekjur þeirra sem hér segir:
|
|
Sóknaraðili |
|
|
Varnaraðili |
|
|
Tekjuár |
Greiðandi |
Fjárhæð |
Tekjuár |
Greiðandi |
Fjárhæð |
|
|
|
|
2000 |
F ehf. |
2.878.370 |
|
2001 |
Leikskólinn […] |
38.624 |
|
|
|
|
|
F ehf. |
191.322 |
|
|
|
|
|
Atvinnuleysisbætur |
240.100 |
|
|
|
|
|
Tryggingastofnun ríkisins |
343.129 |
|
|
|
|
2002 |
F ehf. |
944.137 |
|
|
|
|
|
Atvinnuleysisbætur |
284.911 |
|
|
|
|
2003 |
F ehf. |
726.711 |
|
|
|
|
|
C ehf. |
650.000 |
|
|
|
|
|
Atvinnuleysisbætur |
42.459 |
|
|
|
|
2004 |
C ehf. |
598.000 |
|
|
|
|
|
Atvinnuleysisbætur |
281.150 |
|
|
|
|
2005 |
Tryggingastofnun ríkisins |
712.090 |
|
|
|
|
|
Atvinnuleysisbætur |
114.083 |
|
|
|
|
|
Sveitarfélag |
336.980 |
|
|
|
|
|
Sjúkradagpeningar |
428.903 |
|
|
|
|
2006 |
Tryggingastofnun ríkisins |
1.357.982 |
2006 |
F ehf. |
4.914.764 |
|
2007 |
F ehf. |
2.071.648 |
2007 |
F ehf. |
2.941.414 |
|
|
Fæðingarorlofssjóður |
131.697 |
|
Fæðingarorlofssjóður |
1.666.686 |
|
|
Tryggingastofnun ríkisins |
121.887 |
|
|
|
|
|
Atvinnuleysisbætur |
88.041 |
|
|
|
|
|
Sveitarfélag |
318.386 |
|
|
|
|
2008 |
Atvinnuleysisbætur |
1.890.331 |
2008 |
F ehf. |
5.916.062 |
|
2009 |
Fæðingarorlofssjóður |
1.263.036 |
2009 |
F ehf. |
5.954.299 |
|
|
Atvinnuleysisbætur |
943.171 |
|
|
|
|
2010 |
Atvinnuleysisbætur |
2.061.203 |
2010 |
F ehf. |
6.143.580 |
|
2011 |
F ehf. |
337.650 |
2011 |
F ehf. |
743.147 |
|
|
Atvinnuleysisbætur |
811.217 |
|
Slysabætur |
8.409.517 |
|
2012 |
F ehf. |
3.364.760 |
2012 |
F ehf. |
4.872.930 |
|
2013 |
F ehf. |
4.008.795 |
2013 |
F ehf. |
5.753.320 |
|
2014 |
F ehf. |
4.570.671 |
2014 |
F ehf. |
6.539.149 |
|
2015 |
F ehf. |
3.595.752 |
2015 |
F ehf. |
7.309.344 |
|
|
|
|
2016 |
F ehf. |
7.258.588 |
|
|
|
|
2017 |
F ehf. |
6.551.888 |
Helstu málsástæður aðila
18. Sóknaraðili byggir á því að fjárhagsleg samstaða hafi verið með aðilum í sambúðinni. Þótt þau hafi hvorki talið saman til skatts né verið með sameiginlega bankareikninga hafi þau eignast þrjú börn og rekið saman heimili þar sem fjölskyldan hafi búið um langt skeið. Sóknaraðili kveðst alltaf hafa litið svo á að þau byggju við sameignarfyrirkomulag á sambúðartímanum þó svo að eignir væru að mestu skráðar á varnaraðila. Ökutæki fjölskyldunnar og ferðavagnar hafi til að mynda ýmist verið skráðir á varnaraðila eða hana. Þá hafi nær öll eignamyndun aðila orðið á sambúðartímanum enda hafi verið óverulegur munur á eignastöðu þeirra við upphaf sambúðar. Þótt varnaraðili hafi aflað tekna utan heimilis í ríkari mæli en sóknaraðili hafi hún haldið heimili fyrir þau bæði, auk þess að annast uppeldi og umönnun barna þeirra. Hún hafi einnig séð um að aðstoða þau við heimanám og tómstundir. Þá hafi hún menntað sig sérstaklega til þess að annast bókhald fyrir einkahlutafélög þeirra og ekki þegið laun fyrir þá vinnu í samræmi við vinnuframlag. Þetta framlag hennar til heimilis og fjölskyldu þurfi að meta til fullra tekna enda hafi varnaraðila með því verið gert kleift að starfa utan heimilis og afla tekna og lífeyrisréttinda. Það svigrúm hafi hann meðal annars nýtt til frekari verðmætaaukningar með því að ljúka við byggingu M, byggja fasteign að N og fjárfesta í þeim einkahlutafélögum, ökutækjum og fleiru sem nú sé deilt um hvort koma eigi til skipta. Þá segir sóknaraðili fjárhag aðila hafa verið samtvinnaðan. Kveðst hún hafa keypt inn til heimilis til jafns við varnaraðila og hafi tekjur hennar runnið til heimilis og þriggja barna þeirra. Sóknaraðili bendir auk annars á að fasteignin að M sem varnaraðili hóf byggingu á áður en til sambúðar stofnaðist hafi aðeins verið lokið að hluta við stofnun sambúðar og hún hafi unnið með honum að því að gera fasteignina íbúðarhæfa áður en þau fluttu inn í hana árið 2000. Fasteignina N hafi þau reist á sambúðartímanum og hún verið þinglýst eign hennar og hún greitt af henni fasteignagjöld.
19. Varnaraðili byggir á því að allar kröfur sóknaraðila séu fyrndar en ella fallnar niður fyrir tómlæti. Við slit sambúðar beri að líta á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga sem fari hvort um sig með sínar eignir og ábyrgist sínar skuldir. Það sé viðurkennd meginregla að sá sambúðaraðila sem haldi því fram að eignarhald eigi ekki að miðast við opinbera skráningu og þinglýstar heimildir beri sönnunarbyrði fyrir því. Engin fjárhagsleg samstaða hafi verið með aðilum og þau hvorki verið með sameiginlega bankareikninga né deilt útgjöldum heimilisins. Sóknaraðili hafi ekki lagt þeim til neina fjármuni, ekki tekið þátt í að greiða reikninga, hvorki þá er vörðuðu skráðar eignir hans né vegna uppeldis barna og hvorki lagt fram fjármuni né vinnu við byggingu umþrættra fasteigna. Þá hafi hún ekki komið að fjármögnun þeirra ökutækja sem deilt sé um eignarhald á. Þau hafi aldrei verið samsköttuð þrátt fyrir að hafa verið skráð í sambúð frá árinu 2011. Sóknaraðili hafi ekki nýtt séreignarsparnað sinn til að greiða inn á áhvílandi lán á fasteign varnaraðila að M og fasteignalánið hafi verið leiðrétt á grundvelli laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána líkt og um einstæðan mann væri að ræða. Varnaraðili byggir jafnframt á því að hann hafi átt fasteignina að M, helstu eign búsins, áður en hann kynntist sóknaraðila og ekki hafi orðið nein sameiginleg eignamyndun á sambúðartímanum. Engin eign hafi orðið til með framlagi sóknaraðila. Varnaraðili bendir á að sóknaraðili hafi enga aðkomu átt að stofnun eða rekstri F ehf. sem stofnuð hafi verið árið 2000 en í raun hafi verið um að ræða fjölskyldufyrirtæki sem afi varnaraðila hafi upphaflega stofnað og rekið. Sóknaraðili hafi fengið afar vel greitt og umfram tilefni fyrir að sinna bókhaldi félagsins. Þá hafi félögin D ehf. og E ehf. ekki verið í rekstri og sóknaraðili enga aðkomu átt að þeim aðra en setu sem varamaður í stjórn. Þá sé rangt að málsaðilar hafi á sínum tíma rekið saman [verslun] C ehf. Það hafi alfarið verið fyrirtæki sóknaraðila og varnaraðili aðeins komið að því með þeim hætti að hafa lánað sóknaraðila veð í fasteign sinni að M vegna skuldbindinga félagsins en hann hafi verið skráður eigandi 70% hlutafjár í því til að tryggja fjárhagslega hagsmuni sína. Þá gefi innstæður á bankareikningum á viðmiðunardegi skipta ekki rétta mynd af peningaeign varnaraðila. Söluandvirði fasteignarinnar að N hafi verið greitt inn á reikning í hans eigu en þá hafi ekki verið búið að gera upp við verktaka og F ehf. vegna byggingar hennar. Þótt sóknaraðili hafi í nokkur skipti greitt fasteignagjöld vegna N hafi F ehf. lagt inn á reikning hennar á sama tíma vegna þeirra greiðslna og umfram laun hennar. Aðilar hafi einnig bæði annast börnin og sinnt innkaupum til heimilisins en hann í ríkari mæli en hún.
Reglur um stofnun sérstakrar sameignar á sambúðartíma
20. Þegar óvígðri sambúð er slitið gildir sú meginregla að hvor sambúðaraðili um sig taki með sér þær eignir sem hann átti við upphaf sambúðar eða hefur eignast meðan á henni stóð og beri þá jafnframt ábyrgð á skuldum sínum. Á sambúðartíma kann þó að hafa myndast fjárhagsleg samstaða með sambúðarfólki eða eignir þeirra og framlög blandast saman. Hefur í dómaframkvæmd verið viðurkennt að með því geti stofnast til sameignar sambúðarfólks óháð því á hvort þeirra einstakar eignir eru skráðar að lögum til dæmis á grundvelli þinglýsingar, sbr. í dæmaskyni dóma Hæstaréttar 14. desember 2012 í máli nr. 704/2012, 25. janúar 2016 í máli nr. 811/2015, 26. ágúst 2016 í máli nr. 472/2016 og 5. apríl 2017 í máli nr. 152/2017. Er þá litið svo á að sameiginleg eignamyndun hafi orðið á sambúðartíma sem báðir aðilar eigi tilkall til hvað sem opinberri skráningu eigna líði og að sambúðarmaki geti átt tilkall til þeirra eigna sem að óbreyttu kæmu í hlut gagnaðilans eins.
21. Slík skráning eignar veitir þó allt að einu líkindi fyrir því hvor aðila fari með umdeildan eignarrétt og sönnunarbyrði um að hún gefi ekki rétta mynd af innbyrðis eignastöðu og eignamyndun á sambúðartíma hvílir að meginreglu á þeim sambúðaraðila sem ekki er skráður eigandi. Það er þó ekki algilt og við mat þar að lútandi hefur meðal annars verið litið til eignastöðu aðila við upphaf sambúðar, fjárhagslegrar samstöðu á sambúðartíma, lengd sambúðar, fjölskylduhaga, þar með talið tilkomu sameiginlegra barna og fjölskyldustærðar, vinnuframlags aðila innan heimilis og utan, öflun menntunar á sambúðartíma og hvernig hún hefur nýst, tekjuöflunar, tilhögunar skattskila, sameiginlegra nota eigna auk fleiri atriða. Hvað sem líður fyrrnefndri meginreglu um sönnunarbyrði hefur áhrif á tilhögun hennar hversu mörg framangreindra atriða hafi verið fyrir hendi og í hversu ríkum mæli á sambúðartíma, sbr. til dæmis fyrrgreinda dóma Hæstaréttar í málum nr. 811/2015 og 152/2017 og einnig dóm Hæstaréttar 15. september 2016 í máli nr. 511/2016. Við þær aðstæður kann sönnunarbyrðin að færast yfir á þann sem heldur því fram að umræddir þættir hafi engin áhrif haft á forsendur eignamyndunar á sambúðartíma.
Niðurstaða
22. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er staðfest sú niðurstaða hans að vísa frá héraðsdómi kröfu sóknaraðila um hlutdeild í innbúi aðila.
23. Varnaraðili hefur byggt á því að ætlaðar kröfur sóknaraðila í málinu séu fyrndar á grundvelli reglna laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Þess er þá að gæta að kröfur sóknaraðila í málinu, verði á þær fallist, eru hlutaréttarlegs eðlis en ekki kröfuréttindi sem fyrnast eftir reglum tilvitnaðra laga. Þegar af þeirri ástæðu er málsástæðu varnaraðila þess efnis hafnað. Jafnframt er hafnað þeirri málsástæðu varnaraðila að ætlaðar kröfur sóknaraðila séu niður fallnar á grundvelli tómlætis vegna þess að liðið hafi liðlega þrjú ár frá sambúðarslitum þar til sóknaraðili krafðist opinberra skipta á búi málsaðila. Er til þess að líta að eignarréttindi sem slík falla ekki niður á grundvelli tómlætis en langvarandi tómlæti getur hins vegar haft áhrif á sönnunarbyrði um tilvist þeirra. Slíkar aðstæður eru hins vegar ekki fyrir hendi í þessu máli.
24. Að framangreindu gættu verður næst tekin til þess afstaða hvort á sambúðartíma aðila hafi stofnast til sameignar þeirra um þær fasteignir og lausafé sem sóknaraðili gerir kröfu til þótt umræddar eignir hafi flestar verið skráðar í eigu varnaraðila. Verður hér á eftir fyrst tekið til skoðunar hvort slík fjárhagsleg samstaða hafi almennt skapast með aðilum á sambúðartímanum svo að til greina komi að slík sameign hafi stofnast.
25. Aðila greinir á um flest þeirra atriða sem þýðingu hafa við mat á því hvort myndast hafi fjárhagsleg samstaða með þeim á sambúðartíma þannig að stofnast hafi til sameignar óháð því á hvort þeirra einstakar eignir eru skráðar að lögum. Þá er þetta mat þeim vandkvæðum háð að þau hafa að mjög takmörkuðu leyti aflað sér sönnunar með framlagningu gagna og skýrslutökum um framangreind atriði og hallar að því leyti talsvert á varnaraðila sem nær enga sönnun hefur fært fram fyrir fullyrðingum sínum. Verður hvort um sig að bera hallann af skorti á sönnun að þessu leyti hvað varðar eignir sem þau hafa verið skráð fyrir.
26. Af gögnum málsins og því sem ekki sýnist umdeilt verður á því byggt að aðilar hafi tekið upp samband á seinni hluta ársins 1999. Þau bjuggu fyrst saman á heimili foreldra varnaraðila en fluttu inn á neðri hæð fasteignar hans að M skömmu áður en þeim fæddist barn í […]. Lagt verður til grundvallar að varnaraðili hafi verið eignameiri en sóknaraðili í upphafi sambúðar sem svaraði til eignarhluta hans í nefndri fasteign sem þá var í smíðum og nánar verður vikið að hér síðar. Sambúð þeirra stóð síðan til ársins 2017 þótt á henni yrði nokkurra mánaða rof á árunum 2004 til 2005. Á sambúðartímanum héldu aðilar heimili saman og eignuðust þrjú börn svo sem fyrr er getið. Þau öfluðu bæði tekna utan heimilis en varnaraðili þó í meiri mæli en sóknaraðili. Eins og fram hefur komið starfaði varnaraðili hjá F ehf. lengst af sambúðartímans og voru tekjur hans, að því marki sem upplýsingar þar að lútandi liggja fyrir, almennt á bilinu 5.000.000 til 7.000.000 króna á ári, eins og fram kemur í töflu í lið 17. Á sambúðartímanum aflaði sóknaraðili sér menntunar en starfaði auk þess við færslu bókhalds hjá F ehf. og í [verslun] aðila um skamma hríð. Tekjur sóknaraðila að því marki sem þær liggja fyrir námu framan af 1.000.000 til 2.000.000 króna á ári eða fram til ársins 2012. Eftir að hún lauk námi sem […] voru árlegar tekjur hennar hjá F ehf. um 3.500.000 til 4.500.000 krónur eins og fram kemur í töflu í lið 17. Þá komu þau saman með einum eða öðrum hætti að rekstri nokkurra félaga. Fyrst má þar telja C ehf. sem þau stofnuðu árið 2003 og nánari grein hefur verið gerð fyrir. Enn fremur voru sem fyrr segir stofnuð á sambúðartímanum einkahlutafélögin F ehf., D ehf. og E ehf. Var varnaraðili skráður fyrir eignarhlut í þeim en sóknaraðili sat á tímabili í varastjórn félaganna og er ágreiningslaust að um skeið sinnti hún bókhaldsstörfum fyrir fyrstnefnda félagið. Á meðan þau bjuggu saman átti sér jafnframt stað önnur eignamyndum og má í því sambandi benda á ökutæki og fasteignina N en hún var þinglýst eign sóknaraðila. Þá eign seldu þau raunar síðar og er óumdeilt að rúmur helmingur eftirstöðva söluverðs var á reikningi varnaraðila nr. […] á viðmiðunardegi skipta eða 22.016.152 krónur. Þótt óumdeilt sé að málsaðilar hafi hvorki verið samsköttuð né með sameiginlega bankareikninga benda framangreind atriði til þess að fjármál þeirra hafi samtvinnast nokkuð.
27. Aðila greinir á um framlag hvors um sig til reksturs heimilis og uppeldis barna. Sóknaraðili kveðst yfirleitt hafa annast innkaup til heimilisins en varnaraðili hafi greitt annan kostnað. Hefur hún til stuðnings þessu lagt fram yfirlit greiðslukorts síns og bankareiknings. Á yfirliti bankareikningsins koma fram stakar innlagnir sem stafa frá varnaraðila auk innborgana frá F ehf. en ekki er með öllu ljóst hverjar þeirra eru launagreiðslur og hverjar þeirra kunni að eiga sér aðrar ástæður. Varnaraðili heldur því hins vegar því fram að hann hafi haldið heimili og annast uppeldi barna að minnsta kosti til jafns við sóknaraðila. Þá hafi hann alfarið fjármagnað rekstur heimilisins. Hann hefur hins vegar hvorki lagt fram yfirlit bankareikninga né greiðslukorta því til staðfestingar. Enginn ágreiningur er um að varnaraðili vann fulla vinnu utan heimilis auk þess sem hann vann að einstökum fjárfestingum eins og byggingu húss að N. Fær sú staðreynd illa samrýmst því að honum hafi á sama tíma verið kleift að reka sameiginlegt heimili þeirra sóknaraðila og sinna uppeldi þriggja barna þeirra til jafns við hana eða jafnvel í ríkari mæli eins og hann hefur haldið fram. Verður hann að bera sönnunarbyrði fyrir staðhæfingum sínum í þessa veru sem hann telst ekki hafa axlað. Verður því lagt til grundvallar að rekstur heimilis og uppeldi barna hafi í ríkari mæli hvílt á herðum sóknaraðila.
28. Að virtum þeim málsatvikum sem hér hafa verið tíunduð og lögð verða til grundvallar og að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða sem eru tilgreind að framan um stofnun sérstakrar sameignar í sambúð sambúðarfólks þykir sóknaraðili hafa sýnt nægilega fram á að framlög þeirra við öflun launatekna, eignamyndunar, uppeldis barna og heimilishalds verði að meta heildstætt. Þannig skapaðist á sambúðartímanum slík fjárhagsleg samstaða með þeim að hvað sem líður opinberri skráningu einstakra verðmæta sem deilt er um í málinu eru allt að einu forsendur til þess að meta sérstaklega hlutdeild sóknaraðila í þeirri eignamyndun sem varð á sambúðartímanum. Hvað sem fjár- og vinnuframlagi varnaraðila umfram sóknaraðila líður urðu umrædd eignarréttindi meðal annars til með framlagi sóknaraðila til þátta sem ekki fólust í beinum fjárframlögum. Af þeirri niðurstöðu leiðir þó ekki af sjálfu sér að eignarhlutföll í þeim eignum sem deilt er um séu þegar af þeirri ástæðu jöfn. Verður því tekin afstaða til þess, í hverju og einu tilviki, hvort stofnast hafi til sameignar þeirra verðmæta sem kröfugerð sóknaraðila tekur til.
29. Aðilar deila um hversu langt bygging fasteignarinnar að M hafi verið komin í upphafi sambands þeirra en þar héldu þau lengst af heimili meðan sambúð þeirra stóð. Verður ekki byggt á einhliða frásögn aðila nema hún eigi sér stoð í gögnum málsins. Í gögnum frá Skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkurborgar um byggingarsögu hússins kemur fram að […] 1999 hafi umrædd fasteign verið komin á byggingarstig 3 sem felur í sér að burðarvirki hafi verið reist. Fasteignamat eignarinnar samkvæmt skattframtali varnaraðila árið 2000 vegna tekjuársins 1999 nam 8.328.000 krónum og áhvílandi lán 6.572.300 krónum. Verðmæti eignarinnar að frádregnum skuldum nam því um 21% af fasteignamatsverði. Því verður lagt til grundvallar að önnur eignamyndun í fasteigninni hafi orðið eftir að til sambúðar aðila stofnaðist. Að því virtu og að gættum þeim atriðum sem fyrr eru rakin um fjárhagslega samstöðu málsaðila verður fallist á kröfu sóknaraðila um hlutdeild í þeirri eignamyndun sem til varð í fasteigninni M á sambúðartímanum með þeim hætti að viðurkennd er að álitum 30% eignarhlutdeild hennar í fasteigninni á móti 70% eignarhlutdeild varnaraðila.
30. Svo sem fram er komið deila aðilar jafnframt um eignarrétt að sex nánar tilgreindum bankareikningum sem allir voru skráðir á nafn varnaraðila. Á fimm reikninganna voru innstæður óverulegar, hæsta fjárhæðin nam 272.291 krónu, og er ekki fallist á það með sóknaraðila að í þeim tilvikum hafi hún öðlast hlutdeild í þeim fjármunum sem á þeim voru varðveittir. Öðru máli gegnir hins vegar um reikning nr. […] en innstæða hans nam á viðmiðunardegi skipta 22.016.152 krónum. Er ágreiningslaust með aðilum að um hefði verið að ræða eftirstöðvar söluverðs eignarinnar N. Við mat á því hvernig fara á með þessa innstæðu við skiptin og um sönnun fyrir hlut hvors um sig er haft í huga að fasteignin var þinglýst eign sóknaraðila. Hefur tilurð hennar verið lýst og falla þau verðmæti sem til urðu í henni að öllu leyti undir þá sameiginlegu eignamyndun sem varð á sambúðartíma. Getur samanburður á vinnuframlagi varnaraðila við byggingu hússins annars vegar og þáttur sóknaraðila í heimilishaldi og umönnun barna hins vegar ekki leitt til annarrar niðurstöðu. Þá eiga fullyrðingar varnaraðila um að bygging hússins hafi verið fjármögnuð að meira eða minna leyti af F ehf. ekki fullnægjandi stoð í gögnum málsins og ekki verður heldur óyggjandi ráðið af ársreikningi þess félags fyrir árið 2017 að það hafi talið til eignar kröfu vegna byggingar hússins að N, svo sem varnaraðili heldur fram. Að þessu virtu verður fallist á þá kröfu sóknaraðila að innstæða á nefndum reikningi á viðmiðunardegi komi til jafnra skipta milli aðila.
31. Þá deila aðilar um eignarhald á sex nánar tilgreindum ökutækjum og voru fimm þeirra skráð eign varnaraðila en eitt eign sóknaraðila á viðmiðunardegi skipta. Til eignarhalds á umræddum ökutækjum stofnaðist á sambúðartíma aðila og hefur öðru ekki verið haldið fram en að þau hafi verið nýtt af fjölskyldunni. Þá verður ráðið af þeim gögnum sem lögð hafa verið fram um skráningu eignarhalds ökutækja málsaðila að á sambúðartíma hafi þau bæði verið skráð fyrir einstökum ökutækjum án þess að á því hafi verið einhver föst regla. Í ljósi þeirrar fjárhagslegu samstöðu sem fallist er á að verið hafi með aðilum á sambúðartíma getur skráning eignarhalds á einstökum ökutækjum sem deilt er um ekki ráðið úrslitum um eignarrétt að þeim og er fallist á þá kröfu sóknaraðila að þau komi til jafnra skipta með aðilum.
32. Loks hefur sóknaraðili gert tilkall til þess að eignarhlutur varnaraðila í einkahlutafélögunum F ehf., D ehf. og E ehf. komi til jafnra skipta með aðilum. Þess er þá fyrst að gæta að bú félagsins E ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta […] 2021. Lauk skiptum á búi félagsins í september sama ár og var það afskráð […] september 2021. Eins og fram hefur komið var F ehf. stofnuð á árinu 2000, skömmu eftir að sambúð aðila hófst. Hin tvö félögin voru stofnuð síðar um ákveðna þætti starfseminnar. F ehf. sýnist fyrst og fremst hafa verið stofnuð í því skyni að skapa varnaraðila vettvang til atvinnuþátttöku og tekjuöflunar í því fagi sem hann hafði menntað sig til. Aðkoma sóknaraðila að umræddu félagi eða eftir atvikum félögum fólst fyrst og fremst í setu í varastjórn þeirra á ákveðnu tímabili og vinnu við bókhald en ekki verður á öðru byggt en að fyrir það starf hafi hún fengið að fullu greitt. Enn fremur fæst ekki séð, miðað við ársreikning F ehf. vegna ársins 2017, að á sambúðartímanum hafi orðið veruleg eignamyndun í félaginu sem sóknaraðili geti þá hafa átt þátt í að skapa. Að þessum atriðum sérstaklega gættum eru ekki efni til að fallast á kröfu hennar um að til skipta komi hlutafé sóknaraðila í umræddum félögum.
33. Að öllu framangreindu virtu er fallist á að við fjárskipti aðila skuli hrein eign í fasteigninni M á viðmiðunardegi skiptast þannig að 70% komi í hlut varnaraðila en 30% í hlut sóknaraðila. Þá skal innstæða á reikningi nr. […], sem á viðmiðunardegi skipta nam 22.016.152 krónum, skiptast að jöfnu milli aðila. Enn fremur er lagt til grundvallar að ökutæki, með skráningarnúmer […], […], […], […], […] og […], sem öll voru til staðar á viðmiðunardegi skipta, hafi verið í helmingseign hvors málsaðila um sig. Öðrum kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila er hafnað.
34. Eftir úrslitum málsins verður varnaraðili dæmdur til að greiða málskostnað fyrir héraðsdómi og kærumálskostnað fyrir Landsrétti sem og hér fyrir dómi sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir og rennur hann í ríkissjóð. Ákvæði hins kærða úrskurðar um gjafsóknarkostnað sóknaraðila í héraði og fyrir Landsrétti verða staðfest en um gjafsóknarkostnað hennar fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Staðfest er ákvæði hins kærða úrskurðar um frávísun frá héraðsdómi á kröfu sóknaraðila, A, um hlutdeild í innbúi.
Við opinber skipti til fjárslita við lok óvígðrar sambúðar milli sóknaraðila og varnaraðila, B, telst hrein eign í fasteigninni M í […] á viðmiðunardegi skipta 1. júní 2017 vera að 70% hlut í eigu varnaraðila en 30% sóknaraðila. Innstæða á reikningi nr. […], sem á viðmiðunardegi skipta nam 22.016.152 krónum, telst hafa verið að jöfnu í eigu aðila. Ökutæki, með skráningarnúmer […], […], […], […], […] og […], teljast hafa verið í helmingseign hvors málsaðila um sig. Öðrum kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila er hafnað.
Varnaraðili greiði samtals 3.000.000 króna í málskostnað fyrir héraðsdómi og kærumálskostnað fyrir Landsrétti og Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um gjafsóknarkostnað sóknaraðila í héraði og fyrir Landsrétti eru staðfest.
Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Sigurðar G. Guðjónssonar, 1.100.000 krónur.