Hæstiréttur íslands
Mál nr. 7/2024
Lykilorð
- Bifreið
- Leiga
- Persónuvernd
- Umboð
- Sönnun
- Málsástæða
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. janúar 2024. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 52.449 krónur með nánar tilgreindum vöxtum af nánar tilteknum fjárhæðum frá 31. maí 2019 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar á öllum dómstigum.
3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Ágreiningsefni
4. Í málinu er deilt um hvort stefnda sem meðal annars rekur bílaleigu beri að greiða áfrýjanda leigugjöld vegna notkunar leigutaka bifreiða í hans eigu á stæðum í bílastæðahúsi sem áfrýjandi rekur. Krafa áfrýjanda er vegna bílastæðagjalda í maí til september 2019 að viðbættu innheimtugjaldi.
5. Með hinum áfrýjaða dómi 17. nóvember 2023, sem staðfesti niðurstöðu héraðsdóms 17. maí 2022, var stefndi sýknaður af kröfu áfrýjanda.
6. Áfrýjunarleyfi var veitt 29. janúar 2024, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2023-152, á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi meðal annars um stofnun kröfu og hvort umboð sé fyrir hendi.
Málsatvik
7. Áfrýjandi rekur bílastæðahús við Hafnartorg í Reykjavík og innheimtir leigugjald af þeim sem leggja bifreiðum sínum þar. Fram kemur á skiltum á staðnum að greiðsla er áskilin fyrir notkunina. Framkvæmdin mun vera með þeim hætti að tekin er ljósmynd af bifreiðum sem ökumenn aka inn í bílastæðahúsið. Á henni kemur fram skráningarnúmer bifreiðar auk þess sem tími innaksturs er skráður í tölvukerfi áfrýjanda. Önnur mynd er svo tekin þegar bifreið er ekið úr bílastæðahúsinu og brottfarartími skráður. Í kjölfarið er kannað með tölvukerfi áfrýjanda hvort greitt hafi verið gjald fyrir afnotin. Hafi greiðsla ekki verið innt af hendi reiknast leiga samkvæmt gjaldskrá að viðbættu 1.800 króna innheimtugjaldi. Reikningur þess efnis er sendur skráðum eiganda bifreiðar sólarhring síðar þar sem fram kemur skráningarnúmer bifreiðar og dagsetning notkunar.
8. Stefndi rekur sem fyrr segir bílaleigu. Krafa áfrýjanda er til komin vegna ætlaðrar notkunar leigutaka bifreiða í eigu stefnda á stæðum í bílastæðahúsi áfrýjanda í 22 tilvikum á tímabilinu maí til september 2019. Þegar ætlaðri notkun leigutaka hefur lokið án greiðslu hefur áfrýjandi sent stefnda reikning í pósti fyrir þá notkun að liðnum sólarhring að viðbættu innheimtugjaldi. Ágreiningur í málinu lýtur meðal annars að því hvort sönnun um þá notkun hafi tekist af hálfu áfrýjanda. Í aðdraganda málshöfðunar óskaði áfrýjandi jafnframt ítrekað og árangurslaust eftir upplýsingum frá stefnda um hverjir hefðu verið leigutakar bifreiðanna í umrædd skipti.
9. Í málinu liggja frammi almennir skilmálar leigusamnings stefnda sem óumdeilt er að giltu þegar atvik máls þessa áttu sér stað. Þar segir í grein 3 að stefnda sé heimilt að skuldfæra kreditkort eða viðskiptareikning leigutaka í samræmi við grein 48. Velji leigutaki kreditkort megi gildistíma þess ekki ljúka fyrr en að minnsta kosti sex mánuðum eftir að bifreið er skilað. Stefndi megi nýta tvær heimildir á korti leigutaka að nánar tiltekinni fjárhæð. Aðra megi nota vegna mögulegs tjóns og tengds kostnaðar en hina meðal annars til greiðslu eldsneytiskostnaðar, aukaleigudaga og gjalda og sekta samkvæmt grein 17.
10. Í grein 17 í samningsskilmálum stefnda kemur fram að leigutaki sé ábyrgur fyrir öllum stöðusektum, stöðugjöldum, sektum fyrir umferðarlagabrot, veggjöldum, þar á meðal gjöldum fyrir akstur í gegnum göng, eða öðrum sambærilegum sektum og gjöldum. Skuli leigutaki greiða öll gjöld og sektir ásamt umsýslugjaldi samkvæmt gjaldskrá eiganda. Í grein 48 segir að stefndi eigi rétt á að skuldfæra leigugjaldið sem og annað sem leigutaki eigi að greiða samkvæmt leigusamningi á kreditkort leigutaka eða viðskiptareikning hans hjá stefnda.
11. Í grein 36 segir jafnframt að með samþykki sínu á skilmálum stefnda samþykki leigutaki gagnavinnslu hans í tengslum við leigusamninginn þar með talið notkun ökurita með því skilyrði að stefndi haldi trúnað um þá gagnavinnslu sem fram komi í samningsskilmálum.
Málsástæður
Helstu málsástæður áfrýjanda
12. Áfrýjandi byggir á að ökumaður stofni til fjárskuldbindingar þegar hann leggi bifreið sinni í bílastæðahúsi og beri að greiða gjald fyrir leigu á stæði í samræmi við gildandi gjaldskrá. Greiðsluskylda ökumanns stofnist við þá háttsemi að leggja bifreið í gjaldskylt stæði. Sé ekki greitt fyrir þá notkun vanefni ökumaður kröfuréttarlega skyldu sem leiði af háttsemi hans. Um það vísar áfrýjandi til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, svo og ólögfestra meginreglna íslensks réttar um umboð, stofnun kröfuréttinda, löggerningsígildi og skuldbindingargildi loforða sem teljist til réttarheimildanna eðlis máls og meginreglna laga.
13. Áfrýjandi telur að leigutakar stefnda hafi haft umboð til að skuldbinda hann til að greiða fyrir notkunina. Það ráðist af almennum túlkunarreglum samninga- og kröfuréttar hvort til umboðs hafi stofnast. Engar formreglur gildi um stofnun umboðs og skuldbinding geti jafnvel stofnast síðar þótt umboð hafi upphaflega skort, sbr. 25. gr. laga nr. 7/1936. Þá geti umboð leigutaka stefnda verið leitt af samningsskilmálum hans. Verði jafnframt að taka tillit til áorðinna samfélagsbreytinga og nýmæla við samningsgerð, svo sem stofnun greiðsluskyldu með rafrænni vöktun. Í skjóli meginreglu samningaréttar um samningsfrelsi sé ekkert því í vegi að umbjóðandi og umboðsmaður semji á þann veg að umbjóðandi verði bundinn gagnvart þriðja manni en að umboðsmaðurinn beri allan kostnað sem af því hlýst.
14. Áfrýjandi byggir einnig á því að leigutökum hafi verið rétt að skilja samningsskilmála stefnda á þann veg að þeir hefðu heimild hans til að leggja bifreiðum í þeirra umráðum í gjaldskyld bílastæði sem stefndi myndi greiða fyrir og endurkrefja þá síðar um gjaldið, sbr. grein 17 í samningsskilmálum stefnda. Leigutakar hafi því verið í góðri trú um heimild sína þegar þeir skuldbundu stefnda til greiðslu gjaldsins. Sönnunarbyrði fyrir því að umboðsmaður komi fram í nafni annars manns hvíli á umboðsmanni enda sé hann í bestri aðstöðu til að gera grein fyrir því. Ósanngjarnt sé að leggja sönnunarbyrði á þriðja mann þegar atvik séu óljós um hvort um umboðssamband hafi verið að ræða.
15. Áfrýjandi telur enn fremur að við mat á því hvort umboð hafi stofnast milli stefnda og leigutaka hans skipti meginmáli hvaða skilning leigutakar lögðu eða máttu leggja í samningsskilmálana. Af heildstæðu mati þeirra leiði að leigutökum hafi verið rétt að skilja þá þannig að þeir hefðu heimild til að skuldbinda stefnda til greiðslu gjaldsins enda héldu skilmálarnir stefnda skaðlausum af þeirri háttsemi. Auk þess skipti ekki máli hvort umboð leigutaka verði beinlínis leitt af samningsskilmálum stefnda, löggerningsígildi eða heildstæðu mati á öllum atvikum. Óvissa um skilning leigutaka á skilmálum stefnda leiði til þess að lagt verði til grundvallar að þeir hafi skilið samningsskilmála stefnda á þann veg sem áfrýjandi heldur fram. Þá hafi synjun stefnda um að veita upplýsingar um leigutaka leitt með sjálfstæðum hætti til stofnunar umboðs.
16. Áfrýjandi heldur því loks fram að synjun stefnda um að upplýsa um nöfn ökumanna sé athafnaleysi sem verði jafnað til löggerningsígildis. Stefndi hafi ávallt hafnað greiðsluskyldu á þeim grundvelli að hann beri ekki ábyrgð á vanskilum leigutaka. Þá hafi stefndi neitað að veita nauðsynlegar upplýsingar um leigutaka í framhaldi af því að gjaldskylda stofnaðist og þannig komið í veg fyrir að áfrýjandi gæti innheimt gjald fyrir notkun bílastæðanna. Með því hafi stefndi sjálfstætt fellt á sig greiðsluábyrgð vegna athafnaleysis og skipti þá ekki máli að ekki hafi verið beint áskorun til hans undir meðferð málsins samkvæmt 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 eins og byggt hafi verið á í hinum áfrýjaða dómi. Áfrýjandi hafi lögmæta hagsmuni af því að fá upplýsingar um hverjir hafi leigt bifreiðir stefnda í umrædd skipti, sbr. 6. tölulið 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þegar aðili komi sér sjálfur í þær aðstæður að á honum hvíli athafnaskylda sé litið svo á að athafnaleysi verði ígildi skuldbindandi löggernings. Áfrýjanda hafi verið gert ókleift að láta reyna á persónulega ábyrgð ökumanna þar sem stefndi meti meir trúnað við viðskiptavini sína en hagsmuni áfrýjanda.
Helstu málsástæður stefnda
17. Stefndi byggir á því að málsástæður áfrýjanda um ráðstöfunarumboð og löggerningsígildi hafi fyrst komið fram við meðferð málsins fyrir Landsrétti og verið mótmælt í greinargerð stefnda til réttarins sem of seint fram komnum. Séu þau mótmæli áréttuð. Til viðbótar séu málsástæður áfrýjanda reistar á athafnaleysi stefnda nýjar og of seint fram komnar. Um þetta vísar stefndi til 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Auk þess sé framangreindum málsástæðum mótmælt sem röngum.
18. Stefndi byggir á því að ætluð háttsemi leigutaka bifreiða hans sé ósönnuð. Ekkert liggi fyrir um að þeir hafi notað bílastæðahús áfrýjanda á þeim tíma sem hann byggir á. Sönnunargögn um notkun stafi frá óvottuðu myndavélakerfi og engin gögn hafi verið lögð fram um áreiðanleika þess. Stefndi telur jafnframt að áfrýjandi hefði getað stýrt notkuninni með því einu að setja upp betri búnað, svo sem vegslá tengda myndavélakerfi. Þá séu engar upplýsingar á reikningum áfrýjanda um ætlaða viðveru bifreiða og stefnda því verið ókleift að átta sig á réttmæti þeirra. Auk þess hafi engin gögn verið lögð fram um grundvöll innheimtugjalds áfrýjanda. Það hafi verið illa auglýst á staðnum og því er hafnað sérstaklega að samningur hafi stofnast milli áfrýjanda og notenda bílastæða um greiðslu þess.
19. Stefndi byggir einnig á því að ekki hafi verið fyrir hendi umboð leigutaka til að stofna til greiðsluskyldu á hendur honum. Slíkt umboð verði ekki leitt af samningsskilmálum hans. Þvert á móti séu þeir skýrir um að leigutakar beri sjálfir ábyrgð á öllum sektum og gjöldum sem kunni að leiða af notkun bifreiða. Leigutakar stefnda hafi því ekki getað stofnað til greiðsluskyldu fyrir hans hönd og ekkert í skilmálunum sem hafi getað vakið þá trú hjá þeim. Þá hafi samningsskilmálarnir einungis gilt milli stefnda og leigutaka hans og ekki beinst að utanaðkomandi aðilum. Þeir uppfylli því engin skilyrði þess að teljast þriðjamannslöggerningur.
20. Stefndi telur að skuldfærsluheimildir sem fram komi í fyrrgreindum samningsskilmálum hafi þann tilgang að hann geti brugðist við ef greiðsluskylda stofnast á hendur honum á grundvelli settra laga eða sérstakra samninga en hvorugt eigi við í tilviki áfrýjanda. Heimild stefnda til skuldfærslu byggist jafnframt á heimildarákvæði sem geti reynst erfitt að nýta ef samþykki viðskiptavinar liggi ekki fyrir og um lágar fjárhæðir sé að ræða. Þá hafi reikningar áfrýjanda í öllum tilvikum borist eftir að uppgjör hafði farið fram við leigutaka. Eftir þann tíma hefði verið verulega íþyngjandi fyrir stefnda að innheimta kortagreiðslur hjá viðskiptavinum sínum.
21. Þá telur stefndi að honum sé óheimilt að upplýsa um leigutaka vegna persónuverndar sem þeir njóti samkvæmt lögum nr. 90/2018. Synjun á afhendingu upplýsinga geti ekki haft afleiðingar í máli þessu. Auk þess geti samningsskilmálar stefnda ekki verið grundvöllur miðlunar persónuupplýsinga um leigutaka til óviðkomandi þriðja aðila. Vinnsla þeirra hjá stefnda byggist á samþykki leigutaka sem sé gefið með þeim áskilnaði að stefndi haldi trúnað um þær, þar með talið nöfn þeirra, sbr. grein 36 í skilmálunum. Stefndi byggir á að meta verði heimild hans til miðlunar upplýsinga með hliðsjón af því skilyrði sem vinnsla hans byggist á, þar á meðal áskilnaði um trúnað. Það séu lögmætir hagsmunir sem njóti verndar laga nr. 90/2018.
22. Varakrafa stefnda er reist á því að hann verði ekki dæmdur til að greiða innheimtugjald áfrýjanda sem sé samtals 39.600 krónur af dómkröfu hans. Slíkt gjald eigi enga lagastoð gagnvart notendum bílastæðahússins auk þess sem stefnda hafi aldrei verið gefinn kostur á að greiða ætluð vanskil án þess. Í því felist óréttmætir viðskiptahættir.
Niðurstaða
23. Svo sem fram hefur komið deila aðilar um hvort stofnast hafi til samnings um greiðslu gjalda vegna ætlaðrar notkunar leigutaka bifreiða í eigu stefnda á bílastæðum í bílastæðahúsi áfrýjanda sem og hvort leigutakar stefnda hafi verið umboðsmenn hans við þá samningsgerð. Jafnframt hvort stofnast hafi til greiðsluskuldbindingar stefnda með því að hafa ekki afhent upplýsingar um leigutaka.
Um málatilbúnað aðila
24. Í greinargerð stefnda til Hæstaréttar var því meðal annars lýst að áfrýjandi hefði fyrst í greinargerð til Landsréttar komið fram með þá málsástæðu að stofnast hefði til ráðstöfunarumboðs leigutaka stefnda, sbr. 25. gr. laga nr. 7/1936. Þá hafi áfrýjandi fyrst komið fram með málsástæður fyrir Hæstarétti byggðar á athafnaleysi stefnda.
25. Samkvæmt 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 skulu málsástæður og mótmæli koma fram jafnskjótt og tilefni verður til. Að öðrum kosti má ekki taka þær til greina nema gagnaðili samþykki eða aðili hafi þarfnast leiðbeininga dómara en ekki fengið þær. Málsástæður eru samkvæmt 2. mgr. 111. gr. sömu laga á forræði málsaðila og má dómari ekki byggja niðurstöðu sína á málsástæðu eða mótmælum sem hefðu mátt koma fram en gerðu það ekki við meðferð máls.
26. Málsástæða áfrýjanda um að stofnast hafi ráðstöfunarumboð leigutaka stefnda, sbr. 25. gr. laga nr. 7/1936, var fyrst hreyft í greinargerð til Landsréttar. Þá kom málsástæða áfrýjanda um að athafnaleysi stefnda hafi með sjálfstæðum hætti leitt til stofnunar umboðs fyrst fram í greinargerð til Hæstaréttar. Þær teljast því of seint fram komnar og eru ekki til úrlausnar hér fyrir dómi, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 og að auki 2. mgr. 163. gr. og 2. mgr. 187. gr. sömu laga. Á hinn bóginn kom málsástæða áfrýjanda um þýðingu ætlaðs athafnaleysis fyrir greiðsluskyldu stefnda fram í stefnu til héraðsdóms.
Stofnun samnings
27. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á þá niðurstöðu að sannað þyki að bifreiðum í eigu stefnda hafi verið lagt í bílastæði áfrýjanda í þau skipti sem um ræðir. Ágreiningslaust er að bifreiðirnar voru á þeim tíma í umráðum leigutaka stefnda.
28. Í lögum nr. 7/1936 er fjallað um skuldbindandi yfirlýsingar sem gefnar eru við samningsgerð. Þeim er annaðhvort ætlað að renna saman í samning tveggja eða fleiri aðila eða eftir atvikum skuldbinda þann einan sem gefur slíka yfirlýsingu. Til þess að það geti gerst þarf að vera fyrir hendi vilji þess sem gefur hana og einnig þess sem henni er beint til um að taka við þeim réttindum sem í henni felast og eftir atvikum að efna samning fyrir sitt leyti. Til þessara yfirlýsinga er vísað sem tilboðs og samþykkis í lögum nr. 7/1936. Í skjóli samningsfrelsis geta þær verið með ýmsum hætti, svo sem skriflegar, munnlegar eða eftir atvikum falist í athöfnum.
29. Í máli þessu reynir á hvort í þeirri tilhögun áfrýjanda að bjóða bílastæði til leigu gegn gjaldi annars vegar og ökumanna bifreiða í eigu stefnda að leggja bifreiðum í þau hins vegar felist skuldbindandi viljayfirlýsingar í framangreindum skilningi. Til að svo verði þarf að líta á þá athöfn ökumanns að leggja bifreið í bílastæði sem ákvarðandi þátt við gerð samnings um not en þá er jafnframt áskilið að ökumanni sé eða megi vera ljóst að þau séu ekki endurgjaldslaus. Þarf því að leysa úr því hvort áfrýjandi hafi kynnt væntanlegum notendum bílastæðanna fyrir fram og skýrlega grundvöll notkunarinnar og fyrirkomulag gjaldtöku.
30. Þegar litið er til þeirra gagna sem fyrir liggja í málinu verður telja að af hálfu áfrýjanda hafi verið gefið nægilega skýrt til kynna með skiltum og auglýsingum á staðnum að greiðsla væri áskilin fyrir notin. Þannig verður fallist á að ökumenn bifreiðanna hafi með þeirri athöfn að leggja þeim í bílastæði áfrýjanda gengist undir skuldbindingu samkvæmt skilmálum áfrýjanda um að greiða fyrir notkun þeirra. Með því komst á samningur um notkun bílastæðanna í umrædd skipti.
31. Í málinu er einnig deilt um hvort sú samningsskuldbinding hafi stofnast fyrir hönd stefnda eða eftir atvikum færst yfir á hann. Ekki er ágreiningur um að ákvæði 1. mgr. 110. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 um hlutlæga ábyrgð eiganda bifreiðar á gjöldum óháð því hver stofni til þeirra eigi ekki við um atvik máls þessa. Sambærilegt ákvæði er að finna í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 97/2010 um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir sem mun hafa verið nýtt um gjald fyrir akstur um Vaðlaheiðargöng. Þá er heldur ekki fyrir að fara almennri reglu í lögum um að skráður eigandi bifreiðar sé skyldur til að greiða leigugjöld vegna bílastæða í einkaeigu án samþykkis hans. Hins vegar muni stefndi hafa gert samninga við Þingvalla- og Vatnajökulsþjóðgarða um greiðslu á nánar tilteknum gjöldum sem leigutakar hans stofna til. Slíkur samningur hefur ekki verið gerður milli stefnda og áfrýjanda.
32. Af þessu leiðir að leysa þarf úr því hvort samningur um notkun bílastæðanna hafi verið gerður í skjóli umboðs leigutaka stefnda þannig að hann teljist skuldbundinn til greiðslu eða hvort greiðsluskylda hans kunni að hafa stofnast á öðrum grundvelli.
Ætluð greiðsluskylda stefnda á grundvelli umboðs
33. Í fjármunarétti tíðkast að flokka umboð í tvennt en sú aðgreining grundvallast á réttaráhrifum þeirra gagnvart grandlausum viðsemjanda. Annars vegar er um að ræða sjálfstæð umboð sem svo eru nefnd þar sem þau teljast hafa sjálfstæða þýðingu gagnvart væntanlegum viðsemjanda án tillits til raunverulegrar heimildar umboðsmanns. Hins vegar heimildarumboð, sbr. 18. gr. laga nr. 7/1936, en þá fer umboð og heimild ætíð saman. Af hálfu áfrýjanda er byggt á því að leigutakar bifreiða stefnda hafi notið síðargreinda umboðsins þegar til samnings stofnaðist vegna notkunar þeirra á bílastæðum hans.
34. Umboð, hvort heldur sjálfstæð umboð eða heimildarumboð, geta stofnast með ýmsum hætti, svo sem samningi, athöfn eða jafnvel athafnaleysi. Það fer eftir atvikum máls hverju sinni hvort um sjálfstætt umboð eða heimildarumboð er að ræða. Þá er horft til þess hvort þriðja manni sé eða hafi mátt vera kunnugt um að tiltekinn maður komi fram sem umboðsmaður annars, til dæmis í skjóli stöðuumboðs. Þannig eru almennt líkur á að um sjálfstætt umboð sé að ræða ef stofnað er til samnings um notkun bílastæða þegar ökumaður bifreiðar í eigu einstaklings er annar en skráður eigandi eða þegar starfsmaður ekur bifreið vinnuveitanda. Í slíkum tilvikum má viðsemjandi gera ráð fyrir að not bílastæða séu með heimild eiganda bifreiðarinnar.
35. Heimildarumboð stofnast aftur á móti einungis með yfirlýsingu umbjóðanda til umboðsmanns. Slík yfirlýsing felur í sér ráðstöfun sem ekki er sýnileg þriðja manni og verður væntanlegum viðsemjanda einungis kunn með því að umboðsmaður segist hafa eða gefur með öðrum hætti til kynna að hann hafi slíkt umboð. Komi síðar í ljós að hann hafi ekki notið slíks umboðs eða farið út fyrir heimild samkvæmt því ber viðsemjandi alla áhættu.
36. Áfrýjandi byggir á því að skilmálar í samningum stefnda og þeirra ökumanna sem leigðu bifreiðir hans hafi falið í sér heimildarumboð. Sama megi ráða af heildstæðu mati á aðstæðum öllum. Um það vísar áfrýjandi einkum til greinar 17 í samningsskilmálum stefnda þar sem beinlínis komi fram að hann geti endurkrafið leigutaka sína um stöðugjöld og sektir að viðbættu umsýslugjaldi.
37. Við úrlausn þess hvort stofnast hafi til heimildarumboðs milli stefnda og leigutaka hans til að skuldbinda stefnda til greiðslu gjalds vegna notkunar bílastæða verður að skýra samningsskilmála stefnda eftir hefðbundnum túlkunarreglum fjármunaréttar. Ágreiningslaust er að skilmálarnir giltu við gerð leigusamninga hans á þeim tíma sem um ræðir. Af efni þeirra í heild sinni sem og orðalagi fyrrnefndrar greinar 17 verður ekki ráðið að stefndi hafi veitt leigutökum sínum umboð til að skuldbinda hann með þeim hætti sem áfrýjandi heldur fram. Þvert á móti verður að fallast á með stefnda að skilja verði skilmálana með þeim hætti að leigutakar eigi sjálfir að greiða sektir og gjöld sem þeir stofna til með notkun bifreiðanna. Heimild stefnda til að krefjast greiðslu af tryggingu leigutaka hafi einungis verið áskilin af hans hálfu til að tryggja skaðleysi sitt vegna skuldbindinga sem til hafi stofnast á hendur honum á grundvelli laga eða samnings þar um. Þá verður ekkert ráðið af eftirfarandi athöfnum eða eftir atvikum athafnaleysi stefnda um að hann hafi fallist á eða umliðið að leigutakar bifreiða hans gætu skuldbundið hann á þann hátt sem áfrýjandi heldur fram. Engu breytir í þessu sambandi þótt bifreiðir séu í eigu stefnda enda er sem fyrr segir ekki fyrir hendi almenn regla í lögum um að skráður eigandi bifreiðar sé skyldur til að greiða gjöld vegna hennar án samþykkis eða umboðs.
38. Af þessari niðurstöðu leiðir jafnframt að ætluð góð trú leigutaka stefnda skiptir ekki máli þar sem í tilviki heimildarumboðs er öll áhætta lögð á viðsemjanda þegar hann gerir samning við umboðsmann sem segist hafa eða gefur til kynna að hann hafi slíkt umboð. Með hliðsjón af atvikum málsins og í ljósi fyrirkomulags innheimtu áfrýjanda á gjaldi fyrir notkun stæðanna verður heldur ekki fallist á að sönnunarbyrði um hið gagnstæða hvíli á stefnda. Verður því ekki fallist á að leigutakar stefnda hafi haft umboð hans í umrædd skipti til að skuldbinda hann til greiðslu gjalds fyrir afnot bílastæðanna.
Synjun um afhendingu upplýsinga
39. Að þessari niðurstöðu fenginni þarf að leysa úr því hvort stefndi hafi bakað sér greiðsluskyldu með synjun um að veita áfrýjanda upplýsingar um þá leigutaka sem notuðu stæði áfrýjanda í umrædd skipti. Á því er byggt af hálfu áfrýjanda að stefnda hafi verið heimilt að láta honum í té þær upplýsingar, sbr. 6. tölulið 9. gr. laga nr. 90/2018. Af hálfu stefnda hefur aftur á móti verið vísað til greinar 36 í samningsskilmálum hans þar sem leigutökum er heitinn trúnaður um gagnavinnslu í tengslum við leigusamninginn. Þarf því fyrst að leysa úr því hvort stefndi hafi mátt afhenda áfrýjanda umrædd gögn.
40. Sú miðlun persónuupplýsinga um leigutaka sem áfrýjandi hefur leitað eftir frá stefnda telst vera vinnsla í skilningi 4. töluliðar 3. gr. laga nr. 90/2018. Í 8. gr. laganna er að finna meginreglur sem ávallt skal gæta að við vinnslu. Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. skulu persónuupplýsingar unnar með lögmætum, sanngjörnum og gagnsæjum hætti gagnvart hinum skráða og í 2. tölulið er mælt fyrir um að þær séu fengnar í skýrt tilgreindum, lögmætum og málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi. Þá kemur fram í 3. tölulið að gætt skuli að því að umfang vinnslunnar sé ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang hennar. Öll vinnsla persónuupplýsinga verður síðan að hvíla á einhverri þeirra heimilda sem getið er í 9. gr. laganna. Í 1. tölulið þeirrar greinar er mælt fyrir um að vinnsla geti hvílt á samþykki hins skráða. Í 6. tölulið er síðan að finna heimild til vinnslu persónuupplýsinga þegar hún er nauðsynleg vegna lögmætra hagsmuna sem ábyrgðaraðili eða þriðji maður gætir nema hagsmunir eða grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem krefjast verndar persónuupplýsinga vegi þyngra.
41. Þótt samþykki leigutaka til stefnda fyrir vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt 1. tölulið 9. gr. laga nr. 90/2018 hafi verið veitt með þeim áskilnaði að stefndi héldi trúnað um gagnavinnslu felst sjálfstæð vinnsluheimild í 6. tölulið sömu greinar. Við úrlausn um hvort vinnsla sé heimil á grundvelli þess ákvæðis þarf að vega saman hagsmuni leigutaka stefnda af því að upplýsingum um þá verði ekki miðlað andspænis hagsmunum áfrýjanda af því að fá upplýsingarnar afhentar svo að hann geti heimt greiðslu fyrir not bílastæða. Sem fyrr var lýst stofnaðist greiðsluskylda leigutaka vegna afnota þeirra af bílastæðum áfrýjanda. Fallast verður á með honum að miðlun persónuupplýsinga um leigutaka sé honum nauðsynleg til að hann geti gætt þeirra lögmætu hagsmuna sinna í skilningi 6. töluliðar 1. mgr. 9. gr. laganna að fá greiðslu frá þeim aðilum sem nýttu sér stæði hans. Líta ber til þess að leigutakar gátu einnig haft gilda ástæðu til að ætla að upplýsingum um þá yrði miðlað í þessum tilgangi og þá snertir vinnslan ekki grundvallarréttindi þeirra og frelsi. Þegar þessir þættir eru vegnir saman verða hagsmunir áfrýjanda taldir ganga framar hagsmunum leigutaka stefnda og í því ljósi getur samningsbundið ákvæði um trúnað ekki staðið vinnslunni í vegi.
42. Samkvæmt framangreindu og að gættum þeim meginreglum 8. gr. laganna sem fyrr var lýst er stefnda heimilt að afhenda áfrýjanda þær persónuupplýsingar um leigutaka bifreiða sem honum eru nauðsynlegar til að sækja greiðslu fyrir afnot bílastæða.
Ætluð stofnun löggernings með athafnaleysi
43. Áfrýjandi hefur byggt á því að synjun stefnda um að upplýsa um nöfn ökumanna bifreiðanna hafi falið í sér athafnaleysi sem í ljósi aðstæðna verði jafnað til löggernings.
44. Stefndi hefur sem fyrr segir frá öndverðu andmælt gjaldtöku áfrýjanda í samskiptum þeirra í milli og borið því við að hann væri ekki skuldbundinn til að greiða fyrir notkun leigutaka hans á bílastæðum áfrýjanda. Þótt fallist sé á með áfrýjanda að stefnda hafi verið heimilt að afhenda upplýsingar um leigutaka hans liggur samkvæmt framansögðu ekki fyrir að hann hafi skuldbundið sig til greiðslu gjaldanna, hvorki á grundvelli umboðs né með sjálfstæðum samningi. Þá verður slíkri greiðsluábyrgð ekki fundin önnur stoð á samningaréttarlegum grundvelli, en mál þetta er ekki rekið um ætlaða skaðabótaskyldu stefnda utan samninga.
45. Að öllu framangreindu virtu og í ljós atvika máls þessa verður ekki fallist á að áfrýjandi geti borið fyrir sig að samningur hafi getað komist á við stefnda vegna ætlaðs athafnaleysis hans um að upplýsa um viðskiptavini sína. Þarf þá ekki að leysa úr því hvort samningur um not bílastæða hafi einnig tekið til innheimtugjaldsins.
46. Að því er jafnframt að gæta að hefði stefndi veitt áfrýjanda upplýsingar um leigutaka umræddra bifreiða hefðu þær ekki stutt málatilbúnað áfrýjanda eða fellt greiðsluskyldu á stefnda á þeim grundvelli sem mál þetta er reist á. Því hefði áskorun frá áfrýjanda til stefnda undir rekstri málsins, á grundvelli 67. gr. laga nr. 91/1991, um að veita þessar sömu upplýsingar og ætluð synjun að verða við slíkri áskorun ekki verið til þess fallin að styðja málatilbúnað sem ekki er grundvallaður á skaðabótaskyldu stefnda. Í ljósi kröfugerðar og málatilbúnaðar áfrýjanda hefur synjun stefnda á að veita áfrýjanda þessar upplýsingar sem og hvort áfrýjandi hafi nýtt heimild 67. gr. laga nr. 91/1991 við rekstur málsins fyrir dómstólum því enga þýðingu fyrir niðurstöðu málsins.
47. Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sýknu stefnda.
48. Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 fellur málskostnaður niður á öllum dómstigum.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður fellur niður á öllum dómstigum.