Hæstiréttur íslands
Mál nr. 5/2024
Lykilorð
- Aðild
- Kröfugerð
- Ómerking dóms Landsréttar
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 18. janúar 2024. Þau krefjast þess fyrir sína hönd og ólögráða barna sinna, E og F, að dómur Landsréttar verði felldur úr gildi og réttinum gert að leysa efnislega úr ágreiningi aðila. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar úr hendi stefnda án tillits til gjafsóknar sem þeim hefur verið veitt.
3. Stefndi mótmælir ekki kröfu áfrýjenda um að hinn áfrýjaði dómur verði felldur úr gildi.
4. Málið var skriflega flutt og dómtekið 22. mars 2024.
Ágreiningsefni og málsmeðferð
5. Áfrýjendur höfðuðu mál þetta til heimtu miskabóta vegna ákvarðana stefnda. Annars vegar um að vista börn þeirra tvö, E og F, utan heimilis og krefjast í kjölfarið forsjársviptingar fyrir dómi. Hins vegar vegna ákvörðunar stefnda um neyðarvistun barnanna í kjölfar dóms Héraðsdóms Vesturlands þar sem kröfu stefnda um að áfrýjendur yrðu svipt forsjá barna sinna var hafnað. Í stefnu voru áfrýjendur tilgreind sem stefnendur málsins og gerðu þau kröfu um greiðslu miskabóta til handa hvoru þeirra um sig. Jafnframt var þess krafist að börnum þeirra yrðu dæmdar miskabætur til handa hvoru þeirra um sig.
6. Með héraðsdómi 4. maí 2022 var stefndi dæmdur til að greiða áfrýjendum og börnum þeirra hverju um sig 1.500.000 krónur í miskabætur. Í dómsorði segir að stefndi skuli greiða miskabætur til handa „stefnendum A, B, E og F, hverju um sig 1.500.000 krónur auk vaxta [...]“.
7. Með hinum áfrýjaða dómi Landsréttar 10. nóvember 2023 var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Þar var vísað til þess að þótt barnanna E og F væri hvorki berum orðum getið sem stefnenda málsins í stefnu né í heiti málsins fyrir héraðsdómi væri í dómsorði héraðsdóms mælt fyrir um að stefndi skyldi greiða hvoru barni fyrir sig 1.500.000 krónur í miskabætur. Landsréttur tók fram að eins og málatilbúnaði áfrýjenda væri háttað í héraðsdómsstefnu væru börn þeirra ekki skýrlega og berum orðum talin meðal stefnenda málsins. Þá væri þess þar ekki getið að foreldrar barnanna kæmu fram fyrir þeirra hönd samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, svo sem hefði borið að gera samkvæmt a- og b-lið 80. gr. sömu laga. Ekki hefði verið leyst úr því álitaefni hvort börnin gætu við þessar aðstæður réttilega talist aðilar málsins til sóknar. Eigi að síður væri í dóminum komist að þeirri niðurstöðu að þau hefðu mátt þola ólögmæta meingerð af hálfu stefnda og þeim dæmdar bætur eins og þau væru sjálfstæðir aðilar málsins. Þá tók Landsréttur fram að skorið hefði verið úr um bótaskyldu gagnvart „hverjum og einum ætlaðra stefnenda í héraði, án þess að leysa sjálfstætt úr bótarétti hvers og eins ætlaðs þolanda um sig [...]“. Taldi Landsréttur því að slíkir ágallar hefðu verið á héraðsdómi að ekki yrði hjá því komist að ómerkja hann og vísa málinu aftur í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.
8. Áfrýjunarleyfi var veitt 17. janúar 2024, með ákvörðun réttarins nr. 2023-141, á þeim grunni að dómur Landsréttar kynni að vera bersýnilega rangur með vísan til þess að ekki virtust hafa verið næg efni til að ómerkja héraðsdóm.
Niðurstaða
9. Eins og áður greinir mótmælir stefndi ekki kröfu áfrýjenda um að hinn áfrýjaði dómur verði felldur úr gildi og gerir engar athugasemdir þar að lútandi.
10. Í stefnu til héraðsdóms voru áfrýjendur A og B tilgreind sem stefnendur og gerði hvort þeirra um sig kröfu um greiðslu miskabóta úr hendi stefnda auk vaxta. Þá kröfðust áfrýjendur þess einnig að stefndi yrði dæmdur til að greiða ólögráða börnum þeirra hvoru um sig miskabætur auk vaxta.
11. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að ágreiningur hafi verið um aðild málsins í héraði eða fyrir Landsrétti og ekki á því byggt af hálfu stefnda að málatilbúnaður áfrýjenda væri óskýr að þessu leyti eða að ekki lægi fyrir hvort eingöngu væru gerðar kröfur um miskabætur til handa áfrýjendum eða einnig til handa börnum þeirra. Þá var ekki uppi ágreiningur um að áfrýjendur færu með fyrirsvar barnanna.
12. Í samræmi við efni héraðsdómsstefnu bar áfrýjendum að réttu lagi að tilgreina börn sín sem stefnendur málsins, sbr. a-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Í ljósi þess að enginn ágreiningur var uppi um aðild málsins eða kröfugerð mátti þó bæta úr þessu með því að tilgreina börnin sem stefnendur í þingbók og síðan í dómi, sbr. b-lið 1. mgr. 114. gr. sömu laga. Ekkert stóð því þannig í vegi fyrir því að umræddir ágallar á málatilbúnaði áfrýjenda yrðu færðir til betri vegar fyrir Landsrétti. Voru því ekki næg efni til að ómerkja héraðsdóm af þessari ástæðu, með tilheyrandi drætti á málsmeðferð sem af því leiddi.
13. Þá er ekki fallist á að aðrir annmarkar hafi verið á héraðsdómi sem leitt hafi getað til ómerkingar hans. Í því samhengi skal á það bent að í dóminum var leyst aðgreint úr kröfum um miska foreldranna annars vegar og barnanna hins vegar og bótagrundvöllur og fjárhæð bóta voru rökstudd með fullnægjandi hætti.
14. Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á að rétt hafi verið að ómerkja héraðsdóm með hinum áfrýjaða dómi. Samkvæmt því er fallist á kröfu áfrýjenda um að dómurinn verði ómerktur og er málinu vísað til löglegrar meðferðar fyrir Landsrétti á ný.
15. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
16. Um gjafsóknarkostnað áfrýjenda fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjenda, A og B, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 500.000 krónur.