Hæstiréttur íslands
Mál nr. 37/2021
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Eigin sök
- Vátryggingarsamningur
- Slysatrygging
- Tilkynningarskylda
- Tómlæti
- Stórkostlegt gáleysi
- Gjafsókn
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. ágúst 2021. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 66.646.608 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 7.913.230 krónum frá […] 2013 til […] 2014 og af 66.646.608 krónum frá þeim degi til 9. júlí 2015 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 21. október 2015 að fjárhæð 34.778.722 krónur. Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar úr hendi gagnáfrýjanda án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt fyrir Hæstarétti.
3. Gagnáfrýjandi skaut málinu fyrir sitt leyti til Hæstaréttar 18. október 2021. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar úr hendi hans á öllum dómstigum. Til vara krefst hann þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur en að málskostnaður verði felldur niður á öllum dómstigum.
Ágreiningsefni
4. Mál þetta lýtur að líkamstjóni sem aðaláfrýjandi varð fyrir […] 2013 þegar hann ók bifhjóli aftan á bifreið sem ekið var í sömu akstursstefnu. Aðaláfrýjandi var tryggður lögboðinni slysatryggingu hjá gagnáfrýjanda en aðilar deila um hvort lækka megi bætur til aðaláfrýjanda á grundvelli þess að slysið verði rakið til stórkostlegs gáleysis hans.
5. Með héraðsdómi var aðaláfrýjanda gert að bera tjón sitt sjálfur að þriðjungi og var sú niðurstaða staðfest með hinum áfrýjaða dómi Landsréttar.
6. Áfrýjunarleyfi var veitt 20. ágúst 2021 á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi, einkum um túlkun á 94. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga sem fjallar um tilkynningarskyldu vátryggingafélags ef það hyggst bera sig rétt til takmörkunar á ábyrgð.
Málsatvik
7. Sunnudaginn […] 2013, laust eftir klukkan 14, varð aðaláfrýjandi fyrir alvarlegu umferðarslysi í […]. Hann var að aka bifhjóli sínu með skráningarnúmerinu […] […]veg þegar hann lenti aftan á pallbifreið með skráningarnúmerinu […] sem ekið var í sömu átt. Slysið varð á veginum skammt vestan við gatnamót […]vegar og […]vegar. Þegar var óskað eftir sjúkrabifreið og lögregla kölluð til. Samkvæmt frumskýrslu hennar var mikil umferð á veginum en dagsbirta og sól, vegurinn malbikaður, yfirborðið þurrt og allar aðstæður til aksturs því góðar.
8. Í frumskýrslu lögreglu var haft eftir ökumanni bifreiðarinnar […] að hann hefði ekið eftir veginum á hraðanum 75 til 80 km/klst. þegar mikið högg kom aftan á hana. Hann hefði þá litið í baksýnisspegilinn og séð bifhjólið liggja á hliðinni í vegöxlinni. Í skýrslunni var einnig haft eftir tveimur vitnum, sem komu akandi úr gagnstæðri átt, að pallbifreiðin hefði skyndilega sveigt til hliðar og þau séð grátt ský þyrlast upp. Eitthvað svart hefði kastast í loft upp fyrir aftan bifreiðina svo hátt að það nam við þak hennar og síðan skollið í götuna fyrir aftan hana. Eftir að hafa ekið spölkorn nær hefðu vitnin séð ökumann bifhjólsins liggjandi á götunni. Þá kom fram í frumskýrslunni að óskað hefði verið eftir aðstoð frá rannsóknardeild og tæknideild lögreglu og hefðu rannsóknarlögreglumenn frá þeim deildum komið á vettvang og tekið við rannsókninni auk þess sem fulltrúi frá Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefði komið á slysstað.
9. Rituð var lögregluskýrsla síðdegis eftir slysið í kjölfar þess að rætt var frekar á vettvangi við ökumann bifreiðarinnar […]. Þar var haft eftir honum að hann hefði skömmu fyrir slysið ekið fram hjá skilti við veginn með hraðamæli en hámarkshraði þar er 70 km/klst. Hann hefði ekið á hraðanum 70 til 80 km/klst. en hann hefði það fyrir reglu að draga úr hraða þegar hann kæmi að þessu skilti. Því næst hefði skyndilega komið mikið högg aftan á bifreiðina og í baksýnisspegli hennar hefði hann séð bifhjól og ökumann þess liggja á veginum.
10. Meðal málsgagna eru myndir sem teknar voru af bifhjólinu og pallbifreiðinni eftir slysið. Þar sést mikil ákoma á pallbifreiðinni þar sem bifhjólinu var ekið aftan á hana. Stuðari bifreiðarinnar var mjög beyglaður og mun bifhjólið hafa farið undir hana og lent á aftari höggdeyfara hennar hægra megin.
11. Aðaláfrýjandi slasaðist mikið í slysinu og var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítalans í Fossvogi. Hann dvaldi á gjörgæslu til […] 2013 en síðan á almennri deild til […] sama ár. Í kjölfarið fór hann í endurhæfingu, fyrst á legudeild en síðan á dagdeild þaðan sem hann útskrifaðist um jólin 2013. Aðaláfrýjandi hefur við skýrslutöku hjá lögreglu og fyrir dómi sagt að hann sé ekki til frásagnar um slysið þar sem hann myndi hvorki eftir því né atvikum í aðdraganda þess.
12. Eins og áður greinir var aðaláfrýjandi tryggður lögboðinni slysatryggingu hjá gagnáfrýjanda. Með tölvubréfi 11. nóvember 2013 sendi lögmaður aðaláfrýjanda umboð sitt frá honum til að gæta hagsmuna gagnvart gagnáfrýjanda vegna slyssins. Jafnframt óskaði lögmaðurinn eftir afriti gagna málsins og að það yrði skráð í viðeigandi tryggingu hjá félaginu. Þessu erindi svaraði gagnáfrýjandi samdægurs og staðfesti móttöku umboðsins ásamt því að senda gögn málsins með tilkynningu sem fylla þyrfti út og skila til félagsins. Aðaláfrýjandi sendi þá tilkynningu til gagnáfrýjanda 29. janúar 2014.
13. Þegar gagnáfrýjanda hafði borist umrætt tölvubréf lögmanns aðaláfrýjanda 11. nóvember 2013 færði starfsmaður félagsins eftirfarandi í yfirlit um málið: „ALLS ekki opna líkamstjónið fyrr en við fáum rannsóknarskýrslu frá lögreglu, þær eru enn ekki komnar. Spurning um ofsaakstur ??? Vitum ekki.“ Einnig var eftirfarandi fært í yfirlitið 30. janúar 2014 í kjölfar þess að fyrrgreind tilkynning um tjónið barst gagnáfrýjanda deginum áður: „Get ekki tekið afstöðu til bótaskyldu fyrr en öll gögn frá lögreglu liggja fyrir eða hafa borist okkur.“
14. Við rannsókn á slysinu aflaði lögregla, á grundvelli 1. mgr. 86. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, útreiknings B, prófessors í vélaverkfræði, á hraða bifhjólsins í aðdraganda slyssins. Samkvæmt útreikningi hans 28. febrúar 2014 var hraðinn reiknaður út frá orkubreytingu vegna hemlunar, formbreytinga við áreksturinn og skriðs og orkubreytinga vegna viðnáms í frákasti. Miðað við þessar forsendur var áætlaður hraði hjólsins reiknaður 115 km/klst., mögulegur lágmarkshraði 105 km/klst. en hámarkshraði 126 km/klst. Þó var tekið fram að öll orkulosun sem ekki væri tekið tillit til í útreikningnum ylli því að raunverulegur hraði væri meiri en útreiknaður hraði. Aðaláfrýjandi mætti til skýrslutöku hjá lögreglu 4. mars 2014 þar sem honum var kynnt niðurstaða útreikningsins. Hann lýsti því yfir að sér þætti þetta allt of mikill hraði sem þarna kæmi fram. Honum væri kunnugt um að hámarkshraði á veginum, sem hann væri mjög vanur að aka, væri 70 km/klst. og hann æki þar alltaf á þeim hraða.
15. Með bréfi 14. febrúar 2014 óskaði gagnáfrýjandi eftir því við lögreglu að fá afrit af öllum gögnum um slysið. Því erindi mun ekki hafa verið svarað. Gagnáfrýjandi ítrekaði þessa ósk með bréfi 27. janúar 2015 og munu honum hafa borist rannsóknargögn málsins 13. febrúar sama ár.
16. Gagnáfrýjandi tilkynnti aðaláfrýjanda með tölvubréfi 17. febrúar 2015 að fallist væri á bótaskyldu vegna líkamstjónsins. Aftur á móti yrði réttur aðaláfrýjanda til bóta skertur um helming vegna stórkostlegs gáleysis hans við akstur bifhjólsins á ætluðum hraða sem samkvæmt útreikningi hefði verið langt umfram hámarkshraða á veginum. Þessu erindi svaraði lögmaður aðaláfrýjanda með tölvubréfi 19. sama mánaðar. Þar kom fram að gagnáfrýjandi hefði sent gögn málsins til aðaláfrýjanda 11. nóvember 2013, þar með talið lögregluskýrslu. Tilkynning um skerðingu bóta hefði borist rúmum 18 mánuðum eftir slysið og 15 mánuðum eftir að aðaláfrýjandi veitti lögmanninum umboð og önnur gögn málsins bárust honum. Tilkynningin hefði því borist of seint og gagnáfrýjandi glatað rétti til að bera fyrir sig takmörkun á ábyrgð, sbr. 94. gr. laga nr. 30/2004. Þessu andmælti gagnáfrýjandi með tölvubréfi sama dag og tók fram að félagið hefði strax fengið fjögurra síðna frumskýrslu lögreglu en frekari gögn frá henni hefðu ekki borist fyrr en 13. febrúar 2015. Gagnáfrýjandi áréttaði síðan með tölvubréfi 26. þess mánaðar að skerðing bóta stæði óhögguð.
17. Aðaláfrýjandi gekkst undir lögreglustjórasátt 6. júní 2014 um að greiða 15.000 króna sekt vegna of hraðs aksturs á bifhjóli sínu í aðdraganda slyssins en brotið var talið varða við 1. mgr. 36. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. þágildandi umferðarlaga nr. 50/1987.
18. Málsaðilar stóðu saman að því að afla sérfræðilegs álits 4. júní 2015 um líkamstjón aðaláfrýjanda eftir skaðabótalögum. Samkvæmt álitinu var tímabundið atvinnutjón hans 100% frá […] 2013 til 31. janúar 2014, 80% frá 1. febrúar til 30. apríl 2014 og 50% frá 1. maí til […] 2014. Tímabil þjáningabóta var frá slysdegi til […] 2014, þar af hefði aðaláfrýjandi verið rúmfastur til 1. nóvember 2013. Miðað var við að heilsufar aðaláfrýjanda hefði orðið stöðugt […] 2014 en varanleg örorka var metin 85% og varanlegur miski 68 stig.
19. Á grunni umrædds álits á tjóni aðaláfrýjanda fór fram uppgjör milli aðila 21. október 2015. Til frádráttar við uppgjörið kom 40% af eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum miðað við útreikning 8. sama mánaðar sem gagnáfrýjandi aflaði. Þá var lagt til grundvallar að aðaláfrýjandi þyrfti vegna eigin sakar að bera að hálfu leyti tjón sitt sjálfur. Í samræmi við þetta nam greiðsla gagnáfrýjanda til aðaláfrýjanda samtals 36.122.194 krónum en þar af var kostnaður fyrir þjónustu lögmanns aðaláfrýjanda 1.343.472 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Við uppgjörið gerði aðaláfrýjandi fyrirvara við sakarskiptingu og frádrátt samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.
20. Eftir að hafa borið málið undir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum, sem taldi að skerða ætti bætur til aðaláfrýjanda um þriðjung, höfðaði hann málið í héraði 13. desember 2016. Undir rekstri þess var aflað matsgerðar 24. maí 2017 á ætluðum hraða bifhjólsins þegar slysið varð. Í héraðsdómi er gerð nánari grein fyrir niðurstöðum matsmannsins.
Lagaumhverfi
21. Þegar slysið varð var lögboðin skylda í 1. mgr. 92. gr. þágildandi umferðarlaga nr. 50/1987 til að taka sérstaka slysatryggingu fyrir hvern ökumann sem stjórnaði ökutæki, enda hefði hann ekki notað ökutækið í algeru heimildarleysi, sbr. 2. mgr. 90. gr. laganna. Samhljóða ákvæði er nú í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 30/2019 um ökutækjatryggingar.
22. Um slysatryggingu ökumanns fer eftir 90. gr. laga nr. 30/2004 ef vátryggingaratburði er valdið af gáleysi. Af 1. mgr. greinarinnar leiðir að lækka má eða fella niður ábyrgð vátryggingafélags ef vátryggður samkvæmt slíkri tryggingu hefur valdið því af stórkostlegu gáleysi að vátryggingaratburður varð eða að afleiðingar hans urðu meiri en ella hefðu orðið. Hið sama á við ef vátryggður hefur af stórkostlegu gáleysi valdið því að vátryggingaratburður varð með því að hlíta ekki varúðarreglum. Við úrlausn um þessi atriði skal litið til sakar vátryggðs, hvernig vátryggingaratburð bar að, hvort vátryggður var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna sem hann hafði sjálfviljugur neytt og atvika að öðru leyti. Í 2. mgr. 90. gr. laganna segir síðan að í öðrum tilvikum en greinir í 1. mgr. ákvæðisins geti félagið ekki borið fyrir sig að vátryggður hafi af gáleysi valdið vátryggingaratburði. Með þessu er því slegið föstu að vátryggingafélag getur ekki borið fyrir sig að vátryggingaratburði hafi verið valdið með almennu gáleysi.
23. Um tilkynningarskyldu vátryggingafélags ef það ætlar að bera fyrir sig rétt til takmörkunar á ábyrgð vegna persónutrygginga fer eftir 94. gr. laga nr. 30/2004. Af 1. mgr. ákvæðisins leiðir að félagið skal, ef það hyggst bera fyrir sig að það sé samkvæmt 1. mgr. 90. gr. laganna laust úr ábyrgð að öllu leyti eða að hluta, tilkynna vátryggingartaka eða þeim sem rétt á til vátryggingarbóta skriflega um afstöðu sína. Tilkynningin skal send án ástæðulauss dráttar eftir að félagið vissi um þau atvik sem veita því heimild til að beita þessum rétti sínum. Vanræki félagið að senda slíka tilkynningu glatar það rétti til að bera fyrir sig atvikin, sbr. 2. mgr. 94. gr. laganna.
24. Í athugasemdum með frumvarpi er varð að lögum nr. 30/2004 voru settar fram í einu lagi skýringar við 94. gr. um tilkynningarskyldu vátryggingafélags vegna persónutrygginga og hliðstætt ákvæði í 31. gr. um slíka tilkynningarskyldu vegna skaðatrygginga. Þar sagði að eðlilegt væri að á vátryggingafélagi hvíldi skylda til að koma því á hreint gagnvart vátryggðum hvort það ætlaði að bera fyrir sig takmörkun á ábyrgð. Tilkynningu skyldi komið á framfæri við vátryggingartaka en það gerði félagið með því að senda honum skriflega tilkynningu. Munnleg tilkynning nægði því ekki. Tilkynninguna skyldi senda án ástæðulauss dráttar en mat á því hversu mikið svigrúm félagsins væri að þessu leyti yrði að fara fram í hverju tilviki fyrir sig. Ekki yrðu gerðar þær kröfur til félagsins að það sendi strax tæmandi upplýsingar um hvernig það myndi bregðast við. Nægjanlegt væri að það tilkynnti að til athugunar væri að bera fyrir sig takmörkun á ábyrgð en nauðsynlegt væri þó í þeim tilvikum að strax og atvik væru ljós skyldi send fullnaðartilkynning. Um afleiðingar þess að félagið sinnti ekki skyldu sinni sagði að þær væru að félagið glataði rétti til að bera fyrir sig takmörkun á ábyrgð en vanrækslan gæti falist í því að það drægi of lengi að senda tilkynningu en einnig að form hennar og efni væri ófullnægjandi. Í skýringum við 94. gr. í athugasemdum með frumvarpinu var áréttað að orðalag ákvæðisins miðaðist einungis við að félagið tilkynnti að það hygðist bera fyrir sig ábyrgðartakmörkun en því væri ekki skylt að tilgreina nákvæmlega í fyrstu tilkynningu hversu mikil lækkunin yrði enda gæti það ráðist af mati á upplýsingum sem fengjust með síðari gagnaöflun.
25. Í umræddri tilkynningarskyldu, sem hvílir á vátryggingafélagi er hyggst takmarka ábyrgð sína, felst lögboðin tillitsskylda gagnvart vátryggingartaka eða þeim sem á rétt til vátryggingarbóta. Hún miðar meðal annars að því að vátryggður fái sem fyrst upplýsingar um þessa afstöðu félagsins og þjónar jafnframt þeim tilgangi að hann geti brugðist við til að gæta hagsmuna sinna. Það kann að gera honum betur kleift að varpa ljósi á málsatvik en þegar hann fær síðbúna tilkynningu þar að lútandi. Auk þess er bagalegt fyrir vátryggðan að dráttur verði á slíkri tilkynningu því að þá kunna að skapast réttmætar væntingar hjá honum um að fullar bætur verði greiddar. Þennan tilgang að baki tilkynningarskyldunni ber að hafa í huga þegar metið er í hverju tilviki fyrir sig hvort hennar hafi verið gætt með fullnægjandi hætti.
26. Samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 30/2004 tekur frestur vátryggingafélags að líða þegar félagið „vissi um þau atvik sem veita því heimild til að beita rétti sínum“ til að skerða bætur. Með hliðsjón af þessum orðum verða ekki gerðar svo ríkar kröfur til vátryggingafélags að því beri að tilkynna um að það hyggist bera fyrir sig takmörkun á ábyrgð ef því mátti vera kunnugt um þessi atvik heldur verður yfirleitt að gera kröfu um raunverulega vitneskju félagsins. Þó verður talið að sterkar vísbendingar um þau geti eftir atvikum lagt ríkari skyldur á félag til að kanna og ýta á eftir því að fá tiltæk gögn um hvort þessar vísbendingar séu réttar með þeim áhrifum að fresturinn taki að líða. Þetta verður ekki talið of íþyngjandi í garð vátryggingafélags enda er því í lófa lagið að bregðast við með því að tilkynna þeim sem á rétt til vátryggingarbóta að til athugunar sé hvort félagið hyggist bera fyrir sig takmörkun á ábyrgð, eins og ráðgert er í lögskýringargögnum. Þegar fullnægjandi upplýsingar liggja fyrir getur félagið síðan tekið endanlega ákvörðun sína.
27. Frestur vátryggingafélags til að senda tilkynningu eftir 1. mgr. 94. gr. laga nr. 30/2004 er skammur enda á að senda hana „án ástæðulauss dráttar“ eins og segir í ákvæðinu. Þessi frestur getur þó ekki verið svo knappur að félagið hafi ekki eðlilegt svigrúm til að meta atvik til að taka ígrundaða afstöðu til þess hvort það beri fyrir sig takmörkun á ábyrgð sinni. Því má þó slá föstu að slíkt svigrúm geti ekki staðið mánuðum saman eftir að félagið fær upplýsingar sem gefa því tilefni til að bregðast við.
Niðurstaða
28. Eins og áður greinir viðurkenndi gagnáfrýjandi bótaskyldu vegna þess líkamstjóns sem aðaláfrýjandi varð fyrir í slysinu […] 2013. Deila málsins lýtur að því hvort aðaláfrýjandi þarf að einhverju leyti að bera tjón sitt sjálfur vegna stórkostlegs gáleysis við akstur bifhjólsins í aðdraganda slyssins. Ekki er tölulegur ágreiningur um kröfu aðaláfrýjanda.
29. Af hálfu gagnáfrýjanda hefur komið fram að hann hafi fengið frumskýrslu lögreglu 19. ágúst 2013. Jafnframt staðfesti gagnáfrýjandi við meðferð málsins fyrir Hæstarétti að skömmu eftir slysið hefðu honum verið tiltækar ljósmyndir af pallbifreiðinni sem aðaláfrýjandi ók aftan á og bifhjóli hans. Samkvæmt þessum gögnum lá fyrir frásögn ökumanns bifreiðarinnar að hann hefði í umrætt sinn ekið á hámarkshraða eftir veginum eða rúmlega það og myndir sem bentu eindregið til að áreksturinn hefði verið mjög harður. Eins og áður er rakið var fært 11. nóvember 2013 í yfirlit gagnáfrýjanda um málið að alls ekki mætti „opna líkamstjónið“ fyrr en rannsóknargögn hefðu borist frá lögreglu því að spurning væri um „ofsaakstur“. Að virtu því hvernig málið var metið hjá gagnáfrýjanda, eins og efni var til í ljósi tiltækra gagna á þeim tíma, hvíldi á honum ríkari skylda en ella til að bregðast við vegna sterkra vísbendinga um að aðaláfrýjandi hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi við aksturinn.
30. Þótt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 30/2004 mæli ekki berum orðum fyrir um að tilkynningarskylda hvíli á félagi um að til athugunar sé að bera fyrir sig rétt til takmörkunar á ábyrgð, án þess að endanleg ákvörðun hafi verið tekin í þeim efnum, er gert ráð fyrir þeirri málsmeðferð í lögskýringargögnum, eins og áður er rakið. Með slíkri tilkynningu er vátryggðum gert kleift að gæta hagsmuna sinna og fyrirbyggt að hjá honum skapist væntingar um fullar bætur þannig að hann hagi ráðstöfunum sínum í trausti þess. Gagnáfrýjandi sendi ekki tilkynningu af þessu tagi en með því hefði hann skapað sér frekara svigrúm til að taka afstöðu til þess hvort hann ætlaði að bera fyrir sig rétt til takmörkunnar á ábyrgð sinni. Í stað þess að bregðast við með þessu móti lét gagnáfrýjandi við það sitja að ítreka beiðni um að fá afrit af frekari gögnum um slysið með bréfi 27. janúar 2015 en þá voru liðnir ríflega 11 mánuðir frá því að sú beiðni var upphaflega send lögreglu með bréfi 14. febrúar 2014 án þess að því erindi væri svarað. Þegar hér var komið sögu hafði gagnáfrýjandi sýnt af sér slíkt tómlæti að hann hafði glatað rétti til að bera fyrir sig rétt til takmörkunar á ábyrgð vegna stórkostlegs gáleysis aðaláfrýjanda við akstur bifhjólsins, sbr. 2. mgr. 94. gr. laga nr. 30/2004.
31. Til stuðnings málatilbúnaði sínum hefur gagnáfrýjandi einnig teflt fram þeirri málsástæðu sem sjálfstæðum grundvelli til að skerða bótarétt aðaláfrýjanda að hann hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt 120. gr. laga nr. 30/2004 um að veita gagnáfrýjanda upplýsingar sem gátu haft áhrif á afstöðu hans til ábyrgðar sinnar. Þannig hafi lögregla kynnt aðaláfrýjanda 4. mars 2014 niðurstöður útreiknings á hraða bifhjólsins eða tæpu ári áður en gagnáfrýjandi fékk þann útreikning með gögnum málsins frá lögreglu. Einnig hafi aðaláfrýjandi ekki greint gagnáfrýjanda frá því að hann hafi gengist undir lögreglustjórasátt 6. júní sama ár vegna hraðaksturs í umræddu tilviki. Gagnáfrýjandi sendi aðaláfrýjanda aldrei tilkynningu þess efnis að hann hygðist bera þetta fyrir sig og hreyfði ekki þessari málsástæðu fyrr en í greinargerð sinni í héraði. Því hafði hann samkvæmt 94. gr. laga nr. 30/2004 glatað rétti til að bera þetta fyrir sig. Þess utan mátti aðaláfrýjandi gera ráð fyrir því að gagnáfrýjandi sjálfur aflaði þeirra gagna frá lögreglu sem hann teldi nauðsynleg til að taka afstöðu til málsins.
32. Samkvæmt öllu framansögðu verður ekki fallist á það með gagnáfrýjanda að honum hafi verið heimilt að skerða rétt aðaláfrýjanda til bóta úr slysatryggingunni. Verður krafa hans á hendur gagnáfrýjanda því tekin til greina með ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga en um kröfuna er ekki tölulegur ágreiningur eins og áður greinir. Staðfest verður sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að krafan beri dráttarvexti frá 8. nóvember 2015 en þá var mánuður liðinn frá því að fullnægjandi upplýsingar lágu fyrir til að meta fjárhæð bóta, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001. Jafnframt verður tekið undir það með Landsrétti að lagarök standi ekki til þess að miða upphaf dráttarvaxta við síðara tímamark vegna tafa á rekstri málsins af ástæðum sem aðilar bera ekki ábyrgð á.
33. Við ákvörðun málskostnaðar verður tekið tillit til þess að gagnáfrýjandi innti af hendi greiðslu vegna lögmannskostnaðar aðaláfrýjanda við fyrrgreint uppgjör 21. október 2015. Af þeirri ástæðu verður ákveðinn í einu lagi á öllum dómstigum málskostnaður sem gagnáfrýjanda verður gert að greiða og rennur í ríkissjóð, sbr. 4. mgr. 128. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um gjafsókn fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Gagnáfrýjandi, Vörður tryggingar hf., greiði aðaláfrýjanda, A, 66.646.608 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 af 7.913.230 krónum frá […] 2013 til […] 2014 og af 66.646.608 krónum frá þeim degi til 8. nóvember 2015 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 21. október 2015 að fjárhæð 34.778.722 krónur.
Gagnáfrýjandi greiði samtals 2.600.000 krónur í málskostnað á öllum dómstigum sem renna í ríkissjóð.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsókn eru staðfest.
Allur gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans 800.000 krónur.