Hæstiréttur íslands
Mál nr. 46/2022
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Nauðgun
- Sönnun
- Ómerkingarkröfu hafnað
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. september 2022 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að dómur Landsréttar verði staðfestur um sakfellingu ákærða og að refsing hans verði þyngd.
3. Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað á ný til löglegrar meðferðar í Landsrétti. Til vara krefst ákærði sýknu en til þrautavara að refsing hans verði milduð.
Ágreiningsefni
4. Með ákæru héraðssaksóknara 2. júlí 2020 var ákærða gefin að sök nauðgun og stórfellt brot í nánu sambandi með því að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 17. apríl 2019 ráðist að fyrrverandi kærustu sinni á heimili hennar með ofbeldi og haft samræði og önnur kynferðismök við hana án hennar samþykkis. Nánar tiltekið var ákærða gefið að sök að hafa þvingað hana til munnmaka og haft við hana samræði í tvígang með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung, en ákærði var sagður hafa klipið hana, slegið ítrekað í andlit og líkama, bitið, rifið í hár hennar og tekið hana kverkataki þannig að hún hefði átt erfitt með andardrátt. Ákærði hefði loks látið af háttsemi sinni eftir að brotaþoli hefði ítrekað beðið hann um að hætta. Með þessari atlögu hefði lífi, heilsu og velferð hennar verið ógnað á alvarlegan og sérstaklega sársaukafullan og meiðandi hátt. Um afleiðingar sagði að brotaþoli hefði hlotið roða, mar, bit- og klórför, þar á meðal á baki, bringu, handleggjum, rassi, lærum, hálsi og andliti. Háttsemin var í ákæru talin varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
5. Með héraðsdómi 31. mars 2021 var ákærði sýknaður af sakargiftum. Landsréttur sneri þeirri niðurstöðu við með hinum áfrýjaða dómi 13. júní 2022 og sakfelldi ákærða fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn var ákærði sýknaður af þeirri háttsemi að hafa gerst sekur um brot í nánu sambandi með þeim rökum að tengsl ákærða og brotaþola væru ekki slík að þau féllu undir 1. mgr., sbr. 2. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga.
6. Áfrýjunarleyfi í málinu var veitt 19. september 2022, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2022-115, á þeim grunni að ákærði hefði verið sýknaður í héraði en sakfelldur fyrir Landsrétti. Þegar þannig stæði á bæri að verða við ósk ákærða um leyfi til áfrýjunar nema Hæstiréttur teldi ljóst að áfrýjun myndi ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar, sbr. niðurlag 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þar sem því yrði ekki slegið föstu, auk þess sem talið var að úrlausn málsins um beitingu 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, eftir breytingar sem gerðar voru á ákvæðinu með lögum nr. 16/2018, kynni að hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 var beiðnin samþykkt.
7. Fyrir Hæstarétti leitar ákæruvaldið ekki endurskoðunar á þeirri niðurstöðu Landsréttar að heimfæra brot ákærða ekki undir 1. mgr., sbr. 2. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga. Þá féll ákæruvaldið frá eftirfarandi verknaðarlýsingu í ákæru: ,,en ákærði lét loks af háttsemi sinni eftir að [brotaþoli] hafði ítrekað beðið hann að hætta. Með þessari atlögu var lífi, heilsu og velferð [brotaþola] ógnað á alvarlegan og sérstaklega sársaukafullan og meiðandi hátt.“
Málsatvik og meðferð máls
8. Eins og fram kemur í dómi Landsréttar og héraðsdómi eru helstu málsatvik þau að ákærði og brotaþoli kynntust í desember 2018. Fram hefur komið hjá þeim báðum að samskipti þeirra hafi verið nokkur og meðal annars kynferðisleg.
9. Ákærða og brotaþola ber saman um að þau hafi rætt saman í síma 16. apríl 2019 og þá hafi meðal annars borið á góma að ákærði vildi slíta sambandinu. Einnig hafi þau ákveðið að hittast þá um kvöldið. Um nóttina hafi ákærði svo hringt í brotaþola og hún hleypt honum inn á heimili sitt. Þeim ber ekki saman um hvað klukkan hafi verið þegar ákærði kom til brotaþola. Hann telur það hafa verið milli klukkan 2 og 2.30 um nóttina en hún að það hafi verið um klukkan 4. Eins og greinir í héraðsdómi aflaði lögregla ekki upplýsinga um símnotkun ákærða og brotaþola þá um nóttina til að upplýsa hvenær þau ræddu saman stuttu áður en hún hleypti honum inn. Undir áfrýjun málsins til Landsréttar freistaði ákæruvaldið þess að afla þessara upplýsinga frá fjarskiptafyrirtækjum en í ljós kom að þeim hafði verið eytt. Um atvik á heimili brotaþola um nóttina ber henni og ákærða ekki að öllu leyti saman, eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi og héraðsdómi, en sakargiftir á hendur honum snúa að þeim atvikum.
10. Snemma morguns 17. apríl 2019 kom brotaþoli á neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi í fylgd vinkonu sinnar, B, og greindi frá því að ákærði hefði brotið gegn sér á heimili hennar fyrr um nóttina. Lögreglu var tilkynnt um atvikið laust eftir klukkan 8 um morguninn og ræddu lögreglumenn við brotaþola á spítalanum þar sem hún greindi frá samskiptum sínum við ákærða. Fram kom að hún hefði kallað eftir hjálp B undir morgun, þegar ákærði var sofnaður, og hefði B komið til hennar og farið með henni á spítalann. Brotaþoli afhenti lögreglu lykil að íbúð sinni og fóru lögreglumenn þangað og handtóku ákærða laust eftir klukkan 9 um morguninn þar sem hann lá sofandi í rúmi hennar. Í kjölfarið var vettvangur rannsakaður, auk þess sem bæði ákærði og brotaþoli gengust undir réttarlæknisfræðilega skoðun.
11. Við skoðun á ákærða í kjölfar handtöku að morgni 17. apríl 2019 gaf hann þvagsýni klukkan 9.55 og blóðsýni var dregið úr honum klukkan 10.43 sama dag. Í kjölfar þess að héraðsdómur gekk fól ríkissaksóknari lögreglu með bréfi 4. maí 2021 að láta fara fram rannsókn á vímuefnum í blóð- og þvagsýnum úr ákærða. Samkvæmt bréfi rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði 28. maí 2021 mældist etanól í blóðsýninu 0,70‰ og í þvagsýninu 1,78‰. Í matsgerð rannsóknarstofunnar 8. júní sama ár kom fram að magn etanóls í blóði benti til að ákærði hefði verið undir áhrifum áfengis þegar sýnið var tekið. Einnig benti hlutfall áfengis í þvagi og blóði til að nokkur tími hefði þá verið liðinn frá því að áfengisneyslu lauk. Þá sagði í matsgerðinni að lyf eða ólögleg ávana- og fíkniefni hefðu ekki verið í mælanlegu magni í sýnunum.
12. Fyrir Hæstarétt hefur ákæruvaldið lagt fram vottorð bráðalæknis á Landspítalanum 3. júní 2022 vegna skoðunar á brotaþola 17. apríl 2019 sem barst því eftir að málið var dæmt í Landsrétti og er það til viðbótar öðrum læknisfræðilegum gögnum sem höfðu verið lögð fram fyrir héraðsdómi um áverka brotaþola. Í vottorðinu kemur fram að á aftanverðum hnakka brotaþola hafi verið kúla og eymsli þar yfir. Vinstra megin á neðri vör hafi verið lítið sár og mar. Á kjálka vinstra megin, rétt framan við kjálkahorn, hafi verið mar sem gæti samrýmst því að vera eftir fingur. Hægra megin á hálsi, rétt aftan við kjálkahorn, hafi einnig verið mar sem samrýmdist þrýstingi eftir fingur. Eymsli hafi verið yfir höfuðvendivöðva beggja vegna og hafi brotaþoli lýst verk við að snúa höfði. Þá segir að brotaþoli hafi lýst eymslum í hálsi við að kyngja, auk þess sem hún fyndi til í kjálka vinstra megin við að opna munninn sem hún hefði þó getað að fullu. Á bringu brotaþola hafi verið marblettir og rispur á húð sem samrýmdust klóri. Einnig hafi verið marblettir á brjóstum sem samrýmdust bitum. Á utanverðum vinstri upphandlegg hafi verið marblettur sem samrýmdist biti og á utanverðum hægri upphandlegg verið marblettur. Þá hafi aftanvert á hægri framhandlegg verið marblettur sem gæti samrýmst eldra mari. Loks segir að á baki hafi verið fimm marblettir sem samrýmdust biti, á hægra læri ofarlega framanvert hafi verið dreifðir marblettir og mar á hægri rasskinn. Í vottorðinu er síðan að finna svohljóðandi samantekt og álit:
[Brotaþoli] var með útbreidda áverka sem allir samrýmast mjög vel lýsingu hennar á atburðum. Sérstaklega samrýmast marblettir á hálsi hennar því að hún hafi verið tekin kverkataki. Einnig samrýmast marblettir á brjóstum, vinstri upphandlegg og baki því að vera eftir bit. [...]
Aðrir áverkar [brotaþola] virtust hafa verið minni háttar, mar sem líklegast er að hafi valdið lýtum og ónotum í nokkrar vikur en góðar líkur eru á að hafi jafnað sig að fullu. Engin merki fundust um áverka sem klárlega hafi valdið varanlegu lýti, verkjum eða færniskerðingu.
13. Vegna áverka á hálsi og eymsla við að kyngja var brotaþoli skoðuð á háls-, nef- og eyrnadeild Landspítalans þegar hún var til rannsóknar þar eftir framangreinda atburði. Í vottorði sérfræðilæknis 10. febrúar 2022 kemur fram að brotaþoli hafi við skoðun verið með eymsli í hálsi og átt erfitt með að kyngja og sýnilega verið með marbletti framanvert á hálsi sem vel geti hafa komið til við að gripið hafi verið um háls hennar og hert að. Jafnframt segir að áverkinn hafi orsakað mar og blæðingu í húð og valdið þessum eymslum en ekki broti eða neinum varanlegum skaða.
Formhlið máls
Röksemdir ákærða
14. Krafa ákærða um ómerkingu hins áfrýjaða dóms er reist á því að ekki hafi með réttum hætti verið tekin afstaða til stöðugleika í skýrslum brotaþola og þýðingu þess að framburður hennar hafi stangast í veigamiklum atriðum á við sönnunargögn sem aflað var við rannsókn lögreglu. Jafnframt hafi skort á að tekin væri afstaða til þess að lögregla aflaði ekki símagagna sem skorið hefðu úr um hvort ákærði eða brotaþoli greindi rétt frá hvenær um nóttina hann hringdi til hennar rétt áður en hún hleypti honum inn á heimili sitt. Þá hafi í engu verið vikið að mati á trúverðugleika framburðar ákærða og brotaþola í ljósi rannsóknar á magni áfengis sem mældist í blóði og þvagi ákærða en þær niðurstöður séu í andstöðu við fullyrðingu brotaþola um að hann hafi „dáið áfengisdauða“ um klukkan 6.30 eða þremur til fjórum klukkustundum áður en sýni voru tekin.
15. Ákærði vísar til þess að hann hafi verið sýknaður í héraði á þeim grundvelli að heildstætt mat á sönnunargögnum samkvæmt 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008 hafi leitt til þeirrar niðurstöðu að framburður brotaþola hefði ekki fengið slíka stoð í framburði vitna og gögnum málsins að sakfelling yrði reist á honum gegn eindreginni neitun ákærða. Þótt héraðsdómur hafi metið framburð brotaþola greinargóðan og stöðugan hafi verið litið til þess að atriði í honum hefði ekki fengið stoð í öðrum gögnum, svo sem að brotaþoli hafi bitið ákærða fast í hálsinn eða ákærði slegið höfði hennar utan í vegg. Einnig hafi héraðsdómur vísað í sakarmati sínu til framburðar brotaþola um að hún hafi vitað að ákærði væri fyrir harkalegt kynlíf og hún sjálf gæti hafa nefnt að hún væri því ekki með öllu fráhverf.
16. Á þessum grundvelli hafi Landsréttur komist að þeirri niðurstöðu í 18. lið hins áfrýjaða dóms að ekki væru forsendur til að hrófla við heildstæðu mati héraðsdóms á sönnunargildi framburðar ákærða og brotaþola þótt ekki yrði alfarið vísað á bug málflutningi sækjanda og verjanda um misræmi við mat á trúverðugleika framburðar ákærða og brotaþola. Í þeim efnum hafi fyrir Landsrétti verið bent á ýmis atriði sem stönguðust á eða fengju ekki stoð í gögnum málsins. Samkvæmt þessu hafi Landsréttur talið að ekki yrði fullyrt að atvik hafi verið þau að brotaþoli hafi grátið og beðið ákærða að hætta kynferðismökum áður en hann gerði það en að hans sögn hafi þeim lokið strax í kjölfar þess að hann sá hana fella tár og hún sagði honum að hætta. Þrátt fyrir þetta hafi ákærði verið sakfelldur en það hafi verið gert án þess að fram kæmi í dóminum hvað það væri í málatilbúnaði sem Landsréttur teldi ekki unnt að vísa alfarið á bug um misræmi í framburði. Jafnframt hafi ekki komið fram hvort misræmið tæki bæði til þess sem byggt var á af hálfu sækjanda og verjanda eða aðeins annars þeirra og þá um hvað.
17. Samkvæmt framansögðu telur ákærði að Landsréttur hafi við úrlausn málsins ekki metið með fullnægjandi hætti sönnunargildi framburðar ákærða og brotaþola, þar á meðal trúverðugleika þeirra, sbr. 115. gr. og 126. gr. laga nr. 88/2008.
Röksemdir ákæruvalds
18. Af hálfu ákæruvaldsins er byggt á því að sönnunarmati hins áfrýjaða dóms hafi ekki verið áfátt og því séu engin efni til að verða við kröfu ákærða um ómerkingu dómsins.
19. Ákæruvaldið andmælir því að niðurstöður rannsóknar um magn áfengis í blóði og þvagi ákærða fari í bága við framburð brotaþola. Af niðurstöðum þeirrar rannsóknar verði dregin sú ályktun að ákærði hafi verið undir allnokkrum áhrifum áfengis þegar hann hafi sofnað á heimili brotaþola strax eftir að kynmökum lauk en áfengisáhrifin hafi verið til þess fallin að hann festi fljótt svefn. Jafnframt telur ákæruvaldið engu breyta um mat á sönnunargildi framburðar brotaþola þótt hún hafi sagst hafa bitið ákærða í hálsinn en áverkar ekki fundist á honum fimm klukkustundum síðar. Í því sambandi bendir ákæruvaldið á að skeggvöxtur hans geti hafa hulið áverka. Loks bendir ákæruvaldið á að framburður brotaþola um að ákærði hefði slegið höfði hennar utan í vegg fái stoð í fyrrgreindu læknisvottorði 3. júní 2022 sem lagt hafi verið fram fyrir Hæstarétti og því sé ekki fyrir hendi misræmi að þessu leyti eins og héraðsdómur hafi lagt til grundvallar.
Niðurstaða um formhlið máls
20. Samkvæmt 2. mgr. 225. gr. laga nr. 88/2008 getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu áfrýjaðs dóms í sakamáli um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar. Á hinn bóginn kemur í hlut Hæstaréttar að meta hvort annmarki hafi verið á þeirri aðferð sem beitt var við sönnunarmatið sem gæti hafa haft áhrif á úrlausn máls. Þannig beinist endurskoðunin að því að kanna hvort sönnunarmatið hafi verið í samræmi við lög án þess að tekin sé afstaða til þess hvað telst sannað á grundvelli munnlegs framburðar. Um þetta verður vísað til dóma réttarins 15. október 2020 í máli nr. 16/2020 og 18. mars 2021 í máli nr. 34/2020.
21. Í samræmi við þetta verður ekki veitt leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar til Hæstaréttar til endurskoðunar á mati réttarins á sönnunargildi munnlegs framburðar, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Aftur á móti verður veitt leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar til að fá ómerkingu á héraðsdómi og landsréttardómi og heimvísun máls, sbr. d-lið 1. mgr. sömu greinar. Annmarki á aðferð við sönnunarmatið getur varðað ómerkingu dóms og heimvísun.
22. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi gáfu ákærði og brotaþoli viðbótarskýrslur við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti. Jafnframt voru spilaðar hljóð- og myndbandsupptökur af skýrslum þeirra og vitnisins B í héraði. Þá lágu fyrir endurrit af munnlegum skýrslum fyrir héraðsdómi.
23. Samkvæmt 115. gr. laga nr. 88/2008 metur dómari sönnunargildi framburðar ákærða, þar á meðal trúverðugleika hans við úrlausn máls. Í því sambandi skal meðal annars hugað að ástandi og hegðun ákærða við skýrslugjöf og stöðugleika í frásögn hans. Jafnframt metur dómari sönnunargildi vitnisburðar við úrlausn máls. Í því sambandi skal meðal annars hugað að afstöðu vitnis til ákærða, hagsmunum þess af málsúrslitum, þroska þess, áreiðanleika skynjunar þess á atvikum, minni, ástandi og hegðun þess við skýrslugjöf, öryggi þess og skýrleika í svörum og samræmi í frásögn, sbr. 126. gr. laganna. Þessi ákvæði gilda um meðferð máls fyrir Landsrétti, sbr. 210. gr. þeirra.
24. Þegar metinn er framburður ákærða eða brotaþola, að gættum þessum lagaákvæðum, verður að huga að innra samræmi framburðar, bæði fyrir dómi og hjá lögreglu, með tilliti til þess hvort mótsagna gæti í frásögn þeirra. Samhliða verður að kanna ytra samræmi framburðar sem beinist að því að virða hann í ljósi annarra upplýsinga sem komið hafa fram við málsmeðferð, þar með talið framburð annarra. Á þessum grunni er metið á lægri dómstigum hvort framburður er trúverðugur og hvaða áhrif það hefur með tilliti til annarra sönnunargagna. Um þetta vísast til fyrrgreinds dóms í máli nr. 16/2020 og einnig dóms réttarins 18. febrúar 2021 í máli nr. 30/2020.
25. Svo sem áður er rakið er krafa ákærða um ómerkingu hins áfrýjaða dóms reist á því að annmarki hafi verið á aðferð Landsréttar við mat á sönnunargildi framburðar brotaþola þar sem bæði mat á innra og ytra samræmi vættisins hafi verið ófullnægjandi. Landsréttur hafi ekki vísað alfarið á bug þeim atriðum sem teflt var fram og fólu í sér misræmi hjá brotaþola eða fengu ekki stoð í gögnum málsins án þess þó að taka rökstudda afstöðu til þeirra. Þau atriði sem hér er vísað til komu fram í greinargerðum fyrir Landsrétti og við flutning málsins hér fyrir dómi. Verður nú nánar vikið að þeim.
26. Í fyrsta lagi er vísað til þess að lögreglu hefði verið kleift að afla símagagna til að leiða í ljós hvenær ákærði hringdi í brotaþola rétt í aðdraganda þess að hún hleypti honum inn til sín. Eins og áður er rakið ber þeim ekki saman um hvenær þetta var um nóttina en með því að afla þessara upplýsinga hefði verið hægt að leiða í ljós hvort þeirra greindi réttar frá að þessu leyti. Um annað í aðdraganda atvika ber þeim hins vegar að mestu leyti saman.
27. Í öðru lagi er bent á að í hinum áfrýjaða dómi hafi í engu verið vikið að því hvernig framburður ákærða og brotaþola horfði við í ljósi rannsóknar á því magni áfengis sem mældist í blóði og þvagi hans. Telur ákærði að niðurstöður rannsóknarinnar séu í andstöðu við að hann hafi „dáið áfengisdauða“ í kjölfar kynmaka þeirra. Hér er þess að gæta að engar einhlítar ályktanir verða dregnar af mælingum á áfengi í blóði og þvagi ákærða nokkrum klukkustundum eftir atburði um hvort ákærði hafi misst meðvitund vegna áfengisneyslu, eins og brotaþoli hefur borið, eða sofnað fljótt eins og hann sjálfur hefur sagt. Þessar mælingar á áfengismagni gátu þannig ekki haft þýðingu við mat á trúverðugleika framburðar ákærða eða brotaþola.
28. Í þriðja lagi hefur verið vísað til þess að brotaþoli hafi sagt bæði hjá lögreglu og fyrir dómi að ákærði hafi skellt höfði hennar utan í vegg. Þetta sé hins vegar í andstöðu við rannsóknargögn en þar sé ekki greint frá áverkum á brotaþola sem renni stoðum undir þetta. Þótt þetta komi ekki fram í rannsóknargögnum er þess að gæta, eins og áður er rakið, að fyrir Hæstarétt hefur verið lagt læknisvottorð 3. júní 2022, ritað af þeim bráðalækni sem skoðaði brotaþola eftir komu á neyðarmóttöku, þar sem fram kemur að hún hafi verið með kúlu á aftanverðum hnakka og eymsli þar yfir. Um þetta tiltekna atriði verður vottorðið ekki vefengt og skiptir þá ekki máli að því leyti þótt afla hefði átt þess undir rannsókn málsins hjá lögreglu í samræmi við 1. mgr. 53. gr. og 1. mgr. 54. gr. laga nr. 88/2008.
29. Í fjórða lagi er bent á að brotaþoli hafi bæði hjá lögreglu og fyrir dómi greint frá því að þegar ákærði hafi legið á henni hafi hún bitið hann mjög fast í hálsinn til að verja sig. Við réttarlæknisfræðilega skoðun á honum hafi hins vegar ekki fundist áverkar sem rennt gætu stoðum undir þessa frásögn hennar.
30. Þau atriði sem hér hafa verið rakin komu öll til umfjöllunar við meðferð málsins fyrir Landsrétti og ljóst að litið var til þeirra við sönnunarmat réttarins þótt ekki hafi sérstaklega verið vikið að þeim í hinum áfrýjaða dómi. Þó að dómurinn hefði að réttu lagi mátt vera ítarlegar rökstuddur að þessu leyti er þess að gæta að ekki bar nauðsyn til að víkja að öllum sönnunaratriðum og mátti að skaðlausu sleppa þeim sem engu eða litlu hefðu breytt um sönnunarmatið. Að þessu gættu verður ekki fallist á það með ákærða að slíkur annmarki hafi verið á þeirri aðferð sem beitt var við sönnunarmat í hinum áfrýjaða dómi að efni séu til að ómerkja hann. Þeirri kröfu ákærða verður því hafnað.
Efnishlið máls
Röksemdir ákærða
31. Af hálfu ákærða er vísað til þess að Hæstiréttur verði að leggja mat á hvort ákæruvaldinu hafi tekist að sanna sakargiftir svo að hafið sé yfir skynsamlegan vafa, sbr. 108. gr. og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008, enda þótt rétturinn endurmeti ekki sönnunargildi munnlegs framburðar. Við þetta mat verði Hæstiréttur að leggja til grundvallar að frásögn ákærða hafi verið metin stöðug og greinargóð bæði af Landsrétti og héraðsdómi. Andspænis frásögn ákærða standi hins vegar framburður brotaþola um að atvik umrædda nótt hafi verið á allt annan veg. Til að framburður hennar verði lagður til grundvallar þurfi hann að fá fullnægjandi stoð í öðrum gögnum. Af hálfu ákærða er því haldið fram að svo sé ekki.
32. Ákærði telur að sönnunar- og sakarmat Landsréttar sé haldið þeim verulega annmarka að með öllu sé horft fram hjá því að brotaþoli hafi viðurkennt að hún og ákærði hafi áður átt í kynferðislegum samskiptum þar sem hörku hafi verið beitt. Jafnframt að brotaþoli hafi sagt að hún „fílaði smá“ kynlíf af því tagi og meðal annars sagt vinkonu sinni, fyrrgreindri B, frá því. Ekkert annað liggi fyrir en framburður brotaþola um að kynferðislegar athafnir ákærða umrædda nótt hafi verið harkalegri en áður en því hafi ákærði staðfastlega neitað. Einnig sé óumdeilt að brotaþoli vissi fyrir umrædda nótt að ákærði hneigðist til kynlífs þar sem háttsemi af því tagi sem lýst er í ákæru kemur við sögu.
33. Um það að brotaþoli hafi orðið fyrir slæmri lífsreynslu í umrætt sinn er af hálfu ákærða tekið fram í fyrsta lagi að það hafi enga þýðingu við mat á huglægri afstöðu hans á verknaðarstundu. Í öðru lagi sé lítt skiljanlegt hvað Landsréttur eigi við þegar staðhæft sé í 26. lið dómsins að brotaþoli hafi lýst upplifun sinni með einkar trúverðugum hætti, enda skorti bæði á innra og ytra samræmi í framburði hennar.
34. Í ljósi þess sem Landsréttur hafi talið sannað um atvik umrædda nótt hafi ekki verið sýnt fram á að ákærði hafi af ásetningi þvingað brotaþola til munnmaka og samræðis með ofbeldi og ólögmætri nauðung. Jafnframt fái ekki staðist niðurstaða hins áfrýjaða dóms um þýðingu þess efnisþáttar nauðgunar sem lýtur að samþykki og að lagabreytingar á 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga hafi þau áhrif sem rétturinn leggi til grundvallar í úrlausn sinni.
Röksemdir ákæruvalds
35. Ákæruvaldið tekur undir með Landsrétti að samþykki brotaþola hafi ekki staðið til kynmaka í umrætt sinn og að ákærða hafi verið það ljóst meðan á þeim stóð. Ákærði hafi því gerst sekur um það brot sem honum er gefið að sök.
36. Ákæruvaldið telur liggja fyrir að ákærði hafi ekki á neinn hátt leitað eftir samþykki brotaþola fyrir þeim kynferðismökum sem lýst er í ákæru. Þar sem samþykki hafi ekki legið fyrir sé ljóst að ákærði hafi þvingað brotaþola til þeirra með því ofbeldi sem hann kannist við að hafa beitt. Jafnframt sé þess að gæta að Landsréttur hafi metið lýsingar brotaþola á ofbeldinu trúverðugar, eins og fram komi í 26. lið dómsins.
Löggjöf
37. Í 194. gr. almennra hegningarlaga er mælt fyrir um refsinæmi nauðgunar en ákvæðið hefur tekið nokkrum breytingum í tímans rás. Með hliðsjón af sakarefni málsins er ástæða til að víkja að því hvernig ákvæðinu var breytt með lögum nr. 61/2007 og 16/2018.
38. Með lögum nr. 61/2007 sætti kynferðisbrotakafli almennra hegningarlaga heildstæðri endurskoðun. Eftir þá lagasetningu hljóðaði 1. mgr. 194. gr. laganna þannig:
Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.
39. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi sem varð að lögum nr. 61/2007 kom fram að við samningu þess hefði verið lögð áhersla á að reyna að tryggja, svo sem framast væri unnt með löggjöf, að friðhelgi, sjálfsákvörðunarréttur, kynfrelsi og athafnafrelsi hvers einstaklings væri virt. Aðalatriði kynferðisbrots væri að það bryti gegn þessum réttindum og væri alvarlegast fyrir þolendur þeirra. Í samræmi við þetta væri lagt til að lögð yrði minni áhersla á verknaðaraðferðir heldur yrði megináherslan lögð á að með brotunum væru höfð kynmök við þolanda án þess að samþykki hans væri fyrir hendi og þannig brotið gegn sjálfsákvörðunarrétti og athafnafrelsi hans í kynlífi. Nokkru síðar í athugasemdunum voru færð rök gegn því að byggja nauðgunarhugtakið eingöngu á því að samþykki skorti til kynmakanna, enda kallaði það á ítarlegri útlistun á því hvernig skilgreina ætti samþykki. Í því sambandi var nefnt að skortur á samþykki væri atriði sem væri fólgið í nauðgunarhugtakinu því að það væri einmitt sá skortur sem gerði háttsemina að nauðgun og þar með refsiverða. Í stað þess að miða hugtakið eingöngu við skort á samþykki væri vænlegra til árangurs að fella brott úr refsiákvæðinu að brotaþoli hefði verið þvingaður til kynferðismaka og leggja meiri áherslu á orsakatengslin milli ofbeldis og hótunar annars vegar og kynmakanna hins vegar. Ef sannað væri að beitt hefði verið ofbeldi eða hótunum til þess að hafa kynmök hlyti að mega gera ráð fyrir að þolandi hefði verið þvingaður til þeirra. Ella hefði ekki þurft að beita þessum aðferðum til þess að ná þeim fram.
40. Með lögum nr. 16/2018 var samþykki gert að þungamiðju nauðgunarhugtaksins og inntaki þess lýst. Eftir þá breytingu hljóðar 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga þannig:
Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Samþykki telst liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja. Samþykki telst ekki liggja fyrir ef beitt er ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.
41. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi er varð að lögum nr. 16/2018 kom fram um markmið lagasetningarinnar að nauðsynlegt væri að skilgreina nauðgun út frá skorti á samþykki til þess að unnt væri að veita kynfrelsi fullnægjandi réttarvernd. Tekið var fram að þessi skilgreining á nauðgun breytti því ekki að sönnunarstaða í kynferðisbrotamálum yrði alltaf þung en á hinn bóginn kynni hún að verða auðveldari í einhverjum tilvikum. Þá myndi áhersla á samþykki aukast við rannsókn og saksókn nauðgunarbrota. Með því að útfæra hvað felst í samþykki væri einnig mætt kröfum um skýrleika refsiheimilda samkvæmt 69. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Með hliðsjón af þessu var lagt til að 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga yrði breytt á þann veg að samþykki yrði í forgrunni skilgreiningar á nauðgun. Þannig yrði horfið frá megináherslu á verknaðaraðferðina. Þetta hefði í för með sér almenn varnaðaráhrif sem fælust í því að einstaklingar yrðu líklegri til að vera meðvitaðir um mikilvægi samþykkis fyrir þátttöku í kynferðislegri athöfn. Nánar var lagabreytingu þessari lýst þannig að refsingu varðaði að hafa samræði eða kynferðismök við mann án samþykkis hans. Aðaláherslan væri lögð á hvort samræði eða kynferðismök hefðu farið fram með vilja og samþykki þátttakenda. Til þess að ákvæðið fullnægði kröfum sem gerðar væru um skýrleika refsiheimilda væri jafnframt að finna nánari skilgreiningu á hvenær samþykki telst liggja fyrir og hvenær ekki. Samþykki teldist liggja fyrir ef það væri tjáð af frjálsum vilja. Samþykki teldist hins vegar ekki liggja fyrir ef það væri fengið með ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung eða með því að beita blekkingum eða hagnýta sér villu viðkomandi um aðstæður. Í nánari skýringum við ákvæðið segir síðan svo:
Hvað varðar hugtakið samþykki [...] er ljóst að samþykki til þátttöku í samræði eða öðrum kynferðismökum verður að tjá með orðum eða annarri ótvíræðri tjáningu. Það þýðir að gefa þarf samþykki til kynna eða að virk þátttaka í tiltekinni athöfn verði túlkuð sem samþykki af hálfu annars eða annarra þátttakenda. Ekki verður gerð krafa um að þátttakandi mótmæli eða sýni mótstöðu gagnvart þátttöku í kynferðislegri athöfn. Þá getur algert athafnaleysi ekki verið túlkað sem vilji til þátttöku.
Samþykki fyrir þátttöku í samræði eða öðrum kynferðismökum afmarkast við það tiltekna tilvik og við þær kynferðislegu athafnir sem samþykkið nær til. Af kynfrelsi leiðir að eðlilegt er að þátttakandi í kynferðislegri athöfn geti hvenær sem er skipt um skoðun um þátttöku sína. Slík skoðanaskipti verður að tjá með orðum eða annarri tjáningu þannig að annar eða aðrir þátttakendur verði þess áskynja.
Ekki er talið æskilegt að skilgreina of nákvæmlega með hvaða hætti samþykki skuli tjáð. Hætta er á að löggjöf sem setur nákvæm skilyrði fyrir því hvernig einstaklingar skuli tjá sig verði ekki í samræmi við hvernig mannleg samskipti eru í raun.
42. Af 18. gr. almennra hegningarlaga leiðir að nauðgun er ekki saknæm nema hún hafi verið framin af ásetningi. Í því felst að ásetningur verður að ná til allra efnisþátta verknaðarins eins og honum er lýst í 1. mgr. 194. gr. laganna. Samkvæmt þessu þarf ásetningur að taka til þess að hafa kynmök við manneskju þótt ekki sé fyrir hendi samþykki hennar til þeirra.
Niðurstaða um efnishlið máls
43. Eins og fyrr greinir er ákærða gefin að sök nauðgun með því að hafa ráðist með nánar tilgreindu ofbeldi að brotaþola á heimili hennar 17. apríl 2019 og haft við hana samræði og önnur kynferðismök án samþykkis hennar. Við þetta hefði brotaþoli hlotið margvíslega áverka sem nánar eru raktir í ákæru.
44. Samkvæmt 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga tekur refsinæmi nauðgunar til þess að hafa samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans en samþykki telst liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja. Samþykki telst hins vegar ekki liggja fyrir ef beitt er ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung til þess að ná fram kynmökum. Við túlkun ákvæðisins verður litið til lögskýringargagna með fyrrgreindum lögum nr. 16/2018, en um þýðingu lögskýringargagna í refsimálum má til hliðsjónar vísa til dóma Hæstaréttar 6. apríl 2006 í máli nr. 472/2005, 22. mars 2007 í máli nr. 331/2006 og fyrrgreinds dóms í máli nr. 30/2020. Þess er þó að gæta að mat á skýrleika refsiákvæðis hlýtur ávallt fyrst og fremst að ráðast af texta þess í samræmi við grundvallarregluna um skýrleika refsiheimilda samkvæmt 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar. Hér verður að hafa í huga að í 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga er beinlínis áskilið að samþykki liggi fyrir þegar það er „tjáð af frjálsum vilja“ en í því orðalagi ákvæðisins felst að samþykkið sé látið í té með orðum eða annarri ótvíræðri tjáningu.
45. Í hinum áfrýjaða dómi var talið sannað með framburði ákærða og brotaþola að hann hefði meðan á kynmökum stóð beitt hana ofbeldi. Jafnframt þótti sannað með trúverðugum framburði brotaþola, sem ljósmyndir af áverkum hennar renndu stoðum undir, að ákærði hefði í umrætt sinn beitt hana miklu ofbeldi. Þannig hefði ofbeldið verið þáttur í kynferðismökunum og félli háttsemin hlutlægt séð að lýsingu á refsinæmri háttsemi í 1. mgr. 194. gr. laganna. Þessi niðurstaða, sem reist var á munnlegum framburði, kemur ekki til endurskoðunar og verður lögð til grundvallar hér fyrir dómi.
46. Fyrir dómi hefur ákærði gengist við því að hafa ekki leitað eftir samþykki brotaþola áður en hann beitti hana ofbeldi við kynferðismökin. Þess í stað hafi hann gengið út frá því að samþykki hennar væri fyrir hendi í ljósi þess að hann hafi áður gengið fram gagnvart henni með þessu móti og jafnvel af enn meiri hörku. Þá hafi brotaþoli ekki á nokkurn hátt gefið til kynna að hún væri mótfallin kynferðismökunum meðan á þeim stóð.
47. Eins og áður greinir felst refsinæmi nauðgunar eftir 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga í því að hafa kynferðismök við mann án samþykkis hans en samþykkið þarf samkvæmt framansögðu að vera tjáð af frjálsum vilja. Að því gættu þurfti ákærði að fá ótvírætt samþykki brotaþola fyrir þeim ofbeldisfullu kynferðismökum sem ákæra lýtur að og gat hann ekki gefið sér að það væri sjálfkrafa fyrir hendi. Í því tilliti gat engu breytt frásögn hans um fyrri kynferðismök hans við brotaþola, eins og lagt var til grundvallar í hinum áfrýjaða dómi. Er þess þá að gæta að því ríkari kröfur verður að gera til þess að ótvírætt undanfarandi samþykki sé tjáð þegar gengið er fram með þeim líkamsmeiðingum sem ákærði beitti í umrætt sinn. Hér verður einnig byggt á þeirri niðurstöðu Landsréttar að ákærði hefði ekki haft réttmæta ástæðu til að ætla að brotaþoli væri samþykk þeim ofbeldisfullu kynferðismökum sem hann hafði við hana, en sú niðurstaða var öðru fremur reist á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi og sætir því ekki endurskoðun Hæstaréttar. Samkvæmt öllu þessu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að sakfella ákærða fyrir nauðgun en brotið varðar við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.
48. Með vísan til þess sem greinir í hinum áfrýjaða dómi um ákvörðun refsingar er hún hæfileg og verður dómurinn því staðfestur, þar á meðal um sakarkostnað.
49. Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins fyrir Hæstarétti, 1.914.203 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns Kristins Bjarnasonar lögmanns, 1.785.600 krónur.