Hæstiréttur íslands
Mál nr. 10/2025
Lykilorð
- Viðurkenningarkrafa
- Skaðabótaskylda
- Aflahlutdeild
- Aflamark
- Málsóknarfélag
- Lögvarðir hagsmunir
- Fyrning
- Fyrningarfrestur
- Stjórnarskrá
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Sigurður Tómas Magnússon og Skúli Magnússon.
2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. febrúar 2025. Hann krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda á tjóni félagsmanna áfrýjanda vegna úthlutunar á aflahlutdeild í makríl samkvæmt III. ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 151/1996 um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 46/2019. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Ágreiningsefni
4. Í málinu er deilt um hvort stefndi sé bótaskyldur vegna setningar laga nr. 46/2019 um breytingu á lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og lögum um stjórn fiskveiða. Þá deila aðilar um hvort krafa áfrýjanda sé fyrnd. Með lögunum var bætt ákvæði í lög nr. 151/1996 um fiskveiðar utan lögsögu Íslands um að úthlutun aflahlutdeildar í makríl til einstakra skipa skyldi miðast við tíu bestu aflareynsluár þeirra á árunum 2008 til 2018. Áfrýjandi byggir á að sú tilhögun hafi leitt til þess að skip félagsmanna hans hafi fengið minni hlutdeild í stofninum en ef miðað hefði verið við þrjú bestu veiðitímabil undangenginna sex veiðitímabila svo sem borið hefði að gera að óbreyttum lögum. Hafi lög nr. 46/2019 í reynd verið sett til að ívilna stærstu útgerðum landsins og feli í sér ólögmæta mismunun og skerðingu á atvinnu- og eignarréttindum félagsmanna hans.
5. Með héraðsdómi 9. desember 2024 var stefndi sýknaður af kröfu áfrýjanda á grundvelli fyrningar.
6. Áfrýjunarleyfi var veitt 21. febrúar 2025, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2025-2, á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi og skilyrðum 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála fyrir áfrýjun þess beint til Hæstaréttar væri að öðru leyti fullnægt.
Málsatvik
7. Áfrýjandi er málsóknarfélag samkvæmt 1. mgr. 19. gr. a laga nr. 91/1991 og gætir hagsmuna tólf útgerðarfélaga sem stunda veiðar á Norðaustur-Atlantshafsmakrílstofninum við Ísland. Telja þau sig hafa orðið fyrir tjóni vegna fyrirkomulags úthlutunar aflahlutdeildar í makríl samkvæmt lögum nr. 46/2019. Félagsmenn áfrýjanda voru einnig í Félagi makrílveiðimanna sem höfðaði mál gegn stefnda vegna sömu lagasetningar sem lauk með dómi Hæstaréttar 19. apríl 2023 í máli nr. 44/2022. Þar var aðalkröfu síðarnefnda félagsins um viðurkenningu á því að óheimilt hefði verið að takmarka heimildir félagsmanna þess til makrílveiða með lögum nr. 46/2019 vísað frá héraðsdómi.
8. Reglusetning um stjórn makrílveiða hefur einkum sótt stoð í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Með reglugerð nr. 863/2008 um stjórn makrílveiða íslenskra skipa utan lögsögu árið 2008 voru makrílveiðar í fyrsta sinn gerðar leyfisskyldar. Frá þeim tíma til setningar laga nr. 46/2019 var veiðunum stýrt með árlegum reglugerðum ráðherra og leyfum frá Fiskistofu til eins árs í senn. Með reglugerð nr. 285/2010 um stjórn makrílveiða íslenskra skipa árið 2010 var leyfilegum heildarafla skipa fyrst skipt niður á þrjá flokka skipa.
9. Með reglugerð nr. 233/2011 um stjórn makrílveiða íslenskra skipa árið 2011 var auk ákvörðunar um heildarafla í makríl, eins og í reglugerðinni frá 2010, mælt fyrir um ráðstöfun heildarafla til einstakra skipa til veiða í stofninum það ár og leyfilegum hámarksafla skipt á fjóra flokka skipa. Samhliða setningu reglugerðarinnar gaf atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið út tilkynningu 16. mars 2011 um fyrirkomulag makrílveiða það ár. Þar kom meðal annars fram að líkt og fyrr væri áhersla lögð á að ekki mætti reikna með að veiðarnar það árið sköpuðu grunn að veiðirétti í framtíðinni eða að framtíðarfyrirkomulagi veiða að öðru leyti. Þá var bent á að ekki lægi fyrir samfelld veiðireynsla í skilningi laga. Voru reglugerðir með svipuðu sniði næstu ár og heimildir til veiða veittar til eins árs í senn.
10. Með dómum Hæstaréttar 6. desember 2018 í málum nr. 508/2017 og 509/2017 var viðurkennt að stefndi bæri bótaábyrgð á fjártjóni sem tilgreind útgerðarfyrirtæki kynnu að hafa orðið fyrir vegna þess að skipum þeirra var á árunum 2011 til 2014 á grundvelli reglugerða úthlutað minni veiðiheimildum í makríl en skylt hefði verið samkvæmt lögum nr. 151/1996. Samkvæmt dómunum var veiðireynsla íslenskra skipa í makríl orðin samfelld árið 2011 í skilningi 2. málsliðar 2. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 og af því leiddi að við úthlutun aflaheimilda í makríl árið 2011 hefði verið skylt að ákveða þeim aflahlutdeild í samræmi við 2. mgr. 5. gr. laganna. Það hefði ekki verið gert og útgerðum sem höfðuðu málin því verið úthlutað minni aflahlutdeildum en þær höfðu átt rétt til. Samtals settu sjö útgerðir fram kröfur á hendur ríkinu á sama grundvelli. Í kjölfar þessara dóma Hæstaréttar setti sjávarútvegsráðherra á fót starfshóp til að fara yfir þýðingu dómanna og veita ráðgjöf um viðbrögð.
11. Frumvarp það sem varð að lögum nr. 46/2019 var lagt fram á Alþingi 30. mars 2019. Það byggðist á tillögum fyrrgreinds starfshóps um hvernig aflamarksstjórn yrði tekin upp við veiðar á makríl. Í 1. gr. þess var mælt fyrir um að þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 skyldi Fiskistofa úthluta einstökum skipum aflahlutdeild í Norðaustur-Atlantshafsmakrílstofninum á grundvelli tíu bestu aflareynsluára þeirra á árunum 2008 til 2018 að báðum árum meðtöldum. Í greinargerð með frumvarpinu kom fram að með því væri meðal annars brugðist við framangreindum dómum Hæstaréttar frá 2018 um ólögmæti reglugerða um makrílveiðar. Tekið var fram að ef miðað væri við veiðireynslu undangenginna sex ára, 2013 til 2018, samkvæmt gildandi lögum væri líklegt að sú úthlutun myndi skapa ríkinu áframhaldandi skaðabótaábyrgð gagnvart þeim sem fengju minna úthlutað en þeir ættu rétt til á grundvelli veiðireynslu á árunum fyrir 2011.
12. Lög nr. 46/2019 voru samþykkt á Alþingi 19. júní 2019, fyrir upphaf makrílvertíðar það ár, og birt í Stjórnartíðindum 20. sama mánaðar. Tilkynning um úthlutun á aflahlutdeild og aflamarki í makríl á grundvelli lagabreytingarinnar var birt af Fiskistofu 8. ágúst 2019. Henni fylgdi einnig listi yfir hlutdeild einstakra skipa í makríl.
13. Lögmaður Félags makrílveiðimanna sendi upplýsingabeiðni til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis 2. nóvember 2019 og óskaði eftir öllum fyrirliggjandi gögnum, samskiptum og undirbúningsgögnum í tengslum við gerð og meðferð frumvarps til laga nr. 46/2019. Jafnframt var 13. desember sama ár óskað eftir upplýsingum frá Fiskistofu og beðið um öll fyrirliggjandi gögn, samskipti og upplýsingar sem stofnunin hefði látið af hendi vegna undirbúnings og meðferðar frumvarps sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vegna lagasetningarinnar. Eftir að upplýsingar bárust frá Fiskistofu vegna þeirrar beiðni sendi lögmaðurinn stofnuninni nýtt erindi 13. janúar 2020 og tók meðal annars fram að í nokkrum skjölum hefðu upplýsingar um nöfn skipa og veiðireynslu þeirra verið felldar út.
14. Í svari Fiskistofu 20. sama mánaðar var meðal annars vísað til þess að um væri að ræða vinnugögn í skilningi 5. töluliðar 6. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 auk þess sem óheimilt væri samkvæmt 9. gr. laganna að veita aðgang að gögnum um einka- og fjárhagsmálefni fyrirtækja og annarra lögaðila sem sanngjarnt væri og eðlilegt að færu leynt. Hefði umfram skyldu þó verið veittur aðgangur að þeim hluta skjalanna sem hefði að geyma reikniforsendur en hins vegar ekki þeim sem hefði að geyma nöfn aðila. Lögmaðurinn fékk send 21. janúar sama ár með tölvubréfi frá ráðuneytinu töflureiknisskjöl Fiskistofu og samskipti stofnunarinnar við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið um áhrif mismunandi forsendna í aðdraganda setningar laga nr. 46/2019.
15. Félag makrílveiðimanna höfðaði mál gegn stefnda 14. janúar 2020. Voru fyrrgreind gögn, sem lögmanni félagsins bárust 21. janúar sama ár, lögð fram í því máli í héraðsdómi 25. júní 2020 ásamt bókun. Sem fyrr greinir urðu lyktir málsins meðal annars þær að Hæstiréttur vísaði frá héraðsdómi þeirri kröfu félagsins sem laut að stjórnskipulegu gildi laga nr. 46/2019.
16. Áfrýjandi höfðaði mál þetta 18. október 2023.
Málsástæður
Helstu málsástæður áfrýjanda
17. Áfrýjandi reisir kröfu sína um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda á því að ákvæði 1. mgr. 1. gr. laga nr. 46/2019 hafi falið í sér ólögmæta mismunun gagnvart félagsmönnum hans og skerðingu á atvinnu- og eignarréttindum þeirra og brjóti þannig gegn 1. mgr. 65. gr., 72. gr. og 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Sjónarmið að baki lagasetningunni hafi verið ómálefnaleg og andstæð jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Hafi löggjafanum ekki verið heimilt á grundvelli þeirra að víkja frá meginreglu þágildandi laga um að aflahlutdeild skyldi ákveðin á grundvelli veiðireynslu síðustu þriggja ára eða miðuð við þrjú bestu veiðitímabil á undangengnum sex veiðitímabilum. Úthlutun aflaheimilda á grundvelli hins nýja viðmiðs laga nr. 46/2019 hafi leitt til þess að aflahlutdeild hvers félagsmanns hafi orðið verulega minni en ef notast hefði verið við gildandi viðmið og þannig falið í sér takmörkun á heimildum hans til að stunda fiskveiðar.
18. Í lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða og allt frá því að aflamark var fyrst tekið upp í lög með lögum nr. 44/1984 um stjórn botnfiskveiða hafi löggjafinn miðað við aflareynslu síðustu þriggja ára við skiptingu leyfilegs hámarksafla til framtíðar. Hafi verið viðurkennd sú meginregla um takmörkun á heimildum til veiða að aðeins þeir aðilar sem stunduðu veiðar á síðustu þremur árum af sex fyrir takmörkun á heildarafla nytu réttar til veiða til framtíðar. Sú meginregla hafi jafnframt verið tekin upp um úthafsveiðar með lögum nr. 151/1996.
19. Áfrýjandi bendir á að stefndi beri sönnunarbyrði fyrir því að sú umfangsmikla mismunun sem birtist í lögum nr. 46/2019 hafi verið nauðsynleg til að ná markmiðum laga um úthafsveiðar um takmörkun á veiðum. Af útreikningum Fiskistofu megi sjá að sú leið að miða við tíu bestu af síðustu ellefu veiðiárum hafi komið verulega betur út fyrir örfáar útgerðir uppsjávarskipa, eða sex útgerðir, þar á meðal þær tvær sem höfðuðu skaðabótamál gegn ríkinu. Hafi félagsmenn áfrýjanda þannig fengið um hálfa hlutdeild í afla miðað við það sem þeir hefðu fengið væri miðað við bestu þrjú árin af sex.
20. Telur áfrýjandi að setning laganna hafi byggst á þeim ómálefnalegu sjónarmiðum að greiða tilgreindum sex útgerðum í reynd skaðabætur, í formi aflahlutdeildar, á kostnað annarra sem stunduðu makrílveiðar fyrir kvótasetningu. Legið hafi fyrir að tillagan leiddi til umtalsverðrar skerðingar fyrir einhverjar útgerðir og jafnframt að hún myndi ívilna uppsjávarskipum sem hafi verið ein um veiðarnar á tímabilinu 2008 til 2010. Hafi mismunun þannig verið sjálfstætt markmið með frumvarpinu.
21. Áfrýjandi telur stefnda bera skaðabótaábyrgð á grundvelli almennu sakarreglu skaðabótaréttarins og reglunnar um vinnuveitendaábyrgð, enda hefði ráðherra sem lagði frumvarpið fyrir Alþingi mátt vita að það byggðist á ólögmætum sjónarmiðum. Hið sama hafi gilt um þá alþingismenn sem greiddu því atkvæði.
22. Áfrýjandi telur að krafa hans sé ófyrnd. Í þeim orðum 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda að tjónþoli hafi fengið nauðsynlegar upplýsingar um tjónið felist að hann búi yfir vitneskju og gögnum sem honum séu nauðsynleg til að höfða mál um kröfu sína. Áfrýjandi tekur fram að strangasta viðmið fyrir upphafstíma fyrningarfrests í málinu sé að telja félagsmenn áfrýjanda hafa búið yfir sömu gögnum og Félag makrílveiðimanna fékk eftir höfðun máls gegn stefnda sem lauk með fyrrgreindum hæstaréttardómi 19. apríl 2023. Þá hafi Félag makrílveiðimanna óvænt og ófyrirséð fengið 21. janúar 2020 töflureikni útbúinn af Fiskistofu frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu. Fyrst þá hafi verið mögulegt að reikna og bera saman áætlaða úthlutun og úthlutun samkvæmt meginreglu laga nr. 151/1996.
23. Áfrýjandi vísar til þess að byggt sé á þeim gögnum og upplýsingum sem aflað hafi verið af hálfu Félags makrílveiðimanna í fyrrgreindu máli og hafi hann með leyfi félagsins nýtt þau til að fara í sjálfstætt mál eftir að fyrrgreindur dómur Hæstaréttar lá fyrir. Loks byggir áfrýjandi á því að tjón vegna þess að úthlutað hafi verið of lítilli aflahlutdeild til félagsmanna hans falli til árlega með því að árlegt aflamark verði minna en ella. Það sé á forræði tjónþola með hvaða hætti hann kýs að setja fram bótakröfur sínar. Kröfu um bætur fyrir of lága aflahlutdeild megi setja fram sem bætur fyrir missi árlegra tekna af leigu aflahlutdeildar og svo sölu á henni, sbr. dóm Hæstaréttar 8. október 2009 í máli nr. 39/2009.
Helstu málsástæður stefnda
24. Stefndi byggir á því að krafa áfrýjanda hafi verið fyrnd þegar málið var höfðað. Frumvarp sem varð að lögum nr. 46/2019 hafi verið lagt fram á Alþingi 30. mars 2019. Í umsögn Félags makrílveiðimanna til atvinnuveganefndar Alþingis 30. apríl sama ár hafi meðal annars komið fram það álit félagsins að yrði frumvarpið að lögum myndu miklar heimildir færast frá minnstu og viðkvæmustu útgerðum landsins til þeirra stærstu. Þá hafi í frétt 13. júní 2019, þegar frumvarpið var til meðferðar á Alþingi, verið haft eftir talsmanni Félags makrílveiðimanna að útgerðarfélög sem að því stæðu hefðu ákveðið að höfða skaðabótamál á hendur stefnda yrði það að lögum. Í frétt birtri sama dag og lögin voru samþykkt á Alþingi eða 19. júní 2019 hafi áform um skaðabótamál verið áréttuð af formanni félagsins. Í málinu sem Félag makrílveiðimanna höfðaði að svo búnu á hendur stefnda 14. janúar 2020 og lauk með fyrrgreindum hæstaréttardómi 19. apríl 2023 hafi þó ekki verið gerð krafa um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda.
25. Stefndi byggir á því að hafi áfrýjandi beðið tjón í málinu hafi tjónsatburður orðið 20. júní 2019 þegar lög nr. 46/2019 voru birt í Stjórnartíðindum. Þann dag hafi útgerðirnar tólf að baki áfrýjanda þegar búið yfir upplýsingum um ætlað tjón sitt og þann aðila sem kynni að bera ábyrgð á því, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007. Umrædd málsókn Félags makrílveiðimanna geti ekki hafa rofið fyrningu á kröfu áfrýjanda á grundvelli 1. mgr. 15. gr. laga nr. 150/2007 enda hafi hún lotið að öðru sakarefni. Auk þess séu skilyrði 22. gr. laganna um viðbótarfrest vegna frávísunar dómkröfu ekki uppfyllt þar sem ekki sé um að ræða sama kröfuhafa í málunum tveimur.
26. Loks mótmælir stefndi málsástæðum áfrýjanda þess efnis að tjón hans falli til árlega enda telur stefndi að með því sé sett fram ný og breytt kröfugerð án þess að fyrir liggi nauðsynlegt samþykki stefnda samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991.
27. Stefndi tekur fram að lög nr. 46/2019 hafi verið sett af brýnni nauðsyn og með stjórnskipulega réttum hætti. Lögskýringargögn beri með sér að löggjafinn hafi við lagasetninguna þurft að horfa til ólíkra hagsmuna sem ekki hafi endilega farið saman. Einnig beri dómur Hæstaréttar í máli nr. 44/2022 með sér að lögin hafi verið reist á málefnalegum sjónarmiðum.
28. Við setningu laganna hafi staða útgerða í Félagi makrílveiðimanna almennt ekki verið sambærileg við stöðu þeirra útgerða sem áttu rétt til úthlutunar aflahlutdeildar á árinu 2011 á grundvelli veiðireynslu áranna þar á undan. Megi ætla að félagsmenn áfrýjanda hafi flestir öðlast veiðireynslu sína fyrir tilstilli árlegra reglugerða ráðherra sem gilt hafi um stjórn veiðanna frá árinu 2011 en þau stjórnvaldsfyrirmæli hafi skort lagastoð, svo sem staðfest hafi verið í dómum Hæstaréttar í málum nr. 508/2017 og 509/2017. Byggir stefndi á að þessar reglugerðir hafi þannig ekki getað skapað grundvöll að réttmætum væntingum um veiðirétt til framtíðar enda veiti jafnræðisreglan almennt ekki tilkall til neins sem ekki samræmist lögum. Auk þess hafi reglugerðirnar verið settar til eins árs í senn og hafi ekki verið ætlað að skapa grunn að fyrirkomulagi til framtíðar. Þá sé löggjafanum játað verulegt svigrúm til að mæla fyrir um almennar takmarkanir á atvinnuréttindum.
29. Stefndi byggir á því að sú forsenda sem liggi til grundvallar mati áfrýjanda á ætluðu tjóni félagsmanna sinna, það er að löggjafanum hafi við setningu laga nr. 46/2019 borið að skipta aflahlutdeild í makríl miðað við þrjú bestu veiðiárin af síðustu sex, sé haldlaus. Af sömu ástæðu hafi áfrýjandi ekki sýnt fram á orsakatengsl milli ætlaðs tjóns og tjónsatburðar.
Niðurstaða
Um aðild málsóknarfélags og viðurkenningarkröfu áfrýjanda
30. Áfrýjandi krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda á tjóni félagsmanna hans vegna úthlutunar á aflahlutdeild í makríl á grundvelli laga nr. 46/2019. Hann telur fyrirmæli laganna um að úthlutun aflahlutdeildar skyldi miðast við tíu bestu aflaárin á árunum 2008 til 2018 hafa með ólögmætum hætti valdið félagsmönnum sínum fjártjóni. Vísar hann til þess að félagsmenn hans hafi vegna setningar laganna fengið mun minni úthlutun en hefði orðið raunin ef fylgt hefði verið almennum reglum laga nr. 151/1996 og meginreglum fiskveiðistjórnarlöggjafarinnar að þessu leyti.
31. Af tilvísun 1. mgr. 19. gr. a laga nr. 91/1991 til 1. mgr. 19. gr. sömu laga leiðir að kröfur félagsmanna í málsóknarfélagi verða að vera af sömu rót runnar og sakarefnin einsleit að því leyti að sönnunarfærsla sé í meginatriðum sameiginleg fyrir þau öll þannig að réttarfarshagræði sé af þessu fyrirkomulagi. Þessum skilyrðum er fullnægt um málatilbúnað áfrýjanda.
32. Svo fullnægt sé áskilnaði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um lögvarða hagsmuni verða að liggja fyrir nægar líkur á að hver og einn félagsmanna áfrýjanda hafi orðið fyrir tjóni, í hverju tjón þeirra felst og hver tengsl þess séu við atvik máls. Getur áfrýjandi sem málsóknarfélag krafist í einu lagi viðurkenningar á bótaskyldu fyrir hönd félagsmanna sinna án tillits til bótafjárhæðar sem kæmi í hlut hvers og eins þeirra, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 2. maí 2016 í máli nr. 235/2016.
33. Í málinu er nægjanlega komið fram að skip félagsmanna áfrýjanda hafi fengið úthlutað minni aflahlutdeild í makríl vegna setningar fyrrgreindra breytingalaga nr. 46/2019 en leitt hefði af lögunum óbreyttum. Verður og að leggja til grundvallar að þetta hafi verið til þess fallið að valda félagsmönnum áfrýjanda tekjutapi og öðru fjárhagslegu óhagræði, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 3. desember 2009 í máli nr. 121/2009 og 4. maí 2020 í máli nr. 50/2019.
34. Samkvæmt framangreindu eru leiddar nægar líkur að því að umrædd lagasetning hafi bakað félagsmönnum áfrýjanda tjón og er skilyrðum 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 fullnægt um málatilbúnað hans.
Um fyrningu kröfu áfrýjanda
35. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007 fyrnist krafa um skaðabætur á fjórum árum frá þeim degi sem tjónþoli fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ábyrgð ber á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Í athugasemdum við frumvarp að lögum nr. 150/2007 kemur fram að skilyrði ákvæðisins um vitneskju tjónþola byggist á tveimur þáttum, annars vegar vitneskju um tjónið og hins vegar vitneskju um þann sem ábyrgð beri á því. Það sé fyrst þegar bæði skilyrðin eru uppfyllt að fyrningarfrestur kröfu byrji að líða.
36. Í aðdraganda setningar laga nr. 46/2019 og við þinglega meðferð frumvarpsins sem var lagt fram af ráðherra á Alþingi 30. mars 2019 komu fram margháttaðar athugasemdir af hálfu makrílveiðimanna um efni þess og áhrif. Í umsögn Félags makrílveiðimanna til atvinnuveganefndar Alþingis 30. apríl sama ár kom þannig meðal annars fram að yrði frumvarpið að lögum myndu miklar heimildir færast frá minnstu og viðkvæmustu útgerðum landsins til þeirra stærstu og sterkustu ásamt þeim skaðabótum sem þær fengju þegar frá ríkinu. Þegar frumvarpið var til meðferðar á þinginu 13. júní sama ár var haft eftir talsmanni félagsins í fjölmiðli að lögin myndu meðal annars leiða til þess að uppsjávarskip í eigu stærri útgerða myndu fá 15% meira af úthlutuðum makrílkvóta. Hins vegar myndu frystiskip missa 10% af kvóta sínum í makríl, ísfisktogarar í eigu meðalstórra útgerðarfyrirtækja 40% og krókaskip í eigu lítilla útgerða 45% af kvótanum. Jafnframt var lýst þeirri fyrirætlun félagsins að höfða skaðabótamál gegn stefnda yrði frumvarpið að lögum.
37. Sem fyrr greinir höfðaði Félag makrílveiðimanna mál á hendur stefnda 14. janúar 2020. Lyktaði því með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar 19. apríl 2023 í máli nr. 44/2022 þar sem vísað var frá héraðsdómi kröfu um viðurkenningu á að óheimilt hefði verið að takmarka heimildir félagsmanna til makrílveiða. Mál það sem hér er til úrlausnar var höfðað tæpum sex mánuðum eftir að dómurinn gekk, 18. október 2023, af áfrýjanda sem er málsóknarfélag tólf útgerða sem stunduðu makrílveiðar en þær stóðu jafnframt að fyrrgreindri málshöfðun Félags makrílveiðimanna.
38. Lög nr. 46/2019 voru samþykkt á Alþingi 19. júní 2019 og birt í Stjórnartíðindum 20. sama mánaðar. Þau öðluðust réttaráhrif daginn eftir samkvæmt fyrirmælum 2. mgr. 8. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað. Þegar litið er til atvika málsins og þess sameiginlega málsgrundvallar sem félagsmenn áfrýjanda byggja á verður litið svo á að setning laganna sé sá tjónsatburður sem kröfugerð hans miðast við. Þess er jafnframt að gæta að þegar við þetta tímamark hafði Félag makrílveiðimanna afráðið að höfða skaðabótamál gegn stefnda vegna setningar laganna.
39. Til þess er einnig að líta að tæpum tveimur mánuðum eftir samþykkt laganna, 8. ágúst 2019, úthlutaði Fiskistofa á grundvelli þeirra einstökum skipum bæði varanlegri aflahlutdeild og aflamarki í makríl fyrir það ár, þar með talið skipum félagsmanna áfrýjanda. Einnig var birtur heildarlisti yfir aflahlutdeild einstakra skipa í makríl. Í allra síðasta lagi á þessu tímamarki mátti félagsmönnum áfrýjanda því vera ljós aflahlutdeild og aflamark sem þeir nutu í makríl eftir setningu laga nr. 46/2019 og þá jafnframt sú skerðing sem lögin höfðu fyrirsjáanlega í för með sér samanborið við heimildir þeirra til veiða í makríl árin þar á undan.
40. Áfrýjandi hafði samkvæmt framansögðu allt frá birtingu laganna 20. júní 2019 en í síðasta lagi við úthlutun hlutdeilda og aflamarks í makríl 8. ágúst það ár nauðsynlegar upplýsingar um að lögin myndu leiða til skerðingar fjárhagslegra hagsmuna félagsmanna hans og þar með valda þeim tjóni.
41. Fyrningarfrestur kröfu áfrýjanda um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda byrjaði samkvæmt þessu að líða 20. júní 2019 og aldrei síðar en 8. ágúst sama ár. Ræður ekki úrslitum í þeim efnum þótt ekki hafi á þeim tíma verið hægt að staðreyna endanlega fjárhæð tjónsins, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 1. mars 2018 í málum nr. 200/2017 og 201/2017. Er því hafnað þeim röksemdum áfrýjanda að upphaf fyrningarfrests miðist við þann tíma sem upplýsingar komu frá Fiskistofu 21. janúar 2020 með töflureikni sem gerðu mögulegt að reikna út með nákvæmum hætti aflahlutdeild og aflamark skipa hvers og eins útgerðarfyrirtækis út frá mismunandi forsendum um viðmiðunartíma aflareynslu. Er þá einnig haft í huga að fyrningarfresti er meðal annars ætlað að gefa tjónþola hæfilegt svigrúm til að sannreyna umfang tjóns síns.
42. Áfrýjandi andmælir því jafnframt að stefndi geti í máli um viðurkenningu á skaðabótaskyldu borið fyrir sig fyrningu enda komi þær varnir fyrst til álita þegar sett sé fram fjárkrafa að gengnum viðurkenningardómi. Samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 15. gr. laga nr. 150/2007 er fyrningu slitið þegar kröfuhafi höfðar mál á hendur skuldara til að fá viðurkenningardóm fyrir grundvelli kröfu sinnar. Með hliðsjón af því leiða eðlisrök til þess að skuldari geti í viðurkenningarmáli um skaðabótaskyldu teflt fram þeirri vörn að krafan sé fyrnd. Um þetta má benda á dóm Hæstaréttar 8. mars 2018 í máli nr. 145/2017.
43. Loks stoðar áfrýjanda ekki að vísa til 1. mgr. 22. gr. laga nr. 150/2007 vegna fyrrgreindrar niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 44/2022 eða að með þeim dómi hafi stofnast nýr sex mánaða frestur til að höfða annað mál. Er málsgrundvöllur í þessu máli annar og sakarefni ólíkt því sem var til úrlausnar í fyrrgreindum dómi. Ákvæðið á því ekki við í málinu.
44. Að öllu þessu virtu og því að stefndi er óumdeilanlega sá sem ábyrgð myndi bera á tjóni félagsmanna áfrýjanda af völdum setningar laga nr. 46/2019 er krafa áfrýjanda fallin niður fyrir fyrningu samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 9. gr. laga nr. 150/2007.
45. Eftir öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
46. Rétt er að málskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.