Hæstiréttur íslands
Mál nr. 26/2025
Lykilorð
- Kærumál
- Börn
- Umgengni
- Aðför
- Innsetningargerð
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Karl Axelsson, Sigurður Tómas Magnússon og Skúli Magnússon.
2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. mars 2025 en kærumálsgögn bárust réttinum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 28. febrúar 2025 þar sem felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms um að sonur aðila skyldi tekinn úr umráðum varnaraðila með beinni aðfarargerð og afhentur sóknaraðila til umgengni við hann með nánar tilgreindum hætti.
3. Sóknaraðili krefst þess að sonur aðila, C, verði með beinni aðfarargerð tekinn úr umráðum varnaraðila og afhentur honum þannig að umgengni geti farið fram samkvæmt dómi Landsréttar 24. febrúar 2023 í máli nr. 577/2022, fyrsta mögulega laugardag klukkan 13 til 17 og annan hvern laugardag upp frá því. Til vara krefst hann þess að krafan verði tekin til greina þannig að umgengni geti farið fram samkvæmt dómi Landsréttar næstu sex mánuði eftir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar eða aðra ákvörðun réttarins. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum án tillits til gjafsóknar.
4. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur auk kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar.
Ágreiningsefni og helstu málsatvik
5. Í málinu er deilt um hvort sonur málsaðila verði með beinni aðfarargerð tekinn úr umráðum varnaraðila og afhentur sóknaraðila þannig að umgengni geti farið fram samkvæmt fyrrnefndum dómi Landsréttar í máli nr. 577/2022 þar sem leyst var úr kröfum aðila um forsjá og umgengni.
6. Kæruleyfi var veitt 23. apríl 2025, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2025-43, á þeim grundvelli að skilyrðum 3. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væri fullnægt.
7. Undir meðferð málsins fyrir Hæstarétti hefur sóknaraðili lýst því yfir að verði fallist á kröfur hans fyrir réttinum samþykki hann að umgengni fari fram undir eftirliti fyrstu sex mánuði eftir að henni yrði komið á að nýju.
8. Ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt. Þeirra á meðal er skýrsla sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um umgengni sonar aðila við sóknaraðila undir eftirliti sem fram fór 18. febrúar 2025. Þar kemur fram að drengurinn hafi sýnt jákvæð viðbrögð gagnvart sóknaraðila, engin neikvæð atvik komið upp og umgengni farið fram með eðlilegum hætti. Þá liggur fyrir læknisvottorð 14. mars sama ár þar sem fram kemur að sóknaraðili sæki reglulega lyf sín og mæti í viðtöl til lækna á sjúkrahúsinu Vogi.
9. Málsatvikum og málsástæðum aðila er nánar lýst í hinum kærða úrskurði og úrskurði héraðsdóms.
Niðurstaða
10. Samkvæmt 1. gr. a barnalaga nr. 76/2003 á barn rétt á að þekkja báða foreldra sína. Í 18. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, er kveðið á um að aðildarríki skuli gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að sú meginregla sé virt að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð á að ala upp barn og koma því til þroska. Í þessu ljósi ber að virða rétt barns samkvæmt 1. mgr. 46. gr. barnalaga til að umgangast með reglubundnum hætti það foreldri sitt sem það býr ekki hjá enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar á foreldri sem barn býr ekki hjá í senn rétt og ber skyldu til að rækja umgengni við barn sitt.
11. Með fyrrgreindum dómi Landsréttar 24. febrúar 2023 í máli nr. 577/2022 var leyst úr forsjármáli aðila. Þar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að varnaraðili færi ein með forsjá sonar þeirra. Í forsendum Landsréttar um rétt sóknaraðila til umgengni var tekið fram að hann hefði verið fallinn á vímuefnabindindi þegar dómur gekk í héraði. Þá var rakin sú forsenda að barnið teldist öruggt hjá honum að því gefnu að hann héldi bindindi sitt og sýndi fram á það með einhverjum hætti. Í dóminum var einnig rakin viðleitni sóknaraðila til að ná tökum á fíknivanda sínum og lýst innilegri löngun hans til að taka þátt í lífi sonar síns, svo og augljósri umhyggju í hans garð. Var það niðurstaða réttarins, meðal annars í ljósi þess að stutt væri síðan sóknaraðili hefði fallið á vímuefnabindindi, að nauðsynlegt væri að umgengni færi fyrst um sinn fram undir eftirliti.
12. Svo sem áður er rakið glímir sóknaraðili við fíknivanda og á að baki sakaferil sem honum tengist. Í málinu liggja meðal annars fyrir gögn um refsidóma og vímuefnaneyslu hans eftir að dómur Landsréttar í forsjármáli aðila féll 24. febrúar 2023. Samkvæmt gögnum málsins, þar á meðal þeim sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, gekkst sóknaraðili undir meðferð vegna fíknivanda í nóvember 2023 og hefur sótt stuðning meðferðaraðila frá þeim tíma. Verður ekki annað ráðið en að staða hans að þessu leyti sé í aðalatriðum óbreytt frá því að dómur Landsréttar gekk í forsjármáli aðila.
13. Af málatilbúnaði sóknaraðila verður ráðið að hann deili ekki um fyrrnefnda forsendu dóms Landsréttar um að umgengni hans við barnið sé háð því að hann sé án vímuefna og sýni fram á það með einhverjum hætti. Svo sem áður greinir liggur fyrir yfirlýsing hans um að hann samþykki að umgengni fari fram undir eftirliti fyrstu sex mánuði eftir að henni yrði komið á að nýju. Áður hefur einnig verið vikið að skýrslu eftirlitsaðila um umgengni 18. febrúar 2025 sem ber með sér að engin neikvæð atvik hafi þá komið upp.
14. Í ljósi alls framangreinds er ekki á það fallist að öryggi sonar aðila eða hagsmunum sé við núverandi aðstæður stefnt í hættu með umgengni sóknaraðila og þá með því fyrirkomulagi sem hann hefur fallist á fyrir Hæstarétti. Er þá enn sem fyrr höfð í huga sú forsenda fyrrnefnds dóms Landsréttar, sem sóknaraðili hefur fallist á, að barnið teljist öruggt hjá honum að því gefnu að hann haldi bindindi sitt og sýni fram á það með einhverjum hætti.
15. Samkvæmt þessu er ekki fullnægt skilyrði 2. málsliðar 1. mgr. 45. gr., sbr. 4. mgr. 50. gr. barnalaga, um að varhugavert sé með tilliti til hagsmuna barnsins að fallist sé á að umgengni sóknaraðila við son aðila verði komið á með aðfarargerð. Verður krafa sóknaraðila því tekin til greina með þeim hætti sem nánar segir í dómsorði.
16. Rétt er að málskostnaður falli niður á öllum dómstigum. Ákvæði hins kærða úrskurðar og úrskurðar héraðsdóms um gjafsóknarkostnað verða staðfest. Um gjafsóknarkostnað fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Fallist er á kröfu sóknaraðila, B, um að C verði með beinni aðfarargerð tekinn úr umráðum varnaraðila, A, og afhentur sóknaraðila þannig að umgengni geti farið fram samkvæmt dómsorði Landsréttar 24. febrúar 2023 í máli nr. 577/2022, þó þannig að umgengni verði undir eftirliti sérfræðings í málefnum barna fyrstu sex mánuði frá því að henni er fyrst komið á eftir uppsögu dóms þessa.
Málskostnaður fellur niður á öllum dómstigum.
Ákvæði hins kærða úrskurðar og úrskurðar héraðsdóms um gjafsókn eru staðfest.