Hæstiréttur íslands

Mál nr. 4/2025

Íslenska ríkið (Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður)
gegn
Hugin ehf. (Stefán A. Svensson lögmaður)

Lykilorð

  • Fiskveiðistjórn
  • Veiðiheimildir
  • Aflaheimild
  • Atvinnuréttindi
  • Stjórnarskrá
  • Skaðabætur
  • Tjón
  • Sönnun
  • Matsgerð

Reifun

Með dómi Hæstaréttar 6. desember 2018 í máli nr. 508/2017 var viðurkenndur réttur H ehf. til skaðabóta úr hendi Í vegna þess tjóns sem H ehf. kynni að hafa beðið vegna þess að fiskiskipi félagsins var á árabilinu 2011 til 2014 úthlutað á grundvelli fyrirmæla í reglugerð minni aflaheimildum en skylt var samkvæmt lögum nr. 151/1996 um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. H ehf. höfðaði síðan mál þetta á hendur Í til heimtu skaðabóta vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna þessa á árunum 2011 til 2018. Undir rekstri málsins var aflað matsgerða dómkvaddra matsmanna og reisti H ehf. endanlega kröfugerð sína á matsgerð þeirri sem hann óskaði eftir. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að með hinni ólögmætu tilhögun á úthlutun aflaheimilda í makríl á fyrrgreindu árabili hefðu atvinnuréttindi H ehf. verið skert. Þau nytu verndar 72. gr. stjórnarskrár en sú vernd væri takmarkaðri en vernd hefðbundinna eignarréttinda. Réði þar mestu að atvinnuréttindi væru háð óvissu um varanleika og efnislegt inntak, meðal annars vegna þess að löggjafanum væri ætlað víðtækt svigrúm til þess að grípa inn í nýtingu þeirra og ráðstöfun. Væri slík óvissa veruleg í tilviki mögulegrar nýtingar aflaheimilda í flökkustofni uppsjávarfisks eins og makríls. Hæstiréttur taldi ekki unnt að leggja afdráttarlaust til grundvallar að H ehf. hefði fullnýtt þá viðbót í aflaheimildum sem kröfur hans miðuðust við. Enn fremur yrði ekki talið að þau 10% vikmörk sem matsmenn miðuðu við vegna óvissuþátta næðu að fullu að fanga þá óvissu sem fyrir hendi væri um mögulega nýtingu H ehf. á umræddum aflaheimildum. Yrðu niðurstöður matsgerðarinnar því ekki lagðar óbreyttar til grundvallar niðurstöðu í málinu svo sem gert var í hinum áfrýjaða dómi. Á hinn bóginn var talið að H ehf. hefði sýnt nægilega fram á að hann hefði orðið fyrir nokkru fjárhagslegu tjóni af völdum þeirra bótaskyldu athafna Í að standa með ólögmætum hætti að úthlutun aflaheimilda í makríl til H ehf. á árunum 2011 til 2018. Voru því skilyrði talin til að dæma honum bætur að álitum og Í dæmt til að greiða H ehf. 250.000.000 króna í bætur.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Skúli Magnússon.

2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. janúar 2025. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar á öllum dómstigum.

3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni

4. Með dómi Hæstaréttar 6. desember 2018 í máli nr. 508/2017 var viðurkennt að áfrýjandi bæri skaðabótaábyrgð á því fjártjóni sem stefndi kynni að hafa orðið fyrir vegna þess að skipi hans, Hugin VE 55, var á árunum 2011 til 2014 úthlutað minni veiðiheimildum í makríl en skylt var samkvæmt lögum nr. 151/1996 um fiskveiðar utan lögsögu Íslands.

5. Í máli þessu sem stefndi höfðaði 13. júní 2019 krefur hann áfrýjanda fébóta vegna tjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna hinnar ólögmætu skerðingar á úthlutun heimilda til veiða á makríl framangreind ár 2011 til 2014 sem og árin 2015 til 2018. Lögum nr. 151/1996 var breytt með lögum nr. 46/2019 og tekin upp aflamarksstjórn með hlutdeildarsetningu við veiðar á makríl. Afmarkast bótakrafa stefnda við úthlutun heimilda árin 2011 til og með 2018.

6. Undir rekstri málsins í héraði öfluðu báðir aðilar matsgerða dómkvaddra manna. Eru þær frá 24. júní 2021 og lúta að nánar tilgreindum atriðum sem gætu haft áhrif á ætlað fjártjón stefnda. Kröfugerð hans tók allnokkrum breytingum á grundvelli matsgerðar þeirrar sem hann aflaði.

7. Með héraðsdómi var áfrýjandi dæmdur til greiðslu skaðabóta sem tóku í meginatriðum mið af lægstu mörkum fyrrgreindrar matsgerðar dómkvaddra manna. Í hinum áfrýjaða dómi var vísað til þess að matsgerð sem stefndi hafði aflað hefði ekki verið hnekkt með yfirmati. Þá var hafnað málatilbúnaði áfrýjanda um að tjón stefnda væri ósannað eða kröfur fyrndar. Var því staðfestur dómur héraðsdóms um bótafjárhæðir.

8. Áfrýjunarleyfi var veitt 24. janúar 2025, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2024-155, á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi meðal annars um sönnunarfærslu og ákvörðun fjártjóns.

Málsatvik

Tilhögun á úthlutun aflaheimilda í makríl 2011 til 2018

9. Í hinum áfrýjaða dómi sem og héraðsdómi er gerð grein fyrir málavöxtum. Þess er þó að gæta að efni og tilhögun kröfugerðar og málatilbúnaður stefnda hefur tekið nokkrum breytingum undir rekstri málsins svo sem nánari grein verður gerð fyrir.

10. Málið á sem fyrr segir rætur að rekja til ágreinings um þá tilhögun sem viðhöfð var við úthlutun aflaheimilda í makríl árin 2011 til 2018 en þeim bar að úthluta á grundvelli fyrirmæla fyrrnefndra laga nr. 151/1996, svo og laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Þess í stað grundvallaðist úthlutun hvers árs á fyrirmælum reglugerða, sem settar voru árlega, um stjórn makrílveiða íslenskra fiskiskipa.

11. Í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 508/2017 hafði stefndi uppi kröfu um viðurkenningu skaðabótaskyldu sem reist var á því að honum hefði með ákvörðunum Fiskistofu á árunum 2011 til 2014 verið úthlutað minni heimildum í makríl en rétt hefði verið samkvæmt lögum nr. 151/1996 og nr. 116/2006. Skylda til hlutdeildarsetningar makrílstofnsins samkvæmt lögum nr. 151/1996 hefði verið orðin virk þegar umræddar úthlutanir fóru fram og þar sem þær hefðu ekki farið fram á réttum lagagrundvelli hefði áfrýjanda orðið fyrir tjóni sem stefndi bæri ábyrgð á eftir reglum skaðabótaréttar.

12. Í umræddum dómi Hæstaréttar kom fram að niðurlagsákvæði 5. mgr. 4. gr. laga nr. 151/1996 væri fortakslaust um að þegar ráðherra setti sérstakar reglur um stjórn veiða íslenskra skipa á grundvelli þess ákvæðis giltu ákvæði 5. og 6. gr. laganna eftir því sem við gæti átt. Lagt var til grundvallar að með þeim reglugerðum sem ráðherra hefði sett um makrílveiðar íslenskra skipa innan og utan íslenskrar lögsögu árin 2008 til 2014 hefði í skilningi 2. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 verið tekin ákvörðun um að takmarka heildarafla úr makrílstofninum. Þá var talið að veiðireynsla í makríl hefði verið orðin samfelld árið 2011. Af því leiddi að við úthlutun aflaheimilda í makríl árið 2011 og síðar hefði verið skylt að ákvarða aflahlutdeild fiskiskipa stefnda í samræmi við 2. mgr. 5. gr. laganna. Það hefði ekki verið gert og stefnda því verið úthlutað minni heimildum en hann hefði átt rétt til. Viðurkenningarkrafa hans var því tekin til greina.

13. Sem fyrr segir var lögum nr. 151/1996 breytt árið 2019 með lögum nr. 46/2019, sbr. bráðabirgðaákvæði við fyrrnefndu lögin, og veiðarnar hlutdeildarsettar. Í ákvæðinu kom fram að Fiskistofa skyldi úthluta einstökum skipum aflahlutdeild í Norðaustur-Atlantshafsmakrílstofninum á grundvelli tíu bestu aflareynsluára þeirra á árunum 2008 til 2018, að báðum árum meðtöldum. Hefði skip komið í stað skips sem áunnið hefði sér aflareynslu á umræddu tímabili skyldi það njóta hennar.

14. Skaðabótakröfu sína í málinu fyrir ætlað tjón vegna skertra aflaheimilda í makríl árin 2011 til 2018, samtals 839.110.951 krónu, reisti stefndi upphaflega á útreikningum endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte ehf. 6. júní 2019. Þeim útreikningum mótmælti áfrýjandi. Undir rekstri málsins í héraði var sem fyrr segir aflað tveggja matsgerða dómkvaddra manna, beggja frá 24. júní 2021. Verður nánar vikið að efni þeirra hér í framhaldinu.

Niðurstöður matsgerðar stefnda

15. Undir rekstri málsins í héraði óskaði stefndi 5. maí 2020 dómkvaðningar sérfróðra manna til að meta ætlað tjón sitt. Voru tveir nafngreindir menn, dósent í fjármálum og löggiltur endurskoðandi, dómkvaddir 29. júní 2020 og er matsgerð þeirra frá 24. júní 2021.

16. Matsmenn voru í fyrsta lagi beðnir að svara því hver rétt aflahlutdeild skipa stefnda hefði verið ef löglega hefði verið staðið að málum, veiðar hlutdeildarsettar árið 2011 og að gefinni þeirri forsendu að hlutdeild skipa stefnda hefði haldist óbreytt frá ári til árs. Varð niðurstaða matsmanna að hún hefði með réttu átt að nema samtals 8,0189134% af heildarúthlutun. Ekki er deilt um þá niðurstöðu í málinu.

17. Matsmenn voru jafnframt beðnir um að meta tjón stefnda miðað við framangreinda forsendu um rétta árlega aflahlutdeild. Spurningar stefnda og samandregin svör matsmanna voru svofelld:

B) Að teknu tilliti til svarliðar A, umfang hagnaðar-/framlegðarmissis sem matsbeiðandi kann að hafa beðið vegna þess að honum var á árunum 2011 til 2018, með ákvörðunum Fiskistofu, sem teknar voru á grundvelli reglugerða, úthlutað minni aflaheimildum en skylt var samkvæmt lögum nr. 151/1996, nánar tiltekið:
hvort, og þá hver, viðbótarhagnaður/-framlegð matsbeiðanda hefði orðið;
hvort, og þá hver, tekjuaukning matsbeiðanda hefði orðið; og
hvort, og þá hver, kostnaðarauki matsbeiðanda hefði orðið
Matsmenn líti til, og meti, alla þá þætti sem þeir telja að geti haft þýðingu við mat á framangreindu, svo sem veiðigetu, áhrif á aðra starfsemi (t.d. veiðar) matsbeiðanda, o.fl.
Að því marki sem matsmenn kynnu að telja veiðigetu ekki fyrir hendi, hvert megi telja vænt söluvirði umfram aflaheimilda (þ.e. aflamark hvers árs), sbr. lið A, og hvort að markaður hafi verið fyrir sölu slíkra heimilda.
Matsmenn meti framangreint, sundurgreint eftir einstökum árum.
Hagnaðarmissir Hugins ehf. vegna þess að Hugin VE 55 var úthlutað minni aflaheimildum en skylt var skv. lögum nr. 151/1996 nam 572 milljónum króna á árunum 2011–2018. [ … ] sýnir þær viðbótaraflaheimildir sem Huginn VE 55 hefði fengið úthlutað á árunum 2011–2018 hefði makríll verið hlutdeildarsettur árið 2011 og mat matsmanna á þeim tekjum, kostnaði og hagnaði sem Huginn ehf. hefði haft af veiðum skv. þeim. Viðbótarhagnaður Hugins ehf. hefði numið alls um 572 milljónum króna á árunum 2011–2018. [ … ]
C) Að því leyti sem matsmenn telja niðurstöðurnar háðar óvissuþáttum, þá sé gerð grein fyrir þeim og hvaða áhrif þeir kunna að hafa á svör við einstökum spurningum, svo sem til lækkunar og hækkunar.
[ … ] Svar matsmanna við matsspurningu B er [ … ] háð nokkrum óvissuþáttum og þeim forsendum sem matsmenn gefa sér við matið. Að teknu tilliti til óvissuþátta liggur hagnaðarmissir Hugins ehf. að mati matsmanna á bilinu 470–790 milljónir króna.

Niðurstöður matsgerðar áfrýjanda

18. Með matsbeiðni 27. maí 2020 óskaði áfrýjandi einnig eftir dómkvaðningu sérfróðra manna til að meta áhrif nokkurra atriða sem honum virtust ekki rúmast innan spurninga í matsbeiðni stefnda. Voru sömu menn dómkvaddir 29. júní 2020 og er matsgerð þeirra jafnframt frá 24. júní 2021. Áfrýjandi óskaði eftir því að matsmenn lýstu hvernig veiðigeta þeirra skipa stefnda sem aflaheimildum var úthlutað til í makríl var nýtt árin 2011 til 2018. Einnig óskaði hann eftir sundurliðun á aflaheimildum sem stefndi ýmist leigði til sín eða frá sér á umræddu tímabili og jafnframt sambærilegra upplýsinga um einstök skip á sama tíma. Þá var óskað mats á hagnaði stefnda af veiðum á tímabilinu. Í svörum matsmanna kom fram að úthlutað aflamark skips stefnda á árunum 2011 til 2018 í nánar tilgreindum tegundum hefði numið alls 251.172 tonnum og aflinn 233.721 tonni. Þar af hefðu heimildir í makríl numið 83.049 tonnum og aflinn verið 76.113 tonn. Einnig kom fram að stefndi hefði leigt til sín 146.925 kíló aflaheimilda á umræddu árabili, engar þó í makríl. Þá hefði hann leigt frá sér 6.664.971 kíló af aflaheimildum í makríl til Guðrúnar Þorkelsdóttur ehf. árið 2018 meðan verið var að gera breytingar á Hugin VE 55 erlendis. Leigutekjur hefðu numið að jafnvirði 18,73 krónum á kíló. Loks varð niðurstaða matsmanna að meðalhagnaður á kíló fyrir skatta af veiðum stefnda á makríl á árunum 2011 til 2018, að teknu tilliti til allra kostnaðarliða í rekstri stefnda, hefði verið á bilinu 10,39 til 60,56 krónur á hvert kíló.

Endanleg kröfugerð stefnda og niðurstaða hins áfrýjaða dóms

19. Að fram komnum matsgerðum breytti stefndi kröfugerð sinni og lækkaði dómkröfur að teknu tilliti til niðurstaðna í matsgerð. Frá því var þó það frávik að vegna áranna 2012 og 2013 krafðist hann lægri bóta en leiddi af matsgerð. Miðaði hann kröfur vegna þeirra ára við upphaflega kröfugerð sína byggða á fyrrnefndu áliti Deloitte ehf. þar sem gerðar höfðu verið lægri kröfur. Kröfugerðin var eftir sem áður tvíþætt, annars vegar vegna áranna 2011 til 2014 (a-liður) og hins vegar vegna áranna 2015 til 2018 (b-liður). Aðalkrafa stefnda í héraði nam samtals 547.245.600 krónum en varakrafa samtals 532.035.786 krónum. Til þrautavara krafðist stefndi lægri skaðabóta að álitum.

20. Héraðsdómur dæmdi málið á grundvelli þrautavarakröfu stefnda. Var áfrýjanda gert að greiða honum samtals 467.200.266 krónur ásamt vöxtum sem sundurliðuðust þannig að 328.831.685 krónur voru dæmdar á grundvelli a-liðar kröfugerðarinnar og 138.368.581 króna á grundvelli b-liðar hennar. Þá var stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað. Stefndi undi þessari niðurstöðu sem staðfest var með hinum áfrýjaða dómi.

Málsástæður

Helstu málsástæður áfrýjanda

21. Áfrýjandi byggir á því að ekkert fjártjón hafi verið sannað í málinu og fyrirliggjandi gögn bendi til þess að ekkert tjón hafi orðið eða fallið til með þeim hætti sem stefndi haldi fram. Málatilbúnaður hans sé reistur á því að skip hans hefði með réttu átt að fá 19,8 þúsund tonnum úthlutað til viðbótar þeim heimildum sem ráðstafað var til stefnda á tilgreindu tímabili. Dómur Landsréttar byggist á að allur þessi viðbótarafli hefði náðst. Það fái ekki staðist, meðal annars í ljósi þess að stefndi hafi verið nokkuð fjarri því að nýta þær heimildir sem hann þó fékk úthlutað.

22. Áfrýjandi telur að gera verði skýran greinarmun annars vegar á viðfangsefni þeirra matsgerða sem fyrir liggja í málinu og hins vegar sönnun orsakatengsla. Stefndi hafi beðið matsmenn að reikna út líklega framlegð ár fyrir ár af hverju kílói makrílhlutdeildar sem vantaði upp á að hann fengi réttilega úthlutað. Sé það gefin stærð í matsspurningum að hvert kíló hefði veiðst og úthlutunin nýst að fullu. Þar hafi ekki verið um að ræða niðurstöður matsmanna heldur forsendur stefnda sem hann hafi sem matsbeiðandi lagt fyrir matsmenn. Byggi hann á að „honum hefði verið unnt að fullnýta þessar heimildir; að því marki sem svo væri ekki hefði matsbeiðandi þess utan getað framselt þær gegn endurgjaldi [...]“.

23. Að því er varðar sönnun orsakatengsla um hvort stefndi hefði náð að veiða viðbótarafla telur áfrýjandi að fullnægjandi sönnun liggi ekki fyrir og hafi mat á því ekki verið í verkahring matsmanna. Niðurstöðu þar um verði að meta út frá öðrum gögnum og hefðbundnum sjónarmiðum um sönnun og sönnunarbyrði enda hafi matsgerð um ætlaðan framlegðarmissi ekki beina þýðingu við mat dómstóla á sönnun um orsakatengsl. Skýrt fordæmi um það sé að finna í dómi Hæstaréttar 15. febrúar 2007 í máli nr. 120/2006. Hæstiréttur hafi þar hafnað því að leggja matsgerð um framlegðartap til grundvallar mati á orsakatengslum heldur skoðað hvernig rekstri hefði í raun verið hagað eftir að heimildir fengust með samanburði á orsakakeðjum. Dómurinn sýni vel þá áherslu sem leggja beri á einstaklingsbundna sönnunarfærslu fremur en almennar forsendur. Áfrýjandi vísar jafnframt til dóms Hæstaréttar 18. október 2018 í máli nr. 249/2017 þar sem rétturinn hafi hafnað sambærilegri aðferð matsmanna við mat á tjóni og dæmt bætur að álitum.

24. Áfrýjandi telur að stefndi beri sönnunarbyrði fyrir því að honum hefði verið kleift að afla teknanna og að ytri aðstæður hefðu verið þannig að það hefði tekist. Hvorugt liggi fyrir. Í matsgerð sé gert ráð fyrir að stefndi hefði fengið úthlutað viðbótarheimildum sem nemi 20,6 til 28,4% á ári. Taka þurfi afstöðu til þess hvort svo mikil viðbót hefði veiðst. Mikilvægasta sönnunargagnið um það sé hvort stefnda hafi í raun tekist að ná þeim afla sem honum var þó heimilt að veiða og jafnframt hvernig honum tókst til við að veiða úthlutaðan afla í öllum tegundum á viðmiðunartímabilinu. Í matsgerð komi fram að stefndi hafi fengið úthlutað 251 þúsund tonni en veitt 233 þúsund tonn. Verulega vanti þannig upp á að náðst hafi að veiða heimilaðan afla og mest vantað upp á að heimildir næðust í makríl. Þessi gögn úr rekstri stefnda sjálfs sýni eindregið að frekari úthlutun hefði ekki skapað viðbótartekjur. Vangaveltur um að stefndi hefði keypt nýtt skip eða látið stækka skipið sem hann hafði yfir að ráða dugi ekki til að hnekkja þessari ályktun og er áréttað að matsmenn hafi efast um að afkastageta skipa stefnda hefði verið meira en 10 þúsund tonn af makríl á ári. Þeir gangi hins vegar út frá að félagið hefði ráðist í aðgerðir til að auka afkastagetu þannig að náðst hefði að veiða um 12 þúsund tonn árlega. Ekkert liggi fyrir um hvort slíkar ráðstafanir hefðu verið hagkvæmar fyrir félagið, auk þess sem fráleitt sé að gefa sér að ráðist hefði verið í slíkar breytingar strax árið 2011. Vísar áfrýjandi sérstaklega til þeirra aðstæðna sem uppi hafi verið á árunum 2011 og 2018 og telur hvað sem öðru líður útilokað að þessi tvö ár geti myndað grundvöll bótakröfu.

25. Áfrýjandi hefur jafnframt bent á að á árunum 2011 til 2015 hafi ríkt almennt bann við framsali aflamarks og á árunum 2015 til 2018 hafi slíkt framsal, svo sem leiga, sætt ýmsum takmörkunum. Til þessa sé ekki litið í málatilbúnaði stefnda.

26. Þá bendir áfrýjandi á að samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 sé úthlutun háð því skilyrði að skip afsali sér úthlutun annarra aflaheimilda allt að 15% og að í 9. mgr. sömu greinar komi fram að ráðherra geti ákveðið að allt að 5% heildaraflans verði ráðstafað sérstaklega til þeirra skipa sem hófu veiðar úr viðkomandi stofni. Þá hafi í reglugerðum hvers árs verið ýmis ákvæði sem ívilnað hafi umfram upphaflega úthlutun. Undirstriki þessar heimildir óvissuna um það hvernig málum hefði verið háttað ef úthlutun hefði farið réttilega fram á grundvelli laganna.

27. Loks telur áfrýjandi að líta beri til sjónarmiða um skyldu til að takmarka tjón sitt og tómlæti í málinu. Stefnda hafi verið kleift að láta reyna á rétt sinn strax á árinu 2011 en ekki höfðað viðurkenningarmál fyrr en á síðasta degi fyrningarfrests.

Helstu málsástæður stefnda

28. Stefndi heldur því fram að aldrei sé hægt að fullyrða hver atburðarásin hefði nákvæmlega orðið hefði stefndi fengið réttu magni aflaheimilda í makríl úthlutað. Um sé að ræða bótaskylda háttsemi sem spanni átta ára tímabil þar sem atvik hefðu getað verið með margvíslegum og breytilegum hætti. Um óhjákvæmilegan óvissuþátt sé að ræða svo sem matsgerðin endurspegli.

29. Eins og lagt sé til grundvallar í matsgerðum megi ganga út frá því, í samræmi við eðli útgerðarstarfsemi og atvinnurekstrar almennt, að fyrirtæki leitist við að fullnýta verðmæti í formi aflaheimilda sem þeim standi til boða. Slíkt hefði hins vegar að áliti matsmanna leitt af sér tiltekinn aukakostnað, bæði fastan og breytilegan, sem tekið sé fullt tillit til við afmörkun tjóns og óvissa þar um metin áfrýjanda í hag en stefnda í óhag.

30. Stefndi bendir á að matsmenn hafi talið eðlilegt og rökrétt við mat á kostnaði af nýtingu aukinna heimilda að styðjast við fyrirliggjandi rekstrarniðurstöður um fastan og breytilegan kostnað á því tímabili sem um ræðir. Þannig séu rauntölur úr rekstri að baki því hvað kosti að afla hvers kílós í rekstri stefnda. Þær tölur séu síðan lagðar til grundvallar við mat á fjárfestingarþörf að baki auknum aflaheimildum. Þetta sé hlutlægur mælikvarði sem rökrétt og eðlilegt sé að styðjast við að mati matsmanna.

31. Stefndi gerir athugasemd við þann málatilbúnað áfrýjanda að ekki liggi fyrir hvort það hefði svarað kostnaði að nýta auknar aflaheimildir. Slíkt sé einfaldlega rangt enda alþekkt að leitast sé við að nota hlutlæga mælikvarða þegar óvissuþættir séu fyrir hendi. Við afmörkun fjártjóns stefnda sé leitast við að leggja mat á aukna fjárfestingarþörf, meðal annars í formi fasts kostnaðar, sem leitt geti til þess að kröfur stefnda lækki verulega samanborið við það ef kostnaðaraukinn hefði aðeins verið talinn breytilegur. Verði þetta ráðið af matsgerð. Telji áfrýjandi þessa matsaðferð ekki tæka hefði honum borið að afla yfirmats enda engir þeir annmarkar á þessari aðferðafræði að horfa eigi fram hjá henni. Við afmörkun bótafjárhæðar hafi allir helstu óvissuþættir auk þess verið metnir stefnda í óhag samkvæmt matinu og kröfugerð því numið lægri fjárhæðum en meginniðurstaða matsmanna um tjón upp á 572 milljónir króna.

32. Stefndi bendi á að í greinargerð áfrýjanda sé ítrekað vikið að því að stefndi hafi ekki fullnýtt aflaheimildir á því tímabili sem um ræðir og að „verulega“ hafi vantað upp á það. Áfrýjandi láti hins vegar hjá líða að nefna að samkvæmt reglugerðunum hafi verið heimilað að flytja allt að 15% af úthlutuðum aflaheimildum til næsta árs eða veiða allt að 10% umfram heimildir sem drógust þá frá aflaheimildum næsta árs. Kerfið hafi því verið sveigjanlegt í þessu tilliti og fyrirkomulagið meðal annars helgast af því að unnt væri að skipuleggja veiðiferðir á hagkvæman hátt, taka tillit til ytri aðstæðna og fleira því tengt. Svo að dæmi sé tekið hafi stefndi ekki fullnýtt aflamark sitt árin 2011 og 2012 en veitt langt umfram úthlutun vegna ársins 2013 þegar hann átti ónýttar heimildir vegna fyrri ára á grundvelli fyrrgreindra tilfærsluheimilda. Árið 2014 hafi aflamark stefnda svo verið lægra en svaraði til úthlutunar vegna mikilla veiða árið 2013.

33. Þær aðstæður sem liggi til grundvallar ákvörðun bóta séu í samræmi við reglur skaðabótaréttar og mun raunhæfari en hugmyndir áfrýjanda í þá veru að stefndi hefði kosið að sitja auðum höndum í átta ár og ekki nýtt sér úthlutaðar aflaheimildir sem hann hefði þess utan getað framselt.

34. Að lokum hafni stefndi óljósum hugmyndum áfrýjanda um takmörkun tjóns. Hafi áfrýjandi þvert á móti kosið að viðhalda hinu ólögmæta ástandi árum saman með endurteknum skaðabótaskyldum athöfnum í formi árlegra reglugerðarsetninga. Þá líti áfrýjandi fram hjá þeirri grundvallarstaðreynd að með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 508/2017 hafi skaðabótaskylda hans gagnvart stefnda verið viðurkennd.

Niðurstaða

35. Svo sem fyrr segir liggur til grundvallar málsókninni dómur Hæstaréttar í máli nr. 508/2017 þess efnis að áfrýjandi sé skaðabótaskyldur gagnvart stefnda, sbr. einkum eftirfarandi rökstuðning í dóminum:

Veiðireynsla íslenskra skipa í makríl var samkvæmt framansögðu árið 2011 orðin samfelld í skilningi 2. málsliðar 2. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996. Af því leiðir að samkvæmt 1. málslið málsgreinarinnar var við úthlutun aflaheimilda í makríl árið 2011 skylt að ákvarða aflahlutdeild Hugins VE 55 á grundvelli veiðireynslu skipsins, að viðbættri veiðireynslu Ísleifs VE 63, miðað við þrjú bestu veiðitímabil beggja skipanna á undangengnum sex veiðitímabilum. Í kafla VI hér að framan er rakið hversu miklum aflaheimildum úthlutað var til Hugins VE 55 á árunum 2011 til 2014 og hver úthlutun hefði átt að vera samkvæmt útreikningum áfrýjanda. Þeim útreikningum hefur stefndi ekki hnekkt. Verður samkvæmt því við það að miða að með umræddum ákvörðunum Fiskistofu, teknum á grundvelli reglugerða sem að þessu leyti stóðust ekki lög, hafi áfrýjanda verið úthlutað minni aflaheimildum í makríl á árunum 2011 til 2014 en skylt var samkvæmt skýru ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996. Þar sem úthlutunin var á umræddum árum ekki í samræmi við það sem lögskylt var og minni en áfrýjandi átti rétt til ber að fallast á með honum að stefndi beri ábyrgð á því fjártjóni sem áfrýjandi kann að hafa beðið af því að ekki var fylgt fyrirmælum laga í þeim efnum, sbr. dóma Hæstaréttar 15. janúar 1998 í máli 286/1997 sem birtur er í dómasafni réttarins árið 1998 á blaðsíðu 138, 23. febrúar 2006 í máli nr. 371/2005 og 8. október 2009 í máli nr. 39/2009. Verður krafa áfrýjanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda því tekin til greina á þann hátt sem í dómsorði greinir.

36. Ekki er deilt um það hlutfall aflaheimilda sem stefndi varð ólöglega af á árunum 2011 til 2018. Er því lagt til grundvallar að rétt árleg hlutdeild hans hefði átt að nema 8,0189134% í samræmi við niðurstöðu dómkvaddra manna. Um er að ræða viðbótarheimildir sem numið hefðu á bilinu 20,6 til 28,4% árlegri aukningu við þær aflaheimildir sem stefndi fékk til ráðstöfunar umrædd ár, samtals um 19,8 þúsund tonn af makríl. Á hinn bóginn deila aðilar um hvort stefndi hafi beðið fjártjón vegna þessa og þá hversu mikið. Í því tilliti er meðal annars deilt um sönnun fjártjóns, orsakatengsl og ætlað tómlæti stefnda.

37. Stefndi ber sönnunarbyrði fyrir því að framangreind skaðabótaskyld háttsemi áfrýjanda hafi valdið honum tjóni. Jafnframt ber hann sönnunarbyrði fyrir orsakatengslum og því að ætlað tjón teljist sennileg afleiðing skaðabótaskyldrar háttsemi samkvæmt reglum skaðabótaréttar. Tímamark bótaákvörðunar miðast við hinn bótaskylda atburð sem fólst í útgáfu reglugerða hverju sinni þar sem hin ólögmæta úthlutun heimilda var lögð til grundvallar veiðum viðkomandi árs. Í þeim skilningi var um átta bótaskylda atburði að ræða. Er það stefnda að sýna fram á að hann hafi orðið fyrir bótaskyldu tjóni á því tímamarki hverju sinni.

38. Með þeirri ólögmætu tilhögun við úthlutun aflaheimilda í makríl á árunum 2011 til 2018, svo sem Hæstiréttur staðfesti með dómi í máli nr. 508/2017, voru atvinnuréttindi stefnda skert enda falla veiðiheimildir sem ráðstafað er á grundvelli fiskveiðistjórnunarlöggjafar almennt í þann flokk.

39. Til atvinnuréttinda er jafnan vísað sem heimildar manna til þess að stunda áfram þau störf sem þeir hafa tekið upp eða þau störf sem þeir hafa fengið sérstakt leyfi stjórnvalda eða löggildingu til þess að stunda. Svo sem dómstólar hafa ítrekað lagt til grundvallar, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 27. september 2007 í máli nr. 182/2007, njóta atvinnuréttindi verndar 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Hins vegar hefur verið talið að vernd þeirra sé takmarkaðri en hefðbundinna eignarréttinda, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 13. febrúar 1997 í máli nr. 177/1996 en dómurinn er birtur á bls. 617 í dómasafni réttarins það ár og 19. apríl 2023 í máli nr. 44/2022. Ræður þar mestu að atvinnuréttindi eru af ýmsum ástæðum háð óvissu um varanleika og efnislegt inntak, meðal annars sökum þess að löggjafanum er ætlað víðtækt svigrúm til þess að grípa inn í nýtingu þeirra og ráðstöfun, sbr. tilvitnaðan dóm Hæstaréttar í máli nr. 182/2007. Allt að einu ræðst endanleg lögvernd atvinnuréttinda af stöðu þeirra og inntaki í hverju tilviki. Þegar slík réttindi eru skert án lagaheimildar eða beinlínis andstætt fyrirmælum laga fer ekki á milli mála að þau njóta verndar almennra skaðabótareglna eftir því sem við getur átt hverju sinni.

40. Þegar fjallað er um rétt til auðlindanýtingar samkvæmt lögum nr. 116/2006 sem þátt í atvinnuréttindum manna eða lögaðila er fyrst til þess fyrirvara að líta sem getið er í niðurlagsákvæði 1. gr. laganna að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt þeim myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Í samræmi við það kom þegar fram í dómi Hæstaréttar 6. apríl 2000 í máli nr. 12/2000 að aflaheimildir séu aðeins varanlegar í þeim skilningi að þær verði hvorki felldar niður né þeim breytt nema með lögum. Þá sagði að í skjóli valdheimilda sinna gæti Alþingi því kveðið nánar á um rétt til fiskveiða, bundið hann skilyrðum eða innheimt fyrir hann frekara fégjald vegna breyttra sjónarmiða um ráðstöfun þeirrar sameignar íslensku þjóðarinnar sem nytjastofnar á Íslandsmiðum séu. Hefur fyrirvari sama efnis verið endurtekinn í yngri dómum Hæstaréttar.

41. Þá er sérstaklega að því að gæta í málinu að krafa stefnda um skaðabætur lýtur að auðlindanýtingu sem eðli málsins samkvæmt er háð talsverðri óvissu um ýmis atriði. Má vera ljóst að óvissa hlaut af ýmsum ástæðum að vera veruleg um nýtingu úthlutaðra aflaheimilda í flökkustofni uppsjávarfisks eins og makríls.

42. Á hinn bóginn verður áréttað að aflaheimildir hafa ítrekað verið taldar fela í sér fjárhagsleg verðmæti sem njóti lögverndar, sbr. í dæmaskyni ummæli í forsendum dóms Hæstaréttar 9. febrúar 2016 í máli nr. 69/2016 og dóma réttarins 23. febrúar 2006 í máli nr. 371/2005 og 8. október 2009 í máli nr. 39/2009.

43. Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir niðurstöðum dómkvaddra manna. Í matsgerð þeirri sem gerð var að beiðni stefnda varð niðurstaðan að viðbótarhagnaður stefnda vegna skertu aflaheimildanna hefði numið um 572.000.000 króna. Tók matið annars vegar mið af metnum meðalhagnaði sem næmi um 525.000.000 króna og hins vegar metnum jaðarhagnaði sem næmi um 715.000.000 króna. Vó meðalhagnaður 75% en jaðarhagnaður 25% í niðurstöðum matsins. Matsmenn töldu þó nokkra óvissuþætti koma við sögu. Það endurspeglaðist í því að ætlaður hagnaðarmissir stefnda hefði getað legið á framangreindu bili útreiknings á grundvelli meðalhagnaðar og jaðarhagnaðar. Þess utan mætti ætla að óvissuþættir sem ekki væri tekið tillit til í matinu næmu allt að 10% til hækkunar eða lækkunar. Leiddi það til þeirrar lokaniðurstöðu að hagnaðarmissir stefnda væri á bilinu 470 til 790 milljónir króna.

44. Svo sem fram er komið lagaði stefndi kröfugerð sína í meginatriðum að niðurstöðum matsgerðarinnar. Með hinum áfrýjaða dómi var héraðsdómur staðfestur og áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda samtals 467.200.266 krónur með nánar tilgreindum vöxtum auk málskostnaðar. Var þar með sama hætti og í héraðsdómi lagt til grundvallar að meta yrði alla óvissu í matsgerð áfrýjanda í hag en stefnda í óhag. Því til samræmis var lagður til grundvallar niðurstöðum minnsti missir hagnaðar samkvæmt matsgerð, þar sem miðað var við meðalhagnað eingöngu, og auk þess beitt 10% frádrætti vegna óvissuþátta.

45. Tekið er undir með hinum áfrýjaða dómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómanda, að matsgerð sú sem stefndi aflaði sé greinargóð og byggð á traustum og fullnægjandi gögnum. Niðurstöður hennar um ætlaðan hagnaðarmissi stefnda, miðað við þær gefnu forsendur að komið hefði til úthlutunar þeirra aflaheimilda sem stefnda bar að réttu lagi og hann auk þess nýtt þær að fullu, verða því, svo langt sem þær ná, lagðar með öðru til grundvallar mati á ætluðu fjártjóni stefnda.

46. Sem fyrr greinir leiðir það hins vegar af eðli þeirra réttinda sem hér um ræðir að veruleg óvissa var af ýmsum ástæðum fyrir hendi um að hvaða marki þau hefðu nýst stefnda og þar með valdið því fjártjóni sem hann freistar að fá bætt með málsókninni. Þótt matsgerðin sé þannig fullnægjandi svo langt sem hún nær er í henni, eðli málsins samkvæmt, ekki nema að takmörkuðu leyti tekið tillit til orsakatengsla. Kemur því sérstaklega til skoðunar hvort og þá að hvaða marki fyrir liggi sönnun um þann þátt málsins.

47. Í matsgerðinni sjálfri er sem fyrr segir fjallað um og tekið tillit til ákveðinna óvissuþátta. Telja matsmenn þá helstu hafa verið veiðigetu skips stefnda Hugins VE 55, meðaltekjur stefnda miðað við hvert kíló viðbótarafla af makríl, hlutfall breytilegs kostnaðar við veiðar á makríl og skipting kostnaðar stefnda milli fisktegunda. Segir síðan í matsgerðinni:

Tekið er tillit til nokkurra óvissuþátta með beinum hætti við matið hér að framan og er niðurstaða matsmanna að hagnaðarmissir Hugins ehf. hafi legið á bilinu 525–715 milljónir króna vegna þeirra óvissuþátta. Ekki er óvarlegt að áætla að óvissan í matinu vegna óvissuþátta sem ekki er tekið beint tillit til við matið nemi allt að 10% til hækkunar eða lækkunar. Að mati matsmanna getur hagnaðarmissir Hugins ehf. því legið á bilinu 470–790 milljónir króna.

48. Að þessu virtu eru efni til að víkja nánar að þeim þáttum sem áfrýjandi telur standa því í vegi að stefndi hafi með framlagningu matsgerðarinnar sýnt fram á raunverulegt fjártjón og nauðsynleg orsakatengsl þess og hinna bótaskyldu athafna.

49. Hvað sem niðurstöðum matsgerðarinnar líður telur áfrýjandi að stefndi hafi hvorki axlað sönnunarbyrði fyrir því að sá fyrrnefndi hafi af þessum sökum valdið honum tjóni né að sönnuð séu orsakatengsl á milli skertrar úthlutunar og þeirrar fjárhæðar sem matsmenn hafi reiknað út og lagðar eru til grundvallar endanlegri kröfu stefnda. Hann hafi ekki náð að veiða það magn makríls sem honum var þó heimilað árin 2011 til 2018 og því ósannað að hann hefði náð að nýta frekari aflaheimildir í makríl sem á ársgrundvelli hefðu numið á bilinu 20,6 til 28,4% aukningu miðað við það magn sem honum var heimilað að veiða. Þetta endurspeglist jafnframt í því að af úthlutuðum heildarafla í öllum tegundum hafi stefndi einungis náð að nýta um 93%. Til að honum hefði átt að reynast mögulegt að nýta auknar heimildir í makríl hefði hann þurft að fjárfesta í frekari skipakosti ellegar leggja út í breytingar á skipi sínu. Hvað sem líði niðurstöðum matsgerðar liggi ekkert fyrir um að slíkt hefði borgað sig fyrir stefnda. Þá bendir áfrýjandi á að það hefði enn frekar þrengt möguleika stefnda og aukið óvissu að ekki hafi verið heimilt að framselja aflaheimildir á leigu á árunum 2011 til 2015 nema á grundvelli þröngra undantekninga. Ekki sé litið til þess að samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 hafi ráðherra getað bundið úthlutun því skilyrði að skip afsalaði sér aflaheimildum á bilinu 10 til 15% af þeim heimildum sem ákveðnar væru á grundvelli 2. og 6. mgr. sömu greinar. Þá sé í 9. mgr. sömu lagagreinar kveðið á um að ráðherra geti ákveðið að allt að 5% heildarafla verði sérstaklega úthlutað til þeirra skipa sem hófu veiðar úr viðkomandi stofni. Enn fremur séu veiðar af þessu tagi háðar náttúruöflum. Makríll veiðist til dæmis einungis hluta árs en á öðrum tímum stundi skip stefnda aðrar veiðar. Þannig sé fyrir hendi óvenjumikil óvissa um tilvist bótakröfu stefnda en af þeirri óvissu verði hann að bera hallann.

50. Hvað varðar þau rök áfrýjanda að í ljósi veiða skips stefnda á umræddu árabili 2011 til 2018 sé ósannað að honum hefði reynst unnt að veiða til viðbótar þær aflaheimildir sem kröfugerð hans byggist á er fyrst til þess að líta að aðila hefur greint á um í hvaða mæli stefndi hafi nýtt þær heimildir sem var þó ráðstafað til hans á þessum tíma. Sýnist sá ágreiningur að hluta til stafa af þeirri mismunandi nálgun að áfrýjandi lítur til hvers árs um sig en stefndi miðar við tímabilið í heild. Sé litið til einstakra ára er ljóst að árin 2011, 2012, 2014, 2016 og 2017 nýtti stefndi ekki úthlutað aflamark í makríl að fullu. Þess ber hins vegar að gæta að samkvæmt þeim reglugerðum sem ráðherra hafði með ólögmætum hætti sett til grundvallar makrílveiðum var heimilað að flytja 10 til 15% af úthlutuðum heimildum til næsta árs og jafnframt að veiða allt að 10% umfram heimildir sem drógust þá frá úthlutuðum heimildum næsta árs. Í tilviki stefnda endurspeglast þetta í því að árin 2013, 2015 og 2018 var aflinn í makríl umfram úthlutaðar heimildir.

51. Að framangreindu virtu verður lagt til grundvallar að á umræddu árabili hafi stefndi nýtt 97 til 98% af heimildum sínum í makríl. Liggur nærri að það svari til fullrar nýtingar heimilda hans á umræddu tímabili í heild. Verður í ljósi framangreinds miðað við tímabilið í heild sinni en ekki einstök veiðiár. Á hinn bóginn verður að hafa í huga að ákveðin áhætta hlaut að vera í því fólgin að flytja hluta heimilda á milli ára á grundvelli reglugerðarheimilda, meðal annars í ljósi mögulegs inngrips ríkisvaldsins í fyrirkomulag veiðanna. Þá verður að líta til þess að skip stefnda veiddu ekki á umræddu tímabili nema um 93% af heildarafla sínum þó svo að nýting aflaheimilda í makríl væri betri. Enn fremur er ljóst, svo sem matsmenn gera ráð fyrir í mati sínu, að stefndi hefði þurft að auka veiðigetu sína með því að bæta við skipakost sinn, breyta skipi sem hann nýtti eða með öðrum ráðstöfunum. Hvort eða hvenær það hefði gerst á umræddu tímabili er óljóst. Að þessu gættu er ekki hægt að leggja það afdráttarlaust til grundvallar, eins og gert var í hinum áfrýjaða dómi, að stefndi hefði fullnýtt þá viðbót í aflaheimildum í makríl sem kröfugerð hans miðast við. Um þennan þátt er því fyrir hendi óvissa sem ekki er að öllu leyti séð við í matsgerð.

52. Einnig verður að líta til þess sem fram kemur í matsgerð að framsal aflaheimilda í makríl var að meginstefnu óheimilt á árunum 2011 til og með 2015 en heimilað með ákveðnum takmörkunum þó á árunum 2016 til 2018. Miðað við þær forsendur matsmanna, sem þeir taka tillit til í mati sínu, að óvarlegt sé að ætla að næg veiðigeta hefði að óbreyttu verið fyrir hendi til þess að veiða þá viðbót í makríl sem um ræðir, ríkir ákveðin óvissa um hvort og hvernig stefndi hefði ráðstafað auknum aflaheimildum í makríl sem hann mögulega hvorki gat nýtt né framselt. Þá má benda á í þessu samhengi að hefði áfrýjandi staðið löglega að hlutdeildarsetningu makríls árið 2011 hefði um framsal aflamarks gilt regla 11. gr. laga nr. 116/2006, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996. Á þeim tíma sem um ræðir var ekki á grundvelli hennar heimilað að flytja aflamark í makríl og fleiri uppsjávartegundum á milli fiskveiðiára. Sú heimild kom fyrst til sögunnar með 1. gr. laga nr. 40/2023 um breytingu á 11. gr. laga nr. 116/2006. Þessar aðstæður fela því allar í sér aukna óvissu umfram það sem ráðgert er í matsgerðinni.

53. Þá er ekki fallist á þá forsendu í hinum áfrýjaða dómi að framangreindar heimildir 4. og 9. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 séu án þýðingar við mat á því hvort stefndi hafi orðið fyrir tjóni ellegar hver fjárhæð þess sé. Staðreyndin er þvert á móti að hefðu umræddar heimildir ráðherra verið fullnýttar hefðu þær í sumum tilvikum numið áþekku hlutfalli og hin skerta úthlutun í makríl sem sóttar eru bætur vegna. Verður áhættan af því hvort ráðherra hefði nýtt umræddar heimildir ekki að öllu leyti lögð á áfrýjanda.

54. Öllu þessu til viðbótar er ekki í matsgerð, eðli málsins samkvæmt, tekið nægilegt tillit til óráðnari óvissuþátta eins og þeirra náttúrulegu, þar með talið veðurfarslegra aðstæðna og sveiflna sem árstíðarbundnar veiðar úr flökkustofni af þessu tagi eru háðar. Ber þá jafnframt að hafa í huga að alkunna er að makrílgöngur á veiðislóð hafa verið háðar ákveðinni óvissu um aflamagn og hið sama á við um olíukostnað, gæði afla og möguleika á markaði. Endurspeglast þessi veruleiki að hluta til í svörum fyrirsvarsmanns stefnda fyrir héraðsdómi þegar hann skýrði mismun úthlutaðra aflaheimilda og raunverulegs afla einstakra ára meðal annars með vísan í gang veiða og markaðsaðstæður.

55. Loks skal áréttað að löggjafanum hefur á hverjum tíma frá setningu laga um fiskveiðistjórnun árið 1990 verið játað talsvert svigrúm til þess, án þess að til bótaskyldu stofnist, að breyta á málefnalegum grundvelli reglum fiskveiðistjórnunarlaga, sbr. meðal annars áður tilvitnaðan dóm Hæstaréttar í máli nr. 12/2000. Slíkar breytingar gátu á þessum tíma falist í tilfærslum heimilaðs afla innan kerfisins og frekari gjaldtöku svo að dæmi séu nefnd.

56. Að öllu framangreindu virtu verður ekki talið að þau 10% vikmörk sem matsmenn miðuðu við vegna óvissuþátta nái að fullu að fanga þá óvissu sem fyrir hendi var um mögulega nýtingu stefnda á þeim viðbótaraflaheimildum í makríl sem kröfugerð hans byggst á. Verða niðurstöður matsgerðarinnar því ekki að óbreyttu lagðar til grundvallar niðurstöðu í málinu svo sem gert var í hinum áfrýjaða dómi.

57. Á hinn bóginn verður að telja að stefndi hafi með framlögðum gögnum, þar með talið matsgerðinni, sýnt nægilega fram á að hann hafi orðið fyrir nokkru fjárhagslegu tjóni af völdum þeirra bótaskyldu athafna áfrýjanda að standa ekki með hlutdeildarsetningu réttilega að úthlutun aflaheimilda í makríl til stefnda á árunum 2011 til 2018. Verða ekki gerðar til hans frekari kröfur um sönnunarfærslu þar að lútandi og áréttaðir framangreindir óvissuþættir sem jafnan hljóta að vera fyrir hendi við slíka forspá í núgildandi fiskveiðistjórnarkerfi. Við þessar aðstæður er því fullnægt skilyrðum um að dæma honum bætur að álitum. Ekki er fallist á með áfrýjanda að stefndi hafi sýnt af sér slíkt tómlæti við að sækja rétt sinn í málinu að áhrif hafi á rétt hans til bóta.

58. Við ákvörðun bóta að álitum til handa stefnda verður að gæta hófs enda á ekki að geta falist ávinningur í því að ekki liggi fyrir fullar sönnur um fjárhæð tjóns, sbr. dóma réttarins 3. maí 2018 í máli nr. 321/2017 og 26. júní 2020 í máli nr. 6/2020. Eru bæturnar, að virtum öllum atvikum, hæfilega ákveðnar 250.000.000 króna. Er við ákvörðun bótafjárhæðar auk annars tekið tillit til vaxta fram að dómsuppkvaðningu í Hæstarétti.

59. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda dráttarvexti með þeim hætti sem segir í dómsorði.

60. Staðfest verður málskostnaðarákvörðun héraðsdóms en málskostnaður fyrir Landsrétti og Hæstarétti fellur niður.

Dómsorð:

Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, Hugin ehf., 250.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá uppsögu dóms þessa til greiðsludags.

Málskostnaðarákvörðun héraðsdóms skal vera óröskuð en málskostnaður fyrir Landsrétti og Hæstarétti fellur niður.