Hæstiréttur íslands

Mál nr. 28/2024

A (Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður)
gegn
B (Páll Kristjánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Ærumeiðingar
  • Meiðyrði
  • Tjáningarfrelsi
  • Friðhelgi einkalífs
  • Sönnun
  • Sönnunarbyrði
  • Miskabætur
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Ómerking ummæla
  • Stjórnarskrá

Reifun

A höfðaði mál á hendur B og krafðist ómerkingar á ummælum B sem viðhöfð voru í skilaboðum hennar til unnustu A á samskiptamiðlinum Instagram og í nafnlausri færslu á Facebook-síðu tiltekins hóps. A krafðist jafnframt greiðslu miskabóta og að B yrði gerð refsing. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að A hefði ekki leitt að því nægar líkur að B hefði birt hina nafnlausu færslu á Facebook. Var því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu B vegna ummæla í þeirri færslu. Óumdeilt var að B hefði sent unnustu A skilaboð á samskiptamiðlinum Instagram en þar kom meðal annars fram staðhæfing um að A hefði nauðgað barni og látið að því liggja að hann væri haldinn barnagirnd. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að ummælin hefðu falið í sér aðdróttanir í skilningi 235. gr. almennra hegningarlaga og að með þeim hefði verið vegið að persónu og æru A sem nyti verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar. Hefði þá verið tekið mið af efni og framsetningu ummælanna, því samhengi sem þau voru sett fram í, alvarleika og áhrifa þeirra. Ummælin voru samkvæmt þessu talin óviðurkvæmileg í skilningi 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga og voru þau því ómerkt. Þá hindraði það ekki ómerkingu að ummælin hefðu verið viðhöfð í skilaboðum á samskiptamiðlinum Instagram, enda teldist ærumeiðingarbrot fullframið þegar það væri komið til vitundar annars manns. Hins vegar taldist A ekki hafa nægilega sýnt fram að skilyrði til greiðslu miskabóta væru fyrir hendi vegna þeirra ummæla enda höfðu þau birst í lokuðum skilaboðum milli tveggja einstaklinga og lægi ekkert fyrir um að þeim hefði verið dreift víðar. Var B því sýknuð af öðrum kröfum A en um ómerkingu ummæla sem birtust í skilaboðum á Instagram.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. maí 2024. Hann krefst þess að dæmd verði dauð og ómerk nánar tiltekin ummæli stefndu sem tilgreind eru í héraðsdómi, annars vegar í skilaboðum á samskiptamiðlinum Instagram til C 28. ágúst 2021 og hins vegar færslu á Facebook-síðu hóps sem kallast „Stuðningur fyrir þolendur ofbeldis - umræða“ 22. janúar 2022 og stefndu gert skylt að fjarlægja ummælin af Facebook að viðlögðum dagsektum. Þá krefst hann miskabóta að fjárhæð 2.500.000 krónur úr hendi stefndu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. mars 2022 til greiðsludags og að henni verði gerð hæfileg refsing vegna framangreindra ummæla. Loks krefst hann málskostnaðar úr hendi stefndu á öllum dómstigum.

3. Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Til vara krefst hún lækkunar á miskabótakröfu áfrýjanda. Þá krefst stefnda málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni

4. Í málinu er tekist á um mörk tjáningarfrelsis og æruverndar. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort ummæli í skilaboðum á Instagram til unnustu áfrýjanda og færslu á Facebook-síðu hóps sem kallast „Stuðningur fyrir þolendur ofbeldis - umræða“ hafi verið til þess fallin að skaða æru áfrýjanda með þeim hætti að leiða eigi til ómerkingar þeirra á grundvelli 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Áfrýjandi krefst jafnframt greiðslu miskabóta og að stefndu verði gerð refsing samkvæmt 234., 235. og 236. gr. laganna. Þá er deilt um hvort áfrýjanda hafi tekist sönnun þess að ummælin á Facebook stafi frá stefndu.

5. Með dómi Landsréttar var stefnda sýknuð af kröfum áfrýjanda með vísan til forsendna héraðsdóms. Þar varð niðurstaðan að áfrýjanda hefði ekki tekist að sanna að stefnda bæri ábyrgð á nafnlausu færslunni í hópnum á Facebook. Þá hefði efni skilaboða stefndu á Instagram tvímælalaust verið til þess fallið að skaða æru áfrýjanda. Stæði það ekki í vegi ómerkingar að ummælin hefðu verið viðhöfð í einkaskilaboðum. Hins vegar hefði stefnda ekki verið í vondri trú um sannleiksgildi ummælanna og ekki sett þau fram að tilefnislausu heldur í réttmætum tilgangi og í skilaboðum ætluðum viðtakanda einum. Taldi dómurinn því að ekki bæri nauðsyn til þess í lýðræðislegu þjóðfélagi að takmarka tjáningu stefndu enda yrði að gjalda varhug almennt við takmörkun tjáningar.

6. Áfrýjunarleyfi í málinu var veitt 24. maí 2024, með ákvörðun réttarins nr. 2024-41, þar sem dómur í því var talinn geta haft fordæmisgildi um mörk tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs.

Málsatvik

7. Unnusta áfrýjanda fékk eftirfarandi skilaboð á samskiptamiðlinum Instagram frá stefndu 28. ágúst 2021, en þær munu hafa þekkst:

Hef ætlað í soldinn tíma núna að hringja í þig en var aldrei viss hvort þú værir actually að deita hann eða ekki. Það kemur mér ekkert við að þið séuð saman en mig langar samt að senda á þig til að láta þig vita að þessi maður er nauðgari. Hann hefur nauðgað manneskju sem er náin mér þegar sú manneskja var 8 ára. Ég veit að hann hefur líka sótt í það að vinna í kringum börn og hefur allaveganna verið í 3 barnagæslum en verið rekinn/látinn fara af þeim öllum miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið.
Ég er ekki að senda þetta á þig til að eyðileggja eitthvað fyrir þér eða vera leiðinleg en ég vil að þú vitir hvernig maður þetta er. Ég veit að ef ég væri með manni sem væri með barnagirnd eða nauðgari að þá myndi ég vilja vita af því. Ég vona að þú takir þessu ekki illa og verðir ekki pirruð útí mig fyrir að láta þig vita af þessu […]

8. Hinn 22. janúar 2022 birtist nafnlaus færsla á síðu Facebook-hópsins „Stuðningur fyrir þolendur ofbeldis – umræða“. Hún er svohljóðandi:

[A].
Ég er búin að halda inní mér núna í smá tíma að setja þetta nafn hingað inn en ég eiginlega bara verð að gera það uppá að engin önnur börn lenda í honum. Ég vona svo innilega að enginn annar hafi lent í honum.
Ástæðan fyrir því að ég hef viljað setja nafnið hans hingað inn er því ég veit að hann hefur verið að sækjast um að vinna með börnum. Ég veit að hann unnið á leikskóla, frístund eftir skóla og […]. Hvert skipti sem hann er rekinn/látinn fara af einum staðnum þá sækir hann um á næsta sem er með börnum á.
Að vita til þess að hann sækjist eftir að vinna með börnum svona mörgum árum seinna, og það þá vinna sem felur í sér meðal annars að skeina og skipta á börnum, er eitthvað sem er mjög erfitt að vita af án þess að geta varað aðra við.
Hann var 12 ára þegar hann nauðgaði 8 ára barni. Það var ekki kært þar sem þetta kom upp 10 árum seinna. Barnavernd vill helst ekki skipta sér af þegar hann vinnur í kringum börn því það er engin kæra.

9. Á framangreindri síðu Facebook-hópsins mun einnig hafa verið birtur listi yfir einstaklinga undir heitinu „[...]“. Á honum er að finna mynd og nafn ætlaðra ofbeldismanna, þeirra á meðal áfrýjanda. Hópurinn er lokaður öðrum en meðlimum hans en samkvæmt gögnum málsins var skráður stjórnandi Facebook-hópsins notandi með heitinu „Saman Gegn Ofbeldi“. Lögmaður áfrýjanda sendi stjórnandanum skilaboð 27. maí 2024 og óskaði eftir upplýsingum um hver stæði að baki nafnlausu færslunni. Þeim hefur ekki verið svarað.

10. Með bréfi áfrýjanda til stefndu 3. febrúar 2022 var þess krafist að hún drægi fyrrgreind ummæli til baka á sama vettvangi og þau voru látin falla. Þá var krafist skriflegrar og opinberrar afsökunarbeiðni, miskabóta og greiðslu lögmannskostnaðar. Því var svarað af hálfu stefndu með tölvubréfi 10. febrúar sama ár þar sem ásökunum um að hún hefði dreift nafnlaust upplýsingum um áfrýjanda var hafnað sem og greiðsluskyldu.

11. Áfrýjandi höfðaði mál þetta 5. apríl 2022. Við aðalmeðferð þess fyrir héraðsdómi gáfu áfrýjandi og stefnda skýrslu auk unnustu áfrýjanda og bróður stefndu.

Málsástæður

Helstu málsástæður áfrýjanda

12. Áfrýjandi byggir á því að ummæli stefndu sem krafist er ómerkingar á hafi verið röng, innihaldi grófar ærumeiðingar og með þeim sé vegið að mannorði hans og persónu. Stefnda hafi með þeim gerst brotleg við 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga, svo og 236. gr. þeirra þar sem hún hafi viðhaft ummælin gegn betri vitund. Jafnframt hafi stefnda brotið gegn friðhelgi einkalífs hans sem verndar njóti samkvæmt 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Um sé að ræða skilaboð sem stefnda kannist við að hafa sent sem og nafnlausa birtingu ummæla á síðu lokaðs hóps á Facebook. Stefnda sé meðal þátttakenda í hópnum og geti birt þar nafnlausar færslur. Eigi hún að bera hallann af því að hafa ekki sýnt fram á að færslan stafi frá öðrum enda hvíli sönnunarbyrði á þeim sem eigi hægar um vik að afla sönnunar. Bendir áfrýjandi jafnframt á augljós líkindi orðalags færslunnar og skilaboðanna.

13. Þótt einstaklingar njóti víðtæks tjáningarfrelsis samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu verði engu að síður að ákveða mörk þess með skynsamlegum hætti með tilliti til réttinda annarra. Í tilviki ótvíræðrar ærumeiðingar og þegar háttsemi brjóti gegn friðhelgi einkalífs verði að gera strangar kröfur um að ummælin hafi skýran, ótvíræðan og lögmætan tilgang. Ekki hafi enn verið sýnt fram á tilgang stefndu með ummælunum og að hann hafi verið annar en að skaða áfrýjanda og í öllu falli ekki getað tengst ætluðum brotaþola. Þau verði ekki réttlætt með vísan til samfélagsumræðu eða annarra hagsmuna sem geti vegið þyngra en æra og einkalífsvernd áfrýjanda. Ekki hafi verið um að ræða mál sem átti brýnt erindi við almenning eða til verndar eða stuðnings ætluðum brotaþola og stóð ekki í samhengi við umræðu í samfélaginu.

14. Áfrýjandi byggir á að stefnda hafi ekki getað verið í góðri trú um réttmæti ummæla sinna. Hún hafi verið um fjögurra ára gömul þegar atvikið eigi að hafa átt sér stað. Hún hafi ekki orðið vitni að því og um tíu ár liðið þar til hún kveðst hafa fengið vitneskju um það. Ummælin hafi verið ósmekkleg, sett fram með meiðandi hætti og í þeim falist fyrirvaralaus fullyrðing um refsiverða háttsemi sett fram sem staðreynd. Stefnda hafi eingöngu byggt á frásögn bróður síns sem á þeim tíma hafi átt við [...] að etja, auk þess sem ætlað atvik hafi að engu leyti skýrst í vitnisburði hans fyrir dómi. Ekkert liggi fyrir um hvers eðlis það hafi verið annað en að áfrýjandi hafi þá átt að vera um tólf ára gamall. Börn undir fimmtán ára aldri geti ekki borið refsiábyrgð eða talist sakborningar í skilningi laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Því eigi ummæli stefndu um nauðgun sér enga stoð og séu óréttlætanleg ein og sér. Áfrýjandi sé rúmlega þrítugur og hafi verið í langtímasambandi við unnustu sína þegar ummælin féllu. Geti stefnda því ekki heldur hafa verið í góðri trú um að hann væri haldinn barnagirnd eða haft ástæðu til að draga slíka ályktun og setja fram í formi staðreynda. Það sama eigi við um ummæli þess efnis að hann hafi sóst eftir að vinna með börnum og verið rekinn eða látinn fara úr slíkum störfum. Þau ummæli séu alröng og hafi ekki verið studd neinum sönnunargögnum.

15. Þeim sem byggi á góðri trú sem réttlætingarástæðu beri skylda til að leiða í ljós hvaða stoð hún hafi en það hafi stefnda ekki gert. Ummælin hafi augljóslega verið til þess fallin að skapa þau tilefnislausu hughrif að áfrýjandi væri haldinn afbrigðilegum kynferðislegum löngunum til barna. Með því að tvinna saman ásökunum hefði stefnda jafnframt reynt að skapa öðrum ummælum sínum trúverðugleika sem sé sérstaklega alvarlegt. Auk þess verði ekki ráðið hvort ætluð góð trú stefndu eigi að hafa stafað af því að bróðir hennar hafi trúað henni fyrir þessum upplýsingum. Þótt þróast hafi vísir að þeirri reglu fyrir dómstólum að játa verði brotaþolum svigrúm til að tjá upplifun sína, njóti aðrir ekki þess rýmkaða tjáningarfrelsis.

16. Þá fái ekki staðist að einstaklingar njóti meira frelsis til að meiða æru annarra með einkaskilaboðum en opinberri birtingu ummæla. Ávallt megi búast við frekari dreifingu slíkra skilaboða en ekkert liggi fyrir um hversu mörgum stefnda hafi sent þau. Auk þess sé ærumeiðing fullframin þegar hún sé komin til vitundar annarrar manneskju, hvort sem það er hinn meiðyrti eða annar, óháð því hvort um einn viðtakanda eða hóp þeirra er að ræða.

17. Þá byggir áfrýjandi á því að þótt kröfu um ómerkingu ummæla yrði hafnað hafi verið brotið sjálfstætt gegn friðhelgi einkalífs hans. Í sendingu skilaboða til unnustu hans hafi falist gróft friðarbrot og röskun á hagsmunum hans sem hafi valdið honum miska. Í báðum tilvikum eigi hann rétt á miskabótum samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Helstu málsástæður stefndu

18. Stefnda byggir á því að henni hafi verið heimilt að setja fram þau ummæli sem málið varði í skilaboðum til unnustu áfrýjanda. Hins vegar sé ósannað og rangt að hún beri ábyrgð á hinni nafnlausu færslu á Facebook og verði engar ályktanir dregnar af því einu að hún sé meðal 1.200 þátttakenda í hópnum. Ekkert liggi fyrir um hvenær færslan hafi verið birt og hvort stefnda hafi þá verið í honum. Þá megi rekja ætluð líkindi skilaboðanna og færslunnar til þess að um sé að ræða frásögn af sama atburði. Bróðir stefndu hafi borið fyrir dómi að hann hafi sagt móður sinni, systur og fólki í kringum sig frá atburðinum og í framburði stefndu hafi komið fram að margir hefðu vitað af honum.

19. Stefnda byggir á því að ummælin sem sett hafi verið fram í skilaboðunum rúmist innan ramma þess frelsis sem hún hafi til að tjá sig samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá skorti það frumskilyrði fyrir takmörkun tjáningar, sbr. 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar að hún hvíli á lagaboði auk þess sem engin opinber birting eða dreifing hafi farið fram. Skerðing tjáningar í einkasamtali milli einstaklinga sem eru kunnugir brjóti gegn meðalhófi og sé varhugaverð í öllu tilliti. Auk þess hafi tjáningarfrelsi meira vægi og ríkari tjáning sé heimiluð ef umfjöllunarefnið eigi ríkt erindi og varði hagsmuni almennings jafnvel þótt hún sé almennt til þess fallin að skaða æru þess sem fjallað sé um. Einnig skipti máli hvernig upplýsinga sé aflað, þær settar fram og birtingu þeirra háttað, þar með talin útbreiðsla. Ummælin hafi hvorki verið særandi né móðgandi og ekki um útbreiðslu þeirra að ræða.

20. Stefnda hafi verið í góðri trú þegar hún sendi skilaboðin. Þegar metið sé hvort ummæli geti talist ólögmæt verði að líta til tilgangs þeirra og aðstæðna að öðru leyti. Sjónarmið um góða trú eigi við hvort heldur talið verði að ummælin teljist staðreyndir eða gildisdómur. Stefnda hafi ekki ætlað að koma höggi á áfrýjanda eða haft ásetning til að skaða æru hans heldur sent skilaboðin með hag vinkonu sinnar fyrir brjósti eins og augljóst sé af efni þeirra. Hún hafi byggt á frásögn bróður síns og ekki haft neina ástæðu til að draga sannleiksgildi hennar í efa. Frásögnin hafi verið einlæg og hann hafi staðfest hana fyrir dómi.

21. Stefnda bendir á að líta beri til áhrifa ummæla þegar metið sé hvort þau séu ólögmæt. Skilaboðin 28. ágúst 2021 hafi verið milli stefndu og vinkonu hennar. Í málinu byggi áfrýjandi hins vegar á því að færsla á síðu lokaðs hóps á Facebook hafi birst 22. janúar 2022. Tólf dögum síðar hafi lögmaður áfrýjanda sent stefndu bréf og áfrýjandi borið fyrir dómi að hafa leitað til lögmanns skömmu áður en bréfið var sent. Tilefni fyrrgreinds bréfs og málshöfðunar hafi því verið ummælin á Facebook.

22. Jafnframt byggir stefnda á að skilyrði 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga séu ekki uppfyllt. Ummælin í skilaboðunum 28. ágúst 2021 hafi ekki verið birt á opinberum vettvangi. Ekki séu skilyrði fyrir ómerkingu ummæla sem viðhöfð séu í samtali tveggja einstaklinga.

23. Stefnda krefst jafnframt sýknu af kröfu um greiðslu miskabóta enda séu skilyrði 26. gr. skaðabótalaga ekki uppfyllt. Ætlaður miski áfrýjanda sé vanreifaður og ósannaður. Skilyrði bóta sé að um ásetning eða stórfellt gáleysi hafi verið að ræða sem sé ekki fyrir hendi enda hafi vilji stefndu ekki staðið til þess að meiða æru áfrýjanda. Ekki megi jafna því til ásetnings eða stórfellds gáleysis hennar að senda vinkonu sinni skilaboð sem ekki hafi verið ætlað að birtast opinberlega.

24. Loks byggir stefnda á því að sex mánaða frestur til að höfða einkamál til refsingar, samkvæmt 1. mgr. 29. gr. almennra hegningarlaga, hafi verið liðinn við höfðun málsins 5. apríl 2022 að því er varðar ummælin 28. ágúst 2021.

Löggjöf

25. Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar, sbr. 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar en hann verður að ábyrgjast þær fyrir dómi, sbr. 2. mgr. fyrrnefndu greinarinnar. Tjáningarfrelsinu má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra enda teljist þær takmarkanir nauðsynlegar og samræmast lýðræðishefðum, sbr. 3. mgr. greinarinnar. Þá nýtur friðhelgi einkalífs verndar 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmálans. Æra og mannorð eru þættir í einkalífi manna sem njóta verndar samkvæmt ákvæðunum.

26. Í athugasemdum með 9. og 11. gr. frumvarps til stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, sem færðu ákvæði 71. og 73. gr. stjórnarskrár í núverandi horf, var lýst því markmiði að samræma efni þeirra 8. og 10. gr. mannréttindasáttmálans. Við skýringu þessara stjórnarskrárákvæða verður því litið til úrlausna Mannréttindadómstóls Evrópu um inntak réttindanna og takmarkanir sem þeim eru settar.

27. Í almennum hegningarlögum er að finna heimildir til að setja tjáningarfrelsi skorður í þágu réttinda og mannorðs annarra, sem eins og fyrr greinir er getið í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar sem réttmætra ástæðna fyrir takmörkun. Við beitingu 3. mgr. þarf auk þess að uppfylla skilyrði niðurlagsorða ákvæðisins um að takmarkanir teljist nauðsynlegar og samræmist lýðræðishefðum.

28. Þau ákvæði almennra hegningarlaga sem áfrýjandi hefur teflt fram kröfu sinni til stuðnings eru 234., 235. og 236. gr. laganna. Með 234. gr. er það gert refsivert að meiða æru annars manns með móðgun í orðum eða athöfnum og að bera slíkt út. Í 235. gr. laganna er því lýst sem refsiverðu athæfi að drótta að öðrum manni einhverju því sem verða myndi virðingu hans til hnekkis eða bera slíka aðdróttun út. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 236. gr. sömu laga er refsivert að bera ærumeiðandi aðdróttun út opinberlega eða gegn betri vitund, svo og þótt sakaráberi hafi ekki haft sennilega ástæðu til að halda hana rétta. Loks má eftir 1. mgr. 241. gr. laganna dæma í meiðyrðamáli óviðurkvæmileg ummæli ómerk að kröfu þess sem misgert er við. Ekki er skilyrði fyrir ómerkingu að sakfellt hafi verið fyrir brot samkvæmt öðrum ákvæðum XXV. kafla laganna og verður henni einnig beitt án tillits til þess hvort sök er fyrnd, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 3. október 1994 í máli nr. 36/1993 sem birtist á bls. 1823 í dómasafni réttarins það ár og 24. janúar 2013 í máli nr. 383/2012.

29. Í b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga er að finna heimild til þess að gera þeim sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns að greiða miskabætur til þess sem misgert er við.

Niðurstaða

30. Í málinu er deilt um hvort stefnda hafi farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns og brotið gegn friðhelgi einkalífs áfrýjanda í skilaboðum á miðlinum Instagram og ummælum á Facebook. Ekki er ágreiningur um að skilaboðin stafi frá stefndu en aðilar deila um hvort nafnlaus færsla á Facebook sé frá henni komin. Verður sá þáttur málsins fyrst tekinn til úrlausnar.

Ummæli í hópi á Facebook

31. Þau ummæli sem birtust á síðu lokaðs hóps á Facebook í janúar 2022 voru nafnlaus. Áfrýjandi byggir á að það standi stefndu nær að upplýsa hvort hún hafi birt þau, meðal annars vegna þeirra líkinda sem séu með þeim og skilaboðum hennar. Þá eigi stefnda auðveldara með að afla upplýsinga um þetta en áfrýjandi.

32. Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er kveðið á um frjálst sönnunarmat dómara en þar segir að dómari skeri úr því hverju sinni eftir mati á þeim gögnum sem hafa komið fram í máli hvort staðhæfing um umdeild atvik teljist sönnuð enda bindi fyrirmæli laga hann ekki sérstaklega um mat í þessum efnum. Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. sömu laga afla aðilar sönnunargagna ef þeir fara með forræði á sakarefni og þurfa að jafnaði aðeins að færa sönnur á þau atvik sem þá greinir á um. Þá hvílir sönnunarbyrði að jafnaði á þeim sem heldur fram staðhæfingu um umdeilda staðreynd. Eftir því sem sönnunarfærslu vindur fram við meðferð máls og málsaðila tekst að gera staðhæfingu sína nægilega sennilega getur sönnunarbyrðin færst yfir á gagnaðila með þeim hætti að honum sé þá rétt að afla sönnunar um að atvik hafi verið með öðrum hætti en haldið er fram, til að mynda ef gagnaðila er í lófa lagið að hnekkja staðreynd með sönnunarfærslu af sinni hálfu. Að sönnunarfærslu lokinni metur dómari í ljósi hennar og annarra atriða, til að mynda sakarefnis og stöðu málsaðila, hvor þeirra eigi að bera hallann af því að sönnun hafi ekki tekist um umdeilda staðreynd.

33. Í máli þessu heldur áfrýjandi því fram gegn andmælum stefndu að hún hafi birt nafnlausa færslu framangreinds efnis á Facebook. Ber áfrýjandi sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu sinni, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 5. apríl 1960 í máli nr. 143/1957 sem birtist í dómasafni réttarins það ár á bls. 380. Er þá til þess að líta að færslan birtist í lokuðum umræðuhópi á Facebook og verður ekki ráðið af gögnum málsins hvenær hún birtist. Þótt finna megi líkindi með texta og framsetningu færslunnar og skilaboðum stefndu verður ekki fallist á með áfrýjanda að honum hafi með því einu að benda á það tekist að sanna að stefnda sé höfundur færslunnar. Þá verður ekki séð að áfrýjandi hafi gert aðrar ráðstafanir til að færa sönnunarbyrði um staðhæfingu sína á stefndu en að senda stjórnanda síðunnar fyrirspurn í skilaboðum á Facebook án árangurs eftir að áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar hafði verið veitt.

34. Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á að áfrýjandi hafi leitt að því alveg nægar líkur að stefnda hafi birt hina nafnlausu færslu á Facebook eða að líkindi í framsetningu eða orðalagi færslunnar og skilaboða til unnustu áfrýjanda séu slík að það leiði til þess að sönnunarbyrði um hið gagnstæða verði lögð á stefndu. Er hún því sýknuð af kröfum áfrýjanda vegna hennar.

Ummæli í skilaboðum

35. Óumdeilt er að stefnda sendi unnustu áfrýjanda skilaboð 28. ágúst 2021 á samskiptamiðlinum Instagram, með þeim ummælum sem áfrýjandi hefur krafist ómerkingar á. Þar kemur meðal annars fram staðhæfing um að áfrýjandi hafi nauðgað barni, en samkvæmt 194. og 202. gr. almennra hegningarlaga varðar slíkt brot allt að 16 ára fangelsi. Jafnframt lætur stefnda að því liggja að áfrýjandi sé haldinn barnagirnd. Vega ummælin að æru áfrýjanda. Verður því að leysa úr því hvort þau hafi brotið í bága við þau ákvæði almennra hegningarlaga sem áfrýjandi hefur teflt fram í málinu til stuðnings kröfu sinni um ómerkingu. Slíkt mat fer annars vegar fram með hliðsjón af vernd friðhelgi einkalífs áfrýjanda samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu en hins vegar því stjórnarskrárverndaða tjáningarfrelsi sem stefnda nýtur samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. sáttmálans.

36. Er fyrst til þess að líta að 73. gr. stjórnarskrárinnar verður meðal annars skýrð með hliðsjón af 10. gr. mannréttindasáttmálans og framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu. Þar kemur fram skýr áhersla á að tjáningarfrelsi sé einn mikilvægasti grundvöllur lýðræðislegs samfélags og undantekningar frá því verði að túlka þröngt. Þörf fyrir sérhverja takmörkun verði því að vera rökstudd með sannfærandi hætti á grundvelli ákveðinna viðmiða sem líta beri til. Má um það til hliðsjónar nefna dóma mannréttindadómstólsins 7. nóvember 2017 í máli nr. 24703/15, Egill Einarsson gegn Íslandi og 25. mars 2021 í máli nr. 1864/18, Matalas gegn Grikklandi.

37. Í ummælum stefndu kom sem fyrr segir fram að áfrýjandi hefði nauðgað átta ára barni. Kveðst hún fyrir dómi hafa byggt á frásögn bróður síns en hann staðfesti í skýrslu sinni þar að sú frásögn væri rétt. Hafði stefnda því ástæðu til að leggja trúnað á þá frásögn, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 22. október 2015 í máli nr. 101/2015. Til þess ber hins vegar að líta að þótt bróðir stefndu hafi borið fyrir dómi að áfrýjandi hefði brotið gegn sér í umrætt skipti var lýsing hans á ætluðu atviki að öðru leyti afar takmörkuð. Jafnframt liggur ekkert fyrir um að áfrýjandi hafi verið kærður til lögreglu vegna gruns um kynferðisbrot eða ákærður vegna slíkra brota. Þá hafa engin gögn verið lögð fram eða frekar lýst hvaða upplýsingar styðja staðhæfingar stefndu í þá veru að áfrýjandi hafi sóst eftir að starfa með börnum, verið rekinn úr þeim störfum eða að hann sé haldinn barnagirnd.

38. Við mat á réttmæti ummæla hefur verið litið til þess hvort um sé að ræða gildisdóm frekar en staðhæfingu um staðreynd þótt það eitt geti ekki ráðið úrslitum og sé metið í hverju máli fyrir sig. Gildisdómur felur venjulega í sér huglægt mat á staðreynd en ekki fullyrðingu um hana öndvert við staðhæfingar þar sem vísað er til beinna staðreynda án þess að um sé að ræða huglægt mat. Nýtur frelsi manna til að tjá sig með gildisdómi ríkari verndar en ósannaðar staðhæfingar um staðreyndir. Það birtist meðal annars í því að mönnum verður ekki gert að sanna gildisdóma eða refsað fyrir þá takist þeim ekki slík sönnun, andstætt því sem jafnan gildir um staðhæfingar um staðreyndir, sbr. til að mynda dóm Hæstaréttar 29. janúar 2009 í máli nr. 321/2008.

39. Þegar litið er til efnis og orðalags ummæla stefndu í umræddum skilaboðum verður talið að þar hafi hún fléttað saman gildisdómum og staðhæfingum um staðreyndir. Í ljósi eðlis þeirra og alvarleika gagnvart persónu áfrýjanda hafði hún fullt tilefni til að haga orðum sínum með varfærnum hætti eða fyrirvörum. Þessa gætti hún ekki heldur setti þau fram með þeim hætti að áfrýjandi hefði gerst sekur um alvarlegan refsiverðan verknað gegn barni og tengdi þær ásakanir öðrum fullyrðingum um áfrýjanda. Var þetta til þess fallið að auka áhrif ummælanna án þess að í því fælist einvörðungu gildisdómur hennar eða lýsing á eigin upplifun.

40. Þegar litið er til þess samhengis sem ummælin voru sett fram í ber að líta til þess að áfrýjandi hefur ekki tekið þátt í samfélagslegri umræðu og ummæli stefndu í skilaboðunum voru ekki liður í slíkri umræðu. Þau áttu sér að því er virðist engan aðdraganda og tengdust ekki fyrri samskiptum stefndu og unnustu áfrýjanda. Auk þess var viðtakandi skilaboðanna ekki í stöðu til að ráða af samhengi ummælanna hvort efni þeirra væri rétt. Þótt konurnar hafi þekkst og hvatir stefndu kunni að hafa mótast af þörf fyrir að upplýsa unnustu áfrýjanda um hættu sem stefnda hafi talið stafa af honum verður ekki fram hjá því horft að ummælin voru sett fram án nokkurs fyrirvara annars en hún hafi ekki viljað vera leiðinleg að upplýsa um þetta. Þá verður að líta til þess að þótt skilaboðin hafi einungis verið ætluð móttakanda sem stefnda taldi vinkonu sína og ekkert liggi fyrir um að þeim hafi verið dreift frekar hefur áfrýjandi leitt líkur að því að þau hafi raskað hagsmunum hans og persónulegu lífi og valdið erfiðleikum í samskiptum hans við unnustu sína.

41. Samkvæmt öllu framangreindu er fallist á með áfrýjanda að ummæli stefndu hafi falið í sér aðdróttanir í skilningi 235. gr. almennra hegningarlaga og að með þeim hafi verið vegið að persónu hans og æru sem nýtur verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar. Hefur þá verið tekið mið af efni og framsetningu ummælanna, því samhengi sem þau voru sett fram í, alvarleika og áhrifa þeirra, sbr. dóm Hæstaréttar 18. desember 2014 í máli nr. 215/2014. Ummælin voru samkvæmt þessu óviðurkvæmileg í skilningi 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga og verða því ómerkt. Þá hindrar það ekki ómerkingu að ummæli hafi verið viðhöfð í slíkum skilaboðum á samskiptamiðlinum Instagram, enda telst ærumeiðingarbrot fullframið þegar það er komið til vitundar annars manns, sbr. til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 101/2015.

42. Miskabótakrafa áfrýjanda er reist á b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Við mat á þeirri kröfu verður að hafa í huga að ummælin birtust í lokuðum skilaboðum milli tveggja einstaklinga og liggur ekkert fyrir um að þeim hafi verið dreift víðar. Telja verður að áhrif ummæla með enga eða mjög takmarkaða útbreiðslu séu mun minni heldur en það tjón sem hlotist getur af gagnvart æru og persónu einstaklings þegar þau birtast á opinberum vettvangi. Auk þess hófst áfrýjandi ekki handa við málsókn þessa fyrr en eftir að tilgreind ummæli birtust á Facebook sem ósannað er eins og fyrr segir að stafi frá stefndu. Verður því ekki fallist á að áfrýjandi hafi nægilega sýnt fram á að skilyrði til greiðslu miskabóta vegna ummæla í skilaboðunum séu fyrir hendi, sbr. til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 36/1993.

43. Samkvæmt öllu framansögðu verður stefnda sýknuð af öðrum kröfum áfrýjanda um ómerkingu ummæla sem birtust á Facebook, refsingu og greiðslu miskabóta.

44. Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og niðurstöðu málsins verður stefndu gert að greiða áfrýjanda hluta málskostnaðar hans með þeim hætti sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Eftirfarandi ummæli stefndu, B, sem hún sendi C í skilaboðum á Instagram 28. ágúst 2021 eru dauð og ómerk:

„[...] mig langar samt að senda á þig til að láta þig vita að þessi maður er nauðgari. Hann hefur nauðgað manneskju sem er náin mér þegar sú manneskja var 8 ára.“

„Ég veit að hann hefur líka sótt í það að vinna í kringum börn og hefur allaveganna verið í 3 barnagæslum en verið rekinn/látinn fara af þeim öllum miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið.“

„Ég veit að ef ég væri með manni sem væri með barnagirnd eða nauðgari að þá myndi ég vilja vita af því.“

Stefnda er sýkn af öðrum kröfum áfrýjanda, A.

Stefnda greiði áfrýjanda 1.200.000 krónur í málskostnað á öllum dómstigum.