Hæstiréttur íslands

Mál nr. 57/2023

A (Agnar Þór Guðmundsson lögmaður)
gegn
Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Guðjón Ármannsson lögmaður)

Lykilorð

  • Skaðabótamál
  • Vátrygging
  • Líkamstjón
  • Óhappatilvik
  • Gjafsókn
  • Hæfi dómara
  • Sératkvæði

Reifun

A höfðaði mál á hendur S hf. og krafðist viðurkenningar á bótaskyldu vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir þegar hárgreiðslustóll, sem hún hafði sest í, gaf sig með þeim afleiðingum að hún féll í gólfið. Deildu aðilar um hvort líkamstjón A yrði rakið til saknæmrar háttsemi þannig að hún ætti rétt á bótum úr frjálsri ábyrgðartryggingu hárgreiðslustofunnar B sf. hjá S hf. Í dómi Hæstaréttar var lagt til grundvallar að orsök þess að A féll í gólfið hefði verið sú að málmfesting sem hélt uppi armi stólsins hefði brotnað. Hæstiréttur tók fram að í dómaframkvæmd hefðu almennt verið lagðar ríkar skyldu á eigendur eða umráðamenn fasteigna, þar sem rekin er verslunar- eða þjónustustarfsemi sem laðar að viðskiptavini, til að gera ráðstafanir sem sanngjarnar mættu teljast til að tryggja öryggi þeirra. Til þess yrði þó að líta að kröfur til viðhalds og eftirlits með búnaði yrðu að vera í eðlilegu samhengi við hættueiginleika hans, aldur og endingartíma, svo og eftirlits- og viðhaldsþörf. Hárgreiðslustóll geti með engu móti talist tæki eða búnaður sem sérstök hætta stafi af þótt óhöpp geti vissulega orðið við notkun slíkra stóla. Ekki var talið að A hefði fært sönnur á að tjón hennar yrði rakið til saknæmrar vanrækslu vátryggingartaka á viðhaldi stólsins eða eftirliti með honum. Þá var ekki talið að sá dráttur sem varð á því að S hf. tilkynnti vátryggingartaka um tjónstilkynningu A eða tregða B sf. til að upplýsa um það hver gert hefði við stólinn ætti að leiða til þess að sönnunarbyrði um saknæma vanrækslu vátryggingartaka yrði snúið við. Var S hf. sýknað af kröfum A.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. desember 2023. Hún krefst þess að viðurkennd verði bótaskylda úr frjálsri ábyrgðartryggingu B sf., hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf., vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir í slysi 14. nóvember 2017 á hárgreiðslustofu B sf. að […]. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar úr hendi stefnda fyrir Landsrétti og Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

3. Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og að áfrýjandi verði dæmd til að greiða honum málskostnað fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni

4. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort líkamstjón áfrýjanda verði rakið til saknæmrar háttsemi þannig að hún eigi rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu B sf. hjá stefnda eða hvort um óhappatilvik hafi verið að ræða.

5. Héraðsdómur féllst á kröfu áfrýjanda um viðurkenningu á bótaskyldu stefnda en með hinum áfrýjaða dómi var stefndi sýknaður af þeirri kröfu.

6. Áfrýjunarleyfi var veitt 7. desember 2023, með ákvörðun réttarins nr. 2023-122, á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi meðal annars um skýringu á skyldum vátryggingafélags samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.

Málsatvik

7. Áfrýjandi sótti þjónustu á hárgreiðslustofunni B 14. nóvember 2017. Í þann mund sem hún settist í stól á stofunni og var að hagræða sér brotnaði málmfesting undir stólnum með þeim afleiðingum að hún féll í gólfið. Hún settist eftir það í annan stól á hárgreiðslustofunni og fékk þar klippingu. Hún leitaði til heimilislæknis 17. sama mánaðar vegna einkenna frá hálsi, upp í höfuð og niður eftir baki sem hún tengdi við atvikið á hárgreiðslustofunni.

8. B sf. var með frjálsa ábyrgðartryggingu hjá stefnda á slysdegi. Áfrýjandi tilkynnti stefnda um tjónið 30. nóvember 2017 og var atvikum þar lýst á eftirfarandi hátt: „Stóll brotnar og A fellur í gólfið. A er mjög slæm í hálsi og baki og öxl eftir fallið.“ Um ábyrgð vátryggingartaka sagði í tilkynningunni: „Stóllinn hefur verið gallaður eða lélegur því hann brotnar. Vátryggingartaki ber ábyrgð á sínum búnaði.“ Tilkynningin var skráð hjá stefnda 1. desember sama ár.

9. Stefndi setti sig fyrst í samband við vátryggingartaka 5. apríl 2018 en í kjölfarið fór starfsmaður stefnda á vettvang og kannaði aðstæður. Stefndi hafnaði bótaskyldu 20. sama mánaðar. Afstaða hans var að vátryggingartaki bæri ekki skaðabótaábyrgð á slysi áfrýjanda þar sem um óhappatilvik hefði verið að ræða sem enginn bæri ábyrgð á. Í samskiptum stefnda og lögmanns áfrýjanda í júní til september 2018 var upplýst að stóllinn hefði verið 10 til 15 ára gamall, af viðurkenndri gerð og ætlaður til notkunar á hárgreiðslustofum. Jafnframt var upplýst um seljanda stólsins. Fram kom að gert hefði verið við stólinn eftir atvikið en áður en stefndi setti sig í samband við vátryggingartaka og að hann væri enn í notkun á hárgreiðslustofunni. Lögmanni áfrýjanda voru sendar myndir af stólnum fyrir og eftir viðgerð. Vátryggingartaki upplýsti ekki fyrr en við meðferð málsins fyrir Landsrétti hver hefði gert við stólinn þótt lögmaður áfrýjanda hefði ítrekað leitað eftir svörum um það.

10. Áfrýjandi aflaði matsgerðar læknis um afleiðingar slyssins 11. júní 2019 og mat hann varanlega læknisfræðilega örorku hennar 8%.

Málsástæður aðila

Helstu málsástæður áfrýjanda

11. Áfrýjandi byggir á því að ástæða þess að stóll á hárgreiðslustofu vátryggingartaka brotnaði þegar hún settist í hann hafi verið óviðunandi ástand stólsins. Með betra eftirliti og viðhaldi hefði mátt koma auga á ástand hans áður en slysið varð og þannig verið hægt að koma í veg fyrir það.

12. Miklar kröfur þurfi að gera til vátryggingartaka í ljósi þeirrar starfsemi sem hann reki en allir viðskiptavinir hárgreiðslustofunnar þurfi að nota hárgreiðslustóla. Af dómaframkvæmd Hæstaréttar verði ráðið að ríkar skyldur hvíli á rekstraraðilum verslunar og þjónustu til að tryggja að umbúnaður sé þannig að viðskiptavinum stafi ekki hætta af.

13. Áfrýjandi vísar til þess að umræddur stóll hafi verið 10 til 15 ára gamall og í stöðugri notkun 40 klukkustundir á viku sem hljóti að kalla á aukið eftirlit. Um kröfur til vátryggingartaka hvað eftirlit og viðhald varðar vísar hún til 13., 37. og 42. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, 3. gr. reglna nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða og 10. gr. reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja. Ekki liggi fyrir upplýsingar um hvenær stóllinn hafi síðast verið skoðaður fyrir slysið eða hversu nákvæmlega það hafi verið gert. Enginn sérstakur eftirlits- eða þjónustuaðili hafi verið með stólnum og engin skrá til um reglubundið viðhald. Öryggi viðskiptavina vátryggingartaka hafi því ekki verið tryggt nægilega vel og hann ekki risið undir þeim ríku skyldum sem á honum hafi hvílt.

14. Af hálfu áfrýjanda er byggt á því að tjónið hafi verið tilkynnt stefnda 30. nóvember 2017, tveimur vikum eftir að það átti sér stað. Ekkert hafi verið aðhafst af hálfu stefnda fyrr en eftir 28. mars 2018 en þá fyrst hafi verið haft samband við vátryggingartaka.

15. Áfrýjandi telur að stefndi hafi vanrækt skyldu sína samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um að hafa samband við vátryggingartaka án ástæðulauss dráttar þótt tilkynning hennar hafi gefið fullt tilefni til þess að bregðast við sem fyrst. Vátryggingartaki hafi verið búinn að láta gera við stólinn þegar stefndi fór á vettvang og skoðaði aðstæður. Því hafi ekki verið unnt að láta hlutlausan aðila rannsaka orsakir þess að stóllinn brotnaði og hvort það hefði mátt sjá fyrir. Vegna þessa hafi áfrýjanda verið ófært að sanna að vátryggingartaki hafi sýnt af sér saknæma háttsemi í aðdraganda slyssins með skorti á eftirliti og viðhaldi með stólnum. Stefndi verði því að bera hallann af að ekki hafi verið gerð rannsókn á stólnum áður en gert var við hann, að ekki liggi fyrir upplýsingar um það í hverju viðgerðin fólst og hvað varð til þess að málmfesting undir stólnum brotnaði. Þá hafi vátryggingartaki neitað að upplýsa hver gerði við stólinn og um viðgerðina. Af því verði stefndi einnig að bera halla.

16. Áfrýjandi vísar til þess að það hafi staðið stefnda og vátryggingartaka næst að upplýsa um atvik sem ollu slysinu. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hafi tíðkast við aðstæður sem þessar að sá sem beri ábyrgð á ófullnægjandi búnaði sem valdi tjóni sé látinn bera hallann af sönnunarskorti sem stafi af því að rannsókn hafi ekki farið fram eða verið ófullnægjandi. Ekki sé unnt að útiloka að rannsókn á stólnum hefði leitt í ljós að óviðunandi ástand vegna ófullnægjandi viðhalds af hálfu vátryggingartaka hefði verið orsök þess að málmfesting undir honum brotnaði.

Helstu málsástæður stefnda

17. Stefndi vísar til þess að óumdeilt sé að slysið hafi orðið með þeim hætti að áfrýjandi hafi fallið úr hárgreiðslustól vátryggingartaka þegar málmfesting undir stólnum brotnaði. Um nýjasta stólinn á hárgreiðslustofunni hafi verið að ræða. Engar kvartanir hafi borist vátryggingartaka vegna stólsins og ómögulegt fyrir hann að koma auga á annmarka á honum. Þá hafi Vinnueftirlitið sinnt reglulegum eftirlitsheimsóknum á stofuna og engar athugasemdir gert við stólinn. Ekkert sé komið fram um að vátryggingartaki hafi vanrækt að sinna viðhaldi stólsins. Ekki séu efni til að leggja svo ríkar skyldur á vátryggingartaka að honum hefði borið að framkvæma reglulega og ítarlega rannsókn á mögulegum leyndum annmörkum stólsins.

18. Stefndi telur að líta verði til þess að í kjölfar slyssins hafi áfrýjandi fengið klippingu í öðrum stól og afþakkað boð um að kallað yrði á sjúkrabíl. Því hafi ekki virst sem hún hafi orðið fyrir líkamstjóni. Engin vanræksla eða önnur saknæm háttsemi hafi átt sér stað af hálfu vátryggingartaka við slysið eða í aðdraganda þess. Þá bendi ekkert til þess að athugun á stólnum í kjölfar slyssins hefði leitt betur í ljós orsakir þess.

19. Stefndi telur að ekki geti verið um hlutlæga ábyrgð að ræða og ekkert tilefni til svo víðtækrar bótaábyrgðar. Hann hafnar þeirri nálgun áfrýjanda að snúa beri sönnunarbyrði við í málinu og telur það fara gegn viðurkenndum sjónarmiðum í skaðabótarétti hér á landi. Stefnda beri ekki að sýna fram á að engin saknæm háttsemi hafi átt sér stað af hálfu vátryggingartaka. Aðeins í þeim tilvikum þegar aðstæður á slysstað geti spillst eða sönnun um orsakir sé sérlega erfið geti komið til álita að beita sönnunarmati með afbrigðilegum hætti. Aðstæður á slysdegi hafi ekki verið háðar slíkum breytingum eða óvissu að sönnunarstaða áfrýjanda yrði sérlega erfið. Þá vísar stefndi til þess að skylda vátryggingafélags og vátryggingartaka til að rannsaka eða stuðla að rannsókn á tildrögum slyss og þannig aðstoða tjónþola við sönnunarfærslu verði ekki leidd af lögum eða sönnunarreglum nema þegar um vinnuslys sé að ræða. Almennt sé það hlutverk tjónþola að afla sönnunargagna um staðhæfingar sínar.

20. Stefndi hafnar því að afgreiðsla áfrýjanda á tjónstilkynningu áfrýjanda hafi farið í bága við 2. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 eða aðrar skyldur hans samkvæmt þeim lögum þannig að leitt geti til sakarábyrgðar vátryggingartaka. Ekki sé unnt að túlka orðalag ákvæðisins svo rúmt og slíkt verði ekki ráðið af dómaframkvæmd. Vátryggingin bæti aðeins tjón sem rekja megi til skaðabótaábyrgðar sem fallið hafi á vátryggingartaka. Meint brot stefnda gegn 2. mgr. 44. gr. laganna geti því hvað sem öðru líður ekki falið í sér saknæma háttsemi af hálfu vátryggingartaka þannig að til greiðsluskyldu stofnist úr vátryggingunni.

Löggjöf

21. Með 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga voru gerðar breytingar frá eldri lögum á réttarsambandi vátryggingafélags og tjónþola þegar vátrygging tekur til tjóns sem vátryggður ber skaðabótaábyrgð á. Ákvæði 1. og 2. mgr. greinarinnar eru svohljóðandi:

Ef vátrygging tekur til tjóns vátryggðs vegna skaðabótaábyrgðar sem hann ber getur tjónþoli krafist bóta beint frá félaginu. Félaginu og vátryggðum er skylt að upplýsa tjónþola um ábyrgðartryggingu sé hún fyrir hendi.
Ef fram kemur krafa um bætur á hendur félaginu skal tilkynna það vátryggðum án ástæðulauss dráttar og veita honum upplýsingar um meðferð kröfunnar. Viðurkenning félagsins á atriðum sem lúta að ábyrgð er ekki bindandi fyrir vátryggðan.

22. Í athugasemdum við þessi ákvæði í frumvarpi sem varð að lögum nr. 30/2004 sagði meðal annars:

Tilgangurinn með reglum frumvarpsins er að auka vernd tjónþola og leitast við að setja fram skýrari reglur um hana en gilt hafa. Það er gert með tillögu að reglu um að tjónþoli eigi í öllum tilvikum beina kröfu á hendur félagi sem ábyrgðartryggt hefur hinn bótaskylda. Samtímis því er óhjákvæmilegt að setja fram tillögur að reglum sem tryggja hagsmuni félagsins gegn misnotkun á stöðu þess og tryggja stöðu hins bótaskylda gegn misnotkun á stöðu hans. […]
Í 1. málsl. 1. mgr. er sett fram meginregla sem felur í sér veigamiklar breytingar frá gildandi rétti en samkvæmt henni á tjónþoli beinan rétt gegn félagi í þeim tilvikum sem vátrygging bætir tjón vátryggðs vegna skaðabótaábyrgðar hans, þ.e. þegar hann er ábyrgðartryggður. Það er ekki gert að skilyrði að tjónþoli hafi áður haft uppi kröfu um skaðabætur á hendur hinum bótaskylda, þótt sú verði líklega oftast raunin. Það er heldur ekki skilyrði að tjónþoli tilkynni hinum bótaskylda að hann muni beina kröfum sínum gegn félaginu. Skyldan til að upplýsa hinn bótaskylda um þetta hvílir á félaginu. Tjónþola er ekki, samkvæmt reglum frumvarps þessa, skylt að beina kröfum gegn félaginu, heldur hefur hann val um það hvort hann gerir það eða heldur sig við hinn bótaskylda. […]
Í 2. málsl. 1. mgr. er tillaga um nýja reglu sem ekki er að finna í VSL. Tilgangurinn með reglunni er að styrkja stöðu tjónþola í framkvæmd með því að skylda vátryggðan og félagið til þess að tilkynna honum um ábyrgðartryggingu sé hún fyrir hendi. Skylda félagsins verður virk þegar því er kunnugt um vátryggingaratburð. Ekki er ætlunin að leggja sérstaka rannsóknarskyldu á félagið með reglunni, einungis að mæla fyrir um tilkynningarskyldu þess þegar því verður kunnugt um vátryggingaratburð. […]
Í 1. málsl. 2. mgr. er mælt fyrir um tilkynningarskyldu félagsins til vátryggðs, enda hefur hann mikla hagsmuni af því hver framvinda málsins verður. Það kann að hafa þýðingu vegna eigin áhættu hans, vegna þess að tjón getur leitt til iðgjaldahækkunar o.fl. Í 2. málsl. þessarar mgr. er girt fyrir að félagið geti með yfirlýsingum um ábyrgð bundið vátryggðan. […]

Niðurstaða

Um hæfi dómara Landsréttar

23. Af hálfu áfrýjanda hefur athygli réttarins verið vakin á að Ásgerður Ragnarsdóttir, einn dómara málsins í Landsrétti, hafi starfað sem lögmaður á Lex lögmannsstofu á árunum 2008 til 2018 og verið meðeigandi 2012 til 2018. Lögmannsstofan hafi í áratugi gætt hagsmuna stefnda. Með hliðsjón af því telur áfrýjandi að Ásgerður hafi verið vanhæf til að dæma í málinu í Landsrétti enda aðstæður fyrir hendi til að draga óhlutdrægni hennar með réttu í efa, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991.

24. Athugasemd þessi kom ekki fram í greinargerð áfrýjanda til réttarins og hvorki var þar né í áfrýjunarstefnu gerð krafa um ómerkingu hins áfrýjaða dóms. Engu að síður þykir rétt að taka mögulegt vanhæfi dómarans til skoðunar af sjálfsdáðum.

25. Því er ekki haldið fram af hálfu áfrýjanda og ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að umræddur dómari hafi þá persónulegu afstöðu til málsaðila, sakarefnis eða lögmanns málsaðila að hæfi hennar verði með réttu dregið í efa.

26. Þegar meta skal hvort draga má óhlutdrægni dómarans með réttu í efa ber jafnframt að líta til þess út frá hlutlægum mælikvarða hvort fyrir hendi eru sýnileg ytri atvik eða aðstæður sem gefi réttmætt tilefni til að óttast megi um óhlutdrægni hennar í þessu máli.

27. Fyrir liggur að þegar dómarinn hafði málið til meðferðar í Landsrétti voru liðin tæp sex ár frá því að hún var skipuð héraðsdómari í janúar 2018 og lét af störfum á Lex lögmannsstofu. Mál þetta var höfðað í héraði í nóvember 2021 og lögmaður sem starfaði hjá stefnda tók þá til varna. Lögmaður á Lex lögmannsstofu tók síðan við meðferð málsins fyrir stefnda í Landsrétti sumarið 2022. Mál þetta kom því ekki til kasta lögmannsstofunnar fyrr en rúmum fjórum árum eftir að tengsl dómarans við hana rofnuðu. Ekkert er heldur fram komið í málinu um að dómarinn hafi þau persónulegu eða fjárhagslegu tengsl við stefnda, lögmannsstofuna, lögmennina sem farið hafa með málið af hálfu stefnda fyrir Landsrétti og Hæstarétti eða sakarefni málsins sem geri hana vanhæfa til að leysa úr því sem landsréttardómari. Um sambærileg tengsl dómara við málsaðila, vegna lögmannsstarfa í hans þágu í fyrra starfi, vísast til dóms Hæstaréttar 26. mars 2019 í máli nr. 14/2019 en þar var ekki fallist á að dómari hefði verið vanhæfur. Samkvæmt framansögðu eru því ekki fyrir hendi þau atvik eða aðstæður sem eru fallnar til að draga óhlutdrægni dómarans með réttu í efa. Ekkert tilefni er því til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm af sjálfsdáðum.

Um efnishlið málsins

28. Í stefnu til héraðsdóms er atvikum lýst þannig að áfrýjandi hafi sest í hárgreiðslustól og stutt sig við arma stólsins þegar hún hagræddi sér í honum. Þá hafi annar armurinn og pumpan á stólnum skyndilega brotnað af með þeim afleiðingum að hún skall aftur á bak og lenti illa á bakinu.

29. Í skýrslu C, annars eiganda hárgreiðslustofunnar, í héraði kom fram að stálfestingar undir sætinu hefðu brotnað. Í héraðsdómi er lagt til grundvallar að óumdeilt sé að áfrýjandi hafi fallið í gólfið við það að armur undan hárgreiðslustól sem hún settist í brotnaði. Ekki voru gerðar athugasemdir við þessar forsendur héraðsdóms í greinargerð áfrýjanda til Landsréttar en í greinargerð hennar til Hæstaréttar er atvikum lýst með þeim hætti að hárgreiðslustóllinn hafi brotnað undan henni með þeim afleiðingum að hún skall aftur fyrir sig í gólfið. Af málatilbúnaði aðila verður þannig ráðið að óumdeilt sé að áfrýjandi hafi fallið í gólfið úr stól á hárgreiðslustofu vátryggingartaka þegar festing undir honum brotnaði. Þótt ekki sé fyllilega í ljós leitt hvaða hlutar stólsins brotnuðu verður með hliðsjón af málatilbúnaði áfrýjanda einnig að byggja á því að orsök þess að hún féll í gólfið hafi verið sú að málmfesting sem hélt uppi armi stólsins hafi brotnað.

30. Áfrýjandi telur að slysið megi rekja til saknæmrar vanrækslu vátryggðs á viðhaldi á stólnum og eftirliti með honum og því beri stefnda að bæta líkamstjón sem af slysinu hlaust úr ábyrgðartryggingu vátryggingartaka.

31. Áfrýjandi heldur því ekki fram að um hlutlæga ábyrgð vátryggingartaka hafi verið að ræða. Hún telur hins vegar að miklar kröfur verði að gera til hans í ljósi þeirrar starfsemi sem hann reki. Af dómaframkvæmd Hæstaréttar verði ráðið að ríkar skyldur hvíli á rekstraraðilum verslunar og þjónustu til að tryggja að umbúnaður sé þannig að viðskiptavinum stafi ekki hætta af. Því til stuðnings vísar hún jafnframt til ákvæða laga nr. 46/1980, reglna nr. 581/1995 og reglugerðar nr. 367/2006.

32. Forsenda þess að krafa áfrýjanda á hendur stefnda nái fram að ganga er að vátryggingartaki teljist bera skaðabótaábyrgð á tjóni hennar. Sönnunarbyrði um að hann hafi sýnt af sér saknæma háttsemi hvílir almennt á tjónþola.

33. Lögum nr. 46/1980 er fyrst og fremst ætlað að tryggja starfsmönnum öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi á vinnustöðum eins og ráða má af 1. gr. laganna og kemur fram í þeim ákvæðum þeirra sem áfrýjandi hefur vísað til. Sama máli gegnir um reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja en samkvæmt 2. gr. er markmið hennar að tryggja öryggi og vernda heilsu starfsmanna þegar þeir nota tæki á vinnustöðum. Framangreindur tilgangur laga nr. 46/1980 endurspeglast jafnframt í 3. gr. reglna nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða þar sem segir að slíkt húsnæði skuli innrétta þannig að þar sé sem öruggast og heilsusamlegast starfsumhverfi. Framangreind lög svo og umrædd reglugerð og reglur settar með stoð í þeim hafa fyrst og fremst hlutverki að gegna á sviði vinnuverndar og hafa því almennt ekki sömu þýðingu við sakarmat í máli af þessum toga og málum vegna vinnuslysa þótt líta megi til þeirra sem lágmarksviðmiða við tilteknar hættulegar aðstæður svo sem gert var í dómum Hæstaréttar 11. nóvember 2010 í máli nr. 667/2009 og 23. febrúar 2012 í máli nr. 468/2011. Ekki hefur verið í ljós leitt að vátryggingartaki hafi brotið gegn þeim lágmarksviðmiðum sem leidd verða af þeim vinnuverndarákvæðum sem áfrýjandi hefur vísað til.

34. Í dómaframkvæmd hefur verið talið að almennt verði að leggja ríka skyldu á eigendur eða umráðamenn fasteigna, þar sem rekin er verslunar- eða þjónustustarfsemi sem laðar að viðskiptavini, til að gera ráðstafanir sem sanngjarnar mega teljast til að tryggja öryggi þeirra, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 8. júní 2006 í máli nr. 517/2005 og 13. mars 2008 í máli nr. 419/2007. Sambærilegar kröfur verður að gera til slíkra aðila um að þeir geri ráðstafanir sem sanngjarnar mega teljast til að tryggja öryggi húsbúnaðar og tækja sem þeir nota í starfsemi sinni og viðskiptavinir komast í snertingu við eins og í þessu máli.

35. Til þess er þó að líta að kröfur til viðhalds og eftirlits með búnaði verða að vera í eðlilegu samhengi við hættueiginleika hans, aldur og endingartíma, svo og eftirlits- og viðhaldsþörf. Hárgreiðslustóll getur með engu móti talist tæki eða búnaður sem sérstök hætta stafar af þótt óhöpp geti vissulega orðið við notkun slíkra stóla. Óumdeilt er að hárgreiðslustóllinn sem brotnaði var 10 til 15 ára gamall en ekkert liggur fyrir um endingartíma slíkra stóla. Leggja verður til grundvallar að ekkert hafi komið fram um ágalla á honum við reglulegar úttektir Vinnueftirlitsins á hárgreiðslustofu vátryggingartaka. Framburð eiganda vátryggingartaka fyrir héraðsdómi um eftirlit með stólnum verður hins vegar að meta í því ljósi að hún á hagsmuna að gæta af málsúrslitum, sbr. 59. gr. laga nr. 91/1991, og hefur hann því litla þýðingu. Á móti kemur að áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að sérstakar kröfur séu gerðar til reglulegs viðhalds eða ítarlegs eftirlits með slíkum stólum eða að eðlilegt sé að gera þá kröfu að sérstök skrá sé haldin um slíkt viðhald eða sérstakur eftirlits- og þjónustuaðili sinni því. Þá hefur áfrýjandi heldur ekki sýnt fram á að eitthvað hafi bent til þess að hann þarfnaðist viðgerðar eða að hætta stafaði af notkun hans. Að því leyti er sakarefni málsins ólíkt því sem var í dómi Hæstaréttar 12. nóvember 2015 í máli nr. 71/2015 þar sem tvö óhöpp höfðu áður hlotist af notkun líkamsræktartækis sem tjónþoli slasaðist í án þess að brugðist hefði verið við því. Áfrýjandi hefur samkvæmt framansögðu ekki fært sönnur á að tjón hennar hafi orðið vegna saknæmrar vanrækslu vátryggingartaka á viðhaldi eða eftirliti með stólnum.

36. Kemur þá til skoðunar hvort ástæða sé til að fallast á með áfrýjanda að stefndi eigi að bera hallann af því að ekki hafi verið unnt að leiða í ljós hvað varð til þess að festing undir stólnum brotnaði og þar með hafi ekki tekist að færa sönnur á að orsakir slyssins megi rekja til saknæmrar vanrækslu vátryggingartaka á viðhaldi stólsins og eftirliti með honum.

37. Því til stuðnings að snúa beri sönnunarbyrði við í málinu hefur áfrýjandi annars vegar vísað til þess að þar sem stefndi hafi ekki tilkynnt vátryggingartaka um fram komna tjónstilkynningu hennar fyrr en fjórum mánuðum eftir að hún barst hafi vátryggingartaki látið gera við stólinn og þar með eyðilagt sönnunargögn. Þannig hafi verið komið í veg fyrir að unnt væri að færa sönnur á vanrækslu vátryggingartaka. Hins vegar vísar hún til þess að þar sem vátryggingartaki brást ekki við ítrekuðum áskorunum hennar um að upplýsa um hver gerði við stólinn hafi henni verið ókleift að leiða í ljós hvað olli því að stóllinn brotnaði.

38. Við úrlausn um hver eigi að bera sönnunarbyrði um saknæma háttsemi vátryggingartaka er til þess að líta að það er almennt hlutverk tjónþola að afla sönnunargagna fyrir staðhæfingum sínum.

39. Fyrir liggur að áfrýjandi hefur ekki hlutast til um neina sönnunarfærslu um orsakir þess að festing undir stólnum brotnaði utan þess að óska ítrekað eftir upplýsingum frá stefnda um hver hafi annast viðgerð á stólnum. Enda þótt í tilkynningu sem hún sendi stefnda hafi verið fullyrt að stóllinn hafi verið gallaður eða lélegur og vátryggingartaki bæri ábyrgð á sínum búnaði var ekki óskað eftir að rannsókn færi fram á honum eða að tryggt yrði að hann yrði varðveittur í því ástandi sem hann var eftir slysið.

40. Á hinn bóginn liggur fyrir að stefndi og vátryggingartaki hlutuðust ekki til um að fram færi rannsókn á orsökum þess að festing undir stólnum brotnaði enda þótt áfrýjandi hefði sent stefnda tilkynningu um slysið skömmu eftir það. Í því sambandi verður þó að hafa í huga að ekki var um vinnuslys að ræða og því á 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 um skyldu atvinnurekanda til að tilkynna Vinnueftirliti ríkisins um slys ekki við. Af því leiðir jafnframt að ekki verður byggt á dómaframkvæmd um að leggja beri sönnunarbyrði á atvinnurekanda ef þeirri skyldu er ekki sinnt. Verslunareigandi hefur þó verið látinn bera hallann af því að láta undir höfuð leggjast að afla gagna um slys viðskiptavinar þótt tilkynning um það til vátryggingafélags hafi gefið fullt tilefni til þess, sbr. dóm Hæstaréttar 1. apríl 2004 í máli nr. 385/2003. Það sem réð þó úrslitum um bótaskyldu í því máli var hins vegar að á grundvelli framburðar vitnis var talið að verslunareigandi hefði engar ráðstafanir gert til að koma í veg fyrir slys vegna þeirra aðstæðna sem voru fyrir hendi þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um hættu sem stafað gæti af bleytu á sleipu gólfi þar sem tjónþoli rann til og slasaðist. Slysið var því rakið til vanrækslu verslunareigandans. Á svipað tilvik reyndi í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 71/2015 þar sem forstöðumanni líkamsræktarstöðvar hafði verið tilkynnt um tvö óhöpp sem hlutust af því að sleði í líkamsræktartæki losnaði áður en tjónþoli slasaðist vegna sams konar atviks. Vátryggingafélag var látið bera hallann af því að ekki hefði verið gerð viðhlítandi rannsókn á orsökum slyss sem full þörf var talin á, sérstaklega vegna vitneskju um að óhöpp hefðu áður orðið við notkun tækisins.

41. Í framangreindum athugasemdum við 44. gr. laga nr. 30/2004 í frumvarpi til þeirra er tekið skýrt fram að með 2. málslið 1. mgr. greinarinnar sé ekki ætlunin að leggja sérstaka rannsóknarskyldu á vátryggingafélag. Þá verður ráðið af athugasemdum um 1. málslið 2. mgr. greinarinnar að fyrirmælum um tilkynningarskyldu vátryggingafélags til vátryggingartaka um fram komna tjónstilkynningu sé fyrst og fremst ætlað að tryggja stöðu vátryggingartaka gagnvart félaginu enda hafi hann mikla hagsmuni af því hver framvinda málsins verður, svo sem vegna eigin áhættu hans og þess að tjón getur meðal annars leitt til iðgjaldahækkunar. Ákvæðinu er því ekki sérstaklega ætlað að vernda hagsmuni tjónþola. Þrátt fyrir það verður ekki horft fram hjá því að þessi vanræksla stefnda varð til þess að vátryggingartaki gerði ekki sérstakar ráðstafanir til þess að varðveita stólinn í því ástandi sem hann var eftir slysið heldur lét gera við hann. Því verður að taka afstöðu til þess hverju það hafi breytt fyrir sönnunarstöðu áfrýjanda að stefndi vanrækti þessa tilkynningarskyldu sína. Við úrlausn um hvort þessi vanræksla stefnda og afleiðingar hennar eigi að leiða til þess að sönnunarbyrði um að vátryggingartaki hafi ekki sýnt af sér saknæma háttsemi verði lögð á stefnda er til eftirfarandi atriða að líta:

42. Til að sönnunarbyrði verði snúið við ber annars vegar að gera þá kröfu til áfrýjanda að hún leiði að því einhverjar líkur að unnt hefði verið að upplýsa með rannsókn á stólnum áður en viðgerð fór fram að koma hefði mátt í veg fyrir slysið með eðlilegu viðhaldi stólsins og eftirliti með honum. Þessa hefur áfrýjandi ekki freistað.

43. Hins vegar verður áfrýjandi að leiða að því einhverjar líkur að möguleikar hennar á að sýna fram á saknæma vanrækslu vátryggingartaka hafi farið forgörðum við það að gert var við stólinn. Ekki liggur annað fyrir en að umræddur stóll sé enn í notkun á hárgreiðslustofu vátryggingartaka eftir viðgerð. Þrátt fyrir það hefur áfrýjandi ekki gert reka að því að leiða í ljós, svo sem með því að láta sérfræðing skoða stólinn, hvort viðgerðin á honum hafi gert henni ómögulegt að tryggja sér sönnur um saknæma vanrækslu vátryggingartaka.

44. Sá aðfinnsluverði dráttur sem varð á að stefndi tilkynnti vátryggingartaka um tjónstilkynningu áfrýjanda getur í ljósi alls framangreinds ekki leitt til þess að hann eigi að bera hallann af því að ekki hefur farið fram rannsókn á stólnum og orsök þess að hann brotnaði hefur ekki verið leidd í ljós.

45. Loks þarf að taka afstöðu til þess hvort neitun vátryggingartaka um að verða við áskorunum áfrýjanda um að upplýsa hver gerði við stólinn eigi að leiða til þess að sönnunarbyrði um saknæma vanrækslu vátryggingartaka verði snúið við. Ætla má að með framburði viðgerðarmannsins hefðu fengist viðbótarupplýsingar um hvað brotnaði í stólnum. Hins vegar hefur áfrýjandi ekki leitt að því líkur að hann hefði getað svarað til um hvort vanræksla á viðhaldi stólsins eða eftirliti með honum hafi orsakað að hann brotnaði. Þessi óútskýrða tregða vátryggingartaka til að upplýsa hver gerði við stólinn fram til munnlegs flutnings málsins fyrir Landsrétti getur því ekki leitt til þess að sönnunarbyrði verði lögð á stefnda um að saknæmri vanrækslu vátryggingartaka verði ekki kennt um slysið.

46. Samkvæmt öllu framangreindu hefur áfrýjanda hvorki tekist sönnun um að slys það sem hún varð fyrir þegar festing undir hárgreiðslustól brotnaði megi rekja til saknæmrar vanrækslu vátryggingartaka á eftirliti með stólnum og viðhaldi hans né fært nægileg rök fyrir því að leggja skuli þá byrði á stefnda að sanna að slík vanræksla hafi ekki orsakað slysið. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

47. Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

48. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 1.000.000 króna.

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

1. Um málavexti, málsástæður og lagarök vísast til atkvæðis meirihluta dómenda. Ég tek undir umfjöllun þeirra um hæfi dómara. Ég tel á hinn bóginn að eins og atvik þessa máls liggja fyrir þá skuli viðurkenna bótaskyldu úr frjálsri ábyrgðartryggingu B sf. hjá stefnda vegna slyss áfrýjanda 14. nóvember 2017 og dæma málskostnað til samræmis við það.

2. Í málum sem þessu hvílir sönnunarbyrði um saknæma háttsemi vátryggingartaka almennt á tjónþola sem þarf að leiða að því nægilegar líkur að gáleysi vátryggingartaka í starfsemi sinni hafi verið fullnægjandi þáttur í slysi. Sú sönnunarbyrði er ekki í öllum tilvikum erfið auk þess sem málsatvik geta verið með þeim hætti að sönnunarbyrði færist yfir á þann sem krafinn er bóta svo sem ef hann til að mynda hefur ekki sinnt með fullnægjandi hætti upplýsingaskyldu sinni um mögulegar orsakir slyss eða haldið atriðum þar um leyndum.

3. Ég er á öndverðri skoðun við meirihlutann um sakarmat. Ég tel ekki að aðstæður og atvik hafi verið með þeim hætti að leggja skuli til grundvallar niðurstöðu að um óhappatilvík hafi verið að ræða. Einkum tel ég ekki hafa skipt nægu máli við mat á sönnunarbyrði í atkvæði meirihlutans að vátryggingartaki rak þjónustu fyrir neytendur og sinnti í engu og án vitrænna skýringa ítrekuðum áskorunum áfrýjanda, sem var þiggjandi þjónustunnar, um að upplýsa um nauðsynleg atriði varðandi slysið.

4. Ég er sammála meirihlutanum um að lögum nr. 46/1980 um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum, reglugerðum og reglum settum samkvæmt þeim sé fyrst og fremst ætlað að tryggja starfsmönnum öruggt og heilsusamlegt umhverfi á vinnustöðum. Hafa slík ákvæði oft úrslitaþýðingu við strangt sakarmat í málum vegna vinnuslysa. Þarf þá einatt ekki mikið að koma til svo að sönnunarbyrði sé snúið við eða sök teljist sönnuð, einkum ef ekki fer fram rannsókn á vettvangi eftir slys. Nægir um það að nefna dóm Hæstaréttar 12. júní 2008 í máli nr. 582/2007.

5. Á hinn bóginn er til þess að líta að í dómum Hæstaréttar hefur við sakarmat í öðrum tilvikum einnig verið horft til þeirra viðmiða er fram koma í lögum, reglugerðum og reglum um öryggi á vinnustöðum þar sem um er að ræða rekstur fyrirtækis sem almenningi er ætluð för. Um þetta má vísa til dóms Hæstaréttar 11. nóvember 2010 í máli nr. 667/2009 þar sem segir að miða verði við að kröfur samkvæmt lögum nr. 46/1980 og reglugerðum settum með stoð í þeim séu lágmarkskröfur á stöðum þar sem almenningi er ætluð för auk starfsmanna. Sjá einnig dóm réttarins 23. febrúar 2012 í máli 468/2011 þar sem þótti mega hafa ákvæði laganna sem lágmarksviðmið um kröfur til aðbúnaðar og öryggis.

6. Auk þess má benda á dóma réttarins 1. apríl 2004 í máli nr. 385/2003 og 12. nóvember 2015 í máli nr. 71/2015 þar sem skylda til rannsóknar á orsökum slyss var lögð á herðar þess sem þjónustu veitti almenningi en ekki bótakrefjanda þótt ákvæði laga nr. 46/1980 taki samkvæmt orðum sínum einungis til starfsmanna á vinnustöðum.

7. Þess ber að geta að í fyrrgreinda málinu var einnig litið til þess að ábendingar höfðu komið fram af hálfu starfsmanns verslunar um hættu sem gæti stafað af bleytu á gólfi. Á hinn bóginn var jafnframt áréttuð sérstaklega sú regla að verslunareigandi skyldi bera hallann við sönnun málsatvika sökum þess að hann hefði látið undir höfuð leggjast að afla gagna um slysið eftir að honum var tilkynnt um það. Skipti þá ekki máli þótt tilkynningin hefði borist rúmu ári eftir slys og því örðugt um vik með rannsókn en vátryggingartakinn lét við það sitja að mótmæla kröfunni.

8. Í síðargreinda málinu hafði viðskiptavinur líkamsræktarstöðvar slasast við notkun tækis á stöðinni. Við niðurstöðu um sök var sérstaklega vísað til þess að eftir slysið hefði ekki farið fram fullnægjandi rannsókn á tækinu eins og full þörf hefði verið á þegar vitneskja var um að áður hefðu orðið óhöpp við notkun þess þótt ekki hefðu slys hlotist af. Ekki var látið skipta máli þótt Vinnueftirlitið hefði daginn eftir slysið gert svokallaða takmarkaða úttekt á slysinu að ósk forstöðumanns stöðvarinnar. Niðurstöður hennar voru að ekki væru gerðar athugasemdir við tækið sjálft en bæta skyldi við merkingu á því vegna hættu á að þrýstipinni á því væri ekki alveg inni. Tiltók dómurinn að með slíkri ítarlegri rannsókn af hálfu líkamsræktarstöðvarinnar hefði mátt leiða í ljós hvort búnaður tækisins hefði verið farinn að gefa sig. Þess í stað lét forstöðumaður líkamsræktarstöðvarinnar gera tilgreindar úrbætur á tækinu en eftir þær hefði tjónþola verið ókleift að sýna fram á að tækið hefði verið vanbúið er hann varð fyrir slysinu. Því var talið óhjákvæmilegt að vátryggingartaki og tryggingarfélag bæru hallann af því að ekki fór fram viðhlítandi rannsókn á orsökum slyssins. Var áréttað að hin takmarkaða skoðun Vinnueftirlitsins skyldi engu breyta í þeim efnum og lagt til grundvallar að vátryggingartaki hefði ekki gripið til fullnægjandi ráðstafana til að tryggja öryggi þeirra sem sóttu líkamsræktarstöðina.

9. Sambærileg niðurstaða var í dómi Hæstaréttar 19. október 2006 í máli 92/2006 þar sem ófært þótti að tjónþoli skyldi bera hallann af skorti á upplýsingum um aðstæður á skíðasvæði sem umsjónaraðilum svæðisins hefði verið unnt að veita. Því var sönnunarbyrði fyrir því að um óhappatilvik hefði verið að ræða færð á umsjónaraðilann þrátt fyrir að fram væri komið að tjónþoli, sem var viðskiptavinur á skíðasvæðinu, hefði sýnt af sér gáleysislega háttsemi við skíðaiðkun sína.

10. Þá er það almennt svo í málum sem þessum að sá sem ekki sinnir áskorunum um að leggja fram sönnunargögn sem hann býr yfir ber hallann af því, sbr. að sínu leyti dóm Hæstaréttar 29. janúar 2015 í máli nr. 395/2014. Ef atvik eru á hinn bóginn að fullu upplýst og unnt að slá því föstu að um óhappatilvik var að ræða skiptir eðli málsins samkvæmt ekki máli við sakarmat þótt rannsókn hafi ekki átt sér stað eins og þó hefði mátt ætlast til, eins og tekið var sérstaklega fram í dómi Hæstaréttar 29. apríl 2010 í máli 526/2009.

11. Um áréttingu á því að við sakarmat er litið til þess að almennt verði að leggja ríkar skyldur á rekstraraðila þar sem rekin er verslun eða þjónusta fyrir neytendur um að gera ráðstafanir sem sanngjarnar mega teljast til að tryggja öryggi viðskiptavina má til viðbótar nefna dóm Hæstaréttar 13. mars 2008 í máli nr. 419/2007 sem vísar um þetta til fleiri dóma, sbr. og dóm Hæstaréttar 22. maí 2014 í máli nr. 777/2013.

12. Þótt niðurstaða í málum sem þessum sé einatt bundin atvikum hverju sinni má samkvæmt framansögðu slá því föstu að kröfur samkvæmt lögum nr. 48/1980, reglugerðum og reglum settum samkvæmt þeim séu lágmarkskröfur á stöðum þar sem almenningur sækir þjónustu eins og um ræðir í því máli sem hér er til umfjöllunar. Hefur enda áfrýjandi í málatilbúnaði sínum vísað til einstakra ákvæða laganna og tilgreindra reglna um húsnæði vinnustaða sem mæla fyrir um að fyllsta öryggis skuli gætt með tilheyrandi eftirliti á vinnustöðum eins og þeim sem hér um ræðir. Er þá einkum um að ræða 13., 37. og 42. gr. laganna sem og reglna um húsnæði vinnustaða nr. 581/1995, einkum 3. gr., og reglugerðar um notkun tækja nr. 367/2006, einkum 10. gr., en stólar eins og sá sem um ræðir í þessu máli eru grundvallartæki í starfsemi vátryggingartaka. Samkvæmt framansögðu má við úrlausn málsins líta til reglna sem fram koma í ákvæðunum og fela í sér skyldur um að eftirliti og umsjón sé sinnt í hvívetna og ætti í máli þessu varla að vera allur munur á hvort það er neytandi sem slasast á vinnustað þar sem þjónusta er veitt eða starfsmaður vinnustaðarins.

13. Jafnframt er af áðurnefndum dómum ljóst að rík skylda hvílir á þeim sem þjónustu veitir og laðar til sín viðskiptavini að upplýsa um atriði sem varpað geta ljósi á orsakir slyss á viðskiptavinum á þeirra starfstöð. Tjónþoli verður ekki látinn bera halla af skorti á upplýsingum sem máli geta skipt, einkum ef þeim sem þjónustu veitir er í lófa lagið að sinna upplýsingagjöf en lætur það hjá líða án skýringa eins og um ræðir í þessu máli.

14. Í atkvæði meirihlutans er rakið efni 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga og athugasemda með frumvarpi um þá grein. Þrátt fyrir að regla 2. mgr. 44. gr. laganna leggji ekki sérstaka rannsóknarskyldu á hendur tryggingarfélagi vegna vátryggingaatburðar er ljóst af efni ákvæða greinarinnar í heild sinni og athugasemdum með henni að hún á að auka vernd bæði tjónþola og tjónvalds. Fylgi vátryggingarfélag skyldu sinni um tilkynningu án ástæðulauss dráttar til vátryggingartaka um að krafa sé komin fram og veitir upplýsingar um meðferð kröfunnar má ætla að mál upplýsist frekar en ella og sönnun spillist síður.

15. Áfrýjandi hafði hins vegar enga skyldu til að tilkynna vátryggingartaka um kröfu sína vegna slyssins heldur nýtti sér heimild 1. mgr. 44. gr. laganna til að krefjast bóta beint frá stefnda með tjónstilkynningu vegna ábyrgðartjóna þegar á sextánda degi eftir slysið og töluvert áður en gert var við hárgreiðslustólinn. Stefndi sinnti á hinn bóginn ekki skýru lagaboði 2. mgr. sömu lagagreinar að upplýsa vátryggingartaka án ástæðulauss dráttar um að krafan væri fram komin eins og áfrýjandi mátti treysta að gert yrði. Þótt lagagreinin leggi ekki sérstaka rannsóknarskyldu á vátryggingarfélag þá hjálpaði þessi vanræksla stefnda síður en svo við að upplýsa málið og ekki freistaði hann þess við meðferð þess að bæta úr vanrækslu sinni. Ekki getur skipt máli áfrýjanda í óhag það sem segir í atkvæði meirihlutans að áfrýjanda hafi borið að óska sérstaklega eftir rannsókn á stólnum þegar í tjónstilkynningu. Tilkynningin bar þvert á móti með sér þörf á rannsókn á stólnum sem hafði gefið sig og valdið slysi, einkum ef til stóð að hafna kröfu áfrýjanda. Sú staðreynd að áfrýjandi slasaðist í viðurvist vitna vegna slæms ástands stólsins kallaði auk þess ein og sér á að vátryggingartaki léti rannsókn fara fram. Um það má vísa til hliðsjónar í framangreinda dóma Hæstaréttar í málum nr. 385/2023 og 71/2015 en þar var ekki um vinnuslys að ræða heldur slys á viðskiptavinum þeirra sem þjónustu veittu. Í þessu ljósi er ég ósammála meirihlutanum um að vanræksla stefnda á lögboðinni skyldu sinni geti í raun leitt til þess að áfrýjandi en ekki stefndi eigi að bera hallann af því að ekki hafi í tæka tíð farið fram rannsókn á stólnum og ekki verið upplýst um orsök þess að hann brotnaði. Er þá ekki síst litið til þess að hvorki vátryggingartaki né stefndi veittu áfrýjanda sjálfsagðar upplýsingar um hver annaðist viðgerð á stólnum svo að hún gæti eftir atvikum í kjölfarið ákveðið hvort þörf væri frekari rannsóknar.

16. Í atkvæði meirihlutans er tiltekið að fram komi í stefnu að áfrýjandi telji að annar armur stólsins og pumpa hans hafi gefið sig þannig að hún skall aftur á bak og lenti illa á bakinu. Þótt við það verði miðað er eigi að síður á huldu hvað varð til þess að armur eða málmfesting á stólnum brotnaði. Verður þessi ályktun ekki látin hafa þau áhrif í málinu að áfrýjandi hafi takmarkað lýsingu sína á atvikinu þannig að áhrif hafi á sönnunarstöðu hennar eða að einhver marktæk breyting hafi orðið á lýsingu hennar á orsökum slyssins frá því sem fram kom í tjónstilkynningu þar sem sagði: „Stóllinn hefur verið gallaður eða lélegur því hann brotnar. Vátryggingartaki ber ábyrgð á sínum búnaði.“

17. Engin skrá var til hjá vátryggingartaka um viðhald og eftirlit með stólum hágreiðslustofunnar og ekkert er til skráð um rannsókn á stólnum áður en viðgerð á honum fór fram. Engar upplýsingar eru heldur fyrir hendi um í hverju nákvæmlega viðgerðin fólst. Þó er í gögnum málsins að finna tvær óskýrar ljósmyndir, að líkindum frá vátryggingartaka, sem teknar voru af stólnum fyrir viðgerð og ein eftir hana. Sýnist af þeim sem festingar á stólnum hafi gefið sig og eitthvað virðist hafa verið soðið saman en ekkert verður með öruggum hætti ráðið hver hafi verið orsök þess að stóllinn gaf sig eða hvort hann hafi verið orðinn laus í sér áður en slysið varð.

18. Eina frásögnin um viðgerð og eftirlit með stólnum er skýrslugjöf annars eiganda vátryggingartaka fyrir héraðsdómi, sem einnig var vitni að slysinu. Ekki eru lýsingar hennar glöggar um þetta. Kvaðst hún halda að viðgerð á stólnum hefði átt sér stað „eftir jólin 2017“ eftir að viðskiptavinur hárgreiðslustofunnar hefði boðist til að sjóða hann saman. Kvaðst hún telja að Vinnueftirlitið sem kæmi einu sinni á ári skoðaði vinnuaðstæður en „kíki ekki endilega á stólana ... bara ... ýtir svona við þeim og skoðar“. Í upphafi skýrslugjafar hennar kom fram að starfsfólk athugi stólana „tvisvar, þrisvar á ári“. Síðar var lýsing hennar á þann veg að það væri „að minnsta kosti einu sinni á ári“ sem athugað væri „hvort það ekki sé allt í lagi með setuna og – og bara pumpuna“. Ekki kvaðst hún geta sagt til um hvenær skoðun á stólnum hefði átt sér stað síðast fyrir slysið og ekkert gat hún um viðhald stóla stofunnar. Aðspurð um hvort í leiðbeiningum frá framleiðanda stólsins hefði verið mælt með því að skrúfur væru skoðaðar og hertar að minnsta kosti einu sinni í mánuði þrátt fyrir að stólar væru enn í ábyrgð þá kvaðst eigandinn hafa haft samband við heildsölu og fengið þau svör að það væri engin regla til um þetta. Hún hefði haft samband við nokkrar heildsölur sem selji svona stóla og enginn hefði heyrt um að svona hefði gerst. Jafnframt kom fram hjá eigandanum að stólar sem þessir væru í ábyrgð í fimm til sjö ár ár eftir kaup. Sérstaklega aðspurð um hvers vegna ekki hefðu verið veittar upplýsingar um hver hefði gert við stólinn, þrátt fyrir margítrekaðar áskoranir, svo að unnt væri að fá upplýsingar um ástand hans þá svaraði hún á þann veg: „Nei, nei, það sko – mér fannst það ekki þarna skipta neinu máli hver gerði við stólinn, þetta – af því þetta er eftir á. Hann hefur aldrei farið í viðgerð þessi stóll.“

19. Ég er sammála meirihlutanum um að líta megi til 59. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þegar kemur að þýðingu framburðar eiganda vátryggingartaka þar sem hún á hagsmuna að gæta af málsúrslitum. Auk þess vildi hún hvorki við skýrslugjöf fyrir dómi né áður veita nauðsynlegar upplýsingar um viðgerð á stólnum í kjölfar slyssins. Af því sem að framan er rakið er í raun heldur ekkert handfast um hvort, hvernig og þá hversu reglulega eftirliti og viðhaldi á stólnum var háttað, hvernig ástand hans var við slysið eða hvernig viðgerð á honum fór fram.

20. Enga þýðingu hefur við úrlausn málsins þótt stefndi skírskoti til þess að stóllinn hafi verið sá nýjasti af þeim stólum sem viðskiptavinum hárgreiðslustofunnar var uppálagt að setjast í en fyrir liggur að stóllinn var 10 til 15 ára gamall og löngu komin úr ábyrgð. Allan þennan tíma hafði hann verið í stöðugri notkun hvern vinnudag með tilheyrandi álagi við það að viðskiptavinir af ýmsum stærðum og gerðum sátu í honum, að því er ætla má samtals í að minnsta kosti rúmlega 20 þúsund klukkustundir.

21. Áfrýjandi gerði það sem ætlast mátti til af henni með því að senda inn tjónstilkynningu skömmu eftir slys og kallaði síðan meðal annars margítrekað eftir upplýsingum um ástand stólsins og hver hefði gert við hann svo að unnt væri að sjá hvernig viðgerð hefði verið háttað. Henni var hins vegar neitað um svör án skýringa. Að fenginni þeirri sjálfsögðu upplýsingagjöf hefði áfrýjanda frekar verið unnt að sjá hvort tilefni væri til að afla rannsóknar eða mats með tilheyrandi kostnaði. Ég er því ekki sammála meirihlutanum um að aðstæður í máli þessu séu þannig að sökum þess að haldið var upplýsingum frá áfrýjanda beri hún halla af því að gera ekki frekari reka að því að leiða í ljós hvort viðgerðin á stólnum hefði gert henni ómögulegt að tryggja sér sönnur um saknæma vanrækslu vátryggingartaka, svo sem með því að láta sérfræðing kanna stólinn.

22. Það var á hinn bóginn ekki fyrr en eftir að dómur héraðsdóms hafði gengið þar sem fallist hafði verið á kröfu áfrýjanda sem upplýsingar voru loks veittar um nafn þess sem gert hafði við stólinn. Það var þó ekki gert fyrr en við munnlegan flutning stefnda fyrir Landsrétti. Eins og atvikum er háttað verður stefndi að bera hallann af því að með óútskýrðum hætti var í raun að engu leyti reynt að upplýsa um málsatvik þótt honum hefði verið það í lófa lagið.

23. Ég er samkvæmt öllu framansögðu ósammála meirihlutanum um að sönnunarfærslu eða málatilbúnaði áfrýjanda hafi verið svo áfátt að leggja skuli til grundvallar að hún hafi engar líkur leitt að því að slysið verði frekar rakið til gáleysis af hálfu vátryggingartaka en að um hreina óhappatilviljun hafi verið að ræða. Ég er einnig ósammála meirihlutanum um að mál þetta liggi þannig fyrir að áfrýjandi eigi að bera hallann af óútskýrðri tregðu við að upplýsa um viðgerð á stólnum þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir áfrýjanda þar um. Enn síður tel ég að einhverja þýðingu skuli hafa áfrýjanda í óhag að hún hafi þegar í tjónstilkynningu sinni til stefnda ekki óskað eftir að sérstök rannsókn færi fram á stólnum eða að tryggt yrði að hann yrði varðveittur í því ástandi sem hann var eftir slysið.

24. Í stuttu máli er hér um er að ræða konu á sjötugsaldri sem leitaði til hárgreiðslustofu um þjónustu gegn greiðslu. Henni var gert að setjast í þennan tiltekna hársnyrtistól sem hafði verið í mikilli og stöðugri notkun til fjölda ára og var löngu kominn úr ábyrgð. Stóllinn gaf sig með þeim afleiðingum að áfrýjandi slasaðist og hlaut örorku. Alls er óvíst um eftirlit og viðhald með stólnum og verður ekki séð að það samræmdist með nokkrum hætti lágmarkskröfum laga og reglna sem líta verður til við niðurstöðu máls. Rannsókn fór ekki fram og aldrei var upplýst um hvert ástand stólsins var er slys varð heldur komið í veg fyrir að áfrýjandi ætti kost á nauðsynlegum upplýsingum þar um. Verður samkvæmt öllu því sem að framan er rakið að leggja til grundvallar að slysið hafi orðið vegna gáleysis vátryggingartaka. Ber að telja niðurstöðu héraðsdóms rétta og fallast á kröfu áfrýjanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda.

25. Loks tel ég að stefndi skuli greiða málskostnað á öllum dómstigum sem renni í ríkissjóð en að gjafsóknarkostnaður sem ákveðinn hefur verið vegna reksturs málsins verði staðfestur.