Hæstiréttur íslands
Mál nr. 8/2023
Lykilorð
- Manndráp
- Samverknaður
- Hlutdeild
- Refsiákvörðun
- Milliliðalaus sönnunarfærsla
- Heimfærsla
- Sönnunarmat
- Ásetningur
- Miskabætur
- Skaðabætur
- Réttargæslumaður
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 25. janúar 2023 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að dómur Landsréttar verði staðfestur.
3. Ákærði Angjelin Sterkaj krefst þess að refsing hans verði milduð. Hann krefst lækkunar á fjárhæð miskabóta til B og sýknu af bótakröfu hennar vegna missis framfæranda en til vara að krafan verði lækkuð. Hann krefst lækkunar á miskabótakröfu B fyrir hönd C og að miskabótakröfu hennar fyrir hönd D verði vísað frá dómi en til vara að krafan verði lækkuð. Hann krefst lækkunar á kröfum E og F.
4. Ákærða Claudia Sofia Cohelo Carvalho krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms, til vara sýknu og til þrautavara að refsing sín verði milduð og henni gerð vægasta refsing sem lög heimila.
5. Ákærði Murat Selivrada krefst aðallega sýknu en til vara að sér verði ákveðin vægustu viðurlög sem lög heimila og að refsing hans verði skilorðsbundin.
6. Ákærði Shpetim Qerimi krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms, til vara sýknu en til þrautavara að sér verði ákveðin vægustu viðurlög sem lög heimila.
7. Af hálfu einkaréttarkröfuhafa, B, er þess aðallega krafist að ákærða Angjelin verði gert að greiða henni miskabætur að fjárhæð 5.000.000 króna með nánar tilgreindum vöxtum, að staðfest verði niðurstaða hins áfrýjaða dóms um greiðslu skaðabóta henni til handa vegna missis framfæranda og að honum verði gert að greiða henni 568.523 krónur vegna útfararkostnaðar, allt ásamt nánar tilgreindum vöxtum. Til vara er þess krafist að niðurstaða hins áfrýjaða dóms um skaða- og miskabætur henni til handa verði staðfest.
8. Af hálfu einkaréttarkröfuhafa, B, fyrir hönd ólögráða sonar hennar C, er þess aðallega krafist að ákærða Angjelin verði gert að greiða honum miskabætur að fjárhæð 5.000.000 króna með nánar tilgreindum vöxtum og að staðfest verði niðurstaða hins áfrýjaða dóms um greiðslu skaðabóta honum til handa vegna missis framfæranda. Til vara er þess krafist að niðurstaða hins áfrýjaða dóms um skaða- og miskabætur honum til handa verði staðfest.
9. Af hálfu einkaréttarkröfuhafa, B, fyrir hönd ólögráða dóttur hennar D, er þess aðallega krafist að ákærða Angjelin verði gert að greiða henni miskabætur að fjárhæð 5.000.000 króna með nánar tilgreindum vöxtum og honum verði gert að greiða henni 7.958.520 krónur með nánar tilgreindum vöxtum í skaðabætur vegna missis framfæranda. Til vara er þess krafist að niðurstaða hins áfrýjaða dóms um skaða- og miskabætur henni til handa verði staðfest.
10. Af hálfu einkaréttarkröfuhafa, E og F, er þess aðallega krafist að ákærða Angjelin verði gert að greiða hvoru þeirra fyrir sig miskabætur að fjárhæð 5.000.000 króna með nánar tilgreindum vöxtum en til vara að niðurstaða hins áfrýjaða dóms um miskabætur þeim til handa verði staðfest.
Málsatvik og ágreiningsefni
11. A var ráðinn af dögum laugardaginn 13. febrúar 2021 þegar ráðist var að honum fyrir utan heimili hans að Rauðagerði […] í Reykjavík með skammbyssu með hljóðdeyfi. Var hann hæfður níu skotum í búk og höfuð.
12. Með ákæru Héraðssaksóknara 11. maí 2021 var ákærðu Angjelin, Claudiu, Murat og Shpetim gefið að sök að hafa í félagi staðið saman að því að svipta brotaþola lífi.
13. Þætti ákærða Angjelin er lýst þannig í ákæru að hann hafi ekið ásamt ákærða Shpetim að Rauðagerði. Hann hafi farið úr bifreiðinni utan við hús brotaþola, falið sig við bílskúr og þegar brotaþoli hafi komið út úr bílskúrnum eftir að hafa lagt þar bifreið sinni hafi ákærði skotið hann níu sinnum í líkama og höfuð með 22 kalibera Sig Sauer skammbyssu, með þeim afleiðingum að brotaþoli lést af skotáverkum sem hann hlaut á heila og brjósti. Í kjölfarið hafi ákærði Angjelin hlaupið út Rauðagerði, gefið ákærða Shpetim sem þar beið merki og farið aftur í bílinn við Borgargerði. Þeir hafi svo ekið út úr bænum og að Varmahlíð í Skagafirði, með viðkomu í Kollafirði þar sem ákærði hafi losað sig við skammbyssuna með því að henda henni í sjóinn.
14. Þætti ákærðu Claudiu er þannig lýst í ákæru að hún hafi að beiðni ákærða Murat fylgst með tveimur bifreiðum sem tilheyrt hafi brotaþola og lagt hafi verið í porti við Rauðarárstíg […] í Reykjavík og sent fyrir fram ákveðin skilaboð í gegnum samskiptaforritið Messenger til ákærða Shpetim þegar brotaþoli hafi ekið frá Rauðarárstíg á annarri bifreiðinni.
15. Þætti ákærða Murat er þannig lýst í ákæru að hann hafi sýnt ákærðu Claudiu tvær bifreiðar sem tilheyrt hafi brotaþola og lagt hafi verið í porti við Rauðarárstíg […] og gefið henni fyrirmæli um að fylgjast með þeim og jafnframt að senda nánar tiltekin skilaboð í gegnum samskiptaforritið Messenger til ákærða Shpetim þegar hreyfing yrði á annarri hvorri bifreiðinni.
16. Þætti ákærða Shpetim er lýst í ákæru með þeim hætti að hann hafi ekið ásamt ákærða Angjelin að Rauðagerði rétt fyrir miðnætti og stöðvað bifreiðina nálægt horni Rauðagerðis og Borgargerðis. Þegar bifreið brotaþola hafi verið ekið að heimili hans að Rauðagerði […] hafi ákærði Shpetim ekið í humátt á eftir honum, hleypt ákærða Angjelin úr bifreiðinni við hús nr. […] og ekið svo áfram nokkrar húsalengdir þar sem hann hafi snúið bifreiðinni við og beðið þar til ákærði Angjelin hefði gefið honum merki um að sækja sig. Þá hafi ákærði Shpetim ekið austur Rauðagerði og tekið ákærða Angjelin upp í bifreiðina í Borgargerði. Þeir hafi svo ekið út úr bænum og að Varmahlíð í Skagafirði, með viðkomu í Kollafirði þar sem ákærði Angjelin hafi losað sig við skammbyssu með því að henda henni í sjóinn.
17. Ákærði Angjelin játaði við yfirheyrslu hjá lögreglu og við skýrslutöku í héraði að hafa banað brotaþola. Önnur ákærðu hafa frá upphafi neitað sök.
18. Ákærði Angjelin var sakfelldur í héraði 21. október 2021 og dæmdur til 16 ára fangelsisvistar og greiðslu skaðabóta. Aðrir ákærðu voru sýknaðir en einkaréttarkröfum á hendur þeim vísað frá dómi og komu þær því ekki til umfjöllunar fyrir Landsrétti og Hæstarétti.
19. Ákæruvaldið áfrýjaði héraðsdómi til Landsréttar og krafðist þess að öll ákærðu yrðu sakfelld og þeim gerð refsing en að refsing ákærða Angjelin yrði þyngd. Ákærði Angjelin krafðist aðallega að refsing sín yrði milduð. Önnur ákærðu kröfðust sýknu en til vara vægustu refsingar. Landsréttur sakfelldi öll ákærðu og taldi að ákærðu Claudia, Murat og Shpetim hefðu með þátttöku í skipulagningu og öðrum undirbúningi þess að ákærði Angjelin gæti hitt brotaþola einan fyrir utan heimili hans átt verkskipta aðild að því að brotaþoli var ráðinn af dögum og að um samverknað allra ákærðu hefði verið að ræða. Refsing ákærða Angjelin var ákveðin 20 ára fangelsi en annarra ákærðu 14 ára fangelsi.
20. Áfrýjunarleyfi var veitt 23. janúar 2023, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2022-161, á þeim grunni að telja yrði að úrlausn málsins, meðal annars um skilyrði samverknaðar og eftir atvikum um ákvörðun refsingar, kynni að hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Væri þá jafnframt haft í huga að þrjú ákærðu hefðu verið sýknuð af ákæruefni í héraðsdómi en sakfelld fyrir Landsrétti, sbr. lokamálslið 4. mgr. 215. gr. sömu laga.
Niðurstaða
Niðurstaða um formhlið málsins
21. Af hálfu ákærðu Claudiu og Shpetim er krafist ómerkingar hins áfrýjaða dóms en af hálfu ákærðu Angjelin og Murat er bent á ýmsa ágalla á meðferð málsins fyrir Landsrétti sem þeir telja að geti leitt til ómerkingar dómsins og heimvísunar málsins án kröfu. Í fyrsta lagi telja ákærðu að skýrsla lögreglu um rannsókn málsins samkvæmt 56. gr. laga nr. 88/2008 sýni að lögregla hafi brotið gegn hlutlægnisskyldu sinni við rannsóknina. Í öðru lagi hafi verjendum ákærðu ekki verið gefinn kostur á að vera viðstaddir skýrslugjöf vitna sem fram hafi farið fyrir dómi á rannsóknarstigi. Í þriðja lagi hafi Landsréttur brotið gegn meginreglu sakamálaréttarfars um milliliðalausa málsmeðferð, annars vegar með því að endurmeta sönnunargildi munnlegs framburðar ákærðu fyrir héraðsdómi án þess að þau gæfu raunverulega munnlega skýrslu fyrir Landsrétti og hins vegar með því að leggja eingöngu lögregluskýrslur til grundvallar niðurstöðu um sönnun tiltekinna þátta málsins. Í fjórða lagi hafi Landsréttur tekið upp hjá sér af sjálfsdáðum að endurmeta röksemdir héraðsdóms um atriði sem ekki hafi verið byggt á af hálfu ákæruvalds. Í fimmta lagi hafi verið ágallar á aðferð Landsréttar við mat á sönnun um sekt ákærðu. Verður nú fjallað um hvert þessara atriða og hvort þau fela í sér réttarfarsannmarka sem leiða til ómerkingar hins áfrýjaða dóms.
1) Um skýrslu lögreglu um rannsókn málsins
22. Skýrsla lögreglu um rannsókn málsins sem unnin var á grundvelli 56. gr. laga nr. 88/2008 fylgdi rannsóknargögnum til ákæruvalds eftir að rannsókn lauk í samræmi við ákvæði 1. mgr. 57. gr. laganna. Slík skýrsla telst ekki til rannsóknargagna máls og niðurstaða sakamáls verður ekki á henni byggð. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hvorki talið að efni skýrslunnar fari í bága við ákvæði 1. mgr. 56. gr. laga nr. 88/2008 né að ályktanir í henni bendi til þess að ekki hafi verið gætt nauðsynlegrar hlutlægni við rannsókn málsins þannig að áhrif geti haft við úrlausn þess fyrir dómi.
2) Um skýrslutökur fyrir dómi á rannsóknarstigi
23. Af hálfu ákærða Angjelin hefur verið bent á að verjendur hafi ekki verið boðaðir til skýrslutöku vitna sem fram fór fyrir dómi meðan málið var enn á rannsóknarstigi. Ákærði telur að í því hafi falist brot gegn 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Meðal rannsóknargagna eru endurrit af skýrslum af þremur sakborningum sem lögregla hlutaðist til um að væru teknar fyrir dómi á rannsóknarstigi á grundvelli b-liðar 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008 til að upplýsa málið áður en verjendur fengju aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum málsins. Þessir sakborningar sem ekki eru á meðal ákærðu í málinu mættu með verjendum sínum en verjendur ákærðu voru ekki boðaðir. Umræddir einstaklingar komu allir fyrir dóm og gáfu skýrslu við aðalmeðferð málsins og höfðu þá stöðu vitna. Um skýrslutökur fyrir dómi á rannsóknarstigi gildir sú meginregla samkvæmt 2. mgr. 104. gr. laganna að tilkynna skal sakborningi og verjanda um skýrslutöku af sakborningi, brotaþola eða öðru vitni á grundvelli 59. gr. sömu laga nema dómari fallist á að taka kröfuna fyrir á dómþingi án þess að kveðja þangað sakborning eða þann sem hún beinist að, sbr. 1. mgr. 104. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 er dómara heimilt að taka til greina sem sönnunargögn skýrslur sem ákærði, brotaþoli eða önnur vitni hafa gefið fyrir dómi áður en mál var höfðað, sbr. 59. og 106. gr. laganna, en þó skulu skýrslugjafar koma á ný fyrir dóm við meðferð málsins ef þess er kostur og annar hvor málsaðila krefst eða dómari telur annars ástæðu til.
24. Sem fyrr segir komu umræddir þrír skýrslugjafar fyrir dóm sem vitni við aðalmeðferð málsins. Ekkert er fram komið í málinu um að þær skýrslur fyrir dómi á rannsóknarstigi sem um ræðir hafi haft þýðingu fyrir niðurstöðu málsins í héraði eða Landsrétti. Ekki verður talið að brotið hafi verið gegn rétti ákærða til réttlátrar málsmeðferðar af þessum sökum.
3) Um milliliðalausa sönnunarfærslu
25. Af hálfu ákærðu Angjelin, Murat og Shpetim er því sem fyrr segir haldið fram að Landsréttur hafi ekki látið fara fram sjálfstæða munnlega sönnunarfærslu fyrir réttinum.
26. Fyrirmæli 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð fyrir dómi hafa verið skýrð svo að þáttur í henni sé að sönnunarfærsla í sakamálum skuli vera milliliðalaus, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 29. nóvember 2012 í máli nr. 429/2012. Nánari útfærslu á meginreglunni er að finna í d-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans sem mælir fyrir um að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi fái að spyrja eða láta spyrja vitni sem leidd eru gegn honum. Sjá skuli til þess að vitni sem beri honum í vil komi fyrir dóm og séu spurð á sama hátt og þau vitni sem leidd séu gegn honum. Í athugasemdum við 8. gr. frumvarps til stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, sem varð að 70. gr. stjórnarskrárinnar, er meðal annars vísað til 6. gr. mannréttindasáttmálans og sagt að ekki þætti ástæða til að telja upp í greininni öll atriði sem tryggð væru í alþjóðasamningum um mannréttindi varðandi málsmeðferð fyrir dómstólum en að leiðarljósi væri haft að „taka þar aðeins upp grundvallarreglur og sleppa útfærsluatriðum sem eiga við þessar aðstæður eðli sínu samkvæmt aðeins heima í rétt¬arfarslöggjöf“. Samkvæmt því er litið svo á að þau réttindi sakbornings sem njóta verndar d-liðar 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans séu liður í réttlátri málsmeðferð samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.
27. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur verið litið til úrlausna Mannréttindadómstóls Evrópu við skýringu mannréttindasáttmálans þegar reynir á ákvæði hans sem hluta af íslenskum landsrétti, sbr. ummæli í dómi Hæstaréttar 19. maí 2005 í máli nr. 520/2004 þar sem vísað var til túlkunar mannréttindadómstólsins á d-lið 3. mgr. 6. gr. sáttmálans, svo og dóma Hæstaréttar 22. september 2010 í máli nr. 371/2010, 21. maí 2019 í máli nr. 12/2018 og 18. febrúar 2021 í máli nr. 30/2020.
28. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um þær kröfur sem gerðar eru til milliliðalausrar sönnunarfærslu á áfrýjunarstigi sem þáttar í að tryggja réttláta málsmeðferð við endurskoðun dóms undirréttar í sakamáli, sbr. til dæmis dóma réttarins 19. febrúar 1996 í máli nr. 16206/90, Botten gegn Noregi, 15. júlí 2003 í máli nr. 44671/98, Sigurþór Arnarsson gegn Íslandi, og 5. júlí 2011 í máli nr. 8999/07, Dan gegn Moldóvu. Í dómaframkvæmd mannréttindadómstólsins hefur verið talið sérstaklega mikilvægt að ákærði eigi þess kost að gefa munnlega skýrslu við meðferð sakamáls á áfrýjunarstigi ef hann hefur verið sýknaður á fyrsta dómstigi.
29. Réttur ákærða til milliliðalausrar sönnunarfærslu er ekki aðeins tryggður í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar heldur kemur þessi meginregla sakamálaréttarfars jafnframt fram í 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008 þar sem segir að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi.
30. Heimilt er að leita endurskoðunar Landsréttar á öllum þáttum héraðsdóms, þar á meðal niðurstöðu sem byggð er á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar samkvæmt c-lið 1. mgr. 196. gr. laga nr. 88/2008.
31. Í athugasemdum við 59. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 49/2016, um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála, segir svo:
Ekki er gert ráð fyrir að sú sönnunarfærsla sem fram fór fyrir héraðsdómi verði endurtekin fyrir Landsrétti, enda mæla sterk rök gegn því að sakborningar, brotaþolar, málsaðilar eða vitni séu yfirheyrð ítrekað fyrir dómi um sömu atriði eins og nánar er rakið í almennum athugasemdum með frumvarpinu. Á þetta sérstaklega við í sakamálum þar sem ætla má að upprifjun brotaþola og vitna á erfiðri lífsreynslu geti verið sársaukafull og af þeirri ástæðu varhugavert að endurtaka skýrslugjöf að nauðsynjalausu. Hins vegar er í frumvarpinu gert ráð fyrir að málsaðilum gefist kostur á að leiða ný vitni og taka viðbótarskýrslur af ákærðu og vitnum sem gáfu skýrslu fyrir héraðsdómi. Þá verði allar skýrslur í héraði teknar upp í hljóði og mynd og afrit af þessum upptökum send Landsrétti sem hluti af gögnum máls. Myndupptökurnar verði þannig aðgengilegar dómurum sakamáls í Landsrétti en að auki verði unnt að fara fram á að einstakar skýrslur eða hluti af þeim verði spilaðar við aðalmeðferð máls ef þörf þykir vegna endurmats á sönnunargildi munnlegs framburðar. Eftir sem áður er þó gert ráð fyrir að við sönnunarfærslu fyrir Landsrétti verði að miklu leyti stuðst við endurrit af framburði ákærðu og vitna fyrir héraðsdómi, enda er mikið hagræði í því fólgið fyrir málsaðila og dómendur og málsmeðferðin til muna skilvirkari með því móti. Sá möguleiki að leiða ný vitni og taka viðbótarskýrslur, svo og að spila upptökur af skýrslum sem teknar voru í héraði, er til þess fallinn að Landsréttur geti endurskoðað sönnunargildi munnlegs framburðar og skorið úr um sekt eða sýknu á grundvelli heildarmats á öllum sönnunargögnum, þ.m.t. munnlegum framburði.
32. Í e-lið 2. mgr. 203. gr., 2. mgr. 205. gr. og 1. mgr. 206. gr. laga nr. 88/2008 er gert ráð fyrir að ákæruvald og ákærði geti í greinargerð til Landsréttar óskað eftir að munnlegar viðbótarskýrslur séu teknar af ákærða og vitnum við aðalmeðferð sakamáls fyrir Landsrétti og einnig munnlegar skýrslur af nýjum vitnum. Það er hins vegar lagt í hendur Landsréttar að ákveða hvort þörf þykir á því en í þeim efnum skal þó tekið fram að ákærði á ávallt rétt á að gefa munnlega skýrslu við meðferð máls fyrir Landsrétti.
33. Í greinargerð ákæruvalds til Landsréttar var þess krafist að öll ákærðu kæmu fyrir réttinn til að gefa viðbótarskýrslu og að framburður þeirra í héraði yrði spilaður í hljóði og mynd. Í undirbúningsþinghaldi 12. september 2022 kom fram að verjandi ákærða Angjelin hefði greint frá því að hann óskaði ekki eftir að koma fyrir dóminn til viðbótarskýrslugjafar og mótmælti þeirri kröfu ákæruvaldsins. Verjendur annarra ákærðu greindu þar frá því að þau óskuðu ekki eftir að gefa viðbótarskýrslu fyrir Landsrétti en yrðu á hinn bóginn viðstödd aðalmeðferð. Verjandi ákærða Murat greindi frá því að skjólstæðingur hans myndi gefa skýrslu fyrir Landsrétti ef rétturinn tæki ákvörðun um það. Landsréttur tók þá ákvörðun í þinghaldi 14. september 2022 að við aðalmeðferð málsins kæmu ákærðu Claudia, Murat og Shpetim fyrir dóm til viðbótarskýrslugjafar og að áður en skýrsla væri tekin af þeim skyldi spiluð upptaka af framburði þeirra í héraði í heild sinni. Jafnframt skyldi spila upptöku af framburði ákærða Angjelin í héraði.
34. Við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti 28. til 30. september 2022 komu ákærðu Claudia, Murat og Shpetim fyrir dóm og var gefinn kostur á að skýra frekar frá atvikum málsins. Þau báru að þau hefðu engu við fyrri framburð sinn að bæta og sækjandi og verjandi kváðust engar frekari spurningar hafa til þeirra. Ákærði Angjelin kom hins vegar ekki fyrir dóm í Landsrétti og ítrekaði verjandinn þá afstöðu hans að gefa ekki skýrslu. Upptökur af munnlegum skýrslum allra ákærðu í héraði í hljóði og mynd voru spilaðar í heild sinni við aðalmeðferð í Landsrétti auk þess sem endurrit framburðar þeirra lá fyrir.
35. Ákærðu var samkvæmt framansögðu gefinn kostur á að tjá sig um sakarefni málsins fyrir Landsrétti en nýttu ekki þann rétt sinn að öðru leyti en að framan greinir. Það kom ekki í veg fyrir að Landsréttur gæti endurskoðað sönnunargildi munnlegs framburðar ákærðu, meðal annars á grundvelli spilunar á framburði þeirra fyrir héraðsdómi. Var sönnunarfærsla þar fyrir dómi því í samræmi við fyrirmæli laga nr. 88/2008 um milliliðalausa sönnunarfærslu fyrir dómi.
36. Af hálfu ákærðu Angjelin, Murat og Shpetim er því eins og fyrr segir jafnframt haldið fram að sakfelling þeirra í Landsrétti hafi í ýmsum efnum verið byggð á lögregluskýrslum en með því hafi verið brotið gegn meginreglu sakamálaréttarfars um milliliðalausa sönnunarfærslu fyrir dómi.
37. Samkvæmt 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar er sökuðum manni tryggður réttur til að vera talinn saklaus þar til sekt hans er sönnuð, sbr. einnig 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 108. gr. laga nr. 88/2008. Sú meginregla sem birtist í framangreindum ákvæðum um að sönnunarbyrði í sakamálum hvíli á ákæruvaldi felur í sér að ríkar sönnunarkröfur eru gerðar til þess. Í 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 segir að dómari meti hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varði sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafi, vitnisburður, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn.
38. Samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 88/2008 metur dómari við úrlausn máls sönnunargildi framburðar ákærða, þar á meðal trúverðugleika hans, en við það mat skal meðal annars hugað að ástandi og hegðun ákærða við skýrslugjöf og stöðugleika í frásögn. Í greinargerð með frumvarpi er varð að lögunum segir meðal annars um 115. gr. að það geti gert framburð ákærða ótrúverðugan ef hann reynist óstöðugur, til dæmis ef hann ber allt annað fyrir dómi en hann hefur áður gert hjá lögreglu án þess að viðhlítandi skýring komi fram á því.
39. Skýrslutökur af ákærðu hjá lögreglu eru liður í rannsókn máls og meðal þeirra sönnunargagna sem heimilt er að leggja fram í dómsmáli, sbr. dóm Hæstaréttar 22. október 1992 sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 1639, en sá dómur hefur fordæmisgildi þótt hann snúi að túlkun á ákvæðum eldri laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sönnunargildi framburðar sem ákærði eða vitni hefur gefið hjá lögreglu verður ekki lagt að jöfnu við sönnunargildi munnlegs framburðar sem gefinn er með milliliðalausum hætti fyrir dómi nema að því leyti sem viðkomandi hefur staðfest hann fyrir dómi. Löng dómaframkvæmd er hins vegar um að dómara sé rétt að taka tillit til þess við mat á trúverðugleika framburðar ákærða fyrir dómi ef ósamræmi reynist um atriði sem talin eru skipta máli milli framburðar fyrir dómi og skýrslu sem viðkomandi gaf hjá lögreglu og hann hefur ekki gefið sennilega skýringu á því ósamræmi. Sjá um þetta til dæmis dóma Hæstaréttar 17. desember 2015 í máli nr. 311/2015, 15. desember 2016 í máli nr. 440/2016, 1. júní 2017 í máli nr. 129/2017 og fyrrgreindan dóm í máli nr. 30/2020. Þýðing skýrslu ákærða hjá lögreglu við þetta mat á trúverðugleika framburðar hans fyrir dómi getur þó jafnframt ráðist af því hvort hann naut liðsinnis verjanda við skýrslutöku hjá lögreglu og hvort þar var að öðru leyti fylgt lagafyrirmælum um réttindi hans.
40. Af framangreindu leiðir að dómari verður að meta annars vegar innra samræmi framburðar ákærða með tilliti til þess hvort mótsagna gætir í frásögn og skýringum hans og á það jafnt við um innra samræmi í einstökum framburði og samræmi milli skýrslu annars vegar hjá lögreglu og hins vegar framburðar fyrir dómi. Á sama hátt verður að meta ytra samræmi um hvernig framburður ákærða samræmist framburði vitna og eftir atvikum annarra ákærðu svo og öðrum þeim sönnunargögnum og upplýsingum sem komið hafa fram við málsmeðferð. Á þessum grunni verður metið hversu trúverðugur framburður ákærða eða eftir atvikum hvers ákærða um sig er um einstök atriði sem áhrif geta haft við sakarmat og hvaða áhrif niðurstaða þess mats hefur með tilliti til annarra beinna og óbeinna sönnunargagna sem fyrir liggja í málinu, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 30/2020 og dóm réttarins 22. febrúar 2023 í máli nr. 46/2022.
41. Ákærðu gáfu skýrslu hjá lögreglu að viðstöddum verjendum sínum og eru upptökur af skýrslunum í hljóði og mynd meðal gagna málsins svo og endurrit þeirra. Ekki eru í ljós leiddir neinir annmarkar á framkvæmd skýrslutöku af ákærðu hjá lögreglu.
42. Samkvæmt framansögðu var það hluti af lögboðnu mati héraðsdóms og síðar Landsréttar á trúverðugleika framburðar ákærðu fyrir dómi um einstök atriði sem máli skiptu við sakarmatið að ganga úr skugga um hvort samræmi væri í framburði hvers þeirra um sig hjá lögreglu og fyrir dómi um slík atriði.
43. Niðurstöður Landsréttar um að ákærðu hefðu gerst sek um þátttöku í manndrápi voru byggðar á heildstæðu mati á ýmsum sýnilegum sönnunargögnum sem fjallað er um í hinum áfrýjaða dómi svo og framburði ákærðu í héraði. Í hinum áfrýjaða dómi er lagt mat á trúverðugleika framburðar ákærðu með því að bera hann saman við skýrslur þeirra sjálfra hjá lögreglu og litið til breytinga sem skýrslur þeirra tóku eftir því sem rannsókn miðaði. Framburður hvers ákærðu fyrir héraðsdómi var jafnframt í einstökum atriðum borinn saman við framburð annarra ákærðu í héraði og skýrslur þeirra hjá lögreglu.
44. Tilvísun í hinum áfrýjaða dómi til skýrslna sem ákærðu gáfu hjá lögreglu var samkvæmt framansögðu liður í mati á trúverðugleika framburðar þeirra fyrir dómi og aðeins hluti af því heildstæða sönnunarmati sem lá til grundvallar niðurstöðu um sekt þeirra. Tilvísun í hinum áfrýjaða dómi til skýrslna ákærðu hjá lögreglu fór samkvæmt því ekki í bága við rétt þeirra til milliliðalausrar sönnunarfærslu fyrir dómi.
4) Um endurmat Landsréttar að eigin frumkvæði á niðurstöðum héraðsdóms
45. Af hálfu ákærða Shpetim er á því byggt að á hinum áfrýjaða dómi séu þeir ágallar að Landsréttur hafi tekið upp hjá sér af sjálfsdáðum að endurmeta röksemdir héraðsdóms um atriði sem ekki hafi verið byggt á af hálfu ákæruvalds. Af hálfu þess hafi í greinargerð til Landsréttar ekki verið gerður um það ágreiningur að í dómi héraðsdóms hafi fyrst og fremst verið byggt á því að ekkert ákærðu hafi borið um að hafa rætt um manndrápið fyrir fram og engir vitnisburðir liggi fyrir um að þau þrjú sem neitað hafi sök hafi vitað eða mátt vita um að ákærði Angjelin myndi svipta brotaþola lífi.
46. Fyrir liggur að ákæruvaldið vísaði í þessu samhengi til þess að héraðsdómur hefði nánast algerlega litið fram hjá öðrum sönnunargögnum að þessu leyti og benti á að ákærðu breyttu öll framburði sínum töluvert eftir því sem rannsókn lögreglu vatt fram.
47. Landsréttur hefur heimild til að endurskoða niðurstöður héraðsdóms um alla efnisþætti sakamáls, þar á meðal um hvað telst sannað um hlutræna þætti verknaðar og huglæga afstöðu ákærða til brots. Slíkt sönnunarmat byggist á heildstæðu mati á öllum fyrirliggjandi sönnunargögnum og sönnunargildi þeirra, jafnt munnlegum framburði ákærðu og vitna og sýnilegum sönnunargögnum. Ekki verður annað séð en að Landsréttur hafi við endurskoðun á sönnunarmati héraðsdóms um það atriði sem áður greinir tekið tillit til annarra sönnunargagna en munnlegs framburðar ákærðu og vitna, í samræmi við það sem ákæruvaldið benti á í greinargerð til Landsréttar. Engir ágallar voru því á málsmeðferð Landsréttar að þessu leyti.
5) Um ætlaða ágalla á aðferð Landsréttar við sönnunarmat
48. Mat Landsréttar á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærðu og vitna fyrir dómi verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, enda ekki heimilt að veita leyfi til áfrýjunar á dómi Landsréttar til Hæstaréttar til endurskoðunar á slíku mati, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Á þetta jafnt við um endurskoðun á slíku mati að því er varðar hlutræna þætti verknaðar og huglæga afstöðu ákærðu en niðurstaða slíks mats getur eftir atvikum bæði haft þýðingu um sakfellingu og heimfærslu til refsiákvæða. Hæstiréttur getur á hinn bóginn endurmetið til hvaða refsiákvæðis heimfæra skal þá háttsemi ákærðu sem Landsréttur hefur talið sannaða, sbr. b-lið 1. mgr. 215. gr. laganna að því leyti sem sú endurskoðun lýtur ekki að mati á sönnunargildi munnlegs framburðar heldur öðrum þáttum svo sem mati á sönnunargildi annarra sönnunargagna eða túlkun refsiákvæða. Á þetta meðal annars við um mat á því hvort sönnuð þátttaka ákærðu í refsiverðri háttsemi telst fullnægja hlutrænum og huglægum skilyrðum þess að teljast samverknaður eða hlutdeild.
49. Ef annmarkar eru á hinn bóginn á málsmeðferð, þar á meðal aðferð við sönnunarmat í dómi, sem teljast fallnir til að hafa áhrif á niðurstöðu máls geta þeir orðið til þess að leyfi til áfrýjunar skuli veita, sbr. d-lið 1. mgr. 215. gr. sömu laga, sem leitt getur eftir atvikum til ómerkingar hins áfrýjaða dóms og heimvísunar máls, sbr. dóm Hæstaréttar 15. október 2020 í máli nr. 16/2020, fyrrgreindan dóm í máli nr. 30/2020 og dóm 11. október 2022 í máli nr. 31/2022.
50. Ákærðu Claudia, Murat og Shpetim telja að ýmsir ágallar hafi verið á aðferð við sönnunarmat í hinum áfrýjaða dómi og telja þau Claudia og Shpetim að þeir eigi að leiða til ómerkingar dómsins en ákærði Murat telur þá geta leitt til sýknu eða heimvísunar. Verður nú vikið að helstu þáttum sem ákærðu telja að hafi verið áfátt í sönnunarmati Landsréttar.
51. Hvað þátt ákærða Murat varðar telur hann að sakfelling sín hafi samkvæmt dómi Landsréttar verið byggð á því að hann hafi farið með ákærðu Claudiu að Rauðarárstíg […] að kvöldi 13. febrúar 2021 til að leiðbeina henni um hvaða bifreiðum hún ætti að fylgjast með. Sú niðurstaða stangist á við framburð ákærðu Angjelin og Claudiu í héraði um að ákærði Angjelin hafi síðar um kvöldið gefið ákærðu Claudiu fyrirmæli um að fylgjast einnig með Volvo-bifreið brotaþola og þá staðreynd að bifreiðin hafi ekki verið í porti við Rauðarárstíg […] þegar þau Claudia komu þangað. Sendiferðabifreiðin sem ákærðu Angjelin og Claudia hafi borið um að ákærði Angjelin hafi beðið ákærða Murat um að benda ákærðu Claudiu á hafi hvorki verið í umráðum brotaþola né hafi hann ekið þeirri bifreið heim til sín umrætt kvöld. Bifreiðin standi því ekki í neinu orsakasambandi eða hafi þýðingu fyrir verknað ákærða Angjelin.
52. Í hinum áfrýjaða dómi segir að ákærðu Murat og Claudia hafi að kvöldi 13. febrúar 2021 farið að Rauðarárstíg og að ferðin og sú staðreynd að ákærða Claudia fór síðar þangað til að fylgjast með bifreiðum sem tengdust brotaþola veiti sterka vísbendingu um að ákærði Murat hafi farið með ákærðu Claudiu til að leiðbeina henni um hvaða bifreiðum hún ætti að fylgjast með. Þá segir í dóminum að ákærði Murat hafi gegnt mikilvægu hlutverki við að staðsetja brotaþola og fylgjast með ferðum hans í því skyni að ákærði Angjelin hitti hann fyrir. Af dóminum verður ráðið að Landsréttur hafi talið sannað að ákærði Murat hafi að boði ákærða Angjelin gefið ákærðu Claudiu fyrirmæli um að fylgjast með tveimur bifreiðum brotaþola umrætt kvöld en sú háttsemi er liður í lýsingu á þætti ákærða Murat í ákæru. Ekki er hins vegar í dóminum tekin bein afstaða til þess hvort ákærði Murat hafi sýnt ákærðu bifreiðarnar eins og honum er gefið að sök í ákæru. Þá er ekki heldur talið sannað að ákærði Murat hafi gefið ákærðu Claudiu fyrirmæli um að senda ákærða Angjelin skilaboð um hvenær hreyfing yrði á annarri hvorri bifreiðinni og var sakfelling hans ekki byggð á þeim þætti verknaðarlýsingar ákæru.
53. Við mat á því hvort ágallar hafi verið á aðferð Landsréttar við sönnunarmat verður að líta til þess að í síðustu yfirheyrslu yfir ákærða Angjelin hjá lögreglu 21. mars 2021 kvaðst hann hafa verið búinn að biðja ákærða Murat um að sýna ákærðu Claudiu hvaða bifreiðar brotaþoli ætti, hún skyldi fylgjast með þeim og láta vita þegar brotaþoli færi heim. Hann hafi jafnframt sagt ákærðu Claudiu að fara með ákærða Murat sem myndi sýna henni hvaða bifreið þetta væri. Þegar hún yrði þess vör að bifreiðin hreyfðist ætti hún að senda ákærða Angjelin skilaboð. Í skýrslu ákærða Angjelin í héraði greindi hann hins vegar svo frá að hann hefði beðið ákærða Murat um að sýna ákærðu Claudiu hvaða bifreið væri um að ræða svo að hún gæti áttað sig á hvaða bifreið brotaþoli væri á. Þá bar ákærði Angjelin einnig að hann hefði í símtali við Claudiu um kvöldið beðið hana um að fylgjast líka með grárri Volvo-bifreið.
54. Í dómi Landsréttar er gerð ítarleg grein fyrir upptökum úr öryggismyndavélum sem meðal annars sýna fjölmargar ferðir ákærða Murat um Rauðarárstíg umrætt kvöld, meðal annars í fylgd annars vegar ákærða Shpetim og hins vegar ákærðu Claudiu. Þá er gerð grein fyrir rúmlega tveggja mínútna símtali ákærðu Murat og Claudiu klukkan 23.32 um kvöldið, skömmu eftir að ákærði Murat hafði ekið um Rauðarárstíg og um hálfri klukkustundu eftir að brotaþoli ók inn í umrætt port á Volvo-bifreiðinni. Þá er í dómi Landsréttar gerð ítarleg grein fyrir framburði allra ákærðu hjá lögreglu og fyrir héraðsdómi, meðal annars um umræddan þátt ákærða Murat. Landsréttur lýsir því að framburður þeirra hafi breyst mjög mikið eftir því sem rannsókn lögreglu vatt fram. Þá hafi framburður þeirra fyrir dómi ekki verið í fullu samræmi við fyrri skýrslur þeirra hjá lögreglu. Landsréttur telur það einkenna framburð ákærðu að þau hafi breytt honum hjá lögreglu eftir því sem borin voru undir þau frekari rannsóknargögn, svo sem myndir úr eftirlitsmyndavélum og símagögn. Þannig hafi þau í ríkum mæli leitast við að laga framburð sinn að nýjum gögnum lögreglu. Þá hafi verið verulegt innra ósamræmi í framburði ákærðu. Enn fremur taldi Landsréttur framburð ákærðu hafa verið reikulan og að þau væru öll ótrúverðug. Framangreind niðurstaða Landsréttar um að ákærði Murat hefði leiðbeint ákærðu Claudiu um hvaða bifreiðum sem tengdust brotaþola hún ætti að fylgjast með og um hlutverk hans við að staðsetja brotaþola og fylgjast með ferðum hans er augljóslega byggð á mati á sönnunargildi framburðar þeirra þriggja svo og upptökum úr eftirlitsmyndavélum, meðal annars við Rauðarárstíg, frá umræddu kvöldi og fyrrgreindum símagögnum. Niðurstaða Landsréttar er því ekki eingöngu byggð á framburði ákærða Angjelin fyrir dómi eins og ákærði Murat heldur fram, öndvert við það sem um var að ræða í dómi Hæstaréttar 17. febrúar 2005 í máli nr. 345/2004. Niðurstaða Landsréttar hvað varðar þátt ákærða Murat er samkvæmt framansögðu byggð á heildarmati á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærðu í héraði og samanburði við sýnileg sönnunargögn sem gerð er grein fyrir í dóminum. Engir ágallar eru að þessu leyti á aðferð við sönnunarmat Landsréttar um þá háttsemi ákærða Murat sem lýst er í ákæru og rétturinn taldi sannaða.
55. Um þátt ákærðu Claudiu er í lið 39 í hinum áfrýjaða dómi vísað til þess að á myndskeiði úr eftirlitsmyndavél við Brautarholt í Reykjavík sjáist hún fara út af heimili ákærða Angjelin klukkan 00.25 aðfaranótt 14. febrúar 2021 og inn í Suzuki-bifreið sína. Hún hafi beðið þar um stund en síðan farið aftur inn á heimili ákærða Angjelin. Í lið 40 er jafnframt vísað til þess að samkvæmt símagögnum sem lögregla hafi fengið hjá ákærðu Claudiu hafi henni borist textaskilaboð frá ákærða Murat klukkan 1.30 sömu nótt með skilaboðunum „wait a bit“. Síðar í dóminum í lið 111 kemur fram að til þess sé að líta að samkvæmt myndskeiðum úr eftirlitsmyndavélum í Brautarholti og Stórholti virðist sem ákærða Claudia, sem hafi beðið ein á heimili ákærða Angjelin vel fram yfir miðnætti, hafi ætlað að leggja af stað þaðan klukkan 1.30 um nóttina en í þann mund fengið skilaboð frá ákærða Murat með fyrirmælum um að bíða um stund. Skömmu síðar hafi verið hringt í hana úr síma ákærða Shpetim og hún þá haldið af stað norður. Þá sé þess að gæta að ákærði Shpetim hafi um svipað leyti hringt í ákærða Murat og tjáð honum að hann væri á leið úr bænum.
56. Samkvæmt rannsóknargögnum fékk ákærða Claudia umrædd textaskilaboð frá ákærða Murat klukkan 00.33 en ekki klukkan 1.30 eins og ranghermt er í liðum 40 og 111 í hinum áfrýjaða dómi. Þar sem eftirlitsmyndavélar sýna hins vegar að ákærða hafi sest upp í bifreið sína klukkan 00.25 og beið þar um stund, eins og réttilega er greint frá í lið 39 í dóminum en ranglega í lið 111, er ályktun Landsréttar í síðari liðnum rétt þótt rangt sé farið með tímasetningu. Þessi ágalli á aðferð Landsréttar við sönnunarmat var þannig ekki til þess fallinn að hafa áhrif á niðurstöðu málsins.
57. Í lið 108 í hinum áfrýjað dómi er fjallað um sönnun um þátttöku ákærða Shpetim í að veita brotaþola fyrirsát. Meðal annars er vísað til þess að ákærði Angjelin hafi haft skammbyssu sína meðferðis að Rauðagerði […] ásamt hljóðdeyfi en þannig hafi byssan verið ríflega 40 cm að lengd. Þar segir jafnframt að framburður ákærða Shpetim um að hann hafi ekki orðið vopnsins var þrátt fyrir að ákærði Angjelin legði byssuna með áföstum hljóðdeyfi á gólfið við fætur sínar í bifreiðinni sé afar ótrúverðugur. Samkvæmt framburði ákærða Angjelin fyrir héraðsdómi og í skýrslu hjá lögreglu var hann með byssuna í hliðartösku þegar hann ók að heimili brotaþola við Rauðagerði og steig út úr bifreiðinni. Fyrir utan heimili brotaþola hefði hann skrúfað hljóðdeyfinn á byssuna en lagt hana á gólf bifreiðarinnar við fætur sér eftir að hafa banað brotaþola. Fyrir dómi kvaðst ákærði Shpetim hafa sótt umrædda tösku í Borgarnes að kvöldi 12. febrúar ásamt ákærðu Claudiu, geymt hana um nóttina að beiðni ákærða Angjelin og afhent honum kvöldið eftir. Hann kvaðst oft hafa séð ákærða Angjelin með byssuna í hendi. Hann kvaðst ekki hafa séð töskuna á leiðinni að Rauðagerði um kvöldið en ákærði Angjelin hefði alltaf verið með hana undir úlpunni. Ákærði Shpetim bar í skýrslu hjá lögreglu 20. febrúar 2021 að ákærði Angjelin hefði tekið umrædda tösku að kvöldi 13. febrúar og sett hana í bifreiðina. Hann hefði séð töskuna en ekki byssuna. Ákærða Claudia bar fyrir dómi að ákærði Angjelin hefði yfirleitt verið með skammbyssuna í hliðartöskunni og stundum hefði hún séð hann með byssuna heima hjá honum. Hún kvaðst ekki hafa vitað hvað hefði verið í hliðartöskunni þegar þau Shpetim tóku hana með sér til Reykjavíkur en hún hefði fundið að innihaldi hennar var hart viðkomu og svolítið þungt. Í skýrslu hjá lögreglu kvaðst hún í það sinn hafa gripið um eitthvað kringlótt í töskunni sem gæti hafa verið hljóðdeyfir. Af framburði ákærðu Angjelin, Claudiu og Shpetim fyrir dómi og hjá lögreglu verður ekki annað ráðið en að umrædd ályktun Landsréttar um ótrúverðugan framburð ákærða Shpetim hafi verið byggð á traustum grunni enda þótt lagt sé til grundvallar að ákærði Angjelin hafi ekki lagt byssuna á gólfið í bifreiðinni fyrr en eftir verknaðinn. Engir ágallar eru á aðferð Landsréttar við sönnunarmat að þessu leyti.
58. Í lið 103 í hinum áfrýjaða dómi er vísað til þess að í þriðju skýrslu ákærða Shpetim hjá lögreglu hafi hann greint frá því að „meðákærði, Angjelin, hafi ætlað að hitta á [brotaþola] á laugardagskvöldinu til að reyna að sættast við hann“. Í skýrslunni var haft eftir ákærða Shpetim um atburði í Rauðagerði að kvöldi 13. febrúar 2021: „[Ég] hélt að Angjelin fór bara að hitta hann sko, þess vegna ég fór eftir bílnum þegar ég sá ljósið, ég hélt að Angjelin væri að hitta hann sko.“ Augljóst er af samhenginu að hann átti við brotaþola. Tilvísun í framburð ákærða Shpetim í dóminum er rétt hvað það varðar að hann bar um vitneskju sína um að ákærði Angjelin ætlaði að hitta brotaþola en er að öðru leyti ónákvæm. Í skýrslutöku í héraði kvaðst hann ekki hafa vitað hvers vegna ákærði Angjelin vildi fara að Rauðagerði en hann hafi sagst vera að hitta félaga sinn. Hann kvaðst ekki hafa þekkt hús brotaþola í Rauðagerði. Í lið 108 í hinum áfrýjaða dómi er að finna niðurstöður Landsréttar meðal annars um hvað teldist sannað um vitneskju ákærða Shpetim um tilgang ferðar hans og ákærða Angjelin að heimili brotaþola umrætt kvöld. Þar er komist að þeirri niðurstöðu að staðhæfing Shpetim um að hann hafi ekki vitað að hann væri nærri heimili brotaþola fengi ekki staðist þar sem hann hefði í það minnsta í tvígang áður komið að heimili hans. Í framhaldinu segir að ákærði Angjelin hafi borið fyrir dómi að ákærði Shpetim „hafi vitað að hann ætlaði að hitta á [A] einan í Rauðagerði þetta kvöld“. Þarna virðist Landsréttur vera að vísa til eftirfarandi orða í skýrslu ákærða Angjelin fyrir héraðsdómi þegar borið var undir hann efni síðustu skýrslu hans hjá lögreglu: „Sheptim vissi að ég ætlaði að hitta [A] hérna þegar ég fór þarna í Rauðagerði og við vorum að skipta um sæti en hérna ég hélt að þegar búnir að biðja Murat um að sýna Claudiu bílinn hans [A] ég hélt að hann myndi skilja það líka.“ Auk þess kvaðst hann hafa sagt ákærðu Shpetim og Murat að hann myndi vilja hitta brotaþola og reyna að sættast við hann. Landsréttur virðist hafa dregið þá ályktun af samhengi í framburðinum að ákærði Angjelin hafi sagt þeim að hann ætlaði að hitta brotaþola um kvöldið áður en hann færi norður í Skagafjörð. Þessi tilvitnun í hinum áfrýjaða dómi til framburðar ákærða Angjelin er í aðalatriðum í samræmi við framburð hans fyrir héraðsdómi en þó ekki fyllilega nákvæm. Sönnunarmat Landsréttar í þessum þætti málsins byggist samkvæmt framansögðu bæði á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi og samanburði við fyrri skýrslur tveggja ákærðu hjá lögreglu og sýnileg sönnunargögn. Ekki eru þeir ágallar á sönnunarmatinu að þessu leyti sem máli geta skipt við hið heildstæða sönnunarmat sem niðurstaða Landsréttar er reist á.
59. Samkvæmt öllu framansögðu er ekkert fram komið í málinu um að þeir annmarkar séu á aðferð Landsréttar við mat á sönnun um háttsemi ákærðu og huglæga afstöðu þeirra að leitt geti til ómerkingar hins áfrýjaða dóms.
6) Um ómerkingu hins áfrýjaða dóms
60. Samkvæmt öllu framansögðu var rannsókn málsins hjá lögreglu, málsmeðferðin fyrir Landsrétti og aðferð við sönnunarmat í hinum áfrýjaða dómi í samræmi við ákvæði laga nr. 88/2008 og ekki var brotið gegn rétti ákærðu til milliliðalausrar sönnunarfærslu sem er þáttur í réttinum til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. og d-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ekki er því tilefni til ómerkingar hins áfrýjaða dóms
Niðurstaða um efnishlið málsins
61. Hér á eftir verður í fyrsta lagi fjallað almennt um heimildir Hæstaréttar til endurskoðunar á efnishlið sakamáls. Þá verður rakið í stuttu máli með hvaða hætti háttsemi ákærðu hvers fyrir sig, eins og henni er lýst í ákæru, var talin sönnuð í hinum áfrýjaða dómi og hvort það sönnunarmat verði endurskoðað fyrir Hæstarétti. Þar á eftir verður fjallað um hvernig ásetningur ákærðu til að svipta í sameiningu brotaþola lífi var talinn sannaður í hinum áfrýjaða dómi. Að því loknu verður komist að niðurstöðu um með hvaða hætti sönnuð háttsemi ákærðu verði heimfærð til refsiákvæða með hliðsjón af því hvað telst sannað um hlutræna og hugræna þætti. Loks verður fjallað um ákvörðun refsingar, einkaréttarkröfur og sakarkostnað.
1) Um heimild Hæstaréttar til endurskoðunar á efnisatriðum sakamáls
62. Eins og að framan greinir eru heimild Hæstaréttar til efnislegrar endurskoðunar á áfrýjuðum dómi í sakamáli takmörk sett að því leyti sem niðurstöður dómsins eru byggðar á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar. Á þetta einkum við um endurskoðun á niðurstöðu áfrýjaðs dóms um sönnun um sekt ákærða, hvort heldur sönnun um hlutræna þætti verknaðar eða huglæga afstöðu hans. Það sama á eftir atvikum við um niðurstöðu um heimfærslu háttsemi ákærða til refsiákvæða og ákvörðun refsingar að því leyti sem slíkar niðurstöður eru byggðar á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar. Á hinn bóginn geta niðurstöður um heimfærslu brots til refsiákvæða og ákvörðun refsingar sætt endurskoðun Hæstaréttar vegna annarrar túlkunar réttarins á lögum og dómaframkvæmd. Undir heimfærslu til refsiákvæða í þessum skilningi fellur að ákvarða hvort fleiri en einn maður sem voru þátttakendur í sannaðri refsiverðri háttsemi teljist hafa framið brotið í sameiningu sem aðalmenn eða hvort einhverjir þeirra teljist hafa verið hlutdeildarmenn í skilningi 22. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
2) Um sönnun á þeirri háttsemi sem ákærðu er gefin að sök í ákæru
63. Ákæra í máli þessu er þannig byggð upp að ákærðu er öllum gefið að sök að hafa í félagi staðið saman að því að svipta brotaþola lífi. Þætti hvers og eins í brotinu er í aðalatriðum lýst aðgreint en lýsingin fléttast þó nokkuð saman einkum hvað varðar þætti ákærðu Claudiu og Murat annars vegar og ákærðu Angjelin og Shpetim hins vegar. Ákærði Angjelin hefur að þessu leyti þá sérstöðu að þætti hans eins er lýst sem fullfrömdu manndrápi og hefur hann viðurkennt þann verknað. Önnur ákærðu hafa viðurkennt tiltekna þætti í lýsingu á háttsemi þeirra samkvæmt ákæru en neitað öðrum. Þau hafa öll neitað því að hafa haft vitneskju um að hugur Angjelin stæði til þess að ráða brotaþola af dögum.
64. Ákærðu verða ekki sakfelld fyrir aðra háttsemi en þeim er gefin að sök í ákæru og aðeins fyrir þá þætti í lýsingu á verknaði þeirra sem teljast sannaðir, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008. Í hinum áfrýjaða dómi segir meðal annars að öll ákærðu verði sakfelld samkvæmt ákæru og að háttsemi þeirra hafi þar verið rétt færð til refsiákvæða. Aðrar forsendur dómsins gefa þó tilefni til að skoða hvaða háttsemi ákærðu sem lýst er í ákæru Landsréttur taldi nánar tiltekið sannaða.
65. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi hefur ákærði Angjelin viðurkennt að hafa svipt brotaþola lífi með þeim hætti sem greinir í ákæru og er sú háttsemi hans talin sönnuð í dóminum.
66. Sem fyrr segir er ákærðu Claudiu í ákæru gefið að sök að hafa að beiðni ákærða Murat fylgst með tveimur bifreiðum sem tilheyrðu brotaþola og lagt var í porti við Rauðarárstíg […] og sent fyrir fram ákveðin skilaboð í gegnum samskiptaforritið Messenger til ákærða Shpetim þegar brotaþoli æki þaðan á annarri hvorri bifreiðinni. Í hinum áfrýjaða dómi er talið sannað að ákærða Claudia hafi farið að Rauðarárstíg […] til að fylgjast með bifreiðum sem tengdust brotaþola og að hún hafi sent skilaboð í síma ákærða Shpetim þegar bifreið brotaþola var ekið af stað þaðan um kvöldið. Hins vegar var ekki talið ljóst hvort það var ákærði Angjelin eða Murat sem gaf henni fyrirmæli um að senda skilaboðin. Samkvæmt framangreindu verður að líta svo á að ákærða Claudia hafi verið sakfelld í Landsrétti fyrir þá háttsemi hennar sjálfrar sem lýst er í ákæru.
67. Ákærða Murat er í ákæru gefið að sök að hafa sýnt ákærðu Claudiu tvær bifreiðar sem tilheyrðu brotaþola og lagt var í porti við Rauðarárstíg […] í Reykjavík og gefið henni fyrirmæli um að fylgjast með þeim og senda nánar tiltekin skilaboð til ákærða Shpetim þegar hreyfing yrði á annarri hvorri bifreiðinni. Í hinum áfrýjaða dómi er talið óljóst hvort ákærði Angjelin eða ákærði Murat hafi gefið henni fyrirmæli um að senda umrædd skilaboð. Verður að líta svo á að sök ákærða Murat sé að því leyti ósönnuð enda þótt fyrir liggi að ákærða Claudia sendi Angjelin slík skilaboð í síma ákærða Shpetim þegar brotaþoli ók á brott úr portinu skömmu áður en hann var sviptur lífi. Í hinum áfrýjaða dómi er komist að þeirri niðurstöðu að ákærði Murat hafi gegnt mikilvægu hlutverki við að staðsetja brotaþola og fylgjast með ferðum hans í því skyni að ákærði Angjelin næði fundi hans. Er sú ályktun meðal annars dregin af því að ákærðu Claudia og Murat hafi farið saman að Rauðarárstíg […] umrætt kvöld og þeirri staðreynd að ákærða Claudia fór síðar á staðinn til að fylgjast með bifreiðum sem tengdust brotaþola. Veiti það sterka vísbendingu um að ákærði Murat hafi farið með ákærðu Claudiu til að leiðbeina henni um hvaða bifreiðum hún ætti að fylgjast með. Í hinum áfrýjaða dómi er lýst skýrslum ákærðu Angjelin, Claudiu og Murat hjá lögreglu og fyrir héraðsdómi um samskipti milli þeirra um vöktun bifreiða brotaþola í umræddu porti og hvernig sá framburður breyttist. Landsréttur lagði meðal annars mat á trúverðugleika framburðar þeirra í ljósi annarra sönnunargagna, innra ósamræmis í framburði hvers og eins og ósamræmis þeirra á milli. Sá lítils háttar orðalagsmunur sem er á lýsingu á háttsemi ákærða Murat í ákæru, þar sem notuð eru orðin „sýna“, „gefa fyrirmæli“ og „tilheyra“, og í dómi Landsréttar, þar sem notuð eru orðin „leiðbeina“ og „tengdust“, gefur ekki tilefni til að álykta að ákærði hafi verið sakfelldur fyrir aðra háttsemi en honum var gefin að sök í ákæru að öðru leyti en hvað varðar fyrirmæli til ákærðu Claudiu um sendingu skilaboða.
68. Áður hefur verið gerð grein fyrir hvernig háttsemi ákærða Shpetim er lýst í ákæru. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi hefur hann í aðalatriðum viðurkennt þær athafnir sem þar er lýst og var hann sakfelldur í Landsrétti samkvæmt ákæru.
69. Samkvæmt því sem áður greinir eru ekki þeir ágallar á aðferð Landsréttar við mat á sönnun um háttsemi ákærðu Claudiu, Murat og Shpetim að áhrif hafi á niðurstöðu málsins. Með vísan til alls framangreinds, meginreglu sakamálaréttarfars um milliliðalausa sönnunarfærslu, svo og c-liðar 1. mgr. og 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008, verður ekki hróflað við þeirri niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að ákærðu Claudia, Murat og Shpetim hafi viðhaft þá háttsemi sem lýst var í ákæru að öðru leyti en því að ósannað þótti hver gaf ákærðu Claudiu fyrirmæli um að senda skilaboð í síma ákærða Shpetim þegar brotaþoli legði af stað frá Rauðarárstíg […].
3) Um sönnun fyrir huglægri afstöðu ákærðu Angjelin, Claudiu, Murat og Shpetim til þátttöku í manndrápi
70. Ákvæði 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 áskilja ekki að í ákæru sé lýst huglægri afstöðu ákærða til þess verknaðar sem ákært er fyrir og slík krafa hefur heldur ekki verið gerð í dómaframkvæmd, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 28. apríl 2005 í máli nr. 347/2004. Við úrlausn dómstóla um hvort fram sé komin sönnun um ásetning ákærða til tiltekins brots reynir ekki aðeins á mat á þeirri háttsemi sem tilgreind er í ákæru heldur einnig hvaða ályktanir megi draga um huglæga afstöðu af háttsemi hans og annarra í aðdraganda brots. Er þar meðal annars litið til þátttöku í að skipuleggja og undirbúa brot eða upplýsinga sem hann fékk frá öðrum þar um en jafnframt til vitneskju hans um fyrirætlanir annarra um framkvæmd brots, svo og til háttsemi ákærða og annarra eftir brot. Sönnunarbyrði um huglæga afstöðu ákærða eins og um önnur atriði er varða sekt hans hvílir á ákæruvaldinu samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008. Sjá til dæmis um þetta fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 31/2022.
71. Ákærði Angjelin heldur því sem fyrr segir fram að ásetningur hans til að verða brotaþola að bana hafi ekki vaknað fyrr en á verknaðarstundu. Hann hefur meðal annars borið því við að um sjálfsvörn hafi verið að ræða. Ákærði kveðst nánar tiltekið hafa óttast um líf sitt vegna líflátshótana sem gengið hefðu á milli hans og brotaþola. Að auki hafi hann á verknaðarstað horft inn um glugga á bílskúr brotaþola og séð hann taka haglabyssu úr farangursgeymslu bifreiðar sinnar og setja upp í hillu. Því hafi ákærði tekið upp byssu sína og sett á hana hljóðdeyfi. Fyrir Hæstarétti hefur af hálfu ákærða verið vísað til þess að vegna atburða í aðdraganda skotárásarinnar hafi hann haft réttmæta ástæðu til að óttast um líf sitt. Manndrápið hafi verið örþrifaráð einstaklings sem kominn hafi verið með bakið upp við vegg vegna ógnana manna með tengsl við skipulagða glæpastarfsemi.
72. Í hinum áfrýjaða dómi er því lýst að ekki verði annað ráðið en að ákærði Angjelin hafi komið sér rakleiðis að verki og skotið brotaþola svo til umsvifalaust eftir að hann kom út úr bílskúrnum. Atlagan hafi verið þaulskipulögð en ákærði hafi gengið að brotaþola og skotið hann viðstöðulaust af stuttu færi níu skotum í brjóst og höfuð. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að ásetningur ákærða Angjelin til drápsins hafi verið einbeittur og ekki getað helgast af neyðarvörn. Í hinum áfrýjaða dómi er samkvæmt framansögðu talið sannað að ásetningur ákærða Angjelin til að svipta brotaþola lífi hafi verið einbeittur og af forsendum dómsins er ljóst að Landsréttur taldi sannað að ásetningurinn hefði vaknað eigi síðar en fyrr um kvöldið. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður sú niðurstaða staðfest.
73. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi staðhæfa ákærðu Claudia, Murat og Shpetim öll að þau hafi ekki haft vitneskju um að ákærði Angjelin hafi áformað að hitta brotaþola þetta kvöld, hvað þá að hann hafi ætlað að svipta hann lífi. Meta verður huglæga afstöðu þessara ákærðu hvers um sig til manndrápsins sjálfstætt.
74. Í dóminum er vísað til þess að för ákærðu Angjelin og Shpetim að Rauðagerði rétt fyrir miðnætti, þegar þeir voru undir það búnir að ákærða Claudia léti þá vita hvenær brotaþoli færi frá Rauðarárstíg og áleiðis heim, sé ótvíræð vísbending um að þeir hafi ætlað að veita honum fyrirsát en hætta væri á að hann kæmist inn á heimili sitt áður en ákærði Angjelin næði til hans. Ákærði Angjelin hafi skilið síma sinn og snjallúr eftir norður í landi sem sé skýr vísbending um að hann hafi viljað komast hjá því að síðar yrði unnt að rekja ferðir hans út frá þeim tækjum. Staðhæfing ákærða Shpetim um að hann hafi ekki vitað að hann væri nærri heimili Angjelin fái ekki staðist þar sem hann hafi í það minnsta í tvígang áður komið á heimili hans. Í dóminum er vísað til framburðar ákærða Angjelin fyrir héraðsdómi um að ákærði Shpetim hafi vitað að hann ætlaði að hitta á A einan í Rauðagerði þetta kvöld. Ákærði Angjelin hafi verið með skammbyssu sína meðferðis ásamt hljóðdeyfi. Þá er vísað til þess að miðað við atvik málsins hafi flóttaleið ákærðu norður í Skagafjörð verið fyrir fram ákveðin.
75. Í hinum áfrýjaða dómi er komist að þeirri niðurstöðu um huglæga afstöðu ákærðu Claudiu, Murat og Shpetim að þeim hafi að virtum gögnum málsins hlotið að vera ljóst að langlíklegast væri að ákærði Angjelin hygðist ráða brotaþola af dögum. Þessi ályktun er dregin af fjölmörgum atvikum sem talin eru sönnuð í aðdraganda og kjölfar manndrápsins. Í dóminum er talið sannað að þau hafi öll haft fulla vitneskju um illdeilur ákærða Angjelin og brotaþola sem hafi hafist í lok árs 2020. Jafnframt að þau hafi öll vitað af tilvist skammbyssu sem ákærði Angjelin hafi útvegað sér í janúar 2021 og ekki farið leynt með. Vísað er til upptaka úr öryggismyndavélum sem sýna margvísleg samskipti allra ákærðu kvöldið sem brotaþoli var ráðinn af dögum og er talið sannað að þau hafi varið umtalsverðum tíma saman á heimili ákærða Angjelin það kvöld.
76. Þá var í dóminum talið hafið yfir vafa að ákærðu Murat og Shpetim hefðu farið að Rauðagerði […] fyrr um kvöldið til að kanna hvort brotaþoli væri heima og haft viðkomu á Rauðarárstíg […] til að athuga hvort brotaþoli væri þar staddur. Þá var talið að ákærðu Claudiu hefði ekki getað dulist að tilgangurinn með varðstöðu hennar við Rauðarárstíg […] væri að láta ákærða Angjelin vita hvenær brotaþoli færi af staðnum. Hvað varðar huglæga afstöðu ákærða Murat sérstaklega var talið sannað að honum hefði verið kunnugt um að ákærði Angjelin hefði í hyggju að nálgast brotaþola einan vegna hótana hans í garð ákærða Angjelin og einnig um að mikilvægt væri að vinir brotaþola væru ekki með honum í för þar sem þá kynni að fara illa. Þannig var talið sannað að ákærðu Claudia og Murat hefðu fylgst með ferðum brotaþola til að unnt væri að láta ákærða Angjelin vita hvenær brotaþola væri að vænta í Rauðagerði. Þeim hafi báðum verið kunnugt um líflátshótanir brotaþola í garð ákærða Angjelin og fjölskyldu hans og að ákærði óttaðist um líf sitt og sonar síns. Einnig hafi þeim verið þeim kunnugt um að ákærði Angjelin hafði, í kjölfar þess að honum fóru að berast hótanir frá brotaþola og félögum, útvegað sér skammbyssu með hljóðdeyfi sem hann hefði haft með sér í hliðartösku laugardagskvöldið 13. febrúar 2021. Vísað er til þess að ákærðu Claudia og Shpetim hafi daginn áður tekið við töskunni í Borgarnesi, flutt hana að beiðni ákærða Angjelin til Reykjavíkur þar sem þau hafi afhent honum töskuna nokkru áður en hann lét til skarar skríða. Loks er vísað til þess að ákærða Claudia hafi beðið ein á heimili ákærða Angjelin fram yfir miðnætti og ákærði Murat hafi sent henni skilaboð og beðið hana að bíða. Eftir að hringt hafi verið í hana úr síma Shpetim hafi hún haldið af stað norður í land. Þá er í dóminum gerð grein fyrir ferðum ákærðu Angjelin, Claudiu og Shpetim norður í land í kjölfar manndrápsins svo og þætti ákærðu Claudiu og Murat í að skila bifreiðinni sem ákærðu Angjelin og Shpetim óku til og frá brotavettvangi.
77. Jafnframt var litið til þess í hinum áfrýjaða dómi að ákærðu hefðu breytt frásögnum sínum hjá lögreglu eftir því sem frekari rannsóknargögn sem þóttu fara gegn fyrri framburði þeirra voru borin undir þau. Þannig hafi ákærðu í ríkum mæli leitast við að laga framburð að nýjum gögnum lögreglu. Þá hafi verulegt innra ósamræmi verið í framburði þeirra. Vegna reikuls framburðar ákærðu þóttu þau öll ótrúverðug.
78. Samkvæmt framansögðu er niðurstaða Landsréttar um huglæga afstöðu ákærðu Claudiu, Murat og Shpetim til manndrápsins reist á niðurstöðum réttarins um hvað teldist sannað um fjölmarga þætti í háttsemi hvers þeirra um sig í aðdraganda og kjölfar þess að brotaþola var ráðinn bani og ályktunum sem dregnar voru af þessum atvikum. Þetta sönnunarmat í hinum áfrýjaða dómi er að stórum hluta byggt á mati á sönnunargildi framburðar ákærðu. Með vísan til alls framangreinds, meginreglunnar um milliliðalausa sönnunarfærslu, svo og c-liðar 1. mgr. og 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008, verður ekki hróflað við þeirri niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um þá huglægu afstöðu þessara ákærðu að þeim hafi hlotið að vera ljóst að langlíklegast væri að ákærði Angjelin hygðist ráða brotaþola af dögum.
4) Um heimfærslu háttsemi ákærðu til refsiákvæða
79. Að því leyti sem sú háttsemi ákærðu sem lýst er í ákæru telst sönnuð samkvæmt framansögðu þarf að taka afstöðu til þess hvort hún uppfyllir hlutrænt séð skilyrði þess að verða heimfærð undir það refsiákvæði sem ákært er vegna eða mögulega önnur refsiákvæði.
80. Samkvæmt framansögðu svipti ákærði Angjelin brotaþola lífi og varðar brotið við 211. gr. almennra hegningarlaga
81. Niðurstaða Landsréttar var að þátttaka ákærðu Claudiu, Murat og Shpetim í skipulagningu og undirbúningi manndrápsins og huglæg afstaða þeirra hefði verið slík að þau hefðu átt verkskipta aðild að því að brotaþoli var ráðinn af dögum og um samverknað þeirra og ákærða Angjelin hefði verið að ræða.
82. Efni eru til að taka afstöðu til þess, innan þeirra heimilda sem rétturinn hefur til endurskoðunar á heimfærslu brots ákærðu til refsiákvæða, hvort sú háttsemi ákærðu Claudiu, Murat og Shpetim sem Landsréttur taldi sannaða teljist fela í sér verkskipta aðild þeirra að brotinu og þar með samverknað þeirra og ákærða Angjelin eins og komist var að í hinum áfrýjaða dómi. Leiði slík endurskoðun til þess að skilyrði samverknaðar teljist ekki fyrir hendi þarf jafnframt að taka afstöðu til þess hvort sönnuð háttsemi ákærðu sé slík þátttaka í manndrápi að uppfylli skilyrði hlutdeildar. Kemur þá einnig til athugunar hvort unnt sé að leggja niðurstöðu Landsréttar um sönnun fyrir huglægri afstöðu þessara ákærðu til samverknaðar til grundvallar niðurstöðu um huglæga afstöðu þeirra til hlutdeildar í manndrápi.
83. Af hálfu ákærðu Claudiu, Murat og Shpetim hefur því verið mótmælt að unnt sé að sakfella þau fyrir hlutdeildarbrot þar sem ákæra í málinu hafi ekki lotið að hlutdeild og slík heimfærsla komi ekki til álita við meðferð málsins fyrir Hæstarétti, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008.
84. Af hálfu ákæruvalds er á því byggt í greinargerð til Hæstaréttar að hafni rétturinn því að skilyrði samverknaðar séu fyrir hendi sé allt að einu unnt að sakfella ákærðu Claudiu, Murat og Shpetim fyrir hlutdeild í manndrápi þótt þess hafi ekki verið krafist sérstaklega í ákæru. Því er auk þess haldið fram að af hálfu ákæruvaldsins hafi bæði við málflutning í héraði og fyrir Landsrétti verið fjallað um að sakfella bæri þau fyrir hlutdeild yrði ekki fallist á að um samverknað hefði verið að ræða.
85. Hvorki er bókað um það í þingbók héraðsdóms né Landsréttar að málið hafi verið reifað þar með tilliti til hlutdeildar. Í greinargerð ákærða Shpetim kemur á hinn bóginn fram að við flutning málsins í Landsrétti hafi það verið reifað stuttlega af ákæruvaldsins hálfu með tilliti til hlutdeildar en ekki fyrir héraðsdómi. Er því lagt til grundvallar að málið hafi verið flutt af hálfu ákæruvaldsins fyrir Landsrétti með tilliti til hlutdeildar.
86. Verjendum ákærðu var tilkynnt í aðdraganda munnlegs flutnings málsins fyrir Hæstarétti að þeim yrði gefið færi á að tjá sig um heimfærslu á ætlaðri refsiverðri háttsemi ákærðu samkvæmt ákæru til refsiákvæða. Væri þá sérstaklega haft í huga það álitaefni hvort ætluð háttsemi ákærðu yrði felld undir samverknað þeirra allra eða hvort þáttur Claudiu, Murat og Shpetim teldist hlutdeildarbrot. Var málið flutt fyrir Hæstarétti með tilliti til hlutdeildar.
87. Í almennum hegningarlögum er ekki að finna skilgreiningu á samverknaði. Í 2. mgr. 70. gr. laganna er hins vegar mælt fyrir um að hafi fleiri menn en einn unnið verk í sameiningu skuli að jafnaði taka það til greina til þyngingar refsingunni. Þá eru dæmi þess í lögunum að kveðið sé á um hærri lágmarksrefsingu við broti ef það er framið af mörgum í sameiningu, svo sem við þjófnaði samkvæmt 2. mgr. 244. gr. laganna. Það hefur verið talinn samverknaður um refsiverða háttsemi þegar tveir eða fleiri hafa komið sér saman um og skipulagt eða framkvæmt verknað í félagi. Að jafnaði er gengið út frá því að þeir þurfi að standa nokkurn veginn jafnt að vígi um ákvörðun og framkvæmd verknaðarins. Ekki hefur verið talið skilyrði að samverkamenn taki allir þátt í sjálfri framkvæmd verknaðarins eða öllum þáttum hans og getur sá talist aðalmaður sem leggur á ráðin um verknað en felur öðrum að framkvæma hann að hluta eða öllu leyti. Þá getur verkskipt þátttaka fleiri en eins í broti talist samverknaður þótt einhverjir þeirra hafi ekki komið að skipulagningu eða undirbúningi.
88. Til þess að um samverknað í formi verkskiptrar þátttöku í refsiverðri háttsemi sé að ræða þarf þátttaka hvers samverkamanns um sig annaðhvort að felast í afmörkuðum þætti við framkvæmd brots eins og því er lýst í verknaðarlýsingu refsiákvæðis eða skipulagningu þess. svo sem að leggja á ráðin um brotið eða gefa fyrirmæli til annarra um framkvæmd þess. Um þetta vitna fjölmargir dómar Hæstaréttar um innflutning manna á fíkniefnum í sameiningu þar sem hver og einn gegnir afmörkuðu hlutverki í að skipuleggja innflutning, kaupa fíkniefni, flytja þau til landsins og taka á móti þeim.
89. Af dómaframkvæmd verður einnig ráðið að íslenskir dómstólar hafa gert talsvert strangar kröfur til þess að aðrir en þeir sem beinlínis taka þátt í sjálfri framkvæmd refsiverðs verknaðar eins og honum er lýst í refsiákvæði teljist aðalmenn í broti og þar með samverkamenn. Sjá um þetta til dæmis dóma Hæstaréttar 15. febrúar 1985, sem birtur var í dómasafni réttarins árið 1985 á bls. 150, og 2. apríl 1998, sem birtur var í dómasafni réttarins árið 1998 á bls. 1503, en í því máli voru tveir menn ákærðir meðal annars fyrir manndráp í félagi, annar þeirra dæmdur sem aðalmaður en hinn sem hlutdeildarmaður í því broti. Þó er ljóst samkvæmt framansögðu að sá sem skipuleggur brot eða leggur á ráðin um það einn eða ásamt fleirum en felur öðrum framkvæmd þess getur talist aðalmaður í broti.
90. Samkvæmt því sem Landsréttur taldi sannað gegndu ákærðu Claudia og Murat hvort um sig því tiltekna, afmarkaða hlutverki í aðdraganda manndrápsins sem nánar er lýst í ákæru, að sjá til þess að ákærði Angjelin fengi upplýsingar um hvenær brotaþoli legði af stað heim til sín að kvöldi 13. febrúar 2021 en ákærði Angjelin hafði þá í hyggju að sitja fyrir brotaþola þegar hann kæmi þangað einn síns liðs. Ákærði Shpetim gegndi aftur á móti því hlutverki í aðdraganda manndrápsins, sem lýst er nánar í ákæru, að aka með ákærða Angjelin að heimili brotaþola, taka þar við akstri bifreiðar og bíða eftir honum í grenndinni meðan hann svipti brotaþola lífi.
91. Ákærðu er sem fyrr segir öllum gefið að sök að hafa staðið saman að því að svipta brotaþola lífi. Þátttöku þeirra Claudiu, Murat og Shpetim er hins vegar ekki lýst sérstaklega á þann hátt í ákæru að þau hafi í sameiningu skipulagt verknaðinn eða lagt á ráðin um hann. Samkvæmt framansögðu voru ákærðu Claudia, Murat og Shpetim engu að síður þátttakendur í afmörkuðum þáttum atburðarásar sem lyktaði með því að ákærði Angjelin svipti brotaþola lífi. Þessi þátttaka þeirra tók eingöngu til undirbúningsathafna en ekki verknaðarins sjálfs.
92. Í dómi Landsréttar segir að með þátttöku í skipulagningu og öðrum undirbúningi þess að ákærði Angjelin gæti hitt brotaþola einan fyrir utan heimili hans sé „samkvæmt öllu framansögðu talið hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hafi átt verkskipta aðild að því að [brotaþoli] var ráðinn af dögum og um samverknað allra ákærðu hafi verið að ræða“. Í dóminum er vísað til sönnunargagna sem sýna með óyggjandi hætti margháttuð samskipti allra ákærðu umrætt kvöld. Það sem í dóminum er talið sannað um aðdraganda manndrápsins lýtur þó fyrst og fremst að undirbúningsathöfnum ákærða Angjelin sem fólust í að útvega sér byssu með hljóðdeyfi og fela öðrum ákærðu að fylgjast með ferðum brotaþola.
93. Af því sem Landsréttur taldi sannað um þessi samskipti, þar á meðal á grundvelli mats á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærðu, verður lagt til grundvallar að ákærði Angjelin hafi í aðalatriðum skipulagt og undirbúið verknaðinn en falið ákærðu Claudiu, Murat og Shpetim þær afmörkuðu undirbúningsathafnir og þá liðveislu sem hann taldi sig þurfa á að halda. Af dómi Landsréttar verður ekki ráðið að ákærðu Claudia, Murat og Shpetim annars vegar og ákærði Angjelin hins vegar hafi staðið jafnt að vígi þegar litið er heildstætt á skipulagningu og framkvæmd manndrápsins.
94. Við mat á því hvort ákærðu hafi með þætti sínum í undirbúningi manndrápsins gerst sek um að vera aðalmenn í brotinu ber jafnframt að líta til þess að sönnunarbyrði um það eins og önnur atriði sem eru ákærða í óhag hvílir á ákæruvaldinu samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 og skynsamlegan vafa þar um ber að skýra ákærða í hag, sbr. 1. mgr. 109. gr. sömu laga.
95. Sú þátttaka ákærðu Claudiu, Murat og Shpetim í manndrápi sem lýst er í ákæru og það sem Landsréttur taldi sannað um þátt þeirra í skipulagningu og öðrum undirbúningi að því að ákærði Angjelin gæti hitt brotaþola einan fyrir utan heimili hans fullnægir ekki þeim kröfum sem samkvæmt framansögðu verður að gera til þess að þau teljist hlutrænt séð hafa verið aðalmenn í manndrápi á grundvelli verkskiptrar þátttöku.
96. Eins og fyrr segir var málið flutt fyrir Landsrétti og Hæstarétti með hliðsjón af því að háttsemi ákærðu Claudiu, Murat og Shpetim gæti talist hlutdeild í broti gegn 211. gr. almennra hegningarlaga. Enda þótt háttsemi þeirra hafi í ákæru ekki verið heimfærð til 211. gr., sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga, er með vísan til 1. mgr. 180. gr., sbr. 227. gr. laga nr. 88/2008, unnt að dæma eftir ákvæðinu um hlutdeild í málinu fyrir Hæstarétti um þá háttsemi þeirra sem lýst er í ákæru. Sjá til hliðsjónar fyrrnefndan dóm Hæstaréttar 2. apríl 1998, sem birtur var í dómasafni réttarins 1998 á bls. 1503, og dóm 25. nóvember 1999 í máli nr. 292/1999.
97. Í 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga er almennt ákvæði um hlutdeild í brotum samkvæmt ákvæðum laganna, öðrum en þeim sem hafa að geyma sérstakar hlutdeildarheimildir. Samkvæmt ákvæðinu verður sá talinn hlutdeildarmaður sem „með liðsinni í orði eða verki, fortölum, hvatningum eða á annan hátt á þátt í því, að brot samkvæmt lögum þessum er framið”. Í 2. mgr. sömu greinar er að finna frjálsar heimildir til refsilækkunar hlutdeildarmanns gefi aðstæður eða atvik tilefni til, svo sem ef þátttaka hans í broti er smávægileg eða fólgin í því að styrkja áform annars manns sem áður er til orðið eða fyrirhuguð þátttaka hefur misheppnast.
98. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að almennum hegningarlögum segir að í 1. mgr. 22. gr. sé gert ráð fyrir sem almennri reglu að þegar fleiri en einn maður vinni saman að framkvæmd brots skuli sök hvers um sig metin sjálfstætt eftir afstöðu hvers um sig til brotsins eða tilraunar til þess. Þá geti refsing hvers þátttakanda um sig orðið misjöfn eftir atvikum.
99. Eins og að framan greinir er hlutdeild samkvæmt 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga fólgin í þátttöku manns í afbroti sem lýst er annars staðar í þeim lögum og ræðst hún eðli málsins samkvæmt talsvert af verknaðarlýsingu þess afbrots og fullframningarstigi. Hlutdeildarbrot er sjálfstætt brot þótt ekki sé tilgreint með tæmandi hætti í 1. mgr. 22. gr. hvaða háttsemi beri að fella undir ákvæðið heldur eru þess í stað nefnd nokkur dæmi um hana. Þá kunna atvik að vera með þeim hætti að sakfellt verði fyrir hlutdeildarverknað óháð refsiábyrgð aðalmanns en ásetningur til hlutdeildar verður að öllu jöfnu að standa til þess að brotið verði fullframið þrátt fyrir að atbeini hlutdeildarmanns lúti einungis að undirbúningi þess.
100. Hlutdeildarákvæði 22. gr. almennra hegningarlaga fela í sér rýmkaða refsiábyrgð þannig að háttsemi sem fellur undir hlutdeild getur náð út fyrir verknaðarlýsingu þess refsiákvæðis sem frumbrotið er heimfært undir svo og til þeirra sem standa utan við þá atburðarás sem sú verknaðarlýsing tekur til. Af orðalaginu „eða á annan hátt á þátt í því, að brot samkvæmt lögum þessum er framið“ í 1. mgr. greinarinnar er ljóst að ákvæðið hefur ekki að geyma tæmandi talningu á háttsemi sem getur falið í sér refsiverða hlutdeild í broti. Hlutdeild getur jafnvel falist í þátttöku sem ekki er skaðleg eða hættuleg í sjálfu sér en tengist refsinæmum aðalverknaði og verður refsiábyrgð fyrir hlutdeild ákvörðuð sjálfstætt. Hlutdeildarbrot þarf heldur ekki að vera afgerandi þáttur í því að refsiverður verknaður er framinn heldur getur nægt að hlutdeildarmaður styrki áform annars manns sem áður eru til orðin, sbr. 2. mgr. 22. gr. Af orðalagi 22. gr. almennra hegningarlaga er ljóst að jafnvel lítils háttar þátttaka í skipulagningu brots eða liðveisla við undirbúning þess getur uppfyllt hlutræn skilyrði þess að teljast hlutdeild í brotin. Ekki er hins vegar skilyrði að þátttakan hafi ráðið úrslitum um eða haft áhrif á að brotið var framið. Þannig er lýsing 1. mgr. 22. gr. víðtæk um þá háttsemi sem fallið getur undir ákvæðið. Má um þetta vísa til dóma Hæstaréttar 12. desember 2002 í máli nr. 328/2002, 24. janúar 2008 í máli nr. 354/2007 og 1. október 2020 í máli nr. 15/2020.
101. Hafa ber sérstaklega í huga að hlutdeildarreglur hafa meðal annars verið taldar gegna því hlutverki að treysta varnaðaráhrif refsiákvæða og refsivörslukerfisins í heild og á þetta sérstaklega við um þátttöku manna í alvarlegri refsiverðri háttsemi.
102. Við mat á því hvort þáttur hvers ákærðu Claudiu, Murat og Shpetim um sig í undirbúningi þess að brotaþoli var ráðinn af dögum uppfylli hlutrænt séð skilyrði um að teljast hlutdeild í manndrápi er óhjákvæmilegt að byggja á því sem samkvæmt framansögðu var talið sannað um háttsemi þeirra í hinum áfrýjaða dómi en það sönnunarmat sætir sem fyrr segir ekki endurskoðun fyrir Hæstarétti.
103. Þáttur ákærðu Claudiu í undirbúningi þess að ákærði Angjelin réði brotaþola bana var talinn felast í því að taka við fyrirmælum frá öðrum ákærðu um að standa vörð um bifreiðar sem tilheyrðu brotaþola og láta ákærða Angjelin vita þegar brotaþoli legði af stað heim til sín á annarri hvorri bifreiðinni. Sannað þótti að tilgangurinn með varðstöðu ákærðu Claudiu og skilaboðum sem hún sendi ákærða Angjelin hafi verið að tryggja að fyrirsát hans fyrir utan heimili brotaþola heppnaðist. Þótt þessi þáttur ákærðu Claudiu í þeirri atburðarás sem leiddi til þess að brotaþoli var ráðinn af dögum hafi ekki verið stór í samanburði við þátt ákærða Angjelin var hann liður í að ráðagerð hans næði fram að ganga. Í þessum þætti ákærðu Claudiu fólst þannig aðstoð við undirbúning verknaðarins sem telst hlutrænt séð vera hlutdeild í manndrápi.
104. Þáttur ákærða Murat í undirbúningi þess að ákærði Angjelin réði brotaþola bana var í hinum áfrýjaða dómi talinn felast í að hann hefði, með þeirri háttsemi sem lýst er í ákæru og laut að því að leiðbeina ákærðu Claudiu um hvaða bifreiðum hún ætti að fylgjast með gegnt mikilvægu hlutverki í að staðsetja brotaþola og fylgjast með ferðum hans í því skyni að ákærði Angjelin næði fundi hans. Þótt þessi þáttur ákærða Murat í þeirri atburðarás sem leiddi til þess að brotaþoli var ráðinn af dögum hafi ekki verið stór í samanburði við þátt ákærða Angjelin var hann liður í að ráðagerð ákærða næði fram að ganga. Í þætti ákærða Murat fólst þannig þátttaka í skipulagningu á undirbúningi verknaðarins og jafnframt aðstoð við þann undirbúning. Þátttaka ákærða Murat telst þannig hlutrænt séð vera hlutdeild í manndrápi.
105. Þáttur ákærða Shpetim í undirbúningi þess að ákærði Angjelin réði brotaþola bana var í hinum áfrýjaða dómi talinn felast í því að aka með honum á vettvang manndrápsins, taka þar við stjórn bifreiðarinnar og bíða eftir ákærða Angjelin nærri vettvangi meðan hann sat fyrir og svipti brotaþola lífi. Eftir það tók ákærði Shpetim ákærða Angjelin upp í bifreiðina og ók með honum norður í land. Í þessari aðstoð ákærða Shpetim við ákærða Angjelin í aðdraganda manndrápsins og meðan á því stóð fólst umtalsverð þátttaka í undirbúningi verknaðarins sem telst hlutrænt séð vera hlutdeild í manndrápi.
106. Skilyrði þess að maður verði dæmdur fyrir hlutdeild í broti þar sem ásetnings er krafist er að ásetningur hans standi til allra efnisþátta verknaðar eins og honum er lýst fullfrömdum í verknaðarlýsingu refsiákvæðis enda þótt þátttaka hans einskorðist við tiltekna þætti í skipulagningu eða öðrum undirbúningi. Öll stig ásetnings koma þar til álita.
107. Samkvæmt framansögðu komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að ákærðu Claudia, Murat og Shpetim hefði hlotið að vera ljóst að langlíklegast væri að ákærði Angjelin hygðist ráða brotaþola af dögum. Sú niðurstaða var reist á því sem rétturinn taldi sannað um fjölmarga þætti í háttsemi hvers þeirra um sig í aðdraganda og kjölfar þess að brotaþola var ráðinn bani og ályktunum sem dregnar voru af þessum atvikum. Þessi niðurstaða um huglæga afstöðu ákærðu er að stórum hluta byggð á mati á sönnunargildi framburðar þeirra fyrir dómi. Landsréttur taldi þannig sannað að ásetningur þessara ákærðu hefði staðið til þess að brotaþoli yrði sviptur lífi. Með vísan til alls framangreinds, meginreglunnar um milliliðalausa sönnunarfærslu svo og c-liðar 1. mgr. og 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 verður ekki hróflað við þeirri niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að þessi ákærðu hafi haft ásetning til fullframins manndráps. Samkvæmt því og með hliðsjón af eðli hlutdeildarbrots og þeirra krafna sem gerðar verða um sönnun fyrir ásetningi til hlutdeildar verður lagt til grundvallar að ásetningur þeirra hafi staðið til hlutdeildar í manndrápi.
5) Um ákvörðun refsingar og upptöku
108. Refsing ákærða Angjelin var í hinum áfrýjaða dómi ákveðin 20 ára fangelsi. Í 1. mgr. 34. gr. almennra hegningarlaga segir að í fangelsi megi dæma menn ævilangt eða í tiltekinn tíma, ekki skemur en 30 daga og ekki lengur en 16 ár. Í 79. gr. almennra hegningarlaga segir að heimili lög aukna refsingu við broti skuli takmörk þau sem sett eru í 34. gr. ekki vera því til fyrirstöðu að dæma megi í fangelsi allt að 20 árum. Ákvæðið hefur verið skýrt þannig að orðin „Nú heimila lög aukna refsingu við broti“ eigi aðeins við um lagaákvæði sem heimila refsingu umfram almenn refsimörk og eftir atvikum sérrefsimörk einstakra hegningarlagaákvæða. Sem dæmi um slíkar refsihækkunarheimildir í almennum hegningarlögum má nefna 73. gr. um tiltekin brot fanga, 77. gr. um brotasamsteypu, 94. gr. um tiltekna verknaði sem beint er að þjóðhöfðingja erlends ríkis eða sendimönnum þess hér á landi og 101. gr. um verknaði sem hafðir eru í frammi við forsetann eða þann sem hefur forsetavald á hendi. Í málinu reynir ekki á beitingu slíkra heimilda. Þótt mögulegt sé samkvæmt 211. gr. almennra hegningarlaga og nokkrum öðrum ákvæðum laganna að dæma mann til ævilangrar fangelsisrefsingar fyrir einstakt brot verða slík refsifyrirmæli ekki ein og sér talin fela í sér heimild til að ákveða þyngri tímabundna refsingu en 16 ára fangelsi.
109. Samkvæmt framansögðu ber að túlka 1. mgr. 34. gr. og 79. gr. almennra hegningarlaga þannig saman að komi ekki til sérstök refsihækkunarheimild í lögum heimili 79. gr. ekki að tímabundin refsing fyrir manndráp sé ákveðin þyngri en 16 ára fangelsi. Þeim ákvæðum 70. gr. laganna sem vísað var til í hinum áfrýjaða dómi verður samkvæmt því eingöngu beitt til þyngingar refsingar innan almennra refsimarka sem broti eru sett eða eftir atvikum sérrefsimarka en ákvæðin teljast ekki til þeirra heimilda sem vísað er til í 79. gr. þeirra.
110. Þar sem ákærði Angjelin er í máli þessu sakfelldur fyrir eitt manndráp og ekki önnur brot skortir að lögum heimild til að dæma hann til þyngri tímabundinnar refsingar en mælt er fyrir um í 211. gr. almennra hegningarlaga. Þá eru ekki skilyrði til að ákveða honum refsingu með vísan til 2. mgr. 70. gr. laganna þar sem brot annarra ákærðu voru hlutdeildarbrot.
111. Fyrir Hæstarétti hefur ákærði Angjelin vísað til þess að í 2. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga sé kveðið á um að ef farið er út fyrir takmörk leyfilegrar neyðarvarnar af þeirri ástæðu að maður hafi orðið svo skelfdur eða forviða að hann hafi ekki getað fullkomlega gætt sín skuli honum ekki refsað. Ákærði telur að sjónarmið að baki þessari refsibrottfallsástæðu eigi við um háttsemi hans en réttara sé þó að beita refsilækkunarheimild 4. töluliðar 1. mgr. 74. gr. laganna. Með vísan til þess sem samkvæmt framansögðu var lagt til grundvallar um háttsemi ákærða Angjelin og ásetning hans til manndrápsins í hinum áfrýjaða dómi er ekkert fram komið sem styður þessa lýsingu. Verður ekki fallist á að refsing hans eigi að falla brott eða lækka af slíkum ástæðum.
112. Með hliðsjón af framangreindu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms um ákvörðun refsingar verður refsing ákærða Angjelin ákveðin 16 ára fangelsi.
113. Refsing ákærðu Claudiu, Murat og Shpetim var í hinum áfrýjaða dómi ákveðin 14 ára fangelsi. Þau eru sakfelld fyrir hlutdeild í manndrápi. Samkvæmt 211. gr. almennra hegningarlaga skal sá sem fremur manndráp sæta fangelsi ekki skemur en fimm ár eða ævilangt. Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laganna skal hlutdeildarmaður í broti sæta þeirri refsingu sem við því er lögð. Við ákvörðun refsingar ákærðu sem hlutdeildarmanna kemur ekki til greina að beita refsiþyngingarástæðu 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga um samverknað.
114. Með vísan til þess sem að framan er rakið telst hlutdeild ákærðu Claudiu í því að brotaþoli var ráðinn af dögum hafa verið smávægileg. Á grundvelli heimildar í 2. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga er því rétt að dæma hana til vægari refsingar en lögmælt er sem lágmarksrefsing við broti gegn 211. gr. laganna. Enda þótt þáttur hennar í undirbúningi manndrápsins hafi verið smávægilegur verður að líta til þess að um hlutdeild í mjög alvarlegu broti var að ræða. Samkvæmt framansögðu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms um refsiákvörðun verður refsing ákærðu Claudiu ákveðin þriggja ára fangelsi.
115. Þáttur ákærða Murat í þeirri atburðarás sem leiddi til þess að brotaþoli var sviptur lífi fólst samkvæmt framansögðu fyrst og fremst í undirbúningsathöfnum sem höfðu þann tilgang að ráðagerð ákærða Angjelin gengi eftir. Hlutdeild hans telst ekki hafa verið meiri en svo að telja verður hana smávægilega. Á grundvelli heimildar í 2. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga er því rétt að dæma hann til vægari refsingar en lögmælt er sem lágmarksrefsing við broti gegn 211. gr. laganna. Enda þótt þáttur hans í undirbúningi manndrápsins hafi verið tiltölulega smávægilegur verður að líta til þess að um hlutdeild í mjög alvarlegu broti var að ræða. Samkvæmt framansögðu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms um refsiákvörðun verður refsing ákærða Murat ákveðin fjögurra ára fangelsi.
116. Samkvæmt framansögðu fólst þátttaka ákærða Shpetim í undirbúningi þess að brotaþoli var ráðinn af dögum í því að aka með ákærða Angjelin á vettvang manndrápsins, taka þar við stjórn bifreiðarinnar og bíða eftir honum nærri vettvangi meðan hann sat fyrir brotaþola og svipti hann lífi. Eftir það tók ákærði Shpetim ákærða Angjelin upp í bifreiðina og ók með honum norður í land. Þátttaka ákærða Shpetim í undirbúningi verknaðarins og fyrirsátinni var þannig í mun nánari tengslum við sjálft manndrápið og talsvert annars eðlis en þátttaka ákærðu Claudiu og Murat. Kemur því ekki til álita að beita 2. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga hvað hann varðar. Þrátt fyrir að í 1. mgr. 22. gr. laganna sé kveðið á um að hlutdeildarmaður í broti skuli sæta þeirri refsingu sem við því er lögð er refsing fyrir hlutdeildarbrot að jafnaði ákveðin talsverð lægri en refsing aðalmanns. Að framangreindu athuguðu og jafnframt með hliðsjón af því að brotið var mjög alvarlegt en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms um refsiákvörðun er refsing ákærða Shpetim ákveðin 10 ára fangelsi.
117. Gæsluvarðhaldsvist ákærðu skal koma til frádráttar refsingu hvers þeirra um sig að fullri dagatölu eins og nánar greinir í dómsorði, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga.
118. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um upptöku á skammbyssu af gerðinni Sig Sauer 1911-22 verður staðfest.
6) Um einkaréttarkröfur
119. Af hálfu ákærða Angjelin hefur bótakröfu B, eiginkonu brotaþola, verið mótmælt. Ákærði telur miskabótakröfuna of háa og kröfur um bætur fyrir missi framfæranda sömuleiðis þar sem ósannað sé að hún hafi verið á framfæri brotaþola. Ætla má að við fráfall brotaþola hafi tekjur heimilis brotaþola og hennar minnkað og því ekki þörf á að hún sýni sérstaklega fram á að hún hafi verið á framfæri hans, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 25. janúar 2018 í máli nr. 347/2016. Með þeirri athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, þar sem vísað er til forsendna héraðsdóms, verður staðfest niðurstaða Landsréttar um greiðslu ákærða Angjelin á bótum til handa henni.
120. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, þar sem vísað er til forsendna héraðsdóms, verður staðfest niðurstaða Landsréttar um greiðslu ákærða Angjelin á bótum til handa C.
121. Af hálfu ákærða Angjelin hefur bótakröfu D verið mótmælt og þess krafist að henni verði vísað frá héraðsdómi. D var ófædd þegar ákærði Angjelin varð föður hennar að bana. Ófæddu barni er samkvæmt óskráðum reglum persónuréttar geymdur réttur til að krefjast bóta vegna missis framfærenda ef það fæðist lifandi og getur eftir atvikum krafist bóta vegna þess miska að alast upp án annars foreldris. Í forsendum hins áfrýjaða dóms er vísað til forsendna héraðsdóms um miskabætur og bætur vegna missis framfæranda til handa D. Í héraði voru henni dæmdar 7.958.520 krónur úr hendi ákærða Angjelin vegna missis framfæranda í samræmi við kröfu hennar en samkvæmt dómsorði í dómi Landsréttar voru henni hins vegar dæmdar sömu bætur og bróður hennar eða 7.376.266 krónur. Mismunur á bótakröfum systkinanna vegna missis framfæranda ræðst af aldursmun þeirra. Með framangreindum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, þar sem vísað er til forsendna héraðsdóms, verður ákærði Angjelin dæmdur til að greiða D 3.000.000 króna í miskabætur og 7.958.520 krónur vegna missis framfæranda eða samtals 10.958.520 krónur með sömu vöxtum og í hinum áfrýjaða dómi.
122. Foreldrar brotaþola, E og F, krefjast hvort um sig miskabóta úr hendi ákærða Angjelin. Hann hefur viðurkennt bótaskyldu gagnvart þeim en krafist lækkunar á kröfum þeirra. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest niðurstaða hans um bótaskyldu ákærða gagnvart E og F en fjárhæð miskabóta verður að virtum aðstæðum ákveðin 2.000.000 króna til hvors um sig. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um vexti af miskabótakröfunum verða staðfest.
123. Gjafsóknarkostnaður allra einkaréttarkröfuhafa fyrir Hæstarétti skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Björgvins Jónssonar, eins og greinir í dómsorði. Við ákvörðun gjafsóknarkostnaðar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts af þóknun lögmanns.
7) Um sakarkostnað
124. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málsvarnarlaun verjenda ákærðu í héraði og fyrir Landsrétti og um útlagðan kostnað þeirra verða staðfest.
125. Fyrir héraðsdómi og Landsrétti voru nafngreindir lögmenn skipaðir réttargæslumenn maka, barna og foreldra brotaþola sem hafa uppi bótakröfur á hendur ákærða Angjelin í málinu. Skilyrðum 41. og 42. gr. laga nr. 88/2008 fyrir skipun réttargæslumanna í héraði og fyrir Landsrétti var hins vegar ekki fullnægt. Þess vegna var heldur ekki fullnægt skilyrði a-liðar 1. mgr. 233. gr. sömu laga til þess að dæma ákærða Angjelin til greiðslu þóknunar lögmannanna með öðrum sakarkostnaði, svo sem gert var í héraðsdómi og í hinum áfrýjaða dómi. Verður því ekki komist hjá því að fella þennan hluta sakarkostnaðar á ríkissjóð, sbr. dóm Hæstaréttar 9. desember 2004 í máli nr. 326/2004. Að öðru leyti verða ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað í héraði og fyrir Landsrétti staðfest.
126. Ákærðu áfrýjuðu dómi Landsréttar til Hæstaréttar. Í ljósi þess að refsing allra ákærðu hefur verið milduð fyrir Hæstarétti verður ákærðu Angjelin og Shpetim, í samræmi við 1. mgr. 238. gr. laga nr. 88/2008, gert að greiða ¾ hluta en ákærðu Claudiu og Murat helming málsvarnarlauna skipaðra verjenda sinna fyrir Hæstarétti sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði. Við ákvörðun málsvarnarlauna verjenda er tekið mið af því hvort þeir hafi jafnframt annast varnir ákærðu á fyrri dómstigum og þess að einn ákærðu játaði brot sitt þegar fyrir héraðsdómi. Ekki er fallist á að til sakarkostnaðar teljist útlagður kostnaður verjanda ákærða Murat við þýðingar á hliðsjónargögnum. Þá greiði ákærðu sameiginlega 5/8 hluta annars áfrýjunarkostnaðar málsins. Að öðru leyti greiðist áfrýjunarkostnaður úr ríkissjóði.
Dómsorð:
Ákærði, Angjelin Sterkaj, sæti fangelsi í 16 ár en til frádráttar refsingu kemur óslitið gæsluvarðhald hans frá 17. febrúar 2021 að telja.
Ákærða, Claudia Sofia Cohelo Carvalho, sæti fangelsi í 3 ár. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhald hennar frá 17. febrúar 2021 til og með 24. mars sama ár og frá 28. október 2022 til dómsuppsögudags.
Ákærði, Murat Selivrada, sæti fangelsi í 4 ár. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhald hans frá 17. febrúar 2021 og til og með 24. mars sama ár og frá 28. október 2022 til dómsuppsögudags.
Ákærði, Shpetim Qerimi, sæti fangelsi í 10 ár. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhald hans frá 20. febrúar 2021 til og með 5. mars sama ár og frá 28. október 2022 til dómsuppsögudags.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um upptöku á skammbyssu af gerðinni Sig Sauer 1911-22 skal vera óraskað.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um greiðslu ákærða Angjelin á einkaréttarkröfu B skal vera óraskað.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um greiðslu ákærða Angjelin á einkaréttarkröfu C skal vera óraskað.
Ákærði Angjelin greiði D 10.958.520 krónur með vöxtum eins og í hinum áfrýjaða dómi.
Ákærði Angjelin greiði E og F hvoru um sig 2.000.000 króna með vöxtum eins og í hinum áfrýjaða dómi.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð að öðru leyti en því að þóknun réttargæslumanns í héraði, 4.164.230 krónur, og réttargæslumanns fyrir Landsrétti, 1.674.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði Angjelin greiði ¾ hluta málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Oddgeirs Einarssonar lögmanns, 1.500.000 krónur.
Ákærða Claudia greiði helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Karls Georgs Sigurbjörnssonar lögmanns, 3.000.000 króna.
Ákærði Murat greiði helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Geirs Gestssonar lögmanns, 2.000.000 króna.
Ákærði Shpetim greiði ¾ hluta málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Guðmundssonar lögmanns, 2.500.000 krónur.
Ákærðu greiði óskipt 5/8 hluta af öðrum áfrýjunarkostnaði eða 656.687 krónur af samtals 1.050.699 krónum.
Áfrýjunarkostnaður greiðist að öðru leyti úr ríkissjóði.
Gjafsóknarkostnaður einkaréttarkröfuhafa, B, C, D, E og F, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Björgvins Jónssonar, samtals 1.200.000 krónur.
Ákærði Angjelin greiði 1.200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.