Hæstiréttur íslands
Mál nr. 21/2024
Lykilorð
- Skattur
- Skattrannsókn
- Endurákvörðun
- Stjórnvaldsákvörðun
- Sönnunargildi dóms
- Sönnunarbyrði
- Ómerking dóms Landsréttar
- Ómerking héraðsdóms
- Heimvísun
- Sératkvæði
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. apríl 2024. Hann krefst sýknu af öllum kröfum stefndu og málskostnaðar á öllum dómstigum.
3. Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Ágreiningsefni
4. Málið lýtur að kröfu stefndu um að felldir verði úr gildi úrskurðir ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar um endurákvörðun opinberra gjalda hennar fyrir gjaldárið 2015. Voru stefndu þar færðar til tekna vantaldar tekjur sem raktar voru til afsals einkahlutafélags á fasteign til hennar án endurgjalds. Með dómi í sakamáli sem höfðað var á hendur stefndu vegna sömu atvika var hún sýknuð af ákæru um meiriháttar brot gegn skattalögum og peningaþvætti. Aðilar deila um hvort sýknudómurinn hafi fullt sönnunargildi um málsatvik í þessu máli þar til áfrýjandi hafi sannað hið gagnstæða. Þar greinir aðila á um hvort sönnunarbyrði skattyfirvalda við endurákvörðun opinberra gjalda stefndu verði lögð að jöfnu við sönnunarbyrði ákæruvalds í sakamáli.
5. Með hinum áfrýjaða dómi 1. mars 2024 þar sem staðfest var niðurstaða héraðsdóms 23. nóvember 2022 voru úrskurðir ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar felldir úr gildi.
6. Áfrýjunarleyfi var veitt 26. apríl 2024, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2024-33, á þeim grunni að dómur gæti haft fordæmisgildi meðal annars um sönnunargildi dóma í sakamálum.
Málsatvik
7. Skattrannsóknarstjóri tók í nóvember 2017 til rannsóknar skattskil stefndu og fyrrverandi eiginkonu hennar vegna tekjuáranna 2011 til og með 2015. Rannsóknin laut að viðskiptum þeirra og einkahlutafélaga á þeirra vegum með fasteignir. Niðurstaða skattrannsóknarstjóra var að stefnda hefði staðið skil á efnislega röngu skattframtali gjaldárið 2015 vegna tekjuársins 2014. Vanrækt hefði verið að telja fram tekjur sem hefðu verið til komnar með ólögmætri úthlutun úr einkahlutafélaginu D 30. júní 2014 þegar fasteigninni […] var afsalað í jöfnum hlutföllum til stefndu og fyrrverandi eiginkonu hennar fyrir 85.000.000 króna án þess að endurgjald kæmi fyrir. Var vanframtalin úttekt stefndu sögð nema 42.500.000 krónum.
8. Skattrannsóknarstjóri sendi ríkisskattstjóra mál stefndu til endurákvörðunar opinberra gjalda. Með úrskurði 2. júlí 2020 hækkaði ríkisskattstjóri tekjuskatts- og útsvarsstofn hennar gjaldárið 2015 um 42.500.000 krónur vegna ætlaðrar óheimillar úthlutunar fjármuna úr D ehf. á árinu 2014, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 4. tölulið A-liðar 7. gr. sömu laga. Byggðist niðurstaðan á því að virða bæri framangreint afsal D ehf. á fasteigninni […] til stefndu og eiginkonu hennar árið 2014 sem úthlutun fjármuna úr félaginu til þeirra. Hafnaði ríkisskattstjóri þeim skýringum að kaupverð fasteignarinnar, 85.000.000 króna, hefði verið innt af hendi með skuldajöfnuði eða yfirtöku eiginkonu stefndu á skuld D ehf. við erlendan fjárfesti vegna fasteignaviðskipta.
9. Stefnda kærði niðurstöðuna til yfirskattanefndar 29. september 2020. Hún byggði kröfu um ógildingu úrskurðarins einkum á því að við skilnað þeirra hjóna á árinu 2014 hefði samist um að fasteignin að […] kæmi að öllu leyti í hlut eiginkonunnar og að hún tæki jafnframt yfir skuldir vegna fasteignarinnar samkvæmt samkomulagi um skilnað og skilnaðarkjör 20. ágúst 2014. Afsal fasteignarinnar til þeirra að jöfnu hefði einungis verið liður í fjárskiptum þeirra og aldrei staðið til að stefnda eignaðist hlut í fasteigninni eftir skilnaðinn. Samkvæmt samkomulaginu hefði stefnda hins vegar fengið 27.000.000 króna sem væri um helmingur af verðmæti innbús og lausafjár auk kostnaðar af framfærslu fóstursonar þeirra. Með úrskurði yfirskattanefndar 23. júní 2021 var tekjufærsla ríkisskattstjóra vegna óheimillar úthlutunar úr D ehf. til stefndu lækkuð í 25.000.000 króna en kröfum hennar að öðru leyti hafnað. Stefnda höfðaði mál þetta 1. desember 2021 til ógildingar á framangreindum úrskurðum.
10. Héraðssaksóknari gaf út ákæru 3. september 2020 á hendur stefndu og fyrrverandi eiginkonu hennar. Var þeim gefið að sök að hafa ekki talið fram tekjur vegna ólögmætrar úthlutunar fyrrgreindrar fasteignar 30. júní 2014 úr D ehf. sem hefði verið afsalað til þeirra án endurgjalds. Hefðu þær því vanframtalið tekju- og útsvarsstofn sinn að fjárhæð 42.500.000 krónur hvor. Samkvæmt ákæru voru brotin meðal annars talin fela í sér meiriháttar skattalagabrot samkvæmt 1. mgr. 262. gr. og peningaþvætti samkvæmt 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með héraðsdómi 24. mars 2021 voru þær sakfelldar fyrir fyrrnefnda brotið.
11. Með dómi Landsréttar 8. apríl 2022 í máli nr. 216/2021 voru stefnda og fyrrverandi eiginkona hennar hins vegar sýknaðar af öllum kröfum ákæruvaldsins. Í forsendum dómsins var tekið fram að samkvæmt 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 skuli hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð, sbr. 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sönnunarbyrði um sekt ákærðu og atvik sem telja mætti þeim í óhag hvíldi á ákæruvaldinu, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. sömu laga skyldi dómari meta hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki yrði vefengd með skynsamlegum rökum, væri fram komin um hvert það atriði sem leitt gæti til sakfellis. Með tilvísun til þessara grundvallarreglna sakamálaréttarfars varð það niðurstaða Landsréttar að ákæruvaldinu hefði ekki tekist sönnun um að stefnda og fyrrverandi eiginkona hennar væru sekar um þá refsiverðu háttsemi sem þeim var gefin að sök í ákæru. Þannig var ekki talið sýnt fram á, svo hafið væri yfir skynsamlegan vafa, að afsal einkahlutafélagsins D á fasteigninni […] til stefndu og fyrrverandi eiginkonu hennar hefði verið án endurgjalds og þannig falið í sér ólögmæta úthlutun úr félaginu sem þær hefðu vanrækt að telja sér til tekna í skattframtölum sínum. Lagt var til grundvallar að við fjárskipti þeirra, sem fóru fram í kjölfarið, hefði fyrrverandi eiginkona stefndu fengið fasteignina í sinn hlut gegn því að takast á hendur ábyrgð á greiðslu lána. Jafnframt að stefnda hefði við skiptin fengið í sinn hlut fjárgreiðslu sem hefði numið um helmingi verðmætis búsins að öðru leyti og að teknu tilliti til framfærslu fóstursonar þeirra.
12. Með héraðsdómi í máli þessu 23. nóvember 2022 voru úrskurðir ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar sem fyrr segir felldir úr gildi. Í niðurstöðukafla dómsins var vísað til fyrrgreinds sýknudóms Landsréttar í máli nr. 216/2021. Voru jafnframt raktar röksemdir sýknudómsins um að atvik málsins hefðu ekki þótt sönnuð. Þá var tekið fram að dómur Landsréttar hefði samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008, fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greindi þar til hið gagnstæða væri sannað. Héraðsdómur hafnaði röksemdum áfrýjanda um að önnur sjónarmið ættu við þegar skattyfirvöld tækju ákvörðun á stjórnsýslustigi um endurákvörðun skatta og sektargreiðslur. Ekki stoðaði fyrir áfrýjanda að vísa til mismunandi málsmeðferðar í þessu tilliti. Áfrýjanda hefði ekki lánast sönnun um að atvik hefðu verið með öðrum hætti en greindi í dómi Landsréttar í máli nr. 216/2021. Loks var áréttað að þegar litið væri heildstætt til þeirra samtímagagna sem rakin hefðu verið yrði áfrýjandi ekki talinn hafa sýnt fram á að atvik hafi verið með öðrum hætti en greindi í dómi Landsréttar í máli nr. 216/2021 og þar hefðu verið lögð til grundvallar.
13. Í hinum áfrýjaða dómi var niðurstaða héraðsdóms staðfest. Í röksemdum Landsréttar kom fram að með vísan til gagna málsins og þeirra atvika sem rakin væru í héraðsdómi yrði lagt til grundvallar að úrskurðir ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar hefðu verið reistir á þeirri röngu forsendu að fasteigninni hafi verið ráðstafað án endurgjalds. Það væri jafnframt í samræmi við þau atvik sem miðað hefði verið við í dómi Landsréttar í máli nr. 216/2021. Hefði sá dómur samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008, fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greindi, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 17. maí 2018 í máli nr. 325/2017. Áfrýjandi hefði ekki lagt fram ný gögn eða með öðrum hætti hnekkt þeim atvikum sem dómur Landsréttar í sakamálinu hefði verið reistur á.
Málsástæður
Helstu málsástæður áfrýjanda
14. Áfrýjandi byggir á því að sá annmarki sé á hinum áfrýjaða dómi að þar hafi sönnunarbyrði skattyfirvalda við endurákvörðun opinberra gjalda stefndu ranglega verið lögð að jöfnu við sönnunarbyrði ákæruvalds í sakamáli. Hann áréttar að sýkna stefndu í refsimáli með dómi Landsréttar í fyrrgreindu máli nr. 216/2021 hafi verið reist á grundvallarreglu sakamálaréttarfars sem feli í sér ríka sönnunarbyrði ákæruvalds og eigi sér ekki samsvörun á sviði skattaréttar.
15. Í því sambandi vísar áfrýjandi einnig til 108. gr. a í lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt eftir breytingar sem gerðar voru með lögum nr. 29/2021. Þar sé mælt fyrir um að sýkna vegna kröfu um refsingu komi ekki í veg fyrir endurákvörðun skatta og opinberra gjalda. Niðurstaða byggð á sönnunarkröfum sakamálaréttarfars geti ekki haft sjálfkrafa gildi í máli þessu.
16. Áfrýjandi bendir á að stefnda og fyrrverandi eiginkona hennar hafi haft fullt forræði yfir félagi sínu D ehf. á þeim tíma sem afsal fasteignarinnar fór fram. Þeim hafi borið að gera skýran greinarmun á þeim eignum og skuldum sem tilheyrðu félaginu annars vegar og þeim persónulega hins vegar. Þær hafi einnig haft fullt forræði yfir gerð kaupsamningsins 30. júní 2014 sem lá afsalinu til grundvallar og notið aðstoðar lögmanna og endurskoðenda í tengslum við gerð hans sem og við gerð skilnaðarsamkomulags 20. ágúst 2014.
17. Áfrýjandi vísar til þess að í sýknudómi Landsréttar í máli nr. 216/2021 hafi verið talið óumdeilt að félagið hafi ekki staðið í skuld við þær og fallist á þær varnir að kaupverð fasteignarinnar hafi átt að greiða með yfirtöku lána félagsins. Hins vegar hafi engin samtímagögn borið með sér að gengið hefði verið formlega frá skuldaraskiptum við kröfuhafa félagsins í tengslum við afsal fasteignarinnar. Þvert á móti væru sterkar vísbendingar um að greindur kröfuhafi hefði ekki verið upplýstur um ætluð skuldaraskipti. Því sé vandséð hvort og þá hvenær D ehf. hafi losnað undan þeim skuldum sem féllu brott úr ársreikningi félagsins vegna rekstrarársins 2014 og sem stefnda og fyrrverandi eiginkona hennar báru síðar að sú síðarnefnda hefði tekið yfir.
18. Áfrýjandi tekur fram að á þessa málsvörn hafi verið fallist í refsimálinu að teknu tilliti til meginreglu sakamálaréttarfars um að vafi sé skýrður sakborningi í hag. Hafi skattyfirvöldum eftir sem áður verið rétt að líta svo á að yfirtaka skulda sem ekki hafi verið beint til kröfuhafa félagsins hafi ekki falið í sér endurgjald enda ekkert legið fyrir við meðferð skattamálsins um að kröfuhafarnir hefðu samþykkt skuldaraskipti. Auk þess hafi ekkert komið fram sem leiði í ljós að samhliða eða samtímis afsalinu hafi fyrrverandi eiginkona stefndu tekið á sig skuldir eða gengist í ábyrgð vegna lána félagsins.
Helstu málsástæður stefndu
19. Stefnda tekur fram að Landsréttur hafi áður fjallað um atvik málsins. Með dómi réttarins í máli nr. 216/2021 hafi hún verið sýknuð af ákæru um meiriháttar brot gegn skattalögum og peningaþvætti með því að hafa staðið skil á efnislega röngu skattframtali gjaldárið 2015 vegna tekjuársins 2014. Hafi framsetning ákæru að öllu leyti verið sú sama og í úrskurði ríkisskattstjóra og í fyrrgreindum dómi verið fallist á málsástæður stefndu.
20. Stefnda byggir á að dómur Landsréttar í sakamálinu hafi fullt sönnunargildi um málsatvik samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008. Í dóminum hafi verið lagt til grundvallar að afsal fyrrgreindrar fasteignar hafi ekki verið án endurgjalds og því ekki um ólögmæta úthlutun úr D ehf. að ræða. Einnig að fyrrverandi eiginkona stefndu hafi við fjárskipti þeirra fengið í sinn hlut fasteignina […] gegn því að takast á hendur ábyrgð á greiðslu lána sem fasteigninni tengdust. Enn fremur að stefnda hafi fengið í sinn hlut fjárgreiðslu sem hafi numið helmingi verðmætis búsins að öðru leyti og að teknu tilliti til framfærslu fóstursonar þeirra.
21. Stefnda telur að við úrlausn málsins beri að leggja til grundvallar að atvik hafi verið með þeim hætti sem talið var í dómi Landsréttar í máli nr. 216/2021 en öll framlögð gögn í þessu máli hafi legið fyrir þar. Áfrýjandi hafi enga tilraun gert til að sanna hið gagnstæða, hvorki með framlagningu nýrra gagna né vitnaleiðslum.
22. Stefnda tekur fram að með hinum áfrýjaða dómi hafi úrskurðir skattyfirvalda verið felldir úr gildi. Af forsendum dómsins megi glögglega ráða að lagt hafi verið sjálfstætt mat á málsgögn og atvik og komist að sömu niðurstöðu og héraðsdómur. Samkvæmt því hafi úrskurðir ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar verið reistir á þeirri röngu forsendu að fasteigninni hafi verið ráðstafað án endurgjalds. Í hinum áfrýjaða dómi hafi sú niðurstaða „jafnframt“ verið talin í samræmi við atvik sem miðað hafi verið við í sýknudóminum í máli nr. 216/2021. Því sé rangt að Landsréttur hafi í hinum áfrýjaða dómi einblínt á ályktun réttarins í sakamálinu.
23. Þá byggir stefnda á því að skattyfirvöld beri sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu að hún hafi notið endurgjaldslausrar úthlutunar fjármuna úr einkahlutafélagi. Áfrýjandi haldi því ranglega fram að sönnunarbyrði um hvort fasteigninni hafi verið úthlutað án endurgjalds hefði átt að hvíla á stefndu. Vísar hún til þess að skattamálum skuli skipað með lögum samkvæmt 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Skattayfirvöld, eins og stjórnvöld almennt, hafi sönnunarbyrði fyrir að ályktanir þeirra fái staðist. Ágreiningur sé um atvik máls en stjórnvöldum beri að gæta að því að hið sanna og rétta sé lagt til grundvallar. Stefndu beri því ekki að hnekkja staðhæfingu skattyfirvalda heldur beri stjórnvaldi þvert á móti að leggja fullnægjandi grunn að ákvörðun sinni.
Niðurstaða
24. Í 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 er mælt fyrir um þau jákvæðu réttaráhrif dóms í einkamáli að hann hafi fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greinir þar til það gagnstæða er sannað. Hliðstæð regla um jákvæð réttaráhrif dóma í sakamálum er í 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008.
25. Þrátt fyrir hina almennu reglu um sönnunargildi dóma í einkamálum og sakamálum um þau málsatvik sem í þeim greinir er til þess að líta að um sönnun í sakamálum gilda önnur sjónarmið og strangari kröfur en í einkamálum. Það byggist á þeirri grundvallarreglu sakamálaréttarfars, sem einnig er í 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, að hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi eigi að teljast saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð. Nátengd henni er meginregla sakamálaréttarfars sem kemur fram í 108. gr. laga nr. 88/2008 um að sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik sem telja megi honum í óhag hvíli á ákæruvaldinu. Aðra meginreglu er að finna í 1. mgr. 109. gr. laganna um að dómari meti hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt ákærða. Vegna þessara fyrirmæla sem ætlað er að tryggja réttaröryggi sakaðra manna bindur niðurstaða sakamáls um hvort sönnun um atvik sem lýst er í ákæru sé fram komin ekki hendur dómara í einkamáli þar sem aðrar sönnunarreglur gilda.
26. Reynt hefur á þýðingu mismunandi sönnunarkrafna í einkamálum og sakamálum í réttarframkvæmd. Álitaefni þar um geta til dæmis skapast þegar krafist er skaðabóta vegna háttsemi sem sýknað hefur verið af í sakamáli eða saksókn felld niður, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 22. september 2005 í máli nr. 49/2005. Þá má benda á dóm Hæstaréttar 28. febrúar 2008 í máli nr. 386/2007 þar sem dómur um sýknu af ákæru vegna ölvunaraksturs var ekki talinn bindandi um sönnunarmat í einkamáli sem sami ökumaður höfðaði gegn tryggingafélagi til greiðslu bóta, sbr. einnig til hliðsjónar dóm 16. nóvember 1995 í máli nr. 325/1993 sem birtur er á bls. 2703 í dómasafni réttarins það ár.
27. Vegna hinna ströngu sönnunarkrafna í sakamálum hefur sakfellingardómur í refsimáli aftur á móti verulegt sönnunargildi í einkamáli um þau málsatvik sem í honum greinir, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 17. maí 2018 í máli nr. 325/2017 og 10. desember 1998 í máli nr. 109/1998 sem birtur er á bls. 4196 í dómasafni réttarins það ár. Þótt stefnda hafi vísað til fyrrnefnda dómsins til stuðnings sjónarmiðum sínum um gildi dóms í sakamáli fyrir sönnun í einkamáli er það mál að þessu leyti í grundvallaratriðum ólíkt því sem hér er til úrlausnar þar sem reynir á sönnunargildi sýknudóms í sakamáli.
28. Í máli þessu er deilt um stjórnvaldsákvarðanir um endurákvörðun opinberra gjalda stefndu. Eru skattyfirvöld í þeim efnum bundin við fyrirmæli stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar á meðal um rannsóknarskyldu og andmælarétt, sem eiga að tryggja réttaröryggi skattþegns, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 21. september 2017 í máli nr. 283/2016. Í rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar felst hins vegar ekki að sönnunarbyrði um atvik hvíli að öllu leyti á stjórnvaldi hliðstætt því sem gildir um sönnunarbyrði ákæruvalds í sakamáli, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 13. febrúar 1997 í máli nr. 88/1996 sem birtur er á bls. 602 í dómasafni réttarins það ár. Birtist þessi regla þegar kemur að meðferð mála hjá skattyfirvöldum nú í 108. gr. a laga nr. 90/2003 en samkvæmt henni kemur sýkna af kröfu um refsingu ekki í veg fyrir endurákvörðun skatta og opinberra gjalda.
29. Sem fyrr segir byggðist niðurstaða dóms Landsréttar í máli nr. 216/2021 um sýknu stefndu á því að ákæruvaldinu hefði með vísan til framangreindra grundvallarreglna sakamálaréttarfars ekki tekist sönnun um að hún væri sek um þá refsiverðu háttsemi sem henni var gefin að sök í ákæru.
30. Þrátt fyrir það sem rakið hefur verið um ólíkar sönnunarkröfur í einkamálum og sakamálum lagði héraðsdómur í þessu máli að öllu leyti til grundvallar niðurstöðu sinni um að fella úrskurði skattyfirvalda úr gildi að tilvitnaður sýknudómur Landsréttar hefði fullt sönnunargildi um málsatvik. Jafnframt var tekið fram að áfrýjanda hefði ekki lánast sönnun um að atvik hefðu verið með öðrum hætti en þar greindi. Auk þess var því hafnað að önnur sjónarmið ættu við hjá skattyfirvöldum þegar þau tækju ákvörðun á stjórnsýslustigi um endurákvörðun skatta en þegar sektir væru ákveðnar.
31. Í hinum áfrýjaða dómi Landréttar var um sönnun vísað til gagna málsins og atvika sem rakin væru í héraðsdómi. Þá var lagt til grundvallar að úrskurðir ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar í málinu hefðu verið reistir á þeirri röngu forsendu að fasteigninni hefði verið ráðstafað án endurgjalds. Það væri jafnframt í samræmi við þau atvik sem miðað hefði verið við í dómi Landsréttar í máli nr. 216/2021. Hefði sá dómur fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í honum greindi samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008. Að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms var hann staðfestur um annað en málskostnað.
32. Af afdráttarlausum ummælum í forsendum héraðsdóms svo og forsendum hins áfrýjaða dóms, sem ekki bætti neinu við héraðsdóm um mat á atvikum máls, verður ekki annað ráðið en að sönnunarmat Landsréttar í máli nr. 216/2021, byggt á kröfum sakamálaréttarfars samkvæmt lögum nr. 88/2008, hafi að öllu leyti verið lagt til grundvallar um sönnun á báðum dómstigum í máli þessu. Af því leiðir að á hvorugu dómstiginu var lagt sjálfstætt mat á málsgögn og atvik svo sem bar að gera í samræmi við fyrirmæli laga nr. 91/1991. Hefur því verið leyst úr málinu á röngum lagagrundvelli.
33. Þótt Hæstiréttur geti að jafnaði endurskoðað sönnunarmat og aðra þætti dómsúrlausna á lægri dómstigum í einkamálum er til þess að líta að ekki hefur verið lagt mat á sönnun atvika málsins á réttum lagagrundvelli sem fyrr greinir og því getur ekki orðið um raunverulega endurskoðun að ræða hér fyrir réttinum. Eins og málið liggur fyrir verður því að ómerkja hinn áfrýjaða dóm sem og héraðsdóm í málinu og vísa því heim í hérað til löglegrar meðferðar.
34. Málskostnaður fyrir Hæstarétti verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur og héraðsdómur í máli þessu eru ómerktir og því vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Sératkvæði
Sigurðar Tómasar Magnússonar
1. Ég er sammála niðurstöðu meirihluta dómenda um að héraðsdómur og Landsréttur hafi leyst úr málinu á röngum lagagrundvelli. Ég er hins vegar ósammála þeirri niðurstöðu meirihlutans að sá annmarki eigi að leiða til þess að ómerkja beri hinn áfrýjaða dóm sem og héraðsdóm í málinu.
2. Dómsúrlausn á lægra dómstigi verður ómerkt á æðra dómstigi ef mál er ekki tækt til efnislegrar meðferðar á æðra dómstigi vegna stórfellds annmarka á málsmeðferð eða samningu dóms á lægra dómstigi sem ekki þykir unnt að bæta úr. Dómaframkvæmd sýnir að annmarkar sem leitt geta til ómerkingar geta verið af ýmsu tagi.
3. Við ákvörðun um hvort ómerkja eigi dóm vegast einkum á tvö sjónarmið. Með ómerkingu mælir sú grundvallarregla í réttarfari að unnt eigi að vera að skjóta dómsniðurstöðu til æðra dómstóls til að fá henni breytt. Það samræmist best þessu endurskoðunarhlutverki áfrýjunardómstóls að hann taki einungis efnislega afstöðu til þeirra krafna og málsástæðna sem tekin hefur verið afstaða til á lægra dómstigi í stað þess að dæma málið efnislega frá grunni eins og dómstóll á fyrsta dómstigi. Hætt er við að málsmeðferð á lægri dómstigum væri gefið of lítið vægi ef á áfrýjunarstigi væri hægt væri að bæta úr öllum ágöllum á málsmeðferð og samningu dóms. Á móti ómerkingu mælir hins vegar almennt að hún hefur í för með sér aukna vinnu og kostnað fyrir aðila og dómskerfið og tefur endanlegar lyktir máls. Ómerking er því neyðarúrræði sem rétt er að beita í hófi og aðeins ef réttaröryggissjónarmið mæla með því, enda sé um alvarlegan annmarka að ræða sem ætla má að hafi haft áhrif á niðurstöðu máls og ekki unnt að beita vægara úrræði.
4. Ekki verður séð að réttarfarslegir annmarkar hafi verið á meðferð málsins á lægri dómstigum. Kemur því aðeins til skoðunar hvort svo stórfelldir annmarkar hafi verið á samningu dóma á lægri dómstigum að efnisdómur verði ekki lagður á það í Hæstarétti.
5. Fyrir liggur að Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu í málinu að héraðsdómur og Landsréttur hafi beitt 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um jákvæð réttaráhrif dóma með röngum hætti og það hafi leitt til þess að dómur í sakamáli þar sem stefnda var sýknuð af ákæru um skattalagabrot hafi ranglega verið talinn hafa fullt sönnunargildi um atvik í þessu máli þannig að sönnunarbyrði var felld á áfrýjanda.
6. Við úrlausn þess hvort ómerkja eigi hinn áfrýjaða dóm og héraðsdóm kemur einkum til skoðunar hvort Hæstiréttur geti ekki lagt efnisdóm á málið sökum þess að ekki hafi verið tekin afstaða til málsástæðna aðila um sönnun og sönnunarbyrði með réttum hætti í dómum á lægri dómstigum. Almennt er talið að dómari þurfi að leysa úr öllum málsástæðum sem nauðsynlegt er til að geta komist að niðurstöðu. Ef hann bregst þeirri skyldu getur komið til ómerkingar dóms. Sakarefni getur verið þess eðlis að taka þurfi afstöðu til allra málsástæðna til stuðnings kröfu eða eftir atvikum sýknu. Í öðrum tilvikum er dómara heimilt að sýkna á grundvelli einnar málsástæðu, svo sem ef hann kemst að þeirri niðurstöðu að skaðabótaskylda sé ekki fyrir hendi eða fjárkrafa fyrnd, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 1. desember 2016 í máli nr. 17/2016. Þótt æðri dómstóll telji dómara á lægra dómstigi hafa komist að rangri niðurstöðu um slíka málsástæðu telst slíkt ekki annmarki á samningu dóms. Æðri dómstóll getur þá lagt efnisdóm á málið þótt hann þurfi að taka afstöðu til málsástæðna sem ekki hefur áður verið skorið úr um á lægra dómstigi.
7. Enda þótt hlutverk Hæstaréttar í þriggja þrepa dómskerfi sé fyrst og fremst að vera réttarskapandi dómstóll verður ekki fram hjá því litið að hlutverk hans er jafnframt að leysa endanlega úr ágreiningi í þeim dómsmálum sem hann fær til meðferðar sem æðsti dómstóll landsins.
8. Við mat á því hvort Hæstiréttur geti lagt efnisdóm á sakarefni málsins er til þess að líta að endurskoðunarhlutverki Hæstaréttar um sönnunaratriði eru ekki settar eins þröngar skorður í einkamálum og í sakamálum. Í máli þessu voru ekki gefnar munnlegar skýrslur fyrir héraðsdómi eða Landsrétti og reynir því ekki á endurskoðun á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir Hæstarétti heldur fyrst og fremst á mat á sönnunargildi skjallegra sönnunargagna.
9. Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að grundvallaratriði um sönnun og sönnunarbyrði hafa verið metin með röngum hætti í dómum í málinu á lægri dómstigum. Þeir ágallar á dómunum verða þó ekki lagðir að jöfnu við að ekki hafi verið leyst úr málsástæðu sem nauðsynlegt var að leysa úr til að komast að niðurstöðu í málinu. Engir formlegir annmarkar voru þannig á dómunum og úrlausnarefnið fyrir Hæstarétti að því leyti sambærilegt þeim dæmum sem að framan voru nefnd um það þegar Hæstiréttur hefur fengið til endurskoðunar úrlausn lægri dómstóls þar sem krafa hefur til dæmis verið talin fyrnd eða bótaskyldu hafnað.
10. Með vísan til alls framangreinds og þegar vegin eru saman fyrrnefnd sjónarmið, annars vegar um rétt aðila til að fá dómsniðurstöðu endurskoðaða á æðra dómstigi og hins vegar um hóflega beitingu ómerkingar, tel ég að Hæstarétti beri að leggja efnisdóm á málið í stað þess að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og héraðsdóm og vísa því heim í hérað. Í ljósi niðurstöðu meirihlutans er ekki tilefni til að taka í sératkvæðinu efnislega afstöðu til sakarefnis málsins.