Hæstiréttur íslands

Mál nr. 53/2022

A (Lúðvík Örn Steinarsson lögmaður og Valborg Þ. Snævarr lögmaður)
gegn
B (Ragnar Halldór Hall lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Hjón
  • Fjárskipti
  • Frávísun frá héraðsdómi

Reifun

Kærður var úrskurður Landsréttar sem felldi úr gildi úrskurð héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi aðila við opinber skipti til fjárslita milli þeirra vegna hjónaskilnaðar. Ágreiningur aðila laut að skiptum á margvíslegum eignum; töluverðum fjölda fasteigna, miklum fjölda bifreiða og tækja, hluta í einkahlutafélögum og samlagsfélagi. Með hinum kærða úrskurði var málinu vísað frá héraðsdómi án kröfu sökum þess að ekki hefði verið lagður fullnægjandi grunnur að því svo unnt væri að komast að efnislegri niðurstöðu. Var meðal annars vísað til þess að ekki hefði legið fyrir upplýsingar um verðmæti eignanna og talið að eins og atvikum væri háttað yrði að gera þá lágmarkskröfu til skiptastjóra að verðmæti allra eigna sem aðilar deildu um væri nokkuð vel þekkt eða að samkomulag væri milli aðila um verðmæti þeirra, sbr. 1. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., svo unnt væri að leggja dóm á ágreining aðila. Í niðurstöðu sinni vísaði Hæstiréttur til þess að ef ágreiningur er með hjónum um verðmæti eigna verði mat á því að liggja fyrir svo að helmingaskipti geti farið fram og sé jafnframt eitt af þeim atriðum sem skipt geta máli við úrlausn um hvort og þá með hvaða hætti megi víkja frá helmingaskiptareglu við opinber skipti til fjárslita milli hjóna með vísan til 104. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Eins og atvikum sé háttað verði ekki talið að fullnægjandi grundvöllur hafi verið lagður að málatilbúnaði sóknaraðila um að víkja ætti frá meginreglu 104. gr. hjúskaparlaga um helmingaskipti og eftir atvikum með hvaða hætti. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur og málinu vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. október 2022 sem barst réttinum 31. sama mánaðar en kærumálsgögn bárust 7. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Landsréttar 17. október 2022 í máli nr. 479/2022 þar sem málinu var vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

3. Endanlegar dómkröfur sóknaraðila eru að málinu verði vísað aftur til Landsréttar til efnislegrar meðferðar og úrskurðar að nýju. Þá krefst hann kærumálskostnaðar fyrir Landsrétti og Hæstarétti.

4. Varnaraðili skaut málinu fyrir sitt leyti til Hæstaréttar með kæru 31. október 2022 sem barst réttinum 1. nóvember sama ár en kærumálsgögn bárust 9. þess mánaðar. Hún krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um annað en málskostnað. Þá krefst hún þess að sóknaraðila verði gert að greiða sér málskostnað að skaðlausu fyrir héraðsdómi og kærumálskostnað fyrir Landsrétti og Hæstarétti.

5. Sóknaraðili krefst frávísunar á kröfu varnaraðila um málskostnað fyrir Landsrétti.

Ágreiningsefni

6. Aðilar deila um hvort við skipti vegna skilnaðar þeirra að borði og sæng skal beita meginreglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 um helmingaskipti eða hvort víkja skal frá henni á grundvelli heimildar 104. gr. sömu laga. Skiptastjóri skaut ágreiningnum til héraðsdóms sem komst að þeirri niðurstöðu að til sóknaraðila skyldu falla eignir sem hann átti við upphaf hjúskapar en eignir sem hefðu orðið til á hjúskapartíma skyldu koma til helmingaskipta.

7. Með hinum kærða úrskurði Landsréttar var málinu vísað frá héraðsdómi á þeim grundvelli að ekki lægi nægilega fyrir verðmæti allra þeirra eigna sem málsaðilar deila um hvernig skipta skal. Hefði því ekki verið lagður fullnægjandi grunnur að rekstri málsins er skiptastjóri vísaði ágreiningnum til héraðsdóms.

8. Fyrir Hæstarétti lýtur ágreiningur aðila í fyrsta lagi að því hvort dómkrafa sóknaraðila um heimvísun máls til Landsréttar til efnislegrar málsmeðferðar og úrskurðar að nýju er nægilega skýr. Verði svo talið deila aðilar í annan stað um það hvort staðfesta skal niðurstöðu Landsréttar um frávísun málsins frá héraðsdómi án kröfu sökum þess að upplýsingar skorti um verðmæti eigna eða hvort vísa á málinu aftur til Landsréttar til efnislegrar meðferðar þar sem varnaraðili hafi teflt of seint fram kröfu um frávísun þess en hún kom fyrst fram fyrir Landsrétti.

Helstu málsatvik

9. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði hófu aðilar sambúð […] 2014 og gengu í hjúskap […] ári síðar. Þau áttu bæði börn fyrir en engin saman. Þau munu hafa slitið samvistir í mars 2020 og óskaði varnaraðili eftir skilnaði að borði og sæng 22. september það ár. Leyfi til skilnaðar var veitt 18. maí árið eftir. Með úrskurði héraðsdóms 8. apríl 2021 var kveðið á um að opinber skipti skyldu fara fram milli þeirra.

10. Fram kom á fyrsta skiptafundi 19. apríl 2021 að skiptastjóri teldi ekki liggja fyrir nægilegar upplýsingar um markaðsverð þeirra eigna sem hugsanlega ættu undir skiptin. Lýstu aðilar sig sammála því. Var þá fjallað um hvernig staðið skyldi að mati þar um og hverjir gætu framkvæmt það. Af hálfu varnaraðila var tekið undir sjónarmið skiptastjóra í þessu tilliti en af hálfu sóknaraðila var hvorki tekin til þess afstaða að svo stöddu hvort mat skyldi fram fara né hverjir skyldu meta. Á næsta skiptafundi 11. nóvember 2021 voru lagðar fram frekari upplýsingar um eignir. Af hálfu varnaraðila var þá óskað eftir að þær yrðu metnar til líklegs söluverðs eftir reglum 17. til 23. gr. laga nr. 20/1991 en lögmenn sóknaraðila mótmæltu því og vísuðu til þess að kröfur sóknaraðila fælu í sér að allar eignir kæmu í hans hlut. Í kjölfarið var meðal annars bókað: „Skiptastjóri telur sér ekki fært að ráðast í matið að svo stöddu, þar sem það hefur augljóslega í för með sér mjög verulegan kostnað, en fjármunir til að greiða þann kostnað eru ekki handbærir í búinu.“ Á þriðja skiptafundi 15. nóvember 2021 var bent á af hálfu varnaraðila að ágreiningsmál um tilhögun skipta gæti sætt frávísun fyrir dómi sökum þess að ekki lægi fyrir verðmat á eignum. Af hálfu sóknaraðila var því andmælt. Skiptastjóri óskaði hvorki eftir því að slíkt mat færi fram né skaut hann ágreiningi aðila um hvort eignir yrðu verðmetnar til héraðsdóms. Þess í stað bókaði hann að grundvallarágreiningur væri milli aðila um hvernig skipta bæri eignum sem hann hefði árangurslaust leitast við að jafna. Væri þeim ágreiningi því beint til héraðsdóms til úrlausnar, sbr. 112. og 122. gr. laga nr. 20/1991.

11. Með bréfi skiptastjóra 15. nóvember 2021 var ágreiningnum beint til héraðsdóms til úrlausnar. Var úrskurður í málinu kveðinn upp 13. júlí 2022. Samkvæmt honum komu fasteignir, vélsleði, hjólhýsi, torfæruhjól og hlutir sóknaraðila í nánar tilgreindum félögum óskipt í hans hlut. Öðrum eignum skyldi skipta samkvæmt helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga. Þá var vísað frá dómi kröfum varnaraðila um viðurkenningu á rétti hennar til helmings hlutdeildar í tekjum og arði af hjúskapareignum frá samvistarslitum sem og kröfu hennar um viðurkenningu á skyldu sóknaraðila til að greiða henni leigu vegna þeirra eigna sem hann hefði haft í sinni umsjá frá samvistarslitum. Loks var málskostnaður felldur niður.

12. Varnaraðili skaut málinu til Landsréttar með kæru 25. júlí 2022. Gerði hún þær kröfur að hinn kærði úrskurður yrði ómerktur, málinu vísað frá héraðsdómi og henni dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður. Til vara krafðist hún þess að öllum kröfum sóknaraðila um frávik frá helmingaskiptareglu 103. gr. hjúskaparlaga við skipti til fjárslita milli þeirra yrði hafnað og að skiptin færu að öllu leyti fram á grundvelli þeirrar lagareglu. Til þrautavara krafðist hún þess að frávik frá helmingaskiptareglu yrðu ekki látin ná til annarra eigna en hlutafjár í C ehf. og D ehf. Til þrautaþrautavara krafðist hún þess að frávik frá helmingaskiptareglu um aðrar eignir en greindi í þrautavarakröfu yrðu ákveðin að nánar greindri tiltölu af verðmæti eigna sem ekki yrði hærri en 25 af hundraði. Að því frágengnu krafðist hún staðfestingar hins kærða úrskurðar um annað en málskostnað. Loks krafðist hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Sóknaraðili krafðist staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

13. Með úrskurði Landsréttar 17. október 2022 var málinu vísað frá héraðsdómi með þeim rökum að ekki lægi nægilega fyrir verðmæti allra þeirra eigna sem málsaðilar deildu um hvernig skipta skyldi. Hefði því ekki verið lagður fullnægjandi grunnur að rekstri málsins er skiptastjóri vísaði ágreiningi aðila til héraðsdóms.

Málsástæður aðila

14. Sóknaraðili vísar einkum til þess að samkvæmt meginreglu 111. gr. laga nr. 91/1991 sé málsforræði hjá aðilum. Þeir hafi verið sammála um að málið yrði lagt í úrskurð héraðsdóms á þeim grunni sem gert var. Krafa varnaraðila um frávísun hafi fyrst komið fram við meðferð málsins fyrir Landsrétti og sé því of seint fram komin. Þá vísar sóknaraðili því á bug að nauðsynlegt sé að verðmeta hlutafé hans í þremur félögum hans líkt og Landsréttur leggi til grundvallar niðurstöðu sinni enda séu þau verðmæti sem felist í félögunum til komin vegna vinnu sóknaraðila og þeim beri að halda utan skipta samkvæmt 102. gr. hjúskaparlaga. Bendir sóknaraðili á að við meðferð málsins í héraði hafi varnaraðili gert kröfu um hefðbundin helmingaskipti á grundvelli 103. gr. hjúskaparlaga sem ekki hafi útheimt verðmat af þeim toga sem nú sé deilt um. Krafa um verðmat sé til komin vegna breyttrar kröfugerðar varnaraðila fyrir Landsrétti þar sem hún gerði varakröfur um frávik frá reglum um helmingaskipti að tiltölu. Landsréttur hafi ekki mátt fallast á þær breytingar á grundvelli málsins sem af þessari breyttu kröfugerð leiddi. Beri því að fallast á dómkröfur sóknaraðila. Um kröfu sína um frávísun frá Hæstarétti á kröfu varnaraðila um endurskoðun málskostnaðar fyrir Landsrétti vísar sóknaraðili til þess að slík krafa falli ekki undir kæruheimild 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991.

15. Aðalkröfu sína um frávísun málsins frá Hæstarétti styður varnaraðili þeim rökum að krafa sóknaraðila sé ekki nægjanlega skýr til þess að unnt sé að leggja dóm á hana. Í því sambandi bendir hún á að ekki sé gerð krafa um breytingu á hinni kærðu dómsathöfn eða að hún verði felld úr gildi. Uppfylli hún því ekki skilyrði c-liðar 1. mgr. 169. gr. laga nr. 91/1991. Þá vísar varnaraðili til þess að verulega skorti á nauðsynlegar upplýsingar um eignir aðila. Ráða megi af fundargerðum vegna skiptafunda að aðilar hafi verið ósammála um hvort meta ætti verðmæti eigna, þar á meðal umræddra félaga. Vegna eindreginnar afstöðu sóknaraðila hafi skiptastjóri ákveðið að hætta við áform sín um að láta mat fara fram þvert á óskir varnaraðila. Við slíkt mat hefði komið í ljós hversu fráleit krafa sóknaraðila er að virtum heildarhagsmunum aðila. Þá rúmist kröfugerð varnaraðila fyrir Landsrétti innan aðalkröfu hennar í héraði um helmingaskipti.

Niðurstaða

16. Upphaflega krafðist sóknaraðili þess aðallega fyrir Hæstarétti að úrskurður héraðsdóms yrði staðfestur en til vara heimvísunar málsins til Landsréttar til efnislegrar meðferðar og úrskurðar að nýju. Sóknaraðili féll síðar frá aðalkröfu sinni. Krafa sóknaraðila sem eftir stendur er nægilega skýr til þess að lagður verði á hana dómur. Verður ekki fallist á með varnaraðila að vísa beri málinu frá Hæstarétti á þeim grunni að hún sé ekki dómtæk og uppfylli ekki skilyrði c-liðar 1. mgr. 169. gr. laga nr. 91/1991.

17. Þá verður ekki fallist á með sóknaraðila að ákvæði 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 leiði til þess að kröfu varnaraðila í gagnkæru um endurskoðun ákvörðunar Landsréttar um málskostnað skuli vísað frá Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 174. gr. laganna.

18. Eins og áður segir reisti varnaraðili efnisvarnir sínar í héraði meðal annars á því að óljóst væri um verðmæti þeirra eigna sem ættu að koma til skipta. Það var á hinn bóginn ekki fyrr en í kæru til Landsréttar að hún hafði aðallega uppi kröfu um frávísun málsins frá héraðsdómi á þeim grunni. Fallist er á með sóknaraðila að krafa varnaraðila um frávísun málsins var of seint fram komin til þess að hún yrði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 og 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991. Á hinn bóginn vísaði Landsréttur málinu frá héraðsdómi án kröfu og lýtur ágreiningur aðila hér fyrir dómi að því hvort staðfesta skal þá úrlausn. Skiptir því ekki máli þó að krafa þar að lútandi hafi fyrst komið fram af hálfu varnaraðila undir rekstri málsins fyrir Landsrétti.

19. Þá verður að líta til þess við úrlausn málsins að aðrar kröfur varnaraðila til vara sem fyrst voru reifaðar fyrir Landsrétti rúmast innan upphaflegrar kröfu hennar í héraði um helmingaskipti.

20. Í 103. gr. hjúskaparlaga kemur fram sú meginregla að hvor maki um sig eigi tilkall til helmings úr skírri hjúskapareign hins nema annað leiði af ákvæðum laga. Þó segir í 1. mgr. 104. gr. laganna að víkja megi frá reglum um helmingaskipti ef þau yrðu að öðrum kosti bersýnilega ósanngjörn fyrir annað hjóna. Ýmsir þættir koma til skoðunar við þetta mat en í greininni segir að þetta eigi einkum við þegar tekið er tillit til fjárhags hjóna og lengdar hjúskapar, svo og ef annað þeirra hefur flutt í búið verulega miklu meira en hitt við hjúskaparstofnun eða hefur síðar erft fé eða fengið það að gjöf frá öðrum en maka sínum. Þá segir í 2. mgr. 104. gr. að frávik frá helmingaskiptum samkvæmt greininni geti enn fremur átt sér stað þegar annað hjóna hefur með vinnu, framlögum til framfærslu fjölskyldunnar eða á annan hátt stuðlað verulega að aukningu á þeirri fjáreign sem falla ætti hinu hjóna í skaut eða hefur átt hlut að því að bæta fjáreign hins að öðru leyti.

21. Við opinber skipti til fjárslita milli hjóna koma til skipta samkvæmt 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991, ef ekki verða sammæli um annað, þær eignir og þau réttindi þeirra sem ekki verða taldar séreignir annars þeirra og tilheyrðu þeim á viðmiðunardegi skiptanna. Að auki skulu koma til skipta arður, vextir og annars konar tekjur sem hafa fengist síðar af þeim eignum og réttindum. Með sama hætti skal við skiptin aðeins tekið tillit til þeirra skulda aðila sem höfðu stofnast en voru ekki greiddar á því tímamarki. Svo fljótt sem verða má eftir skipun skiptastjóra skal hann boða aðila eða þá sem gæta hagsmuna þeirra til skiptafundar til að leita vitneskju um hverjar eignir geta komið til skipta, hvorum aðilanum þær tilheyra, hvert verðmæti þeirra er, hvar þær er að finna, hver fari með umráð þeirra og hvort séreignir séu fyrir hendi og þá hverjar, sbr. 1. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1991. Verði ekki sammæli um verðmat eigna og liggi ekki þá þegar fyrir að þeim verði komið í verð við skiptin getur hvor aðilinn sem er krafist þess eftir 3. mgr. sömu greinar að skiptastjóri æski mats á þeim samkvæmt reglum 17. til 23. gr. laganna og njóta þá báðir aðilar þeirrar stöðu sem erfingjum er veitt í þeim ákvæðum. Samkvæmt 1. mgr. 106. gr. sömu laga skal skiptastjóri á skiptafundum sem haldnir eru samkvæmt 105. gr. enn fremur afla upplýsinga um þær skuldir aðila sem koma til álita eftir 1. mgr. 104. gr. Að öðru leyti leitar hann ekki sjálfur vitneskju um skuldir, nema annar aðilinn eða þeir báðir krefjist þess og honum verði talið kleift að verða við því.

22. Eins og að framan er rakið fékk skiptastjóri ekki þá vitneskju sem hann taldi nauðsynlega um verðmæti þeirra eigna sem gætu komið til skipta og um er deilt í málinu, sbr. 1. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1991, en ekki voru sammæli um verðmat eignanna. Jafnframt kom fram á skiptafundum krafa varnaraðila um að eignir yrðu metnar í samræmi við ákvæði 17. til 23. gr. laganna. Af því sem bókað var á skiptafundum verður ráðið að ágreiningur um hvort og hvaða eignir aðila skyldi meta til verðs hafi ekki verið jafnaður. Samkvæmt gögnum málsins liggur heldur ekki fyrir verðmat á þeim eignum sem héraðsdómur úrskurðaði að skyldu sæta helmingaskiptum. Samkvæmt 3. mgr. 105. gr. laga nr. 20/1991 og eftir atvikum að virtri 2. mgr. 23. gr. laganna var rétt að skiptastjóri æskti þess að slíkt mat færi fram. Hefði sóknaraðili enn andmælt slíkri ákvörðun skiptastjóra var þess kostur að skjóta þeim ágreiningi sjálfstætt til úrlausnar dómstóla, sbr. 112. og 122. gr. laganna.

23. Ef ágreiningur er með hjónum um verðmæti eigna verður mat á þeim að liggja fyrir svo helmingaskipti geti farið fram og er það jafnframt eitt af þeim atriðum sem skipt geta máli við úrlausn um hvort og þá með hvaða hætti víkja má frá helmingaskiptareglu við skipti til fjárslita milli hjóna með vísan til 104. gr. hjúskaparlaga, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 3. maí 2016 í máli nr. 195/2016. Eins og atvikum er hér háttað verður ekki talið að fullnægjandi grundvöllur hafi verið lagður að málatilbúnaði sóknaraðila um að víkja eigi frá meginreglu 104. gr. hjúskaparlaga um helmingaskipti og þá með hvaða hætti, þar með talið að teknu tilliti til varakrafna varnaraðila. Að öllu þessu virtu var málið í þessum búningi svo vanreifað að ekki verður lagður dómur á kröfur aðila.

24. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á þá niðurstöðu að ekki hafi verið lagður fullnægjandi grunnur að rekstri málsins er skiptastjóri vísaði ágreiningi aðila til héraðsdóms. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur, þar með talið um málskostnað.

25. Eftir þessum úrslitum og að virtum atvikum máls er rétt að sóknaraðili greiði kærumálskostnað sem ákveðinn verður eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 600.000 krónur í kærumálskostnað.