Hæstiréttur íslands

Mál nr. 1/2024

A (Sveinn Andri Sveinsson lögmaður)
gegn
B skiptastjóra þrotabús C ehf. (sjálfur)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Atvinnurekstrarbann
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Afturvirkni
  • Atvinnufrelsi
  • Málskostnaður

Reifun

Skiptastjóri þrotabús C ehf. krafðist þess að A, sem hafði verið fyrirsvarsmaður og eini eigandi félagsins, yrði gert að sæta atvinnurekstrarbanni. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu hins kærða úrskurðar um að skilyrði atvinnurekstrarbanns væru uppfyllt. Þá komst rétturinn að þeirri niðurstöðu með hliðsjón af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu að löggjöf um atvinnurekstrarbann samkvæmt XXVI. kafla laga nr. 21/1991 fæli ekki í sér refsingu eða refsikennd viðurlög. Þá fjallaði rétturinn um afturvirkni laga nr. 133/2022 með hliðsjón af 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar. Með vísan til þeirra ríku þjóðfélagslegu hagsmuna sem bjuggu að baki lögunum var ekki fallist á með A að óheimilt væri að líta til háttsemi hans fyrir gildistöku laganna við ákvörðun um að leggja á atvinnurekstrarbann. Samkvæmt framangreindu var A gert að sæta atvinnurekstrarbanni í þrjú ár.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. nóvember 2023 en kærumálsgögn bárust réttinum 6. desember sama ár. Kærður er úrskurður Landsréttar 15. nóvember 2023 þar sem staðfestur var úrskurður héraðsdóms 13. október sama ár um að varnaraðili skyldi sæta atvinnurekstrarbanni í þrjú ár frá uppkvaðningu úrskurðar héraðsdóms.

3. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um að hann sæti atvinnurekstrarbanni. Þá krefst hann „hæfilegs kærumálskostnaðar [...] sem greiðist úr ríkissjóði“.

4. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar sem greiðist úr ríkissjóði.

Ágreiningsefni

5. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort lagt skuli atvinnurekstrarbann á sóknaraðila samkvæmt 180. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að kröfu varnaraðila sem er skiptastjóri þrotabús C ehf. Ákvæðið er í XXVI. kafla laganna sem var bætt við þau með lögum nr. 133/2022.

6. Í fyrsta lagi er deilt um hvort skilyrði atvinnurekstrarbanns samkvæmt 181. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt, í annan stað hvort atvinnurekstrarbann samkvæmt XXVI. kafla laganna feli í sér afturvirk refsikennd viðurlög í skilningi 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 en ella í þriðja lagi hvort heimilt sé að leggja atvinnurekstrarbann á sóknaraðila á grundvelli háttsemi hans fyrir gildistöku laga nr. 133/2022.

7. Kæruleyfi var veitt 3. janúar 2024, með ákvörðun réttarins nr. 2023-133, á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um túlkun ákvæða XXVI. kafla laga nr. 21/1991.

Málsatvik og helstu málsástæður aðila

8. Sóknaraðili var eini eigandi C ehf., stjórnarmaður og prókúruhafi félagsins sem var stofnað […] 2021. Tilgangur þess mun hafa verið […]. Félagið mun hafa komið að stórum verkefnum og haft marga í vinnu.

9. Með úrskurði héraðsdóms 2. nóvember 2022 var bú félagsins tekið til gjaldþrotaskipta og sama dag var B lögmaður skipaður skiptastjóri þrotabúsins. Frestdagur við skiptin var 10. ágúst 2022. Með kröfu til Héraðsdóms Reykjavíkur 17. febrúar 2023 fór skiptastjóri þess á leit á grundvelli 180. gr. laga nr. 21/1991 að lagt yrði atvinnurekstrarbann á sóknaraðila.

10. Í kröfu skiptastjóra var vísað til kröfulýsingar frá Skattinum þar sem fram kom að félagið hefði hvorki greitt þing- og sveitarsjóðsgjöld, staðgreiðslu tryggingargjalds, staðgreiðslu launagreiðanda né virðisaukaskatt. Fjárhæð kröfu næmi 274.444.497 krónum. Þá hefði ársreikningi fyrir rekstrarárið 2021 ekki verið skilað fyrir félagið í andstöðu við lög um ársreikninga nr. 3/2006. Jafnframt hefði komið fram við yfirferð bankareikninga félagsins að fyrirsvarsmaður þess hefði millifært af þeim að minnsta kosti 215.557.000 krónur á þeim tíma sem félagið hefði verið starfandi og lagt inn á persónulega bankareikninga sína. Heildarfjárhæð lýstra krafna í þrotabúið væri 308.697.473 krónur og fyrirsjáanlegt að ekkert fengist greitt upp í lýstar kröfur.

11. Skiptastjóri krafðist kyrrsetningar á bankareikningum sóknaraðila og sýslumaður féllst á kröfuna 10. nóvember 2022. Þær fjárhæðir sem millifærðar höfðu verið inn á persónulega reikninga sóknaraðila fundust ekki þar og litlar sem engar innstæður á bankareikningunum.

12. Skiptastjóri óskaði eftir bókhaldsgögnum félagsins í samræmi við 3. mgr. 87. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili hafi ekki afhent bókhaldið og erfiðlega gengið að taka skýrslu af honum sbr. 81. gr. laga nr. 21/1991. Jafnframt hafi sóknaraðili ekki gripið til neinna aðgerða til að varna tjóni.

13. Í kröfu skiptastjóra er jafnframt gerð grein fyrir því að bú margra félaga sem sóknaraðili hafi stýrt eða átt á liðnum árum hafi verið tekin til gjaldþrotaskipta með tilheyrandi tjóni fyrir kröfuhafa. Auk þess hafi sóknaraðili ítrekað verið dæmdur fyrir refsiverða háttsemi í tengslum við rekstur félaga sinna. Til þessa eigi að líta við mat á því hvort orðið verði við kröfu um atvinnurekstrarbann, sbr. 3. mgr. 181. gr. laga nr. 21/1991.

14. Sóknaraðili mótmælir því að þau atriði sem skiptastjóri tilgreini til stuðnings kröfu sinni um atvinnurekstrarbann uppfylli skilyrði 181. gr. laga nr. 21/1991. Við úrlausn um hvort slíkt bann verði lagt á beri einnig að líta til þess að það feli í sér refsikennd viðurlög sem óheimilt sé að beita með afturvirkum hætti samkvæmt 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

15. Sóknaraðili bendir enn fremur á að hin nýju ákvæði í lögum nr. 21/1991 um atvinnurekstrarbann séu til fyllingar 4. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og kveður þessar tvær tegundir atvinnurekstrarbanns algerlega sambærilegar þótt bann samkvæmt lögum nr. 21/1991 sé viðurhlutaminna. Því sé augljóst að atvinnurekstrarbann feli í báðum tilvikum í sér refsikennd viðurlög.

Löggjöf

Lög nr. 133/2022 um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991 (kennitöluflakk)

16. Lög nr. 133/2022 voru samþykkt á Alþingi 16. desember 2022. Í gildistökuákvæði 2. gr. laganna var tekið fram að þau öðluðust þegar gildi. Lögin voru birt í A-deild Stjórnartíðinda 6. janúar 2023 og tóku því gildi 7. sama mánaðar samkvæmt fyrirmælum 8. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

17. Með lögunum var bætt nýjum kafla inn í lög nr. 21/1991, XXVI. kafla, sem ber heitið atvinnurekstrarbann og standa hin nýju ákvæði í 180.–190. gr. laganna.

18. Í 1. mgr. 180. gr. kemur fram að við skipti á hlutafélagi eða einkahlutafélagi skuli skiptastjóri krefjast þess að lagt verði atvinnurekstrarbann á þann sem komið hefur að stjórnun félagsins á síðustu 18 mánuðum fyrir frestdag enda telji hann skilyrði 181. gr. uppfyllt. Í 2. mgr. segir að í atvinnurekstrarbanni felist að þeim sem því sæti sé óheimilt að stjórna félagi sem rekið er með takmarkaðri ábyrgð eigenda og fara með prókúru eða annað umboð slíks félags.

19. Í 181. gr. laganna er kveðið á um skilyrði atvinnurekstrarbanns en þau eru að viðkomandi einstaklingur teljist ekki hæfur til að stýra félagi sem rekið er með takmarkaðri ábyrgð eigenda vegna skaðlegra eða óverjandi viðskiptahátta við stjórnun félags. Jafnframt segir að við mat á því hvort leggja skuli á atvinnurekstrarbann skuli meðal annars litið til hlutverks viðkomandi við stjórnun félags sem og aðstæðna í heild sinni. Skuli meðal annars litið til þess hvaða ráðstafana hann hafi gripið til að varna tjóni. Jafnframt segir í 3. mgr. 181. gr. laganna að við mat á því hvort úrskurða skuli í atvinnurekstrarbann sé heimilt að líta til athafna viðkomandi fyrir það tímabil sem um geti í 1. mgr. 180. gr.

20. Í 182. gr. laganna er mælt fyrir um að atvinnurekstrarbann skuli vara í þrjú ár en við sérstakar aðstæður megi ákveða að það vari skemur. Þá kemur fram í 183. gr. þeirra að héraðsdómari taki ákvörðun um atvinnurekstrarbann eftir ákvæði 180. gr. á grundvelli skriflegrar kröfu skiptastjóra.

21. Í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum nr. 133/2022 var tekið fram að tilgangur lagabreytinganna væri að sporna við misnotkun á hlutafélagaforminu og svokölluðu kennitöluflakki í atvinnurekstri. Frumvarpið væri að þessu leyti nátengt þeim breytingum sem gerðar hefðu verið með lögum nr. 56/2019 um breytingu á almennum hegningarlögum, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um sjálfseignarstofnanir sem stundi atvinnurekstur (misnotkun á félagaformi og hæfisskilyrði). Við undirbúning þeirra laga hefði orðið ljóst að framangreind breyting á 262. gr. almennra hegningarlaga næði ekki að fullu því markmiði að vernda kröfuhafa og samfélagið í heild fyrir hættu á tapi sem væri líklegt að hlytist af misnotkun á hlutafélagaforminu. Töluverðar líkur væru á að flest þau tilvik sem alvarlegust væru og líklegust til að valda samfélaginu tjóni yrðu í tengslum við greiðsluþrot og síðar gjaldþrot félaga. Ekki væri sjálfgefið að öll mál af því tagi kæmu til meðferðar dómstóla í formi sakamáls. Væri því lagt til með frumvarpinu að mögulegt væri að úrskurða þann í atvinnurekstrarbann sem ekki teldist hæfur til þess að stýra hlutafélagi vegna skaðlegra eða óverjandi viðskiptahátta. Þær breytingar væru nauðsynleg viðbót til fyllingar þeim breytingum sem gerðar hefðu verið með fyrrgreindum lögum nr. 56/2019. Í greinargerð með frumvarpinu sagði enn fremur að sambærileg úrræði væri að finna í löggjöf annars staðar á Norðurlöndum. Þá hafi við samningu ákvæðisins, sem yrði 1. mgr. 181. gr. laga nr. 21/1991 um skilyrði atvinnurekstrarbanns, verið litið til sambærilegs ákvæðis 1. mgr. 157. gr. dönsku gjaldþrotaskiptalaganna.

22. Í greinargerð með frumvarpinu sagði jafnframt að mikilvægt væri að horfa til þess grundvallaratriðis að tilgangur atvinnurekstrarbanns væri ekki refsing heldur að vernda almenning og samfélagið í heild fyrir misnotkun á hlutafélagaforminu. Ákvæði frumvarpsins væru samin með undirliggjandi almannahagsmuni að leiðarljósi. Að því sögðu væri ljóst að atvinnurekstrarbann væri íþyngjandi úrræði og því mikilvægt að því yrði ekki beitt nema ástæða væri til.

23. Í sérstökum kafla frumvarpsins um samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar var fjallað um takmarkanir sem atvinnurekstrarbann setti atvinnufrelsi manna samkvæmt 1. mgr. 75 gr. stjórnarskrárinnar um að öllum sé frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Bent var á að ákvæðið heimili að þessu frelsi megi setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Vísað var til þess að frumvarpið byggðist á að mikilvægir almanna- og samfélagslegir hagsmunir væru af því að takmarka eða svipta einstakling heimild til að koma að atvinnurekstri hefði viðkomandi sýnt með háttsemi sinni að hann teldist ekki hæfur til að stýra hlutafélagi. Aftur á móti skipti máli að ekki væri gengið lengra í þeim efnum en nauðsyn bæri til svo að náð yrði því markmiði sem að væri stefnt. Að þessu hefði verið gætt við undirbúning og samningu frumvarpsins.

24. Í þessu sambandi var sérstaklega bent á að atvinnurekstrarbann yrði tímabundið og myndi vara í tiltölulega stuttan tíma. Þá yrði einstaklingum ekki óheimilt að stofna eða eiga hlut í félagi með takmarkaðri ábyrgð meðan á atvinnurekstrarbanni stæði svo fremi sem þeir kæmu ekki að stjórnun þess. Auk þess gæti einstaklingur sem sætti atvinnurekstrarbanni eftir sem áður rekið félag með persónulegri og ótakmarkaðri ábyrgð.

25. Í skýringum frumvarpsins á ákvæði því sem varð 181. gr. laga nr. 21/1991 um skilyrði atvinnurekstrarbanns sagði að heildarmat yrði að fara fram á öllum aðstæðum og dæmi tekin um háttsemi sem líta bæri til. Þar á meðal það dæmi að fyrirtæki hefði verið í viðvarandi vanskilum frá upphafi rekstrar eða vanrækt hefði verið að gefa félag upp til gjaldþrotaskipta, sbr. 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991, eða einstaklingur sem atvinnurekstrarbann beindist að hefði ítrekað komið að stjórnun félaga sem tekin hefðu verið til gjaldþrotaskipta. Máli skipti staða og hlutverk viðkomandi við stjórnun félags en líta yrði svo á að því meiri ábyrgð sem viðkomandi bæri við stjórnun félags þeim mun meiri ástæða kynni að vera til að fallast á kröfu um atvinnurekstrarbann.

Lög nr. 56/2019 um breytingu á almennum hegningarlögum, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur (misnotkun á félagaformi og hæfisskilyrði)

26. Vegna samanburðar sóknaraðila á ákvæðum laga nr. 21/1991 um atvinnurekstrarbann og ákvæði 4. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga skal bent á að síðarnefnda ákvæðið kom sem fyrr segir inn í íslenskan rétt með b-lið 1. gr. laga nr. 56/2019 um breytingu á almennum hegningarlögum, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur (misnotkun á félagaformi og hæfisskilyrði). Ákvæðið hljóðar svo:

Nú er maður dæmdur sekur um brot gegn ákvæði þessu og má þá í dómi í sakamáli á hendur honum jafnframt banna honum að stofna félag með takmarkaðri ábyrgð félagsmanna, sitja í stjórn, starfa sem framkvæmdastjóri eða koma með öðrum hætti að stjórnun eða fara með meiri hluta atkvæðisréttar í slíku félagi í allt að þrjú ár.

27. Saknæmisskilyrði samkvæmt 262. gr. almennra hegningarlaga eru ásetningur eða stórfellt gáleysi og áskilið að brotin séu meiri háttar á grundvelli þeirra ákvæða laga sem tilgreind eru í 1. og 2. mgr. 262. gr., þar á meðal laga um tekjuskatt, tekjustofna sveitarfélaga, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingargjald, virðisaukaskatt, bókhald og ársreikninga. Refsing sem lögð er við brotunum er fangelsi allt að sex árum en auk þess er heimilt samkvæmt 1. mgr. greinarinnar að dæma fésekt samkvæmt þeim ákvæðum laga sem þar greinir.

28. Í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 56/2019, í kafla sem ber heitið „Frekari lagabreytingar“, er áréttað að ákvæðið muni eingöngu ná til þeirra tilvika þegar maður er dæmdur sekur um brot gegn ákvæðum 262. gr. almennra hegningarlaga. Af því leiði að breytingin nái ekki að fullu því markmiði að vernda kröfuhafa og samfélagið í heild fyrir hættu á tapi sem hljótist af misnotkun á hlutafélagaforminu. Þá segir einnig að töluverðar líkur séu á að flest þau tilvik sem alvarlegust eru, og líklegust til að valda samfélagslegu tjóni verði í tengslum við greiðsluþrot og síðar gjaldþrot félaga. Þannig sé „nauðsynleg viðbót til fyllingar þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpi þessu breytingar á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991“. Í athugasemdunum segir að vinna við þær lagabreytingar sé þegar hafin og er þá verið að vísa til frumvarps þess sem síðar varð að lögum nr. 133/2022.

Niðurstaða

Um skilyrði atvinnurekstrarbanns

29. Skilyrði þess að atvinnurekstrarbann verði lagt á er að sá sem það beinist að teljist ekki hæfur til að stýra félagi sem rekið er með takmarkaðri ábyrgð eigenda vegna skaðlegra eða óverjandi viðskiptahátta við stjórnun félags, sbr. 1. mgr. 181. gr. laga nr. 21/1991. Svo sem fram kemur í lögskýringargögnum og fyrr var lýst verður, þegar tekin er afstaða til þess hvort skilyrðinu sé fullnægt í tilviki sóknaraðila, að fara fram heildarmat á aðstæðum hans.

30. Samkvæmt gögnum málsins nemur heildarfjárhæð lýstra krafna í þrotabú C ehf. 308.697.473 krónum. Kröfuhafar eru tveir lífeyrissjóðir og Skatturinn. Af gögnum málsins má ráða að sóknaraðili hafi reynt að ná samningum við Skattinn um greiðsludreifingu og áætlun. Ekkert liggur hins vegar fyrir um að hann hafi reynt að efna slíkt samkomulag. Þá er til þess að líta að á þeim tíma sem félagið var starfandi mun sóknaraðili hafa millifært umtalsverða fjármuni á eigin reikninga. Samkvæmt skattframtölum var hann með um fimm milljónir króna á mánuði í laun frá félaginu.

31. Við skýrslugjöf hjá skiptastjóra kvað sóknaraðili ekkert bókhald hafa verið fært í félaginu. Í skýrslu fyrir héraðsdómi bar hann þó á þann veg að hafa haldið bókhald eftir bestu getu. D hjá E staðfesti með tölvupósti til málsvara sóknaraðila að hafa fært „að nokkru leyti“ bókhald fyrir félagið en með síðari tölvupósti til varnaraðila upplýsti hann hins vegar að sóknaraðili hefði „bara“ afhent „2 litlar möppur“ en aldrei „neitt bókhald“.

32. Samkvæmt skýrslu skiptastjóra neitaði sóknaraðili að gefa skýringar á úttektum í hraðbanka og millifærslum á persónulegan reikning sinn sem námu, sem fyrr segir, rúmlega 215 milljónum króna. Fyrir héraðsdómi bar sóknaraðili að umræddar úttektir og millifærslur hefðu verið laun til sín í samræmi við skattframtal og greiðslur til birgja og verktaka.

33. Fyrir liggur að innstæður þriggja bankareikninga sóknaraðila voru, að kröfu varnaraðila, kyrrsettar af sýslumanni 10. nóvember 2022. Kyrrsetningarbeiðnin varðaði fyrrgreindar millifærslur þar sem varnaraðili taldi fjármunina hafa endað á umræddum reikningum. Varnaraðili höfðaði ekki mál til staðfestingar kyrrsetningunni og ber því við að sóknaraðili hefði þá þegar millifært fjármunina út af reikningunum.

34. Af framangreindu er ljóst að ekki voru af hálfu C ehf. staðin skil á ýmsum lögbundnum gjöldum, þar með talið þing- og sveitarsjóðsgjöldum, staðgreiðslu tryggingargjalds, staðgreiðslu launagreiðanda á opinberum gjöldum og virðisaukaskatti, auk iðgjalda til lífeyrissjóða. Bókhaldsgögn félagsins voru ekki varðveitt með fullnægjandi hætti og bókhald ekki fært á tilskilinn hátt. Þá verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að sóknaraðili hafi í reynd séð til þess að umtalsverðir fjármunir félagsins rynnu til hans sjálfs í formi hárra launa og óútskýrðra greiðslna.

35. Við heildarmat á aðstæðum sem tengjast sóknaraðila ber einnig að líta til þess að bú að minnsta kosti átta félaga sem hann hefur stýrt eða átt á undanförnum árum hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta og sóknaraðili ítrekað verið dæmdur fyrir refsiverða háttsemi í tengslum við rekstur félaga sinna.

36. Samkvæmt öllu framangreindu og með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar þar sem að sínu leyti var vísað til forsendna úrskurðar héraðsdóms er staðfest sú niðurstaða að skilyrði 181. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt til að leggja megi atvinnurekstrarbann á sóknaraðila.

Um þýðingu banns við afturvirkni refsilaga

37. Kemur þá næst til skoðunar hvort ákvæði XXVI. kafla laga nr. 21/1991 feli í sér refsikennd viðurlög sem í tilviki sóknaraðila hafi verið beitt með afturvirkum hætti í andstöðu við 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar.

38. Af hálfu sóknaraðila hefur verið á því byggt að fyrirmæli í XXVI. kafla laga nr. 21/1991 um atvinnurekstrarbann feli í sér viðurlög við refsiverðri háttsemi í skilningi 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem skipti máli þegar metið sé hvort beiting þeirra gagnvart honum standist 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar um bann við afturvirkni refsilaga, sbr. einnig 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í því samhengi bendir hann á að sú háttsemi sem krafa um atvinnurekstrarbann er byggð á hafi átt sér stað áður en lög nr. 133/2022 um breytingu á lögum nr. 21/1991 hafi tekið gildi.

39. Um skýringu þess hvort um refsikennd viðurlög eða stjórnsýsluviðurlög sé að ræða vísar sóknaraðili til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu sem hafi sett fram ákveðin viðmið þar um við skýringu á 1. mgr. 6. gr. og 4. gr. 7. viðauka við sáttmálann.

40. Mannréttindadómstóllinn hefur í allmörgum dómum sínum skýrt hvað felst í orðunum að vera borinn sök um refsivert brot sem fram kemur í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Hefur niðurstaða um það bein áhrif á hvort vernd 7. gr. sáttmálans um bann við afturvirkni refsilaga verður virk. Þá eru einnig tengsl á milli fyrrgreindra orða 1. mgr. 6. gr. og 4. gr. 7. viðauka við sáttmálann sem mælir meðal annars fyrir um að enginn skuli tvívegis sæta refsingu fyrir sama brot en til þess ákvæðis hefur sóknaraðili vísað. Það ákvæði 7. viðauka kemur hins vegar ekki sem slíkt til álita við efnislega úrlausn málsins, enda er því ekki borið við af hálfu sóknaraðila að brotið hafi verið gegn réttindum hans samkvæmt því.

41. Í dómi mannréttindadómstóls Evrópu 8. júní 1976, Engel o.fl. gegn Hollandi, í máli nr. 5100/71 komu fram leiðbeiningar um hvernig beri að skýra framangreind orð 1. mgr. 6. gr. og hefur sóknaraðili vísað til þeirra sem Engel-viðmiða. Hafa þau þróast frekar síðan við úrlausn fjölbreyttra álitaefna sem mannréttindadómstóllinn hefur leyst úr um hvenær háttsemi telst fela í sér refsivert brot eða hvort viðurlög teljist refsing eða refsikennd viðurlög. Meðal nýjustu úrlausna dómstólsins þar sem þessi sjónarmið eru ítarlega reifuð er dómur yfirdeildar 22. desember 2020, Gestur Jónsson og Ragnar Halldór Hall gegn Íslandi, í málum nr. 68273/14 og 68271/14.

42. Með fyrrgreindum Engel-viðmiðum hefur mannréttindadómstóllinn í meginatriðum lagt þrjú atriði til grundvallar skýringu 1. mgr. 6. gr. sáttmálans að þessu leyti. Í fyrsta lagi er litið til þess hvort umrædd háttsemi er skilgreind sem refsiverð samkvæmt landslögum eða hvort um ræðir til dæmis viðurlög innan stjórnsýslunnar. Það eitt ræður þó ekki úrslitum, enda gæti víðtækt svigrúm aðildarríkja í því tilliti leitt til niðurstaðna sem samrýmast ekki tilgangi og markmiði sáttmálans. Í öðru lagi, og það sem getur vegið þyngra, er eðli brotsins metið með hliðsjón af gildissviði þeirra reglna sem brotið er gegn. Hvort þær binda til dæmis aðeins afmarkaðan hóp manna, svo sem gæti átt við um agabrot ákveðinna starfsstétta, eða hafa almennt gildi með svipuðum áhrifum og refsireglur. Loks er í þriðja lagi litið til þess, sem úrslitum getur ráðið, hvert er eðli, markmið og umfang þeirra viðurlaga sem liggja við brotinu.

43. Verða atvik málsins og ákvæði XXVI. kafla laga nr. 21/1991 um atvinnurekstrarbann, eins og þeim var breytt með lögum nr. 133/2022, nú metin á grundvelli framangreindra viðmiða en þau skarast þó óhjákvæmilega að nokkru leyti.

44. Í fyrsta lagi ber að líta til þeirra ummæla í fyrrgreindum lögskýringargögnum með lögum nr. 133/2022 að tilgangur atvinnurekstrarbanns sé ekki refsing heldur að vernda almenning og samfélagið í heild fyrir misnotkun á hlutafélagaforminu. Jafnframt ber að horfa til þess að ákvæðum um atvinnurekstrarbann sem um er deilt í máli þessu er skipað í löggjöf um gjaldþrotaskipti en ekki í almenn hegningarlög eða sérrefsilög. Sem fyrr segir setur skiptastjóri þrotabús fram kröfu um atvinnurekstrarbann og kemur í hlut dómstóls að meta hvort skilyrði eru fyrir því að fallast á kröfuna. Enginn áskilnaður er um aðkomu ákæruvalds öndvert við atvinnurekstrarbann sem einungis er unnt að leggja á samhliða sakfellingu vegna meiri háttar brots gegn 262. gr. almennra hegningarlaga.

45. Í öðru lagi verður litið til eðlis þeirrar háttsemi sem atvinnurekstrarbann beinist að og hvort reglur um slíkt bann varði almenning eða takmarkaðan hóp manna. Ákvæðum XXVI. kafla laga nr. 21/1991 er einvörðungu beint að þeim hópi einstaklinga sem komið hefur að rekstri félaga með takmarkaða ábyrgð eigenda og þurfa tilgreind skilyrði 181. gr. laganna að vera uppfyllt til að það verði lagt á. Það nær því ekki til allra manna. Lagafyrirmæli sem lúta að viðurlögum við háttsemi alls almennings eru líklegri til þess að teljast refsiverð háttsemi í skilningi 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu heldur en viðurlög gegn sérstökum stéttum eða hópum manna. Í því sambandi má sérstaklega vísa til fyrrgreinds dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í málum Gests Jónssonar og Ragnars Halldórs Hall gegn Íslandi, þar sem álitaefnið laut að álagningu réttarfarssekta á lögmenn.

46. Í þriðja og síðasta lagi ber að líta til eðlis, markmiðs og umfangs atvinnurekstrarbanns gagnvart sóknaraðila og hversu alvarlegar afleiðingar þess eru fyrir hann. Um eðli þess og markmið ber að árétta ummæli í lögskýringargögnum um að tilgangur bannsins sé ekki að refsa viðkomandi heldur vernda almenning og samfélagið í heild fyrir misnotkun á hlutafélagaforminu. Er þar horft til framtíðar en jafnframt lagt til grundvallar að maður teljist ekki hæfur vegna fyrri háttsemi sinnar til að stjórna félagi með þeim sérstöku réttaráhrifum sem felast í takmarkaðri ábyrgð eigenda samkvæmt hlutafélagalöggjöfinni.

47. Samkvæmt ákvæðum XXVI. kafla laga nr. 21/1991 er banninu einvörðungu ætlað að vera tímabundið og vara mest í þrjú ár. Því er ætlað með skjótvirkum hætti að vernda kröfuhafa og samfélagið í heild fyrir hættu á tapi sem getur hlotist vegna reksturs félags með takmarkaðri ábyrgð. Þá er þeim einstaklingum sem sæta atvinnurekstrarbanni ekki óheimilt að stofna eða eiga hlut í slíku félagi meðan á banninu stendur, svo fremi þeir komi ekki að stjórnun þess. Jafnframt getur einstaklingur sem sætir banni eftir sem áður rekið félag með persónulegri og ótakmarkaðri ábyrgð.

48. Þegar litið er til framangreindra viðmiða, hvers og eins þeirra um sig, og jafnframt lagt heildarmat á þau í ljósi atvika málsins felur atvinnurekstrarbann það sem sóknaraðila var gert að sæta með hinum kærða úrskurði hvorki í sér refsingu né refsikennd viðurlög. Er sú niðurstaða einnig í samræmi við ákvarðanir Mannréttindadómstóls Evrópu 1. febrúar 2007 í málum Storbråten gegn Noregi nr. 12277/04 og Mjelde gegn Noregi nr. 11143/04. Þar komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að atvinnurekstrarbann samkvæmt norskum lögum um gjaldþrotaskipti fæli ekki í sér refsikennd viðurlög á grundvelli sömu sjónarmiða og hér hafa verið rakin.

49. Samkvæmt öllu framangreindu felur löggjöf um atvinnurekstrarbann samkvæmt ákvæðum XXVI. kafla laga nr. 21/1991 ekki í sér refsingu eða refsikennd viðurlög. Af því leiðir að ekki þarf að leysa úr þeirri málsástæðu sóknaraðila að um afturvirka refsingu sé að ræða í andstöðu við 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um bann við afturvirkni refsilaga.

Um afturvirkni laga nr. 133/2022 með hliðsjón af atvinnufrelsi sóknaraðila

50. Þessu næst kemur til skoðunar sú málsástæða sóknaraðila að óheimilt sé að byggja ákvörðun um atvinnurekstrarbann samkvæmt ákvæðum laga nr. 133/2022 á háttsemi sem átti sér stað fyrir gildistöku laganna.

51. Sem fyrr greinir var bú C ehf. tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 2. nóvember 2022. Frestdagur við skiptin var 10. ágúst sama ár. Lög nr. 133/2022 tóku gildi 7. janúar 2023 en ekki var að finna sérstakt ákvæði um lagaskil í þeim. Með kröfu 17. febrúar 2023 fór skiptastjóri þess á leit á grundvelli 180. gr. laga nr. 21/1991 að lagt yrði atvinnurekstrarbann á sóknaraðila. Viðkomandi ákvæði höfðu ekki tekið gildi þegar bú C ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta en höfðu hins vegar gert það þegar skiptastjóri lagði fram kröfu um atvinnurekstrarbann. Lögin ná samkvæmt efni sínu til ástands sem var fyrir hendi fyrir gildistöku þeirra, sbr. 1. mgr. 180. gr. og 3. mgr. 181. gr. laga nr. 21/1991.

52. Sú meginregla gildir að almennt skuli lög ekki vera afturvirk. Sú regla er þó ekki fortakslaus. Í þeim tilvikum þegar lög geyma nýmæli og reglur, þar sem engra slíkra naut við samkvæmt eldri löggjöf, skal hinum nýju lögum beitt um öll lögskipti og réttindi manna sem undir hin nýju ákvæði falla þótt upphaf þeirra megi rekja til gildistíma eldri laga. Þessi regla á sér stoð í því að löggjafinn hafi svigrúm til þess að skipa málum og koma á umbótum sem æskilegar eru taldar. Ekki megi reisa löggjafanum of þröngar skorður við því að breyta lögum eftir þörfum hverju sinni þótt það kunni að valda óvissu um stöðu þeirra sem gert hafa áætlanir og ráðstafanir á grundvelli eldri laga.

53. Eins og fram kemur í lögskýringargögnum með lögum nr. 133/2022 felast í atvinnurekstrarbanni ákveðnar skorður við atvinnufrelsi manna sem verndar nýtur samkvæmt 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar. Svo sem fram kemur í ákvæðinu geta almannahagsmunir krafist þess að slíkar skorður séu settar með lögum og hefur löggjafinn svigrúm til að skipa atvinnumálum eftir því hvernig aðstæður og þjóðfélagshættir eru á hverjum tíma. Þannig eru margvíslegar skorður settar möguleikum manna á að velja sér tiltekna atvinnu eða atvinnugrein og skilyrði er að finna í lögum um hæfi manna til að stunda atvinnu eða fá opinbera skráningu á tiltekinni starfsemi.

54. Við mat á því hvort unnt sé að beita hinni nýju löggjöf um háttsemi sem átti sér stað fyrir gildistöku laganna ber auk þess að líta til þess að ákvæði XXVI. kafla laga nr. 21/1991 eru ekki verulega íþyngjandi. Áhrif þeirra felast í því að missa í skamman tíma hæfi til að koma að stjórnun félags með takmarkaðri ábyrgð. Löggjafinn hefur talið að almannahagsmunir krefjist þess að fyrir það verði girt að þeir sem hafi valdið kröfuhöfum og samfélaginu öllu tjóni með skaðlegum og óverjandi viðskiptaháttum haldi áfram þeirri háttsemi. Í því sambandi ber að árétta það sem áður er fram komið um heimildir þeirra til að koma að atvinnurekstri með ýmsu öðru móti.

55. Við setningu laganna hefur samkvæmt þessu verið gætt að meðalhófi en jafnframt horft til þess að knýjandi nauðsyn beri til að sett sé löggjöf á þessu sviði sem á skjótvirkan hátt geti komið í veg fyrir tjón vegna skaðlegra viðskiptahátta. Ríkir þjóðfélagslegir hagsmunir búa að baki löggjöfinni og vernd þeirra hagsmuna verður ekki ljáð fullt inntak nema með löggjöf á þessu sviði sem einnig nær til háttsemi sem átti sér stað áður en lög nr. 133/2022 tóku gildi.

56. Samkvæmt öllu framangreindu verður ekki fallist á að óheimilt hafi verið að líta til háttsemi sóknaraðila fyrir gildistöku laga nr. 133/2022 við ákvörðun um að leggja á hann atvinnurekstrarbann í þrjú ár samkvæmt 181. gr. laga nr. 21/1991. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar að því leyti staðfest.

57. Í úrskurði Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um atvinnurekstrarbann sóknaraðila í þrjú ár frá uppkvaðningu úrskurðar héraðsdóms. Varðandi upphafstíma bannsins er til þess að líta að samkvæmt 187. gr. laga nr. 21/1991 frestar kæra til Landsréttar réttaráhrifum atvinnurekstrarbanns og hið sama á við ef Hæstiréttur fellst á kæruleyfi. Samkvæmt því og þar sem í 1. mgr. 182. gr. segir að atvinnurekstrarbann skuli vara í þrjú ár verður sóknaraðila gert að sæta slíku banni í þrjú ár frá uppsögu dóms þessa, sbr. 187. gr. laga nr. 21/1991.

Um þóknun og málskostnað

58. Samkvæmt 2. og 3. mgr. 188. gr. laga nr. 21/1991 ber að ákvarða skiptastjóra þóknun vegna kröfu um atvinnurekstrarbann sem greiðist úr ríkissjóði. Verða ákvæði hins kærða úrskurðar um þóknun skiptastjóra vegna meðferðar kröfunnar fyrir héraðsdómi og Landsrétti staðfest. Kröfu skiptastjóra um kærumálskostnað fyrir Hæstarétti ber að skýra með þeim hætti að hún taki til þóknunar hans vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti. Hún er ákvörðuð 500.000 krónur sem greiðist úr ríkissjóði.

59. Á hinn bóginn verður sóknaraðila, enda þótt hann hafi tapað málinu, ekki gert að greiða í ríkissjóð þóknun skiptastjóra á grundvelli seinni málsliðar 2. mgr. 186. gr. laga nr. 21/1991, þar sem sá málsliður verður skýrður svo að hann nái einungis til þóknunar málsvara.

60. Samkvæmt greinargerð til Landsréttar krafðist sóknaraðili einungis „kærumálskostnaðar fyrir Landsrétti“ sem „greiðist úr ríkissjóði“ en gerði ekki kröfu um að ákvæði héraðsdóms um þóknun sína yrði staðfest eða endurskoðað. Engu að síður staðfesti Landsréttur hinn kærða úrskurð héraðsdóms, þar á meðal ákvæði hans um þóknun skipaðs málsvara sóknaraðila sem greiddist úr ríkissjóði. Með þessu fór Landsréttur út fyrir kröfur sóknaraðila í andstöðu við 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 183. gr. laga nr. 21/1991 og 2. mgr. 178. gr. sömu laga.

61. Sóknaraðili krafðist þess í kæru sinni til réttarins 29. nóvember 2023 sem og í greinargerð sinni 6. desember sama ár að hnekkt yrði hinum kærða úrskurði Landsréttar þar sem úrskurður héraðsdóms var staðfestur. Þá krafðist sóknaraðili í kæru sinni „hæfilegs kærumálskostnaðar að mati réttarins til handa sóknaraðila, sem greiðist úr ríkissjóði“. Í greinargerð sinni til réttarins krafðist hann „hæfilegs kærumálskostnaðar til handa sóknaraðila að mati Hæstaréttar sem greiðist úr ríkissjóði“.

62. Samkvæmt framangreindu krafðist sóknaraðili hvorki staðfestingar né endurskoðunar ákvæða úrskurða um þóknun málsvara á lægri dómstigum og að hún greiddist úr ríkissjóði. Ber að líta svo á að sóknaraðili hafi ekki lengur uppi kröfu um ákvörðun þóknunar til handa málsvara sóknaraðila í héraði og Landsrétti og að hún greiðist úr ríkissjóði. Eins og kröfugerð sóknaraðila er háttað fyrir Hæstarétti kemur fyrrgreindur ágalli á dómi Landsréttar því ekki í veg fyrir að efnisdómur verði lagður á málið að öðru leyti fyrir Hæstarétti, sbr. til hliðsjónar dóm réttarins 9. febrúar 2022 í máli nr. 32/2021.

63. Þóknun málsvara sóknaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 186. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili greiði þá fjárhæð í ríkissjóð, sbr. seinni málslið 2. mgr. 186. gr.

Dómsorð:

Sóknaraðili, A, sæti atvinnurekstrarbanni í þrjú ár frá uppsögu dóms þessa.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um þóknun varnaraðila, B, skiptastjóra þrotabús C ehf., fyrir héraðsdómi og Landsrétti eru staðfest. Þóknun hans vegna meðferðar kröfu um atvinnurekstrarbann fyrir Hæstarétti, 500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Þóknun skipaðs málsvara sóknaraðila fyrir Hæstarétti, 500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Sóknaraðili greiði í ríkissjóð 500.000 krónur.